Hæstiréttur íslands
Mál nr. 270/2016
Lykilorð
- Vanreifun
- Frávísun frá héraðsdómi
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 11. apríl 2016. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu stefnda en til vara að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur. Þá krefst hann aðallega málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti en til vara að hann verði felldur niður.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Svo sem rakið er í hinum áfrýjaða dómi höfðaði stefndi mál þetta til heimtu eftirstöðva samkvæmt kaupleigusamningi 18. ágúst 2004 um tilgreinda bifreið, sem skipt var út 29. júní 2006 fyrir aðra bifreið, en áfrýjandi yfirtók samninginn 10. nóvember það ár. Hann stóð í skilum með greiðslur samkvæmt samningum til og með 15. desember 2008 en frá þeim degi mun hafa orðið greiðslufall. Bifreiðin var tekin úr vörslu áfrýjanda 28. október 2009 og sama dag sendi stefndi honum kreditreikning að fjárhæð 1.400.000 krónur vegna andvirðis bifreiðarinnar. Við meðferð málsins í héraði lagði áfrýjandi þann reikning fram.
Í stefnu til héraðsdóms kom fram að verðmæti bifreiðarinnar hefði numið 886.444 krónum að frádregnum kostnaði. Samkvæmt gögnum málsins var sú fjárhæð miðuð við söluverð bifreiðarinnar að fjárhæð 954.000 krónur. Í stefnunni er ekkert vikið að ástæðum þess að leggja eigi þá fjárhæð til grundvallar eftir að stefndi hafði í lögskiptum sínum við áfrýjanda gefið út áðurnefndan kreditreikning með annarri og hærri fjárhæð. Að þessu gættu er málið svo vanreifað að óhjákvæmilegt er að vísa því frá héraðsdómi.
Eftir þessum úrslitum verður stefnda gert að greiða áfrýjanda málskostnað á báðum dómstigum eins og í dómsorði greinir, en hann hefur sjálfur farið með mál sitt.
Dómsorð:
Máli þessu er vísað frá héraðsdómi.
Stefndi, Íslandsbanki hf., greiði áfrýjanda, Braga Gunnarssyni, samtals 200.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 12. janúar 2016.
Mál þetta höfðaði Íslandsbanki hf., f.h. Ergo, Suðurlandsbraut 14, Reykjavík, með stefnu birtri 15. september 2014 á hendur Braga Gunnarssyni, Lyngrima 22, Reykjavík. Málið var dómtekið að lokinni aðalmeðferð 18. desember sl.
Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða honum skuld að fjárhæð 1.102.343 krónur með dráttarvöxtum frá 13. júní 2014 til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar að mati dómsins.
Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda og málskostnaðar að mati dómsins.
Stefnandi segir að skuld stefnda sé til komin vegna kaupleigusamnings nr. 609888-004, dags. 18. ágúst 2004, þar sem Glitnir hf. leigði einkahlutafélaginu Brookes á Íslandi bifreiðina YO-417. Þrír aðilar gengust í sjálfskuldarábyrgð fyrir efndum leigutaka á samningnum, en sú ábyrgð var síðar felld niður og kemur ekki til skoðunar í þessu máli.
Skuldari skyldi samkvæmt samningnum greiða 84 mánaðarlegar leigugreiðslur, í fyrsta sinn 15. nóvember 2004, hverja að fjárhæð 94.544 krónur. Samningurinn var gengistryggður, í upphafi skyldi miðað við ISK 45%, USD 12,5%, JPY 7,5%, EUR 20% og CHF 10%. Sá hluti sem var í íslenskum krónum skyldi verðtryggður með vísitölu neysluverðs.
Þann 29. júní 2006 var samið svo um að í stað bifreiðarinnar YO-417 kæmi bifreiðin KY-293.
Stefndi yfirtók réttindi og skyldur leigutaka samkvæmt samningnum þann 10. nóvember 2006.
Stefnandi segir að umsamdar greiðslur hafi verið inntar af hendi til og með 15. desember 2008. Stefndi hafi verið sviptur vörslum bifreiðarinnar 28. október 2009. Verðmæti hennar að frádregnum kostnaði hafi verið metið 886.444 krónur. Stefnandi seldi bifreiðina hins vegar án þess að láta gera við hana á 954.000 krónur og vill miða við þá fjárhæð í uppgjöri við stefnda.
