Hæstiréttur íslands

Mál nr. 180/2005


Lykilorð

  • Líkamsárás
  • Sönnun
  • Ákæra


Fimmtudaginn 27

 

Fimmtudaginn 27. október 2005.

Nr. 180/2005.

Ákæruvaldið

(Ragnheiður Harðardóttir vararíkissaksóknari)

gegn

Magnúsi Ólafssyni og

(Hilmar Ingimundarson hrl.)

Sverri Má Jóhannessyni

(Bjarni Þór Óskarsson hrl.)

 

Líkamsárás. Sönnun. Ákæra.

M og S voru ákærðir fyrir líkamsárásir. Þrátt fyrir nokkra ónákvæmni í ákæru þótti mega leggja dóm á málið með þeirri greiningu á sakarefninu, sem fólst í hinum áfrýjaða dómi. Í héraði voru báðir sýknaðir af sakargiftum um líkamsárás á A, en hvor um sig hins vegar sakfelldur fyrir líkamsárás á B. Fyrir Hæstarétti gerði ákæruvaldið kröfu um að M yrði sakfelldur fyrir líkamsárás á A. Voru ekki efni til að Hæstiréttur endurmæti sönnunargildi munnlegs framburðar tveggja vitna, sem sýkna M í héraði þótti byggja á. Var héraðsdómur því staðfestur um þetta atriði. Báðir ákærðu kröfðust fyrir Hæstarétti sýknu af ákærum um líkamsárás á B, sem þeir voru sakfelldir fyrir í héraði. Var ekki fallist á forsendur fyrir sakfellingu M og var hann því sýknaður af þessum þætti ákærunnar. Ekki var fallist á andmæli S, sem fyrst komu fram við meðferð málsins fyrir Hæstarétti, við því að dómskýrsla vitnis, sem sakfelling hans í héraði var byggð á, hafði verið tekin gegnum síma. Hins vegar yrði litið til athugasemdanna við mat á sönnunargildi vitnaskýrslunnar. Ekki var talið unnt að sakfella S fyrir líkamsárás á B á þeim grundvelli sem gert var í héraðsdómi og var hann því sýknaður af því ákæruefni. Í samræmi við þetta var bótakröfum í ákæru vísað frá héraðsdómi.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 29. mars 2005 í samræmi við yfirlýsingar ákærðu um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst staðfestingar héraðsdóms um sakfellingu og refsingu ákærða Sverris Más Jóhannessonar og að ákærði Magnús Ólafsson verði sakfelldur samkvæmt ákæru og refsing hans þyngd auk þess sem ákærðu verði dæmdir til að greiða B skaðabætur að fjárhæð 446.410 krónur.

Ákærði Magnús krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af kröfum ákæruvaldsins, en til vara að refsing verði milduð. Þá krefst hann þess að bótakröfu B verði vísað frá dómi en að því frágengnu að hún verði lækkuð.

Ákærði Sverrir Már krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af kröfum ákæruvaldsins og bótakröfu vísað frá dómi. Til vara krefst hann þess að héraðsdómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað.

I.

Svo sem fram kemur í hinum áfrýjaða dómi var mál þetta höfðað með ákæru lögreglustjórans á Akureyri 30. september 2004 á hendur ákærðu „fyrir líkamsárás, með því að hafa aðfaranótt sunnudagsins 28. mars 2004, á skemmtistaðnum Kaffi Akureyri ... ráðist að B ... og A ... með höggum og spörkum, er þeir við vinnu sína á skemmtistaðnum hugðust vísa þeim út vegna slagsmála ...“ með þeim afleiðingum sem í ákærunni greinir. Samkvæmt rannsókn lögreglunnar, sem lá fyrir við útgáfu ákærunnar, höfðu umræddir tveir starfsmenn veitingahússins hlotið meiðsli að mestu leyti í átökum utan dyra þess, eftir að ákærðu hafði verið vísað þaðan út. Ónákvæmni gætir því í ákærunni þegar sagt er að þetta hafi gerst, þegar starfsmennirnir hugðust vísa ákærðu út af staðnum. Þá er í ákærunni rætt um líkamsárás, þó að ætlaðir þolendur væru tveir og ljóst af gögnum málsins, að ákærðu voru að mestu leyti taldir hafa valdið meiðslum mannanna hvor í sínu lagi. Þrátt fyrir þessa annmarka á ákærunni þykir, með vísan til 1. mgr. 117. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, mega leggja dóm á málið með þeirri greiningu á sakarefninu, sem felst í hinum áfrýjaða dómi, þar sem ætluð brot hvors ákærðu um sig voru aðgreind og einnig ætlaðar árásir á hvorn framangreindra manna. Er þá meðal annars haft í huga, að annmarkar þessir hafa ekki haft þau áhrif á vörn ákærðu að henni hafi orðið áfátt af þeim sökum.

II.

Í hinum áfrýjaða dómi voru báðir ákærðu sýknaðir af sakargiftum um líkamsárás á A. Þeir voru hins vegar hvor um sig sakfelldir fyrir líkamsárás á B dyravörð, ákærði Magnús fyrir að hafa bæði sparkað og slegið í hann, þar sem hann stóð við inngang skemmtistaðarins og ákærði Sverrir Már fyrir að hafa sparkað í hann, meðan dyravörðurinn hélt ákærða Magnúsi eftir að hafa snúið hann niður utandyra. Ákæruvaldið fellir sig við þessa niðurstöðu um sakfellingar ákærðu að öðru leyti en því að krafa er gerð um að ákærði Magnús verði fyrir Hæstarétti sakfelldur fyrir líkamsárás á A.

Skilja verður forsendur héraðsdóms fyrir þeirri niðurstöðu að sýkna ákærða Magnús af ákæru um líkamsárás á A á þann veg, að lagt hafi verið mat á sönnunargildi munnlegs framburðar tveggja nafngreindra vitna að samskiptum þessara tveggja manna inni á skemmtistaðnum, en A taldi sig hafa hlotið meiðsli sín þar. Eru ekki efni til að Hæstiréttur endurmeti þetta sbr. 4. mgr. 159. gr. laga nr. 19/1991 eins og henni var breytt með 19. gr. laga nr. 37/1994. Af þessari ástæðu þarf ekki að taka til athugunar, hvort ákærði teljist hafa vitað að um eiganda skemmtistaðarins var að ræða og þá hvort það skipti máli. Verður héraðsdómur því staðfestur að því er þetta snertir.

