Hæstiréttur íslands

Mál nr. 250/2010


Lykilorð

  • Brenna


Fimmtudaginn 16. desember 2010.

Nr. 250/2010.

Ákæruvaldið

(Hulda María Stefánsdóttir settur saksóknari)

gegn

Jóni Óskari Auðunssyni

(Sigmundur Hannesson hrl.)

Brenna.

J var sakfelldur fyrir brennu með því að hafa hellt bensíni úr brúsa inn í og á bifreiðina A sem stóð á bifreiðarstæðinu við L, kveikt í bensíninu og valdið með því eldsvoða sem hafði í för með sér almannahættu. Eldurinn breiddist út með þeim afleiðingum að bifreiðin A, ásamt bifreiðinni B, brann og bifreiðin C stórskemmdist ásamt því að sprungur komu í rúður á 1. og 2. hæð hússins við L. Var brotið talið varða við 1. mgr., sbr. 2. mgr. 164. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. J játaði sök. Í dómi Hæstaréttar segir að J hlaut að vera ljóst að íkveikjan myndi hafa í för með sér augljósa hættu á yfirgripsmikilli eyðingu á eignum annarra manna. Refsing J var ákveðin með hliðsjón af 78. gr. laga nr. 19/1940 og var hún ákveðin fangelsi í 2 ár. Með hliðsjón af alvarleika brotsins þótti ekki tilefni til að skilorðsbinda refsinguna. 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Garðar Gíslason og Gunnlaugur Claessen.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 15. apríl 2010 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að héraðsdómur verði staðfestur um sakfellingu ákærða en refsing hans þyngd.

Ákærði krefst þess að refsing verði milduð.

Ákærða hlaut að vera ljóst að íkveikjan myndi hafa í för með sér augljósa hættu á yfirgripsmikilli eyðingu á eignum annarra. Að þessu gættu en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Ákærða verður gert að greiða áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Ákærði, Jón Óskar Auðunsson, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, samtals 335.236 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Sigmundar Hannessonar hæstaréttarlögmanns, 313.750  krónur.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 9. febrúar 2010.

          Mál þetta var höfðað með ákæru ríkissaksóknara, dagsettri 18. desember 2009, á hendur, Jóni Óskari Auðunssyni, kt. 201084-2889, Kúludalsá 1, Akranesi, „fyrir brennu, með því að hafa aðfaranótt föstudagsins 31. október 2008 hellt bensíni úr bensínbrúsa inn í og á bifreiðina A á bifreiðastæði við norðurhlið hússins að L 22 í Reykjavík, kveikt í bensíninu og valdið með því eldsvoða sem hafði í för með sér almannahættu, en eldurinn breiddist út með þeim afleiðingum að bifreiðin brann ásamt bifreiðinni B, sem lagt var hægra megin við A, sótskemmdir urðu á bifreiðinni C sem lagt var austan megin við húsið og sprungur komu í rúður á 1. og 2. hæð hússins vegna hita.  Með þessu olli ákærði eignatjóni á bifreiðunum og húsinu og hættu á frekara eignatjóni hefði eldurinn náð að breiðast út frekar og ekki verið slökktur fljótlega af slökkviliði.

          Þetta telst varða við 1. mgr., sbr. 2. mgr., 164. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

          Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.”

          Við þingfestingu játaði ákærði brot sitt fyrir dóminum og var málið tekið til dóms eftir að málflytjendur höfðu tjáð sig um lagaatriði og ákvörðun viðurlaga. Ekki kom fram ósk um að fram færi aðalmeðferð, sbr. 1. mgr. 164. gr. laga nr. 88/2008. Játning ákærða er í samræmi við önnur gögn málsins, þar með taldar skýrslur er hann gaf hjá lögreglu.  Samkvæmt þessu verður ákærði sakfelldur fyrir brotið.  

