Hæstiréttur íslands

Mál nr. 562/2009


Lykilorð

  • Kærumál
  • Vanreifun
  • Frávísunarúrskurður staðfestur


Fimmtudaginn 22

 

Fimmtudaginn 22. október 2009.

Nr. 562/2009.

Árni Benóný Sigurðsson og

FS13 ehf.

(Hróbjartur Jónatansson hrl.)

gegn

Ágústi Þórhallssyni

(enginn)

Hirti J. Hjartar

(Sigmundur Hannesson hrl.)

Standhóli ehf.

Róberti Melax og

(Einar Þór Sverrisson hrl.)

KPMG hf.

(Ólafur Eiríksson hrl.)

 

Kærumál. Vanreifun. Frávísunarúrskurður staðfestur.

 

Máli ÁB og F ehf. gegn ÁÞ o.fl var vísað frá héraðsdómi vegna vanreifunar. Í dómi Hæstaréttar var tekið fram að fallast yrði á með héraðsdómara að reifun málsins í stefnu væri verulegum annmörkum háð að því er varðaði skýrleika þeirra málsástæðna sem kröfur þeirra á hendur einstökum varnaraðilum væru reistar á. Þá skorti á að viðhlítandi sönnunargögn hafi verið lögð fram til stuðnings ýmsum meginatriðum í málatilbúnaði ÁB og F ehf. Var talið að þessara annmarka gætti í þeim mæli að ÁÞ o.fl. yrði ekki gert að una því að ÁB og F ehf. gæfist kostur á að ráða bót þar á undir frekari rekstri málsins. Var hinn kærði úrskurður því staðfestur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson og Hjördís Hákonardóttir og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 23. september 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 5. október sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 11. september 2009, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðilum var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðilar krefjast þess að hinum kærða úrskurði verði hrundið og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefjast þeir kærumálskostnaðar.

Varnaraðilarnir Hjörtur J. Hjartar og KPMG hf. krefjast þess að úrskurður héraðsdóms verði staðfestur og þeim dæmdur kærumálskostnaður.

Varnaraðilarnir Standhóll ehf. og Róbert Melax krefjast þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur um annað en málskostnað og þeim „dæmdur málskostnaður fyrir Hæstarétti að skaðlausu samkvæmt mati réttarins.“

Varnaraðilinn Ágúst Þórhallsson hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

Varnaraðilarnir Standhóll ehf. og Róbert Melax hafa ekki kært úrskurð héraðsdóms. Verður því ekki litið svo á að áðurgreint orðalag dómkrafna þeirra fyrir Hæstarétti feli í sér að leitað sé endurskoðunar á niðurstöðu hins kærða úrskurðar um málskostnað, enda kæmist slík krafa ekki að hér fyrir dómi án málskots af þeirra hendi.

Eins og lýst er í hinum kærða úrskurði höfðuðu sóknaraðilar mál þetta gegn varnaraðilum 23. apríl 2008, en einn varnaraðila, Standhóll ehf., höfðaði gagnsök, sem þingfest var á dómþingi 10. júní sama ár. Með hinum kærða úrskurði var málinu vísað frá dómi og tóku þær lyktir þess jafnframt sjálfkrafa til gagnsakarinnar. Fallast verður á með héraðsdómara að reifun málsins í stefnu sé af hendi sóknaraðila verulegum annmörkum háð að því er varðar skýrleika þeirra málsástæðna, sem kröfur þeirra á hendur einstökum varnaraðilum eru reistar á, auk þess sem á skortir að viðhlítandi sönnunargögn hafi verið lögð fram til stuðnings ýmsum meginatriðum í málatilbúnaði sóknaraðila. Þessara annmarka gætir í þeim mæli að varnaraðilum verður ekki gert að una því að sóknaraðilum gefist kostur á að ráða bót þar á undir frekari rekstri málsins. Samkvæmt því verður niðurstaða hins kærða úrskurðar staðfest.

