Hæstiréttur íslands
Mál nr. 472/2005
Lykilorð
- Kynferðisbrot
- Börn
- Klám
|
|
Fimmtudaginn 6.apríl 2006. |
|
Nr. 472/2005. |
Ákæruvaldið(Sigríður J. Friðjónsdóttir saksóknari) gegn Ólafi Eggert Ólafssyni (Brynjar Níelsson hrl. Sigríður Rut Júlíusdóttir hdl.) |
Kynferðisbrot. Börn. Klám.
Ó var ákærður fyrir brot gegn 3. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa tælt þrjár ungar stúlkur til samræðis og annarra kynferðismaka með þeim hætti sem nánar var lýst í ákæru. Talið var sannað að Ó hefði tælt stúlkurnar til þeirra athafna sem í ákæru greindi og var ekki vefengt að samræði og munnmök ættu undir brotalýsingu ákvæðisins. Hins vegar var ekki talið að önnur háttsemi sem Ó var gefin að sök yrði heimfærð undir ákvæðið. Ó var jafnframt ákærður fyrir brot gegn 4. mgr. 210. gr. almennra hegningarlaga með því að hafa haft í vörslum sínum ljósmyndir sem hann hafði tekið af stúlkunum nöktum og ljósmyndir sem sýndu börn á kynferðislegan og klámfenginn hátt. Sök var talin fyrnd vegna mynda sem eytt hafði verið 18. febrúar 2002, en Ó var sakfelldur fyrir aðrar sakargiftir í þessum þætti málsins. Þótti refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í eitt ár.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Garðar Gíslason, Guðrún Erlendsdóttir, Hrafn Bragason og Markús Sigurbjörnsson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 2. nóvember 2005 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun en einnig af hálfu ákæruvalds, sem krefst þess að refsing ákærða verði þyngd og að þremur nafngreindum brotaþolum verði dæmdar miskabætur eins og krafist er í ákæru.
Ákærði krefst sýknu af fyrstu þremur liðum ákæru, en að refsing verði að öðru leyti milduð og skilorðsbundin. Hann krefst þess jafnframt að bótakröfum verði vísað frá dómi, en til vara að hann verði sýknaður af þeim.
I.
Svo sem rakið er í héraðsdómi er ákærða gefið að sök í fyrstu þremur liðum ákæru að hafa tælt þrjár ungar stúlkur til samræðis og annarra kynferðismaka með þeim hætti, sem þar er nánar lýst. Ákærði viðurkennir að umræddar kynlífsathafnir hafi gerst, en mótmælir að hann hafi tælt stúlkurnar til þeirra, enda hafi þær sjálfar átt frumkvæðið að þeim. Með vísan til forsendna héraðsdóms verður staðfest sú niðurstaða að ákærði hafi tælt stúlkurnar til þeirra athafna, sem í ákæru greinir.
