Hæstiréttur íslands
Mál nr. 691/2013
Lykilorð
- Kærumál
- Lögræði
- Dómkvaðning matsmanns
|
|
Miðvikudaginn 6. nóvember 2013. |
|
Nr. 691/2013. |
A (Sigurður G. Guðjónsson hrl.) gegn B C og D (Hilmar Magnússon hrl.) |
Kærumál. Lögræði. Dómkvaðning matsmanns.
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var beiðni A um dómkvaðningu matsmanna til að meta hvort hann væri hæfur til að ráða fé sínu sjálfur í máli er varðaði ótímabundna fjárræðissviptingu hans að kröfu B, C og D. Í læknisfræðilegu áliti sérfræðings í öldrunarlækningum, sem greint hafði A með Alzheimer sjúkdóm og annast meðferð hans, kom fram að vegna vitrænnar skerðingar og áðurnefnds sjúkdóms væri hann ekki hæfur til að verja fjárhagslega hagsmuni sína. Í dómi Hæstaréttar sagði meðal annars að mál til sviptingar lögræðis væru rekin á grundvelli lögræðislaga nr. 71/1997 og sættu þau samkvæmt 1. mgr. 10. gr. laganna almennri meðferð einkamála með þeim frávikum sem í lögunum greindi. Eftir 6. mgr. sömu lagagreinar bæri að hraða meðferð máls til sviptingar lögræðis svo sem kostur væri. Þó mætti það ekki bitna á rétti þess sem krafist væri að sviptur yrði þeim mannréttindum að fara sjálfur með lögráð sín. Aðilar slíks máls hefðu ekki forræði á sönnunarfærslu. Þannig væri svo fyrir mælt í 11. gr. lögræðislaga að dómara bæri að tryggja að mál væri nægilega upplýst og gæti hann í því skyni aflað þeirra sönnunargagna sem þörf væri á. Rannsókn dómara ætti að lúta að því að kanna hvort skilyrðum lögræðissviptingar væri fullnægt. Þegar litið væri til afstöðu A, þess að ekki hefði verið aflað álits annars sérfróðs manns um andlegt heilbrigði hans en þess læknis sem annast hefði meðferð hans og gagna málsins að öðru leyti, taldi Hæstiréttur vafa leika á því hvort skilyrði a. liðar 4. gr. lögræðislaga væru fyrir hendi til að svipta A fjárræði ótímabundið. Var hinn kærði úrskurður felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að kveðja sérfróðan mann á grundvelli 1. mgr. 61. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála til að láta í ljós læknisfræðilegt álit á því hvort A væri fær um að ráða fé sínu vegna sjúkdóms þess sem hann væri haldinn og alvarlegs heilsubrests af hans völdum.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Eiríkur Tómasson og Helgi I. Jónsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 24. október 2013 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 30. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 11. október 2013, þar sem hafnað var beiðni sóknaraðila um dómkvaðningu matsmanna. Kæruheimild er í 1. mgr. 16. gr. lögræðislaga nr. 71/1997, sbr. c. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinum kærða úrskurði verði hrundið og dómkvaddir verði tveir menn til að meta hvort hann sé hæfur til að ráða fé sínu sjálfur. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðilar krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Málsatvikum er lýst á greinargóðan hátt í hinum kærða úrskurði. Eins og þar kemur fram hafa varnaraðilar krafist þess að sóknaraðili verði sviptur fjárræði ótímabundið. Fyrir liggur vottorð Björns Einarssonar, sérfræðings í öldrunarlækningum, 24. september 2013 þar sem hann lét í ljós það álit að samkvæmt læknisfræðilegu mati sínu væri sóknaraðili „ekki hæfur, vegna vitrænnar skerðingar og Alzheimers sjúkdóms, til að verja fjárhagslega hagsmuni sína.“ Af hálfu sóknaraðila hefur sú krafa verið gerð að dómkvaddir verði tveir hæfir og óvilhallir menn til að meta hæfi sitt „til að ráða fé sínu í skilningi lögræðislaga“.
