Hæstiréttur íslands
Mál nr. 67/2005
Lykilorð
- Flutningssamningur
- Fyrning
|
|
Fimmtudaginn 29. september 2005. |
|
Nr. 67/2005. |
Friðgerður Pétursdóttir(Þorbjörg I. Jónsdóttir hrl.) gegn Samskipum hf. (Lilja Jónasdóttir hrl.) og gagnsök |
Flutningssamningur. Fyrning.
F krafði S um skaðabætur vegna tjóns, sem hún taldi S hafa valdið sér með því að skila sér ekki á réttan afhendingarstað vöru, sem S tók að sér að flytja til landsins. Talið var, að krafa F sætti fyrningu samkvæmt 7. tl. 1. mgr. 215. gr. siglingalaga. Samkvæmt dómi Hæstaréttar 6. júní 2002, þar sem leyst var úr ágreiningi milli aðilanna um efni skuldbindinga S um skil á umræddri vöru, hafi S borið að skila vörunni á Ólafsvík, þar sem F hafði starfsstöð. S hafi borið að efna þessa skyldu í beinu framhaldi af komu vörunnar til landsins haustið 1999. Fyrningarfrestur samkvæmt tilvitnuðu lagaákvæði hafi þá byrjað að líða og því hafi krafan verið löngu fyrnd þegar F höfðaði málið 10. desember 2003. Þegar af þessari ástæðu var S sýknað af kröfu F.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 18. febrúar 2005. Hún krefst þess að gagnáfrýjandi verði dæmdur til að greiða sér 6.949.994 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. október 2003 til greiðsludags. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi fyrir sitt leyti 25. febrúar 2005. Hann krefst staðfestingar héraðsdóms að öðru leyti en því, að aðaláfrýjandi verði dæmd til að greiða sér málskostnað í héraði. Þá krefst hann málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Fallist er á þá niðurstöðu í hinum áfrýjaða dómi, að krafa aðaláfrýjanda sæti fyrningu samkvæmt 7. tl. 1. mgr. 215. gr. siglingalaga nr. 34/1985. Upphafstími fyrningarfrests samkvæmt lagaákvæðinu er sá tími er vöru var skilað eða henni bar að skila. Með dómi Hæstaréttar 6. júní 2002, sem birtur er á bls. 2114 í dómasafni réttarins það ár, var leyst úr ágreiningi milli aðilanna um efni skuldbindinga gagnáfrýjanda um skil á vöru þeirri sem mál þetta varðar. Þar var lagt til grundvallar að gagnáfrýjanda hafi borið að skila vörunni á Ólafsvík, þar sem aðaláfrýjandi hefur starfsstöð. Er augljóst af dóminum að gagnáfrýjanda bar að efna þessa skyldu í beinu framhaldi af komu vörunnar til landsins haustið 1999. Fyrningarfrestur samkvæmt tilvitnuðu lagaákvæði byrjaði þá að líða og var krafan því löngu fyrnd, þegar aðaláfrýjandi höfðaði mál þetta 10. desember 2003. Þegar af þessari ástæðu verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur.
Samkvæmt þessari niðurstöðu verður aðaláfrýjandi dæmd til að greiða gagnáfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti svo sem í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður um annað en málskostnað.
Aðaláfrýjandi, Friðgerður Pétursdóttir, greiði gagnáfrýjanda, Samskipum hf., 700.000 krónur samtals í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 1. desember 2004.
I
Mál þetta, sem dómtekið var hinn 14. október sl., að loknum munnlegum málflutningi, var höfðað fyrir dómþinginu af Friðgerði Pétursdóttur, Brautarholti 26, Ólafsvík, á hendur Samskipum hf., Holtabakka við Holtaveg í Reykjavík, með stefnu áritaðri um birtingu hinn 10. desember sl.
Dómkröfur stefnanda eru þær, að stefndi verði dæmdur til þess að greiða stefnanda 6.949.994 krónur, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt lögum nr. 38/2001, frá 1. október 2003 til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda, samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi.