Sóknaraðilum verður gert að greiða kærumálskostnað eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðilar, Árni Benóný Sigurðsson og FS13 ehf., greiði í sameiningu varnaraðilum Hirti J. Hjartar, Standhóli ehf., Róberti Melax og KPMG hf. hverjum fyrir sig 100.000 krónur í kærumálskostnað.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 11. september 2009.

Mál þetta, sem var tekið til úrskurðar 7. september sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Árna B. Sigurðssyni og FS13 ehf., báðum til heimilis að Fellsmúla 11, Reykjavík á hendur Ágústi Þórhallssyni, Háabergi 17, Hafnarfirði,  Hirti J. Hjartar, Fáfnisnesi 1, Reykjavík, Standhóli ehf., Stórhöfða 23, Reykjavík,  Róberti Melax, Bretlandi og KPMG hf., Borgartúni 27, Reykjavík með stefnu birtri  23. apríl 2008.

Dómkröfur stefnenda eru þessar:

1.        Að öllum stefndu verði gert að greiða stefnanda FS13 ehf., in solidum, € 2.312.398,24 (evrur),- auk dráttarvaxta skv.  1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu  sem hér segir;  af € 50.492,41 frá 12.12.2007 til 17.12.2007 en af €  520.798,61 frá þ.d. til 19.12.2007 en af € 658.815,32 frá þ.d. til 07.01.2008 en af € 1.312.398,24 frá þ.d. til þingfestingardags en af € 2.312.398,24 frá þ.d. til greiðsludags.

2.        Að stefnda KPMG hf. verði gert að greiða stefnanda FS13 ehf. € 307.840   og 2.940.000 kr. ásamt með dráttarvöxtum frá 1.1.2008  til greiðsludags.

3.        Að stefndu öðrum en Róberti Melax gert að greiða stefnanda Árna B. Sigurðssyni € 1.000.000 en til vara skaðabætur að álitum ásamt dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 1.1.2008 til greiðsludags en til þrautavara að viðurkennd verði bótaskylda stefndu, in solidum, gagnvart stefnanda.

4.        Að stefnda Róberti Melax verði gert að greiða stefnanda Árna B. Sigurðssyni € 2.169.000 en til vara skaðabætur að álitum ásamt dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 1.1.2008 til greiðsludags en til þrautavara að viðurkennd verði bótaskylda stefnda gagnvart stefnanda.

5.        Að auki er í öllum tilvikum krafist málskostnaðar úr hendi stefndu.

                Stefndu hafa allir gert sýknukröfu í málinu, auk þess sem stefndi, Standhóll ehf., hefur gert kröfu til að riftun dags. 14. desember 2007 verði staðfest með dómi.  Þá hefur stefndi, KPMG hf., krafist þess að kröfum stefnenda á hendur honum verði vísað frá dómi og honum tildæmdur málskostnaður úr hendi stefnenda.

                Í þessum þætti málsins er krafa stefnda, KPMG hf., um frávísun tekin til úrskurðar. 

Stefnendur hafna frávísunarkröfu stefndu og krefjast málskostnaðar úr hans hendi.

 Ágreiningsefni

                Mál þetta er tilkomið af viðskiptum stefnanda, Árna B. við stefndu, Róbert Melax og Standhól ehf., vegna fyrirhugaðrar stofnsetningar verksmiðju í Króatíu sem framleiða átti viðarkurl til iðnaðarbrennslu. Vegna þessa var þjónustusamningur gerður við KPMG hf. og CF Fyrirtækjasölu ehf. Stefndu, Ágúst og Hjörtur, munu hafa verið starfsmenn KPMG hf. eða/og CF Fyrirtækjasölu ehf. og Hjörtur auk þess fyrrum starfsmaður stefnanda FS13 ehf. Vegna samskipta málsaðila hafa gengið dómar í Héraðsdómi Reykjavíkur, sbr. dóma í málunum nr.  S-1489/2009 og E-3998/2008. 

