Hæstiréttur íslands

Mál nr. 454/2000


Lykilorð

  • Bifreið
  • Líkamstjón
  • Örorka
  • Skaðabótalög
  • Gjafsókn


Fimmtudaginn 3

 

Fimmtudaginn 3. maí 2001.

Nr. 454/2000.

Ólafur Hreggviðsson og

Vátryggingafélag Íslands hf.

(Hákon Árnason hrl.)

gegn

Stefáni Briem

(Jón Steinar Gunnlaugsson hrl.)

og gagnsök

 

Bifreiðar. Líkamstjón. Örorka. Skaðabótalög. Gjafsókn.

S lenti í umferðarslysi, en hann var þá framsætisfarþegi í bifreið Ó. S var 16 ára námsmaður á slysdegi og hlaut hann hálstognun í slysinu. Ekki varð ágreiningur um málavexti né fébótaábyrgð Ó og V samkvæmt umferðalögum, en ágreiningur stóð um kröfu S til bóta vegna varanlegrar örorku og annars fjártjóns samkvæmt 1. mgr. 1. gr. skaðabótalaga. Í matsgerð tveggja lækna var varanleg örorka S af völdum umferðarslyssins ekki talin vera fyrir hendi. Með hliðsjón af því kvað Hæstiréttur varanlega örorku S ekki verða metna til stiga og hefðu engar líkur verið leiddar að hugsanlegu atvinnutjóni hans síðar. Voru honum því ekki dæmdar bætur vegna varanlegrar örorku. Ó og V voru sýknaðir af kröfu S um bætur fyrir annað fjártjón þar sem kröfuliðurinn þótti óskilgreindur og áætlaður og væri ekki sýnt fram á að hann gæti fallið undir annað fjártjón samkvæmt téðu lagaákvæði.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Haraldur Henrysson og Pétur Kr. Hafstein.

Aðaláfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 15. desember 2000 að fengnu áfrýjunarleyfi. Þeir krefjast þess aðallega, að héraðsdómi verði hrundið og þeim aðeins gert að greiða gagnáfrýjanda 303.675 krónur með 2% ársvöxtum frá 20. mars 1997 til greiðsludags auk útlagðs kostnaðar að fjárhæð 6.827 krónur. Til vara krefjast aðaláfrýjendur þess, að fjárkröfur gagnáfrýjanda verði lækkaðar. Þá krefjast þeir málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Málinu var gagnáfrýjað 7. mars 2001. Gagnáfrýjandi krefst þess, að aðaláfrýjendur verði dæmdir in solidum til að greiða sér 618.187 krónur með 2% ársvöxtum frá 20. mars 1997 til 5. nóvember 1999 en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá þeim degi til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, eins og mál þetta væri ekki gjafsóknarmál, en gagnáfrýjandi hefur fengið gjafsókn á báðum dómstigum.

I.

Eins og nánar greinir í héraðsdómi lenti gagnáfrýjandi í umferðarslysi 20. mars 1997, en hann var þá framsætisfarþegi í fólksbifreið aðaláfrýjanda Ólafs Hreggviðssonar. Í matsgerð læknanna Jónasar Hallgrímssonar og Ragnars Jónssonar 14. september 1999, sem unnin var með hliðsjón af skaðabótalögum nr. 50/1993, sbr. lög nr. 42/1996, segir meðal annars, að gagnáfrýjandi virðist hafa fengið hálstognun í slysinu og hafi væg einkenni vegna afleiðinga hennar. Ekki var talið, að gagnáfrýjandi hefði orðið fyrir tímabundnu atvinnutjóni samkvæmt 2. gr. skaðabótalaga, en hann var 16 ára námsmaður á slysdegi. Tímabil þjáningabóta samkvæmt 3. gr. var talið vera þrír mánuðir, en gagnáfrýjandi var þó ekki rúmfastur á þeim tíma. Varanlegur miski samkvæmt 4. gr. laganna var metinn 5%, en varanleg örorka samkvæmt 5. gr. var ekki talin vera fyrir hendi.