Dómkröfur stefnda eru þær aðallega, að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda, en til vara að dómkröfurnar verði lækkaðar verulega. Þá krefst stefndi málskostnaðar, að skaðlausu, úr hendi stefnanda.
II
Málavextir eru þeir, að stefnandi keypti fjóra gáma af sandsíli til beitu af seljanda í Árósum í Danmörku í ágúst 1999. Gámarnir áttu að vera u.þ.b. 25 tonn að þyngd hver, eða alls 100 tonn og voru keyptir með skilmálunum „Freight”. Stefnandi kveðst hafa ætlað að nota vöruna bæði sem beitu í eigin útgerð og jafnvel til endursölu ef til kæmi. Seljandi vörunnar samdi við stefnanda um að annast flutninginn og haustið 1999 komu gámarnir fjórir með skipum stefnda til Reykjavíkur, þar sem þeim var skipað upp á starfssvæði stefnda.
Ágreiningur kom upp á milli stefnanda og stefnda um það hvort stefnanda bæri greiðsluskylda vegna kostnaðar við flutning gámanna til Ólafsvíkur. Með dómi Hæstaréttar Íslands hinn 6. júní 2002 var stefnandi sýknaður af kröfu stefnda um greiðslu kostnaðar af geymslu vörunnar hjá stefnda, þar sem stefnda hefði borið að flytja vöruna til Ólafsvíkur.
Eftir uppkvaðningu dóms Hæstaréttar leitaði lögmaður stefnanda eftir samkomulagi við stefnda um mat á ástandi sandsílisins, sem þá hafði verið í vörslum stefnda í tæp þrjú ár. Lagði lögmaðurinn til, að farmurinn yrði látinn vera áfram í Reykjavík, þar til matsmenn hefðu skoðað hann, til að spara hugsanlegan kostnað af för matsmanna til Ólafsvíkur.
Með bréfi, dagsettu 1. nóvember 2002, óskaði stefnandi eftir dómkvaðningu matsmanna og var málið tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur hinn 29. nóvember 2002, þar sem dómkvaddir voru matsmenn til að meta ástand sandsílisins. Matsgerð þeirra er dagsett 31. mars 2003 og var niðurstaða hennar sú: „Undirritaðir matsmenn framkvæmdu ýtarlegar skoðanir og prófanir á vörunni. Niðurstaða skoðunar bendir til þess að gæðum sílisins hafi hrakað við geymslu í frystigeymslu í rúm 3 ár og að það sé ekki hæft til beitu svo sem það var keypt til. Ástæður þess teljum við vera tvennskonar. Annars vegar var gæðum hráefnis í sendingu frá 14-9-1999 verulega ábótavant í upphafi og á mörkum þess að vera hæft til manneldis (TVN gildi hátt), einnig er töluvert um sjálfmeltingu í síli úr þeirri sendingu. Þá er fjöldi síla pr. kg í sendingunni mjög hár og skv. upplýsingum kaupenda mundi enginn útgerðarmaður kaupa síli af þessari stærð. Því teljum við síli úr þeirri sendingu ekki hafa verið hæft til beitu í dag svo sem það var keypt til frá upphafi. Hins vegar benda niðurstöður skynmats til kynna að sílið sé þránað. Gæði hráefnis í sendingu frá 24-8-1999 er rétt undir mörkum og við geymslu hefur gæðum þess hrakað enn meira. Stærð þessa sílis er einnig í lægri kantinum. Teljum við síli úr þeirri sendingu hafa verið hæft til beitu í upphafi en ekki nú eftir rúmlega 3ja ára geymslu.”
