Hæstiréttur íslands

Mál nr. 581/2009


Lykilorð

  • Kærumál
  • Reynslulausn
  • Skilorðsrof
  • Fullnusta refsingar


Þriðjudaginn 13

 

Þriðjudaginn 13. október 2009. 

Nr. 581/2009.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(Jón H. B. Snorrason saksóknari)

gegn

X

(Jón Höskuldsson hrl.)

 

Kærumál. Reynslulausn. Skilorðsrof. Fullnusta refsingar.

 

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að X, sem veitt hafði verið reynslulausn, á grundvelli 2. mgr. 65. gr. laga nr. 49/2005 um fullnustu refsinga, skyldi afplána 460 daga eftirstöðvar refsingar, enda taldist kominn fram sterkur grunur um að X hefði framið brot varðað gæti allt að 6 ára fangelsi.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Jón Steinar Gunnlaugsson og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 10. október 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 12. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 10. október 2009, þar sem varnaraðila var gert að afplána 460 daga eftirstöðvar fangelsisrefsingar, sem hann hlaut með dómum Hæstaréttar í máli nr. 511/2007, Héraðsdóms Suðurlands í máli nr. 455/2008 og Héraðsdóms Reykjaness í máli nr. 732/2008. Kæruheimild er í 2. mgr. 65. gr. laga nr. 49/2005 um fullnustu refsinga. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur. 

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 10. október 2009.

Með kröfu beiðni lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, dagsettri í 9. október sl., er þess krafist að Héraðsdómur Reykjaness úrskurði að X, kt. [...], verði gert að afplána 460 daga eftirstöðvar reynslulausnar 3 ára fangelsisdóms Hæstaréttar Íslands nr. 511/2007, 6 mánaða fangelsisdóms héraðsdóms Suðurlands nr. 455/2008 og 4 mánaða fangelsisdóms héraðsdóms Reykjaness nr. 732/2008, sbr. reynslulausn sem honum var veitt af Fangelsismálastofnun ríkisins þann 9. ágúst 2009.

Af hálfu kærða er kröfunni mótmælt

Í greinargerð lögreglustjóra segir að með dómi Hæstaréttar Íslands 28. febrúar 2008 hafi kærði hlotið 3 ára fangelsisdóm fyrir auðgunarbrot, nytjastuld, fíkniefnalagabrot og umferðarlagabrot. Þann 10. október 2008 hafi kærði hlotið 6 mánaða fangelsisdóm í héraðsdómi Suðurlands fyrir auðgunarbrot og nytjastuld. Þann 19. nóvember 2008 hafi kærði hlotið 4 mánaða fangelsisdóm í héraðsdómi Reykjaness fyrir þjófnaðarbrot. Með ákvörðun Fangelsismálastofnunar 9. ágúst 2009 hafi kærða verið veitt reynslulausn á eftirstöðvum refsingarinnar, 460 daga.

Lögregla hafi nú til rannsóknar eftirgreind mál, þar sem kærði sé sterklega grunaður um aðild:

007-2009-55119

Fyrir fíkniefnalagabrot, með því að hafa þriðjudaginn 8. september í íbúð að [..] í Reykjavík haft í vörslum sínum 0,67 g af kannabisefnum sem kærði framvísaði til lögreglu.  Kærði framvísaði fíkniefnunum til lögreglu og undirritaði vettvangsskýrslu um fíkniefnamisferli og er háttsemin talin varða við 2., sbr. 5. og 6. gr. laga um ávana og fíkniefni nr. 65/1974.

007-2009-55332

Fyrir þjófnað, með því að hafa miðvikudaginn 9. september 2009, stolið 4 stk. dekkjum og felgum undan bifreiðinni [...], sem stóð kyrrstæð á bifreiðastæði við [...] í Reykjavík.  Kærði hefur viðurkennt brotið og er háttsemin talin varða við 244. gr. almennra hegningarlaga.

007-2009-56192

Fyrir umferðarlagabrot, laugardaginn 12. september 2009 með því að hafa ekið bifreiðinni [...] á of miklum hraða og háskalega og án ökuréttinda og neitað að hlýða fyrirmælum lögreglu sem þurfti að veita kærða eftirför um götur höfuðborgarsvæðisins og hlaupa hann uppi eftir að kærði stöðvaði aksturinn.  Kærði hefur viðurkennt brotið og er háttsemin talin varða við ýmis ákvæði umferðarlaga.

007-2009-53797

Fyrir þjófnað, með því að hafa sunnudaginn 18. september brotist inn í húsnæði við [...] í Hafnarfirði og stolið þaðan sjónvarpi og tveimur bifreiðum í félagi við tvo aðila. Kærði hefur ekki verið yfirheyrður vegna málsins.

