Hæstiréttur íslands

Mál nr. 184/2006


Lykilorð

  • Sjómaður
  • Ráðningarsamningur


Fimmtudaginn 2

 

Fimmtudaginn 2. nóvember 2006.

Nr. 184/2006.

Festarfell ehf.

(Garðar Garðarsson hrl.)

gegn

Jóni Karlssyni

(Jónas Haraldsson hrl.)

 

Sjómenn. Ráðningarsamningur.

J, sem starfað hafði sem stýrimaður á skipi í útgerð F, krafði félagið um vangreidd laun og laun í uppsagnarfresti vegna riftunar á ráðningarsamningi. Skriflegur ráðningarsamningur hafði ekki verið gerður og deildu aðilar um hvort J hefði verið fastráðinn eða aðeins verið ráðinn til hverrar vertíðar í senn. F bar því við að öllum skipverjum hefði verið ljóst að félagið hefði skipið á leigu án aflamarks og að sú væri ástæðan fyrir því að þeir væru ráðnir til starfa tímabundið til hverrar vertíðar í senn. J mótmælti því ekki að hann hefði vitað að F hefði skipið á leigu án aflaheimilda og gaf hvorki aðilaskýrslu í málinu né leiddi aðra úr áhöfn skipsins til vættis um hvort F hafi tiltekið við þá að þeir væru ráðnir tímabundið til starfa. Af bréfi sem F sendi J 26. mars 2004 þótti ljóst að félagið hefði gengið út frá því að J hefði aðeins verið ráðinn til tímabundinna starfa á nýlokinni loðnuvertíð. Hafði J ekki hreyft athugasemdum við þessu fyrr en hann krafði F um kauptryggingu og bætur vegna riftunar ráðningarsamnings 11. júní 2004. Að þessu virtu var talið að F hefði sýnt nægilega fram á að J hefði verið ráðinn til tímabundinna starfa á skipinu á tilteknum veiðitímabilum. Því var ekki borið við að á skorti að laun hefðu réttilega verið gerð upp við J á þeirri forsendu og var F því sýknað af kröfu hans.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Garðar Gíslason og Markús Sigurbjörnsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 3. apríl 2006. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu stefnda, en til vara að hún verði lækkuð. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Samkvæmt gögnum málsins tók áfrýjandi, sem þá hét Festi hf., nótaveiðiskipið Sunnutind SU 59 á leigu með samningi, sem hann gerði 12. febrúar 2003 við eiganda þess, Vísi hf. Skipið var leigt ótímabundið frá 23. janúar 2003 að telja, en hvorum aðila samningsins heimilað að segja honum upp með þriggja mánaða fyrirvara. Veiðileyfi fylgdi skipinu, en hvorki aflamark né veiðarfæri. Fyrir liggur að áfrýjandi gerði skipið út til loðnuveiða í febrúar og mars 2003, svo og í júní og júlí á sama ári, þegar jafnframt voru að nokkru stundaðar síldveiðar. Óumdeilt er í málinu að áfrýjandi réði stefnda til starfa sem stýrimann á skipinu frá 10. september 2003, en skriflegur ráðningarsamningur var ekki gerður. Frá þeim tíma gerði áfrýjandi skipið út til síldveiða, sem stóðu til 17. desember 2003, og var stefndi lögskráður á skipið samfleytt á þessu tímabili til 19. sama mánaðar. Skipið hóf í byrjun janúar 2004 veiðar á loðnuvertíð, sem lauk 18. mars sama ár, en á þeim tíma var stefndi lögskráður á skipið 4. til 20. janúar og 23. febrúar til 23. mars. Áfrýjandi kveðst þá hafa hætt útgerð skipsins, sem hafi verið skilað til eiganda, en á vegum þess síðarnefnda hafi því verið siglt úr landi til niðurrifs 28. maí 2004. Áfrýjandi sendi bréf 26. mars 2004 til stefnda og annarra, sem starfað höfðu á skipinu á hans vegum, en þar sagði meðal annars: „Í ljósi breytinga á eignarhaldi og stjórn Festi hf. er ljóst að útgerð á skipunum Erni KE 13, 1012 og Sunnutindi SU 59, 0979, mun breytast. Viljum við því upplýsa þá aðila sem að undanförnu hafa unnið um borð í skipum okkar að ekki er ljóst hvort skipin fari aftur til veiða. Er því ekki gert ráð fyrir endurráðningu vegna komandi úthalda skipanna.“ Af gögnum málsins verður ekki ráðið að stefndi haft hreyft athugasemdum við þessu fyrr en með bréfi, sem ritað var af hans hálfu til áfrýjanda 11. júní 2004, en þar var því borið við að stefndi hafi litið svo á að áfrýjandi hafi ráðið hann ótímabundið til starfa á skipinu. Stefndi krafði þar áfrýjanda um greiðslu kauptryggingar fyrir tímabilið frá 22. mars til 28. maí 2003, auk bóta vegna ólögmætrar riftunar á ráðningarsamningi, sem næmu áætluðum missi launa á þriggja mánaða uppsagnarfresti frá 28. maí 2004 að telja, allt með nánar tilgreindum fjárhæðum. Mál þetta var síðan höfðað með stefnu 16. desember 2004.

