Hæstiréttur íslands

Mál nr. 209/2001


Lykilorð

  • Kærumál
  • Útboð
  • Lögbann


Fimmtudaginn 21

 

Mánudaginn 18. júní 2001.

Nr. 209/2001.

Arkitektar Laugavegi 164 ehf.

(Garðar Briem hrl.)

gegn

íslenska ríkinu

(Gunnar Jóhann Birgisson hrl.)

 

Kærumál. Útboð. Lögbann.

A kærði þann úrskurð héraðsdóms að hafna kröfu um að felld yrði úr gildi ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík um að hafna því að leggja lögbann við útboði Í vegna rannsóknar- og nýsköpunarhúss við Háskólann á Akureyri. Talið var að þar sem einungis væri um að ræða forval á hugsanlegum byggjanda og eiganda að húsinu væri lögvörðum rétti A ekki raskað með þeim hætti að lögbanni yrði beitt. Var úrskurður héraðsdóms því staðfestur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Ingibjörg Benediktsdóttir og Markús Sigurbjörnsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 25. maí 2001, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 8. júní sl. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 14. maí 2001, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að felld yrði úr gildi ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík 26. febrúar sama árs um að hafna því að leggja lögbann við útboði varnaraðila nr. 12679 um rannsóknar- og nýsköpunarhús við Háskólann á Akureyri, auðkennt sem einkaframkvæmd. Kæruheimild er í 1. mgr. 35. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl., sbr. 4. mgr. 91. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, eins og þeim var breytt með 102. gr. laga nr. 92/1991. Sóknaraðili krefst þess að lagt verði fyrir sýslumann að leggja lögbann við framangreindu útboði. Hann krefst jafnframt málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og sóknaraðila gert að greiða sér málskostnað í héraði ásamt kærumálskostnaði.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur, þar með talið ákvæði hans um málskostnað, enda hefur varnaraðili ekki kært það til breytinga sér í hag.

Rétt er að aðilarnir beri hvor sinn kostnað af kærumáli þessu.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Kærumálskostnaður fellur niður.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 14. maí 2001.

Sóknaraðili er Gláma/Kím Arkitektar ehf.,  kt. 560496-2739, Laugavegi 164, Reykjavík, en varnaraðili er íslenska ríkið, kt. 540269-6459 en hagsmuna þess gæta í þessu máli, Björn Bjarnason, kt. 141144-3409, menntamálaráðherra,  Sölvhólsgötu 7, Reykjavík, Geir H. Haarde, kt. 080451-4749, fjármálaráðherra, Arnarhváli v/ Lindar­götu í Reykjavík,  Ríkiskaup, kt. 660169-4749, Borgartúni 7, Reykjavík.

Málið barst Héraðsdómi Reykjavíkur 6. mars sl. með bréfi lögmanns sóknaraðili, sem dagsett er sama dag. Það var tekið til úrskurðar 2. maí sl. að afloknum munnlegum málflutningi.

Dómkröfur sóknaraðila eru þessar:

1. að felld verði úr gildi synjun sýslumannsins í Reykjavík frá 26. febrúar sl., um að leggja lögbann við útboði nr. 12679 um rannsókna- og nýsköpunarhús við Háskólann á Akureyri – einkaframkvæmd.

2. að lagt verði fyrir sýslumanninn í Reykjavík að leggja lögbann við útboði nr. 12679 um rannsókna- og nýsköpunarhús við Háskólann á Akureyri – einkaframkvæmd.

3. að sóknaraðila verði dæmdur málskostnaður úr hendi varnaraðila samkvæmt mati dómsins.

Varnaraðili gerir þær dómkröfur, að kröfu sóknaraðila verði hafnað og að staðfest verði ákvörðun sýslumannsins í Reykjavíkr frá 26. fegrúar sl. um að synja sóknaraðila um að lagt verði lögbann við útboð nr. 12679 um rannsóknar- og nýsköpunarhús við Háskólann á Akureyri –einkaframkvæmd.

Þá krefst varnaraðili þess, að sóknaraðili verði dæmdur til að greiða sér málskostnað að mati dómsins.

Málavextir, málsástæður og lagarök:

Á árinu 1995 skipaði menntamálaráðherra starfshóp til að hafa forgöngu um framkvæmdir Háskólans á Akureyri. Í desembermánuði s.á. var efnt til opinnar sam­keppni um hönnun nýbygginga og aðlögun eldra húsnæðis á Sólborgarsvæðinu að starfsemi Háskólans á Akureyri, ásamt heildarskipulagi háskólasvæðisins. Í verkefnalýsingu samkeppnislýsingarinnar (eftirleiðis lýsingin) segir svo í kafla 2.1.

,,Í samkeppninni felast eftirfarandi verkefni. a)Hönnun nýbygginga(r) á núverandi Sólborgarlóð og aðlögun á eldra húsnæði þar. Húsrýmisáætlun gerir ráð fyrir að húsnæðisþörf háskólans sé rúmlega 4.800 m²  nettó. b) Heildarskipulag alls háskólasvæðisins, þ.e. núverandi Sólborgarlóð og framtíðarbyggingarsvæði háskólans, samtals um 10 hektarar. Miða skal við að allt svæði rúmi háskóla með 1500-2000 nemendur.”    

Niðurlagsákvæði 2. kafla lýsingarinnar (2.15) er orðrétt svo: ,,Hagnýting hugmynda.  Stefnt er að því að fela þeim hönnun hússins sem fyrstu verðlaun hlýtur.  Háskólinn á Akureyri eignast verðlaunaðar og innkeyptar tillögur og allan rétt til að nýta hugmyndir og einstök atriði úr öðrum tillögum með þeim takmörkunum sem lög um höfundarrétt setja.”  

Í 7. kafla lýsingarinnar er greint frá því, að framkvæmdum verði skipt í a.m.k. fimm áfanga og sé fyrsta áfanga að mestu lokið. Enn fremur segir þar, að áfangarnir hafi ekki verið tímasettir en reikna megi með að framkvæmdir taki 5-8 ár. Í sama kafla (7.3) lýsingarinnar er það skilyrði sett, að tilboðsgjafar skuli gera grein fyrir áætlaðri þóknun fyrir heildarhönnun og því síðan nákvæmlega lýst, hvernig kostnaðaráætlunin skuli sundurliðuð. Tekið er þar fram, að stefnt skuli að gerð eins samnings við þann hóp hönnuða, sem yrði fyrir valinu.

