Hæstiréttur íslands

Nr. 2022-69

Vörður tryggingar hf. (Eva B. Helgadóttir lögmaður)
gegn
A (Sveinbjörn Claessen lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Umferðarslys
  • Skaðabætur
  • Varanlegur miski
  • Líkamstjón
  • Uppgjör
  • Matsgerð
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Ingveldur Einarsdóttir, Karl Axelsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

2. Með beiðni 4. maí 2022 leitar Vörður tryggingar hf. leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 8. apríl sama ár í máli nr. 674/2020: A gegn Verði tryggingum hf. á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.

3. Gagnaðili slasaðist í bifhjólaslysi árið 2007 og greiddi leyfisbeiðandi honum skaðabætur úr lögboðinni slysatryggingu árið 2009. Gagnaðili höfðaði mál þetta gegn leyfisbeiðanda til greiðslu frekari bóta á grundvelli 11. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.

4. Í héraðsdómi var leyfisbeiðandi sýknaður af kröfum gagnaðila en Landsréttur komst að gagnstæðri niðurstöðu og féllst að mestu á kröfur gagnaðila. Í dómi réttarins var lagt til grundvallar að yfirmat hefði að öllu jöfnu ríkara sönnunargildi en undirmat nema á því væru annmarkar sem drægju úr sönnunargildi þess. Ekki var talið að gagnaðili hefði sýnt fram á að ófyrirsjáanleg breyting hefði orðið á heilsufari hans vegna einkenna frá baki. Landsréttur taldi hins vegar að gagnaðili hefði með vísan til yfirmatsgerðar tekist sönnun þess að hann hefði hlotið áfallastreituröskun við slysið sem síðan hefði þróast yfir í þunglyndi og aukinn kvíða. Yfirmatsmenn hefðu metið ófyrirsjáanlegar geðrænar afleiðingar slyssins vegna aukins kvíða og þunglyndis til 12 miskastiga að teknu tilliti til fyrri einkenna og var sú niðurstaða þeirra lögð til grundvallar dómi. Hinu sama gegndi um mat yfirmatsmanna á varanlegri örorku en þeir mátu hana 40% í stað 8% áður. Var því talið að uppfyllt væri skilyrði 11. gr. skaðabótalaga fyrir endurupptöku ákvörðunar bóta til gagnaðila.

5. Leyfisbeiðandi byggir á því úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi meðal annars um þýðingu samtímagagna og um mat á áverkum og sálrænum afleiðingum með hliðsjón af 11. gr. skaðabótalaga. Jafnframt telur hann úrslit málsins varða sérstaklega mikilvæga hagsmuni sína. Þá telur hann dóm Landsréttar bersýnilega rangan. Því til stuðnings vísar hann meðal annars til þess að veigamiklir annmarkar hafi verið á matsgerð yfirmatsmanna auk þess sem áfallastreituröskun gagnaðila hafi legið fyrir við mat á afleiðingum slyssins árið 2009. Því sé bersýnilega röng sú niðurstaða Landsréttar að skilyrði 11. gr. skaðabótalaga sé fullnægt í málinu. Þá hafi Landsréttur endurmetið sönnunargildi munnlegs framburðar yfirmatsmanna í héraði í andstöðu við meginregluna um milliliðalausa sönnunarfærslu.

6. Að virtum gögnum málsins er hvorki unnt að líta svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá er ekki ástæða til að ætla að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur, sbr. 4. málslið sömu greinar. Beiðninni er því hafnað.