Hæstiréttur íslands
Mál nr. 823/2017
Lykilorð
- Kærumál
- Fjárnám
- Sakarkostnaður
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Benedikt Bogason og Karl Axelsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 21. desember 2017, en kærumálsgögn bárust réttinum 4. janúar 2018. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 12. desember 2017 þar sem fjárnámi, sem sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu gerði 20. febrúar 2017 hjá varnaraðila eftir kröfu sóknaraðila, var breytt á þann hátt að það næði til 2.000.000 króna í stað 22.624.101 krónu. Kæruheimild var í 3. mgr. 95. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Sóknaraðili krefst þess að fyrrnefnt fjárnám verði látið standa óbreytt. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
I
Með ákæru sérstaks saksóknara 15. mars 2013 var höfðað mál á hendur varnaraðila og þremur öðrum mönnum. Með héraðsdómi […] 2014 var varnaraðili sýknaður af kröfum ákæruvaldsins og málsvarnarlaun verjenda hans, samtals að fjárhæð 14.829.080 krónur, felld á ríkissjóð. Með dómi Hæstaréttar […] 2016 í máli nr. […] var varnaraðili hins vegar sakfelldur fyrir brotið og dæmdur til refsingar. Jafnframt var varnaraðila gert að greiða málsvarnarlaun verjenda sinna eins og þau voru ákveðin í héraði. Til viðbótar var varnaraðila gert að greiða 7.440.000 krónur vegna málsvarnarlauna verjanda síns fyrir Hæstarétti. Loks var varnaraðila gert að greiða óskipt með öðrum ákærðu 1.420.084 krónur, en sóknaraðili lítur svo á að varnaraðila beri að greiða fjórðungshlut af þeirri fjárhæð, 355.021 krónu, og því samtals 22.624.101 krónu vegna sakarkostnaðar.
Svo sem greinir í hinum kærða úrskurði kom krafan á hendur varnaraðila um greiðslu sakarkostnaðarins til innheimtu hjá sóknaraðila 14. mars 2016 og mun varnaraðila hafa verið sent innheimtubréf daginn eftir. Er bréfaskiptum aðila í kjölfarið lýst í úrskurðinum, en þeim lauk með tölvupósti lögmanns varnaraðila 24. maí 2016 þar sem sóknaraðila var tilkynnt að engar greiðslur yrðu inntar af hendi upp í sakarkostnaðinn og yrði tekið til varna ef krafist yrði fjárnáms fyrir honum.
Með aðfararbeiðni sóknaraðila 18. janúar 2017 var þess krafist að gert yrði fjárnám hjá varnaraðila fyrir áðurgreindum sakarkostnaði að fjárhæð 22.624.101 króna og tók sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu beiðnina fyrir 20. febrúar sama ár. Af hálfu varnaraðila var mætt við gerðina og því mótmælt að hún færi fram með þeim rökum að óheimilt væri að innheimta hærri sakarkostnað hjá honum en sem næmi 2.000.000 krónum. Sýslumaður féllst ekki á þessi andmæli og lauk gerðinni án árangurs á grundvelli yfirlýsingar um eignaleysi varnaraðila. Með bréfi 23. mars 2017 krafðist varnaraðili úrlausnar héraðsdóms um gerðina og gekk hinn kærði úrskurður af því tilefni.
II
Varnaraðili reisir málatilbúnað sinn á því að hann hafi hvorki eignir né tekjur til að standa straum af þeim sakarkostnaði sem honum var gert að greiða með fyrrgreindum dómi. Af þeim sökum telur hann að falla beri frá meginhluta kröfu á hendur honum um greiðslu kostnaðarins, sbr. 2. mgr. 221. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.
Samkvæmt skattframtölum varnaraðila frá árunum 2008 til 2017 var hann með 9.429.998 krónur í launatekjur á árinu 2007, 9.292.143 krónur 2008, 5.497.746 krónur 2009, 6.228.305 krónur 2010, 7.270.905 krónur 2011, 8.648.272 krónur 2012, 8.949.058 krónur 2013, 9.746.846 krónur 2014, 10.111.092 krónur 2015 og 11.535.166 krónur 2016. Loks hefur varnaraðili lagt fram yfirlit um útborguð laun á árinu 2017 og námu þau samtals 6.879.016 krónum.