Með bréfi lögmanns stefnanda, dagsettu 3. júlí 2003, var gerð krafa um að stefndi greiddi stefnanda skaðabætur. Með bréfi lögmanns stefnanda, dagsettu 25. september 2003, var skaðabótakrafan sundurliðuð. Stefndi hefur hafnað greiðslu skaðabóta og jafnframt krafið um geymslugjöld vegna vörunnar frá uppkvaðningu Hæstaréttardóms og þar til varan var eyðilögð í ágúst 2003, með samkomulagi beggja aðila.
III
Stefnandi byggir kröfur sínar á því, að stefndi hafi valdið henni tjóni með saknæmum og ólögmætum hætti. Stefndi hafi haldið vöru stefnanda, um 100 tonnum af sandsíli í vörugeymslum sínum í svo langan tíma að varan hafi orðið ónýt og því ekki unnt að nota hana sem beitu eins og til hafi staðið. Í matsgerð dómkvaddra matsmanna komi fram að gæðum vörunnar hafi hrakað svo á þeim tíma sem hún hafi verið í vörslum stefnda að hún sé ekki nýtanleg sem beita og þá skipti ekki máli vangaveltur í matsgerð um hvort öll varan hafi í upphafi verið í æskilegu ástandi til beitu. Í upphafi hafi varan öll verið nýtanleg sem beita, en stefnandi hafi langa reynslu af notkun sams konar vöru í eigin útgerð.
Byggir stefnandi kröfu sína um skaðabætur á því, að stefndi hafi með ólögmætum hætti haldið vöru stefnanda svo lengi að tjón hafi hlotist af. Samkvæmt dómi Hæstaréttar frá 6. júní 2002, í máli aðila, hafi því verið slegið föstu að stefnandi bæri ekki greiðsluskyldu og því hafi stefndi átt að koma allri vörunni til hennar án tafar eftir komuna til landsins. Það að stefndi hafi vanrækt þá skyldu sína hafi valdið því að varan eyðilagðist og þar af leiðandi beri stefnda að greiða bætur. Stefnandi byggir og á því, að tjónið hafi verið fyrirsjáanlegt vegna eðlis vörunnar og því hafi stefnda borið sérstök varúðarskylda við geymslu hennar.
Stefnanda hafi ekki verið gefinn kostur á að fá sandsílið afhent frá stefnda, þar sem nánast strax eftir komuna til landsins hafi fallið á það geymslukostnaður, sem stefnanda hafi verið tilkynnt að yrði að greiða áður en varan væri afhent. Stefndi hafi vanrækt skyldu sína til að flytja vöruna alla leið á umsaminn afhendingarstað, eða til Ólafsvíkur. Áhættan á geymslu vörunnar hvíli þar af leiðandi alfarið á stefnda og þær skemmdir sem urðu á vörunni á geymslutímanum. Ef stefndi hefði viljað afsala sér ábyrgð á geymslu vörunnar hefði hann átt að koma henni til stefnanda. Stefndi hafi ekki kosið að gera það og þar af leiðandi beri hann óskerta bótaábyrgð á öllu tjóni stefnanda sem orðið hafi vegna þess að hún hafi ekki fengið vöruna afhenta.
Stefnandi byggir á því, að þrátt fyrir að hagstæðara hafi verið fyrir báða aðila að varan væri áfram í vörslu stefnda eftir uppkvaðningu dóms Hæstaréttar, til að hún væri tiltæk fyrir matsmenn, sé ekki þar með sagt að stefnandi hafi tekið á sig skyldu til að greiða fyrir geymslu hennar frekar en áður. Þar af leiðandi geti stefndi ekki haldið áfram að beina að henni kröfum vegna geymslu vörunnar frá og með júní 2002. Stefnandi hafi aldrei samþykkt að greiða fyrir slíkan kostnað og beri þar af leiðandi ekki skylda til greiðslu.
