Hæstiréttur íslands
Mál nr. 48/2002
Lykilorð
- Kærumál
- Vanreifun
- Frávísunarúrskurður staðfestur
|
|
Fimmtudaginn 7. febrúar 2002. |
|
Nr. 48/2002. |
Hartmann Ásgrímsson(Jón Hjaltason hrl.) gegn Vestmannaeyjabæ (enginn) |
Kærumál. Vanreifun. Frávísunarúrskurður staðfestur.
Máli H gegn V var vísað frá héraðsdómi á þeim grundvelli að slíkir annmarkar væru á reifun þess að ekki væri unnt að leggja efnisdóm á kröfur H.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Gunnlaugur Claessen og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 14. janúar 2002, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 30. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 9. janúar 2002, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði ásamt kærumálskostnaði.
Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Kærumálskostnaður dæmist ekki.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 9. janúar 2002.
Mál þetta, sem tekið var til dóms 12. desember sl., var höfðað 27. apríl 2001.
Stefnandi er Hartmann Ásgrímsson, Breiðabliki, Vestmannaeyjum.
Stefndi er Vestmannaeyjabær, Ráðhúsinu, Vestmannaeyjum.
Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda andvirði lóðarinnar nr. 15 við Birkihlíð í Vestmannaeyjum, 1.000.000 króna auk skaðabóta og miskabóta fyrir töku lóðarinnar 1.000.000 króna, þ.e. samtals 2.000.000 króna, með hæstu dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 8. nóvember 2000 til greiðsludags, gegn afsali fyrir eigninni.
Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda. Þá krefst stefndi málskostnaðar úr hendi stefnanda samkvæmt mati réttarins.
Málsatvik.
Stefndi gaf út lóðarleigusamning 20. mars 1987 til Sigurðar Gissurarsonar, vegna íbúðarhúsalóðar að Birkihlíð 15, Vestmannaeyjum og var honum þinglýst 20. maí 1987. Í samningnum kemur fram að lóðin sé 540 fermetrar að flatarmáli, sé leigð til byggingar samkvæmt uppdráttum samþykktum af byggingarnefnd bæjarins og að hvers konar önnur notkun lóðarinnar sé óheimil. Þá segir í 3. tl. samningsins að leigutaki skuli hafa undirritað samninginn innan þriggja mánaða frá samþykkt byggingarnefndar og hafið byggingarframkvæmdir á lóðinni innan eins árs frá dagsetningu samningsins, ella falli lóðin aftur til bæjarins endurgjaldslaust.
Sigurður Gissurarson sótti hvorki um byggingu íbúðarhúss á lóðinni, né hóf byggingarframkvæmdir á henni. Hann seldi hins vegar stefnanda réttindi sín til lóðarinnar með afsali dags. 17. janúar 1991, fyrir 250.000 krónur. Eftir það hefur stefnandi greitt fasteignagjöld til stefnda vegna lóðarinnar. Stefnandi hefur haft lóðarréttindin til sölu frá árinu 1994.
Á fundi skipulags- og byggingarnefndar Vestmannaeyja 16. október 2000 var m.a. samþykkt: ,,Nefndin samþykkir að úthluta Ingva S. Sigurgeirssyni lóð að Birkihlíð 15 til byggingar íbúðarhúss og felur skipulags- og byggingarfulltrúa að ganga frá lóðarleigusamningi varðandi lóðina. Varðandi Hartmann Ásgrímsson, afsalshafi frá 17. janúar 1991, þá er skipulags- og byggingarfulltrúa falið að gera honum grein fyrir afgreiðslu nefndarinnar”. Lóðargjöld voru tilgreind 118. 800 krónur.
Byggingarfulltrúi tilkynnti stefnanda 17. október 2000 ofangreinda samþykkt byggingarnefndar. Eftir afgreiðslu málsins í bæjarstjórn Vestmannaeyja 8. nóvember 2000, þar sem samþykkt var afgreiðsla fundar skipulags- og byggingarnefndar frá 17. október, sendi stefnandi erindi til Matsnefndar eignarnámsbóta vegna töku lóðarinnar. Nefndin féllst ekki á að skilyrði væru til að taka málið fyrir hjá nefndinni þar sem deila stæði um rétt stefnanda til lóðar.
