Hæstiréttur íslands

Mál nr. 316/2015


Lykilorð

  • Kærumál
  • Skýrslugjöf
  • Vitni


                                            

Fimmtudaginn 7. maí 2015.

Nr. 316/2015.

Ákæruvaldið

(Jón H.B. Snorrason saksóknari)

gegn

X

(Stefán Karl Kristjánsson hrl.)

Y

(Jón Egilsson hrl.)

Z

(enginn)

Þ og

(Ólafur Örn Svansson hrl.)

Æ

(Oddgeir Einarsson hrl.)

Kærumál. Skýrslugjöf. Vitni.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem annars vegar var hafnað kröfu L um að X, Y og Z yrði gert að víkja úr þinghaldi á meðan brotaþolinn A gæfi skýrslu við aðalmeðferð málsins en hins vegar fallist á kröfu um að X, Þ og Æ yrði gert að víkja úr þinghaldi á meðan brotaþolinn B gæfi skýrslu.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 29. apríl 2015, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 30. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 29. apríl 2015, þar sem annars vegar var hafnað kröfu sóknaraðila um að varnaraðilunum X, Y og Z yrði gert að víkja úr þinghaldi á meðan vitnið A gæfi skýrslu við aðalmeðferð málsins en hins vegar fallist á kröfu vitnisins B um að varnaraðilunum X, Þ og Æ yrði gert að víkja úr þinghaldi á meðan vitnið gæfi skýrslu fyrir dómi. Kæruheimild er í n. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Sóknaraðili krefst þess að varnaraðilarnir X, Y og Z víki úr þinghaldi á meðan vitnið A gefur skýrslu fyrir dómi.

Varnaraðilarnir X og Y krefjast staðfestingar ákvæða hins kærða úrskurðar um að þeim verði ekki gert að víkja úr þinghaldi meðan vitnið A gefur skýrslu fyrir dómi. Þá krefst varnaraðilinn Y kærumálskostnaðar. Varnaraðilinn Z hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

Í 1. mgr. 166. gr. laga nr. 88/2008 kemur fram sú meginregla að ákærði eigi rétt á að vera viðstaddur aðalmeðferð máls. Ákvæði 1. mgr. 123. gr. laga nr. 88/2008 er frávik frá þeirri reglu en samkvæmt því getur dómari samkvæmt kröfu ákæranda eða vitnis ákveðið að ákærða verði vikið úr þinghaldi meðan það gefur skýrslu ef dómari telur að nærvera ákærða geti orðið því sérstaklega til íþyngingar og haft áhrif á framburð þess. Af hálfu sóknaraðila hafa ekki verið færð fram haldbær rök fyrir því að uppfyllt séu skilyrði til þess að víkja frá fyrrgreindri meginreglu við skýrslugjöf vitnisins A.

Varnaraðilarnir X, Þ og Æ hafa 30. apríl og 1. maí 2015 kært úrskurðinn fyrir sitt leyti. Krefjast þeir þess að ákvæði hans um að þeim verði gert að víkja úr þingsal á meðan vitnið B gefur skýrslu fyrir dómi verði fellt úr gildi.

Varnaraðilum er meðal annars gefin að sök líkamsárás, ólögmæt nauðung og að hafa svipt vitnið frelsi sínu. Samkvæmt vottorði sálfræðings 29. september 2014 hefur ætluð háttsemi varnaraðila valdið vitninu, sem er 18 ára að aldri, mikilli streitu og kvíða auk þess sem vitnið hefur verið greint með alvarlega áfallastreituröskun. Þrátt fyrir að nokkuð sé liðið frá því að umrædds vottorðs var aflað verður með vísan til þess sem þar kemur fram og ungs aldurs vitnisins að fallast á það mat héraðsdómara að nærvera varnaraðila geti orðið því sérstaklega til íþyngingar og haft áhrif á framburð þess, sbr. áðurnefnda 1. mgr. 123. gr. laga nr. 88/2008. Í samræmi við 3. mgr. sömu greinar skal varnaraðilum gert kleift að fylgjast með skýrslutöku vitnisins utan þingsalar og koma að spurningum á meðan hún fer fram.

Með þessum athugasemdum verður hinn kærði úrskurður staðfestur.

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur, sbr. 3. mgr. 220. gr. laga nr. 88/2008.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 29. apríl 2015.