III.

Koma þá til athugunar kröfur ákærðu um sýknu af þeim ákæruefnum sem þeir voru sakfelldir fyrir í héraði. Í héraðsdómi þótti sannað, að B hefði hlotið högg og spörk þar sem hann stóð við inngang skemmtistaðarins og varnaði ákærðu inngöngu. Var ákærði Magnús sakfelldur fyrir að hafa verið þarna að verki, þar sem bæði B og A hafi borið „að ákærði Magnús hefði haft sig meira í frammi í þessum atgangi en ákærði Sverrir Már.“ Að þessu virtu þótti dóminum nægilega sannað „að ákærði Magnús hafi bæði sparkað og slegið B með þeim afleiðingum að hann hlaut 10 x 5 cm stórt mar á hægri upphandlegg ...“. Ekki eru efni til að fallast á þessar forsendur fyrir sakfellingu ákærða Magnúsar vegna þessarar háttsemi enda getur það eitt að maður hafi haft sig meira í frammi en aðrir ekki nægt til að sakfella hann fyrir líkamsárás. Samkvæmt þessu verður hann  sýknaður af þessum þætti ákærunnar.

 Sakfelling ákærða Sverris Más fyrir líkamsárás á B var í héraðsdómi eingöngu byggð á framburði A, en B kvaðst ekki sjálfur hafa séð hver hefði sparkað í sig, þegar hann hélt ákærða Magnúsi niðri fyrir utan skemmtistaðinn. Fyrir Hæstarétti var af hálfu ákærða Sverris Más talið að með öllu ætti að líta framhjá vitnisburði B um þetta, þar sem dómskýrsla vitnisins hefði verið tekin gegnum síma samkvæmt heimild í 3. mgr. 49. gr. laga nr. 19/1991, sbr. 17. gr. laga nr. 36/1999, án þess að nægs öryggis hefði verið gætt við skýrslutökuna, auk þess, sem ekki mætti neyta þessarar lagaheimildar, þegar í hlut ættu mikilvæg vitni svo sem A hlyti að teljast vera. Þegar til þess er litið að verjandi ákærða Sverris Más í héraði gerði ekki athugasemd við þann hátt sem hafður var á skýrslutökunni og neytti þar réttar til að gagnspyrja vitnið, verður ekki fallist á andmæli ákærða við þessu, sem fyrst komu fram við meðferð málsins fyrir Hæstarétti. Hins vegar verður til þessa litið, þegar metið er sönnunargildi vitnaskýrslunnar.

Fyrir dómi bar A fyrst að ákærði Sverrir Már hefði haldið sig til hlés og staðið bara til hliðar, eftir að mönnunum tveimur hafði verið komið út af skemmtistaðnum. Síðar í skýrslunni sagði hann hins vegar að þessi ákærði hefði komið hlaupandi og sparkað í B liggjandi. Þegar litið er til þessa ósamræmis í framburði vitnisins og jafnframt haft í huga að allmargt fólk virðist hafa verið statt fyrir utan staðinn, þegar atburðirnir urðu, er ekki unnt að sakfella ákærða Sverri Má á þeim grundvelli sem gert er í hinum áfrýjaða dómi. Verður hann því sýknaður af þessu ákæruefni.

IV.

Samkvæmt framansögðu verða ákærðu sýknaðir af sakargiftum ákærunnar í málinu. Með vísan til þess verður, samkvæmt 3. mgr. 172. gr. laga nr. 19/1991, bótakröfum í ákæru vísað frá héraðsdómi.

Allur sakarkostnaður greiðist úr ríkissjóði eins og nánar greinir í dómsorði en í tildæmdum málsvarnarlaunum er virðisaukaskattur innifalinn.

Dómsorð:

Ákærðu, Magnús Ólafsson og Sverrir Már Jóhannesson, eru sýknir af kröfum ákæruvaldsins.

Bótakröfu B er vísað frá héraðsdómi.

Staðfest eru ákvæði hins áfrýjaða dóms um fjárhæð málsvarnarlauna skipaðra verjenda ákærðu í héraði.

Allur sakarkostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði þar með talin málsvarnarlaun skipaðra verjenda ákærðu fyrir Hæstarétti, hæstaréttarlögmannanna Hilmars Ingimundarsonar og Bjarna Þórs Óskarssonar, 249.000 krónur til hvors.

 

 

 

Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra 21. febrúar 2005.

Mál þetta, sem dómtekið var þann 5. janúar s.l., höfðaði lögreglustjórinn á Akureyri með ákæru 30. september 2004 á hendur ákærðu, Magnúsi Ólafssyni, kt. 090980-4249, til heimilis að Laugartúni 19 b, Svalbarðsstrandarhreppi, og Sverri Má Jóhannessyni, kt. 090981-4129, Sandhólum, Eyjafjarðarsveit;

„fyrir líkamsárás, með því að hafa aðfaranótt sunnudagsins 28. mars 2004, á skemmtistaðnum Kaffi Akureyri, Strandgötu 7, Akureyri, ráðist að B, kt. [...], og A, kt. [...], með höggum og spörkum, er þeir við vinnu sína á skemmtistaðnum hugðust vísa þeim út vegna slagsmála, með þeim afleiðingum að B hlaut eymsli í brjóstkassa, sérstaklega undir vinstra herðablaði og 10 x 5 cm stórt mar á hægri upphandlegg og mar á vinstra læri, en A hlaut sár á vinstri framhandlegg, u.þ.b. 1 cm x 3 cm, auk daufra ráka á miðri bringu yfir brjóstbeininu.

Telst þetta varða við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 10. gr. laga nr. 20/1981.

Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar. Í málinu gerir Ingibjörg Elíasdóttir, hdl. fyrir hönd B, skaða- og miskabótakröfu úr hendi ákærðu, in solidum, samtals að fjárhæð kr. 446.410,- með vöxtum skv. 8. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá 29. júní 2003, en síðan með dráttarvöxtum skv. 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga og fyrir hönd A, skaða- og miskabótakröfu úr hendi ákærðu, in solidum, samtals að fjárhæð kr. 446.410,- með sömu vöxtum.“

Skipaður verjandi ákærða Sverris Más, Elísabet Sigurðardóttir hdl., gerir aðallega þær kröfur fyrir hönd ákærða í refsiþætti málsins að ákærði verði sýknaður af kröfum ákæruvaldsins, en til vara að honum verði gerð vægasta refsing er lög leyfa. Hvað bótakröfur varðar er þess aðallega krafist af hálfu ákærða að bótakröfunum verði vísað frá dómi, til vara að ákærði verði sýknaður af kröfunum, en til þrautavara að kröfurnar verði lækkaðar.  Þá krefst verjandi hæfilegra málsvarnarlauna sér til handa.

Skipaður verjandi ákærða Magnúsar, Sigmundur Guðmundsson hdl., gerir aðallega þær kröfur fyrir hönd ákærða í refsiþætti málsins að ákærði verði sýknaður af kröfum ákæruvaldsins, en til vara að honum verði gerð vægasta refsing er lög leyfa.  Hvað bótakröfur varðar er þess aðallega krafist af hálfu ákærða að bótakröfunum verði vísað frá dómi, til vara að ákærði verði sýknaður af kröfunum, en til þrautavara að kröfurnar verði lækkaðar.  Þá krefst verjandi hæfilegra málsvarnarlauna sér til handa.

I.

Samkvæmt frumskýrslu lögreglunnar á Akureyri var óskað aðstoðar lögreglu að Kaffi Akureyri um kl. 02:50, aðfaranótt 28. mars 2004, vegna átaka.  Er lögregla kom á vettvang var B dyravörður með ákærða Magnús í fastatökum á gangstéttinni framan við anddyri skemmtistaðarins.  Í námunda við tvímenningana stóð talsverður hópur fólks, meðal annarra ákærði Sverrir Már.

Í frumskýrslunni er bókað að ákærðu hafi verið færðir í lögreglubifreiðina.  Um ástand ákærðu segir í skýrslunni að báðir hafi þeir verið mjög ölvaðir en rólegir.

Eftir að lögregla hafði rætt við ákærðu var þeim ekið að dvalarstað ákærða Magnúsar við Tjarnarlund á Akureyri.

B leitaði þann 29. mars 2004 á slysadeild vegna áverka sem hann kvaðst hafa orðið fyrir framangreinda nótt.  Í vottorði Ómars Þorsteins Árnasonar læknis, dags. 3. maí 2004, sem hann vann að öllu leyti úr nótum slysadeildar Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri, segir um áverka B:

„Við skoðun á Slysadeild lýsti B heilmiklum eymslum í brjóstkassa, sérstaklega undir vinstra herðablaði.  Þar var roðasvæði og var talið að um hugsanlegt mar væri að ræða.  Hann var mjög þreifiaumur á um það bil lófastóru svæði fyrir neðan vinstra herðablað. Það kemur fram að á hægri upphandlegg hafi verið roðasvæði framanvert og að um það bil 10 x 5 cm stórt mar væri að brjótast út í gegnum húðina.  Það voru engin þreifieymsli í brjóstkassa og ekki grunur að um rifbeinsbrot eða annað slíkt væri að ræða.  Það kemur fram að mat læknisins sem skoðaði hann á Slysadeild, Ásu Eiríksdóttur, hafi verið að um mar og eymsli væri að ræða ...“

A leitaði þann 29. mars 2004 á slysadeild vegna áverka sem hann kvaðst hafa orðið fyrir framangreinda nótt. Í vottorði Ómars Þorsteins Árnasonar læknis, dags. 6. maí 2004, sem hann vann að öllu leyti úr nótum slysadeildar Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri, segir um áverka A:

„Á vinstri framhandlegg var hann með sár, u.þ.b. 1 cm x 3 cm. Þetta var ekki djúpt sár og samhliða sárinu var rauð rák.  Þessi áverkar voru u.þ.b. yfir miðjum framhandlegg, utanverðum.  Á bringu var hann einnig með daufar rákir og var þetta á miðri bringunni yfir brjóstbeininu.  Ekki djúpt og það blæddi ekki úr þessu.“

II.

Framburður ákærða Magnúsar:

Ákærði Magnús skýrði svo frá fyrir dómi að umrædda nótt hefði hann setið ásamt vini sínum, meðákærða Sverri Má, við borð á Kaffi Akureyri.  Á ákærða var að skilja að hann hefði verið lítillega undir árifum áfengis.

Milli ákærðu sagði ákærði hafa komið upp léttvægan ágreining og þeir í kjölfarið ýtt lítillega hvor við öðrum, ekki í neinni alvöru þó.  Ákærði kvaðst síðan hafa ætlað að bakka frá meðákærða en ekki tekist betur til en svo að hann hrasaði um stól og féll aftur fyrir sig og í gólfið.

Ákærði sagði A þá hafa komið að „bókstaflega með læti“, en ekki til þess að stilla til friðar og hefði hann rifið í meðákærða og ýtt við ákærða.  Tók ákærði fram að á þessari stundu hefði hann hvorki vitað um hvaða mann var að ræða né um að maðurinn hefði tengsl við staðinn.  Vitneskju um það hefði ákærði ekki fengið fyrr en tveimur dögum síðar.  Fullyrti ákærði að A hefði ekki verið auðkenndur sem starfsmaður staðarins og hefði hann ekki heldur kynnt sig sem slíkan. Þá kannaðist ákærði ekki við að A hefði fyrr um nóttina haft afskipti af ákærðu.  Ákærði kvaðst því hafa talið að um gest á skemmtistaðnum væri að ræða.

Ákærði sagði hann og meðákærða hafa beðið A um að fara en hann ekki orðið við því og í framhaldinu hefði komið til átaka milli þremenninganna.  Dyraverðir hefðu síðan komið að og átökin borist fram í anddyri og síðan út af staðnum.  Þar hefði B haldið ákærða niðri og A kýlt hann í andlitið.

Aðspurður kvaðst ákærði lítið geta borið um viðskipti meðákærða við dyraverðina, hann hefði haft nóg með að reyna að bjarga sjálfum sér.

Fram kom hjá ákærða að dyraverðirnir hefðu ekki ávarpað ákærðu er þeir komu að þeim heldur hefðu dyraverðirnir strax tekið á ákærðu.