Málsástæður og lagarök stefnda, KPMG hf., fyrir frávísun

Stefndi tekur í upphafi fram að mál þetta, auk annarra mála sem tengst hafa sama ágreiningi, beri keim af einkaréttarlegri deilu Árna B. og Róberts Melax. Upp hefur komið óleysanlegur ágreiningur milli fyrrum viðskiptafélaga, ágreiningur sem stefnda að ósekju er dregið inn í. Dómkröfur og málsástæður gagnvart stefnda bera keim af þessu, enda stendur að mati stefnda ekki steinn yfir steini í málatilbúnaði stefnenda gagnvart stefnda.

Bent er á að málsatvikum er lýst með ítarlegum hætti á 11 blaðsíðum. Málsástæður á hendur stefnda eru þó eingöngu útlistaðar í einni málsgrein, 7 línur, og með engum hætti reynt að tengja lýstum málsatvikum við málsástæður gagnvart stefnda. Telur stefnda að kröfur stefnenda séu verulega vanreifaðar og augljóslega í andstöðu við 80. grein laga nr. 91/1991, nánar tiltekið d. e. og g. liði greinarinnar.  Stefndi telur  ómögulegt að taka með eðlilegum hætti til varna í málinu.

Stefndi gerir eftirfarandi athugasemdir við málatilbúnað stefnenda:

§         Ljóst er af Samningi um þjónustu vegna sölu á hlut í FS13, sbr. dskj. nr. 3, að hlutverki stefnda í viðskiptum aðila lauk mörgum mánuðum áður en þau atvik gerðust sem stefnendur telja leiða til skaðabótaskyldu. Í engu er því lýst af hverju stefnendur telja að stefnda beri samt sem áður skaðabótaábyrgð gagnvart stefnendum á grundvelli þess þjónustusamnings. Engu broti á umræddum samningi er lýst, enda ekkert við þjónustu stefnda samkvæmt samningnum að athuga. Ekki er hægt að verjast kröfu er byggir á samningsbroti þegar samningsbrotinu er í engu lýst og slíkur málatilbúnaður uppfyllir ekki lágmarkskröfur réttarfars um skýran og glöggan málatilbúnað.

§         Það er ljóst að meðstefndi Ágúst átti hlut í meintri riftun á kaupum Árna B. á hlutafé í félaginu FS13 ehf.  Þar kom Ágúst fram fyrir hönd einkahlutafélagsins CF Fyrirtækjasala ehf., en hann er framkvæmdastjóri þess félags, prókúruhafi og meirihlutaeigandi. Í engu er lýst af hverju því félagi er ekki stefnt og af hverju það félag ber ekki vinnuveitendaábyrgð á verkum meðstefnda Ágústs. Er stefnda fyrirmunað að sjá hvernig það geti borið vinnuveitendaábyrgð á störfum meðstefnda Ágústs fyrir annað félag.

§         Krafa á grundvelli vinnuveitendaábyrgðar verður að byggjast á saknæmri háttsemi starfsmanns sem sannanlega var til þess fallin að valda tjóni. Til að skaðabótakrafa stofnist verða stefnendur að sýna fram á þátt umrædds starfsmanns í fjárhagslegu tjóni stefnenda. Orsakatengsl eru í engu rökstudd í stefnu, það er hvernig þáttur Ágústs orsakaði tjón stefnenda. Í engu er lýst eða færð rök fyrir mögulegum þætti meðstefnda Ágústs í millifærslu fjármuna og sviptingu viðskiptatækifæra. Í engu er rökstudd grandsemi Ágústs varðandi síðar tilkomnar millifærslur á fjármunum. Í engu er rökstutt eða því lýst hvaða stjórnendur stefnda það eru sem eiga að hafa gefið Ágústi fyrirmæli um að liðsinna meðstefnda Róberti. Vegna þessa er krafa byggð á vinnuveitendaábyrgð vanreifuð og ekki hægt að taka til varna gegn henni.

