Hæstiréttur íslands

Mál nr. 96/2005


Lykilorð

  • Vanreifun
  • Frávísun frá héraðsdómi


Fimmtudaginn 6

 

Fimmtudaginn 6. október 2005.

Nr. 96/2005.

Smárinn-Húsið fasteignamiðlun ehf.

(Halldór H. Backman hrl.)

gegn

Stalli ehf. og

Item ehf.

(Björn L. Bergsson hrl.)

 

Vanreifun. Frávísun máls frá héraðsdómi.

SH reisti málsókn sína í héraði, um sölulaun úr hendi S og I, á kauptilboði sem bar með sér að annar lögaðili hefði haft milligöngu við gerð þess. Í stefnu var ekki gerð grein fyrir hvernig SH taldi sig vera kominn að stefnukröfunni. Uppfyllti stefnan því ekki skilyrði ákvæða laga um meðferð einkamála er lúta að reifun máls. Talið var að ekki yrði bætt úr því sem aflaga fór að þessu leyti með framlagningu gagna fyrir Hæstarétti. Varð af þessum sökum ekki hjá því komist að vísa málinu sjálfkrafa frá héraðsdómi.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 4. mars 2005. Hann krefst þess að stefndu verði dæmdir til að greiða sér óskipt 2.303.250 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 10. júlí 2003 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndu krefjast staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Áfrýjandi reisti málsókn sína í héraði á kauptilboði 27. febrúar 2003 sem bar með sér að annar lögaðili, Húsið fasteignasala ehf., kt. 601092-2049, hefði haft milligöngu við gerð þess. Í stefnu var ekki grein gerð fyrir hvernig áfrýjandi taldi sig vera kominn að stefnukröfunni. Uppfyllti stefnan því ekki skilyrði 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála er lúta að reifun máls. Ekki verður bætt úr því sem aflaga fór að þessu leyti með framlagningu gagna fyrir Hæstarétti. Verður af þessum sökum ekki hjá því komist að vísa málinu sjálfkrafa frá héraðsdómi.

Rétt er að aðilarnir beri hver sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá héraðsdómi.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 8. desember 2004.

Mál þetta sem dómtekið var í dag er höfðað með stefnu, birtri 13. maí og 19. maí sl.

Stefnandi er Smárinn-Húsið fasteignamiðlun ehf., Suðurlandsbraut 50, Reykjavík.

Stefndu eru Stallur ehf., Viðarrima 21, Reykjavík og Item ehf., Miðhrauni 15, Garðabæ.

Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndu verði dæmd in solidum til að greiða honum 2.303.250 krónur auk dráttarvaxta skv. lögum nr. 38/2001 frá 10. júlí 2003 til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar.

Dómkröfur stefndu eru þær að þeir verði sýknaðir af öllum kröfum stefnanda og þeim tildæmdur málskostnaður.

MÁLSATVIK

Af hálfu stefnanda er málsatvikum lýst þannig að stefnandi sé rekstraraðili fasteigna- og fyrirtækjasölu. Sem slíkur hafi stefnandi haft til sölu, fyrir hönd stefnda Item ehf., allan rekstur félagsins, tæki, búnað, nafn, viðskiptavild, vörubirgðir o.fl. Stefndi, Item ehf. hafi áður heitið Páll Pálsson ehf., en nafni félagsins verið breytt þann 14. janúar 2004. Þáverandi forsvarsmaður stefnda, Item ehf., hafi falast eftir þjónustu stefnanda og hefði fyrirtækið verið á sölu í hartnær ár þegar forsvarsmaður stefnda, Stalls ehf., hafi leitað til stefnanda með hugsanleg kaup í huga. Starfsmaður stefnanda, Jens Ingólfsson rekstrarhagfræðingur, hafi haft umsjón með viðskiptunum.

Þann 27. febrúar 2003, hafi verið gengið frá skriflegu kauptilboði milli stefndu. Svo sem þar komi fram hafi kaupverð verið 17.000.000 króna auk þess sem kaupandi skyldi greiða fyrir vörubirgðir 60% of heildsöluverði að frádregnum virðisaukaskatti. Áætlað kaupverð vörubirgða á þessum tímapunkti hafi verið talið nema 27.000.000 króna og heildarsamningsfjárhæð þannig talin nema 44.000.000 króna. Kauptilboðið hafi verið gert með fyrirvara um fjármögnun og áreiðanleikakönnun af hálfu stefnda, Stalls ehf. Þar sé einnig ákvæði þess efnis að kaupandi, þ.e. stefndi, Stallur ef, skyldi ábyrgjast greiðslu sölulauna gagnvart seljanda, þ.e. stefnda, Item ehf.

