Hæstiréttur íslands

Mál nr. 365/2011


Lykilorð

  • Kærumál
  • Hæfi dómara


Þriðjudaginn 21. júní 2011.

Nr. 365/2011.

Toppfiskur ehf.

(Bogi Guðmundsson hdl.)

gegn

Glitni banka hf.

(enginn)

Kærumál. Dómarar. Hæfi.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu T ehf. um að dómari viki sæti í máli sem G hf. hafði höfðað gegn T ehf. vegna afleiðu- og gjaldeyrisviðskipta sem aðilar höfðu átt í. Héraðsdómarinn í málinu hafði ritað tvær álitsgerðir að beiðni G hf. á tímabilinu frá júlí til september 2010 en hann var þá starfandi hæstaréttarlögmaður og forseti lagadeildar Háskólans í Reykjavík. Í dómi Hæstaréttar kemur m.a. fram að efni álitsgerðanna væri óskylt sakarefninu í máli því sem G hf. hafði höfðað gegn T ehf. og snerti þann síðarnefnda ekki. Þá væru ekki fyrir hendi atvik eða aðstæður sem fallin væru til þess að draga óhlutdrægni dómarans með réttu í efa. Staðfesti Hæstiréttur niðurstöðu hins kærða úrskurðar.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Viðar Már Matthíasson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 30. maí 2011, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 6. júní sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 17. maí 2011, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að dómari málsins viki sæti í máli varnaraðila gegn sóknaraðila. Kæruheimild er í a. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og að Þórði S. Gunnarssyni, settum héraðsdómara, verði gert að víkja sæti. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

Eins og fram kemur í hinum kærða úrskurði ritaði héraðsdómarinn, sem þá var hæstaréttarlögmaður og forseti lagadeildar Háskólans í Reykjavík, tvær álitsgerðir að beiðni varnaraðila á tímabilinu frá júlí til september 2010. Lauk þar með samningsbundnum skyldum sem hann hafði gengist undir við varnaraðila. Efni álitsgerðanna er óskylt sakarefninu í máli því sem varnaraðili hefur höfðað gegn sóknaraðila og snerti þann síðarnefnda ekki. Með vísan til þessa og annars, sem fram kemur í hinum kærða úrskurði, eru ekki fyrir hendi atvik eða aðstæður sem fallin eru til þess að draga óhlutdrægni dómarans með réttu í efa. Niðurstaða hins kærða úrskurðar verður því staðfest.

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Kærumálskostnaður fellur niður.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 17. maí 2011.

I.

Mál þetta sem tekið var til úrskurðar 29. apríl s.l. um kröfu stefnda um að dómari málsins víki sæti var höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur 14. desember 2010 af Glitni banka h.f., Sóltúni 26, Reykjavík gegn Toppfiski ehf., Fiskislóð 65, Reykjavík.

Dómkröfur stefnanda eins og þeim var breytt í þinghaldi 29. apríl s.l. eru þær að stefnda verði dæmt að greiða stefnanda skuld að fjárhæð 242.757.704 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 229.420.704 krónum frá 16. október 2008 til 21. október 2008, af 243.275.704 krónum frá 21. október 2008 til 18. mars 2009 og af 242.757.704 krónum frá 18. mars 2009 til greiðsludags. Þá krefst stefnandi þess að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað að skaðlausu að mati réttarins eða samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi, komi til aðalmeðferðar málsins.

Dómkröfur stefnda eru þær aðallega að stefndi verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda.

Til vara krefst stefndi þess að kröfum hans á stefnanda að fjárhæð 242.575.704 krónur ásamt vöxtum og dráttarvöxtum samkvæmt 1.mgr.6.gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 229.420.704 krónum frá 7.október 2008 til 21. október 2008 og af 243.275.704 krónum frá 7.október 2008 til 21. október 2008 verði  skuldajafnað við dómkröfur stefnanda. Verði dómkröfur stefnanda lækkaðar breytist skuldajöfnunarkrafa stefnda til samræmis þannig að aðilar verði eins settir og að hinir ólögmætu samningar, sem stefnukrafan byggist á, hafi aldrei verið gerðir.

 Til þrautarvara krefst stefndi lækkunar á dómkröfum stefnanda.

Þá krefst stefndi málskostnaðar samkvæmt málskostnaðarreikningi eða samkvæmt mati dómsins.