§         Krafa stefnenda byggist meðal annars á meintu tjóni króatísks félags, FS13 d.o.o., og millifærslum af reikningi þess félags yfir á reikninga félaga í eigu meðstefnda Róberts Melax. Tengsl stefnenda og umrædds króatísks félags eru alfarið ósönnuð, enda hafa ekki verið lögð fram nein gögn er sýna fram á tengslin, eignaraðild stefnenda eða hæfi þeirra til að ráða yfir umræddu félagi. Gögn á króatísku hafa ekki sönnunargildi fyrir íslenskum dómstóli nema einnig sé lögð fram þýðing löggilts skjalaþýðanda og staðfesting á gildi þeirra. Kröfur stefnenda, tengsl við meintan tjónþola og það hvernig íslenskt einkahlutafélag og einstaklingur verða fyrir tjóni vegna mögulegs tjóns króatísks félags eru alfarið ósannaðar. Kröfur byggðar á slíkum tengslum eru vanreifaðar og ekki hægt að taka til varna gegn þeim.

§         Aðalkrafa stefnanda, FS13 ehf., um greiðslu € 2.312.398,24, samanstendur meðal annars af millifærslu af reikningi FS13 ehf. inn á reikning meðstefnda Standhóls ehf., samtals að fjárhæð € 662.398,24. Í engu er útskýrt í stefnu í hverju ábyrgð stefnda eða meðstefnda, Ágústs, varðandi þá millifærslu er fólgin. Er því ekki hægt að taka til varna gegn þeirri kröfu.

§         Aðalkrafa stefnanda, FS13 ehf., um greiðslu € 2.312.398,24, samanstendur einnig af millifærslu af reikningi FS13 d.o.o. í PBZ bankanum í Zagreb, Króatíu, inn á reikning félags sem mun heita Ernir d.o.o. í Króatíu, auk þess sem hluti er fjárhæð sem ekki er vitað hvert fór. Í engu er útskýrt í stefnu í hverju ábyrgð stefnda eða meðstefnda Ágústs varðandi þær millifærslur er fólgin. Ekki er útskýrt hvernig stefnandi, FS13 ehf., getur átt kröfu um skaðabætur vegna mögulegs tjóns sem króatískt félag, FS13 d.o.o., kann að hafa orðið fyrir. Að auki er með engum hætti reynt að útskýra hvort stefnendur hafi með einhverjum hætti reynt að takmarka tjón sitt með því að krefjast endurgreiðslu þessara fjárhæða. Er krafan því vanreifuð.

§         Aðalkrafa stefnanda, FS13 ehf., um greiðslu € 2.312.398,24, samanstendur að lokum af kröfu vegna fjártjóns vegna eyðileggingar á viðskiptatækifæri í Króatíu, samtals að fjárhæð € 1.000.000. Í engu er útskýrt í stefnu í hverju ábyrgð stefnda eða meðstefnda Ágústs varðandi missi þess viðskiptatækifæris er fólgið. Því er að auki í engu lýst hvernig stefnandi, FS13 ehf., hefur orðið fyrir þessu fjártjóni, enda kemur það hvergi fram í gögnum málsins og því ekki haldið fram að það félag hafi leitað eftir viðskiptatækifæri í Króatíu eða orðið af því. Er krafan því vanreifuð.

§         Krafa um endurgreiðslu/skaðabætur vegna þóknunar er byggð á því að stefnda hafi fyrirgert rétti sínum til þóknunar. Það er með engu útskýrt í stefnu í hverju ætluð brot á þjónustusamningi voru fólgin, enda var þjónustu samkvæmt honum lokið löngu fyrir deilur aðila. Hvorki eru lögð fram gögn til stuðnings fjárkröfunni né til að sýna fram á að stefnda hafi fengið þá greiðslu sem fullyrt er. Hið rétta er að viðtakandi greiðslu var ekki stefnda heldur CF Fyrirtækjasala ehf., auk þess sem kröfufjárhæð er hærri en umrædd greiðsla og í öðrum gjaldmiðli en greitt var. Að lokum er í engu útskýrt hvernig millifærsla hinn 7. desember 2007 tengist umræddum þjónustusamningi, sem hún gerir ekki. Er krafan því vanreifuð.

