Hæstiréttur íslands
Mál nr. 38/1999
Lykilorð
- Kærumál
- Ökuréttur
- Kæruheimild
- Frávísun frá Hæstarétti
|
|
Miðvikudaginn 3. febrúar 1999. |
|
Nr. 38/1999. |
Ákæruvaldið (Ragnheiður Harðardóttir saksóknari) gegn Sigurði Ársælssyni (Andri Árnason hrl.) |
Kærumál. Ökuréttur. Kæruheimild. Máli vísað frá Hæstarétti.
Með dómi héraðsdóms var S sviptur ökurétti. S lýsti yfir áfrýjun dómsins og krafðist þess í kjölfarið að sviptingu ökuréttar yrði frestað samkvæmt 2. ml. 104. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Þeirri kröfu var hafnað með úrskurði héraðsdóms. Talið var að heimild til kæru væri ekki að finna í umferðarlögum. Þá yrði kæra ekki heldur reist á 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, enda tæki það ákvæði ekki til annarra úrskurða eða ákvarðana en þeirra er um ræddi í þeim lögum. Var málinu því sjálfkrafa vísað frá Hæstarétti.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Arnljótur Björnsson og Gunnlaugur Claessen.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 28. janúar 1999, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 1. febrúar sama árs. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 26. janúar 1999, þar sem hafnað var kröfu varnaraðila um að frestað verði framkvæmd ökuréttarsviptingar. Varnaraðili vísar um kæruheimild til 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, sbr. 2. mgr. 1. gr. sömu laga. Hann krefst þess að frestað verði framkvæmd sviptingar ökuréttar. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Varnaraðili var með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 3. desember 1998 dæmdur til að sæta fangelsi í 20 daga skilorðsbundið og sviptur ökurétti í 6 mánuði fyrir umferðarlagabrot og brot gegn 215. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Varnaraðili krafðist í kjölfarið frestunar á framkvæmd sviptingar ökuréttar samkvæmt 2. málsl. 104. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Vísar hann til þess að hann hafi lýst yfir áfrýjun dómsins í bréfi til ríkissaksóknara 29. desember 1998. Svo sem áður greinir var þeirri kröfu hafnað með hinum kærða úrskurði.
Í umferðarlögum er ekki að finna heimild til að kæra til Hæstaréttar úrlausn héraðsdóms um framangreint efni. Kæra verður ekki heldur reist á 142. gr. laga nr. 19/1991, enda tekur það ákvæði ekki til annarra úrskurða eða ákvarðana en þeirra, er um ræðir í þeim lögum. Skortir því heimild til að kæra úrskurðinn og ber að vísa málinu sjálfkrafa frá Hæstarétti.
Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.
Dómsorð:
Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.