Í gögnum málsins kemur fram að varnaraðili og eiginkona hans keyptu 22. ágúst 2008 í jöfnum hlutum fasteignina […] í Kópavogi. Með kaupmála 27. maí 2013 var öll fasteignin gerð að séreign eiginkonunnar. Þar kom jafnframt fram að þau bæru sameiginlega ábyrgð á veðskuldum, sem hvíldu á eigninni, eftir efni þeirra. Kaupmálinn var móttekinn til skráningar í kaupmálabók 19. júní 2013 og honum var þinglýst 9. febrúar 2016. Samkvæmt skattframtali varnaraðila 2017 var fasteignamat eignarinnar 57.650.000 krónur í árslok 2016, en eftirstöðvar skulda vegna hennar 27.887.718 krónur.
III
Eftir 2. mgr. 221. gr. laga nr. 88/2008 ber að falla frá kröfu á hendur sakfelldum manni um greiðslu sakarkostnaðar ef hann hefur hvorki eignir né tekjur til að standa straum af honum. Einnig segir í c. lið 3. mgr. 6. gr. samnings um verndun mannréttinda og mannfrelsis, sbr. lög nr. 62/1994 um mannréttindasáttmála Evrópu, að hver sá sem borinn er sökum um refsiverða háttsemi skuli fá ókeypis lögfræðiaðstoð ef hann hefur ekki nóg fé til að greiða fyrir hana og það er nauðsynlegt vegna réttvísinnar.
Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið hefur varnaraðili um árabil verið með talsverðar tekjur. Að því er varðar eignir er þess að gæta að við fjárnámið hjá varnaraðila 20. febrúar 2017 var því lýst yfir að hann væri eignalaus. Hann hafði hins vegar með kaupmála 27. maí 2013 ráðstafað hlut sínum í fasteign til eiginkonu sinnar. Með því var ekki aðeins eignarhaldið fært til hennar heldur bar varnaraðila áfram sameiginlega ábyrgð með henni á skuldum sem hvíldu á eigninni. Þegar kaupmálinn var gerður hafði fyrrgreint sakamál verið höfðað á hendur varnaraðila með ákæru 15. mars 2013. Af þeim sökum gat sóknaraðili, eftir 1. mgr. 94. gr. laga nr. 15/2016 um fullnustu refsingar, freistað þess að leita fullnustu með fjárnámi í hluta fasteignarinnar, sem hefði án kaupmálans verið í eigu varnaraðila. Að þessu gættu hefur ekki verið leitt í ljós að fjárhagur hans sé með því móti að falla beri frá kröfu á hendur honum um greiðslu sakarkostnaðarins. Eru því ekki efni til að taka til greina kröfu hans um að fjárnáminu verði breytt.
Varnaraðila verður gert að greiða sóknaraðila málskostnað í héraði og kærumálskostnað sem verður ákveðinn í einu lagi eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Fjárnám, sem sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu gerði 20. febrúar 2017 hjá varnaraðila, A, að kröfu sóknaraðila, sýslumannsins á Norðurlandi vestra, skal standa óbreytt.
Varnaraðili greiði sóknaraðila samtals 750.000 krónur í málskostnað í héraði og kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness þriðjudaginn 12. desember 2017
Með tilkynningu, sem móttekin var hjá Héraðsdómi Reykjaness 23. mars 2017, krafðist sóknaraðili, með heimild í 1. mgr. 92. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, úrlausnar héraðsdóms um aðfarargerð sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu sem fram fór 20. febrúar 2017. Málið var þingfest 19. maí 2017 og tekið til úrskurðar 16. nóvember 2017. Sóknaraðili er A, […], Kópavogi, en varnaraðili er sýslumaðurinn á Norðurlandi vestra.
Sóknaraðili krefst þess að felld verði úr gildi aðfarargerð varnaraðila sem fram fór án árangurs 20. febrúar 2017 og að lagt verði fyrir varnaraðila að gera aðeins fjárnám til tryggingar á greiðslu kröfu gerðarbeiðanda að fjárhæð 2.000.000 króna að hámarki. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar úr hendi varnaraðila.
Dómkröfur varnaraðila eru þær að árangurslaust fjárnám, sem gert var þann 20. febrúar 2017 hjá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu í aðfararmáli nr. 2017-001444, fyrir kröfu að fjárhæð 22.624.101 króna, verði staðfest. Þá er þess krafist að sóknaraðila verði gert að greiða varnaraðila málskostnað að skaðlausu að mati dómsins.