Ákærði neitaði því að hafa slegið eða sparkað í A eða dyraverðina tvo.  Það eina sem hann hefði gert hefði verið að reyna að ýta þeim frá sér þegar þeir hefðu verið að reyna að ná tökum á honum.  Kom fram hjá ákærða í því sambandi að dyraverðirnir hefðu beitt hann óþarfa ofbeldi og kvaðst ákærði hafa hlotið glóðarauga í viðskiptum sínum við þá.  Einnig hefði hann fengið mikið mar á bakið og þá hefði húðflúr á hendi hans rifnað.

A sagði ákærði Magnús hafa verið klæddan í ljósa skyrtu er framangreind atvik gerðust.  Tók ákærði fram í því sambandi að skyrta þessi hefði rifnað í stympingum þeirra A.  Einnig kom fram hjá ákærða að A hefði fyrr um kvöldið setið á borði við hliðina á ákærðu og hann þá verið jakkafataklæddur. Taldi ákærði A hafa verið undir áhrifum áfengis.

Framburður ákærða Sverris Más:

Ákærði Sverrir Már greindi svo frá fyrir dómi þeir meðákærði hefðu farið að kýta inni á skemmtistaðnum Kaffi Akureyri umrædda nótt.  Meðákærði hefði síðan fallið af orsökum sem ákærði kvaðst ekki þekkja.  Þá hefði komið að ákærða maður sem ákærði kvaðst hafa talið vera að veitast að honum og gripið í hann.  Ákærði sagðist hafa snúist til varnar og gripið í manninn á móti.  Einnig hefði meðákærði snúist honum til varnar.  Í kjölfarið hefðu dyraverðir komið á vettvang og rokið á ákærða.  Einhver þeirra hefði síðan tekið hann tökum aftan frá og leitt hann út af staðnum.

Ákærði sagði áðurnefndan mann, A, ekki hafa verið auðkenndan skemmtistaðnum á nokkurn hátt.  Þá hefði hann ekki kynnt sig sem slíkan aðila.  Fram kom hjá ákærða að hann hefði ekki farið að gruna að maðurinn væri tengdur staðnum fyrr en þeir meðákærði voru báðir komnir út af staðnum og meðákærði hafði verið keyrður í jörðina.

Fram kom hjá ákærða að hann hefði ekki lent í frekari átökum þessa nótt en að framan er lýst.  Hann hefði síðan í framhaldinu fylgst með dyravörðunum taka á meðákærða.

Ákærði neitaði því aðspurður að hafa sparkað eða slegið í einhvern dyravarðanna. Þá kvaðst hann ekki hafa séð nein högg eða spörk frá öðrum aðilum.  Hann tók hins vegar fram í því sambandi að dyraverðirnir hefðu tekið mjög harkalega á meðákærða og þeir bókstaflega „neglt honum í götuna“.

Sérstaklega aðspurður kvaðst ákærði ekki kannast við að hafa átt viðskipti við B dyravörð þessa nótt.

Ákærði sagði lögreglu hafa komið á vettvang og hefði hún beðið hann um að koma inn í lögreglubifreiðina og hann strax orðið við þeirri beiðni.  Skömmu síðar hefði meðákærði einnig komið inn í bifreiðina.  Lögregla hefði í framhaldinu ekið þeim heim til meðákærða.

III.

B greindi svo frá fyrir dómi að hann hefði verið við störf sem dyravörður á Kaffi Akureyri umrædda nótt.  Vitnið hefði verið við inngang staðarins þegar A, einn eigenda hans, hefði kallað eftir aðstoð vitnisins við að koma tveimur mönnum, sem verið hefðu með ólæti, út af staðnum.  Vitnið sagði mennina hafa verið búna að vera með ólæti fyrr um nóttina og þeir þá verið áminntir af A.

Fram kom hjá vitninu að nefndur A hefði ekki verið við störf á skemmtistaðnum þessa nótt og þá gat vitnið aðspurt ekki sagt til um hvort A hefði verið auðkenndur staðnum á einhvern hátt.

Vitnið sagði áðurnefndum mönnum hafa verið vísað út af skemmtistaðnum.  Á vitninu var að skilja að ekki hefði gengið vandræðalaust að koma þeim út en það þó tekist.  Atgangurinn hefði síðan fyrst hafist fyrir alvöru þegar búið var að koma mönnunum út af staðnum en þeir hefðu þá freistað inngöngu á ný með höggum og spörkum.  Vitnið kvaðst bæði hafa fengið í sig högg og spörk en gat ekki sagt til um frá hverjum.  Á endanum sagðist vitnið hafa þurft að snúa annan mannanna niður og halda honum þar til lögregla kom á vettvang.  Hinn maðurinn hefði þá róast niður og dregið sig í hlé. Vitnið sagðist hafa margbeðið þann sem það hélt að vera rólegan, en alltaf þegar vitnið hefði losað tök sín hefði æsingurinn byrjað aftur.

Fram kom hjá vitninu að sparkað hefði verið í tvígang í það þegar það var með annan mannanna í fastatökum í jörðinni fyrir utan skemmtistaðinn.  Annað sparkið hefði komið í læri vitnisins og skilið eftir sig lítið mar.  Hitt sparkið hefði komið undir rif vitnisins og vitnið fundið til eymsla undir rifjunum eftir það spark.  Aðspurt gat vitnið hins vegar ekki sagt til um hver hefði verið þarna að verki.

Aðspurt kvaðst vitnið ekki hafa séð mennina slá A. Þá hefði vitnið heldur ekki séð A slá til mannanna.

Fram kom hjá vitninu að þeir hefðu verið þrír sem komu að því að fjarlægja mennina af staðnum.  Það hefðu verið vitnið, áðurnefndur A og K, sem verið hefði á vakt með vitninu umrædda nótt.

A bar fyrir dómi að umrædda nótt hefði hann verið við störf á Kaffi Akureyri, en hann hefði verið kynnir á svokölluðu spænsku kvöldi sem haldið hefði verið á skemmtistaðnum.

Vitnið kvaðst hafa setið ásamt konu sinni við borð í sal skemmtistaðarins og rætt við listakonu, sem komið hefði fram um kvöldið, þegar tveir menn hefðu farið að fljúgast á við borð skammt frá.  Vitnið sagðist hafa sagt mönnunum að hætta áflogunum og þeir orðið við þeim tilmælum.  Mennirnir hefðu síðan sest aftur við borðið.