Hvorki er ágreiningur um málavexti né fébótaábyrgð aðaláfrýjenda samkvæmt XIII. kafla umferðarlaga nr. 50/1987. Gagnáfrýjanda hafa verið boðnar bætur vegna þjáninga og varanlegs miska auk útlagðs kostnaðar, en hins vegar er deilt um kröfu hans til bóta vegna varanlegrar örorku og annars fjártjóns samkvæmt 1. mgr. 1. gr. skaðabótalaga. Þá er ágreiningur um vexti.

II.

Á það er fallist með héraðsdómi, að ákvörðun um bætur til gagnáfrýjanda vegna varanlegrar örorku verði reist á 1. mgr. 8. gr. skaðabótalaga, en með tilliti til niðurstöðu Hæstaréttar 4. júní 1998, sbr. H. 1998.2233, verði litið framhjá 1. málslið 2. mgr. 8. gr., sbr. 2. gr. laga nr. 42/1996. Eins og áður segir komust læknarnir Jónas Hallgrímsson og Ragnar Jónsson að þeirri niðurstöðu, að gagnáfrýjandi hefði ekki hlotið varanlega örorku samkvæmt 5. gr. skaðabótalaga af völdum umferðarslyssins 20. mars 1997. Varanleg örorka gagnáfrýjanda verður því ekki metin til stiga samkvæmt 4. gr. laganna, svo sem ráð er fyrir gert í 1. mgr. 8. gr., en engar líkur hafa verið leiddar að því, að hann verði fyrir nokkru atvinnutjóni af þessum sökum í skilningi síðastnefnda ákvæðisins, þegar stundir líða fram, sbr. til hliðsjónar áðurnefndan hæstaréttardóm og H. 1998.3115. Verða gagnáfrýjanda því ekki dæmdar bætur vegna varanlegrar örorku.

Með skírskotun til forsendna héraðsdóms er fallist á þá niðurstöðu hans að hafna kröfum gagnáfrýjanda um bætur fyrir annað fjártjón samkvæmt 1. mgr. 1. gr. skaðabótalaga, en ekki er deilt um bætur vegna þjáninga og útlagðs kostnaðar, eins og áður greinir. Með símbréfi 13. október 1999 svaraði aðaláfrýjandi Vátryggingafélag Íslands hf. kröfubréfi gagnáfrýjanda frá 5. sama mánaðar og bauð 230.775 krónur vegna varanlegs miska auk þjáningabóta. Í stefnu er því einungis lýst, að við svo búið hafi gagnáfrýjandi kosið að ganga ekki til uppgjörs á tjóninu, en engra upplýsinga nýtur í málinu um samskipti málsaðila í kjölfar þessa. Standa engin rök til þess að ákveða fjárhæð miskabóta á annan veg en fram kom í svari félagsins, sbr. 1. mgr. 15. gr. skaðabótalaga, en þær bætur voru hinar sömu og krafist var og sýnast hafa verið gagnáfrýjanda til reiðu frá þessum tíma.

Samkvæmt framansögðu verða aðaláfrýjendur dæmdir in solidum til að greiða gagnáfrýjanda 310.502 krónur, þ.e. 72.900 krónur í þjáningabætur, 230.775 krónur vegna varanlegs miska og 6.827 krónur vegna útlagðs kostnaðar. Með hliðsjón af framvindu og úrslitum málsins þykir rétt, að hin dæmda fjárhæð beri dráttarvexti frá uppsögu þessa dóms, en fram til hennar reiknist 2% ársvextir á bætur vegna þjáninga og miska í samræmi við 1. mgr. 16. gr. skaðabótalaga.

Af sömu ástæðum og liggja til grundvallar ákvörðun um upphafstíma dráttarvaxta þykir rétt, að málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti falli niður. Um gjafsóknarkostnað gagnáfrýjanda í héraði og fyrir Hæstarétti mælir í dómsorði. 