I
Málsatvik eru þau að þann […] 2016 gekk í Hæstarétti Íslands dómur í sakamáli með málsnúmerið […] en þar var sóknaraðili dæmdur í 9 mánaða fangelsi. Þá var sóknaraðili jafnframt dæmdur til að greiða málsvarnarlaun verjanda á rannsóknarstigi, í héraði og fyrir Hæstarétti, samtals 22.269.080 krónur, svo og óskiptan sakarkostnað með öðrum dómþolum fyrir Hæstarétti, 1.420.084 krónur. Sakarkostnaðarkrafa til innheimtu hjá sýslumanninum á Norðurlandi vestra samanstendur af fyrrgreindum málsvarnarlaunum, 22.269.080 krónum, og fjórðungi óskipta sakarkostnaðarins, 355.021 krónu, eða sem nemur samtals 22.624.101 krónu.
Sakarkostnaðarkrafan kom til innheimtu 14. mars 2016. Þann 15. mars 2016 var sóknaraðila sent innheimtubréf þar sem skorað var á hann að greiða eða semja um greiðslu sakarkostnaðar innan 15 daga, ella mætti hann vænta þess að innheimtu yrði fram haldið með aðför. Þann 23. mars 2016 barst varnaraðila tölvubréf frá lögmanni sóknaraðila þar sem óskað var eftir fresti til 15. apríl 2016 til að setja fram tillögu um uppgjör fyrir hans hönd. Var sá frestur veittur. Þá barst að nýju tölvubréf frá lögmanninum þann 8. apríl þar sem óskað var eftir að frestur yrði framlengdur til 15. maí 2016 og var einnig orðið við því. Þann 13. maí 2016 barst með tölvubréfi frá lögmanninum beiðni um niðurfellingu sakarkostnaðarkröfunnar gegn greiðslu að fjárhæð 2.000.000 króna með vísan til 2. mgr. 221. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Erindinu fylgdi bráðabirgðagreiðslumat hjá Landsbanka, stöðuyfirlit úr heimabanka, dags. 2. maí 2016, lánsloforð frá Landsbanka að fjárhæð 2.000.000 króna, dags. 10. maí 2016, kaupmáli hjónanna A og B, dags. 27. maí 2013, og skattframtöl áranna 2007-2010 og 2012-2015. Varnaraðili svaraði erindinu með tölvubréfi til lögmanns sóknaraðila þar sem erindinu var hafnað. Var sóknaraðila boðið að greiða 100.000 krónur á mánuði í 12 mánuði frá og með júní 2016 og yrði samningur endurskoðaður að þeim tíma liðnum. Miðað var við greiðslugetu sóknaraðila samkvæmt framlögðu bráðabirgðagreiðslumati. Lögmaður sóknaraðila svaraði með tölvubréfi þann 23. maí 2016 þar sem hann skoraði á embættið að endurskoða afstöðu sína. Var niðurstaða innheimtuaðila ítrekuð með tölvupósti sama dag og lögmanni sóknaraðila bent á að kæra ákvörðun embættisins til innanríkisráðuneytisins, sbr. 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þann 24. maí barst tölvupóstur frá lögmanni sóknaraðila þar sem tilkynnt var að ekki yrðu inntar af hendi neinar greiðslur til embættisins og tekið yrði til varna í aðfararmáli.
Þann 18. janúar 2017 sendi varnaraðili aðfararbeiðni til sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu vegna vangoldins sakarkostnaðar að fjárhæð 22.624.101 króna. Var beiðnin tekin fyrir þann 20. febrúar 2017, aðfarargerð nr. 2017-001444. Mætt var af hálfu gerðarþola og því mótmælt að gerðin næði fram að ganga. Fyrirsvarsmaður gerðarbeiðanda krafðist þess að gerðin færi fram og var gerðinni lokið án árangurs með vísan til 8. kafla laga nr. 90/1989.