Ekki er fjallað sérstaklega um það í málsgögnum hvort gengistrygging á hluta af samningi aðila hafi verið lögmæt. Stefnandi gengur út frá því að svo hafi ekki verið og stefndi mótmælir því ekki. Því fari um vexti af þeim hluta eftir 4. gr., sbr. 3. gr. laga nr. 38/2001. Lagði stefnandi fram endurútreikning á kröfunni, sem var unninn 13. júní 2014. Þar er komist að þeirri niðurstöðu að staða skuldarinnar hafi þann 28. október 2009 verið 729.246 krónur. Við þá fjárhæð bætir stefnandi vöxtum og verðbótum til útreikningsdags, 13. júní 2014, og reiknast skuld stefnanda samkvæmt því nema 1.198.695 krónum.
Við þennan útreikning hefur stefnandi dregið frá söluverði bifreiðarinnar ógreidda dráttarvexti og afborganir og vexti fram til vörslusviptingardags. Þá hefur hann reiknað sér greiðslu á því sem hann kallar rekstrarreikninga að fjárhæð 203.051 króna. Við útreikninginn kveðst stefnandi miða við dómafordæmi um gildi fullnaðarkvittana, en skýrir það ekki nánar.
Málsástæður og lagarök stefnda
Í greinargerð stefnda er því lýst að hann hafi keypt umrædda bifreið, en ekki tekið hana á leigu. Hann hafi fengið í hendur skjal með fyrirsögninni Viðbót við bílasamning, en sér hafi verið tjáð að skjalið væri formsatriði þar sem hann væri með því að yfirtaka lán en ekki að taka nýtt lán. Væri þetta gert til að minnka kostnað. Leigusamningnum hefði verið búið að breyta í bílalán samkvæmt þeim gögnum sem hann hefði haft í höndunum og nýtt númer verið komið á samninginn í samræmi við það.
Byggir stefndi á því að ekki sé um að ræða leigusamning.
Þá byggir stefndi á því að samningurinn hafi ekki verið endurreiknaður samkvæmt dómafordæmum Hæstaréttar um gildi fullnaðarkvittana. Lagði hann sjálfur fram skjal sem hann nefnir Samantekt á uppgjöri. Samkvæmt því telur hann sig eiga inni hjá stefnanda 286.893 krónur.
Loks segir í greinargerð að stefndi byggi vörn sína á nokkrum tilgreindum réttarheimildum. Eru þar m.a. talin samningalög nr. 7/1936, lög nr. 48/2003 um neytendakaup og lög nr. 30/1993 um neytendalán með síðari breytingum. Þá er í greinargerðinni einnig vísað til stjórnarskrárinnar. Þessar tilvísanir eru ekki skýrðar nánar með hliðsjón af málsatvikum eða beinar málsástæður bornar fram.
Í munnlegum málflutningi kom fram hjá stefnda að mikill afls- og aðstöðumunur væri milli aðila. Þá sagði hann að stefnandi hefði ekki verið aðili að þeim samningum sem stefndi gerði. Hann vísaði til II. kafla laga um neytendakaup nr. 48/2003. Þá vísaði hann til ákvæðis 30. gr. samningalaga um svik við samningsgerð og 36. gr. sömu laga. Loks kom fram hjá honum að stefnandi hefði selt bílinn langt undir raunvirði, en hann lagði fram ljósmyndir sem sýndu að bíllinn hefði verið boðinn á 1.990.000 krónur.
Í aðilaskýrslu sinni sagði stefndi að við kaupin hafi legið frammi greiðsluáætlun frá Glitni þar sem hafi verið talað um lán. Hann hafi undirritað yfirlýsingu um yfirtöku bílasamnings, en sér hafi verið sagt að það væri bara formsatriði. Glitnir hefði ekki verið eigandi bílsins samkvæmt þeim gögnum sem hafi legið frammi. Kvaðst hann hafa skrifað undir afsal sem kaupandi og síðan fengið sent í pósti skráningarskírteini þar sem hann hafi verið skráður eigandi. Skírteinið hafi orðið eftir í bílnum þegar hann var tekinn af honum og hafi hann því ekki getað lagt það fram. Hann hafi ekki séð upphaflega bílasamninginn og yfirlýsingu þar sem skipt var um bíl í samningnum fyrr en skjölin voru lögð fram í dómi.
Niðurstaða
Í stefnu segir að er upphaflegur samningur var gerður hafi Glitnir verið deild innan Íslandsbanka hf. Síðar hefur Glitnir banki hf., Nýi Glitnir banki, nú Íslandsbanki tekið yfir þessa starfsemi. Er hún nú rekin sem deild í bankanum og nefnd Ergo. Telst Íslandsbanki hf. því vera aðili málsins.