Áfrýjandi ber því við í málinu að stefndi hafi í september 2003 verið ráðinn til starfa á skipinu á síldarvertíð, sem lokið hafi eins og áður greinir í desember á sama ári. Þegar áfrýjanda hafi síðan tekist að fá aflamark til veiða á loðnuvertíð í byrjun árs 2004 hafi stefndi aftur verið ráðinn til tímabundinna starfa á skipinu á þeirri vertíð. Áfrýjandi staðhæfir að öllum skipverjum hafi verið ljóst að hann hefði skipið á leigu án aflamarks, sem orðið hafi að útvega til að halda skipinu úti til veiða, og að sú væri ástæðan fyrir því að þeir væru allir ráðnir þar til starfa tímabundið til hverrar vertíðar í senn. Stefndi hefur ekki mótmælt að hann hafi vitað að áfrýjandi hafði skipið á leigu án aflaheimilda. Hvorki gaf stefndi aðilaskýrslu í málinu né leiddi hann aðra úr áhöfn skipsins til vættis um hvort áfrýjandi hafi tiltekið við þá að þeir væru ráðnir tímabundið til starfa. Af áðurgreindu bréfi áfrýjanda 26. mars 2004 er ljóst að hann gekk þá út frá því að stefndi hafi aðeins verið ráðinn til tímabundinna starfa á nýlokinni loðnuvertíð. Við þessu hreyfði stefndi engum athugasemdum fyrr en hann krafði áfrýjanda 11. júní 2004 um kauptryggingu og bætur vegna riftunar ráðningarsamnings. Þegar þetta er virt verður að telja áfrýjanda hafa sýnt nægilega fram á að stefndi hafi verið ráðinn til tímabundinna starfa á skipinu á tilteknum veiðitímabilum. Í málinu er því ekki borið við að á skorti að laun hafi réttilega verið gerð upp við stefnda á þeirri forsendu. Áfrýjandi verður því sýknaður af kröfu stefnda.

Áfrýjandi vanrækti skyldu sína samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sjómannalaga nr. 35/1985 til að gera skriflegan ráðningarsamning við stefnda og hefur það leitt til þess að ekki hafa legið fyrir óyggjandi gögn um ráðningarkjör hans. Eru því ekki efni til annars en að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Áfrýjandi, Festarfell ehf., er sýkn af kröfu stefnda, Jóns Karlssonar.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

 

Dómur Héraðsdóms Austurlands 18. janúar 2006.

I.

Mál þetta, sem dómtekið var 21. desember sl., er höfðað af Jóni Karlssyni, kt. 011159-2759, Borgarlandi 9, Djúpavogi með stefnu birtri 21. janúar 2005 á hendur Festarfelli ehf. (áður Festi ehf.), kt. 590371-0769, Krossey, Höfn í Hornafirði.

Stefnandi gerir þær dómkröfur að stefndi, Festarfell ehf., verði dæmt til að greiða stefnanda 1.644.871 krónur með dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 frá 1. júní 2004 til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar að skaðlausu og að tekið verði tillit til þess að stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur.

Af hálfu stefnda er aðallega krafist sýknu af öllum kröfum stefnanda, en til vara er þess krafist að dómkröfur verði lækkaðar verulega. Þá er þess krafist að stefnanda verði gert að greiða stefnda málskostnað samkvæmt mati dómsins, hver sem úrslit málsins verða.

II.

Málavextir.

Stefnandi kveðst hafa ráðið sig til starfa hjá stefnda sem II. stýrimaður og I. stýrimaður í afleysingum á nótaveiðiskipinu Sunnutind SU-59 (979) þann 10. september 2003. Skipið hafi verið í eigu Vísis hf., Grindavík, en í útgerð stefnda. Enginn skriflegur ráðningarsamningur hafi verið gerður við stefnanda, sem hvorki hafi verið ráðinn til ákveðins tíma né ákveðinna vertíða. Skipinu hafi verið lagt við bryggju 18. mars 2004 og skipverjar afskráðir af því fimm dögum síðar. Með bréfi 26. mars 2004 hafi stefndi tilkynnt stefnanda og fleiri skipverjum, sem ekki hafði verið sagt upp störfum, að útgerð á skipum útgerðarinnar, þeim Erni KE-13 og Sunnutindi SU-59, myndi breytast vegna breytinga á eignarhaldi og stjórn stefnda. Jafnframt hafi verið tilkynnt að ekki væri ljóst hvort skipin færu aftur til veiða. Í lok bréfsins standi síðan orðrétt: “Er því ekki gert ráð fyrir endurráðningu vegna komandi úthalda skipanna.”

Með bréfi 26. apríl 2004 hafi lögmaður stefnanda sent stefnda bréf vegna I. stýrimanns á Erni KE-13, Gunnlaugs Sævarssonar, vegna samhljóða bréfs, sem þessi I. stýrimaður á Erni KE hafði fengið. Í bréfinu hafi verið áréttað að Gunnlaugur hefði verið ráðinn ótímabundið á Örn KE og sé því í ráðningarsambandi við útgerðina og eigi rétt á launum á ráðningartímanum, enda hafi honum ekki verið sagt upp störfum. Stefndi hafi svarað þessu bréfi lögmanns stefnanda, en sams konar bréf hafi verið sent stefnanda, enda hafi hann verið í nákvæmlega sömu sporum og stýrimaðurinn á Erni KE. Í bréfinu sé áréttuð sú skoðun stefnda að skipverjar á Erni KE og Sunnutindi SU hefðu ekki veirð ráðnir ótímabundinni ráðningu, heldur ráðnir tímabundið til ákveðinna veiða. Þá segi m.a. orðrétt í þessu bréfi stefnda:

“Fari svo að ágreiningur, líkt og sá sem að framan greinir, rísi um ráðningarsamband þitt við fyrirtækið og fari svo að fallist verði á sjónarmið hlutaðeigandi einstaklinga þess efnis, eftir atvikum að undangenginni dómstólameðferð, ber að líta á efni bréfs þessa sem uppsögn á ráðningasamningi (svo) Festis hf. við þig. Um uppsagnarfrest fer samkvæmt ákvæðum kjarasamnings og/eða ákvæðum laga nr. 35/1985, sjómannalög, þ.e. skemmsti uppsagnarfrestur gildi og miðast upphaf hans við 31. maí 2004.”

