Hæstiréttur íslands
Mál nr. 468/2004
Lykilorð
- Kærumál
- Lögræði
|
|
Þriðjudaginn 30. nóvember 2004. |
|
Nr. 468/2004. |
Y(Ragnar Halldór Hall hrl.) gegn X(Eva B. Helgadóttir hdl.) |
Kærumál. Lögræði.
Y krafðist að X, sem er bæði einhverfur og þroskaheftur, yrði sviptur sjálfræði og fjárræði. Ekki var fallist á að Y hefði þrátt fyrir fötlun varnaraðila sýnt fram á, að skilyrði 4. gr. lögræðislaga væru fullnægt, þannig að þörf krefðist þeirrar ráðstöfunar. Var úrskurður héraðsdóms því staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Árni Kolbeinsson og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 17. nóvember 2004, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 24. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 8. nóvember 2004, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að svipta varnaraðila lögræði. Kæruheimild er í 1. mgr. 16. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Sóknaraðili krefst þess að varnaraðili verði sviptur lögræði, bæði sjálfræði og fjárræði. Þá krefst hún þess að þóknun talsmanns hennar fyrir Hæstarétti verði greidd úr ríkissjóði.
Varnaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og að þóknun skipaðs verjanda hans verði greidd úr ríkissjóði.
Sóknaraðili er móðir varnaraðila. Eins og greinir í hinum kærða úrskurði er varnaraðili einhverfur og þroskaheftur sem lýsir sér meðal annars í skertum félagsþroska og tjáskiptaerfiðleikum. Óumdeilt er að hann er algerlega upp á aðra kominn með persónulega hagi sína og fjármál. Í málinu liggur fyrir að varnaraðili nýtur aðstoðar og aðhlynningar náinna vandamanna sinna, þar á meðal sóknaraðila, og starfsfólks sambýlisins þar sem hann býr. Þá hefur ekkert komið fram sem bendir til að fjármuna varnaraðila sé ekki vel gætt eða hann hafi sýnt vilja til að ráðstafa þeim sjálfur. Að þessu virtu verður ekki fallist á að sóknaraðili hafi þrátt fyrir fötlun varnaraðila sýnt fram á, að skilyrði 4. gr. lögræðislaga sé fullnægt, þannig að þörf krefjist þeirrar ráðstöfunar að svipta hann sjálfræði og fjárræði. Með þessari athugasemd og að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga greiðist úr ríkissjóði þóknun talsmanns sóknaraðila og skipaðs verjanda varnaraðila vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti, en þóknunin er ákveðin eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Þóknun talsmanns sóknaraðila, Ragnars Halldórs Hall hæstaréttarlögmanns, og skipaðs verjanda varnaraðila, Evu B. Helgadóttur héraðsdómslögmanns, vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti, 50.000 krónur til hvors þeirra, greiðist úr ríkissjóði.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 8. nóvember 2004.
Ár 2004, mánudaginn, er á dómþingi, sem háð er í Dómhúsinu við Lækjartorg af Pétri Guðgeirssyni héraðsdómara, kveðinn upp úrskurður í lögræðismálinu nr. 53/2004: Beiðni Y um það að X verði sviptur lögræði, sjálfræði og fjárræði.
Með beiðni, dagsettri 4. október sl., hefur Ragnar Halldór Hall hrl., f.h. Y, krafist þess að sonur Y, X, verði sviptur lögræði, bæði sjálfræði og fjárræði. Var málið þingfest 15. f.m. og tekið til úrskurðar 2. þ.m. Í beiðninni kemur fram að ástæða hennar er sú að varnaraðili sé vegna einhverfu og verulegrar þroskaskerðingar ófær um að ráða persónulegum högum sínum og fé. Varnaraðili mótmælir beiðninni þar sem ekki sé sýnt fram á að þörf sé á því að svipta hann lögræði.
Varnaraðili er einhverfur og þroskaheftur sem lýsir sér í skertum félagsþroska og tjáskiptaerfiðleikum. Er þroski hans talinn vera eins og hjá ungu barni. Hann hefur undanfarin ár vistast í sambýli fyrir fatlaða [...]. Ekki er umdeilt í málinu að varnaraðili er algerlega upp á aðra kominn með persónulega hagi sína og fjármál.
Sóknaraðili telur sig hafa vissu fyrir því að varnaraðila líði ekki vel á sambýli þessu. Sé hann ófær um að ráða persónulegum högum sínum og finna út úr því hvað honum henti best í þeim efnum. Þegar leitað sé eftir því við hann hvað hann telji henta sér í þeim efnum, reyni hann um of að þóknast viðmælanda sínum þá stundina. Sé óhjákvæmilegt að svipta X sjálfræði og fá honum skipaðan lögráðamann, sem geti tekið ákvörðun um persónulega hagi hans. Sóknaraðili segir varnaraðila sjálfan ekki vera til neinna vandræða, hvorki strjúki hann að heiman né flakki um. Fyrir liggur hins vegar að um árabil hefur verið ágreiningur með sóknaraðila og svæðisskrifstofu um málefni fatlaðra í [...] um það, hvort það henti varnaraðila að búa í sambýlinu [...]. Hafa verið lögð fram nokkur gögn varðandi þann ágreining, þar á meðal dómur Héraðsdóms Reykjavíkur í desember 2002 í skaðabótamáli sóknar- og varnaraðila gegn svæðisskrifstofunni og íslenska ríkinu.
Enda þótt ágreiningur sé með sóknaraðila og svæðisskrifstofu fatlaðra um það hvaða vist henti varnaraðila verður ekki séð að þörf sé á því að svipta hann sjálfræði til þess að finna honum aðra vist, enda virðast aðrar leiðir vera færar í þeim efnum. Ber að synja kröfu sóknaraðila að varnaraðili verði sviptur sjálfræði.
Varnaraðili á að sögn sóknaraðila um [...] sem sóknaraðili hefur látið ávaxta fyrir hann. Þá hefur hún til þessa séð um og stjórnað fjármálum hans að öðru leyti. Hún kveður hann geta skrifað nafn sitt og hafi hún af því nokkrar áhyggjur að hann kunni að takast á hendur nokkrar fjárskuldbindingar. Sé nauðsynlegt að fá honum skipaðan lögráðamann til þess að einhver hafi óumdeilanlegt umboð til þess að annast fjármál varnaraðila.
Enda þótt sóknaraðili hafi af því nokkrar áhyggjur að varnaraðili geti bakað sér fjárskuldbindingar verður ekki séð að þörf sé á því að svipta hann fjárræði. Ber að synja kröfu sóknaraðila um það.
Úrskurðarorð:
Synjað er kröfu sóknaraðila að varnaraðili, X, verði sviptur lögræði.
Kostnaður af málinu, þar með talin þóknun til talsmanna aðilanna, Ragnars Halldórs Hall hrl. og Evu B. Helgadóttur hdl., 50.000 krónur til hvors þeirra um sig, greiðist úr ríkissjóði.