Hæstiréttur íslands
Mál nr. 496/2010
Lykilorð
- Handtaka
- Gæsluvarðhald
- Skaðabætur
- Fyrning
- Gjafsókn
|
Fimmtudaginn 7. apríl 2011. |
|
|
Nr. 496/2010. |
Alexandra Garðarsdóttir (Kristján Stefánsson hrl.) gegn íslenska ríkinu (Óskar Thorarensen hrl.) |
Handtaka. Gæsluvarðhald. Skaðabætur. Fyrning. Gjafsókn.
A var handtekin 29. október 2007 og úrskurðuð í gæsluvarðhald frá 30. október til 2. nóvember sama ár, vegna gruns um fíkniefnainnflutning, en var síðan sleppt úr haldi 1. sama mánaðar. A var með bréfi 24. nóvember 2008 tilkynnt að málið hefði verið fellt niður og í júnímánuði 2009 höfðaði hún bótamál á hendur Í. Í dómi héraðsdóms, sem staðfestur var með vísan til forsendna, segir meðal annars að málshöfðunarfrestur hafi verið liðinn þegar málið var höfðað, sbr. 181. gr. þágildandi laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála og var íslenska ríkið því sýknað af kröfu A.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen og Jón Steinar Gunnlaugsson og Eggert Óskarsson héraðsdómari.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 17. ágúst 2010. Hún krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 2.000.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 30. október 2007 til greiðsludags. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, án tillits til gjafsóknar sem áfrýjandi naut í héraði.
Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Til vara krefst hann lækkunar á kröfu áfrýjanda og þess að málskostnaður falli niður.
Meðal gagna sem áfrýjandi lagði fram við þingfestingu málsins í héraði er bréf Lögreglustjórans á Suðurnesjum 24. nóvember 2008. Bréfið er stílað á áfrýjanda og tekið fram að afrit sé sent lögmanni hennar. Í bréfinu er áfrýjanda tilkynnt að ekki verði um að ræða frekari aðgerðir af hálfu ákæruvaldsins vegna ætlaðs brots áfrýjanda gegn lögum um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974 þann 26. október 2007. Augljóst er að dagsetningin hefur misritast og á að vera 29. október 2007. Í stefnu til héraðsdóms segir orðrétt: „Stefnandi fékk bréf frá Lögreglustjóranum á Suðurnesjum, dags. 24. nóvember 2008, þar sem henni var tjáð að mál gegn henni væri fellt niður.“ Samkvæmt 45. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála er aðili bundinn, eftir reglum um gildi loforða, af yfirlýsingu sem gefin er fyrir dómi og felur í sér ráðstöfun á sakarefni, ef hann hefur forræði á því. Með nefndri yfirlýsingu viðurkennir áfrýjandi að hafa fengið umrætt bréf án þess að gera fyrirvara um að bréfið hafi borist síðar en búast má við um almennar bréfasendingar. Verður því lagt til grundvallar í málinu að áfrýjandi hafi fengið umrætt bréf á næstu dögum eftir dagsetningu þess. Með þessari athugasemd en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Áfrýjanda verður gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Alexandra Garðarsdóttir, greiði stefnda, íslenska ríkinu, 300.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 19. maí 2010.
I
Mál þetta, sem dómtekið var miðvikudaginn 19. maí 2010, er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Alexöndru Garðarsdóttur, kt. 100490-3319, með stefnu, birtri 15. júní 2009, á hendur íslenzka ríkinu.
Dómkröfur stefnanda eru þær, að stefnda verði gert að greiða henni miskabætur, að fjárhæð kr. 2.000.000, með dráttarvöxtum skv. 6. gr., sbr. 12. gr., l. nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 30. október 2007 til greiðsludags, auk málskostnaðar að skaðlausu, eins og málið væri eigi gjafsóknarmál.
Dómkröfur stefnda eru þær aðallega, að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað að mati réttarins, en til vara, að stefnukrafa verði lækkuð verulega og málskostnaður felldur niður.