Mál til sviptingar lögræðis eru rekin á grundvelli lögræðislaga og sæta samkvæmt 1. mgr. 10. gr. þeirra laga almennri meðferð einkamála með þeim frávikum sem í lögunum greinir. Eftir 6. mgr. sömu lagagreinar ber að hraða meðferð máls til sviptingar lögræðis svo sem kostur er. Þó má það ekki bitna á rétti þess sem krafist er að sviptur verði þeim mannréttindum að fara sjálfur með lögráð sín. Eins og gerð er grein fyrir í hinum kærða úrskurði hafa aðilar máls til sviptingar lögræðis ekki forræði á sönnunarfærslu á sama hátt og aðilar að einkamáli sem sætir almennri meðferð. Þannig er svo fyrir mælt í 1. mgr. 11. gr. lögræðislaga að dómara beri að tryggja að mál sé nægjanlega upplýst áður en hann kveður upp úrskurð um sviptingu lögræðis. Samkvæmt 2. mgr. þeirrar lagagreinar getur hann í því skyni aflað sjálfur þeirra sönnunargagna sem hann telur þörf á. Svo sem tekið er fram í athugasemdum með frumvarpi til lögræðislaga á rannsókn dómara að lúta að því að kanna hvort skilyrðum til lögræðissviptingar sé fullnægt, enda er þar jafnframt lögð áhersla á nauðsyn þess að niðurstaða máls til sviptingar lögræðis sé byggð á traustum grunni.
Séu ákvæði 11. gr. lögræðislaga virt í ljósi fyrrgreindrar meginreglu 1. mgr. 10. gr. laganna verða ákvæðin ekki skýrð á þann veg að útilokað sé að dómari geti orðið við beiðni manns, sem krafist er að sviptur verði lögræði til langframa, um að dómkvaddur verði sérfróður maður til að leggja mat á atriði, sem krefjast annarrar sérfræðilegrar þekkingar en lagaþekkingar, sbr. 1. mgr. 61. gr. laga nr. 91/1991. Með því móti er séð til þess að báðir aðilar fái komið að sjónarmiðum sínum við dómkvaðningu matsmannsins og matið sjálft. Vegna þeirrar áherslu sem lögð er á að máli skuli hraðað verður þetta þó ekki gert nema dómari telji að réttmætur vafi leiki á hvort skilyrðum lögræðissviptingar sé fullnægt og mat hins sérfróða manns kunni að varpa frekara ljósi á málið. Þar sem málsaðilar hafa sem fyrr segir takmarkað forræði á sönnunarfærslu er dómari ekki bundinn af matsbeiðni, heldur getur hann ákveðið að mati skuli hagað á annan veg en þar er farið fram á ef hann álítur það æskilegra í þeim tilgangi að upplýsa málið.
Eins og áður er fram komið liggur fyrir í máli þessu læknisfræðilegt álit sérfræðings í öldrunarlækningum, sem greindi sóknaraðila með Alzheimer sjúkdóm og hefur annast meðferð hans síðan, að vegna vitrænnar skerðingar og þess sjúkdóms sé hann ekki hæfur „til að verja fjárhagslega hagsmuni sína“. Á hinn bóginn heldur sóknaraðili því fram að þrátt fyrir að hann hafi greinst með sjúkdóminn sé hann fullfær um að ráða fé sínu og að ekkert í fari hans eða framgöngu gefi tilefni til að óttast að hann muni sólunda fé sínu og eignum, andstætt hagsmunum sínum. Að teknu tilliti til þessarar afstöðu sóknaraðila, þess að ekki hefur verið aflað álits annars sérfróðs manns um andlegt heilbrigði hans en þess læknis, sem annast hefur meðferð hans, og gagna málsins að öðru leyti verður litið svo á að vafi leiki á því hvort skilyrði a. liðar 4. gr. lögræðislaga séu fyrir hendi til að svipta hann fjárræði ótímabundið. Af þeim sökum verður fallist á að aflað verði læknisfræðilegs álits sérfróðs manns, annars en fyrrgreinds sérfræðings í öldrunarlækningum, á því hvort sóknaraðili sé fær um að ráða fé sínu vegna sjúkdómsins og alvarlegs heilsubrests af hans völdum.
Samkvæmt því sem að framan greinir verður hinn kærði úrskurður felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að kveðja sérfróðan mann á grundvelli 1. mgr. 61. gr. laga nr. 91/1991 til að láta í ljós læknisfræðilegt álit á því hvort sóknaraðili sé fær um að ráða fé sínu vegna Alzheimer sjúkdóms þess sem hann er haldinn og alvarlegs heilsubrests af hans völdum, sbr. a. lið 4. gr. lögræðislaga. Vegna fyrirmæla þeirra laga um að mál til sviptingar lögræðis skuli hraðað ber að dómkveðja matsmanninn svo fljótt sem kostur er og brýna jafnframt fyrir honum að hraða störfum sínum. Þar sem skylda hvílir á héraðsdómara samkvæmt 1. mgr. 11. gr. lögræðislaga að upplýsa málið og þóknun matsmanns skal greidd úr ríkissjóði eftir 1. mgr. 17. gr. laganna skal matsgerð fengin dómara í hendur. Að öðru leyti ber við dómkvaðningu matsmanns og framkvæmd matsins að fylgja ákvæðum IX. kafla laga nr. 91/1991 eftir því sem við á.
Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga greiðist kærumálskostnaður úr ríkissjóði, þar með talin þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila og talsmanns varnaraðila eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að kveðja sérfróðan mann á grundvelli 1. mgr. 61. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála til að láta í ljós læknisfræðilegt álit á því hvort sóknaraðili, A, sé fær um að ráða fé sínu vegna Alzheimer sjúkdóms þess sem hann er haldinn og alvarlegs heilsubrests af hans völdum.
Kærumálskostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila, Sigurðar G. Guðjónssonar hæstaréttarlögmanns, og skipaðs talsmanns varnaraðila, B, C og D, Hilmars Magnússonar hæstaréttarlögmanns, 125.500 krónur til hvors þeirra.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 11. október 2013.
Sóknaraðilar krefjast þess aðallega að varnaraðili verði sviptur fjárræði ótímabundið. Til vara krefjast sóknaraðilar þess að varnaraðili verði sviptur fjárræði ótímabundið varðandi eftirtaldar eignir: [...] lóð [...], [...] ([...]), [...], Reykjavík ([...],[...],[...],[...],[...]), [...], Reykjavík ([...]), [...], Reykjavík ([...]), [...], Reykjavík ([...]), [...] og [...], Reykjavík ([...], [...]), og [...], Reykjavík ([...]). Loks krefjast sóknaraðilar þess að málskostnaður skipaðs talsmanns þeirra verði greiddur úr ríkissjóði, sbr. 1. mgr. 17. gr. laga nr. 71/1997.
Varnaraðili mótmælir kröfum sóknaraðila. Í þessum þætti málsins er hins vegar aðeins deilt um það hvort rétt sé að fallast á beiðni skipaðs verjanda varnaraðila, sem fram kom í þinghaldi 10. október 2013, um dómkvaðningu tveggja hæfra og óvilhallra matsmanna til að meta „hæfi matsbeiðanda til að ráða fé sínu í skilningi lögræðislaga nr. 71/1997“. Skipaður talsmaður sóknaraðila mótmælti því að beiðnin næði fram að ganga og var ágreiningurinn tekinn til úrskurðar eftir að lögmönnum hafði verið gefinn kostur á að rekja sjónarmið sín um þetta atriði.
Varnaraðili er fæddur í [...] árið 193[...] og er því 8[...] ára gamall. Í september árið 2012 gaf Björn Einarsson, læknir á öldrunarsviði Landspítala, út læknisvottorð um að varnaraðili væri greindur með „Alzheimer sjúkdóm, þó tiltölulega vægan“. Hann hefði verið greindur af Birni á minnismóttöku Landakotsspítala í september 2011. Fram kom að honum færi hægt og sígandi aftur. Hann væri ekki fyllilega fær um að gæta hagsmuna sinna fjárhagslega en væri þó ágætlega skýr og skynsamur viðræðu.
Sóknaraðilar byggja kröfu sína á því að varnaraðili sé nú ári síðar orðinn ófær um að sjá um sín fjármál og þau miklu fjárhagslegu umsvif og utanumhald sem leiða af fasteignum hans sökum ellisljóleika og heilsubrests af völdum Alzheimer sjúkdómsins. Varnaraðili geti ekki lengur gert sér grein fyrir þeim fjárhagslegu umsvifum sem leiði af eignum hans og hafi hann notið aðstoðar sóknaraðilans Ingibjargar við athafnir eins og aðdrætti, þvotta, læknisheimsóknir og tengsl við félagsþjónustu. Um lagarök vísa sóknaraðilar til a. liðar 4. gr. laga nr. 71/1997.
Varnaraðili telur sig fullfæran um að gæta fjárhagslegra hagsmuna sinna. Til stuðnings beiðni sinni um dómkvaðningu matsmanna bendir varnaraðili á að frekari sönnunargagna sé þörf varðandi hæfi sitt til að ráðstafa fjármunum sínum og eignum, enda sé hér um grundvallarréttindi sín að ræða. Þá fari aðilar með forræði sönnunarfærslunnar. Fjárræðissvipting megi loks ekki fara fram nema mál sé nægjanlega upplýst og hvergi sé vikið að því í lögum nr. 71/1997 að ekki megi afla matsgerða.