Sú háttsemi, sem ákærða er gefin að sök og heimfærð er í ákæru undir 3. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með áorðnum breytingum, er að hafa ítrekað tælt eina stúlkuna til samræðis við sig og haft við hana munnmök, tælt þær allar til annarra kynferðismaka með því að fá þær til að hafa við sig munnmök og setja kynlífstæki í kynfæri sín og endaþarm og loks til að fá tvær þeirra til að hafa önnur kynferðismök en samræði hvor við aðra, meðal annars með notkun kynlífstækja. Ákærði vefengir ekki að samræði og munnmök eigi undir brotalýsingu áðurnefndrar greinar almennra hegningarlaga, en mótmælir að annað, sem honum er gefið að sök, verði heimfært undir hugtakið önnur kynferðismök í henni. Við úrlausn um þetta verður að líta til skýringa í athugasemdum með frumvarpi, er varð að lögum nr. 40/1992, en þá var meginefni 3. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga breytt í núverandi horf. Segir þar að skýra beri hugtakið fremur þröngt „þannig að átt sé við kynferðislega misnotkun á líkama annarrar manneskju, er kemur í stað hefðbundins samræðis eða hefur gildi sem slíkt (surrogat). Eru þetta athafnir sem veita eða eru almennt til þess fallnar að veita hinum brotlega kynferðislega fullnægingu.“ Með því að skýra hugtakið í samræmi við þetta og að virtum þeim framburði ákærða að hann hafi fengið stúlkurnar til þessara athafna í þeim tilgangi að ljósmynda þær, verður að hafna kröfu ákæruvalds um að þessi háttsemi ákærða verði felld undir brotalýsingu 3. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga. Eins og ákæru er hagað eru ekki efni til að taka afstöðu til þess hvort þessi háttsemi ákærða gæti hafa átt undir 209. gr. almennra hegningarlaga. Verður ákærði því sakfelldur fyrir að hafa brotið gegn 3. mgr. 202. gr. laganna með því að hafa tælt eina stúlkuna til samræðis við sig og haft við hana munnmök, og tælt þær allar til að hafa við sig munnmök, en sýknaður af öðrum sakargiftum, sem að framan er getið, og hafðar eru uppi í fyrstu þremur liðum ákæru.
II.
Í sömu liðum ákæru og að framan greinir er ákærða jafnframt gefið að sök að hafa tekið fjölda ljósmynda af öllum stúlkunum nöktum, þar á meðal við framangreindar kynlífsathafnir. Í fjórða lið ákæru er hann loks ákærður fyrir að hafa haft í vörslum sínum 77 ljósmyndir, sem sýni börn á kynferðislegan og klámfenginn hátt. Er þessi háttsemi hans talin varða við 4. mgr. 210. gr. almennra hegningarlaga.
Eins og greinir í héraðsdómi gerði lögregla húsleit á heimili ákærða 14. október 2004. Fundust þá allmargar þessara mynda af stúlkunum þremur, en öðrum hafði verið eytt í tölvu ákærða. Er í dóminum lýst að lögreglu hafi tekist að endurheimta þær að hluta. Ráða má af skýrslu lögreglu, sem gerð var um þetta og er meðal málsgagna, að 8 þessara mynda hafi verið eytt 18. febrúar 2002, en 15 myndum 27. desember sama ár.
Með lögum nr. 14/2002 var 4. mgr. 210. gr. almennra hegningarlaga breytt í núverandi horf, en brot gegn henni vörðuðu áður einungis sektum. Tóku lögin gildi 3. apríl 2002. Skýrsla var fyrst tekin af ákærða hjá lögreglu 14. október 2004 vegna ætlaðra brota hans. Var þá fyrnd sök vegna mynda, sem eytt var úr tölvu ákærða 18. febrúar 2002, en ekki mynda sem síðar var eytt. Að þessu virtu verður hann sakfelldur í þessum þætti málsins fyrir aðrar sakargiftir en þær að hafa haft í vörslu sinni 8 myndir, sem eytt var 18. febrúar 2002.
Samkvæmt þessu og að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms verður ákærði dæmdur til að sæta fangelsi, sem er hæfilega ákveðið í eitt ár. Ekki eru efni til að binda refsinguna skilorði að neinu leyti. Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verða staðfest ákvæði hans um bætur handa brotaþolum og upptöku þar greindra muna.
Ákærði greiði allan sakarkostnað í héraði og fyrir Hæstarétti samkvæmt yfirliti ríkissaksóknara um sakarkostnað og ákvörðun Hæstaréttar um málsvarnarlaun og þóknun réttargæslumanna, sem eru ákveðin að meðtöldum virðisaukaskatti, svo sem nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Ákærði, Ólafur Eggert Ólafsson, sæti fangelsi í eitt ár.
Ákvæði héraðsdóms um miskabætur, upptöku muna og sakarkostnað skulu vera óröskuð.
Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 607.909 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Brynjars Níelssonar hæstaréttarlögmanns, 373.500 krónur og þóknun skipaðra réttargæslumanna brotaþola fyrir Hæstarétti, Steinunnar Guðbjartsdóttur hæstaréttarlögmanns og Ásu Ólafsdóttur hæstaréttarlögmanns, 99.600 krónur handa hvorri.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 11. október 2005.
Mál þetta var höfðað með ákæru ríkissaksóknara, dagsettri 20. apríl sl., á hendur Ólafi Eggert Ólafssyni, kennitala [...], Reykjavík,
,,fyrir kynferðisbrot framin á þáverandi heimili ákærða að [...], Reykjavík, nema annað sé tekið fram:
1. Gegn A, kennitala [...], með því að hafa frá sumri 2001 og fram í febrúar 2002 tælt hana til samræðis og annarra kynferðismaka en samræðis með því að greiða henni fyrir með peningum og með því að nýta sér yfirburði sína gagnvart stúlkunni vegna aldurs- og þroskamunar, er hann hafði samræði við stúlkuna í fjögur skipti, fékk hana fjórum sinnum til að hafa við sig munnmök og hafði einu sinni munnmök við hana, fékk stúlkuna til að setja kynlífstæki í kynfæri sín og endaþarm og fékk hana í eitt skipti til að hafa önnur kynferðismök en samræði við B m.a. með notkun kynlífstækja. Ákærði tók fjölda ljósmynda á stafræna Kodak myndavél af stúlkunni nakinni, þar á meðal við framangreindar kynlífsathafnir og hafði hann fjórar af myndunum enn þá í vörslu sinni á hörðum diski af gerðinni Fujitsu er lögregla gerði húsleit á þáverandi heimili hans að [...], Hafnarfirði, fimmtudaginn 14. október 2004.
2. Gegn B, kennitala [...], með því að hafa sumarið 2001 og í nóvember það ár tælt hana til annarra kynferðismaka en samræðis með því að greiða henni fyrir með peningum og með því að nýta sér yfirburði sína gagnvart stúlkunni vegna aldurs- og þroskamunar, er hann í eitt skipti fékk hana til að hafa munnmök við sig og fékk stúlkuna til að setja kynlífstæki í kynfæri sín og endaþarm og fékk hana í eitt skipti til að hafa önnur kynferðismök en samræði við A m.a. með notkun kynlífstækja. Ákærði tók fjölda ljósmynda á stafræna Kodak myndavél af stúlkunni nakinni, þar á meðal við framangreindar kynlífsathafnir og hafði hann fjórar af myndunum enn þá í vörslu sinni á hörðum diski af gerðinni Fujitsu er lögregla gerði húsleit á þáverandi heimili hans að [...], Hafnarfirði, fimmtudaginn 14. október 2004.
3. Gegn C, kennitala [...], með því að hafa sumarið eða haustið 2001 tælt hana til annarra kynferðismaka en samræðis með því að greiða henni fyrir með peningum og með því að nýta sér yfirburði sína gagnvart stúlkunni vegna aldurs- og þroskamunar, er hann í eitt skipti fékk hana til að hafa munnmök við sig og fékk stúlkuna til að setja kynlífstæki í kynfæri sín og endaþarm. Ákærði tók fjölda ljósmynda á stafræna Kodak myndavél af stúlkunni nakinni, m.a. við framangreindar kynlífsathafnir og hafði hann enn þá í vörslu sinni 53 af þeim myndum á hörðum diski í ACE turntölvu og hörðum diski af gerðinni Fujitsu er lögregla gerði húsleit á þáverandi heimili hans að [...], Hafnarfirði, fimmtudaginn 14. október 2004.
Framangreind brot teljast varða við 3. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 10. gr. laga nr. 40/1992 og 4. gr. laga nr. 40/2003, og 4. mgr. 210. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 7. gr. laga nr. 39/2000 og 2. gr. laga nr. 14/2002.