Stefnandi sundurliðar skaðabótakröfu sína með eftirgreindum hætti í stefnu:
Innkaupsverð 100 tonna af sandsíli kr. 4.773.880
Verðhækkun á innkaupsverði, tímabilið 30.08.99-30.09.03 kr. 927.224
Kostnaður af vörugjaldi, afgreiðslugjaldi og uppskipun kr. 208.344
Verðhækkun á innkaupsverði, tímabilið 30.08.99-30.09.03 kr. 40.656
Bætur vegna afnotamissis kr. 1.000.000
Samtals kr. 6.949.994
Stefnandi telur bótaskyldu stefnda ná til alls þess kostnaðar, sem til hafi fallið við innkaup vörunnar svo og annars tjóns, sem hún hafi orðið fyrir vegna þess að hún fékk ekki vöruna afhenta. Stefnandi hafi ætlað að nýta vöruna í eigin rekstur og hafi því reksturinn tafist vegna þess að stefnandi hafi ekki fengið vöruna afhenta, sem leitt hafi til óþæginda og tekjutaps, sem einnig sé reiknað inn í kröfufjárhæðina. Stefnandi kveður fjárhæð bótakröfu vegna innkaupsverðs sandsílis vera þannig fundna, að innkaupsverðið sé umreiknað í íslenskar krónur miðað við gengi í ágúst 1999 og sú fjárhæð sé hækkuð í samræmi við verðlagsbreytingu á tímabilinu 30. ágúst 1999 til 30. september 2003, í samræmi við breytingar á neysluvísitölu. Fjárhæð bótakröfu vegna affermingar vörunnar hér á landi, svo sem vörugjald, afgreiðslugjald og uppskipun, samkvæmt framlögðum reikningi, sé hækkuð í samræmi við verðlagsbreytingar á tímabilinu frá 30. ágúst 1999 til 30. september 2003. Krafa vegna afnotamissis, sé vegna þess tjóns sem stefnandi hafi orðið fyrir, þar sem varan hafi ekki nýst henni í eigin rekstri eins og til hafi staðið og hafi hún orðið fyrir rekstrartöfum vegna þess, auk þess sem hún hafi gert ráð fyrir því í upphafi að selja hluta vörunnar með álagningu.
Um lagarök vísar stefnandi til meginreglna skaðabótaréttar, sem og samninga- og kröfurétttar.
Kröfu um dráttarvexti byggir stefnandi á lögum nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu.
Kröfu um málflutningsþóknun byggir stefnandi á XX. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.
IV
Stefndi byggir sýknukröfu sína á því, að ósannað sé, að stefnandi hafi orðið fyrir tjóni, sem stefndi geti borið ábyrgð á. Eiginmaður stefnanda hafi skoðað vöruna ásamt lögmanni stefnanda í maí 2000. Hafi þeir talið, að varan væri ónothæf til beitu. Einnig liggur fyrir að kaup Fiskmarkaðar Snæfellsness hf. á sandsílum frá Danmörku af stefnanda í lok árs 1999 hafi gengið til baka, þar sem varan hafi ekki staðist þær kröfur sem gerðar hafi verið til hennar, þ.e. að stærðin hafi m.a. annars ekki verið nægjanleg. Þá hafi einnig komið fram í vitnaleiðslum í fyrrgreindu máli að stefnandi hafi komist að einhvers konar samkomulagi við hinn danska framleiðanda um að henni yrði bætt það tjón, sem hún hefði orðið fyrir við það að sílið hafi verið ónothæft. Samkvæmt niðurstöðu hinna dómkvöddu matsmanna komi fram, að gæðum hráefnisins í sendingu 14. september 1999 hafi verið verulega ábótavant í upphafi. Kemur einnig fram að fjöldi síla pr. kíló í sendingu hafi verið mjög hár og samkvæmt upplýsingum kaupenda myndi enginn útgerðarmaður kaupa síli af þessari stærð. Einnig komi fram, að stærð sílis í sendingu frá 24. ágúst 1999 sé í lægri kantinum og sé því verulega ólíklegt að stefnandi hefði fundið kaupanda að þeim varningi. Þannig telur stefndi, að ekki séu orsakatengsl á milli geymslu vörunnar hjá stefnda og meints tjóns stefnanda né að meint tjón hans sé sennileg afleiðing af geymslu hráefnisins hjá stefnda.