Hinn 27. maí 2004 hafi stefndi lögskráð nýjan stýrimann á skipið í stað stefnanda og daginn eftir hafi m.s. Sunnutindur SU-59 siglt til Danmerkur til niðurrifs, en þangað hafi skipið verið selt í brotajárn.

Af hálfu stefnanda hafi verið sent kröfubréf þann 11. júní 2004 þar sem stefndi hafi verið krafinn um vangreidd laun og laun í uppsagnarfresti vegna riftunar ráðningarsamnings hans. Því bréfi hafi ekki verið svarað af hálfu stefnda.

Hinn 25. júní 2004 hafi m.s. Sunnutindur SU-59 verið tekinn af skipaskrá.

Málsaðilar eru ekki að öllu leyti sammála um atvik málsins.

Stefndi segir það rétt, að stefndi hafi verið ráðinn skipverji á Sunnutind SU á haustmánuðum 2003, en mótmælir því að um ótímabundna ráðningu hafi verið að ræða.  Eins og fram komi í stefnu hafi mb. Sunnutindur SU ekki verið eign stefnda heldur hafi eign hlutafélagsins Vísis, sem reki umfangsmikla starfsemi í heimabyggð stefnanda. Skipið hafi verið orðið gamalt og ekki búið þeim búnaði sem útgerðarmenn og sjámenn vilji helst hafa um borð í uppsjávarveiðiskipum. Muni skipið hafa verið á söluskrá alllengi fyrir þann tíma, sem hér skipti máli. Stefndi hafi tekið skipið á leigu af Vísi hf. í ársbyrjun 2003 til að reyna að afla hráefnis fyrir fiskimjöslverksmiðju Gautavíkur hf. á Djúpavogi og til að reyna að skapa einhverja atvinnu á þeim stað. Skipið hafi verið leigt án allra aflaheimilda og hafi rekstur skipsins algerlega verið háður því hvernig stefnda tækist að útvega á það aflamark á hverjum tíma. Þetta hafi öllum skipverjum verið fullljóst og ennfremur það, að ráðning þeirra hafi einungis verið tímabundin til hverrar vertíðar og hafi byggst á því að skipið fengist leigt áfram og að aflaheimildir væru nægar. Skipinu hafi eingöngu verið haldið til uppsjávarveiða (enda ekki búið til annars veiðiskapar og hefði ekki verið um árabil) og hafi stundað síldveiðar haustið 2003. Fyrsta löndun skipsins á síldarvertíðinni hafi verið 19. september 2003 og sú síðasta þann 17. desember s.á., en þá hafi síldarvertíðinni lokið. Hafi þá störfum stefnanda fyrir stefnda á því ári jafnframt lokið og hafi hann verið afskráður af skipinu. Stefnandi hafi verið annar stýrimaður þessa haustmánuði, en hlaupið í skarðið fyrir fyrsta stýrimann á stundum á þessu tímabili. Hafi verið gert upp við hann að fullu miðað við stöðu á skipinu á hverjum tíma.

Þegar fyrir hafi legið að stefnda tækist að útvega aflamark í loðnu til skipsins fyrir komandi loðnutíða, hafi stefnanda verið boðin tímabundin ráðning sem annar stýrimaður á skipinu þá loðnuvertíð. Hafi jafnframt verið ítrekað við hann að þetta væri tímabundin ráðning með loðnuvertíð stæði eða aflamarkið entist, enda hafi honum sem öllum öðrum sjómönnum verið ljóst að ekki sé hægt að halda skipi til veiða, sem engar hefur aflaheimildir. Hafi stefnandi samþykkt þetta fúslega, en hafi þó ekki verið meira í mun að halda þetta ráðningarsamband en svo að hann hafi horfið af skipinu 20. janúar 2004 og muni hafi haldið til suðurhafa í einkaerindum. Hann hafi þó komið aftur til skips 24. febrúar 2004 og verið á skipinu til loka loðnuvertíðar eða til 21. mars 2004. Hafi þá loðnukvóti skipsins því sem næst verið uppurinn, loðna hætta að veiðast og loðnuveiðum því almennt hætt. Á þessu tímabili hafi stefnandi einungis gegnt stöðu annars stýrimanns, svo sem að ofan greinir. Hafi að fullu verið gert upp við hann miðað við þá stöðu. Fyrir janúar hafi hann einungis fengið greidda kauptryggingu, en verið á hlut í febrúar og mars. Að sjálfsögðu hafi hann ekki fengið greitt fyrir þann tíma sem hann var fjarverandi á tímabilinu.

Stjórn stefnda hafi ekki séð tilgang í að halda áfram að leigja Sunnutind SU og aflaheimildir á hann þar sem slíkt fyrirkomulagi hafi einfaldlega ekki gengið upp fjárhagslega. Einnig hafi það legið fyrir að nýir menn væru að koma að félaginu og að uppskipting þess væri fyrirhuguð. Stefndi hafi ætíð átt gott samstarf við starfsmenn sína. Því hafi það þótt það til góðra siða að senda sjómönnum orðsendingu um að ekki væri ljóst hvort skipinu (og Erni KE, sem stefndi hafi átt) yrði haldið til veiða í framtíðinni, sbr. dskj. nr. 3, þannig að sjómennirnir gætu gert sínar ráðstafanir. Stefndi hafi litið svo á og líti enn svo á að sjómenn á þessum skipum hafi verið ráðnir tímabundið til hverrar vertíðar/hvers úthalds í senn og að fullu hafi verið gert upp við þá samkvæmt ráðningar- og kjarasamningum.