Fimm manna dómnefnd átti að leggja mat á þær tillögur, sem kynnu að berast.

Niðurstaða dómnefndar var á þá leið, að engin tillaga uppfyllti að fullu þær forsendur, sem stefnt hafi verið að og birst hafi í samkeppnislýsingunni. Því myndu engin fyrstu verðlaun verða veitt, heldur tvenn önnur verðlaun þess í stað. Tillaga sóknaraðila varð fyrir valinu, ásamt annarri tillögu og mælt með því að gengið yrði til samninga við höfunda annarrar hvorrar um frekari útfærslu.

Í kjölfar þessarar niðurstöðu dómnefndarinnar gaf starfshópur, sem menntamálaráðherra hafði skipað, höfundum beggja verðlaunatillagnanna kost á að útfæra verk sín betur og sýna fram á þróunarmöguleika þeirra. Þegar sú úrvinnsla lá fyrir, var ákveðið að ganga til samninga við sóknaraðila. Í skýrslu starfshópsins til menntamálaráðherra frá júní 1996 er því lýst, hvaða forsendur lágu til grundvallar þessari ákvörðun. Þar segir m.a. að tillaga sóknaraðila búi yfir virðuleika og festu, auk þess sem hún bjóði upp á æskilega áfangaskiptingu, sem virtist geta fallið vel að þróunaráformum háskólans og eldri húsum á svæðinu.

Engin skriflegur heildarsamningur var gerður við sóknaraðila á grundvelli hönnunartillögu hans, heldur hafa verið gerðir tveir skriflegir hönnunarsamningar um I. og II. áfanga framkvæmdanna.

Fyrsti áfangi laut að bókasafni háskólans og var sá samningur, að sögn sóknaraðila, í samræmi við samkeppnistillöguna og jafnframt hluti hans.  Sérstaklega hafi verið tekið fram, að um væri að ræða fyrsta áfanga framkvæmda í samræmi við niðurstöður samkeppninnar um byggingar háskólans á Sólborg,  þannig að efnisval og form væru upphafið að því yfirbragði, sem húsnæði háskólans á svæðinu myndi hafa í framtíðinni.

Annar áfangi framkvæmdanna sneri að kennslurými og tengigangi.  Fyrsta áfanga er lokið og hefur verið skilað á réttum tíma og  innan fjárhagsramma að því er sóknaraðili heldur fram, en framkvæmdir við annan áfanga standi nú yfir.

Rannsóknarhús við Háskólann á Akureyri er einn þeirra áfanga í hönnunartillögu sóknaraðila, sem ólokið er. Í upphafi síðast liðins árs breyttust áform varnaraðila um nýtingu þessa húss. Nefnd var þá sett á laggirnar (hér eftir byggingarnefnd), sem lagði það til við menntamálaráðherra, að einkaaðili yrði fenginn til að sjá um og kosta byggingu rannsóknarhúss og myndi hann síðan annast rekstur þess og útleigu til ýmissa rannsóknarstofnana bæði í eigu ríkisins og einkaaðila. Þetta hús skyldi vera allmiklu stærra, en tillaga sóknaraðila gerði ráð fyrir.

Ríkiskaup, sem kom fram fyrir hönd varnaraðila í þessum þætti málsins, birti auglýsingu í Morgunblaðinu þann 16. júlí 2000 ( forval og útboð nr. 12479), þar sem óskað var eftir tilboðum í vinnu og ráðgjöf sérfræðings fyrir bygginganefnd fyrirhugaðs rannsóknarhúss. Þessu mótmælti sóknaraðili með bréfi til menntamálaráðherra dags. 27. júlí s.á. og bréfi til Ríkiskaupa, dags. 1. ágúst s.á. og gerði þar grein fyrir viðhorfum sínum. Sóknaraðili taldi auglýsinguna hljóta að byggjast á misskilningi, þar sem starf þess sérfræðings, sem óskað var eftir, félli beint undir og væri eðlilegur hluti af hönnunartillögu hans, sem varnaraðili hefði samþykkt og unnið eftir. Einnig minnti sóknaraðili á höfundarrétt sinn í þessu sambandi.

Engu að síður ákvað varnaraðili að efna til útboðs um rannsóknahús og birtist auglýsing frá Ríkiskaupum þar að lútandi í Morgunblaðinu 5. janúar 2001. Auglýsingin ber yfirskriftina ,,ÚTBOÐ Rannsóknar-og nýsköpunarhúss við Háskólann á Akureyri-Einkaframkvæmd. Útboð nr. 12679.”  Auglýsingin beinist í fyrsta lagi að því að kynna áform Háskólans á Akureyri um að bjóða út byggingu rannsóknarhúss sem einkaframkvæmd, en í öðru lagi fól hún í sér fundarboð, þar sem áhugasamir bjóðendur og aðrir voru boðaðir til fundar á Akureyri nokkrum dögum síðar. Lögmaður sóknaraðila mótmælti útboðinu með bréfi til Ríkiskaupa dags. 9. janúar s.á. Þar segir m.a. ,,Rök mótmælanna eru eftirfarandi: 1. Að yfirvofandi sé samningsbrot, þ.e.a.s. brot á þeim samningi sem við umbj.m. hafi verið gerður um alla hönnun mannvirkja á svæðinu í samræmi við verðlaunatillögurnar. 2. Að yfirvofandi sé hætta á broti á höfundarrétti umbj.m. þegar aðrir aðilar en þeir verða hugsanlega ráðnir til hönnunar mannvirkja á svæðinu. Er hér með skorað á stjórnvöld að virða þau sjónarmið sem borin hafa verið fram skriflega varðandi framangreint og að ganga til viðræðna við undirritaðan og umbj. m. áður en frekari skref eru stigin í útboðsferli þessu.”  