Sóknaraðilar mótmæla kröfu varnaraðila um dómkvaðningu matsmanna á þeim grundvelli að sérsjónarmið eigi við um gagnaöflun í lögræðissviptingarmálum og nýtt læknisvottorð Björns Einarssonar, sem aflað hafi verið undir rekstri málsins, hljóti að teljast viðunandi sönnunargagn í málinu. Þá beri að hraða rekstri lögræðissviptingarmála eins og kostur sé. Loks telja þau orðalag spurningarinnar, sem varnaraðili leggur til, vera ótækt, enda sé þar skírskotað til lögfræðilegs mats, en framkvæmd slíks mats sé einungis í verkahring dómara.
Niðurstaða
Mál um fjárræðissviptingu eru rekin samkvæmt lögræðislögum nr. 71/1997. Í 1. mgr. 10. gr. laganna segir að mál til sviptingar lögræðis sæti almennri meðferð einkamála með þeim frávikum sem greini í lögræðislögunum sjálfum. Í einkamálaréttarfari gildir sú almenna meginregla að málsaðilar hafa sjálfir forræði á sönnunarfærslunni, en reglan er reyndar bundin við þau mál þar sem aðilarnir fara með forræði á sakarefninu, sbr. 1. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Hér verður því að taka afstöðu til þess hvort lög nr. 71/1997 mæli fyrir um einhvers konar frávik frá þessari meginreglu og hvort slíkt geti haft áhrif á það hvernig farið verður með beiðni varnaraðila um dómkvaðningu matsmanna í hinu fyrirliggjandi máli.
Við úrlausn álitefnisins verður í fyrsta lagi að líta til þess málshraða sem dómara er falið að tryggja í lögræðissviptingarmálum. Samkvæmt 2. mgr. 10. gr. laga nr. 71/1997 skal dómari taka kröfu um lögræðissviptingu fyrir svo fljótt sem unnt er. Þá ber honum samkvæmt 6. mgr. 10. gr. sömu laga að hraða meðferð máls til sviptingar lögræðis svo sem kostur er, sbr. einnig til hliðsjónar 3. mgr. 16. gr. laganna. Loks skal dómari samkvæmt 2. mgr. 12. gr. laganna kveða upp úrskurð í málum sem þessum áður en liðnir eru þrír sólarhringar frá því að mál var tekið til úrskurðar. Í athugasemdum með frumvarpi því er varð að lögum nr. 71/1997 er fjallað um þau sjónarmið sem búa að baki þeirri skyldu sem lögð er á dómara um að hraða meðferð lögræðissviptingarmála. Segir þar að ljóst sé að manni, sem krafist er að verði sviptur þeim mannréttindum að fara sjálfur með lögráð sín, sé brýn þörf að niðurstaða máls liggi fyrir svo fljótt sem kostur sé. Einnig sé ljóst að ef skilyrði lögræðissviptingar eru fyrir hendi beri nauðsyn til að skipa þeim, sem svipta þurfi lögræði, lögráðamann svo fljótt sem við verði komið. Af öllu þessu verður ekki annað ráðið en að lög nr. 71/1997 mæli fyrir um fremur fortaklausa málshraðareglu og að henni sé einkum ætlað að vernda hagsmuni þess sem krafa um lögræðissviptingu beinist að.
Í öðru lagi verður að huga að þeim sérákvæðum laga nr. 71/1997 sem fela dómara ákveðna hlutdeild í sönnunarfærslu lögræðissviptingarmála. Þannig segir í 1. mgr. 11. gr. laganna að dómara beri að tryggja að mál sé nægjanlega upplýst áður en hann kveður upp úrskurð um sviptingu lögræðis. Í samræmi við þetta segir í 6. mgr. 11. gr. laga nr. 71/1997 að skylt sé öllum þeim, sem vegna starfa sinna geti veitt upplýsingar um varnaraðila, sem dómari telji að skipt geti máli fyrir úrslit málsins, að veita honum þær og láta honum í té þau gögn um varnaraðila sem dómari krefjist. Sama eigi við um aðra þá sem vegna tengsla sinna við varnaraðila geti veitt sambærilegar upplýsingar.