Stefndu í málinu hafi ekki frekar leitað til stefnanda vegna viðskiptanna og kosið að ljúka þeim án aðkomu stefnanda, sem þó hefði komið viðskiptunum á. Stefnanda sé þó kunnugt um að kaupin hafi náð fram að ganga að mestu í samræmi við fyrrgreint kauptilboð í maí 2003.

Í kjölfar þess að stefnandi hafi fengið upplýsingar um afdrif viðskiptanna hafi fyrrgreindur starfsmaður stefnanda hafist handa við að afla nánari upplýsinga um inntak þeirra, endanlega fjárhæð kaupverðs rekstrar og vörubirgða o.s.frv. Afar illa hafi gengið að fá upplýsingar þar að lútandi frá stefndu. Þann 2. júní 2003 hafi starfsmaður stefnanda átt fund með forsvarsmanni stefnda, Stalls ehf., og hafi þær upplýsingar fengist á fundinum að endanlegt kaupverð, að vörubirgðum meðtöldum, hefði munið 37.000.000 króna.

Þar sem stefndu hafi kosið að veita stefnanda ekki nánari upplýsingar þar að lútandi sé krafa um sölulaun byggð á þeirri fjárhæð og að öðru leyti miðuð við gjaldskrá stefnanda. Stefndu hafi ekki brugðist við áskorunum lögmanns stefnanda um að upplýsa um endanlegt kaupverð.

Reikningur vegna sölulauna stefnanda hafi verið gefinn út þann 10. júní 2003 og sendur stefnda, Stalli ehf.  Þann 1. júlí 2003 hafi reikningurinn ekki verið greiddur og stefnda, Stalli ehf., því verið sent bréf lögmanns stefnanda til áréttingar. Samhliða hafi stefnda, Item ehf. (áður Páli Pálssyni ehf.), verið sent bréf þar sem vakin hafi verið athygli á kröfunni og þeirri staðreynd að ef hún fengist ekki greidd af hálfu stefnda, Stalls ehf., myndi stefnandi beina kröfu sinni að félaginu sem seljanda í viðskiptasambandinu.

Hvorugur stefndu hafi greitt kröfu stefnanda. Þann 24. september 2003 hafi stefnda, Stalli ehf., verið sent innheimtubréf. Báðum stefndu hafi jafnframt verið send áminning og lokaaðvörun þann 20. apríl 2004. Allar innheimtuaðgerðir hafi reynst árangurslausar og sé stefnanda því nauðsynlegt að höfða mál þetta.

Stefnandi byggir á því að stefndu séu báðir in solidum ábyrgir fyrir greiðslu sölulauna stefnanda til handa í samræmi við útgefinn reikning. Engu breyti um greiðsluskyldu stefnda, Item ehf., þótt reikningurinn haft ekki verið gefinn út á nafn þess félags, enda sé stefnanda ómögulegt að gefa út tvo reikninga fyrir einni og sömu kröfunni. Þau viðskipti sem stefndu hafi átt sín á milli hafi komist á fyrir tilstilli stefnanda og hafi stefnandi annast alla meginþætti viðskiptanna þó svo að stefndu haft í sameiningu og án samráðs við stefnanda ákveðið að annast sjálfir gerð endanlegs kaupsamnings á þeim grundvelli sem lagður hefði verið. Stefnandi eigi heimtingu á söluþóknun vegna starfa sinna í samræmi við gjaldskrá sína, en söluþóknun vegna sölu fyrirtækja nemi 5% samkvæmt gjaldskrá stefnanda, sem hafi verið báðum aðilum kunn. Sú þóknun hafi og umsamin milli aðila.