Varnaraðili hafði að engu viðvaranir sóknaraðila og lét birta í Morgunblaðinu 4. febrúar sl. aðra auglýsingu um forval að verkefninu. Yfirskrift þeirrar auglýsingar er samhljóða yfirskrift fyrri auglýsingar, en efni hennar að öðru leyti er svohljóðandi: ,,Ríkiskaup, fyrir hönd menntamálaráðherra um byggingu rannsókna-og nýsköpunar­húss við Háskólann á Akureyri, efna til forvals vegna einkaframkvæmdar á byggingu og rekstri rannsókna-og nýsköpunarhúss á lóð Háskólans á Akryreyri, til að velja þátttakendur í fyrirhugað útboð. Markmið verkefnisins er að stuðla að uppbyggingu þekkingar- og tæknigarðs á lóð Háskólans á Akureyri á Sólborg með aðstöðu fyrir rannsóknarstofnanir ríkisins og jafnframt að boðið verði upp á aðstöðu fyrir fyrirtæki í þróunarvinnu sem geta nýtt sér nálægð við háskólaumhverfið.  Bygging rannsókna-og nýsköpunarhússins mun styrkja uppbyggingu Háskólans á Akureyri og er gert ráð fyrir að skólinn verði stór notandi í húsinu. Forvalsgögn eru afhent hjá Ríkiskaupum…………”

Samningaviðræður, sem átt hafa sér stað milli málsaðila, hafa ekki borið árangur og kennir hvor öðrum um ástæður þess. Sóknaraðili heldur því fram, að samkomulag hafi ekki náðst, þar sem varnaraðili hafi miðað viðræðurnar við það eitt að fá sóknaraðila til að falla frá verki sínu í stað þess að fá sóknaraðila til að framkvæma frekari hönnun á rannsóknahúsinu. Vísar sóknaraðili til tveggja bréfa í þessu sambandi dags. 15. febrúar sl. og  21. febrúar sl. Varnaraðili staðhæfir á hinn bóginn, að viðræður málsaðila hafi siglt í strand vegna ágreinings um skaðabætur fyrir hugsanlegan hagnaðarmissi sóknaraðila.

Sóknaraðili krafðist lögbanns við útboði og forvali nr. 12679 með beiðni til Sýslumannsins í Reykjavík, sem dags. er 20. febrúar sl. Beiðni sóknaraðila var hafnað hinn 26. sama mánaðar með ákvörðun fulltrúa sýslumanns.

Málsástæður og lagarök sóknaraðila.

Sóknaraðili kveðst byggja á því, að hann njóti verndar höfundalaga nr. 73/1972. Hann hafi hannað verk, sem vinna eigi í nokkrum áföngum. Varnaraðili ætli nú að fela öðrum höfundi einn áfanga þess verks, sem leiða muni til brots á réttindum hans. Því sé hann knúinn til að leita lögbanns á aðgerðirnar, áður en brot varnaraðila valdi óbætanlegu tjóni.

Lögbannsaðgerðunum hafi verið beint gegn réttum aðila. Ríkiskaupum hafi verið falið að framkvæma útboð það, sem krafist sé lögbanns á. Sú stofnun heyri undir fjármálaráðuneytið og þar með fjármálaráðherra. Útboðið hafi farið fram á vegum menntamálaráðherra en undir ráðuneyti hans falli málefni skóla í landinu, rannsóknastarf o.fl. Íslenska ríkið sé samheiti m.a. allra þessara aðila. Eignaraðild, að þeim áfanga háskólabyggingarinnar sem bjóða eigi út, breyti ekki fyrirsjáanlegu broti á réttindum sóknaraðila, sem ofangreindir aðilar eigi aðild að, ýmist beint eða vegna stjórnsýslulegrar stöðu sinnar.  Öllum skilyrðum 1. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl., hafi því verið fullnægt.

Samkvæmt framangreindu lagaákvæði megi leggja lögbann við athöfn sem brjóti eða muni brjóta gegn lögvörðum rétti gerðarbeiðanda. Sóknaraðili kveðst styðja kröfu sína við 1. og 3. gr. og 2. mgr. 4. gr. höfundalaga nr. 73/1972, enda lúti málið að rétti höfundar til verks sem hann hafi hannað. Hins vegar verði málið ekki slitið frá almennum reglum samningaréttar og verði vísað til þeirra eftir því sem ástæða þyki.

Í 3. gr. höfundalaga sé höfundi veittur einkaréttur til að gera eintök af verki sínu og til að birta það í upphaflegri mynd eða breyttri, í þýðingu eða öðrum aðlögunum. Í athugasemdum með frumvarpi að höfundalögum segi, að höfundur hafi skv. 3. gr. einkarétt til að gera breytingar á verki sínu. (Alþt. 1971, A-deild, bls. 1287) Meginreglan sé því ótvírætt sú, að höfundur hafi einkarétt til að breyta verkum sínum, t.d. með viðbyggingu. Undantekningar frá þeirri reglu verði að túlka þröngt.  Sóknaraðili eigi lögvarinn rétt sem njóti verndar. Engar forsendur hafi breyst í sambandi við byggingu rannsóknahúss frá því samkeppnin var haldin á árinu 1995, sem snúa að hönnun, útliti þess eða notkun. Nýting byggingarinnar sé sú sama og fyrirhugað hafi verið í upphafi með hönnunarsamkeppninni. Verðlaunatillaga sóknaraðila hafi verið valin til útfærslu. Um eitt verkefni hafi verið að ræða. Áfangaskipting þess hafi stafað af fjárskorti varnaraðila og verið neyðarúrræði. Hönnunar- og framkvæmdatími hafi ráðist af fjárveitingum, en sá tími geti ekki opnað öðrum hönnuðum leið að verkinu og valdið því, að höfundarréttur sóknaraðila falli niður, þ.m.t. á þeim hluta þess sem beri heitið rannsókna- og nýsköpunarhús,  sem sé í reynd rannsóknarálma hússins. Samkeppnin hafi verið framkvæmdasamkeppni en ekki hugmyndasamkeppni og hafi ekki einungis snúist um skipulag heldur heildar­uppbyggingu Háskólans á Akureyri. Rannsóknarálman sé hluti þess verkefnis, sem keppendum var gert að hanna, en sá hluti verksins sé nú í hættu. Allar byggingar á Sólborgarsvæðinu, sem þegar hafa risið, og þær sem fyrirhugað sé að reisa, myndi eina heild. Verkið birtist í heild sinni í verðlaunatillögu sóknaraðila. Þegar hafi verið samið við sóknaraðila um tvo áfanga, sem séu hluti heildarverkefnisins.

