Hæstiréttur íslands

Mál nr. 853/2015


Lykilorð

  • Kærumál
  • Farbann


                                     

Miðvikudaginn  23. desember 2015.

Nr. 853/2015.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(Hrafnhildur Gunnarsdóttir

aðstoðarsaksóknari)

gegn

X

(Hólmgeir Elías Flosason hdl.)

Kærumál. Farbann.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem X var gert að sæta farbanni á grundvelli 1. mgr. 100. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, sbr. 2. mgr. 95. gr. sömu laga.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 22. desember 2015, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 22. desember 2015 þar sem varnaraðila var gert að sæta farbanni allt til þriðjudagsins 19. janúar 2016 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

 Með dómi Hæstaréttar 27. nóvember 2015 í máli nr. 790/2015 var því slegið föstu að fullnægt væri skilyrðum 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um gæsluvarðhald yfir varnaraðila. Eru því fyrir hendi skilyrði til að honum verði gert að sæta farbanni, sbr. 1. mgr. 100. gr. laganna. Hinn kærði úrskurður verður því staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness þriðjudaginn 22. desember 2015.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess fyrir dóminum í dag að X, kt. [...], verði með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness gert að sæta farbanni, allt til þriðjudagsins 19. janúar 2016, kl. 16:00.

                Í greinargerð með kröfunni segir að lögreglan hafi til rannsóknar stórfellt fíkniefnalagabrot er varði innflutning á sterkum fíkniefnum hingað til lands.

                Þann 28. september sl. hafi lögreglan lagt hald á rúmlega 19,5 kg af amfetamíni og rúmlega 2,5 kg af kókaíni sem hafi fundist í bifreið sem staðsett var við gistiheimili að [...] í [...] á [...]. Tveir erlendir aðilar hafi verið handteknir inni í húsnæðinu grunaðir um aðild að innflutningi fíkniefnanna hingað til lands en annar þeirra hafi komið með bifreiðina til landsins með ferjunni Norrænu þann 22. september s.l. Lögreglan hafi verið með eftirlit með bifreiðinni sem innihélt fíkniefnin í nokkra daga. Við það eftirlit hafi lögreglan ítrekað orðið vör við aðra bifreið sem virtist fylgja hinni eftir. Við frekari skoðun lögreglu hafi komið í ljós að um var að ræða bílaleigubifreiðar sem kærði X hafi verið skráður leigutaki að. Kærði hafi verið handtekinn skammt frá gistiheimilinu á bifreiðinni [...] og hafi lögreglan fundið sjónauka, lambhúshettu og rúmlega 15.600 evrur sem svari til rúmlega 2,2 milljónir íslenskra króna í bifreiðinni. Lögregla telji að kærði hafi þar verið að fylgjast með meðkærðu og bifreiðinni. Við rannsókn lögreglu hafi einnig komið í ljós að kærði hafi verið staðsettur á Seyðisfirði sama dag og Norræna kom til landsins þann 22. september.

                Kærði hafi neitað sök við skýrslutöku hjá lögreglu. Framburði kærða beri ekki saman við þau gögn sem lögreglan hafi undir höndum, framburð meðkærða og vitna. Kærði hafi að öðru leyti lítið kosið að tjá sig hjá lögreglu eða kveðst ekki muna eftir atvikum máls. Í framburðum meðkærðu hjá lögreglu hafi komið fram að erlendir aðilar hafi tekið þátt í skipulagningu innflutningsins og hafi þeir verið í samskiptum eða í samstarfi við aðila hér á landi sem hafi fylgst með ferðum bifreiðarinnar. Það sé ætlun lögreglu að kærði X og meðkærði Y hafi verið samstarfsmenn þessara aðila hér á landi. Vísað sé í gögn málsins varðandi nánari framburð kærða, meðkærða og þau gögn sem liggi fyrir hjá lögreglu.

                Með heimild Héraðsdóms Reykjaness hafi lögreglan skoðað síma og fjármálagögn kærða. Við þá skoðun hafi margt komið fram sem styrki grun lögreglu. Ljóst sé að kærði hafi nokkuð fjármagn í höndunum og virðist vera sem mikið fjármagn sé að fara á milli kærða og meðkærða Y hér á landi og erlendis. Meðkærði Y segi þó mjög lítil fjárhagsleg tengsl vera á milli þeirra og kærði neiti að tjá sig um það. Við skoðun á fjármálagögnum kærða og meðkærða Y hafi komið í ljós að á tímabilinu frá 22. júlí til 10. september hafi verið lagðar rúmlega 9 milljónir inn á 30 Ikort, en 25 þeirra hafi fundist á heimili Y. Þá megi sjá að rúmlega 8 milljónir hafi verið teknar út af þessum kortum í hraðbönkum í Evrópu á tímabilinu frá 22. júlí til 17. september. Lögreglan telji að þessir peningar hafi verið notaðir til að fjármagna fíkniefnainnflutninginn. Kærði hafi neitað að tjá sig um það í hvaða tilgangi hann hafi lagt inn þessa peninga og hver eða hverjir hafi tekið út þessar fjárhæðir og í hvaða tilgangi. Þá hafi lögreglan undir höndum gögn sem sýni það að kærði hafi á þessu tímabili tekið nokkrar bifreiðar til leigu. Bifreiðunum hafi verið ekið yfir 2000 km á meðan kærði hafi haft umráð yfir þeim og hafi komið í ljós að þrisvar sinnum á þessu sama tímabili hafi kærði verið staðsettur á Seyðisfirði. Í framburðum meðkærðu hafi komið fram að erlendir aðilar hafi tekið þátt í skipulagningu innflutningsins og voru þeir í samskiptum eða í samstarfi við aðila hér á landi sem fylgdust með ferðum bifreiðarinnar. Við leit á heimili og í bifreið meðkærða Y hafi fundist kassar utan af Blackberry símum. Einn kassinn hafi verið utan af síma sem kærði var með við handtöku og telji lögreglan að sá sími hafi verið notaður í samskiptum við erlenda samverkamenn. Við rannsókn lögreglu á þessum síma hafi komið í ljós að símtækið var eingöngu hægt að nota í þeim tilgangi að eiga dulkóðuð texta samskipti, en kærði neiti að tjá sig um það. Sjá nánar í gögnum málsins. Þá hafi komið í ljós að meðkærði Y hafi ítrekað keypt flugferðir fyrir X á þessu ári, en aðspurðir hafi þeir neitað að tjá sig um það hjá lögreglu.