II
Málavextir
Málavextir eru þeir, að stefnandi og samferðarkona hennar, Viktoría Guðmundsdóttir, voru stöðvaðar í flugstöð Leifs Eiríkssonar þann 29. október 2007 vegna gruns um brot á lögum um ávana- og fíkniefni. Á Viktoríu fundust 6 pakkningar af kókaíni, en í fórum stefnanda fundust tæki til fíkniefnaneyzlu. Voru þær handteknar í kjölfarið. Stefnanda var birt upplýsingablað ætlað þeim, sem hefur verið handtekinn, og undirritaði hún kl. 15.45 sama dag yfirlýsingu þess efnis, að hún hefði kynnt sér innihald þess. Stefnandi kvaðst ekki vera með nein fíkniefni falin í líkama sínum eða í fórum sínum og kvaðst sjálfviljug gangast undir röntgenrannsókn, og undirritaði hún staðfestingu þess efnis.
Í ljósi ungs aldurs stefnanda var haft samband við Karólínu Ásthildi Guðmundsdóttur, starfsmann félagsþjónustu Sandgerðisbæjar, og henni kynntir málavextir. Þar sem Karólína var þá stödd í Reykjavík, var ákveðið, að stúlkurnar yrðu færðar á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja og Karólína kæmi þangað.
Stefnandi var fyrst færð á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja, þar sem röntgenrannsóknin fór fram. Samkvæmt Trausta Óskarssyni lækni og Einari Steingrímssyni, röntgensérfræðingi hjá Domus Medica, sem skoðuðu röntgenmyndirnar, var ekki að sjá aðskotahluti í kviðarholi stefnanda. Í framhaldi af rannsókninni var stefnandi færð á lögreglustöðina í Keflavík, þar sem hún var vistuð í fangaklefa. Stefnanda var kynnt, að hún ætti rétt á að fá tilnefndan verjanda, og óskaði hún eftir, að lögreglan tilnefndi henni verjanda. Haft var samband við Björgvin Jónsson hrl., sem kom á lögreglustöðina og ræddi við hana, ásamt Karólínu.
Í fórum Viktoríu fundust 6 pakkningar af kókaíni, svo sem fyrr getur, samtals 291,65 g. Í fórum stefnanda fundust tæki til neyzlu fíkniefna.
Fyrstu skýrslutökur voru framkvæmdar 29. október 2007, eða sama dag og stefnandi og Viktoría voru handteknar. Viðurkenndi Viktoría þá aðild að málinu.
Þann 30. október 2007 voru stefnandi og Viktoría úrskurðaðar í gæzluvarðhald. Stefnandi var úrskurðuð í gæzluvarðhald til 2. nóvember 2007 kl. 16.00. Við frumrannsókn málsins kom í ljós, að í síma stefnanda voru nokkur sms-smáskilaboð, sem lögreglan taldi að tengzt gætu hinum ætlaða innflutningi fíkniefnanna. Þar að auki var unnið að því að upplýsa málið og sannreyna framburð stefnanda og Viktoríu. Þann 1. nóvember fóru fram aðrar skýrslutökur í málinu, og var stefnanda sleppt úr gæzluvarðhaldi í framhaldi af því, þar sem framburður hennar þótti trúverðugur, og hún var ekki talin tengjast málinu með öðrum hætti en að hafa verið samferðarkona Viktoríu og lánað henni síma sinn.
Í skýrslutökum kom fram, bæði hjá stefnanda og Viktoríu, að aðild stefnanda væri engin í málinu.
Stefnanda var tilkynnt í lok skýrslutöku hjá lögreglu 01.11. 2007, að hún væri laus úr gæzluvarðhaldi. Yfirheyrslu lauk kl. 16.21. Skýrslugerð lauk kl. 16.34 þann dag.