Umrædd hlutdeild dómara í sönnunarfærslu lögræðissviptingarmála hefur það í för með sér að slík mál eru almennt flokkuð sem „indispósitíf“ mál ásamt hjúskaparmálum og málum um faðerni barna. Eiga slík mál það sameiginlegt að um þau gilda ekki reglur um málsforræði aðilanna nema að takmörkuðu leyti. Í samræmi við þetta segir í 2. mgr. 11. gr. laga nr. 71/1997 að dómari geti sjálfur aflað upplýsinga sem hann telur þörf á, til dæmis læknisvottorðs. Þetta gerði dómari raunar á fyrstu stigum málsins þegar hann kallaði eftir því símleiðis 18. september 2013 við skipaðan verjanda varnaraðila að aflað yrði nýs læknisvottorðs frá Birni Einarssyni, öldrunarlækni, en sá læknir kom að upphaflegri greiningu á Alzheimer sjúkdómi varnaraðila og hefur annast meðferð hans allar götur síðan þá. Í málinu liggur fyrir umrætt vottorð Björns Einarssonar, dagsett 24. september 2013. Þar kemur meðal annars fram að varnaraðila hafi farið mikið aftur, hann hafi aðsóknarhugmyndir og sé greinilega með mikið skert innsæi og dómgreind á eigið sjúkdómsástand og færni. Þar segir einnig að niðurstaða læknisins sé sú að varnaraðili sé ófær um að verja hagsmuni sína fjárhagslega.
Í þriðja lagi ber að halda því til haga að á því tímabili sem mál þetta hefur verið rekið hafa engar upplýsingar verið lagðar fyrir dóminn af hálfu varnaraðila, í tilefni af framkominni kröfu um fjárræðissviptingu hans, um að hann hafi verið til meðferðar hjá öðrum læknum vegna umrædds sjúkdóms. Þá hefur varnaraðili ekki gert gangskör að því eftir að mál þetta hófst, sbr. bókuð tilsvör verjanda hans í þinghaldi 10. október 2013, að leita sér álits annars læknis, svo sem honum hefði þó verið í lófa lagið, enda skal kostnaður af slíku greiddur úr ríkissjóði, sbr. 1. mgr. 17. gr. laga nr. 71/1997.
Ef fallist yrði á beiðni varnaraðila um dómkvaðningu matsmanna hefði það fyrirsjáanlega í för með sér miklar tafir á málsmeðferðinni, andstætt fyrrnefndum fyrirmælum laga nr. 71/1997 varðandi málshraða. Þeim ákvæðum er einkum ætlað að vernda hagsmuni þess einstaklings sem krafa um lögræðissviptingu beinist að. Þá liggur fyrir afar nýlegt læknisvottorð þess læknis sem annast hefur sjúkdómsmeðferð varnaraðila frá upphafi, en það var raunar skipaður verjandi varnaraðila sem lagði það vottorð fram í þinghaldi 2. október 2013. Við munnlegan málflutning mun aðilum meðal annars gefast kostur á að spyrja umræddan lækni nánar út í vottorðið og læknisfræðilegt álit hans á heilsu varnaraðila. Loks liggur fyrir í málinu að varnaraðili hefur ekki kosið að nýta sér þann tíma sem hann hefur sannarlega haft til að gangast undir læknisskoðun hjá fleiri læknum eftir að mál þetta kom upp, en kostnaður af slíkri læknisskoðun fengist greiddur úr ríkissjóði, sbr. 1. mgr. 17. gr. laga nr. 71/1997. Við allt þetta bætist að orðalag matsbeiðni varnaraðila gefur til kynna að hann ætli matsmönnum lögfræðilegt mat, enda er þar farið fram á að þeir meti hæfi varnaraðila til að „ráða fé sínu í skilningi lögræðislaga nr. 71/1997“. Sönnunarfærsla í lögræðissviptingarmálum snýr meðal annars að því að leiða í ljós atriði varðandi heilsufar og fjárhagsmálefni þess einstaklings sem krafa um lögræðissviptingu beinist að. Mat á hæfi manna til að ráða fé sínu í skilningi laga nr. 71/1997 verður hins vegar ekki falið öðrum en dómara.
Að öllu framangreindu virtu og með hliðsjón af atvikum málsins og þeim gögnum sem þegar hafa verið lögð fram í málinu telur dómari að hafna beri beiðni varnaraðila, dagsettri 10. október 2013, um dómkvaðningu matsmanna.
Arnaldur Hjartarson, settur héraðsdómari, kveður upp úrskurð þennan.
ÚRSKURÐARORÐ:
Hafnað er beiðni varnaraðila, dagsettri 10. október 2013, um dómkvaðningu matsmanna.