Hæstiréttur íslands

Mál nr. 704/2013


Lykilorð

  • Kærumál
  • Aðalmeðferð
  • Skýrslugjöf


Föstudaginn 8. nóvember 2013.

Nr. 704/2013.

Ákæruvaldið

(Daði Kristjánsson saksóknari)

gegn

X

(Bjarni Hauksson hrl.)

Kærumál. Aðalmeðferð. Skýrslugjöf.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu ákæruvaldsins um að X yrði gert að mæta við aðalmeðferð sakamáls á hendur honum. X játaði í þinghaldi þá háttsemi sem hann var sakaður um samkvæmt tveimur ákærum en neitaði að um hafi verið að ræða tilraun til manndráps af sinni hálfu svo sem hann var ákærður fyrir. Verjandi hans lýsti því yfir í síðara þinghaldi að skjólstæðingur hans vildi ekki gefa skýrslu við aðalmeðferð málsins og hefði ekki hug á að mæta við hana. Í dómi Hæstaréttar sagði m.a. að í 1. mgr. 113. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála væri kveðið á um að ákærða sé rétt og skylt að koma fyrir dóm til skýrslugjafar eftir útgáfu ákæru. Samkvæmt 1. mgr. 166. gr. laganna ætti hann alla jafna rétt á að vera viðstaddur aðalmeðferð í máli sínu og í 2. mgr. sömu lagagreinar væri gert ráð fyrir að skýrsla skuli tekin af honum við það tækifæri. Með hliðsjón af þeirri meginreglu 1. mgr. 111. gr. laga nr. 88/2008 að dómur skuli reistur á sönnunargögnum sem færð séu fram við meðferð máls fyrir dómi, yrði að skýra ákvæði þeirra svo að ákærða væri skylt að kröfu ákæranda að mæta við aðalmeðferð máls og gefa þar skýrslu. Þótt ákærði gæti afsalað sér rétti sínum til að vera viðstaddur aðalmeðferð þýddi það ekki að hann gæti skorast undan þeirri lagaskyldu sem samkvæmt framansögðu hvíldi á honum. Yfirlýsing X um að hann ætlaði sér ekki að mæta til skýrslutöku yrði ekki lögð að jöfnu við það að hann notfærði sér rétt sinn samkvæmt 2. mgr. 113. gr. laga nr. 88/2008 til að neita fyrir dómi að svara spurningum varðandi refsiverða hegðun sem honum væri gefin að sök, enda kynni slík neitun að hafa sjálfstæða þýðingu við úrlausn málsins. Með vísan til þessa var hinn kærði úrskurður felldur úr gildi.

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson, Greta Baldursdóttir og Helgi I. Jónsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 1. nóvember 2013 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 4. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 1. nóvember 2013 þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að varnaraðila verði gert að mæta við aðalmeðferð málsins og gefa skýrslu. Kæruheimild er í n. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Sóknaraðili krefst þess að varnaraðila verði gert að mæta við aðalmeðferð málsins og gefa skýrslu.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

I

Í máli þessu hafa verið gefnar út tvær ákærur á hendur varnaraðila. Annars vegar er honum samkvæmt ákæru 17. júlí 2013 gefin að sök tilraun til manndráps með því að hafa reynt að svipta [...] ára telpu lífi 27. apríl sama ár. Hins vegar er honum með ákæru 13. ágúst 2013 gefið að sök sams konar brot með því að hafa ráðist inn á heimili [...] ára stúlku 26. mars sama ár í því skyni að ráða henni bana. Af geðrannsókn sem gerð hefur verið á varnaraðila er ljóst að hann á við djúpstæðan og langvarandi geðrænan vanda að etja.

Í þinghaldi 14. ágúst 2013 játaði varnaraðili þá háttsemi, sem hann er sakaður um samkvæmt báðum ákærunum, en neitaði að um hafi verið að ræða tilraun til manndráps af sinni hálfu. Í þinghaldi 22. október sama ár þar sem varnaraðili var fjarstaddur lýsti verjandi hans því yfir að skjólstæðingur hans vildi ekki gefa skýrslu við aðalmeðferð málsins og hefði ekki hug á að mæta við hana. Af hálfu sóknaraðila var þess krafist að héraðsdómari úrskurðaði um að varnaraðila yrði gert að mæta við aðalmeðferð og gefa skýrslu. Í kjölfarið var hinn kærði úrskurður kveðinn upp.

II

Í 1. mgr. 113. gr. laga nr. 88/2008 er kveðið á um að ákærða sé jafnan rétt og skylt að koma fyrir dóm til skýrslugjafar eftir að mál hefur verið höfðað gegn honum. Eftir 3. mgr. sömu greinar getur ákærandi lagt fyrir lögreglu að sækja ákærða eða færa hann síðar fyrir dóm með valdi ef hann mætir ekki til skýrslutöku án þess að um lögmæt forföll sé að ræða. Er lögreglu skylt að verða við slíkum fyrirmælum ákæranda, sbr. og c. lið 3. mgr. 90. gr. laganna.