Stefndi tók yfir kaupleigusamning við Glitni, en stefnandi hefur nú komið í stað þess félags sem leigusali Eru þeir því með réttu aðilar að málinu. Það er rétt hjá stefnda að mikill munur er á aðstöðu aðila. Hann hefur ekki upplýst um menntun sína eða starf, en allt að einu er ljóst að hann er neytandi í skiptum sínum við fjármálastofnanir. Þetta leiðir til þess að vafaatriði yrði að skýra stefnda í hag, en leiðir ekki til þess að fallist verði á allar málsástæður hans.
Stefndi heldur því fram að hann hafi keypt bifreiðina KY-293, en ekki yfirtekið kaupleigusamning. Hann fullyrðir að hann hafi fengið afsal fyrir bifreiðinni og að hann hafi verið skráður eigandi í bifreiðaskrá. Hvorugt hefur hann sannað. Hann hefur ekki lagt fram annað en ljósrit af kaupsamningi og afsali, sem ekki hefur verið undirritað af seljanda. Stefnandi lagði fram vottorð um skráningu í bifreiðaskrá, en samkvæmt því var stefndi aldrei skráður eigandi bifreiðarinnar.
Stefnandi undirritaði yfirlýsingu um yfirtöku á bílasamningi þann 10. nóvember 2006. Af texta skjalsins er ljóst að vísað er til kaupleigusamnings og stefnandi ritar undir sem verðandi leigutaki. Stefnandi hefur ekki sannað að honum hafi verið sagt að undirritun þessa skjals væri einungis formsatriði, en væri ekki skuldbindandi. Ljóst er af þeim gögnum sem liggja frammi að þetta er eina heimildarskjalið sem stefnandi hefur um rétt sinn yfir bifreiðinni. Afsal það sem hann vísar til hefur ekki verið undirritað af seljanda. Yfirlýsing sú sem stefndi undirritaði vísar skýrlega til kaupleigusamnings og getur hann ekki borið fyrir sig að hann hafi aldrei séð þann samning.
Það er rétt hjá stefnanda að í greiðsluáætlun sem honum var afhent er hann nefndur kaupandi og notað orðið lán. Þetta skjal breytir hins vegar ekki réttarstöðu aðila. Skjalið veitir tilteknar upplýsingar, en í því fólst ekki ráðstöfun réttinda.
Tilvitnanir stefnda til laga um neytendalán og laga um neytendakaup eru ekki tengdar ákveðnum málsástæðum. Ekki er sjáanlegt að nein ákvæði þessara laga geti breytt niðurstöðu þessa máls. Þá hefur hann ekki sýnt fram á að hann hafi verið beittur svikum eða að ósanngjarnt sé að krefja hann um efndir skuldbindinga sinna.
Stefndi hefur ekki sannað að stefnandi hafi selt bifreiðina á lægra verði en raunvirði hennar var. Upplýsingar um hvaða verð hafi verið sett á bifreiðina síðar skipta hér ekki máli.
Stefnandi lét endurreikna skuld stefnda eins og áður segir. Þessum útreikningi hefur stefndi ekki hnekkt. Til þess dugar ekki einföld fullyrðing um að hann sé ekki í samræmi við dómafordæmi. Samantekt hans á uppgjöri er heldur ekki byggð á raunverulegum tölum. Það er rétt að í upphaflegu mati stefnanda á verði bifreiðarinnar var það talið 1.400.000 krónur, en að frádregnum áætluðum viðgerðar- og sölukostnaði væri verðið 740.372 krónur. Við það er hins vegar ekki miðað hér eins og áður segir, en bifreiðin var seld í því ástandi sem hún var. Þá virðist hann ekki hafa reiknað með að skuldin bæri vexti eða verðbætur. Ekki er unnt að leggja þessa samantekt stefnda til grundvallar.
Miða verður við endurútreikning stefnanda, þótt útskýringar í stefnu og skjölum málsins séu fátæklegar. Það sem stefnandi kallar frádrátt vegna rekstrarreiknings hefur hann hins vegar alls ekki útskýrt og verður ekki hægt að reikna með honum. Hefði tæmandi útskýring með réttu átt að koma fram þegar í stefnu.
Samkvæmt framansögðu verður fallist á stefnukröfu, þó þannig að frá henni dragast 203.051 króna. Verður stefndi því dæmdur til að greiða 899.292 krónur, með dráttarvöxtum eins og krafist er. Þá verður stefnda gert að greiða stefnanda málskostnað, sem að meðtöldum virðisaukaskatti er ákveðinn 400.000 krónur.
Jón Finnbjörnsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
D ó m s o r ð
Stefndi, Bragi Gunnarsson, greiði stefnanda, Íslandsbanka hf., 899.292 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 13. júní 2014 til greiðsludags og 400.000 krónur í málskostnað.