Hæstiréttur íslands
Mál nr. 369/2003
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhaldsúrskurður felldur úr gildi
- Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
- Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
|
|
Fimmtudaginn 18. september 2003. |
|
Nr. 369/2003. |
Sýslumaðurinn á Selfossi(Ásta Stefánsdóttir fulltrúi) gegn X(Guðjón Ægir Sigurjónsson hdl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhaldsúrskurður felldur úr gildi. A. og c. liðir 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.
Hæstiréttur felldi úr gildi úrskurð héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. og c. liða 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 16. september 2003. Kærumálsgögn bárust réttinum 18. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 15. september 2003, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 6. október 2003. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur.
Eins og greinir í hinum kærða úrskurði var varnaraðili handtekinn aðfaranótt 15. september 2003, grunaður um aðild að nokkrum þjófnaðarbrotum 10. til 15. september sama árs á [...], í [...] og í [...]. Samkvæmt gögnum málsins er um að ræða innbrot í A 10. september, þar sem stolið var verðmætum prentara, 60.000 krónum í reiðufé, matvælum og símtæki, innbrot í B 15. september, þar sem stolið var tilteknu magni af áfengi og eftirlitsmyndavél og innbrot í tvær bifreiðar við [...] og [...] í [....] 15. september, þar sem stolið var meðal annars geislaspilara, geisladiskum, handverkfærum, síma og skólatösku, auk þjófnaðar á farsíma og fleiru úr C 12. september.
Eins og nánar greinir í úrskurði héraðsdómara er krafa sóknaraðila um gæsluvarðhald reist á a. og c. liðum 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Til stuðnings því að fullnægt sé skilyrðum fyrir gæsluvarðhaldi samkvæmt fyrrnefnda lagaákvæðinu vísar sóknaraðili til þess að lögreglan á Selfossi vinni að rannsókn ofangreindra mála. Varnaraðili hafi játað hluta brotanna, þar á meðal innbrotið í B og þjófnaðinn á C, en neitað innbrotinu í A. Jafnframt hefur hann neitað að tjá sig um innbrotin í bifreiðarnar. Í greinargerð sóknaraðila til Hæstaréttar kemur fram að fingraför varnaraðila hafi fundist á vettvangi A og hluti af þýfinu hafi fundist við húsleit á dvalarstað varnaraðila en eftir eigi að rannsaka uppruna hluta þeirra muna, sem lagt var hald á við húsleitina. Séu verulegir rannsóknarhagsmunir tengdir því að varnaraðili geti ekki komið undan þeim munum, sem ekki hefur verið lagt hald á, og að hann geti ekki spillt sakargögnum eða haft áhrif á vitni eða hugsanlega samseka.
Samkvæmt málatilbúnaði sóknaraðila beinist rannsókn lögreglu nú að afmörkuðum þætti málsins. Varnaraðili hefur játað hluta sakargifta og rannsókn þeirra mála sem enn eru óupplýst er langt á veg komin og langmestur hluti þeirra muna, sem varnaraðili er grunaður um að hafa stolið, er kominn í leitirnar. Sóknaraðili hefur ekki rökstutt á viðhlítandi hátt hvernig ætla megi að varnaraðili muni torvelda frekari rannsókn þessara mála ef hann sætir ekki gæsluvarðhaldi. Að þessu virtu þykja rannsóknarhagsmunir ekki slíkir að unnt sé að verða við kröfu sóknaraðila á grundvelli a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.
Til stuðnings því að fullnægt sé skilyrðum c. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 fyrir gæsluvarðhaldi yfir varnaraðila vísar sóknaraðili til þess, að auk þeirra brota, sem að framan greinir, sé varnaraðili grunaður um umferðarlagabrot. Hafi hann játað að hafa ekið bifreið undir áhrifum áfengis og sviptur ökurétti 12. september 2003. Þá hafi nýverið verið gefin út ákæra á hendur honum vegna ætlaðrar líkamsárásar og umferðarlagabrots. Hafi hann hlotið marga dóma, þar á meðal fyrir þjófnað og umferðarlagabrot og verið veitt reynslulausn á eftirstöðvum 120 daga refsingar í apríl 2003. Skilja verður rökstuðning sóknaraðila á þá leið að yfirgnæfandi líkur séu á því að varnaraðili muni halda áfram auðgunarbrotum meðan málum hans er enn ekki lokið. Varnaraðila hefur verið dæmdur fimm sinnum fyrir auðgunarbrot á árunum 1993 til 2001, síðast í eins mánaðar fangelsi 4. september 2001 fyrir þjófnað. Með hliðsjón af því að rúm tvö ár eru liðin frá því að hann hlaut dóm fyrir auðgunarbrot og þess að þau brot sem hann nú hefur játað og er grunaður um eru framin á örfáum dögum, þykja ekki næg efni til að fallast á kröfu sóknaraðila um gæsluvarðhald á grundvelli c. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Samkvæmt því sem að framan greinir verður hinn kærði úrskurður felldur úr gildi.
Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi.
Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 15. september 2003.
Með beiðni dagsettri í dag, lagði Lögreglustjórinn á Selfossi fram kröfu um að kærða X verði gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a og c-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála, allt til klukkan 16:00 föstudaginn 31. október 2003.
Kærði hefur mótmælt kröfunni.
[...]
Í framlögðu sakavottorði kærða, dags. 25. ágúst sl., kemur m.a. fram að kærði hefur fjórum sinnum verið dæmdur fyrir þjófnað, síðast með dómi 4. september 2001, er hann var dæmdur í eins mánaðar fangelsi fyrir brot gegn 244. gr. almennra hegningarlaga. Þá hefur verið lagður fram dómur í málinu nr. S-1091/2001 þar sem fram kemur að kærði var dæmdur í 5 mánaða fangelsi 4. júlí 2002 fyrir þjófnað, ölvunarakstur og réttindaleysi, en á sakavottorði kærða er ekki getið um þjófnaðarbrotið. Þann 10. apríl sama ár var ákærði dæmdur í 30 daga skilorðsbundið fangelsi fyrir þjófnað og með dómi frá 19. október 1993 var kærði dæmdur í tveggja mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir þjófnað og nytjastuld. Þá var kærði 25. apríl 1997 dæmdur í 30 daga skilorðsbundið fangelsi fyrir brot gegn 246. gr. almennra hegningarlaga. Kærði hefur sjö sinnum hlotið refsingu fyrir brot gegn 45. og 48. gr. umferðarlaga, auk annarra ákvæða umferðarlaga, nú síðast með dómi Héraðsdóms [...] frá 10. október 2002, þegar hann var dæmdur í 8 mánaða fangelsi fyrir brot gegn 1. mgr. 48. gr., 1. mgr., sbr. 3. mgr. 45. gr., 1. mgr. 63. gr. og 1. mgr. 14. gr. rgj. nr. 78/1997 og sviptur ökurétti ævilangt. Í þeim dómi var reynslulausn á eftirstöðvum refsingar 120 daga dæmd með. Auk þessa hefur kærði tvisvar gengist undir sektargreiðslu fyrir brot á lögum um ávana- og fíkniefni, 27.nóvember 1996 og 7. mars 1997. Þá var kærða veitt reynslulausn í eitt ár á eftirstöðvum refsingar, 120 daga, 11. apríl sl.
[...]
Kærði á að baki alllangan sakarferil og hefur hann m. a. hlotið refsingar fyrir sams konar brot og nú eru til rannsóknar. Nú stendur yfir rannsókn vegna gruns um að kærði hafi undanfarið framið mörg innbrot og þjófnaðarbrot. Samkvæmt gögnum málsins er rökstuddur grunur um aðild kærða að innbroti í A og í bifreiðar í [...] og kærði hefur ekki játað. Er þar einkum um að ræða fingraför sem fundust á vettvangi í A og lögregla fullyrðir að stafi frá kærða. Einnig ber til þess að líta að rökstuddur grunur er um að hluti þess meinta þýfis sem fannst í bifreið kærða sé úr bifreiðum þeim sem brotist var inn í [...] síðastliðna nótt.
Kærði upplýsti fyrir dómi að hann væri atvinnulaus og eingöngu hafa atvinnuleysisbætur til framfærslu. Hann kvaðst vera í mjög slæmu andlegu ásigkomulagi og hafa gert tilraunir til að svipta sig lífi. Kærði kveðst ekki hafa neytt fíkniefna síðastliðna fimm mánuði og neyta áfengis í hófi, enda hafi hann illa stjórn á gerðum sínum þegar hann sé undir áhrifum áfengis.
Rannsókn málsins er á frumstigi og ber brýna nauðsyn til þess að koma í veg fyrir að kærði nái að spilla sakargögnum og hafa áhrif á vitni eða samseka vegna brota gegn 244. gr. almennra hegningarlaga sem varðað geta fangelsisrefsingu. Þá þykir mega fallast á það með lögreglustjóra að yfirgnæfandi líkur séu á því að kærði haldi áfram brotum sínum, fari hann frjáls ferða sinna. Ber því með vísan til a og c liðar 1.mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 að fallast á framkomna kröfu lögreglustjóra um gæsluvarðhald, þó þannig að gæsluvarðhaldi er markaður skemmri tími en krafist er, allt eins og greinir í úrskurðarorði.
Ragnheiður Thorlacius, settur héraðsdómari, kveður upp þennan úrskurð.
Úrskurðarorð:
Kærði, X, skal sæta gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 6. október 2003, klukkan 10:00.