Í lok loðnuvertíðar hafi Sunnutindi SU verið skilað til eiganda þess, Vísis hf., sem muni hafa tekið þá ákvörðun að selja skipið til niðurrifs þar sem það væri ekki “á vetur setjandi”. Skipið hafi verið selt til Danmerkur og þeir sjómenn, sem skráðir hafi verið á skipið þann 27. maí 2004, sbr. dskj. nr. 10 hafi verið á vegum eiganda þess eða hins erlenda kaupanda. Stefndi geti ekki upplýst um hvort er, en það sé ljóst að skipinu hafi ekki verið haldið til veiða við þetta tækifæri; því hafi einungis verið siglt til Danmerkur. Tveir þeirra, sem skráðir hafi verið, séu danskir. Stefndi hafi ekki haft yfirráð yfir skipinu á þessum tíma né getað nokkru um það ráðið hver yrði fenginn til að sigla því til Danmerkur og hafi reyndar verið ókunnugt um að það stæði til. Á skipið hafi verið skráður fyrsti stýrimaður en enginn annar stýrimaður, sbr. dskj. nr. 10. Stefnandi hafi einmitt gegnt stöðu annars stýrimanns eins og að framan greini og hafi því enginn verið að ganga í meint störf stefnanda, hvað sem öðru líði.

III.

Málsástæður

Málsástæður stefnanda.

Stefnandi kveður kröfugerð sína tvíþætta. Annars vegar krefji stefnandi stefnda um vangreidd laun og hins vegar um laun vegna riftunar ráðningarsamnings.

Stefnandi heldur því fram að hann hafi verið ráðinn ótímabundið á m.s. Sunnutind SU-59 (979) hjá stefnda þann 10. september 2003. Ráðningin hafi ekki verið tímabundin eða til ákveðins tíma eða ákveðinnar vertíðar, sbr. 9. gr. sjómannalaga nr. 35/1985. Uppsagnarfrestur yfirmanna, þ.m.t. stýrimanns, sé þrír mánuðir, sbr. 9. gr. og 25. gr. sjómannalaga, sbr. 3. mgr. 1.21 kjarasamnings F.F.S.Í. og L.Í.Ú.

Ráðningu stefnanda hafi lokið 27. maí 2003, er nýr stýrimaður hafi hafið störf á skipinu, án þess að stefnanda hefði áður verið sagt upp störfum eða ráðningu hans slitið af öðrum ástæðum.

Ekki hafi verið gerður við stefnanda skriflegur ráðningarsamningur eins og stefnda hafi verið lögskylt skv. 6. gr. sjómannalaga nr. 35/1985, sbr. auglýsingu nr. 503/1997 um gildistöku tilskipunar Evrópusambandsins nr. 91/553/EBE frá 14. október 1991 um skyldu vinnuveitanda að skýra launþegum frá samningsskilmálum eða ráðningarfyrirkomulagi, sbr. og gr. 1.21 kjarasamnings F.F.S.Í. og L.Í.Ú.

Þá áréttar stefnandi að stefndi sem útgerðaraðili skipsins beri sönnunarbyrðina fyrir þeirri fullyrðingu sinni að stefnandi hafi eingöngu verið ráðinn á skipið tímabundið eða til ákveðinna verkaefna og eigi því ekki rétt á uppsagnarfresti. Verði stefnandi að bera hallann af vanrækslu lögbundinnar skyldu sinnar til að gera skriflegan ráðningarsamning við stefnanda. Vísar stefnandi til dómafordæma hvað þetta atriði varðar og með vísan til þeirra heldur stefnandi því fram að hann hafi verið ráðinn ótímabundið til starfa hjá stefnda þegar stefndi sleit ráðningarsamningi hans.

Eins og fram komi á launaseðli vegna mars 2004 hafi stefndi greitt stefnanda síðast laun vegna ráðningartímabilsins 1. – 21. mars 2004. Eftir þann tíma hafi stefndi ekki greitt stefnanda laun.

Samkvæmt 1. mgr. 27. gr. sjómannalaga taki skipverji laun frá og með þeim degi sem hann kemur til vinnu á skipi. Samkvæmt 2. mgr. 27.gr. sömu laga taki skipverji kaup til þess dags og að honum meðtöldum er ráðningu hans lýkur samkvæmt ráðningar- eða kjarasamningi og skipti ekki máli þótt hann hafi verið afskráður áður. Um vinnulaun vísar stefnandi til greinargerðar með 27. gr. sjómannalaga, ákvæða þeirra laga, svo og til ákvæða í viðkomandi kjarasamningum. Þá segi að til að skipverji eigi rétt til launa verði skipverjinn að inna vinnu af hendi eða vera reiðubúinn til þess. Þá segi að útgerðarmaður eða skipstjóri skuli boða skipverja til vinnu. Stefnandi hafi verið tilbúinn til vinnu tímabilið 22. mars 2004 og áfram, en stefnandi hafi aldrei verið kallaður til vinnu.

Stefnandi eigi skv. ákvæðum kjarasamninga og sjómannalaga rétt á greiðslu launa í formi tímakaups vegna tímabilsins frá 22. mars 2004 til 27. maí 2004, er ráðningu stefnanda hafi verið rift, sem nemi 40 klst. á viku, þ.e. 8 klst. hvern virkan dag eftir að veiðitímabili lýkur, uns veiðar hefjast að nýju miðað við að viðkomandi skipi sé haldið út og rekstri þess ekki hætt.

Stefnandi byggir á því að ráðningarsamningi hans hafi verið rift með þrenns konar hætti.