          Að tilhlutan lögreglu var dómkvaddur matsmaður til að meta hvort almannahætta hefði stafað af broti ákærða.  Í niðurstöðum hans segir meðal annars:  „Þegar metin er hætta á að hagsmunir færust eða spilltust utan þeirrar eignar sem kviknaði í svo sem nálæg hús, eða önnur mannvirki og lausafjármunir og einnig hættu fyrir þá sem höfðust að í nágrenni við brunavettvang er fyrst og fremst að skoða húsið L 22.  Bifreiðin stóð á planinu framan við húsið og voru fjarlægðir í íbúðarhúsið mjög stuttar, undir 0,5 m eftir ljósmyndum lögreglunnar að dæma.  Þar sem húsið sjálft er úr steini er hitageislun á það sjálft ekki hættuleg, en allir gluggar og hurðir mynda veikleika.  Opnanlegu fögin voru opin og var strax farið í að loka þeim.  Fjarlægðin í horngluggann á kjallaraíbúðinni hefur verið undir 2 m frá framrúðu bifreiðarinnar sem er talsvert styttra en útreiknuð örugg fjarlægð sem er 3,4 m og því er mikil hætta á að eldurinn myndi brjóta rúðuna og berast inn í húsið væri ekkert að gert.  Hornglugginn á íbúðinni á 1. hæð er um 1,2  fyrir ofan gluggann á kjallaranum og því einnig innan áðurnefndrar öruggrar fjarlægðar og því er hætta á að eldurinn bryti einnig þann glugga og bærist inn í húsið.  Hornglugginn í íbúðinni á 2. hæð er kominn nálægt mörkum að brotna í brunanum af hitageisluninni.  Horngluggarnir eru á svefnherbergjum íbúðanna.  Forstofuhurðin sem er 5.0 m inn á húshliðinni frá horninu er utan þessara marka og ekki hætta á að eldurinn bærist þangað né í gluggann á stigahúsinu þar fyrir ofan.  Suzuki bifreiðin sem stóð í um 1.0 m fjarlægð er langt innan þessara marka fyrir glerið í gluggunum sem og fyrir hjólbarðana og því er öruggt að eldurinn myndi breiðast yfir í hana á nokkrum mínútum eftir að eldurinn í [...] bifreiðinni hefur náð að magnast.“

          Niðurstaða matsmannsins er þessi:  „Með vísan til ofanritaðs má telja öruggt að íkveikjan leiddi til almannahættu að því er varðar umfangsmikla eyðingu á bifreiðunum A og B og einnig á húseigninni og lausafjármunum í L 22 hefði eldurinn brunnið áfram og borist inn í húsið í kjallara og á 1. hæð.  Ekki eru líkur á að eldurinn hefði getað borist í L 24 eða að aðrar bifreiðar eða lausafjármunir myndu spillast eða fara forgörðum.  Almannahætta er ekki til staðar fyrir íbúa L 22 né heldur fyrir L 24.“

          Samkvæmt gögnum málsins, skýrslum lögreglu, ljósmyndum og uppdráttum, stóð bifreiðin, sem ákærði kveikti í eftir að hafa hellt yfir hana bensíni, fast við íbúðarhús og við hlið annarrar bifreiðar.  Með vísun til þessa og þess, sem að framan var rakið úr skýrslu matsmannsins, er það niðurstaða dómsins að ákærða hafi mátt vera ljóst að íkveikjan mundi hafa í för með sér augljósa hættu á yfirgripsmikilli eyðingu á eignum annarra manna.  Samkvæmt þessu varðar brot ákærða við 1. mgr., sbr. 2. mgr. 164. gr. almennra hegningarlaga eins og í ákæru greinir.

          Áður en ákærði framdi brotið, sem hann hefur nú verið sakfelldur fyrir, hafði hann samtals níu sinnum verið sektaður fyrir umferðarlagabrot og þrisvar sinnum sviptur ökurétti.  Eftir að hann framdi brotið hefur hann verið sektaður fyrir skemmdarverk og 20. maí síðastliðinn var hann dæmdur í 45 daga fangelsi fyrir ölvunarakstur og réttindaleysi við akstur og sviptur ökurétti í 3 ár og 6 mánuði.

          Refsing ákærða verður nú ákveðin með hliðsjón af 78. gr. almennra hegningarlaga og verður hún ákveðin fangelsi í 2 ár.  Með hliðsjón af alvarleika brotsins eru ekki efni til að skilorðsbinda hana að öllu leyti eða að hluta til.

          Þá verður ákærði dæmdur til að greiða sakarkostnað og málsvarnarlaun verjanda síns eins og segir í dómsorði.

                Arngrímur Ísberg héraðsdómari, kveður upp dóminn.

D ó m s o r ð :

          Ákærði, Jón Óskar Auðunsson, sæti fangelsi í 2 ár.

          Ákærði greiði 145.269 krónur í sakarkostnað og málsvarnarlaun verjanda síns, Sigmundar Hannessonar hrl., 224.100 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.