Mál þetta, er upphaflega höfðað með ákæru útgefinni af lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu 19. ágúst 2014, á hendur X, kt. [...]. Undir málsnúmer þessa máls hafa nú verið sameinaðar fjórar aðrar ákærur á hendur X. Þá var sameinuð málinu ákæra útgefin af Ríkissaksóknara, dags. 13. febrúar 2015, á hendur X, Y og Z, „fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás, frelsissviptingu og rán, með því að hafa, að morgni mánudagsins 24. febrúar 2014 að [...], veist í félagi að A, í íbúð hans þar sem ákærði Z tók hann kverkataki og sló hann í andlitið, ákærði X sló A með Playstation leikjatölvu í andlitið, og eftir að hann féll í gólfið vegna atlögu ákærðu slógu allir ákærðu hann ítrekað í höfuð og líkama og spörkuðu í líkama hans, og síðar eftir að hann var risinn upp slógu ákærðu hann ítrekað og ákærði X veittist að honum með skærum og stakk hann ítrekað í upphandleggina og axlirnar og sló hann með 90 cm priki í vinstra lærið, og vinstri upphandlegg og hnefahöggi í andlitið. Við þetta hlaut A þreifieymsli og bólgu yfir hægra kinnbeini, mar yfir neðra augnloki og augabrún, bólgu yfir hægri hluta nefs, nefbrot, roða og eymsli á hálsi, mar og eymsli hægra megin á síðu, rifbeinsbrot og eymsli ofanvert á kvið, mar og eymsli á vinstra læri, sár neðan við hnéskel vinstra megin, mar og eymsli á vinstri olnboga, þrjú stungusár á hægri upphandlegg og eitt stungusár ofanvert á vinstri upphandlegg auk bólgu og roða á vinstri upphandlegg og áverka á hægri öxl.“ Í tengslum við ofangreinda líkamsárás og í beinu framhaldi af henni með líkamlegu ofbeldi sem þar er lýst tóku ákærðu af A og höfðu á brott með sér, ýmis verðmæti af heimili hans. Þá er öllum ákærðu gefið að sök að hafa svipt A frelsi sínu í allt að eina og hálfa klukkustund meðan á framangreindu gekk. Telst þetta varða við 2. mgr. 218. gr., 226. gr. og 252. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Þá var sameinuð málinu ákæra útgefin af Ríkissaksóknara þann 13. febrúar 2015, á hendur X, Þ og Æ, „fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás, frelsissviptingu, ólögmæta nauðung og tilraun til fjárkúgunar, með því að hafa aðfaranótt miðvikudagsins 6. ágúst 2014 að [...] veist í félagi að B með því að ákærði X sló B ítrekað í andlitið, síðan skiptust ákærðu allir á að slá B í andlitið og líkamann, spörkuðu í höfuð hans og gáfu honum rafstuð með rafmagnsvopni (rafstuðbyssu) oft og víðsvegar um líkama hans, þar á meðal í kynfærin, ákærði Þ sparkaði tvisvar í bak B. Ákærðu þvinguðu B til að sleikja egg og hráka upp af óhreinu gólfi íbúðarinnar, stungu hann í lærið með óhreinni sprautunál í því skyni að smita hann af lifrarbólgu C og neyddu hann til að drekka smjörsýru, auk þess að krefja B um 500.000  – 800.000 króna greiðslu sér til handa ella yrði honum nauðgað og hann beittur frekara ofbeldi. Meðan á framangreindu gekk sviptu ákærðu B frelsi sínu í rúma klukkustund. Af framangreindum líkamsmeiðingum hlaut B marblett á augnkrók vinstra auga, bólgu og mar á neðri vör, mar á vinstra læri, yfirborðsáverka á hálsi, skrámur á vinstri handlegg, hrufl á mjóbaki og roðarákir víðsvegar um bakið og rauða bletti víðsvegar um líkamann.“ Telst þetta varða við 2. mgr. 218. gr., 225. gr., 226. gr. og 251., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

I

Ákærandi hefur krafist þess að X, Y og Z, verði vikið úr þinghaldi á meðan vitnið A gefur skýrslu. Allir verjendur ákærðu hafa mótmælt þeirri kröfu og krefjast þess að ákærðu fái að vera viðstaddir.

Bragi Dór Hafþórsson hdl., réttargæslumaður brotaþola B, hefur krafist þess að X, Þ og Æ verði vikið úr þinghaldi á meðan vitnið gefur skýrslu. Allir verjendur ákærðu hafa mótmælt þeirri kröfu og krefjast þess að ákærðu fái að vera viðstaddir.

II

Ákærandi vísaði til 1. mgr. 123. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála um að vitninu A yrði það afar þungbært að þurfa að gefa skýrslu að ákærðu viðstöddum, og að það myndi hafa áhrif á framburð hans. Ákært sé fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás, frelsissviptingu og rán. Brotaþoli sé fyrir bæði sjúklingur og öryrki. Samkvæmt framlögðum læknabréfum sé ljóst að brotaþoli hafi orðið fyrir áföllum eftir árás ákærðu og sé hræddur við þá. Einnig liggi fyrir tölvupóstur sem brotaþoli telja vera frá einum ákærðu og upplifi brotaþoli það þannig að verið sé að reyna að hafa áhrif á hann.