II
Sóknaraðili byggir á því að hann haldi látlaust heimili með eiginkonu sinni og hafi þrjú börn á sinni framfærslu. Sóknaraðili þiggi hæfileg laun fyrir störf sín sem nýtist til framfærslu heimilisins og greiðslu af fasteignaskuldbindingum en hann beri sameiginlega ábyrgð með eiginkonu sinni á húsnæðisskuldum sem hvíli á fasteigninni að […]. Sú fasteign sé hins vegar séreign hennar. Sóknaraðila skorti því bolmagn til þess að greiða sakarkostnaðinn í heild sinni og tekjur hans eða eignir hrökkvi ekki til greiðslu hans. Þessu til stuðnings hafi gerðarbeiðandi lagt fram ítarleg gögn um fjármál sín og eiginkonu sinnar. Sóknaraðili hafi átt í löngu viðskiptasambandi við Landsbankann og bankinn sé reiðubúinn að veita gerðarþola lán án trygginga að hámarki sem nemi 2.000.000 króna. Þetta sé þó háð því að fyrir liggi að engar frekari kröfur verði gerðar á hann um greiðslu sakarkostnaðar. Sóknaraðili eigi engar eignir sem geti verið andlag tryggingar í því skyni að afla honum frekari fjármögnunar til greiðslu sakarkostnaðar. Sú fjármögnun sem standi sóknaraðila til boða endurspegli mat viðskiptabanka hans á fjárhæð þeirrar hámarksskuldar sem hann geti staðið undir að teknu tilliti til núverandi skulda hans og þeirrar óvissu sem ríki eðli máls samkvæmt um framtíðartekjuöflun hans. Þessu mati hafi ekki verið hnekkt.
Sóknaraðili byggir á að innheimta sakarkostnaðar hjá honum umfram 2.000.000 króna teljist andstæð 2. mgr. 221. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Telur gerðarþoli einsýnt, m.t.t. þeirra gagna sem liggja fyrir, að greiðslugeta hans sé ekki meiri en 2.000.000 króna. Sóknaraðili byggir á því að falla beri frá kröfu á hendur sakfelldum manni um greiðslu sakarkostnaðar þegar „nægilega ljóst“ liggi fyrir að hann hafi „hvorki eignir né tekjur“ til að standa straum af kostnaðinum, sbr. tilvitnað ákvæði sakamálalaga. Telur sóknaraðili ljóst af þeim gögnum, sem lögð voru fyrir sóknaraðila, að greiðslugeta hans takmarkist við 2.000.000 króna og innheimta sakarkostnaðar umfram þá fjárhæð skuli felld niður með vísan til 2. mgr. 221. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.
Jafnframt vísar sóknaraðili til þess að hann eigi rétt til þess samkvæmt 70. gr. stjórnarskrár og 1. mgr. og c-lið 3. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, að fá notið lögfræðiaðstoðar við varnir í sakamáli sem sé honum ókeypis.
Varnaraðila hafi því verið óheimilt að krefjast fjárnáms fyrir hærri fjárhæð en 2.000.000 króna. Að því leyti hafi ekki verið fullnægjandi grundvöllur fyrir þeirri aðfarargerð sem fór fram. Hefði varnaraðili hins vegar látið við það sitja að krefjast aðfarar fyrir greiðslu að hámarki 2.000.000 króna hefði aðstaða gerðarþola til að varna fjárnáminu verið allt önnur en raun bar vitni. Beri því nauðsyn til að fella hina umdeildu aðfarargerð úr gildi og leggja fyrir sýslumann að framkvæma hana á nýjan leik en miðað við lögmætar forsendur.
Kröfu um málskostnað byggir gerðarþoli á 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 94. gr. laga nr. 90/1989 um aðför.
III
Krafa varnaraðila er á því byggð að endanlegur dómur um skyldu til greiðslu sakarkostnaðar liggi fyrir með dómi Hæstaréttar í máli nr. […] og sé dómurinn sjálfur gild aðfararheimild, sbr. 1. tl. 1. mgr. aðfararlaga nr. 90/1989. Komi fram í 1. mgr. 93. gr. laga um fullnustu refsinga nr. 15/2016 að innheimta megi ógreiddan sakarkostnað með aðför, hafi hann hvorki verið greiddur né um hann samið á tilskildum tíma, sbr. 87. gr. laganna. Þá komi fram sú meginregla í 1. mgr. 221. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 að sakarkostnað samkvæmt dómi, úrskurði eða viðurlagaákvörðun skuli innheimta hjá sakfelldum manni, eftir atvikum með fjárnámi og nauðungarsölu.