Stuttu síðar hefðu mennirnir rokið saman aftur með miklum látum og við það hefðu borð og stólar fallið um koll.  Vitnið sagði af þessu hafa stafað ónæði fyrir aðra gesti og vitnið því farið og ætlað að skakka leikinn en mennirnir þá ráðist gegn því.  Nánar lýsti vitnið því svo að það hefði reynt að skilja mennina tvo að með því að taka í annan þeirra en þeir þá ráðist gegn vitninu „með höggum, togi og látum“.  Vitnið hefði því kallað dyraverði sér til hjálpar.  Í kjölfarið hefði verið farið með mennina út af staðnum.  Vitnið sagði annan mannanna sérstaklega hafa haft sig í frammi, það hefði verið sá sem síðar var haldið föstum fyrir utan staðinn þar til lögregla kom á vettvang.

Eftir að búið var að koma mönnunum út af staðnum sagði vitnið þá ítrekað hafa reynt að komast aftur inn og í þeim tilraunum sínum hefðu þeir reynt að berja dyravörð þann sem stóð í dyrunum.  Var á vitninu að skilja að annar mannanna hefði haft sig meira í frammi en hinn og hann í kjölfarið verið tekinn og B haldið honum niðri þar til lögregla kom á vettvang.  Þá kom fram hjá vitninu að á meðan B hefði haldið manninum niðri hefði hinn maðurinn komið hlaupandi að og sparkað í B liggjandi, líklega í síðu hans, en síðan hlaupið strax aftur burtu.  Í kjölfarið kvaðst vitnið hafa farið út til B og tekið sér stöðu við hlið hans.  Fullyrti vitnið að engir aðrir hefðu tekið þátt í umræddum átökum en starfsmenn staðarins og títtnefndir tveir menn.

Um áverka eftir framangreind átök bar vitnið að það hefði verið klórað og marið.  Þá sagði vitnið bol þess hafa rifnað í átökunum og einnig hefði komið lítilsháttar rifa á jakka vitnisins.  Aðspurt um þá áverka sem í ákæruskjali greinir, sár á vinstri framhandlegg og daufar rákir á miðri bringu yfir brjóstbeini, sagðist vitnið hafa hlotið þá áverka af völdum þess aðila sem síðar hefði verið haldið niðri fyrir utan staðinn af B.  Fram kom hjá vitninu að það hefði nokkrum dögum síðar leitað til læknis, eftir að það og B hefðu ákveðið að kæra mennina tvo fyrir líkamsárás. Vitnið sagðist enga áverka hafa séð á mönnunum tveimur eftir átökin.

Vitnið neitaði að hafa slegið ákærða Magnús hnefahögg í umræddum átökum.  Þá neitaði vitnið því einnig alfarið að hafa er atvik máls gerðust veitt stúlku að nafni G hnefahögg.  Vitnið kannaðist hins vegar við að nefnd stúlka hefði kvartað undan því að hún hefði orðið fyrir höggi í anddyri skemmtistaðarins þegar verið var að koma mönnunum tveimur út af staðnum.

Aðspurt fullyrti vitnið að það hefði, er það hafði afskipti af mönnunum tveimur í fyrra skiptið, kynnt sig sem dyravörð á staðnum.  Þá kom fram hjá vitninu að það hefði verið í jakkafatajakka utan yfir bol með hálskraga merktum skemmtistaðnum, en vitnið treysti sér ekki til segja til um hvort merkingarnar hefðu verið mönnunum sýnilegar.  Bol þennan, sem og boli dyravarða almennt, sagði vitnið vera í eigu skemmtistaðarins.

K skýrði svo frá fyrir dómi að hann hefði verið við störf sem dyravörður umrædda nótt.  Um nóttina sagði vitnið barstúlku hafa sótt það inn í sal vegna átaka í anddyri staðarins.  Er vitnið kom á vettvang hefði dyravörður verið að reyna að koma manni út af staðnum og þá hefði annar dyravörður, B, verið fyrir utan staðinn þar sem hann hefði freistað þess að halda öðrum manni niðri.  Kvaðst vitnið hafa farið B til aðstoðar.

Vitnið sagði þann mannanna sem ekki var haldið hafa reynt að kýla til B á meðan vitnið og B héldu hinum manninum niðri.

Fram kom hjá vitninu að það, B og A hefðu allir verið auðkenndir sem dyraverðir staðarins.  Vitnið sagði dyraverði almennt vera í sérstökum „dyravarðarbolum“ merktum skemmtistaðnum, en til væru tvær gerðir af slíkum bolum.  Nánar aðspurt kvaðst vitnið ekki vita betur en A hefði verið við störf á skemmtistaðnum umrædda nótt.

V greindi svo frá fyrir dómi að hún hefði verið á Kaffi Akureyri umrædda nótt er komið hefði til rifrildis milli ákærðu, sem vitnið sagðist báða þekkja.  Var á vitninu að skilja að ekki hefði verið um alvarlegt rifrildi að ræða. Í kjölfarið hefðu dyraverðir skemmtistaðarins haft af þeim afskipti og ákærðu í framhaldinu lent í ryskingum við dyraverðina í anddyri staðarins.  Taldi vitnið ástæðu ryskinganna þá að dyraverðirnir hefðu viljað ákærðu út af staðnum, en þeir ekki viljað fara.

Vitnið sagði eiganda skemmtistaðarins, A, hafa slegið annan ákærðu a.m.k. tvisvar í andlitið þar sem hann hékk í dyragættinni og streittist á móti.  Fyrir dómi kvaðst vitnið fyrst ekki treysta sér til þess að segja til um hvorn ákærðu A hefði slegið en sagði þann aðila í kjölfarið hafa rifið skyrtu A.  Síðar í skýrslutökunni var á vitninu að skilja að um ákærða Magnús hefði verið að ræða, en vitnið sagðist hafa hitt hann daginn eftir og hann þá verið með stórt glóðarauga.

Þá bar vitnið að A hefði hent vinkonu vitnisins á handrið þar sem hún hefði verið fyrir honum.