§         Krafa um endurgreiðslu/skaðabætur vegna þóknunar er að auki óskýr, óviss og getur aldrei orðið grundvöllur dómsorðs, líkt og gert er að skilyrði í einkamálaréttarfari. Má nefna að krafist er tvenns konar greiðslu í mismunandi mynt í sömu dómkröfunni. Er krafan því vanreifuð.

§         Í dómkröfukafla er stefnukrafa Árna B um € 1.000.000 sögð vera krafa um skaðabætur að framangreindri fjárhæð, til vara skaðabætur að álitum með dráttarvöxtum og til þrautavara krafa um viðurkenningu á bótaskyldu. Í umfjöllun um kröfugerð í stefnu er krafan aftur á móti sundurliðuð sem skaðabætur vegna eyðileggingar á viðskiptatækifæri, missis arðs, útlagðs kostnaðar og fleira. Ekki er einu orði minnst á skaðabætur að álitum eða rök fyrir þeim eða viðurkenningu á bótaskyldu. Slík vanreifun á kröfugerð, skortur á rökstuðningi fyrir dómkröfum og almenn óvissa um raunverulegar kröfur Árna B gerir það að verkum að krafan er vanreifuð og ber að vísa henni frá dómi.

§         Eins og fyrr segir virðist krafa Árna B vera um skaðabætur vegna eyðileggingar á viðskiptatækifæri, missis arðs, útlagðs kostnaðar og fleira, samtals að fjárhæð € 1.000.000. Í engu er útskýrt hvernig stefnda getur borið ábyrgð á framangreindu. Í engu er reynt að rökstyðja kröfufjárhæð, í hverju eyðileggingin er fólgin, hvaða viðskiptatækifæri hafi farið forgörðum, hvaða arðs var að vænta, hvaða útlagðan kostnað Árni B lagði út í eða af hverju hann eigi umrædda kröfu en ekki hið króatíska félag sem sannanlega var sá lögaðili sem stóð í umræddum viðskiptum. Með engum hætti er hægt að taka til varna gegn þessari kröfu og er hún því vanreifuð.

§         Krafist er skaðabóta til handa Árna B að álitum eða viðurkenningar á skaðabótaskyldu stefnda gagnvart honum án þess að einu orði sé eytt í að fjalla um þá kröfu, sanna meinta skaðabótakröfu eða sýna fram á tjón stefnanda, Árna B. Ekki er hægt að taka til varna gagnvart kröfum sem í engu eru útskýrðar eða rökstuddar í stefnu.

§         Krafa um dráttarvexti í dómkröfum nr. 1 og 2 er vanreifuð, enda ekki vísað til lagaákvæða henni til stuðnings. Dráttarvaxtakrafan er þannig ekki mörkuð nánar með því að tilgreina ákveðinn vaxtafót eða með vísun í tiltekin ákvæði laga nr. 38/2001. Fullnægir hún því ekki skilyrðum d-liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991, sbr. meðal annars dóma Hæstaréttar í málum nr. 207/2007 og 238/2007.

Með vísan til framanritaðs, sem þó sé ekki tæmandi, telur stefndi að  málatilbúnaður stefnenda sé svo meingallaður að með engu móti sé hægt að ætlast til þess að stefnda sé gert að taka til efnislegra varna á grundvelli hans. Dómkröfur eru vanreifaðar og í engu rökstuddar. Aðild til sóknar að teknu tilliti til krafna er svo ruglingsleg að það ætti að mati stefnda að hafa í för með sér frávísun í stað sýknu. Engin tengsl eru á milli kröfugerðar og málsástæðna gagnvart stefnda, auk þess sem málsástæður gagnvart stefnda eru ekkert rökstuddar.

