Hæstiréttur íslands

Mál nr. 663/2016

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu (Jón H. B. Snorrason saksóknari)
gegn
X (enginn)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Nálgunarbann

Reifun

Staðfest var ákvörðun lögreglustjóra um að X skyldi sæta nálgunarbanni á grundvelli laga nr. 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir og Helgi I. Jónsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 23. september 2016, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 26. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 23. september 2016, þar sem staðfest var ákvörðun sóknaraðila 19. september 2016 um að varnaraðili sætti nánar tilgreindu nálgunarbanni. Kæruheimild er í 3. mgr. 15. gr. laga nr. 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur eins og í dómsorði greinir.

                                                         Dómsorð:

Staðfest er ákvörðun lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu frá 19. september 2016 um að varnaraðili, X, sæti nálgunarbanni í sex mánuði þannig að lagt er bann við því að hann komi á eða sé í námunda við lögheimili A, að [...], [...], á svæði sem afmarkast af 50 metra radíus umhverfis heimilið, nálgist hana á almannafæri eða setji sig í samband við hana með nokkru móti.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 23. september 2016

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur staðfesti ákvörðun sína, dags. dags. 19. september 2016, um að X, kt. [...], skuli sæta nálgunarbanni í 6 mánuði þannig að lagt er bann við því að hann komi á eða í námunda við heimili A, kt. [...], að [...] í [...] á svæði sem afmarkast við 50 metra radíus umhverfis heimilið. Jafnframt er lagt bann við því að X veiti [...] eftirför, nálgist hana á almannafæri eða setji sig í samband við hana með öðrum hætti.

Í greinargerð lögreglustjóra kemur fram að lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu fari fram á að staðfest verði ákvörðun lögreglustjóra um að X barnsfaðir og fyrrum maki A skuli sæta nálgunarbanni skv. a. og b. lið 1. mgr. 4. gr. laga 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili.

Lögreglustjóri hafi byggt ákvörðun sína um nálgunarbann á því að X sé undir rökstuddum grun um ógnandi hegðun sem kunni að varða við ákvæði XXIII. kf. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, ógnandi áreiti og ónæði gagnvart beiðanda, fyrrverandi maka sínum og barnsmóður, sem og ungum börnum á heimilinu, sem komi fram í neðangreindum málum. Jafnframt hafi verið litið til framburðar brotaþola og vitna sem hafi lýst miklu áreiti, hótunum og ónæði af kærða í garð brotaþola og ungum börnum á heimili hennar sem hafi viðgengist í lengri tíma.

Mál nr. [...] Tilkynning hafi borist lögreglu þann 18. september sl. um að kærði væri að ráðast á fyrrverandi konu sína og börn hennar. Þegar lögreglu hafi borið að garði hafi kærði verið þar sjáanlega ölvaður og  hafi  í kjölfarið verið handtekinn. Brotaþoli og vitni hafi kveðið kærða hafa reynt að taka eldra barnið C, tæplega tveggja ára gamlan son þeirra, upp úr kerrunni en brotaþola hafi náð barninu til sín og kærði reynt að rífa barnið af henni og ýtt henni þannig að hún hafi dottið meðan hún hélt á barninu. Yngra barnið, um sex mánaða gamall strákur, hafi verið í kerru hjá vitni, vinkonu brotaþola, en hafi verið sofandi meðan á þessu stóð. Kærði hafi verið æstur og ógnandi við brotaþola samkvæmt vitnum og eldri strákurinn hafi verið hræddur og grátið. Brotaþoli og vitni í málinu hafi lýst því að kærði hafi oft komið áður og legið á bjöllunni heima hjá brotaþola og sent henni ógnandi og ljót sms skilaboð sem hafi falið í sér hótanir um bæði kynferðisbrot og lífláti. Brotaþoli hafi einnig lýst því að eldri barn hennar um 11 ára strákur væri mjög hræddur við kærða sem hefði beitt ofbeldi fyrir framan hann.