Byggir stefnandi á því að þótt stefndi, Stallur ehf., haft ábyrgst það gagnvart stefnda, Item ehf. (áður Páli Pálssyni ehf.), að umsamin söluþóknun yrði greidd, þá sé stefnandi ekki bundin af því samkomulagi og geti beint kröfu sinni að báðum stefndu. Krafa stefnanda á hendur stefnda, Item ehf. (áður Páli Pálssyni ehf.), byggi á þeirri meginreglu að seljandi eignar greiði sölulaun og kostnað of sölunni. Grunnábyrgð á greiðslu sölulauna, þ.e. hinnar umkröfðu þóknunar í þessu máli, hvíli allt að einu á stefnda, Item ehf. Gagnvart stefnda, Stalli ehf., byggi stefnandi á því að það félag hafi með skriflegri yfirlýsingu sinni tekið ábyrgð á greiðslu sölulauna og í raun skuldbundið sig til efnda.

Í trausti þess að stefndi, Stallur ehf., myndi standa við skuldbindingar sínar gagnvart stefnda, Item ehf. (áður Páli Pálssyni ehf.), hafi honum verið sendur reikningur. Fjárhæð reikningsins sé miðuð við þær upplýsingar sem stefnandi hafi fengið um heildarverðmæti viðskiptanna. Með því að stefndu hafi ekki orðið við áskorunum um að upplýsa um þetta með ítarlegum hætti byggi stefnandi á því, m.a. með vísan til 1. mgr. 68. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, að fjárhæð kröfu sinnar sé rétt.

Stefnandi ber fyrir sig meginreglur á sviði verksamninga, vinnuréttar og kröfuréttar. Jafnframt er byggt á ákvæðum laga um lausafjárkaup nr. 50/2000, laga um þjónustukaup nr. 42/2000, lags um fasteignakaup nr. 40/2002 eftir því sem við á. Vaxtakrafa byggist á lögum nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Krafa um málskostnað og aðra þætti er lúta að málsmeðferð styðst við ákvæði laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, þ.m.t. um varnarþing en í því sambandi er sérstaklega bent á 36. og 42. gr. laganna.

Af hálfu stefndu er krafist sýknu vegna aðildarskorts og málatilbúnaður af hálfu stefnanda talinn tilhæfulaus og honum mótmælt í heild sinni sem röngum.  Kauptilboð hafi ekki gengið eftir og kaupsamningur á grundvelli þess hafi aldrei verið gerður.

NIÐURSTAÐA

Stefnandi reisir málssókn sína við það, að svo sem sjá megi af kauptilboði, dagsettu 27. febrúar 2003, sem er að finna í skjölum málsins og er undirrituð af forsvarsmönnum stefndu og vitninu Jens Ingólfssyni, hafi komist á sala fyrir tilstilli stefnanda sem hafi annast alla meginþætti viðskiptanna.

Efst á kauptilboðinu segir: „Skjal þetta hefur samið Húsið fasteignasala ehf., kt 601092-2049”. Þá er á tilboðinu að finna stimpil með nafninu „húsið fasteignasala” yfir nafnritun vitnisins Jens Ingólfssonar, sem stefnandi kveður hafa annast sölu þá sem kauptilboðið fjallar um. Með úrskurði héraðsdómara í Reykjavík 23. maí 2003 var bú Hússins fasteignasölu ehf. tekið til gjaldþrotaskipta. Samkvæmt 13. gr. laga nr. 54/1997 um fasteigna-, fyrirtækja- og skipasölu er fasteignasala skylt að annast alla skjalagerð varðandi sölu fasteigna og skal geta þess í skjölunum, þar á meðal í kauptilboðum, kaupsamningum, afsölum, veðbréfum og skuldabréfum, hver samið hafi. Skal nafn fasteignasala koma fram svo eigi verði um villst.  Af kauptilboði verður ekki annað ráðið en að verk það sem stefnandi krefur um greiðslu fyrir hér hafi verið unnið á vegum Hússins-fasteignasölu ehf., sem nú er gjaldþrota. Stefnandi máls þessa er hins vegar Smárinn – Húsið fasteigamiðlun ehf. Stefndu verða því sýknaðir af öllum kröfum stefnanda vegna aðildarskorts, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991. Eftir úrslitum málsins verður stefnandi dæmdur til að greiða stefndu 150.000 krónur í málskostnað.

Allan V. Magnússon héraðsdómari kvað upp dóminn.

DÓMSORÐ

Stefndu, Stallur ehf. og Item ehf. skulu sýknir af öllum kröfum stefnanda, Smárans – Hússins fasteignamiðlunar ehf.

Stefnandi greiði stefndu in solidum 150.000 krónur í málskostnað.