Að mati stefnda er málatilbúnaður stefnenda hvorki skýr né glöggur, í miklu ósamræmi við þær kröfur sem gerðar eru í 80. gr. laga nr. 91/1991 og geta ekki haft annað en frávísun á öllum kröfum gagnvart stefnda í för með sér, enda ekki hægt að bæta úr þeim undir rekstri málsins.

Málsástæður og lagarök stefnenda gegn frávísun

                Stefnendur hafna frávísunarkröfu stefndu og telja að þau atriði er þeir byggja á varði efnisatriði málsins sem gerð verður grein fyrir á síðari stigum þess.

                Stefnendur telja kröfugerðina skýra og í samræmi við d- lið 80. gr. eml.  Málsástæður gagnvart stefnda KPMG hf. séu tvær. Þær komi greinilega fram í stefnu málsins og séu stuttorðar og gagnorðar og ekkert fari á milli mála hvert sakarefnið sé. Þær fullnægi því skilyrðum e. liðar 80. gr. eml.

                Stefnendur taka fram að Ágúst Þórhallsson sé starfsmaður stefnda, KPMG hf.,  sem beri vinnuveitendaábyrgð á störfum hans.  Hann mótmælir því að hann sé starfsmaður CF fyrirtækjasölu ehf. og telur ekki þörf á aðild þess félags að málinu. Hann bendir á að fyrirliggjandi þjónustusamningur sé einungis undirritaður af Ágústi Þórhallssyni og að hann hafi verið í sérstökum ráðgjafarhóp KPMG hf. vegna viðskiptanna.

                Ítrekað er að þær málsástæður sem stefndi byggir frávísun sína á séu efnislegar og leiði ekki til frávísunar málsins, þar sem frekari skýringar geti komist að síðar.  Hann tekur fram að FS13 ehf. sé einkaeigandi FS13 d.o.o.

                Niðurstaða

                Í máli þessu er fimm aðilum stefnt til greiðslu skaðabóta. Málsatvik eru rakin á ellefu blaðsíðum í stefnu. Í kaflanum um málsástæður er gerð grein fyrir þeim málsástæðum sem byggt er á gagnvart stefndu.  Í stefnu segir orðrétt:

                „Gagnvart stefnda KPMG er byggt á því, í fyrsta lagi,  að stefndi Ágúst sé starfsmaður KPMG og hafi kom fram sem slíkur gagnvart fyrirtækjaskrá RSK við blekkingarnar og stjórnendur KPMG hafi gefið Ágústi fyrirmæli um að liðsinna stefnda Róberti við að brjóta með ólögmætum hætti á hagsmunum FS13 ehf. og Árna B. og svipta FS13 félögin fjármunum sínum, án undangengins dómsmáls um riftun á fjárfestingarsamningi hans og Árna B. Sigurðssonar f.h. FS13 ehf. Í öðru lagi, er byggt á því að KPMG hafi vanefnt þjónustusamninginn, brotið trúnað gagnvart Árna B. og félaginu og valdið tjóni og beri því að greiða skaðabætur til stefnenda.“ 

Á sama hátt liggja fyrir í stefnu þær málsstæður sem byggt er á gagnvart öðrum stefndu.  Er þeirra getið í stuttu máli, þ.e. í sjö og uppí þrettán línur hjá hverjum stefnda. Síðan eru dómkröfurnar settar fram í fimm töluliðum og sundurgreint að hverjum hver einstök krafa beinist. Aðrir stefndu en KPMG hf. hafa ekki gert kröfu um frávísun málsins, en komið með ábendingar um að málatilbúnaður stefnenda sé vanreifaður og gæti varðað frávísun ex officio. 