Málsástæður og lagarök stefnanda.
Stefnandi kveður að Sigurður Gissurarson hafi hvorki sótt um byggingu íbúðarhúss á lóðinni né hafið byggingarframkvæmdir á henni innan árs frá dagsetningu lóðarsamnings. Hins vegar sé alveg ljóst að stefndi hafi látið hjá líða að taka lóðina aftur með þeim hætti sem 3. töluliður lóðarleigusamnings geri ráð fyrir. Hafi þá Sigurði verið heimilt að selja leigurétt sinn að lóðinni í heild samkvæmt 6. tölulið, sbr. og 8. tölulið samningsins. Fyrir liggi veðbókarvottorð, dags. 19. október 2000, er sýni að lóðin hafi verið kvaðalaus eign stefnanda og sé svo enn. Þá liggi fyrir vottorð stefnda og vottorð Innheimtuþjónustu Sparisjóðs, dags. 17. nóvember 2000, um að stefnandi hafi greitt gjöld til stefnda vegna lóðarinnar. Fyrir liggi og teikningar arkitekts frá maí 1991 er sýni og sanni tilgang stefnanda með kaupum á lóðinni að byggja á henni íbúðarhús er hentaði fyrir fjölskyldu stefnanda. Hafi stefnandi þá ætlað að sækja um byggingu húss til byggingarnefndar Vestmannaeyja, en ekki hafi komið til þess. Eftir 1994 hafi stefnandi haft erfðafesturéttindin til sölu, m.a. hjá löggiltum fasteignasala, án þess að til sölu kæmi.
Stefnandi vísar til almennra reglna eignaréttar og kröfuréttar sem og til skaðbótaréttar til stuðnings kröfum sínum. Stefnandi kveður að um ólöglega eignatöku hafi verið að ræða samkvæmt 1. gr. skipulagslaga nr. 73/1997 og í bága við 1. og 2. tölulið 2. mgr. 32. gr. skipulagslaga um eignarnámsheimildir og 3. mgr. 32. gr. um undirbúning eignarnáms. Þinglýstur eigandi sé algjörlega sniðgenginn, en eignarrétturinn sé friðhelgur samkvæmt 72. gr. stjórnarskrár. Hvergi sé minnst á lögin um framkvæmd eignarnáms nr. 11/1973. Afgreiðsla stefnda á eignatökunni og ráðstöfun eignarinnar til umsækjanda sé því ekki aðeins löglaus heldur feli og í sér skaðabótaskylda meingerð við stefnanda.
Málsástæður og lagarök stefnda.
Stefndi kveðst byggja sýknukröfu sína á skýrum ákvæðum lóðarleigusamnings. Hann bendir á að ákveðinn tilgangur sé með útgáfu lóðarleigusamnings, sem sé sá að leigutaki byggi íbúðarhús á lóðinni. Tilgangurinn sé alls ekki sá að leigutaki fái lóðina til afnota án þess að byggja á henni íbúðarhús eða hefjast handa um byggingarframkvæmdir. Í 3. tl. samningsins komi fram að leigutaki skuli hafa undirritað lóðarleigusamning innan þriggja mánaða frá samþykkt byggingarnefndar og hafið byggingarframkvæmdir á henni innan eins árs frá dagsetningu samningsins, ella falli lóðin aftur til bæjarins endurgjaldslaust. Lóðarréttindagjald verði þó endurgreitt leigutaka án vaxta og verðbóta.
