Hæstiréttur íslands
Mál nr. 347/2006
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
|
|
Mánudaginn 3. júlí 2006. |
|
Nr. 347/2006. |
Sýslumaðurinn í Hafnarfirði(Alda Hrönn Jóhannsdóttir fulltrúi) gegn X(Hilmar Ingimundarson hrl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi áfram sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Hjördís Hákonardóttir.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 28. júní 2006, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 30. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 28. júní 2006, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 4. júlí 2006 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.
Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.
Rökstuddur grunur er um að kærði hafi átt aðild að skotárás á [B-hús], 21. júní síðastliðinn. Vopn það sem notað var er ófundið og rannsókn málsins er ólokið. Um alvarlegt atvik er að ræða og ljóst að háttsemi kærða getur varðað fangelsisrefsingu ef sök sannast. Úrskurður héraðsdóms verður staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 28. júní 2006.
Lögreglustjórinn í Hafnarfirði hefur krafist þess með beiðni dagsettri í dag að X, [kt. og heimilisfang], verði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 4. júlí nk. kl. 16:00.
Vísað er til úrskurðar Héraðsdóms Reykjaness frá 22. júní sl. en þar kom fram að kl 07:18 að morgni 21. júní sl. hafði lögreglan í Hafnarfirði fengið tilkynningu um að skothljóð hafi heyrst úr hverfinu við A. Vitni sögðu að tveir skothvellir hafi heyrst og síðan hafi bifreið verið ekið á miklum hraða í burtu. Stuttu síðar hafi þrír menn komið út úr húsinu og tveir hundar. Mennirnir hafi tínt upp eitthvað sem legið hafi fyrir utan húsið og hent því inn í forstofu en síðan haldið af stað í miklum flýti á svartri [...] bifreið og sýndist einu vitninu einn mannanna vera vopnaður felgulykli. Lögreglan reyndi að ná símsambandi við C, sem skráður er til heimilis að B. Náðist í C kl. 09:28 og heimilaði hann húsleit heima hjá sér. C hefur ekki viljað tjá sig um málið að öðru leyti.
Lögreglan hafði handtekið þrjá aðila í þágu rannsóknar málsins, kærða, D og E og krafðist gæsluvarðhalds yfir þeim öllum. Kærði X sagðist ekki vita um hvað málið snérist og kannast ekki við að hafa komið að B. Í skýslu sinni hjá lögreglu hafði kærði D hins vegar viðurkennt að hafa verið í bifreið ásamt meðkærðu X og E og hafi kærði X skotið úr haglabyssu að húsinu. Vopn það sem beitt var við árásina hefur ekki fundist.
Lögreglan telur að eftir uppkvaðningu úrskurðarins og við frekari rannsókn málsins hafi grunur lögreglu um brot kærða enn styrkst, en framburður kærða um að hann hafi hvergi komið að málinu sé einkar ótrúverðugur. Þannig liggi fyrir í málinu framburðir vitna þess efnis að kærði hafi í tvígang skotið af haglabyssu inn í húsið að B þann 21. júní sl., svo að aðili sem var inni í húsnæðinu hafi fengið haglaskot í sig. Þá bendi upplýsingar lögreglu til þess að kærða hafi verið ljóst að menn væru í húsinu er hann skaut þar að. Vopnið er um ræði hafi ekki fundist. Vitni séu talin geta vitað hvar vopnið sé niður komið og sé hætta á að kærði geti haft áhrif á framburð þeirra og meðkærðu og/eða komið vopninu undan gangi hann laus.
Rannsókn máls þessa er nokkuð vel á veg komin og er fallist á það, að böndin hafi borist meir að kærða E og meðkærðu X og D um þáttöku í ætluðu broti. Það verður að teljast mjög mikilvægt fyrir rannsókn málsins að umrædd haglabyssa finnist og hefur lögreglan upplýsingar um að tvö vitni gætu gefið upplýsingar um hvar haglabyssan er nú niður komin. Telja má það mjög líklegt að það muni torvelda rannsókn málsins ef kærða og meðkærðu verður sleppt úr haldi áður en vitni þessi hafa verið yfirheyrð og eru því rannsóknarnauðsynjar til þess að kærði X sæti áfram gæsluvarðhaldi eins og krafist er og er krafa lögreglustjórans í Hafnarfirði tekin til greina með vísun í a lið 1. mg. 103. gr. laga nr. 19/1991.
Guðmundur L. Jóhannesson, héraðsdómari, kveður upp úrskurð þennan.
ÚRSKURÐARORÐ:
Kærði, X, sæti gæsluvarðhaldi allt til kl. 16:00 þriðjudaginn 4. júlí nk.