                Stefnendur málsins eru Árni B. Sigurðsson og FS13 ehf.  Í sundurliðun á fyrstu dómkröfu málsins, þar sem gerð er sú krafa að stefndu greiði stefnanda FS13 ehf. in solidum € 2.312.398,24, kemur fram að af reikningi FS13 ehf. í Glitni hafi verið teknar € 662.398,24 og af reikningi FS13 d.o.o. í Króatíu hafi verið teknar € 650.000.  Hér er um króatískt einkahlutafélag að ræða og engin gögn hafa verið lögð fram er sýna fram á tengslin, eignaraðild stefnenda eða hæfi þeirra til að ráða yfir greindu félagi. Þá eru skjöl lögð fram á erlendri tungu án þess að íslensk þýðing fylgi og er það í andstöðu við 10. gr. eml.  Því er hér um vanreifun til sóknar að ræða.

                Stefnendur hafa lagt fram þjónustusamning frá 16. mars 2007 og byggja á honum gagnvart stefnda, KPMG hf. Samningur þessi er gerður á milli fyrirtækjasviðs KPMG hf. og CP Fyrirtækjasölu ehf. annars vegar og FS13 ehf. hins vegar. Hann er einungis undirritaður af stefnda, Ágústi Þórhallssyni, sem undirritar hann sem lögfræðingur og löggiltur fasteignasali. Undirritun þessa verður að skilja á þann veg að Ágúst sé að undirrita samninginn fyrir hönd CP Fyrirtækjasölu ehf., en því félagi er ekki stefnt í máli þessu.  Stefnendur byggja á því gagnvart stefnda, KPMG hf., að þeir hafi „vanefnt þjónustusamninginn, brotið trúnað gagnvart Árna B. og félaginu og valdið tjóni“ án þess að vísa til þess á hvern hátt samningurinn hafi verið brotinn.  Málsástæður stefnenda gagnvart stefndu eru því vanreifaðar.

                 Fyrsta dómkrafa stefnenda beinist að öllum stefndu og byggist á ætlaðri ólögmætri töku á fé af bankareikningum FS13 ehf. og FS13 d.o.o.  Gagnvart stefnda, KPMG hf., segir „að stefndi Ágúst sé starfsmaður KPMG og hafi kom fram sem slíkur gagnvart fyrirtækjaskrá RSK við blekkingarnar og stjórnendur KPMG hafi gefið Ágústi fyrirmæli um að liðsinna stefnda Róberti við að brjóta með ólögmætum hætti á  hagsmunum FS13 ehf. og Árna B. og svipta FS13 félögin fjármunum sínum, án undangengins dómsmáls um riftun á fjárfestingarsamningi hans og Árna B. Sigurðssonar f.h. FS13 ehf.“ Hér er um órökstuddar fullyrðingar að ræða. Það vantar að gera grein fyrir því hvernig atburðarásin var, þ.e. hvernig háttsemi þessi tengist úttekt af bankareikningum og hvað styður það.  Þá er þáttur stjórnenda KPMG hf. vanreifaður og hvaða háttsemi þeirra valdi bótaskyldu. Þá er vinnuveitendaábyrgðin í engu reifuð. Sé af hálfu stefnenda byggt á dómi Héraðsdóms í málinu nr. S-1489/2009 þarf að tilgreina það og hvernig refsiverð háttsemi skapi KPMG hf. skaðabótaábyrgð. Á það einnig við varðandi stefndu Ágúst og Hjört. Hér er því um vanreifun að ræða.

                Stefnendur gera kröfu um greiðslu á fjártjóni vegna eyðileggingar á viðskiptatækifærum í Króatíu, € 1.000.000.  Ekki er reifað um hvaða viðskiptatækifæri sé að ræða né gögn lögð fram þar að lútandi. Krafan er því í engu rökstudd.

                Önnur dómkrafan beinist að KPMG hf.  Þar er krafist greiðslu á € 307.840 og 2.940.375 kr. ásamt dráttarvöxtum frá 1.1. 2008 til greiðsludags.  Hér er ekki vísað til tiltekins vaxtafótar né lagaákvæðis og fullnægir krafan því ekki skilyrðum d. liðar 80. gr. eml. Ekki eru lögð fram gögn til stuðnings kröfunni né sýnt fram á að stefndi, KPMG hf., hafi þegið greiðslurnar. Krafa þessi er því vanreifuð.