Þau ákvæði sem vísað hefur verið til eru almenns eðlis og verður því samkvæmt viðteknum lögskýringaraðferðum ekki gagnályktað frá sérákvæðum um þetta efni sem er að finna í XXV. kafla laga nr. 88/2008. Samkvæmt 1. mgr. 166. gr. laganna á ákærði alla jafna rétt á að vera viðstaddur aðalmeðferð í máli sínu og í 2. mgr. sömu greinar er gert ráð fyrir að skýrsla skuli tekin af honum við það tækifæri. Með hliðsjón af þeirri meginreglu, sem mælt er fyrir um í 1. mgr. 111. gr. laganna, um að dómur skuli reistur á sönnunargögnum sem færð eru fram við meðferð máls fyrir dómi verður að skýra öll hin tilvitnuðu lagaákvæði svo að ákærða sé skylt að kröfu ákæranda að mæta við aðalmeðferð máls og gefa þar skýrslu. Ber lögreglu að verða við fyrirmælum ákæranda þess efnis og færa ákærða fyrir dóm með valdi ef þörf krefur. Þótt ákærði geti afsalað sér rétti sínum til að vera viðstaddur aðalmeðferð eins og réttilega er tekið fram í hinum kærða úrskurði þýðir það ekki að hann geti skorast undan þeirri lagaskyldu sem samkvæmt framansögðu hvílir á honum til að mæta og gefa þar skýrslu ef ákærandi krefst þess. Yfirlýsing ákærða um að hann ætli sér ekki að mæta til skýrslutöku verður ekki lögð að jöfnu við það að hann notfæri sér rétt sinn samkvæmt 2. mgr. 113. gr. laga nr. 88/2008 til að neita fyrir dómi að svara spurningum varðandi refsiverða hegðun sem honum er gefin að sök, enda kann slík  neitun að hafa sjálfstæða þýðingu við úrlausn málsins.

Með vísan til þess sem að framan greinir verður hinn kærði úrskurður felldur úr gildi.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 1. nóvember 2013.

Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 22. október 2013, er höfðað með ákæru útgefinni af ríkissaksóknara 17. júlí 2013 á hendur X, kt. [...], [...], [...], fyrir tilraun til manndráps, með því að hafa laugardaginn 27. apríl 2013, í fjöru neðan við [...] í [...], reynt að svipta telpuna A, fædda [...], lífi með því að skera hana nokkrum sinum með hnífi í hálsinn og veita henni aðra áverka á hálsi með hnífnum, svo telpan hlaut þar alvarlega skurðáverka nálægt stórum hálsæðum, þar með talið nokkra skurði í miðlínu, djúpan skurð framanvert á hálsi sem náði niður í gegnum fitulög alldjúpt inn í hálsinn, tvo djúpa samhliða skurði hægra megin á hálsi sem náðu vel í gegnum húðina og niður í gegnum fitulög, en einnig aðra áverka, þar með talið nokkrar grynnri rispur bæði upp undir kjálkabarði hægra megin, hægra megin á hálsi bæði ofan og neðan við dýpri skurðinn og einnig framanvert á hálsinum og stungusár vinstra megin við miðlínu á hálsi, auk þess sem telpan hlaut margar grunnar skrámur á báðum höndum, bæði á handarbaki og í lófum, þegar hún reyndi að verjast ákærða og skarst af hnífnum. 

Þetta er talið varða við 211. gr., sbr. 1. mgr. 20. gr., almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Þess er aðallega krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar, en til vara að honum verði gert að sæta öryggisgæslu á viðeigandi stofnun, sbr. 62. gr. almennra hegningarlaga.

Í málinu gerir Þórdís Bjarnadóttir hrl., fyrir hönd B, kt. [...], og C, kt. [...], vegna ófjárráða dóttur þeirra, A, kt. [...], kröfu um að ákærði greiði brotaþola miskabætur að fjárhæð 2.000.000 kr. auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá 27. apríl 2013 þar til mánuður er liðinn frá birtingu skaðabótakröfu þessarar en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Einnig er þess krafist að ákærða verði gert að greiða málskostnað að mati dómsins eða samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðar­reikningi, að viðbættum virðisaukaskatti á málflutningsþóknun.

Hinn 14. ágúst 2013 var sakamál nr. [...]/2013, sem var höfðað á hendur ákærða með ákæru útgefinni 13. ágúst 2013, sameinað þessu máli, sbr. heimild í 1. mgr. 169. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Þar er ákærða gefin að sök tilraun til manndráps, með því að hafa, að kvöldi þriðjudagsins 26. mars 2013, brotist inn á heimili D og fjölskyldu hennar að [...] í [...], vopnaður hnífi, í því skyni að ráða D bana, en D var að heiman greint sinn.

