Hæstiréttur íslands

Mál nr. 523/2014


Lykilorð

  • Kærumál
  • Lögræði
  • Sjálfræðissvipting


Fimmtudaginn 31. júlí 2014.

Nr. 523/2014.

A

(Brynjólfur Eyvindsson hdl.)

gegn

Velferðarsviði Reykjavíkur

(Kristbjörg Stephensen hrl.)

Kærumál. Lögræði. Sjálfræðissvipting.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem A var sviptur sjálfræði í eitt ár.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson og Þorgeir Örlygsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 28. júlí 2014 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 25. júlí 2014, þar sem sóknaraðili var sviptur sjálfræði í 12 mánuði.  Kæruheimild er í 1. mgr. 16. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Sóknaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að sjálfræðissviptingunni verði markaður skemmri tími. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga greiðist þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila vegna flutnings málsins fyrir Hæstarétti úr ríkissjóði og ákveðst hún að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila, Brynjólfs Eyvindssonar héraðsdómslögmanns, 125.500 krónur, greiðist úr ríkissjóði.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur, föstudaginn 25. júlí 2014.

Með beiðni, dagsettri 18. júlí 2014, hefur Velferðarsvið Reykjavíkurborgar, krafist þess, með vísan til a- liðar 4. gr. og 1. mgr. 5. gr. lögræðislaga nr. 71, 1997, að varn­ar­aðili, A, kt. [...],[...],[...], verði sviptur sjálfræði í 12 mánuði, svo unnt sé að veita honum læknismeðferð við geð­sjúk­dómi en hann sé ófær um að ráða persónulegum högum sínum vegna sjúkdómsins. Um aðild sóknaraðila vísast til d- liðar 2. mgr. 7. gr. lögræðislaga. 

Af hálfu varnaraðila er kröfunni mótmælt og þess krafist að henni verði hafnað. Til vara er þess krafist að sjálfræðissviptingu verði markaður skemmri tími.

Í vottorði Halldóru Jónsdóttur geðlæknis, dagsettu 13. júlí sl., kemur fram að varnaraðili uppfylli greiningarskilmerki fyrir geðklofasjúkdóm. Hann hafi misnotað kannabisefni en óljóst sé hversu mikið. Varnaraðili hafi verið veikur sl. þrjú ár en fyrst komið til meðferðar fyrir nokkrum mánuðum.  Illa hafi gengið að fá hann til samvinnu um meðferð og endurhæfingu.  Reynt hafi verið í nokkra mánuði að fá varnaraðila til samvinnu um meðferð og endurhæfingu á Laugarásvegi. Þegar það hafi ekki gengið hafi varnaraðili verið nauðungarvistaður á geðdeild í mars síðastliðnum. Eftir að hann hafi farið að taka lyf hafi gengið betur í örfáar vikur, en varnaraðili sé mjög inn­sæis­laus og hafi fljótlega hætt að taka lyf og koma á Laugarásveginn. Varnaraðili hafi þannig verið innsæislaus í veikindi sín og þörfina á meðferð. Varnaraðili sé í virku geð­rofi og ekki fær að sjá um sig sjálfur og hann hafi á tímabilum verið mjög van­nærður. Í vott­orðinu kemur einnig fram enginn vafi leiki á því að varnaraðili sé hald­inn alvarlegum geð­sjúkdómi og að áframhaldandi meðferð sé honum nauðsynleg, en án hennar stefni hann heilsu sinni í voða og spilli möguleikum sínum til bata. Varnar­aðili sé ekki fær um að sinna grundvallarþörfum sínum, eins og að þrífa sig eða nær­ast, þegar hann sé alvarlega veikur og sé því hættulegur sjálfum sér í veikindum sínum. Þá kemur fram að læknirinn mæli með að fallist verði á framkomna beiðni um 12 mánaða sjálfræðis­svipt­ingu.

Í málinu liggur einnig frammi læknisvottorð Eriks Erikssonar, dagsett 4. júlí 2014, vegna beiðni um nauðungarvistun varnaraðila á geðdeild, samkvæmt heimild í 3. mgr. 19. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Í vottorði hans kemur fram að varnaraðili hafi alvarlegan geðsjúkdóm og veikindi hans muni versna fái hann ekki viðeigandi með­ferð og án hennar stefni hann heilsu sinni í hættu. Þar segir jafnframt að varnar­aðili sinni illa meðferð.

Halldóra Jónsdóttir gaf skýrslu fyrir dóminum og staðfesti læknisvottorð sitt. Hún kvað bráðnauðsynlegt að miða sjálfræðissviptingu varnaraðila við tólf mánuði, þar sem hann hefði lengi verið mjög veikur og nauðsynlegt væri að halda honum í með­ferð og endurhæfingu, en varnaraðili hefði ekki fengist til að taka þau lyf sem væru honum nauðsynleg nema í stuttan tíma. Með sjálfræðissviptingu væri ætlunin að ná samvinnu við varnaraðila um eftirlit og læknismeðferð, en ekki væri ætlunin að halda honum á lokaðri deild.

Varnaraðili talaði máli sínu fyrir dóminum. Hann gerði athugasemdir við fram lögð læknis­vottorð. Hann kvað þau byggjast á því sem foreldrar hans segðu læknum um sjúkdóm hans og ástand, en hann sjálfur hefði ekki talað við læknana. Varnaraðili kvaðst telja sig veikan en ekki á þann hátt sem þar sé lýst.

Dómurinn telur vafalaust af því sem að framan er rakið að varnaraðili hafi alvar­legan geðsjúkdóm og af þeim sökum ófær um að ráða persónulegum högum sínum. Með vísan til a-liðar 4. gr., sbr. 1. mgr. 5. gr. lögræðislaga nr. 71/1997 verður varn­ar­aðili sviptur sjálfræði í 12 mánuði svo tryggja megi honum viðeigandi læknis­meðferð.

Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga ber að greiða úr ríkissjóði kostnað af málinu, þ.m.t. þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, Brynjólfs Eyvindssonar hdl., eins og í úrskurðarorði greinir. Þóknunin er ákveðin að meðtöldum virðisaukaskatti. 

Hervör Þorvaldsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.

Úrskurðarorð:

                Varnaraðili, A, kt. [...], er sviptur sjálfræði í 12 mánuði.

Kostnaður af málinu þ.m.t. þóknun verjanda varnaraðila, Brynjólfs Eyvindssonar hdl., 120.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.