Fram kom hjá vitninu að A hefði verið klæddur í jakkafatajakka, skyrtu með kögri eða blúndu og gallabuxur umrædda nótt.  Var það hald vitnisins að A hefði ekki verið við störf á staðnum þessa nótt.  Í því sambandi vísaði vitnið til þess að það hefði hitt A í tvígang fyrr um kvöldið, fyrst við borð inni í sal staðarins og síðan við barinn, og þau þá spjallað saman.  Þá bar vitnið að A hefði verið búinn að sitja við borð með fleira fólki um hríð fyrr um kvöldið.  Hegðun hans hefði því ekki bent til þess að hann væri við störf á staðnum.

Aðspurt kvaðst vitnið ekki hafa séð ákærðu slá eða sparka til dyravarðanna í þessum atgangi.

Vitnið sagðist ekki hafa séð það sem fram fór fyrir utan skemmtistaðinn þar sem það hefði þá verið að huga að áðurnefndri vinkonu.  Vitnið kvaðst þó vita að í framhaldinu hefði lögregla komið á vettvang og ekið ákærðu heim.

G bar fyrir dómi að hún hefði verið á Kaffi Akureyri umrædda nótt.  Fram kom hjá vitninu að til rifrildis hefði komið milli ákærðu inni á skemmtistaðnum og ákærði Magnús verið færður út af staðnum í kjölfarið.  Vitnið kvaðst hins vegar ekki hafa séð með hvaða hætti það var gert.

Vitnið sagði eiganda Kaffi Akureyri hafa hlaupið æstan út af staðnum og í leiðinni hefði hann hrint vitninu á handrið inni á staðnum og vitnið vankast við höggið.

Síðar sagðist vitnið hafa séð tvo dyraverði halda ákærða Magnúsi fyrir utan skemmtistaðinn.

Hermann Karlsson lögreglumaður kvaðst fyrir dómi lítið muna eftir atvikum máls. Vitnið staðfesti þó að hafa komið að málinu umrædda nótt.  Þá bar vitnið að það hefði ekið ákærðu á dvalarstað þeirra í kjölfar þess að lögregla hafði af þeim afskipti.

IV.

Fyrir liggur að ákærðu varð sundurorða er þeir sátu við borð á skemmtistaðnum Kaffi Akureyri aðfaranótt 28. mars 2004, en af framburði ákærðu og vitnisins V má ráða að ekki hafi verið um alvarlegan ágreining að ræða.  Einnig þykir upplýst með framburði ákærða Magnúsar og vitnisins A að til einhverra átaka hafi komið milli ákærðu í kjölfarið.  Þá er og staðreynd að A, en hann mun vera einn eigenda Kaffi Akureyri, taldi framangreint háttalag ákærðu ekki ásættanlegt og hafði hann af því tilefni afskipti af ákærðu.

A bar fyrir dómi að áverka þá sem hann hlaut umrædda nótt hefði hann hlotið af völdum þess aðila sem síðar var haldið niðri fyrir utan skemmtistaðinn af B.  Upplýst er að sá aðili var ákærði Magnús. Þegar að þessu virtu ber að sýkna ákærða Sverri Má af þeim sakargiftum í ákæru sem varða A.

Ákærðu héldu því báðir fram fyrir dómi að þeir hefðu ekki vitað um tengsl A við skemmtistaðinn er hann hafði af þeim afskipti.  Þá fullyrtu þeir báðir að A hefði ekki verið auðkenndur staðnum á nokkurn hátt eða hann kynnt sig sem starfsmann staðarins.  Sagði ákærði Magnús A hafa komið að „bókstaflega með læti“ en ekki til þess að stilla til friðar og hefði hann rifið í ákærða Sverri Má og ýtt við ákærða Magnúsi.  Ákærðu hefðu beðið A um að fara en hann ekki orðið við því og í kjölfarið komið til átaka milli þeirra þriggja sem dyraverðir hefðu síðan blandað sér í.  Ákærði Sverrir Már lýsti þessum atvikum svo að honum hefði komið maður, sem ákærði hefði talið vera að veitast að honum, og gripið í hann.  Ákærði sagðist hafa snúist til varnar og gripið í manninn á móti, þá hefði ákærði Magnús einnig snúist til varnar.  Í kjölfarið hefðu dyraverðir komið á vettvang, rokið á ákærða Sverri Má og einn þeirra síðan tekið hann tökum aftan frá og leitt hann út af skemmtistaðnum.

Framburður vitnanna V og B er til stuðnings þeim framburði ákærðu að ekki hafi verið ljóst að A væri við störf á skemmtistaðnum þessa nótt eins og hann hefur haldið fram, en bæði þessi vitni töldu aðspurð fyrir dómi að A hefði ekki verið við störf umrædda nótt.  Þá þykir einnig hvað þetta varðar verða að líta til framburðar A um að hann hafi verið í jakka yfir bol merktum skemmtistaðnum.

Með framburði A og B liggur fyrir að A hafði hastað á ákærðu og sagt þeim að hafa sig hæga áður en til framangreindra átaka kom milli ákærðu.  Hins vegar þykir ekki, gegn eindreginni neitun ákærðu, nægjanlega sannað að ákærðu hafi þá verið ljóst að um væri að ræða starfsmann staðarins og/eða einn eigenda hans.

Að öllu framangreindu athuguðu þykir verða að leggja það til grundvallar við úrlausn málsins að ákærða Magnúsi hafi ekki verið ljóst að A væri starfsmaður á Kaffi Akureyri.  Þannig þykir í ljósi framangreinds og þeirra áverka sem A hlaut þessa nótt verða að leggja til grundvallar að ákærði Magnús hafi talið sig vera að koma meðákærða til varnar og síðar að verja hendur sínar gegn ágangi A.  Í þessu sambandi þykir einnig mega líta til framburðar vitnanna V og G hvað framgöngu A varðar.  Að öllu þessu virtu þykir varhugavert að telja fram komna lögfulla sönnun þess að ákærði Magnús hafi umrædda nótt ráðist að A með þeim hætti sem honum er gefið að sök í ákæru og þannig að varðað hafi við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.  Skal því sýkna ákærða Magnús af því ákæruatriði.