Umrædd samkeppni hafi verið mjög ítarleg. Skilað hafi verið forteikningum, sem falið hafi í sér u.þ.b. 20% af hönnun arkitekta og tilboð gert í heildarhönnun allra áfanga verksins, með virðisaukaskatti, sundurliðuð í samræmi við grein 7.3. í samkeppnislýsingunni. Hver einstök álma byggingarinnar hafi verið hönnuð niður í einstök rými, þ.m.t. rannsóknarálman. 

Þær framkvæmdir, sem krafist sé lögbanns á, lúti að einum áfanga í heildarverki sóknaraðila – rannsóknarálmu. Hún verði samtengd öðrum hlutum verksins, þegar öllum áföngum verði lokið og myndi með þeim eina samstæða heild og eitt listaverk á sviði byggingalistar, sem njóti verndar höfundalaga. Óheimilt sé að taka einn þátt út úr þeirri heildarmynd og fela öðrum höfundi framkvæmd hans á sama hátt og óheimilt væri að fela öðrum manni að semja lokalínu ljóðs í óþökk höfundar. Slíkt væri ekki aðeins brot gegn lögvörðum réttindum sóknaraðila heldur samrýmist það ekki viðurkenndum skoðunum meðal arkitekta, sbr. grein 4.4. í siðareglum arkitekta og framlagt bréf stjórnar Arkitektafélags Íslands, dags. 25. febrúar sl., sem ritað hafi verið í tilefni af máli þessu.

Í tilefni af greinargerð varnaraðila við meðferð málsins hjá sýslumanninum í Reykjavík telur sóknaraðili óhjákvæmilegt að reifa samningaréttarleg atriði málsins, enda þótt málið snúist fyrst og fremst um höfundarrétt sóknaraðila.

Samkeppnin um hönnun nýbygginga(r) og aðlögun eldra húsnæðis á Sólborg að starfsemi Háskólans á Akureyri ásamt heildarskipulagi háskólasvæðisins hafi verið afar sérstök og umfangsmikil. Markmið sóknaraðila, sem og annarra þátttakenda með þátttöku í samkeppninni, hafi verið að fá verkið en ekki verðlaun, enda sé það venja í slíkum keppnum að keppt sé um verk. Með því að halda keppni sem þessa sé í raun verið að láta hanna verkið. Fyrir þátttöku áætli menn það vinnumagn sem samkeppnislýsing gefur tilefni til og vega þar á móti hugsanlegan ávinning í formi verksamnings, heiðurs og auglýsingargildis. Með því að velja tillögu sóknaraðila sé öðrum keppendum gert ljóst, að mannvirkið muni fá þá mynd sem lýst sé í tillögunni. Engu breyti þótt fjárskortur hafi valdið því, að ákveðið hafi verið að vinna verkið í áföngum, verkið verði að fullvinna í samræmi við tillöguna.

Rannsóknarálman, sem varnaraðili ætli nú að bjóða út hönnun á, sé hluti af norðausturhlið hönnunar sóknaraðila. Í umsögn dómnefndar segi ,,útlit til norðausturs, sem verði andlit háskólans út á við, er sérlega glæsilegt.”  Niðurstaða dómnefndarinnar hafi hins vegar verið sú, að engin fyrstu verðlaun skyldi veita, heldur tvenn önnur verðlaun. Í norrænum rétti sé því haldið fram, að skylt sé að veita fyrstu verðlaun í verðlaunasamkeppnum, sbr. Ufr. 1999:307.  Það sé mat sóknaraðila að þau sjónarmið eigi við hér, enda sé dómnefnd að lýsa því yfir með því að veita verðlaun, að tillaga uppfyllir skilmála keppninnar, bæði tæknilega sem listræna. Auk þess breyti það viðhorf dómnefndar að veita ekki fyrstu verðlaun engu um þá niðurstöðu að vinningstillaga sóknaraðila hafi verið sú besta að mati dóm­nefndarinnar, ásamt annarri tillögu. Í kjölfarið hafi verið efnt til framhaldskeppni á vegum starfshóps menntamálaráðherra, þar sem höfundum hafi verið gefinn kostur á að útfæra tillögur sínar betur og sýna fram á þróunarmöguleika þeirra. Sóknaraðili hafi haft betur í þeirri samkeppni og því verið mælt með því við ráðherra að gengið skyldi til samninga við hann, sem síðan hafi verið gert.  Einn samningur hafi lotið að hönnun bókasafns í samræmi við samkeppnistillöguna, sem jafnframt hafi verið hluti heildarsamningsins, sbr. 4. tölul. 5. gr.  Í skilgreiningu verkefnisins sem einnig sé hluti samningsins, sbr. 1. tölul. 5. gr., komi fram að gefa þurfi því “sérstakan gaum að þetta [væri] fyrsti áfangi framkvæmda í samræmi við niðurstöður samkeppninnar um byggingar HA á Sólborg, þannig að efnisval og form eru upphafið að því yfirbragði sem húsnæði HA á Sólborg mun hafa í framtíðinni.”  Í samkeppnistillögunni hafi enn fremur legið fyrir áætluð þóknun fyrir heildarhönnun allra áfanga verksins, með virðisaukaskatti, sundurliðuð í samræmi grein við 7.3. í samkeppnislýsingunni.     Annar samningur við sóknaraðila, á grundvelli verðlaunatillögu hans, hafi snúið að kennslurými og tengigangi. Áhersla hafi verið lögð á, að byggingar mynduðu samstæða heild með hliðsjón af formi og gerð eldri húsa og stöðu þeirra í landinu, sbr. 2. hluta fylgiskjals D, sem er hluti samningsins, sbr. 4. tölul. 3. gr. Sérstaklega var minnt á hallandi þök eldri húsa og að byggingar skyldu mynda samstæða heild þrátt fyrir áfangaskiptingar.