Í þinghaldi þann 29. apríl s.l. lagði lögmaður stefnda fram svofellda bókun, sbr. dómskjal nr. 80: 

„Á síðasta hausti var greint frá því opinberlega að Þórður S. Gunnarsson, hæstaréttarlögmaður og þá deildarforseti lagadeildar Háskólans í Reykjavík, hafi að beiðni slitastjórnar Glitnis banka, unnið lögfræðilega álitsgerð sem lögð var fram í dómsmáli sem slitastjórnin höfðaði í New York gegn Jóni Ásgeiri Jóhannessyni og fleirum. Gera verður ráð fyrir að slitastjórnin hafi greitt Þórði fyrir álitsgerðina og að hann hafi mátt gera ráð fyrir að mæta fyrir dóm í New York til að staðfesta álit sitt sem sérfræðivitni. Nú nokkrum mánuðum síðar hefur sami Þórður S. Gunnarsson verið settur héraðsdómari við Héraðsdóm Reykjavíkur. Umbjóðandi minn Toppfiskur hf. telur að Þórður S. Gunnarsson sé vanhæfur til að dæma í máli sem Glitnir banki hefur höfðað gegn félaginu.  Krefst umbjóðandi minn þess að dómarinn víki sæti og vísar í því sambandi til g. liðar 5. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.“ 

Lögmönnum aðila var í þinghaldi 29. apríl, í framhaldi af framlagningu dómskjals. nr. 80 gefinn kostur á að tjá sig munnlega um framangreinda kröfu. Hvorugur óskaði eftir að taka til máls. Engar kröfur eru gerðar af hálfu stefnanda í þessum þætti málsins.

II.

Dómari málsins var settur héraðsdómari við Héraðsdóm Reykjavíkur frá og með 1. apríl 2011 og fékk hann máli þessu úthlutað sama dag. Í júlí 2010 var dómari málsins, sem þá var starfandi hæstaréttarlögmaður og forseti lagadeildar Háskólans í Reykjavík, ráðinn  af slitastjórn og skilanefnd Glitnis banka h.f. til að semja tvær lögfræðilegar álitsgerðir í tengslum við málarekstur Glitnis banka h.f. á hendur Jóni Ásgeir Jóhannessyni o.fl. fyrir dómstól í New York ríki í Bandaríkjunum. Verkefnið, sem unnið var í verktöku, varðaði afmarkaða þætti sakarefnisins og voru álitsgerðirnar afhentar verkkaupa í september 2010. 

Krafa stefnda um að dómari víki sæti er rökstudd með vísan til g-liðar 5. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.

Ekki er fallist á að stefndi hafi réttmæta ástæðu til að draga óhlutdrægni dómara málsins í efa gagnvart málsaðilum og sakarefninu vegna framangreindra starfa hans í þágu stefnanda á árinu 2010, sbr. 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, sbr. 8. gr. stjórnskipunarlaga nr. 97/1995, g-lið 5. gr. laga nr. 91/1991 og 1. mgr. 6. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu, sem lögleiddur var með lögum nr. 62/1994. Er þá sérstaklega haft í huga að umrædd störf dómara í þágu stefnanda á árinu 2010, sem eins og áður er fram komið fólust í samningu tveggja lögfræðilegra álitsgerða, vörðuðu annað og efnislega óskylt sakarefni en það sem til úrlausnar er í máli þessu. Dómari málsins hefur enga persónulega eða fjárhagslega hagsmuni af niðurstöðu máls þessa og starfar ekki í þágu stefnanda.

 Í tilvitnaðri og framangreindri bókun stefnda segir m.a. að dómari málsins „hafi mátt gera ráð fyrir að mæta fyrir dóm í New York til að staðfesta álit sitt sem sérfræðivitni.“ Rétt er að taka fram að dómari málsins er ekki samningsbundinn stefnanda til að staðfesta umræddar álitgerðir fyrir dómi. Hins vegar verður ekki séð að þótt til slíkrar staðfestingar komi hafi það áhrif á hæfi dómarans til að fara með mál þetta skv. g.-lið 5. gr. laga nr. 91/1991.

Með vísan til framanritaðs er kröfu stefnda um að dómari málsins víki sæti hafnað.

Þórður S. Gunnarsson settur héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.

Úrskurðarorð:

Kröfu stefnda um að dómari víki sæti er hafnað.