Í fyrsta lagi með því að stefnandi hafi tilkynnt honum með bréfi dags. 26. maí 2003 að útgerð skipsins væri hætt. Þar segi m.a. orðrétt: “Á þessari stundu liggi fyrir að Festi hf. mun ekki framar gera út skipin Örn KE-13, 1012 og Sunnutind SU 59, 0979.”  Með þeirri yfirlýsingu, sem jafngildi yfirlýsingu um að stefnandi ætlaði ekki að efna ráðningarsamninginn, hafi forsendur ráðningar stefnanda brostið. Vísað er til dómafordæma.

Í öðru lagi hafi ráðningarsamningnum verið rift fyrirvaralaust með ráðningu nýs stýrimanns í stað stefnanda þann 27. maí 2004, sbr. lögskráningarvottorð. Hafði ráðningu stefnanda því verið slitið af þessum ástæðum, áður en ráðningunni var slitið af þeim ástæðum að skipið missir réttinn til að sigla undir íslenskum fána. Vísar stefnandi til dómafordæma hvað þetta atriði varðar.

Í þriðja lagi hafi ráðningu stefnanda verið slitið með sölu skipsins til útlanda, en skv. 1. mgr. 22. gr. sjómannalaga nr. 35/1985 teljist ráðningu skipverja rift “þegar skip missir rétt til að sigla undir íslenskum fána.” Fram komi að m.s. Sunnutindur SU-59 hafi verið siglt úr landi þann 28. maí 2004 undir íslenskum fána, þótt hann hefði þá þegar verið seldur erlendum aðila í brotajárn. Skipið hafi verið tekið af íslenskri skipaskrá, þ.e. “missir rétt til að sigla undir íslenskum fána “ þann 25. júní 2004. Riftun ráðningarsamningsins hefði þá tekið gildi, hefði riftunin átt sér stað áður, eins og að framan greini. Vísað er til dómafordæma.

Yfirmenn á skipum, að frátöldum skipstjóra, eigi rétt á óskertum launum á þriggja mánaða uppsagnarfresti, sbr. 9. gr. og 25. gr. sjómannalaga nr. 35/1985 og allan uppsagnartímann. Komi því ekki til að stefnda sé heimilt að draga frá meðallaunum stefnanda á uppsagnarfresti tekjur, sem hann kann að hafa unnið sér inn annars staðar á meðan á uppsagnarfresti stóð. Vísað er til dómafordæma.

Stefnandi krefst þess að stefndi greiði sér meðallaun í uppsagnarfresti miðað við eigin aflareynslu þann tíma, sem hann starfaði á skipinu. Þar sem stefnandi hafi aðeins starfað í tæpan mánuð á skipinu, sé ekki við lengra tímabil að styðjast. Réttur skipverja til greiðslu meðallauna í uppsagnarfresti sé í samræmi við fjölmarga dóma Hæstaréttar Íslands. Meðallaun séu fundin með því að deila lögskráningardögum í tekjur á ráðningartíma, en þannig fáist meðallaun pr. lögskráningardag og síðan sé margfaldað með 90 dögum, þ.e. uppsagnarfresti stefnanda. Vísað er til fjölmargra dómafordæma. Kveður stefnandi að samkvæmt dómfordæmum skuli miða við meðallaun viðkomandi þegar laun í uppsagnarfresti vegna riftunar séu ákvörðuð, en ekki eingöngu lágmarkslaun eins og stefnandi haldi fram.

Stefnandi vísar ennfremur til dómafordæma hvað varðar kröfu um orlof á laun, glötuð lífeyrisréttindi, fæðispeninga, fatapeninga og aðrar aukagreiðslur, svo hvað varðar dráttarvexti.

Stefnandi sundurliðar kröfur sínar þannig:

Vangreidd laun á ráðningartíma. Tímabilið 22. mars til 27. maí 2004, er ráðningu stefnanda hafi verið rift, hafi virkir dagar, þ.e. svonefndir svartir dagar, verið alls 44 dagar x 8 klst. á dag = 352 klst. x 963 kr. = 338.976 krónur x 10.17% orlof eða 34.474 krónur. Samtals 373.450 krónur (338.976 + 34.474). Krafa stefnanda um vangreidd laun á ráðningartíma sé því 373.450 krónur.

Vangreidd laun á uppsagnarfresti. Samkvæmt launaseðlum stefnanda frá þeim tíma er hann var ráðinn þann 10. september 2003 til 22. mars 2004, er m.s. Sunnutindi SU-59 hafi verið lagt og fiskveiðum hætti, hafi heildarlaun stefnanda numið 1.790.413 krónur og lögskráningardagar 148. Meðallaun séu því 12.097 krónur (1.790.413 / 148 lögskráningardögum) x 90 dagar í uppsagnarfresti = 1.088730 krónur x 10.17% orlof = 110.724 krónur eða samtals 1.199.454 krónur. Glötuð 6% lífeyrisréttindi af meðallaunum og orlofi (1.199.454 krónur), sbr. gr. 1.43 í kjarasamningi FFFSÍ og LÍÚ = 71.967 krónur. Samtals nemi vangreidd laun í uppsagnarfresti því 1.271.421 krónum (1.199.454 + 71.967 krónur).

Stefnandi kveður kröfu sína vegna vangreiddra launa á ráðningartíma og vangreiddra launa á uppsagnarfresti vegna riftunar nema 1.644.871 krónum (373.450 + 1.271.421)

Stefnandi kveðst byggja kröfur sínar á 6. gr., 9. gr., 22. gr., 25. gr. og 27. gr. sjómannalaga nr. 35/1985. Um orlof er vísað til orlofslaga nr. 30/1987. Um dráttarvexti er vísað til III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001. Um málskostnað er vísað til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Um virðisaukaskatt er vísað til laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988.