Þessir tveir samningar séu hluti af framkvæmd þess heildarsamnings, sem komist hafi á, þegar verðlaunatillaga sóknaraðila hafi verið valin til útfærslu. Í samkeppnislýsingunni, sem sé upphaf þessa máls, komi m.a. fram, að Háskólinn á Akureyri eignist verðlaunaðar og innkeyptar tillögur með þeim takmörkunum sem lög um höfundarétt setja. Í því felst ekki réttur til að breyta verki sóknaraðila. Í 16. gr. samkeppnisreglna Arkitektafélags Íslands komi fram að reiknað sé með að höfundur tillögu, sem dómnefnd mæli með til útfærslu, verði að jafnaði ráðinn til verksins. Fyrir liggi í gögnum málsins, að samkeppnin hafi verið haldin samkvæmt samkeppnisreglum Arkitektafélags Íslands.  Í samkeppnislýsingu segi auk þess svo um þetta atriði: “Stefnt er að því að fela þeim hönnun hússins sem fyrstu verðlaun hlýtur.”

Sóknaraðili mótmælir þeirri málsástæðu varnaraðila, að enginn samningur sé í gildi milli málsaðila um hönnun rannsóknahúss. Ennfremur mótmælir sóknaraðili sem rangri þeirri staðhæfingu varnaraðila, að engin skylda sé til að semja við þann sem beri sigur úr býtum í samkeppnum sem þessum.  Samkeppni um verk sé hefðbundin samningaleið, þegar um byggingu mannvirkis sé að ræða, enda hafi lengi verið í gildi samkeppnisreglur, sem Arkitektafélag Íslands hafi samþykkt og gefið út.  Sú leið að halda samkeppni um verk er lýðræðisleg og eðlileg leið til að velja hönnuði til nánara samstarfs. Taka verði skýrt fram í samkeppnisskilmálum að þeim sem að útboði stendur sé óskylt að semja við vinningshafa, ef svo eigi að vera.  Hið gagnstæða hafi aftur á móti beinlínis verið staðhæft í umræddri samkeppnislýsingu.

Með því að velja tillögu sóknaraðila til útfærslu og semja við hann um framkvæmd verksins í áföngum eftir lok keppninnar, hafi varnaraðili samið við sóknaraðila um heildarhönnun verksins. Því  hafi verið eðlilegt að huga að því, hvernig fjármagna skyldi rannsóknarálmuáfangann, þegar skriflegur samningur var gerður um annan áfanga verksins, sbr. fylgiskjal IV við samning um annan áfanga, sem undirritað var af menntamálaráðherra. 

Því sé hér ekki aðeins um að ræða yfirvofandi brot á höfundarrétti sóknaraðila, heldur einnig brot á samningi, sem gerður hafi verið milli málsaðila.

Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990 verður lögbann lagt við byrjaðri eða yfirvofandi athöfn.

Varnaraðili hafi efnt til forvals um einkaframkvæmd á byggingu og rekstri rannsókna- og nýsköpunarhúss við Háskólann á Akureyri með auglýsingu í Morgunblaðinu hinn 4. febrúar 2001 í því skyni að velja þátttakendur í fyrirhugað útboð.  Umsóknum um þátttöku skyldi skila til Ríkiskaupa fyrir 27. febrúar sl., samkvæmt auglýsingunni.  Fram komi í  kafla 1.2. í forvalsgögnum, að hönnun rannsóknahússins sé hluti útboðsins. Lögmaður sóknaraðila hafi með bréfi dags. 9. janúar sl. mótmælt útboði óhannaðrar byggingar og skorað á stjórnvöld að virða höfundarrétt sóknaraðila og ganga til viðræðna, áður en frekari skref yrðu tekin í útboðsferlinu. Varnaraðili hafi engan vilja sýnt til að breyta um stefnu og fela sóknaraðila fullnaðarhönnun hússins, né heldur hafi samningaviðræður um að sóknaraðili falli frá höfundar- og samningsrétti sínum borið árangur.  Með birtingu ofangreindrar auglýsingar þann 4. febrúar sl. hafi endanlega verið staðfest, að varnaraðili ætli að ganga gegn höfundarrétti sóknaraðila og láta útboð fara fram á hönnun hússins. Verði útboðsferlið ekki stöðvað munu aðrir höfundar koma að háskólabyggingunni og hanna rannsóknaálmu í samræmi við útboð óhannaðrar framkvæmdar, sem þó hafi verið hönnuð af sóknaraðila.  Þá sé röng sú staðhæfing varnaraðila, að hann hafi ekki í hyggju að nýta sér í heimildarleysi verk sóknaraðila.  Það leiði af útboðsferlinu að tjón á höfundarrétti sóknaraðila er óumflýjanlegt. Í raun séu tveir kostir fyrir hendi sem báðir stríði gegn ákvæðum laga nr. 73/1972. Annars vegar gætu væntanlegir hönnuðir reynt að nýta sér hugverk sóknaraðila, sem sé rannsóknaálma, hönnuð 20% í einstök rými. Slíkt sé óheimilt, sbr. 3. gr. höfundalaga, að viðlagðri refsingu skv. 1. tölul. 2. mgr. 54. gr. laganna. Hins vegar gætu væntanlegir hönnuðir hannað nýjan hluta á verk sóknaraðila, en það sé einnig óheimilt samkvæmt sama lagaákvæði. Það felst í meginreglunni um einkarétt höfundar til að gera breytingar á verki sínu, að óheimilt er að birta verk höfundar, sem breytt hefur verið án hans samþykkis. Rétti höfundar mannvirkis er jafnframt veitt enn meiri vernd með 1. tölul. 2. mgr. 11. gr. höfundalaga, þar sem segir að takmarkanir til eintakagerðar til einkanota eigi ekki við um mannvirki sem verndar njóti sem byggingarlist, heldur sé slík eintakagerð alfarið óheimil. Uppdrættir, mótanir, líkön og önnur þess háttar gögn njóti verndar með sama hætti og bókmenntaverk, sbr. 3. mgr. 1. gr. laga nr. 73/1972. Samkvæmt 3. mgr. 2. gr. telst verk birt, þegar það er með réttri heimild flutt eða sýnt opinberlega eða bókmenntaverki er dreift til almennings með hátalara eða á annan hátt. Þá segir ennfremur í 4. mgr. 2. gr. laganna, að það sé opinber birting, ef verk sé flutt eða sýnt á atvinnustöðum, þar sem 10 menn vinna eða fleiri. Af framangreindu sé því ljóst, að brot á höfundarrétti sóknaraðila verður fullframið í síðasta lagi, þegar tilboð verða opnuð í útboðsferli því sem hér er til umfjöllunar.  Í reynd sé líklegra, að það muni gerast mun fyrr og því sé hættan yfirvofandi.