Dómsorð:

Aðaláfrýjendur, Ólafur Hreggviðsson og Vátryggingafélag Íslands hf., greiði in solidum gagnáfrýjanda, Stefáni Briem, 310.502 krónur með 2% ársvöxtum af 303.675 krónum frá 20. mars 1997 til uppsögu þessa dóms en með dráttarvöxtum af allri fjárhæðinni samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá þeim degi til greiðsludags.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

Allur gjafsóknarkostnaður gagnáfrýjanda í héraði og fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun Jóns Steinars Gunnlaugssonar hæstaréttarlögmanns, samtals 400.000 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 24. júlí 2000.

 

Mál þetta var höfðað með stefnu birtri 10. febrúar 2000 og dómtekið 10. þ.m.Stefnandi er Stefán Briem, kt. 291048-4049, Fagrahjalla 60, Kópavogi.

Stefndu eru Ólafur Hreggviðsson, kt. 080478-4539, Vesturási 5, Reykjavík og Vátryggingarfélag Íslands hf., kt. 690689-2009, Ármúla 3, Reykjavík.

Stefnandi krefst þess að stefndu verði dæmdir til greiðslu skaðabóta in solidum að fjárhæð 618.187 krónur með 2% ársvöxtum frá 20. mars 1997 til 1. maí 1999, en með 4,5% ársvöxtum frá þeim degi til 5. nóvember s.á., en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga frá þeim degi til greiðsludags.  Þá er krafist málskostnaðar úr hendi stefndu auk virðisaukaskatts líkt og mál þetta væri ekki gjafsóknarmál, en stefnanda var veitt gjafsóknarleyfi með bréfi dómsmálaráðuneytisins 4. febrúar 2000.

Stefndu krefjast þess aðallega að þeim verði aðeins gert að greiða stefnanda 303.675 krónur með 2% ársvöxtum frá 20. mars 1997 til greiðsludags auk útlagðs kostnaðar 6.827 krónur og krefjast málskostnaðar úr hendi stefnanda.  Til vara er krafist minni lækkunar á dómkröfum stefnanda og að málskostnaður verði felldur niður.

Um miðnætti aðfararnótt fimmtudaginn 20. mars 1997 var stefnandi framsætisfarþegi í fólksbifreið stefnda, Ólafs Hreggviðssonar, JL-624, þegar hún lenti í árekstri við sendibifreiðina YM-625 á mótum Skógarsels, Breiðholtsbrautar og Stekkjarbakka í Reykjavík.  Í skýrslu lögreglu segir að enginn þeirra  fjögurra, sem voru í bifreiðunum, hafi kennt til eymsla og að ákoma á fyrrgreindri bifreið hafi verið á hægra horni að framan en framan á hinni síðargreindu.  Báðar bifreiðarnar voru skylduvátryggðar hjá hinu stefnda tryggingarfélagi.

Í vottorði Sjúkrahúss Reykjavíkur, dags. 4. mars 1998, segir að stefnandi hafi verið skoðaður á slysa- og bráðamóttöku sjúkrahússins þ. 20. mars  1997 kl. 11.23.  Að sögn hans hafi hann fundið lítið til fyrst á eftir áreksturinn en síðan farið að bera á verk aftan í hálsi, höfði svo og vægum svima.  Skoðun móttökulæknis hafi leitt í ljós stirðleika við hálshreyfingar yfir til hægri og  þreifieymsli yfir vöðvafestum hægra megin í hnakka svo og hægra megin við hálshrygg.  Að mati móttökulæknis hafi verið um að ræða hálsliðatognun og stefnandi fengið ráðgjöf um verkjalyf og hvíld.

Í áverkavottorði Jóns Bjarnasonar heimilislæknis, Heilsugæslunni Lágmúla, dags. 3. apríl 1998, kemur fram  að stefnandi hafi leitað þangað þrívegis á árinu 1997 vegna afleiðinga fyrrgreinds slyss, þ.e. 18. apríl, 7. maí og 19. júní, svo og þ. 25. mars 1998.  Í samantekt vottorðsins segir:  “Eftir bílslys í mars 1997 verkir í hnakka og herðum, þó aðallega hnakka, sem  hafa lagst að mestu leyti en þó nokkrar eftirstöðvar eru sem veldur Stefáni talsverðum óþægindum.  Ekki kemur neitt fram í sjúkraskýrslum um fyrri óþægindi hvað varðar hnakka og herðar.  Tel yfirgnæfandi líkur á að hálshnykkur sá, sem hann fékk í slysinu, hafi valdið þessum langvinnu einkennum.”  Í vottorði sama læknis, dags. 7. desember 1998, segir að ekkert komi fram í sjúkraskýrslum stefnanda um stoðkerfisverki fyrir slysið.