Mál þetta var upphaflega dómtekið 7. apríl 2009, en að ósk lögmanns stefnanda var óskað endurupptöku málsins, þar sem gjafsóknar hafði verið óskað af hálfu stefnanda, en gjafsóknarleyfi lá ekki fyrir við aðalmeðferð málsins. Málið var því endurupptekið hinn 19. maí 2010 og gjafsóknarleyfi lagt fram og málið dómtekið á ný, en lögmenn töldu ekki þörf á endurflutningi málsins.
III
Málsástæður stefnanda
Stefnandi kveður málavexti vera þá, að hún hafi verið að koma til landsins með flugi frá Kaupmannahöfn hinn 29. október 2007, ásamt samferðarkonu sinni, Viktoríu Guðmundsdóttur. Við leit hjá Viktoríu hafi lögregla og tollgæzla fundið 6 pakkningar af ætluðu kókaíni. Í kjölfarið hafi Viktoría og stefnandi verið úrskurðaðar í gæzluvarðhald; stefnandi frá 30. október 2007 til 2. nóvember 2007. Stefnandi hafi haldið fram sakleysi sínu frá fyrstu stundu, enda ókunnugt með öllu um fíkniefnainnflutning Viktoríu. Hafi það og fengið stoð í framburði Viktoríu, sem hafi staðfest, að málið væri stefnanda algerlega óviðkomandi. Í kjölfar seinni yfirheyrslu þann 1. nóvember 2007 hafi stefnanda verið sleppt úr gæzluvarðhaldi.
Stefnandi hafi því setið í gæzluvarðhaldi í tæpa þrjá sólarhringa, sökuð um fíkniefnainnflutning, sem hún hafi verið alsaklaus af. Hafi þetta lagzt þungt á stefnanda, sem hafi aðeins verið 17 ára gömul, þegar hún var lokuð inni í gæzluvarðhaldsvistinni að Litla Hrauni. Í 5. mgr. 95. gr. sakamálalaga nr. 88/2008 sé sérstaklega tekið fram, að forðast beri að beita gæzluvarðhaldsúrræði gagnvart einstaklingi á aldrinum 15-18 ára, og skuli heldur leitazt við að beita úrræðum barnaverndarlaga og/eða vista ungmenni á viðeigandi stofnun.
Stefnandi hafi fengið bréf frá Lögreglustjóranum á Suðurnesjum, dags. 24. nóvember 2008, þar sem henni hafi verið tjáð, að mál gegn henni væri fellt niður.
Stefnandi hafi falið lögmanni að setja fram kröfur um miskabætur fyrir gæzluvarðhald að ósekju og aðrar aðgerðir, sem hún hafi sætt af hálfu stjórnvalda í þágu rannsóknar málsins. Með bréfi, dags. 3. marz 2009, hafi verið sett fram skaðabótakrafa á grundvelli XXI. kafla l. nr. 19/1991, þar sem krafizt hafi verið miskabóta að fjárhæð kr. 2.000.000, auk dráttarvaxta frá 16. nóvember 2002 (sic í stefnu). Því bréfi hafi ekki verið svarað, og sé stefnanda því nauðsynlegt að höfða mál til greiðslu skaðabóta.
Skaðabótakrafa stefnanda sé vegna ólögmætrar handtöku, frelsisskerðingar, halds á munum og gæzluvarðhalds að ósekju í 3 daga.
Stefnandi kveðst reisa kröfur sínar á meginreglum ákvæða XXI. kafla oml nr. 19/1991 um bætur handa sakborningi, sbr. 175. og 176. gr. laganna. Sambærileg ákvæði séu í 228. gr. sakamálalaga nr. 88/2008. Samkvæmt ákv. 178. gr. oml. nr. 19/1991 eigi stefnandi lögboðinn rétt til gjafsóknar, en sambærilegt ákvæði sé í 230. gr. laga nr. 88/2008. Krafa um málskostnað sé reist á ákvæðum XXI. kafla eml. nr. 91/1991.