Málsástæður stefnda.

Stefndi kveðst fullyrða að stefnandi og allir aðrir skipverjar á Sunnutindi hafi verið ráðnir tímabundið til hverrar vertíðar/hvers úthalds í senn. Málefnalegar ástæður hafi ráðið þessu fyrirkomulagi. Stefndi hafi ekki verið eigandi skipsins og hafi eigandinn getað kallað það til sín þegar hann vildi. Skipið hafi verið án allra aflaheimilda og hafi verið leigt þannig og hafi útgerð þess byggst á þeim aflaheimildum /aflamarki, sem stefndi hafi getað útvegað til þess á hverjum tíma. Þetta hafi stefnanda verið fullljóst og hafi hann því ekki getað vænst þess að stefndi myndi halda skipinu til veiða til frambúðar og að stefnandi hefði ótímabundna ráðningu svo lengi sem hann vildi. Starfslok stefnanda hafi að fullu farið saman við stöðvun á úthaldi skipsins til veiða. Geti stefnandi því ekki byggt á því að ráðningu hans hafi verið slitið með ólögmætum hætti af þessum sökum.

Þá geti stefnandi ekki byggt á því að annar maður hafi verð ráðinn í hans stað án þess að stefnanda hafi verið gefinn kostur á að ganga í þá stöðu. Bæði leiði það af því sem segi í næstu málsgrein hér að framan og eins því sem segi í kafla um málavextir, að sá stýrimaður, sem skráður hafi verið á skipið 27. maí 2004, hafi einungis verið ráðinn í stuttan tíma til að ferja skipið til Danmerkur. Stefnandi telji sig hins vegar hafa verið ráðinn til fiskveiða, ekki “ferjusiglinga”. Þessi stýrimaður hafi því ekki verið að “ganga í störf” stefnanda, sbr. og framangreint um skráða stöðu umrædds stýrimanns.

Þá byggi stefnandi riftunarkröfu sína á að skipi hafi verið selt úr landi og að það sé sjálfstæð riftunarkrafa. Eins og skýrt sé hér að framan hafi það alfarið verið eigandi skipsins, sem hafi átt ákvörðunarvald um það hvort hann vildi gera skipið út áfram eða selja það til niðurrifs. Það hafi ekki verið ákvörðun sem stefndi hafi tekið og hann engu getað um það ráðið því hann hafi ekkert haft með það að gera að ráðskast með skipið eftir að því hafði verið skilað. Stefnandi geti því ekki byggt bótakröfu um riftun á grundvelli ákvörðunar eiganda skipsins um að selja það í brotajárn.

Þáverandi lögmaður stefnanda hafi sent stefnda bréf 11. júní 2004 (dskj. nr. 6). Þar krefjist hann einungis kauptryggingar frá 22. mars til 28. maí 2004 eða í 66 daga, samtals 384.894 krónur með orlofi. Síðan gefi hann sér þær forsendur að síldveiðar myndu byrja skömmu eftir 28. maí (á veiðiréttindalausu skipinu) og því eigi stefnandi rétt til svokallaðra meðalbóta skv. 25. gr. sjómannalaga í 3 mánuði frá þeim degi og gefi sér síðan forsendur til að reikna þær út. Reikni hann þá með meðallaunum stefnanda allan þann tíma, sem hann hafi verið á skipinu, eins og dómstólar hafi stundum gert þegar forsendur séu á annað borð til greiðslu bóta skv. 25. gr. sjómannalaga. Þessari aðferð hans sé mótmælt, en hún sé síðar viðhöfð í stefnu, en reyndar með öðrum tölum að hluta til.

Því sé haldið fram sem sjálfstæðri málsástæðu að stefnandi hafi starfað í það stuttan tíma hjá stefnda (og það stopult) að hann hefði aldrei verið búinn að vinna sér rétt til  launa á uppsagnarfresti á grundvelli starfsaldursreglna.

Laun fiskimanna hafi um langan aldur byggst upp á tvenns konar kerfi; annars vegar kauptryggingu eða lágmarkslaunum og hins vegar aflahlutdeild. Dómstólar hafi stundum dæmt sjómönnum bætur í þrjá mánuði frá ráðningarslitum og hafi bæturnar tekið mið af aflahlutdeild, sem þeir hefðu fengið miðað við hvað veiðst hefur á skip á tilteknu tímabili á undan ráðningarslitum, oftast næstu þrjá mánuði á undan. Hér sé um að ræða einhvers konar tilraun dómstóla til að setja "staðalbætur" vegna ráðningarslita skv. 25. gr. sjómannalaga, þegar sú grein eigi við. Þessi regla getur hins vegar alls ekki gilt um allar veiðar. Þannig hátti til að ýmsar veiðar séu aðeins leyfðar á tilteknum tímabilum, eins og t.d. loðnuveiðar, sem einungis hafi verið leyfðar á tímabilinu frá 8. jú1í 2003 til 30. aprí1 2004, sbr. rgl. nr. 523/2003. Sambærileg ákvæði séu mörg í öðrum reglugerðum um aðrar veiðar. Þá hagi náttúrulegar aðstæður í sjónum og í lífríkinu því þannig til, að tilteknar tegundir fiskjar veiðast ekki á tilteknum árstímum. Miðað við núverandi útgerðarmynstur Íslendinga og núgildandi reglur um stjórn fiskveiða geti þessi "staðalbótaregla" í mesta lagi átt við um togara en ekki önnur skip. Það sé t.d. augljóst að þessi "staðalbótaregla" getur alls ekki gilt um veiðar á uppsjávarfiski. Það getur ekki staðist að beita þessari reglu þannig að hún nái til þess að sjómaður fái "hlut" úr "afla" sem skipinu sé ekki heimilt að veiða. Til að skýra þetta nánar megi benda á atvik þessa máls. Útgerðin eigi ekki aflaheimildir/aflamark umfram það, sem keypt hefði verið til skipsins og það aflamark (í loðnu) hefði nánast allt verið nýtt þegar loðnuvertíð lauk. Því sé mótmælt að staðalbótareglunni verði beitt í þessu máli.