Við skýrslutöku lögreglu kvaðst kærði hafa verið drukkinn og ekki muna eftir atvikum en hafi neitað fyrir að hafa hótað henni áður eða lagt á hana hendur. Kærði hafi einnig neitað að hafa hótað henni kynferðisbrotum eða lífláti áður.

Mál nr. [...] Brotaþoli hafi tilkynnt þann 25. janúar 2016 um sms frá kærða þar sem hann hafi kvaðst muni sjá hana fljótlega og hafi  brotaþoli óttast að hann myndi koma til hennar.

Mál nr. [...]. Tilkynnt hafi verið þann 27. maí 2015 um að kærði hafi verið búinn að vera í tvær klukkustundir fyrir utan heimili brotaþola, hafi legið á bjöllunni og reynt að komast inn. Tilkynnandi hafi óskað aðstoðar fyrir brotaþola vegna þess. Samkvæmt tilkynningunni hafði kærði verið að hóta brotaþola lífláti og nauðgunum og hún hafi óttast hann mjög. Lögregla hafi komið á vettvang en kærði hafi ekki verið þar og rætt við brotaþola sem hafi kveðið kærða hafa reglulega í hótunum við sig sem og mætt fyrir utan heimili hennar. Vitni hafi ennfremur staðfest í skýrslutöku hjá lögreglu í máli [...] að hafa séð sms þar sem kærði hafi hótað kynferðisbroti gegn brotaþola.

Mál nr. [...] Brotaþoli hafi komið á lögreglustöð þann 13. apríl 2015 og tilkynnt um hótanir og ónæði af hálfu kærða. Hún hafi kveðið hann vera að hóta sér að börnin hennar muni alast upp móðurlaus og að hann myndi taka ungt barn þeirra ef hann fengi ekki að sjá hann. Brotaþoli hafi einnig sagt að kærði hafi gengið í skrokk á sér áður sem og tvítugum syni hennar. Næsta dag hafi brotaþoli hringt og tilkynnti að kærði hafi komið heim til hennar mikið ölvaður til að kveðja son sinn.

Mál nr. [...] Brotaþoli hafi tilkynnti þann 10. desember 2014 um ónæði kærða sem kæmi í tíma og ótíma að heimili hennar og hringdi dyrabjöllunni og væri með ásakanir um samneyti við aðra menn.

Í ljósi ofangreinds telji lögreglustjóri að skilyrði 4. gr. laga nr. 85/2011 séu uppfyllt en X liggur undir rökstuddum grun um að hafa framið refsivert brot gegn brotaþola sem og gagnvart börnum þeirra og raskað friði hennar og heimilisins. Þá sé talin hætta á að hann muni gera slíkt aftur og með því raska friði hennar, heimilisins og velferð ungra barna í hennar umsjá í skilningi ákvæðisins njóti hann fulls athafnafrelsis. Ekki sé talið sennilegt að friðhelgi hennar verði vernduð með öðrum og vægari hætti eins og sakir standa.

Niðurstaða:

Í máli þessu er krafist staðfestingar á ákvörðun lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu frá 19. september sl. þar sem varnaraðila var gert að sæta nálgunarbanni í sex mánuði gagnvart A. Jafnframt var þar lagt bann við því að varnaraðili veiti A eftirför, nálgist hana á almannafæri eða setji sig í samband við hana með öðrum hætti. Ákvörðun þessi var birt fyrir varnaraðila sama dag, og krafa um staðfestingu barst dómnum 22. september eða innan tilskilins frests skv. 12. gr. laga nr. 85/2011.