Málsástæður stefnda
Á því er byggt af hálfu stefnda, að fullt tilefni hafi verið til handtöku stefnanda þann 29. október 2007, og fullt tilefni hafi einnig verið til að láta hana sæta gæzluvarðhaldi, en dómstóll hafi fallizt á gæzluvarðhaldskröfu lögreglu, og hafi stefnandi verið úrskurðuð í gæzluvarðhald til 2. nóvember 2007 kl. 16.00.
Stefnandi hafi, að mati stefnda, ekki verið höfð í haldi lögreglu lengur en nauðsyn bar til, en henni hafi verið sleppt úr haldi þann 1. nóvember 2007.
Aðgerðir þessar hafi, eins og á stóð, verið í samræmi við það meðalhóf, sem lögreglu sé ætlað að taka mið af í störfum sínum. Verði ekki séð, að unnt hefði verið að standa öðruvísi að verki.
Lögregla hafi nýtt rannsóknartíma sinn sem skyldi og ekki sé unnt að gera ríkari kröfur til hraðari málsmeðferðar, að mati stefnda.
Stefndi byggi á því, að rökstuddur grunur hafi verið til staðar um aðild stefnanda að fíkniefnainnflutningi. Sakarefni málsins hafi verið alvarlegt, og aðgerðir lögreglu hafi verið bæði málefnalegar og í fullu samræmi við lagaheimildir. Hafi, að mati stefnda, verið fullnægt skilyrðum 1. mgr. 97. gr. laga nr. 19/1991 fyrir handtöku stefnanda og gæzluvarðhaldi skv. a-lið 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 og X. kafla laga nr. 19/1991 vegna halds á munum.
Að mati stefnda hafi verið algjörlega nauðsynlegt, að stefnandi sætti gæzluvarðhaldi á frumstigum málsins, svo unnt væri að sannreyna framburði hennar og Viktoríu og að upplýsa málið að öðru leyti. Þá vísi stefndi til þess, að vísbendingar hafi verið um það, að stefnandi kynni að vita meira um málið, þar sem hún og Viktoría hefðu viðurkennt að hafa neytt fíkniefna erlendis og þá sérstaklega vegna þess að í síma stefnanda hafi verið skilaboð, sem lögregla hafi ætlað, að tengdist hinum ætlaða innflutningi með beinum hætti. Varðandi tilvísun stefnanda í 95. gr. sakamálalaga nr. 88/2008 vegna aldurs stefnanda sé þess sérstaklega getið, að það ákvæði hafi ekki verið í gildi, þegar stefnandi var látin sæta gæzluvarðhaldi, auk þess sem raunverulegt úrræði í gæzluvarðhaldi á grundvelli rannsóknarhagsmuna, einangrun, sé ekki til í landinu, nema innan veggja fangelsis. Hafi rannsóknarhagsmunir verið slíkir í málinu, að gæzluvarðhald hafi verið talið nauðsynlegt, en stefnanda hafi verið sleppt um leið og ljóst þótti, að hún tengdist innflutningum ekki með refsiverðum hætti. Þá sé á það bent, að lögmenn hafi verið viðstaddir yfirheyrslu yfir stefnanda dagana 30.10. og 01.11. 2007, og einnig starfsmenn barnaverndaryfirvalda.
Stefndi byggir á því, að allar aðgerðir lögreglu hafi verið lögmætar, m.a. handtaka, gæzluvarðhald, hald á munum og frelsisskerðing, og sé öðru mótmælt sem röngu.
Rekstur og rannsókn opinbers máls geti ekki leitt skilyrðislaust til bótaskyldu ríkisins samkvæmt lögum nr. 19/1991, enda þótt rannsókn sé hætt. Ákvæði í bótakafla laga nr. 19/1991 sé aðeins heimildar-, en ekki skylduákvæði.