Réttargæslumaður brotaþola B vísaði til 1. mgr. 123. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Brotaþoli hræðist nærveru ákærðu og telji að við aðalmeðferð málsins muni nærvera þeirra hafa áhrif á framburð hans. Ákært sé fyrir frelsissviptingu og sérstaklega hættulega líkamsárás bæði andlega og líkamlega. Brotaþoli hafi upplifað árásina þannig að hann hafi talið að hann myndi láta lífið og frá þessum tíma hafi hann upplifað mikinn kvíða og mikla hræðslu. Vísað var til framlagðs vottorðs sálfræðings þar sem fram komi að brotaþoli hafi eftir atburði sýnt mjög alvarlega áfallastreyturöskun og einkenni streitu. Brotaþoli hafi verið ungur eða 19 ára þegar brotið átti sér stað. Ekki hafi verið um áflog að ræða heldur hafi brotaþoli hafi verið frelsissviptur og samkvæmt lögregluskýrslum hafi brotaþoli verið mjög hræddur þegar atburðir gerðust.

Ákærandi og réttargæslumaður brotaþola vísuðu til dóms Hæstaréttar í „Stokkseyrarmálinu“, mál nr. 763/2013, sem fordæmisgefandi.

Verjandi X taldi að skilyrði 1. mgr. 123. gr. l. 88/2008, væru ekki uppfyllt. Læknanótur sem lýstu erfiðleikum í lífi A hafi lítið sem ekkert að gera með sakarefni þessa máls. Ekki sé nóg að vera hræddur, það vanti vottorð eða mat sálfræðings um að ætla megi að nærvera ákærðu sé til þess fallin að hafa áhrif á frumburð vitnisins. Um vitnið brotaþola B ætti sama við, framlagt vottorð sálfræðings tæki ekki á því atriði að nærvera ákærðu sé vitninu sérstaklega til íþyngingar og gæti haft áhrif á framburð þess.

Verjandi Y taldi að skilyrði 1. mgr. 123. gr. l. 88/2008, væru ekki uppfyllt. Ákvæðið væri undantekningarákvæði sem bæri að skýra þröngt. Áverkar brotaþola væru minniháttar. Ef fallist væri á kröfu sækjanda væri hætta á því að vitnið segði of mikið og hugsanlegt að hann bæri á ákærðu rangar sakargiftir. Brotaþoli þessa máls væri ekki óharðnaður unglingur og hefði sjálfur reynslu af refsivist og úr sjúkraskrá hans væri ekki síður hægt að lesa út reiði, hefnigirni og neysluvanda.

Verjandi Z taldi að skilyrði 1. mgr. 123. gr. l. 88/2008, væru ekki uppfyllt og að framlögð gögn styddu ekki framkomna kröfu. Ákærði ætti rétt á því að vera viðstaddur eigin réttarhöld skv. 116. gr. laga nr. 88/2008 og ákvæðum d. liðar 3. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Hætta væri á því að jafnræði málsaðila væri raskað ef orðið yrði við framkominni kröfu. Meint frelsissvipting hafi staðið stutt og áverkar ekki miklir. Brotaþoli væri fullorðinn maður sem væri sjálfur með nokkra sögu.

Verjandi Þ taldi að skilyrði 1. mgr. 123. gr. l. 88/2008, væru ekki uppfyllt. Samkvæmt 70. gr. stjórnarskrár eigi ákærði að njóti réttlátrar málsmeðferðar fyrir dómi og því fælist að vera viðstaddur eigin réttarhöld. Ekki væri nóg að horfa bara til lýsingar í ákæru og þannig samsama alla sakborninga. Ekki hafi verið sýnt fram á ógn eða öryggi vitnis í dómsal og þó fram kæmi í lögregluskýrslum að brotaþoli væri hræddur við einn sakborning ætti það ekki við um skjólstæðing hans. Þá hafi framlagt vottorð ekkert gildi í málinu.

Verjandi Æ taldi að skilyrði 1. mgr. 123. gr. l. 88/2008, væru ekki uppfyllt. Framlögð vottorð væru frá því í ágúst og september 2014 og segðu ekkert um að nærvera ákærða gæti haft áhrif á framburð vitnisins og þá sérstaklega ekki hvernig þessu væri háttað í dag. Skoða verði þátt hvers og eins, ekki væri nóg að lögregluskýrslur segðu að brotaþoli hafi á verknaðarstundu verið hræddur við einn ákærðu. Ákærði hafi verið 18 ára þegar atburðir átti sér stað og hafi engin tengsl við brotaþola og ekki haft uppi neinar hótanir eftir atburði. Samkvæmt gögnum málsins hafi brotaþoli sjálfur lýst þætti ákærða sem „mjög litlum“.