                Þriðja dómkrafan er krafa stefnanda Árna B. og beinist hún að öðrum stefndu en stefnda, Róberti, og er að fjárhæð € 1.000.000.  Ekkert er vikið að henni í kaflanum um málsástæður en í sundurliðun dómkrafna segir að krafan sé vegna eyðileggingar á viðskiptatækifæri, missis arðs, útlagðs kostnaðar og fleira.  Engin gögn fylgja kröfunni né frekari umfjöllun og er hún vanreifuð. Í þessum kröfulið er til vara gerð krafa um bætur að álitum og til þrautavara er krafist viðurkenningar á bótaskyldu stefndu, in solidum, gagnvart stefnanda.  Þessar kröfur eru í engu rökstuddar.

                Í fjórða lagi krefst stefnandi Árni B þess að stefndi, Róbert, greiði honum € 2.169.000 en til vara krefst hann bóta að álitum og til þrautavara viðurkenningar á bótaskyldu. Krafan byggist á missi umboðslauna af vélum skv. samningi við 3D Tech € 1.169.000 og € 1.000.000 vegna fjártjóns vegna brota á „Non-Compete Agreement“, ólögmætrar hagnýtingar á viðskiptaupplýsingum og eyðileggingar á viðskiptatækifæri Árna B./FS 13 ehf. í Króatíu. Kröfur þessar eru ekki studdar neinum gögnum og vanreifaðar af hálfu stefnanda.

                Eins og að framan greinir skortir verulega á að stefnan uppfylli skilyrði d. og e. liðar 80. gr. eml. og fullnægjandi gögn hafa ekki verið lögð fram af hálfu stefnenda málinu til stuðnings.  Í stefnu eru heldur ekki tilgreind þau gögn sem stefnendur telja sig enn þurfa að afla svo sem áskilið er í g. lið 80. gr. eml. Slíkt ætti ekki að vera vandkvæðum bundið fyrir stefnendur.  Dómurinn telur að of mikið skorti hér á sönnun fyrir kröfum stefnenda og gagnaframlagningu og að ekki sé forsvaranlegt að stefnendur leggi fram grundvallargögn undir rekstri málsins. Það er ekki bara í andstöðu við nefnt ákvæði g. liðar 80. gr., heldur veldur það stefndu einnig erfiðleikum til varna í málinu.

Þá eru málsástæður stefnenda á hendur stefndu vanreifaðar. Málavaxta er getið á ellefu blaðsíðum en málsástæðna í nokkrum línum. Skortir á að gerð sé fullnægjandi grein fyrir þeim og á hvaða málsatvikum þær byggjast, hvaða gögn liggi þeim til grundvallar og hvernig málsástæðurnar  renni stoðum undir dómkröfurnar.  Þá skortir einnig að grein sé gerð fyrir orsakatengslum, þ.e. hvernig einstök háttsemi stefndu hafi valdið stefnendum tjóni. Hér dugar ekki að fyrir liggi dómur í sakamáli, heldur verður að reifa á hvaða ólögmætu og refsiverðu háttsemi sé byggt.

                Með vísan til þess sem að framan greinir er máli þessu vísað frá dómi að kröfu stefnda, KPMG hf., en ex officio varðandi aðra stefndu. Stefnendur greiði stefnda, KPMG hf., 300.000 kr. í málskostnað.  Eftir atvikum þykir rétt að fella málskostnað niður varðandi aðra stefndu.

                Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.

ÚRSKURÐARORÐ

                Málinu er vísað frá dómi. 

Stefnendur, Árni B. Sigurðsson og FS13 ehf., greiði stefnda, KPMG hf., 300.000 kr. í málskostnað. Málskostnaður annarra stefndu fellur niður.