Undantekningarákvæði 2. mgr. 221. gr. sakamálalaga beri að túlka þröngt samkvæmt almennum lögskýringarreglum. Hafi viðmiðunarreglur verið settar af hálfu innanríkisráðuneytisins sem horfa beri til við mat á því hvort fella beri niður sakarkostnað á grundvelli ákvæðisins. Segi þar í 2. gr. að við mat á því hvort sakarkostnaður verði felldur niður skuli miða við að stofn til útreiknings tekjuskatts og útsvars, fjármagnstekjur og aðrar tekjur, þ.m.t. skattfrjálsar tekjur, nemi ekki hærri fjárhæð en samtals 2.400.000 króna. Hækka skuli þessa viðmiðunarfjárhæð um 290.000 krónur fyrir hvert barn undir 18 ára aldri.
Af fyrirliggjandi gögnum megi ráða að meðaltekjur sóknaraðila hafi á árunum 2014-2015 verið 9.431.612 krónur en varnaraðili hafi ekki upplýsingar um tekjur ársins 2016. Þá liggi frammi greiðslumat útbúið af sóknaraðila sjálfum þar sem fram komi að greiðslugeta hans sé ríflega 100.000 krónur á mánuði sem komið gætu til mánaðarlegra afborgana af sakarkostnaðarkröfu. Lánsloforð Landsbanka um 2.000.000 króna til 5 ára þyki vart sýna fram á að sóknaraðili hafi ekki fjárhagslegt bolmagn til að standa straum af greiðslu sakarkostnaðar umfram umræddar 2.000.000 króna, né önnur gögn sem lögð hafa verið fram af hálfu sóknaraðila. Sýni þau öðru fremur fram á að sóknaraðili geti í reynd reitt af hendi mánaðarlegar afborganir um fyrirsjáanlega framtíð. Hafa beri í huga að sakarkostnaður beri hvorki vexti né verðbætur og muni hver afborgun því koma til lækkunar höfuðstóls. Í 2. mgr. 87. gr. laga um fullnustu refsinga nr. 15/2016 komi fram að heimilt sé að sakarkostnaður sé greiddur með afborgunum. Almennt skuli þó ekki veita lengri greiðslufrest en eitt ár en heimilt sé að veita lengri greiðslufrest séu sérstakar aðstæður fyrir hendi. Í greinargerð með ákvæðinu komi m.a. fram að horft skuli til þess að veiting lengri greiðslufrests geti aukið líkur á greiðslu til muna. Eigi það við í máli þessu og því rétt að heimila lengri greiðslufrest en eitt ár verði eftir því leitað. Í ljósi framangreinds séu ekki uppfyllt skilyrði 2. mgr. 221. gr. til niðurfellingar sakarkostnaðar í málinu, jafnvel þótt sakarkostnaðarkrafa sé nokkuð há og tíma muni taka að greiða hana að fullu.
Rétt sé að fram komi að sóknaraðili í máli þessu geti á hverjum tíma sótt um niðurfellingu sakarkostnaðar að nýju, breytist tekjur hans eða aflahæfi í framtíðinni, og verði slík umsókn metin sjálfstætt á grundvelli þeirra gagna sem þá verði lögð fram. Vangaveltur um það hverjar tekjur hans kunni að verða í framtíðinni, og þá óvissu sem ríkja kunni um getu hans til framtíðar til að greiða af kröfunni, séu því ótímabærar og hafi ekki áhrif á getu hans nú til að standa straum af greiðslu sakarkostnaðar með mánaðarlegum afborgunum endurskoðuðum árlega með tilliti til tekna og eigna á hverjum tíma.
Með hliðsjón af framangreindu beri því að hafna kröfu sóknaraðila og staðfesta árangurslaust fjárnám það sem gert var þann 20. febrúar 2017 hjá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu í aðfararmáli nr. 2017-001444 fyrir kröfu varnaraðila að fjárhæð 22.624.101króna.
Um lagarök vísar varnaraðili til 1. tl. 1. mgr. 1. gr. aðfararlaga nr. 90/1989, 2. mgr. 87. gr. og 1. mgr. 93. gr. laga um fullnustu refsinga nr. 15/2016 og 1. mgr. og 2. mgr. 221. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008. Varðandi kröfu um málskostnað er vísað til ákvæða 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
IV
Málavextir eru óumdeildir. Með dómi Hæstaréttar […] 2016 hlaut sóknaraðili refsidóm og var jafnframt dæmdur til greiðslu sakarkostnaðar að fjárhæð 22.624.101 króna. Sá kostnaður er til innheimtu hjá varnaraðila sem gerði fjárnám án árangurs hjá sóknaraðila 20. febrúar 2017. Sóknaraðili ber nú gildi hinnar árangurslausu aðfarargerðar undir dóm með heimild í V. þætti laga nr. 90/1989 um aðför og telur að hann hafi hvorki eignir né tekjur til að standa straum af greiðslu þessa kostnaðar. Krefst hann þess að aðfarargerðin verði felld úr gildi og lagt verði fyrir sýslumann að gera aðeins fjárnám hjá sóknaraðila til tryggingar á greiðslu að fjárhæð 2.000.000 króna að hámarki.