                Kærði þykir vera undir sterkum grun um aðild að broti sem geti varðað allt að 12 ára fangelsi. Að mati lögreglu þyki meint aðild kærða mikil en hún sé talin tengjast skipulagningu og flutningi fíkniefnanna hingað til lands. Þá sé um mjög mikið magn hættulegra fíkniefna að ræða. Hið ætlaða brot kærða þyki mjög alvarlegt og þess eðlis að rétt hafi verið talið að tryggja að kærði gangi ekki laus á meðan mál hans sé til meðferðar. Telja verði að ef sakborningur, sem orðið hefur uppvís að jafn alvarlegu broti og kærði sé látinn laus áður en máli lýkur með dómi þá valdi það hneykslun í samfélaginu og særi réttarvitund almennings. Metur lögregla það svo að skilyrðum 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála sé fullnægt í því máli sem hér um ræði en staða kærða þykir sambærileg stöðu sakborninga í öðrum svipuðum málum sbr. mál Hæstaréttar nr. 736/2015, 152/2013, 149/2013, 269/2010, 164/2010 og 91/2010, þar sem sakborningum hafi verið gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli almannahagsmuna þegar legið hefur fyrir sterkur grunur um beina aðild að innflutningi að miklu magni fíkniefna í ágóðaskyni.

                Kærði hafi sætt gæsluvarðhaldi í þágu rannsóknar málsins frá 29. september, nú síðast með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness nr. R-[...]/2015. Þar sem kærði hafi sætt gæsluvarðhaldi í 12 vikur án þess að mál hafi verið höfðað á hendur honum telji lögregla, í samræmi við 4. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008, að ekki sé heimilt að úrskurða hann áfram í gæsluvarðhald á grundvelli almannahagsmuna. Sé því farið fram á að kærði verði úrskurðaður í farbann á grundvelli 100. gr. laga nr. 88/2008.  Sé á því byggt að skilyrði 2. mgr. 95. gr. séu uppfyllt eins og áður er rakið. Jafnframt telji lögreglan að  fyrir hendi séu skilyrði til að úrskurða kærða í farbann á grundvelli b. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Kærði sé íslenskur ríkisborgari en sé búsettur á [...]. Á hann von á barni með [...] unnustu sinni sem einnig sé búsett erlendis. Sæti hann ekki farbanni megi ætla að hann reyni að komast úr landi til að komast undan málsókn eða fullnustu refsingar. Að mati lögreglu sé brýnt að tryggja nærveru kærða á meðan mál hans sé til meðferðar fyrir yfirvöldum hér á landi og því nauðsynlegt að honum verði gert að sæta farbanni þar til mál hans er til lykta leitt.

                Rannsókn lögreglu sé vel á veg komin. Hún sé að hluta til unnin í samstarfi við erlend yfirvöld og beinist meðal annars að því að hafa uppi á samverkamönnum kærðu í [...], en einnig hafi verið óskað eftir aðstoð annarra erlendra lögregluyfirvalda. Óskað hafi verið eftir húsleitum og skýrslutökum og vinni lögregla nú að þeim aðgerðum í samstarfi við erlend yfirvöld.

                Til rannsóknar sé ætlað brot gegn 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940 ásamt síðari breytingum, sem geti varðað allt að 12 ára fangelsi. Um heimild til að úrskurða kærða í  farbann sé vísað til b. liðar 1. mgr. 95. gr. og 2. mgr. 95. gr. sbr. 100 gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008. Með vísan til alls framangreinds og framlagðra gagna málsins sé þess beiðst að krafa lögreglustjóra um farbann nái fram að ganga.

                Kærði mótmælti kröfuna.

Með vísan til þess sem að framan er rakið telur dómari útilokað að byggja farbann á 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 með vísan til 4. mgr. 95. gr. en því er ekki haldið fram af sækjanda að rannsóknarhagsmunir séu til staðar sbr. a-liður 95. gr. Kærði er íslenskur ríkisborgari, en búsettur á [...]. Þá mun kærði eiga unnustu búsetta erlendis. Rökstuddur grunur er um að kærði hafi gerst sekur um háttsemi sem geti varðað allt að tólf ára fangelsi. Hefur kærði setið í gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 til dagsins í dag. Sæti kærði ekki farbanni má hins vegar ætla að hann reyni að komast úr landi til að koma sér undan málsókn eða fullnustu refsingar enda getur umrætt brot varðað tólf ára fangelsi sannist sök. Er því skilyrði b-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 uppfyllt. Er því brýnt að tryggja nærveru kærða á meðan mál hans er til meðferðar fyrir yfirvöldum hér á landi og því nauðsynlegt að honum verði gert að sæta farbanni þar til mál hans er til lykta leitt eða þar til dómur gengur í máli hans, þó ekki lengur en til 19. janúar nk. kl. 16.00.

Úrskurð þennan kveður upp Ástríður Grímsdóttir héraðsdómari.

Úrskurðarorð:

Kærði X, skal sæta farbanni allt til þriðjudagsins 19. janúar 2016, kl. 16:00.