Eins og áður hefur komið fram var B við störf sem dyravörður á Kaffi Akureyri umrædda nótt.  Í kjölfar átaka ákærðu og A sagði vitnið ákærðu hafa verið færða út af staðnum.  Þeir hefðu þá freistað inngöngu á ný með höggum og spörkum.  Kvaðst vitnið bæði hafa fengið í sig högg og spörk en gat ekki sagt til um frá hverjum.  Á endanum sagðist vitnið hafa þurft að snúa annan mannanna niður og halda honum, þar til lögregla kom á vettvang.  Um þessi atvik bar A að ákærðu hefðu ítrekað reynt að komast inn eftir að þeim var vísað út af staðnum og í þeim tilraunum sínum hefðu þeir reynt að berja dyravörð þann sem stóð í dyragættinni.  Var á vitninu að skilja að annar mannanna hefði haft sig meira í frammi en hinn og hann í kjölfarið verið tekinn og B haldið honum niðri þar til lögreglan kom á vettvang.

Með vísan til framburðar B og A þykir dóminum sannað að B hafi fengið í sig högg og spörk þar sem hann stóð við inngang skemmtistaðarins og varnaði ákærðu inngöngu.  Bæði vitnin báru að ákærði Magnús hefði haft sig meira í frammi í þessum atgangi en ákærði Sverrir Már.  Að því virtu þykir dóminum nægjanlega sannað að ákærði Magnús hafi bæði sparkað og slegið í B með þeim afleiðingum að hann hlaut 10 x 5 cm stórt mar á hægri upphandlegg og þannig brotið gegn 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.  Hins vegar þykir að umræddum framburðum virtum varhugavert að slá því föstu að ákærði Sverrir Már, sem fyrir dómi kannaðist ekki við að hafa átt viðskipti við B þessa nótt, hafi slegið eða sparkað í B þar sem hann stóð í dyragættinni.

B bar jafnframt fyrir dómi að er hann hefði haldið ákærða Magnúsi fyrir utan skemmtistaðinn hefði í tvígang verið sparkað í hann.  Annað sparkið hefði komið í læri vitnisins og skilið eftir sig lítið mar.  Hitt sparkið hefði komið undir rif vitnisins og vitnið fundið til eymsla undir rifjunum eftir það spark. Vitnið gat aðspurt ekki sagt til um hver hefði verið þarna að verki.  Af framburði A má hins vegar glögglega ráða að ákærði Sverrir Már hafi verið að verki a.m.k. í síðar nefnda skiptið.  Telur dómurinn því sannað með framanröktum framburðum B og A að ákærði Sverrir Már hafi sparkað í undir rif B með þeim afleiðingum sem í ákæruskjali greinir og þannig brotið gegn 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

V.

Með vísan til niðurstöðu dómsins hér að framan um sýknu ákærðu af þeim hluta sakargifta er A varða er bótakröfu A vísað frá dómi, sbr. 3. mgr. 172. gr. laga nr. 19/1991.

Brotataþoli, B, gerir í málinu þær kröfur að ákærðu greiði honum óskipt skaða- og miskabætur samtals að fjárhæð 446.410 krónur vegna tjóns sem hann hafi orðið fyrir vegna árásarinnar aðfaranótt 28. mars 2004.  Krefst hann þess jafnframt að nefnd fjárhæð beri vexti samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu og síðar dráttarvexti samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr., sömu laga.

Kröfu sína hefur brotaþoli sundurliðað og rökstutt með eftirfarandi hætti:

1.                         Miskabætur samkvæmt 26. gr. laga nr. 50/1993                         kr.                          400.000

2.                         Ónýtur fatnaður  kr.                         5.850

3.                            Lækniskostnaður samkvæmt reikningi          kr.                          3.210

4.                            Lögmannsþóknun                         kr.                         30.000

5.                            Virðisaukaskattur á lögmannsþóknun                         kr.                          7.350

Samtals                         kr.                         446.410

Kröfulið 1 rökstyður brotaþoli svo að hann hafi verið að sinna störfum sínum með eðlilegum hætti þegar ákærðu hafi ráðist að honum með höggum og spörkum þannig að á honum sá.  Brotaþoli hafi hlotið högg í andlit og marbletti bæði á hægri handlegg, herðablaði og læri.  Hann eigi ekki að þurfa að sæta því að gengið sé í skrokk á honum af tilefnislausu þegar hann sé við störf, en hann hafi umrætt sinn verið að reyna að gæta þess að aðrir gestir skemmtistaðarins yrðu ekki fyrir tjóni vegna hegðunar ákærðu.

Brotaþoli kveður kröfulið 2 studdan framlögðum gögnum frá versluninni Dressmann og frá Stíl ehf.

Kröfulið 3 segir brotaþoli styðjast við framlagðan reikning vegna læknisaðstoðar.

Þá gerir brotaþoli kröfu um lögmannskostnað við að halda fram kröfu sinni í málinu. Um sundurliðun þess kostnaðar vísast til framangreinds.

Eins og áður hefur verið rakið telur dómurinn sannað að ákærði Sverrir Már hafi sparkað í brotaþola á þeim tíma og stað sem í ákæru greinir með þeim afleiðingum að brotaþoli hlaut eymsli í brjóstkassa, sérstaklega undir vinstra herðablaði, og  jafnframt að ákærði Magnús hafi slegið og sparkað til hans umrætt sinn með þeim afleiðingum að hann hlaut 10 x 5 cm stórt mar á hægri upphandlegg.  Er það niðurstaða dómsins að ákærðu beri skaðabótaábyrgð á því tjóni brotaþola sem rekja má til þessarar refsiverðu háttsemi.

Krafa brotaþola um greiðslu 3.210 króna útlagðs kostnaðar vegna læknisaðstoðar er studd reikningi.  Ber því að dæma ákærðu til að greiða brotaþola nefnda fjárhæð.

Með vísan til yfirlýsingar A fyrir dómi, en A er einn eigenda Kaffi Akureyri, þess efnis að bolir dyravarða séu í eigu skemmtistaðarins ber að sýkna ákærðu af kröfulið 2 í bótakröfu brotaþola þar sem brotaþoli á ekki aðild að kröfunni, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Brotaþoli á rétt á miskabótum úr hendi ákærðu vegna árásarinnar á grundvelli 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 sem ákvarðast í samræmi við dómvenju 60.000 krónur.  Ekki þykja efni til að gera upp á milli ákærðu hvað varðar skyldu til greiðslu miskabóta eða fjárhæð þeirra.

Samkvæmt 4. mgr. 172. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála á brotaþoli rétt til bóta vegna lögmannskostnaðar sem hann hefur haft af því að halda fram kröfu sinni í málinu.  Krafa brotaþola um lögmannskostnað að fjárhæð 37.350 með virðisaukaskatti er hófleg og ber með vísan til nefnds lagaákvæðis að dæma ákærðu til greiðslu hennar að fullu.