Stefndi byggir sýknukröfu sína og á því, að stefnandi beri sjálf ábyrgð á meintu tjóni sínu. Stefnandi hafi vel vitað af því, að varan væri komin til landsins og væri staðsett í geymslu stefnda. Stefnandi sé útgerðarmaður og henni hljóti því að hafa verið ljóst að hætta væri á því, að beitusílið skemmdist ef það væri of lengi í geymslu, enda viðurkenni hún í stefnu að hafa langa reynslu af notkun sams konar vöru í útgerð sinni. Þetta sjáist best af því, að þegar fyrrgreindur dómur Hæstaréttar hafi verið kveðinn upp hafi stefnandi strax hugað að því að dómkveðja matsmenn til þess að meta hvort sílið væri ónýtt. Engu sé líkara en að stefnandi hafi hreinlega verið að bíða eftir því að sílið yrði ónýtt í vörslum stefnda.
Stefndi kveður það óskiljanlegt að stefnandi hafi ekkert aðhafst til þess að fá vöruna afhenta, sérstaklega í ljósi þess, að nú telji stefnandi að tjón hennar af því að fá vöruna ekki afhenta nemi 1.000.000 króna. Vegna þessa aðgerðarleysis telur stefndi að stefnandi beri sjálf ábyrgð á meintu tjóni sínu.
Af matsgerð megi ráða, að ástæða þess að hluti sílisins skemmdist, sem ekki hafi verið ónýtur þegar hann kom í hendur stefnda, hafi verið sú að hann hefði verið of lengi í geymslu. Matsmennirnir taki sérstaklega fram, að svo virðist sem hitastig hafi verið stöðugt í frystigeymslum, þannig að ekkert bendi til að meint tjón hafi orsakast af slæmum aðstæðum í geymslu stefnda.
Stefndi mótmælir því sérstaklega, sem fram komi í stefnu, að stefnanda hafi verið tilkynnt að hún fengi ekki vöruna afhenta nema hún greiddi áfallinn kostnað. Hið rétta sé, að stefnandi hafi aldrei farið þess á leit, hvorki formlega né með öðrum hætti, að fá gámana afhenta án þess að greiða umrædd geymslugjöld. Telur stefndi að stefnandi hafi ekki haft áhuga á því að fá vöruna afhenta vegna þess að henni hafi verið það ljóst að varan uppfyllti ekki þær kröfur, sem gerðar séu til hráefnis af þessu tagi og þeir samningar sem hún hafi vonast til að gengju eftir varðandi sölu á hráefninu hafi gengið til baka vegna lélegs ástands og smæðar sílisins.
Með því að krefja stefnda strax um afhendingu vörunnar, eftir atvikum með því að greiða flutning hennar til Ólafsvíkur, með fyrirvara um endurkröfu síðar, eða með öðrum hætti, í ljósi vitneskju um eðli hráefnisins, hefði stefnandi getað komið í veg fyrir, eða í það minnsta takmarkað tjón sitt. Hefði henni einnig borið að upplýsa stefndu um geymsluþol hráefnisins í ljósi reynslu sinnar af meðhöndlun sambærilegs hráefnis. Þar sem stefnandi hafi ekki sinnt þeirri skyldu sinni til að takmarka tjón sitt beri að sýkna stefnda af kröfum stefnanda.
Stefndi byggir sýknukröfu sína og á því, að krafa stefnanda sé fyrnd. Farmurinn hafi komið til landsins í ágúst 1999. Samkvæmt niðurstöðu Hæstaréttar í fyrrgreindum dómi hafi stefnda borið að skila vörunni til Ólafsvíkur. Samkvæmt því séu nú liðin rúm fjögur ár síðan stefnda hafi borið að skila vörunni. Krafa stefnanda sé krafa um skaðabætur vegna meints tjóns sem orðið hafi meðan farmurinn hafi verið í vörslum farmflytjanda, sbr. 1. mgr. 68. gr. siglingalaga nr. 34/1985. Samkvæmt 7. tl. 215. gr. laganna fyrnist slíkar kröfur innan eins árs frá því að vöru hafi verið skilað eða borið hafi að skila henni.