Aðilar óskuðu eftir því við læknana Ragnar Jónsson og Jónas Hallgrímsson að þeir létu í té skriflegt og rökstutt álit um afleiðingar umrædds slyss stefnanda sem tæki til þeirra bótaþátta sem tilgreindir eru í lögum nr. 50/1993.

Matsgerð er dagsett 14. september 1999.   Þar er greint frá því að stefnandi hafi verið í fjölbrautarskóla er slysið varð, sé við nám á verslunarbraut í Borgarholtsskóla í Grafarvogi og vinni með náminu sem birgðavörður á Hótel Holti.  Hann eigi eftir þrjár annir til verslunarprófs, sem hann hyggist ljúka, en telji síðan líklegt að hann fari í markaðsfræðinám í Danmörku en til þess þurfi hann ekki stúdentspróf.  Við matið lágu frammi skattframtöl stefnanda vegna ársins 1996, er launatekjur hans námu 344.107 krónum, og vegna ársins 1997 er launatekjur hans námu 450.306 krónum.  Einnig liggur frammi í málinu skattframtal stefnanda 1999  sem sýnir launatekjur að upphæð 801.383 krónur árið 1998.

Í niðurstöðukafla matsgerðarinnar segir:

“. . .Við mat á tímabundnu atvinnutjóni er tekið tillit til þess að hann var í skóla og virðist ekki hafa misst úr vinnu vegna afleiðinga slyssins.  Við tímabil þjáningabóta er miðað við 3 mánuði en eftir þann tíma virðast einkenni hans ekki hafa breyst marktækt.  Við mat á miska er miðað við afleiðingar vægrar hálstognunar með eðlilegan hreyfiferil í hálsi og væg þreifieymsli vinstra megin í hálsi og einnig í herðavöðvar hægra megin.  Við mat á örorku er miðað við frásögn Stefáns að hann telji ekki að einkenni sín muni há sér við tekjuöflun í framtíðinni, sérstaklega sé tekið tillit til þess að hann mun vinna við markaðsfræði en slík vinna er fremur fjölbreytt að hans mati og ekki eingöngu vinna við tölvu eða skrifborð.  Miðað við þær forsendur teljum við einkenni hans vera það lítil að það muni ekki skerða tekjuöflunarhæfi hans í framtíðinni.

Mat skv. lögum nr. 50/1993:

1.  Tímabundið atvinnutjón skv. 2. gr.  Ekkert.

2.  Þjáningabætur skv. 3. gr.  Stefán telst hafa verið veikur í skilningi skaðabótalaga í

     3 mánuði.

3.  Varanlegur miski skv. 4. gr.  5%.

4.  Varanleg örorka skv. 5. gr. Engin.”

Með bréfi 5. október 1999 til stefnda, Vátryggingafélags Íslands hf., var af hálfu stefnanda gerð krafa um bætur vegna afleiðinga umferðarslyssins.  Kröfuliðir voru:  Þjáningar, varanlegur miski, varanleg örorka, annað fjártjón, útlagður kostnaður tjónþola, vextir og innheimtuþóknun; samtals 734.232 krónur.  Með símbréfi 13. október 1999 bauð hið stefnda tryggingarfélag fram lokauppgjör á tjóni stefnanda sem fól í sér höfnun á greiðslu bóta fyrir varanlega örorku og “annað fjártjón” svo og á vaxtakröfu stefnanda í þeirri mynd sem hún var sett fram.  Við svo búið kaus stefnandi að ganga ekki til uppgjörs á tjóninu.