Sóknaraðili hefur lýst yfir samningsvilja, reynt að leysa málið, og harmar að varnaraðili ætli sér að bjóða út óhannaðan hluta af verki, sem sóknaraðili hafi hannað og eigi höfundarrétt að. Nái lögbannsgerðin fram að ganga hafi það ekki þau áhrif að framkvæmdir við Háskólann á Akureyri stöðvist um ókomin ár. Varnaraðili eigi eftir sem áður það úrræði að bjóða út hannaða einkaframkvæmd, þar sem sóknaraðili myndi halda áfram hönnun og byggja á þeim grunni sem mótaður hafi verið á grundvelli þess samnings sem í gildi er.

Verði útboðsferlið ekki stöðvað, gæti myndast nýr höfundaréttur, sem staðsettur yrði inni í hugverki sóknaraðila. Slíkt fyrirkomulag sé útilokað, enda liggi samþykki höfundar ekki fyrir. Án lögbanns á aðgerðir varnaraðila sé sóknaraðila ekki unnt að tryggja lögvarinn rétt sinn. Fari útboð fram, munu margir aðilar blandast í málið. Varnaraðili muni taka hagstæðasta tilboðinu, sbr. 1. mgr 14. gr. laga um framkvæmd útboða nr. 65/1993. Þá yrði kominn á samningur, sem aðilar hans myndu byggja rétt á. Fram hjá þeim samningi væri varnaraðila ekki unnt að líta, jafnvel þótt hann þá vildi. Höfundarréttur sóknaraðila hefði þá orðið fyrir spjöllum, enda fæli sá samningur í sér breytingu á verki sem njóti verndar höfundalaga, nr. 73/1972.

Því sé það í fullkomnu samræmi við markmið lögbannsgerðar að veita sóknaraðila vernd réttinda sinna. Bið eftir að samningur verði kominn á tryggi ekki hinn lögvarða rétt og sé í ósamræmi við tilgang þessa úrræðis. Niðurstaðan yrði þá sú, að varnaraðili gæti hunsað þann rétt sóknaraðila og borið síðar fyrir sig samning, sem ekki væri hægt að ganga gegn.  Því sé lögbann eina úrræði sóknaraðila til að tryggja rétt sinn.

Heimilt sé að leggja lögbann við byrjaðri eða yfirvofandi athöfn, sem valda muni því, að réttindi gerðarþola fari forgörðum eða verði fyrir teljandi spjöllum, samkvæmt 1. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990.  Athafnir varnaraðila síðustu mánuði og skýr vilji um að húsið rísi sem fyrst bera vott um að útboðið verði ekki stöðvað nema með lögbanni. Samkvæmt tímaáætlun í forvalsgögnum mun opnun tilboða fara fram um miðjan ágúst nk. Birting breytinga á verki sóknaraðila verður líklega fyrr. Útilokað er að dómsúrlausn fengist um þau réttindi sem hér sé reynt að vernda fyrir þann tíma. Varnaraðili yrði að virða þann samning, sem kæmist á eftir opnun tilboða en hann fæli í sér endanlega breytingu á lögvernduðu verki sóknaraðila. Ef sóknaraðila væri gert að bíða dóms yrðu gerðar breytingar á hugverki, sem ekki yrðu aftur teknar. Því sé lögbann nauðsynlegt.

Í máli þessu verði 2. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990 ekki beitt, þar sem um sé að ræða athafnir hins opinbera á vettvangi einkaréttar. Hér sé því um að ræða tilvik, sem falli utan marka ákvæðisins.

Mál þetta lúti að höfundarétti – listrænni sköpun, sem ekki verði bætt að fullu með skaðabótum eða tryggð með refsivernd. Á sama hátt sé það sóknaraðila mikilvægt, að hugverki hans verði ekki breytt án hans samþykkis. Sönnun um annað hvíli á varnaraðila.

Málsástæður og lagarök varnaraðila.

Varnaraðili vekur athygli á þeirri meginreglu íslensks réttar, að málflutningur í dómsmáli skuli vera munnlegur, sbr. 1. mgr. 101. gr. laga nr. 91/1991, (eml.). Þessari lagagrein beri að beita í lögbannsmálum, sbr. 1. mgr. 35. gr. nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl. (ksl.), sbr. einnig 91. gr. aðfararlaga (afl.) nr. 90/1989. Málatilbúnaður sóknaraðila sé brot á þessari meginreglu, þar sem skrifleg umfjöllun hans um álitaefnið sé mun ítarlegri en eðlilegt geti talist og sé í raun skriflegur málflutningur.

Varnaraðili bendir ennfremur á, að málatilbúnaður sóknaraðila fari í bága við meginregluna um afdráttarlausa meðferð máls (útlokunarregluna). Í 1. mgr. 33. gr. ksl. sé gerðarbeiðanda veitt heimild til að krefjast úrlausnar héraðsdómara um ákvörðun sýslumanns um synjun þeirrar gerðar. Ljóst sé, að mál þetta sé ekki staðfestingarmál skv. 34. gr. ksl.  en það sé engu að síður lagt þannig fyrir dóminn. Sóknaraðili byggi nú á nýjum málsástæðum, einkum samningaréttarlegs eðlis, sem hann hafi ekki gert við meðferð málsins hjá sýslumanni. Skjóti hér skökku við, því að markmið þess að skjóta málinu til héraðsdóms, sé að fá endurskoðun dómsins á því hvort synjun sýslumanns hafi verið reist á réttum grunni, þ.e. hvort skilyrðum 24. gr. ksl. hafi verið fullnægt eða eigi. Dómurinn hljóti við mat sitt að styðjast við þau gögn, sem sýslumaður byggði niðurstöðu sína á. Varnaraðili mótmælir því þeim málsástæðum sóknaraðila sem of seint fram komnum, sem ekki lágu fyrir við meðferð málsins hjá sýslumanni.