007-2009-62412

Fyrir þjófnað, með því að hafa fimmtudaginn 8. október 2009 farið inn í bifreiðina [...] sem stóð á bifreiðastæði við [...] í Hafnarfirði og stolið þaðan, skiptimynt, hönskum og geisladiskum, kærði kveðst muna eftir því að hafa tekið í hurðarhúna á nokkrum bifreiðum og hugsanlega tekið eitthvað klink úr einhverjum af bifreiðunum.

007-2009-62360

Fyrir þjófnað, með því að hafa fimmtudaginn 8. október 2009, í félagi við tvo aðila,  brotist inn í verslunina Mind í verslunarmiðstöðinni Firði Hafnarfirð, með því að toga upp hlið sem lokaði versluninni og stolið þaðan tveimur handtöskum. Kærði hefur játað verknaðinn og eru til myndabandsupptökur sem sýna brotið. Telst þessi verknaður varða við 244. gr. almennra hegningarlaga.  

007-2009-62372

Fyrir þjófnað, með því að hafa fimmtudaginn 8. október 2009, í félagi við tvo aðila, brotist inn í bifreiðina [..] sem stóð á bifreiðastæði við verslunarmiðstöðina Fjörð í Hafnarfirði, með því að brjóta hliðarrúðu í bifreiðinni og stolið þaðan Channel hliðartösku ásamt snyrtidóti og visa greiðslukorti.

007-2009-62363

Fyrir þjófnað, með því að hafa fimmtudaginn 8. október 2009, í félagi við tvo aðila, farið inn í íþróttahúsið við Strandgötu í Hafnarfirði og stolið þaðan Hummel jakka og farsíma en einn af samverkamönnum kærða var í fyrrnefndum jakka þegar hann var handtekinn.

007-2009-62360

Fyrir fíkniefnalagabrot, með því að hafa fimmtudaginn 8. október 2009 við Strandgötu í Hafnarfirði haft í vörslum sínum meint fíkniefni sem lögregla lagði hald á þegar kærði var handtekinn umrætt sinn í tengslum við rannsókn á ofangreindum málum frá 8. október.

Auk þessara mála sem hér eru talin upp sé kærði sterklega grunaður í mörgum öðrum málum sem tengjast auðgunarbrotum á höfuðborgarsvæðinu síðastliðinn mánuð, sjá meðfylgjandi yfirlit af málum þar sem kærði er grunaður.

Skýrslur hafi ekki verið teknar af kærða í öllum þessum málum en hann hafi þegar játað á sig nokkur af þeim brotum sem hann er grunaður um, þar á meðal þjófnaðarmál frá því í gær.

Það megi ljóst vera að kærði, sem fékk reynslulausn þann 9. ágúst sl., hafi nánast samstundis farið að stunda afbrot og hafi á þessum stutta tíma fengið réttarstöðu grunaðs manns í mörgum auðgunarbrotamálum.

Það sé mat lögreglu að brotastarfsemi kærða hafi færst í aukanna á síðustu dögum og þau auðgunarbrot sem kærði sé grunaður um geti varðað allt að 6 ára fangelsisrefsingu.

Það sé mat lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu að öll lagaskilyrði 2. mgr. 65. gr. laga nr. 49/2005 um fullnustu refsingar sé fullnægt, enda hafi kærði með ofangreindri háttsemi sinni rofið gróflega almenn skilyrði reynslulausnar. Þá sé og ljóst, í ljósi játninga hans, að hann sé undir sterkum rökstuddum grun um að hafa framið afbrot sem varðað getur allt að 6 ára fangelsi.

Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og 2. mgr. 65. gr. laga nr. 49/2005 um fullnustu refsingar sé þess krafist að krafan nái fram að ganga.

Kærði hefur mótmælt framkominni kröfu lögreglustjóra um að honum verði gert að afplána framangreindar eftirstöðvar fangelsisrefsingar og hefur krafist þess að henni verði hafnað.

Að öllu framanrituðu virtu, sem og gögnum málsins að öðru leyti, verður að fallast á það með lögreglustjóra að fyrir liggi sterkur grunur um að kærði hafi gerst sekur um brot sem varðað geta allt að 6 ára fangelsi, og þannig rofið gróflega skilyrði reynslulausnar. Eru því uppfyllt skilyrði 2. mgr. 65. gr. laga nr. 49/2005 um fullnustu refsinga til að fallast á kröfu lögreglustjóra um að kærða verði gert að afplána 460 daga eftirstöðvar reynslulausnar 3 ára fangelsisdóms Hæstaréttar Íslands nr. 511/2007, 6 mánaða fangelsisdóms Héraðsdóms Suðurlands nr. 455/2008 og 4 mánaða fangelsisdóms Héraðsdóms Reykjaness nr. 732/2008.

Finnbogi H. Alexandersson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Úrskurðarorð

Kærði, X, afpláni 460 daga eftirstöðvar fangelsisrefsingar, sem hann hlaut með dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 511/2007, dómi Héraðsdóms Suðurlands í máli nr. 455/2008 dómi Héraðsdóms Reykjaness í máli nr. 732/2008.