Samkvæmt 1. mgr. 175. gr. laga nr. 19/1991 megi fella niður bætur, hafi sakborningur valdið eða stuðlað að þeim aðgerðum, sem hann reisi kröfu sína á. Stefndi byggi á því, að það, að stefnandi hafi reynzt vera með áhöld til fíkniefnaneyzlu í farangri sínum, hafi verið grunsamlegt. Fram hafi komið við yfirheyrslu, að stefnandi hefði neytt fíkniefna í Danmörku. Þá hafi framburður stefnanda hjá lögreglu í upphafi gefið tilefni til grunsemda, en í skýrslu 30.10. 2007 hafi hún verið spurð, hvort þau hefðu keypt einhver fíkniefni í Kristjaníu, og hafi stefnandi svarað neitandi. Henni hafi þá verið kynntur framburður Viktoríu um annað, og hafi hún þá sagt, að Viktoría hefði keypt um 3 gr. af hassi þar. Fram hafi komið, að hún hefði verið með Viktoríu.
Stefnandi byggi bótakröfu sína á ýmsum heimildum, m.a. á 175. og 176. gr. laga nr. 19/1991. Á því sé byggt af hálfu stefnda, að bótakrafa stefnanda samkvæmt þessum greinum sé fyrnd, sbr. 181. gr. laga nr. 19/1991. Á því sé byggt, að stefnandi hafi fengið vitneskju um, að rannsókn hefði verið hætt, með bréfi embættisins 24. nóvember 2008. Málið sé höfðað eftir 6 mánaða frest, sem mælt sé fyrir um í 181. gr. Ný lög um meðferð sakamála breyti engu um þann tímafrest.
Telji stefndi, að lögmæt skilyrði hafi verið til aðgerða þeirra, sem lögregla greip til, og að fullt tilefni hafi verið til aðgerðanna, og þær hafi ekki verið framkvæmdar á hættulegan, særandi eða móðgandi hátt.
Miskabótakrafa stefnanda sé vanreifuð að mati stefnda.
Stefnandi hafi sönnunarbyrði fyrir öllum staðhæfingum og málsástæðum í stefnu, en jafnframt fyrir öllu, sem bótakröfu hennar viðkomi.
Stefndi mótmæli málavaxtalýsingu stefnanda að því leyti sem hún sé í ósamræmi við það, sem stefndi haldi fram í málinu.
Stefndi mótmæli öllum málsástæðum stefnanda.
Vegna varakröfu stefnda sé á því byggt, að lækka eigi bætur, þar sem sakborningur hafi valdið eða stuðlað að þeim aðgerðum, sem hann reisi kröfu sína á, sbr. 1. mgr. 175. gr. laga nr. 19/1991. Vísað sé til þess, sem fyrr sé nefnt varðandi þetta atriði í umfjöllun um aðalkröfu.
Stefndi telji kröfu stefnanda allt of háa og ekki í samræmi við dómaframkvæmd.
Stefnandi geri dráttarvaxtakröfu frá 30.10. 2007. Að mati stefnda séu engin skilyrði til að verða við þeirri kröfu, og sé henni mótmælt. Stefndi telji, að dráttarvextir eigi ekki að reiknast fyrr en frá þingfestingardegi málsins, en verði ekki fallizt á það, þá ekki fyrr en mánuði eftir dagsetningu kröfubréfs á dskj. nr. 11, þ.e. 03.04. 2009.
Stefndi vísi til XXI. kafla laga nr. 19/1991, einkum 175., 176. og 181. gr., auk þeirra lagaákvæða, sem vísað sé til í greinargerð þessari. Um málskostnaðarkröfu sé vísað til 130. gr. laga nr. 91/1991.
IV
Forsendur og niðurstaða
Bjarki Freyr Sigurðsson rannsóknarlögreglumaður gaf skýrslu fyrir dómi.