Varnaraðili byggir á því, að þátttaka sóknaraðila í samkeppninni hafi ekki falið í sér skyldu til samningsgerðar við hann. Í samkeppnislýsingu grein 2.15 segi, að stefnt skuli að því að fela þeim hönnun hússins sem fyrstu verðlaun hlýtur. Tillaga sóknaraðila hafi ekki fullnægt kröfum dómnefndar um fyrsta sæti. Auk þess sé fyrirvarinn ekki svo afgerandi, að talið verði, að varnaraðila hafi verið skylt að semja við verðlaunahafa um hönnun rannsóknahússins. Orðið ,,stefnt” feli aðeins í sér yfirlýsingu án beinnar skuldbindingar.  Í samkeppnisgögnum hafi varnaraðila ekki verið bannað að semja við aðra en þátttakendur um hönnun bygginga á háskólasvæðinu, né heldur að honum sé óheimilt að semja við aðra en þá, sem unnu til verðlauna. Sóknaraðila hafi mátt vera þetta ljóst, einkum í ljósi þess, að sérstaklega hafi verið samið við hann um I. og II. áfanga framkvæmdanna, en ekki samið við hann um heildarhönnun svæðisins eða um hönnun allra bygginga á nýju háskólasvæði.

Þá mótmælir varnaraðili þeirri málsástæðu sóknaraðila, að lög um fjöleignarhús nr. 26/1994 eigi við um ágreining þeirra. Í því sambandi vísar varnaraðili til þess, að sóknaraðili byggi á  svokölluðum ,,höfundarrétti” sínum og einkarétti til hönnunar. Fjöleignarhúsalögin varði hlutaréttindi, þ.e. mannvirki, og verði ekki beitt til að skilgreina, hvað sé ,,verk” í skilningi höfundarréttar.

Varnaraðili byggir ennfremur á því, að 24. gr. ksl. eigi ekki við um það tilvik, sem hér sé til úrlausnar. Lögbann teljist til bráðabirgðaaðgerða og sé undantekning þeirrar meginreglu íslensks réttar, að aðför fari ekki fram án undangengins dóms. Því beri að skýra ákvæði 1. mgr. tilvitnaðrar lagagreinar þröngt og gera verði strangar kröfur til sannana fyrir tilvist þeirra réttinda, sem lögbanni sé ætlað að vernda. 

Varnaraðili heldur því einnig fram, að alvarlegir annmarkar séu á málflutningi sóknaraðila. Enginn samningur hafi verið gerður við sóknaraðila um hönnun á umræddu rannsóknarhúsi.  Varnaraðili hafi ekki skuldbundið sig til að semja við sóknaraðila um skipulag svæðisins við Háskólann á Akureyri, þótt hann hafi lent í öðru sæti. Þetta hafi sóknaraðila mátt vera ljóst, þar sem samið hafi verið sérstaklega við hann um ráðgjöf í tengslum við I. og II. áfanga framkvæmdanna, eins og áður sé lýst. Einstökum reglum höfundaréttarins verði ekki beitt á þann hátt, að almennum reglum samningaréttarins sé vikið til hliðar og þá einkum þeirri meginreglu, að einstaklingum og lögaðilum sé í sjálfsvald sett, hverjir séu viðsemjendur þeirra. 

Varnaraðili byggir einnig á því, að lögbann verði aðeins lagt á, samkvæmt 1. mgr. 24. gr. ksl., ef um sé að ræða byrjaða eða yfirvofandi athöfn tiltekinna aðila. Forval það, sem Ríkiskaup hafi staðið fyrir og sé tilefni aðgerða sóknaraðila, sé ekki byrjuð eða yfirvofandi athöfn í skilningi ákvæðisins. Í  forvalinu hafi falist það eitt, að leita eftir aðilum í tengslum við byggingu rannsóknahúss. Þessum aðilum sé ætlað að skila almennum upplýsingum um eigin starfsemi, ársreikningi síðustu þriggja ára, yfirlýsingu frá viðskiptabanka um skilvísi í viðskiptum o.s.frv. Í forvalslýsingunni sé ekki gert ráð fyrir því, að þátttakendur forvalsins skili gögnum eða framkvæmi athafnir, sem geti gengið gegn ,,lögvörðum “ rétti sóknaraðila í skilningi tilvitnaðs lagaákvæðis.

Varnaraðili mótmælir því ennfremur, að lögbannsaðgerðir sóknaraðila beinist að honum, þar sem um sé að ræða húseign, sem ekki sé ráðgert að hann byggi eða verði í hans eigu. Enginn þeirra  aðila, sem lögbannsbeiðnin beinist að, muni eiga rannsókna-og nýsköpunarhús það, sem um sé deilt í málinu og falli þeir því ekki undir tilvitnaða lagagrein.

Varnaraðili hafnar og þeirri málsástæðu sóknaraðila, að hann eigi lögvarinn höfundarrétt að allri hönnun, sem liggi til grundvallar skipulagi Sólborgarsvæðisins, auk hönnunar rannsóknahússins sjálfs. Í þessu sambandi vísar varnaraðili til þess, að hann hafi engin áform um það að nýta í heimildarleysi gögn frá sóknaraðila, sem hugsanlega kunni að njóta höfundaréttarlegrar verndar. Breytt viðhorf og þarfir hafi ráðið því að rétt hafi þótt að leita annarra leiða í uppbyggingu rannsóknahúss en ráðgert hafi verið í upphafi.

Varnaraðili hélt því fram við munnlegan flutning málsins, að enn hafi engin ákvörðun verið tekin um staðsetningu rannsóknahússins. Það gæti allt eins orðið utan Sólborgarsvæðisins.

Þá bendir varnaraðili á 3. mgr. 24. gr. ksl. til stuðnings kröfum sínum og telur að þeir hagsmunir, sem um sé deilt, falli undir ákvæðið. Sóknaraðili hafi krafist skaðabóta úr hendi varnaraðila í samningaviðræðum, sem áttu sér stað milli forystumanna málsaðila. Þessar viðræður hafi sýnt, að forsvarsmenn sóknaraðila líti svo á, að tjón þeirra megi bæta með greiðslu skaðabóta. Því vísar varnaraðili á bug fullyrðingum sóknaraðila í þá veru, að tjón hans sé ómetanlegt.