Lóðarleigusamningur hafi verið gefinn út 20. mars 1987 og samkvæmt skýrum ákvæðum hans hafi hann fallið niður eigi síðar en ári síðar, samkvæmt 3. tl. hans, þar sem ekki hafi verið hafnar byggingarframkvæmdir á lóðinni innan þess tíma. Ómótmælt sé í málinu að byggingarframkvæmdir hafi ekki verið hafnar innan þess frests og séu ekki enn hafnar. Samningnum hafi verið þinglýst 19. maí 1987 og hafi því legið fyrir þegar stefnandi fékk afsöluð réttindi leigutaka samkvæmt honum með afsali dags. 17. janúar 1991. Þá hafi stefnanda átt að vera ljóst að lóðarleigusamningurinn var niður fallinn samkvæmt skýrum ákvæðum hans. Það að stefnandi hafi greitt til Sigurðar Gissurarsonar samkvæmt nefndu afsali 250.000 krónur sé alfarið á hans ábyrgð, enda hafi stefnda ekki verið tilkynnt um afsal þetta eða hann samþykkt það á nokkurn hátt. Stefnanda hafi borið að skoða lóðarleigusamninginn enda hafi honum hlotið að vera ljóst að hann var ekki að kaupa önnur réttindi en Sigurður Gissurarson hafi átt samkvæmt samningnum. Þar sem stefnanda hafi átt að vera ljóst við gerð afsalsins að samningurinn var úr gildi fallinn, skapi það honum ekki rétt til lóðarleiguréttinda að hafa greitt af honum fasteignaskatt. Stefnandi hafi verið grandvís um að samningurinn hafi verið úr gildi fallinn. Stefnandi hafi og sjálfur annast um tilkynningu til Fasteignamats ríkisins.
Stefndi kveður stefnanda ekki hafa rökstutt fjárkröfur sínar með neinum hætti. Samkvæmt afsali fyrir lóðarleiguréttindum hafi stefnandi greitt 250.000 krónur til Sigurðar Gissurarsonar. Ekkert komi nánar fram í gögnum málsins um andvirði lóðarinnar. Þá liggi ekkert fyrir í málinu um tjón stefnanda vegna miska eða skaðabóta og sé því fjárkrafan algerlega órökstudd. Henni er því mótmælt sem algerlega órökstuddri og rangri.
Niðurstaða.
Eins og stefnandi hefur sett mál sitt fram krefst hann andvirðis lóðarréttinda að lóðinni nr. 15 við Birkihlíð í Vestmannaeyjum og skaða- og miskabóta vegna lóðartökunnar. Stefnandi tilgreinir kröfu sína svo að andvirði lóðarinnar sjálfrar sé 1.000.000 krónur, en krefst auk þess skaða- og miskabóta fyrir töku lóðarinnar að fjárhæð 1.000.000 króna.
Í málinu hefur stefnandi ekki lagt fram nein gögn er sýnt geti fram á hvert andvirði tilgreindra lóðarréttinda er.
Stefnandi kveðst byggja dómkröfur sínar á almennu skaðabótareglunni og kveður að um ólöglega eignatöku hafi verið ræða samkvæmt skipulagslögum og í bága við ákvæði skipulagslaga um eignarnámsheimildir. Eins og kröfugerð og málsástæðum stefnanda er háttað verður þó ekki ráðið hvort stefnandi byggi bótakröfur sínar á ólögmæti eignarnáms, eða einhverri annarri ólögmætri háttsemi stefnda. Þá verður á engan hátt ráðið af málinu hvaða tjóni stefnandi hefur orðið fyrir af völdum stefnda og kröfufjárhæð skaða- og miskabótakröfu er með öllu órökstudd.
Þegar framangreint er virt þykja þeir annmarkar vera á reifun málsins af hendi stefnanda og röksemdir hans fyrir kröfum sínum og útlistun þeirra með þeim hætti að ekki er unnt að taka efnislega afstöðu til krafna hans. Er því óhjákvæmilegt að vísa málinu sjálfkrafa frá dómi.
Í ljósi þessarar niðurstöðu þykir rétt að stefnandi greiði stefnda 90.000 krónur í málskostnað.
Ingveldur Einarsdóttir, héraðsdómari, kveður upp úrskurð þennan.
Ú r s k u r ð u r:
Kröfum stefnanda, Hartmanns Ásgrímssonar, er vísað frá dómi.
Stefnandi greiði stefnda, Vestmannaeyjabæ, 90.000 krónur í málskostnað.