Stefndi byggir sýknukröfu sína á því m.a., að bótakrafa stefnanda sé fyrnd, þar sem málið sé höfðað eftir að 6 mánaða fresti samkvæmt 181. gr. laga nr. 19/1991 lauk, en ósannað sé, að stefnandi hafi ekki fengið tilkynningu um niðurfellingu málsins næstu daga á eftir dagsetningu tilkynningarinnar.
Í stefnu reisir stefnandi kröfur sínar á ákvæðum XXI. kafla laga nr. 19/1991 um bætur handa sakborningi. Við aðalmeðferð málsins byggði stefnandi á því, vegna þeirrar málsástæðu stefnanda, að krafan sé fyrnd, að skýra beri VI. lið bráðabirgðaákvæðis laga nr. 88/2008 þannig að beita beri fyrningarfresti samkvæmt yngri lögunum, þar sem tilkynning til stefnanda um niðurfellingu málsins hafi fyrst verið send eftir gildistöku þeirra laga.
Samkvæmt bráðabirgðaákvæði 2. mgr. VI. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála gilda fyrirmæli XXXVII. kafla laganna um skaðabætur vegna atvika, sem gerast eftir gildistöku laganna, en reglum eldri laga skal beitt um bætur vegna atvika, sem gerðust fyrir þann tíma.
Lög nr. 88/2008 tóku gildi 1. janúar 2009. Er því ljóst, að atvik þau, sem stefnandi krefst bóta fyrir, gerðust fyrir gildistöku laganna. Skal því fara með mál þetta eftir þágildandi lögum um meðferð opinberra mála nr. 19/1991.
Umrædd tilkynning er dagsett 24. nóvember 2008, og segir svo í stefnu um það bréf: „Stefnandi fékk bréf frá Lögreglustjóranum á Suðurnesjum, dags. 24. nóvember 2008, þar sem henni var tjáð að mál gegn henni væri fellt niður.“ Enginn fyrirvari er gerður í stefnu um, að bréfið hafi ekki borizt stefnanda innan eðlilegs tíma. Þá kom stefnandi ekki fyrir dóminn til skýrslugjafar og varð ekki innt eftir því, hvenær henni barst umrætt bréf. Þá kemur fram, að lögmanni stefnanda var sent afrit tilkynningarinnar.
Mál þetta er höfðað með stefnu birtri 15. júní 2009. Þá voru liðnir 6 mánuðir og 3 vikur frá dagsetningu tilkynningarinnar og því yfirgnæfandi líkur á því, að hún hafi borizt stefnanda fyrir 15. desember 2008. Með því að stefnandi hefur ekki komið fyrir dóminn til skýrslugjafar, þannig að unnt væri að spyrja hana út í það, hvenær eða með hvaða hætti hún fékk vitneskju um niðurfellingu málsins, ber hún hallann af því, að sönnun skortir um þetta atriði. Þá liggur enn fremur fyrir, að verjanda hennar var sent afrit af bréfinu, og hefur því ekki verið haldið fram, að það bréf hafi ekki skilað sér til hans eða að hann hafi ekki mátt koma innihaldi þess til vitundar stefnanda í framhaldi af því.
Með vísan til alls framanritaðs var málshöfðunarfrestur liðinn, þegar mál þetta var höfðað, sbr. 181. gr. þágildandi laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991, og ber því þegar af þeim sökum að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda í máli þessu. Eftir atvikum þykir rétt, að málskostnaður falli niður.
Gjafsóknarkostnaður stefnanda þykir hæfilega ákveðinn kr. 400.000 og greiðist úr ríkissjóði. Hefur þá ekki verið litið til virðisaukaskatts.
Sigríður Ólafsdóttir héraðsdómari kvað upp dóminn.
D Ó M S O R Ð
Stefndi, íslenzka ríkið, er sýknað af öllum kröfum stefnanda, Alexöndru Garðarsdóttur, í máli þessu.
Málskostnaður fellur niður.
Gjafsóknarkostnaður stefnanda, kr. 400.000, greiðist úr ríkissjóði.