                Heimilt er að beita nálgunarbanni ef rökstuddur grunur er um að viðkomandi hafi framið refsivert brot eða raskað á annan hátt friði brotaþola eða hætta er á því að viðkomandi brjóti þannig gegn brotaþola, sbr. 4. gr. laga nr. 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili. Úrræðinu verður þó aðeins beitt þegar ekki þykir sennilegt að friðhelgi brotaþola verði vernduð með öðrum og vægari hætti, sbr. 6. gr. laga nr. 85/2011, og skal þess þá gætt að ekki sé farið strangar í sakirnar en nauðsyn ber til.

         Tilefni ákvörðunar lögreglustjóra eru ýmis tilvik sem rakin eru í greinargerð og ákvörðun lögreglustjóra. Í ljósi framlagðra gagna er á það fallist að varnaraðili sé undir rökstuddum grun um refsiverð afbrot gagnvart brotaþola, einkum alvarlegar hótanir, ógnandi hegðan og ærumeiðingar og þannig ítrekað raskað friði brotaþola. Jafnframt er lýst alvarlegri atlögu varnaraðila að brotaþola 18. september sl. Framangreind atvik nægja að mati dómsins til að beita nálgunarbanni. Til styrkingar þeirri niðurstöðu liggja fyrir afgerandi upplýsingar frá presti brotaþola, félagsráðgjafa og geðlækni um að afskipti varnaraðila hafi mjög slæm áhrif á friðhelgi og heimilislíf brotaþola og barna hennar. Presturinn telur þannig algjört lágmark að beita nálgunarbanni og geðlæknirinn fullyrðir að hegðan varnaraðila sé ógn við heimilisfriðinn og þar með þroska og velferð barnanna. Telur geðlæknirinn mikilvægt að úrræðinu verði beitt. Af þessu virtu liggur fyrir rökstuddur grunur um að varnaraðili hafi raskað mjög friði brotaþola og fjölskyldu hennar.

         Skilyrðum a-liðar 4. gr. laga nr. 85/2011 er því að mati dómsins fullnægt. Í ljósi gagna málsins þykir og hætta á því að varnaraðili brjóti aftur gegn brotaþola, og því telst einnig uppfyllt skilyrði b-liðar ákvæðisins.

Þá er með hliðsjón af gögnum málsins ekki sennilegt að friðhelgi brotaþola verði vernduð með öðrum og vægari hætti en með því að banna varnaraðila að nálgast brotaþola og jafnframt þykir rétt að fallast á að sex mánuðir sé hæfilegur tími. Því verður fallist á kröfu sóknaraðila og staðfest ákvörðun hans frá 19. september sl.

         Án þess að það skipti meginmáli við úrlausn málsins verður ekki talið að þetta úrræði reynist varnaraðila mjög íþyngjandi í ljósi yfirlýsingar verjanda hans fyrir dómnum, að varnaraðila viðstöddum. Þar var því lýst að varnaraðili myndi, þrátt fyrir mótmæli við kröfu sóknaraðila, virða í hvívetna friðhelgi brotaþola eins og í gildi væri nálgunarbann.

          Þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, Snorra Sturlusonar héraðsdómslögmanns 160.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði. Einnig greiðist úr ríkissjóði sam­kvæmt 3. mgr. 38. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, sbr. 14. gr. laga nr. 85/2011, þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Lilju Margrétar Olsen héraðsdómslögmanns 160.000 krónur.

Lárentsínus Kristjánsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Staðfest er nálgunarbann sem lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu lagði á varnaraðila 19. september 2016, og X, kt. [...], skal því sæta nálgunarbanni í sex mánuði þannig að lagt er bann við því að hann komi á eða í námunda við heimili A, kt. [...], að [...] í [...] á svæði sem afmarkast við 50 metra radíus umhverfis heimilið. Jafnframt er lagt bann við því að X veiti A eftirför, nálgist hana á almannafæri eða setji sig í samband við hana með öðrum hætti.

Þóknanir verjanda varnaraðila, 160.000 krónur og réttargæslumanns brotaþola, 160.000 krónur, skulu greiddar úr ríkissjóði.