Krafa stefnanda er þannig sundurliðuð:

1.  Þjáningabæturkr.   72.900

2.  Miskikr. 232.600

3.  Varanleg örorka (110% x miski)kr. 255.860

4.  Annað fjártjónkr.   50.000

5.  Útlagður kostnaður tjónþolakr.     6.827

Krafa stefnanda um skaðabætur byggist á skaðabótalögum nr. 50/1993, sbr. lög nr. 42/1996, en eins og þau voru áður en breytingar voru gerðar á þeim með lögum nr. 37/1999.

Ekki er deilt um staðreyndir í málinu eða fébótaábyrgð stefndu á grundvelli XIII. kafla umferðarlaga nr. 50/1987 vegna slyss stefnanda 20. mars 1997.

Aðalkrafa stefndu er byggð á því að með þegar framboðnum bótum fái stefnandi bætt allt það tjón sem hann eigi lögvarinn rétt til úr hendi þeirra.  Kröfur stefnanda um greiðslu útlagðs sjúkrakostnaðar og þjáningabætur eru samþykktar og verða þeir kröfuliðir teknir að fullu til greina.  Stefndu samþykkja einnig miskabótakröfu stefnanda að öllu verulegu og þar sem lítilsháttar lækkun hennar, sem felst í kröfugerð þeirra, er órökstudd verður kröfuliðurinn tekinn til greina að fullu.

Samkvæmt þessu lýtur ágreiningur aðila að bótakröfum stefnanda vegna varanlegrar örorku og fyrir “annað fjártjón” og einskorðast við þau lagarök sem niðurstöður verði reistar á.  Stefndu mótmæla einnig vaxtakröfu stefnanda, bæði um vexti samkvæmt  skaðabótalögum og upphafstíma dráttarvaxta samkvæmt vaxtalögum.

Krafa stefnanda um bætur fyrir varanlega örorku er studd við 8. gr. skaðabótalaga og reiknireglu hennar, að því breyttu að horft er fram hjá ákvæði 1. ml. 2. mgr. ákvæðisins með vísun til  jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar og eignarréttarákvæðis hennar, enda séu ekki uppfyllt skilyrði þess að meta varanlega örorku stefnanda út frá þeim forsendum sem búi að baki 5. gr. skaðabótalaga.

Í greinargerð stefndu segir að ekki sé ágreiningur með aðilum um að þar sem stefnandi hafi aðeins verið 16 ára á slysdegi og jafnframt í skóla beri að ákvarða bætur til hans á grundvelli reglna 1. mgr. 8. gr. skaðabótalaga.  Hins vegar hafi matsgerð þeirri, sem við nýtur í málinu, ekki verið hnekkt eða verið sýnt fram á að stefnandi hafi hlotið nokkra varanlega örorku af völdum slyssins.  Tilvist varanlegrar örorku sé frumskilyrði bóta fyrir hana.  Það sé síðan annað mál að bætur fyrir varanlega örorku þeirra, sem falla undir 1. mgr. 8. gr. skaðabótalaga sé um slíka  örorku að ræða, skuli gera upp á grundvelli miskastigs.

Samkvæmt 8. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, sbr. 2. gr. laga nr. 42/1996, verða stefnanda, sem er ungur námsmaður, dæmdar bætur vegna varanlegrar örorku á grundvelli miskastigs skv. 4. gr. s.l. sem miðast við afleiðingar tjóns frá læknisfræðilegu sjónarmiði svo og erfiðleika sem það veldur í lífi tjónþola.  Fjárhagslegt örorkumat samkvæmt 5. gr. skaðabótalaga á ekki við eins og háttar um hagi stefnanda og er niðurstaða framlagðrar matsgerðar að  því leyti án þýðingar í málinu.  Við ákvörðun bótanna verður horft fram hjá  ákvæði 1. ml. 2. mgr. 8. gr. skaðabótalaga með vísun til  jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar og eignarréttarákvæðis hennar og í samræmi við niðurstöður Hæstaréttar 4. júní  1998 í máli nr. 317/1997 og 8. október 1998 í máli nr. 333/1997.  Þá er kröfugerð um hundraðstölu örorkubóta sem hlutfall af bótum fyrir varanlegan miska hæfileg, enda er henni ekki sérstaklega mótmælt.