Ljóst sé því, að hagsmunir sóknaraðila séu nægilega tryggðir, eigi hann á annað borð einhverja kröfu á hendur varnaraðila og því verði með vísan til 3. mgr. 24. gr. ksl. að hafna beiðni hans um að lögbann verði sett á það forval og útboð Ríkiskaupa, sem mál þetta fjalli um.

Varnaraðili styður kröfu sína um málskostnað með vísan til 130. gr. laga nr. 91/1991.

Forsendur og niðurstaða:

Í IV. kafla laga nr 31/1990 er fjallað um lögbann og hvernig því verði komið fram.  Skilyrði þess að lögbanni verði beitt eru tilgreind í 24. gr. laganna, eins og áður er getið.

Skilyrðin eru þessi.

1.        Að athöfn sé byrjuð eða yfirvofandi.

2.        Að athöfnin brjóti sannanlega gegn lögvörðum rétti gerðarbeiðanda, eða muni gera það.

3.        Að gerðarþoli hafi þegar hafist handa um athöfnina eða muni gera það.

4.        Að réttindi gerðarbeiðanda muni fara forgörðum eða vera fyrir teljandi spjöllum, verði hann knúinn til að bíða dóms.

Lögbann verður ekki lagt við athöfn ef í fyrsta lagi verður talið, að réttarreglur um refsingu eða skaðabætur fyrir röskun hagsmuna gerðarbeiðanda tryggi þá nægilega en í annan stað, ef sýnt þykir að stórfelldur munur sé á hagsmunum gerðarþola af því, að athöfn fari fram, og hagsmunum gerðarbeiðanda af að fyrirbyggja hana. Loks verður lögbann ekki lagt við stjórnarathöfn þess sem fer með framkvæmdarvald ríkis eða sveitarfélags.

Verkefni dómsins felst í því að taka afstöðu til þess, hvort sú athöfn varnaraðila að efna til forvals um hugsanlegan byggjanda og eiganda að rannsóknahúsi, sem fyrirhugað er að reisa á svonefndri Sólborgarlóð í tengslum við Háskólann á Akureyri, feli í sér slíkt réttarbrot gagnvart sóknaraðila að fallast eigi á dómkröfur hans. 

Eins og áður er lýst varð tillaga sóknaraðila hlutskörpust í samkeppni, sem efnt var til í desember mánuði 1995. Verkefni keppenda var skilgreint í lið 2.1 í samkeppnislýsingu þannig:

,,a) Hönnun nýbygginga(r) á núverandi Sólborgarsvæði og aðlögun á eldra húsnæði þar.”

,,b) Heildarskipulag alls háskólasvæðisins, þ.e. núverandi Sólborgarlóð og framtíðar byggingarsvæði háskólans, samtals um 10 hektarar.”

Sóknaraðila var þannig falið að gera heildarskipulag að Sólborgarlóðinni og byggðist verðlaunatillaga meðfram á þeirri forsendu.  Ágreiningslaust er að unnið hafi verið eftir skipulagstillögu sóknaraðila bæði hvað varðar staðsetningu nýbygginga og afstöðu þeirra til eldri húsa þar. Fyrirhugað rannsóknarhús, sem varnaraðili áformar að byggt verði, er mun stærra en rannsóknahús það, sem sóknaraðili gerði ráð fyrir í tillögu sinni.  Bygging þess kann því að raska heildarsvip og ásýnd Sólborgarlóðarinnar og breyta þannig skipulagstillögu sóknaraðila, sem telja verður að hann eigi höfundarrétt að og varnaraðili samþykkti og kaus að vinna eftir.

Forval það, sem varnaraðili stóð fyrir beinist eingöngu að því að velja þá úr hópi umsækjenda, sem hæfastir þykja til að sjá um og kosta byggingu fyrirhugaðs rann­sóknahús, eiga það og reka.

Forvalið getur þannig ekki talist athöfn, sem ein og sér raskar lögvörðum rétti sóknaraðila með þeim hætti, að lögbanni verði beitt. Það gæti á hinn bóginn leitt til þess, að síðar verði efnt til útboðs meðal þeirra, sem valdir verða.  Komi til þess, mun betur koma í ljós hvers eðlis þær framkvæmdir verða, hvar rannsóknahúsið verður staðsett og nánari upplýsingar liggja fyrir um það, hvort framkvæmdirnar muni raska réttindum sóknaraðila með þeim hætti, að skilyrðum lögbanns væri talið fullnægt. Við það mat yrði að taka m.a. afstöðu til ákvæða 1. og. 2. tl. 3. mgr. 24. gr. 31/1990, staðsetningar fyrirhugaðrar byggingar á umræddri lóð eða utan hennar og fleiri atriða, sem áhrif geta haft á framgang lögbannsaðgerðar.

Því þykir rétt, eins og hér stendur á, að hafna kröfu sóknaraðila um að felld verði úr gildi synjun sýslumannsins í Reykjavík frá 26. febrúar sl., um að leggja lögbann við útboði nr. 12679 um rannsókna- og nýsköpunarhús við Háskólann á Akureyri – einkaframkvæmd.  Af því leiðir að ekki verður lagt fyrir sýslumanninn í Reykjavík að leggja lögbann við útboði nr. 12679 um rannsókna- og nýsköpunarhús við Háskólann á Akureyri – einkaframkvæmd, sbr. 2. tl. í kröfugerð sóknaraðila.

Þá þykir rétt, eins og mál þetta er vaxið, að hvor málsaðili beri sinn kostnað af málsókn þessari.

Skúli J. Pálmason héraðsdómari kvað upp þennan úrskurð.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu sóknaraðila, Glámu/Kím Arkitekta efh., um að felld verði úr gildi synjun sýslumannsins í Reykjavík frá 26. febrúar sl., um að leggja lögbann við útboði nr. 12679 um rannsókna- og nýsköpunarhús við Háskólann á Akureyri – einkaframkvæmd.

Málskostnaður fellur niður.