Allir verjendur höfnuðu því að „Stokkseyrarmálið“ væri fordæmi í þessu máli. Afleiðingum væri ekki saman að jafna og í því máli hafi verið lagt fram vottorð sálfræðings að nærvera ákærðu hefði áhrif á framburð vitnisins.

III

Í 166. gr. laga nr. 88/2008 segir að ákærði eigi rétt á því að vera við aðalmeðferð máls. Ákvæði 1. mgr. 123. gr. laga nr. 88/2008 eru frávik frá þeirri meginreglu um að ákærði eigi rétt á því að vera viðstaddur þinghöld í máli sínu. Samkvæmt ákvæðinu þarf nærvera ákærða að vera vitnunum bæði til sérstakrar íþyngingar og að hafa áhrif á framburð þeirra.

Fyrir liggur að vitnið A er hræddur við ákærðu, X, Y og Z, en þeir eru ákærðir fyrir að hafa í félagi frelsissvipt brotaþola og veitt honum líkamlega áverka. Brotaþoli er 39 ára og í málinu liggja fyrir áverkavottorð og kaflar úr sjúkraskrá hans. Í skráningu sjúkraskrár frá 11. nóvember 2014, kemur fram að frá því í febrúar 2014 hafi brotaþoli sýnt mjög sterk einkenni streituröskunar í kjölfar meintrar árásar. Jafnframt kom fram að erfitt geti verið að meta persónuleikavanda brotaþola síðastliðið ár þar sem ástand hans nú einkennist af afleiðingum áfalls og afleiðingum dóms þar áður. Til staðar sé ótilgreindur persónuleikavandi sem þurfi að skoða betur eftir meðferð við fíkn og áfallastreitu. Einnig þurfi að meta hugræna getu þar sem árásin trufli taugasálfræðilegt mat en þar hafi neysla fíkniefna einnig áhrif. Ekki liggur fyrir hvort framangreind atriði hafi verið metin nánar eða hver áhrif fíkniefnaneysla brotaþola hefur á ástand hans. Eftir að boðað var til uppkvaðningar þessa úrskurðar þann 24. apríl sl. barst dóminum með tölvupósti vottorð vegna brotaþola A frá réttargæslumanni. Í morgun barst dómara tölvupóstur frá sækjanda þar sem hann óskar eftir því að vottorðið sé móttekið. Dómari telur að vottorðið sé of seint fram komið þar sem krafan um að ákærðu víki úr sal var tekin til úrskurðar 17. apríl sl. Hefur að mati dómsins eins og gögnum málsins er háttað, ekki verið sýnt fram á það að nærvera ákærðu geti orðið vitninu sérstaklega til íþyngingar og kunni að hafa áhrif á framburð hans og er kröfu hans því hafnað.

Fyrir liggur að vitnið B er hræddur við ákærðu, X,  Þ og Æ, en þeir eru ákærðir fyrir að hafa í félagi frelsissvipt brotaþola og veitt honum líkamlega áverka með þeirri háttsemi sem greinir í ákæru. Brotaþoli er fæddur í maí 1996 og er því 18 ára. Í málinu liggur fyrir áverkavottorð og vottorð sálfræðings frá 29. september 2014. Í vottorði sálfræðingsins kemur fram að frá því að atburðir gerðust hafi brotaþoli verið haldinn miklum kvíða og mikilli hræðslu. Atburðurinn hafi skapað mikla streitu og skelfingu hjá brotaþola. Hafi verið lagður fyrir hann skimunarlisti um áfallastreitueinkenni og niðurstöður þess sýnt fram á mjög alvarlega áfallastreituröskun. Hafi sálfræðingurinn ekki tekið frekari viðtöl við brotaþola þar sem hann hafi farið af landi brott stuttu síðar. Að mati dómsins má samkvæmt framangreindu telja að nærvera ákærðu geti orðið vitninu sérstaklega til íþyngingar og kunni að hafa áhrif á framburð hans og verður því fallist á kröfu hans um að allir ákærðu víki úr þinghaldi meðan hann gefur skýrslu en ekki eru efnislegar forsendur til að gera greinarmun á meintri þátttöku hvers ákærða á þessu stigi máls.

Bogi Hjálmtýsson héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu ákæranda um að ákærðu, X, Y og Z verði vikið úr þinghaldi á meðan vitnið A gefur skýrslu.

Ákærðu, X, Þ og Æ skal vikið úr sal meðan vitnið B gefur skýrslu.