                Þetta er talið varða við 211. gr., sbr. 1. mgr. 20. gr., almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

                Þess er aðallega krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar, en til vara að honum verði gert að sæta öryggisgæslu á viðeigandi stofnun, sbr. 62. gr. almennra hegningarlaga.

Í málinu gerir Þórdís Bjarnadóttir hrl., fyrir hönd E, kt. [...], vegna ófjárráða dóttur hennar, D, kt. [...], kröfu um að ákærði greiði brotaþola miskabætur að fjárhæð 1.000.000 kr. auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá 26. mars 2013 þar til mánuður er liðinn frá birtingu skaðabótakröfu þessarar en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Einnig er þess krafist að ákærða verði gert að greiða málskostnað að mati dómsins eða samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðar­reikningi, að viðbættum virðisaukaskatti á málflutningsþóknun.

I.

                Við þingfestingu málsins 23. júlí 2013 mætti ákærði ásamt verjanda sínum og óskaði eftir fresti til að taka afstöðu til sakarefnisins og bótakröfunnar í ákæru 17. júlí 2013. Var málinu frestað til 14. ágúst 2013. Þegar ákærði mætti í þinghald þann dag var ákæra 13. ágúst 2013 sameinuð máli þessu. Ákærði játaði háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru 17. júlí 2013 en neitaði að það hefði verið tilraun til manndráps. Þá viðurkenndi ákærði að hafa brotist inn á heimili D, eins og honum er gefið að sök í ákæru 13. ágúst 2013, en neitaði því að það hefði verið í því skyni að ráða henni bana. Verjandi óskaði eftir fresti til að skila greinargerð og í þinghaldi 11. september 2013 lagði hann fram greinargerð. Var málinu frestað til 18. september 2013 en í því þinghaldi lagði sækjandi fram matsbeiðni um geðrannsókn á ákærða, og voru F geðlæknir og G sálfræðingur kvödd sem matsmenn til að framkvæma hið umbeðna mat. Í þinghaldi 22. október 2013 var lögð fram matsgerð, dags. 14. október 2013, en í henni telja matsmenn að ákærði hafi verið alls ófær um að stjórna gerðum sínum, bæði að kvöldi þriðjudagsins 2. mars 2013 og laugardaginn 27. apríl 2013. Í samantekt í matsgerðinni segir að athuganir matsmanna gefi til kynna að ákærði sé haldinn mjög alvarlegum vanda á sviði greindar, þroska og tilfinninga sem samrýmist best [...] [...]. Einkenni hans hafi áhrif á öll svið lífs hans. Ekki er ástæða til að rekja nánar niðurstöðu matsmanna hér. Fyrir liggur að ákærði er nú vistaður á [...].

Í þinghaldinu 22. október 2013 var byrjað að ræða fyrirkomulag aðalmeðferðar og upplýsti verjandi ákærða að ákærði vilji ekki gefa skýrslu við aðalmeðferð í málinu og hann hafi ekki hug á að mæta. Sækjandi málsins vildi ekki una þessari afstöðu ákærða og gerði kröfu um að ákærði komi við aðalmeðferð til að gefa skýrslu, ella verði hann færður fyrir dóm. Verjandi áréttaði afstöðu ákærða. Það gerði móðir ákærða einnig, en hún var viðstödd þinghaldið. Var því sérstaklega mótmælt að ákærði verði þvingaður til að mæta við aðalmeðferð málsins til að gefa þar skýrslu. Sækjandi krafðist þess þá að dómari úrskurðaði um að ákærða verði gert að koma við aðalmeðferð málsins og gefa skýrslu. Sækjandi og verjandi tjáðu sig um ágreininginn og lögðu hann í úrskurð.

II.

                Í XVII. kafla laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála eru ákvæði um skýrslugjöf ákærða fyrir dómi. Í 1. mgr. 113. gr. segir að ákærða sé jafnan rétt og skylt að koma fyrir dóm til skýrslugjafar eftir að mál hefur verið höfðað gegn honum. Sakborningi sé enn fremur rétt og skylt að koma fyrir dóm til skýrslugjafar meðan á rannsókn stefndur ef tilefni gefst, sbr. b-lið 1. mgr. 59. gr. og 2. mgr. 106. gr. Þá er í 2. mgr. 113. gr. mælt fyrir um að ákærða sé óskylt að svara spurningum varðandi refsiverða hegðun sem honum er gefin að sök. Hann geti ýmist neitað að gefa skýrslu um sakarefnið eða neitað að svara einstökum spurningum þar að lútandi. Í 3. mgr. 113. gr. er kveðið á um að mæti ákærði ekki til skýrslutöku án þess að um lögmæt forföll sé að ræða geti ákærandi lagt fyrir lögreglu að sækja hann eða færa hann síðar fyrir dóm með valdi ef þörf krefur. Lögreglu sé skylt að verða við slíkum fyrirmælum ákæranda.