Um varakröfu sína segir stefndi að hann telji sig að fullu hafa gert upp laun stefnanda í samræmi við kjarasamninga og ráðningarsamning og að stefnandi eigi engar kröfur á hendur honum og beri að sýkna stefnda af öllu kröfum stefnanda. Til vara krefst stefndi þess, að krafa stefnanda verði lækkuð og nái þá einungis til kauptryggingar svo sem stefnandi krefjist, að frádregnum þeim launum sem hann hafi aflað sér annars staðar á sama tíma og launa sé krafist fyrir, en fái ekki bætur vegna meints missis aflahlutar með vísan til framanritaðra raka.

IV.

Niðurstaða

Fyrir liggur að stefndi gerði ekki skriflegan ráðningarsamning, skipsrúmssamning, við stefnanda svo sem honum var skylt samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sjómannalaga nr. 35/1985. Með því að stefndi vanrækti þessa skyldu sína ber hann samkvæmt dómafordæmum hallann af sönnunarskorti um lengd ráðningartíma stefnanda. Hefur stefnda ekki tekist að hnekkja staðhæfingu stefnanda um að hann hafi verið ráðinn ótímabundið á skipið Sunnutind SU-59, sem var í útgerð stefnda.

Líta verður svo á að ráðningu stefnanda hafi verið slitið hinn 26. maí 2004, er framkvæmdastjóri stefnda tilkynnti skipverjum á Erni KE og Sunnutindi SU að hætt hefði verið við útgerð skipanna. Voru ráðningarslitin fyrirvaralaus og liggur ekki fyrir að stefnandi hafi átt þess kost að vinna hjá stefnda á mánaða uppsagnarfresti.

Samkvæmt 1. mgr. 25. gr. sjómannalaga á skipverji, sem vikið hefur verið úr skipsrúmi áður en ráðningartími hans er liðinn og án þess að heimild sé til þess í 23. og 24. gr. laganna, rétt á kaupi þann tíma, sem fyrir er mælt í 9. gr. Stefnandi, sem starfaði sem stýrimaður á Sunnutindi SU-59, á því rétt á launum í þrjá mánuði, sbr. 2. mgr. 9. gr. sjómannalaga.

Með vísan til dómafordæma, sbr. dóma Hæstaréttar í málum nr. 326/2000, 197/2001, 135/2002, 319/2002 og 292/2002, þar sem bótareglu 25. gr. sjómannalaga hefur verið beitt við líkar aðstæður og hér eru fyrir hendi, er fallist á kröfu stefnanda um greiðslu meðallauna næstu mánaða áður en ráðningu hans var slitið. Í dómum Hæstaréttar hefur verið litið svo á að óeðlilegt sé og andstætt meginreglum vinnuréttarins að sjómenn þurfi að sæta skerðingu á launum sínum á uppsagnarfresti vegna ráðstafana, sem útgerðaraðili grípur til einhliða sér til hagsbóta, þ.e. að hætta rekstri skips. Einnig hefur verið vísað til þess að útgerðaraðilum sé í lófa lagið að haga ráðstöfunum sínum með þeim hætti að starfslok viðkomandi sjómanns falli saman við stöðvun á úthaldi skipsins til veiða. Telja veður að rök þessi eigi að fullu við í máli þessu.

Telja verður að stefnandi hefði mátt vænta þess að halda óskertum ráðningarkjörum þar til ráðningartíma hans lyki samkvæmt ráðningar- og kjarasamningi, en óumdeilt er að hann var ráðinn upp á aflahlut.

Af hálfu stefnda hefur því verið haldið fram í máli þessu að bótaregla 25. gr. sjómannalaga geti ekki gilt um allar veiðar, svo sem veiðar, sem aðeins séu leyfðar á tilteknum tímabilum, eins og t.d. loðnu- og síldveiðar. Það geti ekki staðist að beita þessari reglu þannig að hún leiði til þess að sjómaður fái hlut úr afla, sem skipinu sé óheimilt að afla eða hafi ekki heimildir til að veiða. Fram er komið að á skipinu Sunnutindur SU-59 voru stundaðar veiðar á loðnu og síld. Einnig er komið fram að stefndi leigði skipið án allra aflaheimilda og að rekstur þess var háður því að stefndi fengið skipið leigt og að honum tækist til að útvega á það aflamark á hverjum tíma.

Í dómi Hæstaréttar í málinu nr. 197/2001 segir að ef breyta ætti frá þeirri dómaframkvæmd, sem að ofan greinir, þ.e. líta til launa sjómanna næstu mánuðina fyrir starfslok þegar bætur skv. 25. gr. sjómannalaga eru ákveðnar, hefði það í för með sér verulega óvissu, meðal annars vegna þess að aflaheimildir séu framseljanlegar. Var því ekki fallist á það að taka mið af aðstæðum, sem kunni að vera fyrir hendi í einstökum tilvikum og hafna um leið að framtíðartjón verði ákveðið með hliðsjón af launagreiðslum síðustu mánaða fyrir starfslok.