Bótakrafa brotaþola var kynnt ákærða Sverri Má 21. maí 2004, en ákærða Magnúsi þremur dögum síðar samkvæmt fyrirliggjandi lögregluskýrslum.  Rétt þykir því að krafan, sem gerð er óskipt á hendur ákærðu, beri dráttarvexti samkvæmt 9. gr. laga nr. 38/2001, sbr. 1. mgr. 6. gr. laganna, frá  24. júní 2004 til greiðsludags.

Með vísan til alls framangreinds dæmast ákærðu til að greiða brotaþola óskipt 100.560 krónur auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 97.350 frá 28. mars 2004 til 29. sama mánaðar, en af 100.560 krónum frá þeim degi til 24. júní 2004, auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr., sömu laga af 100.560 krónum frá 24. júní 2004 til greiðsludags.

VI.

Samkvæmt vottorði sakaskrár ríkisins var ákærði Sverrir Már þann 8. apríl 1998 dæmdur í fangelsi í 1 mánuð vegna þjófnaðar, en fullnustu refsingarinnar frestað skilorðsbundið í 2 ár.  Ákærði stóðst það skilorð. Þann 25. september 2000 gekkst ákærði undir viðurlagaákvörðun vegna umferðarlagabrota og þá hlaut hann dóm 25. mars 2003 vegna slíkra brota. Að endingu gekkst ákærði undir sátt þann 12. febrúar 2004 vegna umferðarlagabrots.

Við ákvörðun refsingar ákærða Sverris Má þykir verða að líta til þess að hann veittist að brotaþola þar sem hann var að sinna starfi sínu með því að halda ákærða Magnúsi og þannig koma í veg fyrir að hann skaðaði sjálfan sig og aðra.  Hins vegar þykir einnig mega líta til þess að ákærði hefur ekki áður gerst sekur um ofbeldisbrot.  Refsing ákærða þykir að þessu virtu hæfilega ákveðin fangelsi í 1 mánuð.  Eftir atvikum og með vísan til þess sem að framan segir um skilorðsdóm ákærða frá 1998 þykir með heimild í 57. gr. almennra hengingarlaga nr. 19/1940 mega fresta fullnustu refsingar ákærða og skal refsingin falla niður að liðnum 2 árum frá uppkvaðningu dóms þessa að telja haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Samkvæmt vottorði sakaskrár ríkisins var ákærði Magnús þann 23. janúar 1998 dæmdur í 3 mánaða fangelsi fyrir brot gegn 1. mgr. 217. gr. og 244. gr. almennra hegningarlaga, en fullnustu refsingarinnar frestað skilorðsbundið í 2 ár.  Þann 8. maí 1998 var ákærði dæmdur í 4 mánaða fangelsi og til greiðslu sektar fyrir nytjastuld og umferðarlagabrot, en fullnustu fangelsisrefsingarinnar frestað skilorðsbundið í 2 ár. Með dómi 9. október sama ár var ákærða gerð 15.000 króna sekt fyrir brot gegn 2. mgr. 259. gr. almennra hegningarlaga.  Þá gekkst ákærði þann 28. júlí 1999 undir sátt vegna umferðarlagabrota þess efnis að hann greiddi 68.000 króna sekt í ríkissjóð.

Við ákvörðun refsingar ákærða Magnúsar þykir verða að líta til þess að hann veittist að brotaþola þar hann var að gegna störfum sínum á títtnefndum skemmtistað.  Ákærði hefur nú öðru sinni verið sakfelldur fyrir ofbeldisbrot, en líta ber til þess að hið fyrra brot framdi hann er hann var mjög ungur að árum.  Refsing ákærða þykir að þessu virtu hæfilega ákveðin fangelsi í 1 mánuð.  Eftir atvikum og með hliðsjón af því að allmörg ár eru liðin síðan ákærði hlaut síðast dóm þykir með heimild í 57. gr. almennra hengingarlaga nr. 19/1940 mega fresta fullnustu refsingar ákærða og skal refsingin falla niður að liðnum 2 árum frá uppkvaðningu dóms þessa að telja haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Með vísan til úrslita málsins og 1., 2. og 3. mgr. 165. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála dæmist ákærði Sverrir Már til að greiða málsvarnarlaun verjanda síns, Elísabetar Sigurðardóttur hdl.  Ákærði Magnús greiði málsvarnarlaun verjanda síns, Sigmundar Guðmundssonar hdl. Málsvarnarlaun verjenda þykja hæfilega ákveðin svo sem í dómsorði greinir.  Ákærðu greiði óskipt allan annan  sakarkostnað.

Uppkvaðning dóms þessa hefur dregist nokkuð vegna starfsanna dómara en endurflutningur málsins þykir óþarfur, sbr. dóm Hæstaréttar Íslands í máli nr. 448/2002 sem kveðinn var upp 20. mars 2003.

Kristinn Halldórsson, settur héraðsdómari, kveður upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð:

Ákærði, Sverrir Már Jóhannesson, sæti fangelsi í 1 mánuð en fullnustu refsingar ákærða skal frestað og skal hún falla niður að liðnum 2 árum frá uppkvaðningu dóms þessa að telja haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Ákærði, Magnús Ólafsson, sæti fangelsi í 1 mánuð en fullnustu refsingar ákærða skal frestað og skal hún falla niður að liðnum 2 árum frá uppkvaðningu dóms þessa að telja haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Ákærðu greiði B óskipt 100.560 krónur, auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 97.350 krónum frá 28. mars 2004 til 29. sama mánaðar, en af 100.560 krónum frá þeim degi til 24. júní 2004, og dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga af 100.560 krónum frá 24. júní 2004 til greiðsludags.

Bótakröfu A, að fjárhæð 446.410 krónur, er vísað frá dómi.

Ákærði Sverrir Már greiði málsvarnarlaun verjanda síns, Elísabetar Sigurðardóttur hdl., 100.000 krónur.  Ákærði Magnús greiði málsvarnarlaun verjanda síns, Sigmundar Guðmundssonar hdl., 100.000 krónur.  Ákærðu greiði óskipt allan annan  sakarkostnað.