Stefndi hefur og uppi gagnkröfu til skuldajafnaðar. Krefst stefndi þess, að kröfu hans um geymslugjöld verði skuldajafnað frá þeim degi er lögmaður stefnanda hafi sérstaklega óskað eftir því, að stefndi geymdi sílið. Stefnandi hafi ekki getað búist við því, að stefndi geymdi vöruna án þess að taka fyrir það greiðslu, enda felist atvinnurekstur stefnda m.a. í því að geyma vörur, fyrir þá sem á slíkri þjónustu þurfi að halda. Fullyrðir stefndi, að hann hefði ekki samþykkt að geyma umræddar vörur að öðrum kosti, þar sem umræddir frystigámar hafi þurft að vera tengdir flóknu rafmagnskerfi og hafi stefndi þannig haft töluverðan kostnað af geymslunni.
Stefndi heldur því fram, að komist hafi á samningur milli hans og stefnanda um að stefndi geymdi sílið. Ekkert hafi gefið stefnanda tilefni til að ætla að stefndi myndi ekki taka gjald fyrir þá geymslu og því beri stefnanda að greiða umkrafin geymslugjöld. Stefnanda hafi verið ljóst eða átt að vera ljóst hvert gjaldið var fyrir geymslu á gámunum. Nemi krafa til skuldajafnaðar 2.979.633 krónum ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 af 2.664.698 krónum frá 31. mars 2003 til 21. júlí 2003, af 2.979.633 krónum frá þeim degi til greiðsludags.
Stefndi telur að stefnanda hafi verið í lófa lagið að koma kröfu sinni um skaðabætur að sem gagnkröfu í fyrrnefndu hæstaréttarmáli. Þar sem það hafi ekki verið gert eigi það að varða því að stefnanda verði ekki dæmdur málskostnaður í máli þessu, óháð niðurstöðu þess.
Varakröfu sína byggir stefndi á eigin sök og vanrækslu stefnanda á því að takmarka meint tjón sitt.
Stefndi telur orsakatengsl ekki vera fyrir hendi, en í matsgerð komist matsmenn að þeirri niðurstöðu að gæðum sílisins hafi verið verulega ábótavant í upphafi, auk þess sem það hafi verið mjög smátt. Þetta eigi sérstaklega við um þá sendingu sem borist hafi þann 14. september 1999, en niðurstaða matsmanna sé sú, að sendingin hafi ekki verið nothæf til beitu þegar hún hafi verið keypt. Sílið í þeirri sendingu hafi því verið ónýtt þegar það hafi komið í vörslur stefnda og því ljóst að geymsla hjá stefnda hafi ekki valdið tjóninu.
Stefndi heldur því fram, að ekki séu lagaskilyrði til þess að láta skaðabótakröfu taka breytingum í samræmi við vísitölu neysluverðs líkt og stefnandi geri í kröfugerð sinni. Ómögulegt sé að sjá að hækkun vísitölu neysluverðs hafi á einhvern hátt valdið stefnanda tjóni.
Stefndi kveður og tjón vegna afnotamissins vera alls ósannað og vera lítt rökstutt. Þá bendir stefndi á það, að sjónarmið um eigin sök stefnanda og vanrækslu hennar á að takmarka tjón sitt eigi sérstaklega vel við um þennan lið kröfugerðar stefnanda. Einnig bendir stefndi á, að stefnandi hafi, að eigin sögn, í upphafi ætlað að selja hluta vörunnar með álagningu.