Í c. lið 3. mgr. 6. gr. laga nr. 62/1994 um mannréttindasáttmála Evrópu segir að hver sá sem borinn sé sökum um refsiverða háttsemi eigi að fá að halda uppi vörnum sjálfur eða með aðstoð verjanda að eigin vali. Hafi hann ekki fengið nóg fé til að greiða lögfræðiaðstoð skuli hann fá hana ókeypis ef það er nauðsynlegt vegna réttvísinnar. Í 2. mgr. 221. gr. sakamálalaga nr. 88/2008 segir að ef nægilega liggi ljóst fyrir að sakfelldur maður hafi hvorki eignir né tekjur til að standa straum af sakarkostnaði, sem honum hefur verið gert að greiða, beri að falla frá kröfum á hendur honum um greiðslu kostnaðarins.
Sóknaraðili hefur lagt fram gögn varðandi fjárhag sinn, m.a. skattframtöl síðustu ára og greiðslumat Landsbankans hf. þar sem greiðslugeta hans er metin, að teknu tilliti til launa, framfærslu og afborgana af lánum. Sóknaraðili heldur heimili ásamt eiginkonu sinni og þremur ungum börnum. Hann á ekki fasteign en hefur góðar mánaðarlegar tekjur en skuldar nokkuð. Niðurstaða greiðslumatsins er sú að bankinn er reiðubúinn til að veita sóknaraðila lán án tryggingar að hámarki að fjárhæð 2.000.000 króna. Við mat á því hvort sóknaraðili hafi bolmagn til að greiða dæmdan sakarkostnað verður að hafa hliðsjón af mánaðarlaunum hans eins og þau hafa verið undanfarið, taka tillit til afborgana af lánum, framfærslukostnaðar og annarra nauðsynlegra útgjalda með hliðsjón af fjárhæð kröfunnar. Ljóst er að sóknaraðili er ekki í stakk búinn til að greiða skuldina með afborgunum í eitt ár eða á nokkrum árum eins og ákvæði 2. mgr. 87. gr. laga nr. 15/2016 um fullnustu refsinga heimila þar sem sakarkostnaðurinn er verulega umfram það sem almennt tíðkast í sakamálum. Miðað við núverandi fjárhagslega getu sóknaraðila samkvæmt greiðslumati Landsbankans hf. og miðað við þá fjarhæð sem sóknaraðili er aflögufær um á mánuði, tæki það sóknaraðila um tvo áratugi að greiða skuldina. Þegar framangreint er virt verður fallist á með sóknaraðila að nægilega ljóst liggi fyrir í skilningi 2. mgr. 221. gr. sakamálalaga nr. 88/2008 að hann sé ekki í stakk búinn, eigi hvorki eignir né hafi tekjur, til að standa straum af sakarkostnaði þeim sem hann var dæmdur til að greiða með dómi Hæstaréttar.
Dómkrafa sóknaraðila er um að aðfarargerðin verði felld úr gildi og að lagt verði fyrir sýslumann að framkvæma aðeins fjárnám til tryggingar á greiðslu kröfu varnaraðila að fjárhæð 2.000.000 króna að hámarki. Samkvæmt því og samkvæmt framansögðu verður fjárnámsgerðinni breytt á þann veg að hún nái til 2.000.000 króna.
Eftir þessari niðurstöðu verður varnaraðili úrskurðaður til að greiða sóknaraðila 350.000 krónur í málskostnað og hefur þá ekki verið tekið tillit til reglna um virðisaukaskatt.
Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Úrskurðarorð
Fjárnámsgerð sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu 20. febrúar 2017 í máli nr. 2017-001444 er breytt á þann veg að að hún skal ná til 2.000.000 króna.
Varnaraðili, sýslumaðurinn á Norðurlandi vestra, greiði sóknaraðila, A, 350.000 krónur í málskostnað.