Hæstiréttur íslands

Mál nr. 522/2006


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991


Föstudaginn 6

 

Föstudaginn 6. október 2006.

Nr. 522/2006.

Lögreglustjórinn í Reykjavík

(Egill Stephensen saksóknari)

gegn

X

(Björgvin Jónsson hrl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að X skyldi áfram sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 4. október 2006, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 5. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 4. október 2006, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 29. nóvember 2006 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðahaldi verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar er fallist á að skilyrði 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 séu uppfyllt fyrir því að varnaraðili verði áfram látinn sæta gæsluvarðhaldi svo sem krafist er. Verður hinn kærði úrskurður því staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 4. október 2006.

Lögreglustjórinn í Reykjavík hefur lagt fram kröfu þess efnis að X, litháískur ríkisborgari, fd. 18. september 1970, sæti áfram gæsluvarðhaldi, þó eigi lengur en til miðvikudagsins 29. nóvember 2006, kl. 16:00.

Í greinargerð lögreglu kemur fram að ávana- og fíkniefnadeild lögreglustjórans í Reykjavík hafi nú lokið rannsókn á meintu fíkniefnalagabroti kærða og félaga hans A sem varði innflutning á fíkniefnum til landsins. Þeir hafi komið þann 6. júlí sl. til landsins með ferjunni Norrænu frá Danmörku. Við tollskoðun á bifreið sem þeir hafi komið á til landsins hafi komið í ljós að í henni hafi verið falið mikið magn af fíkniefnum. Í kjölfarið hafi þeir verið handteknir vegna málsins og fíkniefnin haldlögð.

Við rannsókn málsins hafi kærði greint frá því að að hann hafa ekki vitað af efnunum í bifreiðinni. Kveðst hann hafa þegið boð frá A um að fara í ferðina sér að kostnaðarlausu tveimur dögum áður en lagt hafi verið af stað. Fyrst hafi kærði greint frá því að ferðalagið hafi byrjað í Englandi en breytti síðan framburði sínum og kvaðst hafa verið að koma frá Litháen. Við yfirheyrslur á A hafi komið fram að hann sé búsettur í Englandi en þar hafi hann hitt par sem hafi beðið hann um að flytja efnin til landsins, annast skipulagningu ferðarinnar og veitt honum upplýsingar um hvað ætti að gera. Kvaðst A hafa átt að hringja í parið þegar hann kæmi til Íslands og fá nánari leiðbeiningar um afhendingu efnanna. A kvaðst ekki hafa vitað að efnin í bifreiðinni væru ólögleg. Í fyrstu kvaðst A hafa verið að koma frá Englandi þar sem efninu hafi verið komið fyrir í bifreiðinni, en svo hafi hann breytt framburði sínum og kvaðst hafa verið að koma frá Litháen. Í upphafi málsins hafi A greint frá því að upphaflega hafi skráður eigandi bifreiðarinnar, B, átt að koma með í ferðina en hann hafi slasað sig og því hafi A boðið X að koma með. A hafi neitað að greina frá við hverja hann átti samskipti í Litháen en hann kvaðst óttast um öryggi fjölskyldu sinnar og neitar meðal annars að upplýsa um hvar hann nálgaðist farmiðana til Íslands.

Rannsókn málsins sé nú lokið og hafi málið verið sent embætti Ríkissaksóknara til afgreiðslu þann 25. september sl. Krafa þessi sé því gerð að beiðni embættis Ríkissaksóknara. Vinna við útgáfu ákæru sé hafin og gert sé ráð fyrir að þeirri vinnu verði lokið á næstu dögum. Málið verði í framhaldi af því rekið fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.