Samkvæmt birgðabókahaldi stefnda og matsgerð matsmanna sé aðeins um að ræða 80 tonn af síli, en ekki 100 tonn eins og stefnandi miði kröfugerð sína við. Ósannað sé með öllu, að um hafi verið að ræða meira en 80 tonn af síli, enda hafi seljandi vörunnar sjálfur sett hana í gáma, sem hún hafi verið flutt í til landsins og upplýsingar á farmbréfi um þyngd hennar sé alfarið frá honum komið.
Stefnandi byggir varakröfu sína um lækkun dómkröfu á sömu sjónarmiðum og kröfu um skuldajöfnun.
Stefndi mótmælir sérstaklega útreikningi stefnanda á kröfu sinni, bæði innkaupsverði og kostnaði af vörugjaldi, afgreiðslugjaldi og uppskipun. Jafnframt mótmælir hann verðhækkun á innkaupsverði sem og bótum vegna meints afnotamissis.
Stefndi mótmælir sérstaklega upphafsdegi dráttarvaxta.
Um lagarök vísar stefndi til almennra reglna fjármunaréttar, 1. mgr. 28. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.
Einnig vísar stefndi til almennra reglna skaðabótaréttar, siglingalaga nr. 34/1985, sérstaklega 68. gr. og 215. gr. þeirra laga.
Kröfu um málskostnað byggir stefndi á XX. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, sérstaklega 4. mgr. 130. gr. þeirra laga.
V
Í máli þessu krefur stefnandi stefnda um skaðabætur vegna tjóns, sem stefnandi hafi orðið fyrir af völdum stefnda, sem haldið hafi vöru frá stefnanda með saknæmum og ólögmætum hætti, sem leitt hafi til þess að varan skemmdist.
Eins og að framan hefur verið lýst er forsaga máls þessa sú, að stefnandi keypti allmikið magn af sandsíli frá Danmörku, sem ætlað var til beitu. Sandsílin voru flutt til landsins í fjórum gámum með skipum stefnda. Eftir komu skipanna til Reykjavíkur sendi stefndi stefnanda komutilkynningar og reikninga vegna uppskipunar, vörugjalds og afgreiðslugjalds. Voru reikningar þessir greiddir af stefnanda. Á reikningunum var tekið fram að gámaleiga reiknist fyrir vörusendingar, sem ekki hafi verið sóttar sjö dögum eftir komu til ákvörðunarstaðar. Aðila greindi á um afhendingu vörunnar og urðu gámarnir innlyksa hjá stefnda og hóf stefndi að gera stefnanda reikninga vegna leigu gámanna, fyrst 26. september 1999 og síðan mánaðarlega eftir það, síðast 26. júní 2000, sem stefnandi greiddi ekki. Hinn 24. ágúst 2000 höfðaði stefndi mál á hendur stefnanda til greiðslu þessara reikninga. Lauk þeim málaferlum með dómi Hæstaréttar Íslands hinn 6. júní 2002, þar sem stefnandi var ekki talin vera greiðsluskyld varðandi leigu á gámunum og var því sýknuð af kröfum stefnda.
Í fyrrgreindum dómi Hæstaréttar kemur fram, að stefndi taldi um tíma að stefnandi ætti að greiða fyrir flutning vörunnar frá Reykjavík til Ólafsvíkur, en hafi síðan ákveðið að beina kröfum sínum í þeim efnum til seljanda vörunnar, sem hann hafi síðar náð samkomulagi við. Ekki sé ágreiningur milli aðila að stefnda hafi borið að flytja gámana til Ólafsvíkur, stefnanda að kostnaðarlausu. Verði af þeim sökum að ganga út frá því að stefnda hafi borið að ljúka samningsskyldu sinni og koma vörunni á ákvörðunarstað áður en hann gæti farið að krefja stefnanda um greiðslu gámaleigu eða annarra gjalda vegna þess að sendingarinnar hafi ekki verið vitjað í tíma, enda upplýst að stefnandi hafi greitt með skilum uppskipunar- og afgreiðslugjöld vegna gámanna.