                Í greinargerð með 113. gr. laga nr. 88/2008 segir að í 1. mgr. sé áréttaður réttur ákærða til að mæta fyrir dóm og gefa þar skýrslu, en sá réttur sé byggður á 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Í samræmi við 4. mgr. 32. gr. og 127. gr. þágildandi laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála væri jafnframt gert ráð fyrir að ákærða sé skylt að koma fyrir dóm til að gefa skýrslu eftir að mál hefur verið höfðað. Ef þess væri krafist að sakborningur sæti gæsluvarðhaldi eða öðrum ráðstöfunum samkvæmt XIV. kafla frumvarpsins væri honum eftir 2. mgr. 106. gr. frumvarpsins skylt að koma fyrir dóm og gefa skýrslu. Þá væri sakborningi skylt að kom fyrir dóm til að gefa skýrslu á rannsóknarstigi máls, sbr. b-lið 1. mgr. 59. gr. í frumvarpinu. Ákvæði 4. mgr. 32. gr. laga nr. 19/1991, sem vísað er til í greinargerðinni með 113. gr. laga nr. 88/2008, var um skyldu sakbornings til að sinna kvaðningu til yfirheyrslu við rannsókn máls og 127. gr. um það þegar ákærði mætti ekki fyrir dóm við þingfestingu máls og því varð ekki lokið með útivistardómi, en sambærilegt ákvæði er að finna í 162. gr. laga nr. 88/2008.

                Þegar litið er til framangreindra skýringa í greinargerð með 113. gr. laga nr. 88/2008, og þegar ákvæðið er lesið með öðrum ákvæðum í lögunum, verður að túlka skyldu ákærða til að koma fyrir dóm til að gefa skýrslu þannig að hún taki til þess þegar ákærði hefur ekki komið fyrir dóm við þingfestingu máls og því verður ekki lokið með útivistardómi, en þá skal ákærandi samkvæmt 162. gr. laganna leggja fyrir lögreglu að færa ákærða fyrir dóm nema hann hafi haft lögmæt forföll. Þá er sakborningi skylt samkvæmt 2. mgr. 106. gr. að koma fyrir dóm og gefa skýrslu ef þess er krafist að hann sæti gæsluvarðhaldi eða öðrum þvingunarráðstöfunum samkvæmt XIV. kafla laganna. Einnig hvílir sú skylda á sakborningi að koma fyrir dóm til að gefa skýrslu á rannsóknarstigi þegar svo stendur á sem í b-lið 1. mgr. 59. gr. segir. Í þeim tilvikum sem ákærði hefur komið fyrir þann dómara sem mun dæma í málinu og tekið afstöðu til sakarefnisins, eins og í máli þessu, er ekki unnt að færa ákærða fyrir dóm með valdi. Ákvæði 1. mgr. 166. gr. laga nr. 88/2008 styður þetta enn frekar en þar er sérstaklega kveðið á um rétt ákærða til að vera við aðalmeðferð máls en ekki er kveðið á um skyldu hans til að vera viðstaddur. Ákærði getur afsalað sér þessum rétti til að taka þátt í aðalmeðferð málsins. Kemur þetta t.d. fram í dómi Mannréttindadómstóls Evrópu í máli Hermi gegn Ítalíu frá 18. október 2006. Þá er þar sérstaklega tekið fram að sakborningur geti afsalað sér rétti sínum til að koma fyrir dóm án þess að til þess séu gerðar miklar formkröfur. Þannig er ekki unnt að líta svo á að ákærði þurfi að mæta við aðalmeðferð og lýsa því yfir að hann kjósi að neita réttar síns til að gefa ekki skýrslu, sbr. 2. mgr. 113. gr. laga nr. 88/2008.

Þegar litið er til alls framangreinds verður ekki annað séð en að sækjandi málsins eigi ekki annan kost í stöðunni en að boða ákærða til aðalmeðferðar í málinu til að gefa skýrslu, en kjósi hann að mæta ekki verður hann ekki þvingaður með valdi til að mæta. Er kröfu ákæruvaldsins um að ákærða verði gert að koma við aðalmeðferð málsins og gefa skýrslu því hafnað.

Úrskurð þennan kveður upp Sandra Baldvinsdóttir héraðsdómari.

Ú r s k u r ð a r o r ð:

Hafnað er kröfu ákæruvaldsins um að ákærða, X, verði gert að koma við aðalmeðferð málsins og gefa skýrslu.