Samkvæmt framansögðu og með vísan til gagna málsins þyki fyrir hendi rökstuddur grunur um aðild kærða að stórfelldu fíkniefnalagabroti sem kann að varða fangelsisrefsingu ef sök sannast. Kærði hafi sætt gæsluvarðhaldi frá 7. júlí sl. fyrst á grundvelli rannsóknarhagsmuna en síðar á grundvelli almannahagsmuna, sbr. dóm Hæstaréttar Íslands frá 28. ágúst sl. í máli nr. 468/2006.  Meint aðild kærða þyki mikil en hann sé talin tengjast innflutningi fíkniefnanna til landsins. Einnig sé lagt til grundvallar að um sé að ræða mjög mikið magn sterkra og hættulegra fíkniefna. Nær öruggt þyki að fíkniefnin hafi átt að fara í sölu og dreifingu til ótiltekins fjölda manna hér á landi. Hið meinta brot kærða þyki mjög alvarlegt. Með tilliti til hagsmuna almennings þyki þannig nauðsynlegt að kærði sæti áfram gæsluvarðhaldi á meðan mál hans sé til meðferðar en telja verður og reikna með að ef sakborningur, sem orðið hefur uppvís að jafn alvarlegu broti og kærði, gangi laus áður en máli ljúki með dómi þá valdi það hneykslun í samfélaginu og særi réttarvitund almennings. Staða kærða í málinu þyki sambærileg stöðu sakborninga í öðrum svipuðum málum, sbr. mál Hæstaréttar nr.: 154/2006, 368/2005, 93/2005, 488/2004, 269/2004, 417/2000 og 471/1999, þar sem sakborningum hafi verið gert að sæta gæsluvarðhaldi fram að dómi þegar legið hafi fyrir rökstuddur grunur um beina aðild að innflutningi að miklu magni fíkniefna í ágóðaskyni. Sé ekki talin ástæða til að ætla að refsimat og réttarvitund almennings í slíkum málum hafi breyst frá því téðir dómar voru uppkveðnir, að skilyrðum 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála sé ekki fullnægt í því máli sem hér um ræðir.

Þá liggi fyrir að kærði sé erlendur ríkisborgari með takmörkuð tengsl við Ísland. Þyki þannig brýnt á þessu stigi málsins að tryggja nærveru hans hér á landi, en gera megi ráð fyrir því að kærði fari af landi brott verði hann látinn laus.

 Sakarefnið sé talið geta varðað við 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 64/1974 og 1. gr. laga nr. 32/2001.  Um heimild til gæsluvarðhalds sé vísað til b-liðar 1. mgr. og 2. mgr. 103. gr. og  laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991.

 

Ávana- og fíkniefnadeild lögreglustjórans í Reykjavík hefur nú lokið rannsókn á meintu fíkniefnalagabroti kærða og félaga hans A sem varðar innflutning á fíkniefnum til landsins, en þeir félagar komu 6. júlí sl. til landsins með ferjunni Norrænu frá Danmörku. Við tollskoðun á bifreið sem þeir komu á til landsins kom í ljós að í henni var falið mikið magn af fíkniefnum. Var málið fyrir ríflega viku síðan sent embætti ríkissaksóknara, og hefur sækjandi þær upplýsingar frá embættinu að ákvörðunar sé að vænta í næstu viku um útgáfu ákæru. Hæstiréttur Íslands hefur í málinu nr. 468/2006 komist að þeirri niðurstöðu að rétt sé að varnaraðili sæti gæsluvarðhaldi á grundvelli almannahagsmuna. Hefur ekkert nýtt komið fram í málinu sem breytir þeirri niðurstöðu. Þá hefur málið gengið greiðlega fyrir sig í rannsókn, sem hefur ekki dregist úr hófi. Er því fullnægt skilyrðum 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 til gæsluvarðhalds yfir kærða. Jafnframt verði að telja að hætta sé fyrir hendi á að varnaraðili muni reyna að komast úr landi undir væntanlegri málsókn, en varnaraðili var á ferðalagi hér á landi er hann var handtekinn. Er því jafnframt fullnægt skilyrðum b-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Er því krafa lögreglustjórans tekin til greina eins og hún er fram sett.

Símon Sigvaldason héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð:

Kærði, X, litháískur ríkisborgari, fd. 18. september 1970, sæti áfram gæsluvarðhaldi, þó eigi lengur en til miðvikudagsins 29. nóvember 2006, kl. 16:00.