Samkvæmt fyrrgreindum dómi Hæstaréttar uppfyllti stefndi ekki þá skyldu sína að koma vörunni á ákvörðunarstað. Verður því fallist á að stefndi hafi, með því að afhenda ekki vöruna nema gegn greiðslu geymslugjalds, haldið vörunni frá stefnanda með saknæmum og ólögmætum hætti. Á hún því kröfu á skaðabótum úr hendi stefnda fyrir það tjón, sem hún varð fyrir við það að fá ekki afhenta umrædda vöru.
Að gengnum áðurgreindum Hæstaréttardómi óskaði stefnandi eftir mati dómkvaddra matsmanna á ástandi sílisins. Snorri Þórisson, annar matsmanna, gaf skýrslu við aðalmeðferð málsins og bar þar, að gæðum sílisins hefði hrakað við geymslu í rúm 3 ár og að það væri ekki hæft til beitu, svo sem það hafi verið keypt til. Niðurstaða matsmanna hafi verið sú, að hráefni í sendingu frá 14. september 1999, hefði ekki verið hæft til beitu þegar varan var fryst í upphafi. Hins vegar hafi síli í seinni sendingunni verið hæft til beitu í upphafi, þó svo það hafi ekki verið „finest quality”. Skoðun þeirra hafi bent til þess að vel hefði verið gengið frá vörunni í geymslunni. Matsmenn hafi ekki haft upplýsingar um allan frystiferilinn, aðeins síðasta árið, en ekkert hafi bent til þess að áföll hefðu orðið í frystingunni, ekkert hrím eða vatn, og að þeirra mati hefði ekkert komið upp á í geymslunni. Þránun á vörunni geti hins vegar orðið í frystingunni. Um hafi verið að ræða feita vöru og slík vara þráni alltaf í frystingu. Aðspurður kvað matsmaður upplýsingar um magn sílisins í gámum hafa verið fengið úr útskrift úr birgðabókhaldi Samskipa.
Samkvæmt niðurstöðu matsmanna, sem ekki hefur verið hnekkt með yfirmati, hafði ástand sílisins í seinni sendingunni eyðilagst við geymslu þess í svo langan tíma, en hins vegar hafi síli í fyrri sendingunni ekki verið hæft til beitu frá upphafi og geymsla þess í svo langan tíma hafi þar engu um breytt.
Eftir 68. gr. siglingalaga nr. 34/1985 ber farmflytjanda að bæta það tjón, sem hlýst af því að farmur skemmist meðan hann er í vörslum hans á skipi eða í landi. Samkvæmt 7. tl. 1. mgr. 215. gr. sömu laga fellur skaðabótakrafa eftir 68. gr. laganna niður vegna fyrningar ef henni er ekki fylgt eftir með lögsókn innan eins árs frá því er vöru bar að skila eða henni var skilað, ef það gerist síðar. Stefnda bar að flytja vöruna til stefnanda strax eftir komu vörunnar til landsins í september 1999. Stefndi gerði það ekki vegna ágreinings milli aðila. Leyst var úr þeim ágreiningi með dómi Hæstaréttar, eins og getið hefur verið, í júní 2002. Samkvæmt því verður litið svo á að stefnanda hafi borið að halda kröfu sinni til laga innan árs frá þeim degi er Hæstaréttardómurinn féll. Mál þetta var höfðað 10. desember 2003, eða eftir að fyrningarfrestur leið. Ber því þegar af þeirri ástæðu að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda.
Þrátt fyrir niðurstöðu máls þessa þykir rétt, eins og mál þetta er vaxið, að hvor aðila beri sinn kostnað af málinu.
Hervör Þorvaldsdóttir, héraðsdómari, kvað upp dóm þennan.
D Ó M S O R Ð :
Stefndi, Samskip hf., er sýkn af kröfum stefnanda, Friðgerðar Pétursdóttur.
Málskostnaður fellur niður.