Með hliðsjón af þessu er ekki fallist á að bótaregla 25. gr. sjómannalaga, eins og henni hefur verið beitt í framkvæmd, geti ekki átt við í máli þessu þar sem skipið hafi stundið veiðar, sem aðeins séu leyfðar á tilteknum tímabilum. Hér ber og að hafa í huga að miðað er við að ráðningu stefnanda hafi verið slitið í lok maí, en að öllu jöfnu hefði skipið haldið til síldveiða í byrjun júní. Með hliðsjón af framangreindu og niðurstöðu í máli nr. 135/2002 er heldur ekki fallist á þá málsástæðu stefnda að bótaregla 25. gr. sjómannalaga geti ekki átt við í málinu þar sem umrætt skip hafi verið leiguskip án allra aflaheimilda og að útgerð þess hafi verið hætt sökum þess að stefndi hafi orðið að skila því til leigusala.

Ekki hefur verið sýnt fram á að sú viðmiðun sem stefnandi leggur til grundvallar launum á uppsagnarfresti sé ósanngjörn, þ.e. laun hans frá því að hann var ráðinn á skipið 10. september 2003 og til þess tíma er skipinu var lagt og fiskveiðum hætt 22. mars 2004. Með vísan til alls ofangreinds er fallist á kröfu stefnanda um greiðslu meðallauna á uppsagnarfresti eins og hún er fram sett í stefnu, en ekki er tölulegur ágreiningur um kröfuna.

Auk launa á uppsagnarfresti hefur stefnandi krafist launa á ráðningartíma, þ.e. frá 22. mars til 27. maí 2004, er ráðningu stefnanda var rift.

Í 27. gr. sjómannalaga segir að skipverji taki kaup frá og með þeim degi sem hann kemur til vinnu á skipinu og til þess dags og að honum meðtöldum er ráðningu hans lýkur samkvæmt ráðningar- eða kjarasamningi og skipti þá ekki máli þótt hann hafi verið afskráður áður. Ennfremur segir að um vinnu skipverja fari eftir kjarasamningum og sjómannalögum. Í greinargerð með lögunum segir um þessa lagagrein að í henni sé áréttuð sú grundvallarregla vinnuréttar, að til þess að eiga rétt til launa verði launþegi að inna vinnu af hendi eða vera reiðubúinn til þess.

Samkvæmt grein 1.09 í kjarasamningi Farmanna- og fiskimannasambands Íslands og Landssambands íslenskra útvegsmanna segir um kauptryggingu að útgerðarmaður tryggi yfirmönnum mánaðarlegar kaupgreiðslur upp í hundraðshluta afla þeirra frá lögskráningardegi til afskráningardags. Ennfremur segir að forfallist skráður skipverji skuli kauptrygging hans skiptast milli þeirra manna, sem í þá veiðiferð fóru. Með hliðsjón af framangreindu þykir ljóst að kjarasamningur aðila gerir aðeins ráð fyrir að kauptrygging greiðist meðan viðkomandi eru lögskráður á skipið og því er haldið til veiða. Fyrir liggur að stefnandi var afskráður af skipinu 22. mars 2004.

Ljóst er að ráðningarsamningi stefnanda var ekki slitið fyrr en 26. maí 2004. Stefnandi heldur því fram að hann hafi verið reiðubúinn til að inna vinnu af hendi í þágu stefnda frá 22. mars til 26. maí, en að hann hafi ekki verið boðaður til vinnu á skipinu af hálfu stefnda. Í 59. gr. sjómannalaga segir að skipverji sé skyldur að koma á ákveðnum tíma í skiprúmið. Enn fremur segir að sé hann ekki staddur á skipi en veit eða má vita að hann muni bráðlega vera kvaddur til skips, sé honum skylt, eftir því sem honum er unnt, að fylgjast með ferðum skipsins og vera tilbúinn til að taka upp störf sína að nýju þegar þess er þörf enda skuli útgerðarmaður eða skipstjóri veita honum greiðar upplýsingar um ferðir skips, eftir því sem unnt er. Á því tímabili, sem um ræðir, taldi stefnandi sig enn vera í ráðningarsambandi við stefnda og með hliðsjón af bréfi stefnda til skipverja á skipunum Erni KE og Sunnutindi SU dags. 26. mars 2005 hafði stefndi ekki gefið stefnanda skýrar upplýsingar um hvert framhald málsins yrði. Með hliðsjón af framangreindu og með stoð í 3. mgr. greinar 1.32 í kjarasamningi aðila verður fallist á kröfu stefnanda um greiðslu tímakaups á þessu tímabili. Krafa þessi hefur ekki sætt mótmælum tölulega af hálfu stefnda og er hún því tekin greina eins og hún er sett fram í stefnu.

Með vísan til alls framangreinds verður krafa stefnanda tekin til greina að fullu með dráttarvöxtum eins og krafist er og nánar greinir í dómsorði.

Með hliðsjón af málsúrslitum þykir rétt að stefndi greiði stefnanda málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn 249.000. Við ákvörðun málskostnaðar hefur verið tekið tillit til virðisaukaskatts af málflutningsþóknun. Einnig hefur verið tekið tillit til þess að lögmaður stefnanda þingfesti og flutti mál nr. E-31 og E-33/2005, á hendur stefnda á sama á sama tíma og mál það, sem hér um ræðir.

Dóm þennan kveður upp Ragnheiður Bragadóttir dómstjóri.

Dómsorð:

Stefnda, Festarfell ehf., greiði stefnanda, Jóni Karlssyni, 1.644.871 krónur með dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 frá 1. júní 2004 til greiðsludags.

Stefndi greiði stefnanda 249.000 krónur í málskostnað, þ.m.t. virðisaukaskattur.