Samkvæmt framangreindu er að fullu fallist á kröfu stefnanda um bætur fyrir varanlega örorku.

Stefnandi byggir kröfu sína um bætur fyrir “annað fjártjón” á þeim almenna kostnaði sem hann hafi orðið að bera vegna slyssins og ekki haldið reikningum til haga vegna hans.  Kröfunni er mótmælt á þeim forsendum að ætlaður kostnaður stefnanda sé ósannaður og njóti hún ekki lagastoðar.

Í 1. mgr. 1. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 segir að sá, sem beri bótaábyrgð á líkamstjóni, skuli greiða skaðabætur fyrir atvinnutjón, sjúkrakostnað og annað fjártjón, sem af því hlýst, og ennfremur þjáningabætur.  Kröfuliðurinn er óskilgreindur og áætlaður og er ekki sýnt fram á að hann geti fallið undir “annað fjártjón” samkvæmt téðu lagaákvæði.  Ber því að sýkna stefndu af honum.

Vaxtakröfu sína byggir stefnandi á því að eftir gildistöku laga nr. 37/1999 um breytingu á skaðabótalögum 1. maí 1999 hafi hann átt rétt til 4,5% vaxta af höfuðstól skaðabótakröfu sinnar, en með þeim lögum hafi vaxtafæti skaðabótakrafna verið breytt úr 2% í 4,5%.  Augljóst sé að vaxtaregla þessi hafi verið sett til hagsbóta fyrir tjónþola sem  slösuðust fyrir setningu laganna, enda sé reglum um vexti ætlað að vernda verðgildi kröfu eins og hún sé á hverjum tíma.  Af hálfu stefndu er mótmælt kröfu stefnanda um 4,5% ársvexti af skaðabótum vegna slyssins frá 1. maí 1999 þar sem fyrir henni skorti lagaheimild.

Í 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 er sérregla um vexti af skaðabótakröfum sem var breytt með 12. gr. laga nr. 37/1999 þannig að vaxtafótur var ákveðinn 4,5% á ári í stað 2%.  Samkvæmt 15. gr. síðargreindra laga öðluðust þau gildi 1. maí 1999 og eiga við um skaðabótaábyrgð vegna tjóns sem rakið verður til bótaskylds atviks eftir gildistöku þeirra.  Lögin  taka því ekki til tjóns stefnanda vegna slyss 20. mars 1997 en því er ekki haldið fram að þau brjóti að efni eða setningarhætti í bága við stjórnarskrána.

Dráttarvaxta er krafist frá þeim degi er mánuður var liðinn frá dagsetningu kröfubréfs 5. október 1999 og um það vísað til ákvæða vaxtalaga nr. 25/1987.  Stefndu mótmæla dráttarvöxtum frá fyrri tíma en dómsuppsögudegi.

Þingfestingardagur málsins er ákveðinn sem upphafstími dráttarvaxta.Niðurstaða málsins er sú að dæma beri stefndu til að greiða óskipt stefnanda 568.187 ( 72.900 + 232.600 + 255.860 + 6.827) krónur með vöxtum eins og greinir í dómsorði.  Dæma ber stefndu til að greiða óskipt 140.000 krónur í málskostnað sem renni  í ríkissjóð.  Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með telin málflutningsþóknun lögmanns hans, Jóns Steinars Gunnlaugssonar hæstaréttarlögmanns, 140.000 krónur.

Mál þetta dæmir Sigurður Hallur Stefánsson héraðsdómari.

D ó m s o r ð:

Stefndu, Ólafur Hreggviðsson og Vátryggingarfélag Íslands hf., greiði óskipt stefnanda, Stefáni Briem, 568.187 krónur með 2% ársvöxtum af 561.360 krónum frá 20. mars 1997 til 17. febrúar 2000 en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af 568.187 krónum frá þeim degi til greiðsludags.

Stefndu greiði óskipt í ríkissjóð 140.000 krónur vegna málskostnaðar.

Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun Jóns Steinars Gunnlaugssonar hæstaréttarlögmanns 140.000 krónur.