4. Með því að hafa haft í vörslu sinni 77 ljósmyndir sem sýna börn á kynferðislegan og klámfenginn hátt, en ljósmyndirnar geymdi kærði á hörðum diskum í ACE turntölvu og IBM Thinkpad ferðatölvu, sem lögregla haldlagði við húsleit á þáverandi heimili kærða að [...], Hafnarfirði, fimmtudaginn 14. október 2004.
Telst þetta varða við 4. mgr. 210. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 7. gr. laga nr. 39/2000 og 2. gr. laga nr. 14/2002.
A krefst bóta að fjárhæð 1.500.000 kr. auk vaxta og dráttarvaxta skv. lögum nr. 38/2001 frá 1. mars 2002 til greiðsludags auk þóknunar vegna réttargæslu.
B krefst bóta að fjárhæð 1.000.000 kr. auk dráttarvaxta frá 1. nóvember 2004 til greiðsludags og kostnaðar vegna lögmannsþóknunar.
C krefst bóta að fjárhæð 1.400.000 kr. auk vaxta skv. 7. gr. laga nr. 25/1987 frá 2. mars 2000 til 1. júlí 2001, en skv. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi þar til mánuður var liðinn frá birtingu bótakröfunnar en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 9. gr. laga, sbr. 1. mgr. 6. gr. laganna frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hún greiðslu kostnaðar vegna réttargæslu.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til að sæta upptöku samkvæmt 1. tl. 1. mgr. 69. gr. almennra hegningarlaga á ACE turntölvu, IBM Thinkpad ferðatölvu, hörðum diski af gerðinni Fujitsu og stafrænni Kodak myndavél.”
Ákærði krefst vægustu refsingar sem lög leyfa. Þá krefst ákærði þess að bótakröfum verði vísað frá dómi, en til vara að þær verði lækkaðar verulega. Verjandi ákærða krefst málsvarnarlauna að mati dómsins.
Málsatvik.
Þriðjudaginn 5. október 2004 lagði A fram kæru á hendur ákærða fyrir kynferðisbrot framin sumarið og haustið árið 2001. Hún kvaðst hafa kynnst ákærða í gegnum vinkonu sína, C um sumarið 2001, en C hafi á þessum tíma gætt barna fyrir ákærða. A skýrði svo frá að um sumarið 2001 hafi ákærði farið að skýra þeim C frá manni sem væri að taka nektarmyndir fyrir hollenskt Playboy blað og kvað manninn borga hverri fyrirsætu 20.000-30.000 krónur. Þá hafi ákærði spurt hvort þær væru tilbúnar að láta taka af sér nektarmyndir og hafi þær báðar samþykkt það. A skýrði svo frá að eftir að myndatökum af henni lauk, hafi þau ákærði haft samfarir. Hún kvaðst hafa fengið greiddar 30.000 krónur fyrir. A sagðist hafa sagt annarri vinkonu sinni, B, frá fyrirætlunum ákærða, og hafi hún einnig viljað fá að taka þátt í þessu. Hafi ákærði samþykkt það. A kvað B hafa sagt sér að hún hefði farið til ákærða og ákærði tekið af henni klámfengnar myndir. Hafi ákærði greitt henni 20.000 krónur fyrir. Einnig kvað A að þær B hafi farið saman til ákærða og ákærði tekið af þeim klámfengnar myndir, þar sem þær voru í ýmsum kynlífsathöfnum. Hafi hvor þeirra um sig fengið greiddar 20.000 til 30.000 krónar fyrir.
Rannsókn lögreglu leiddi í ljós að ákærði hafði tekið af stúlkunum grófar nektarmyndir gegn greiðslu. Á sumum myndanna eru stúlkurnar með titrara í leggöngum og endaþarmi og aðrar þeirra sýna stúlkurnar í munnmökum við ákærða. Þá sýna myndirnar enn fremur þær B og A í ýmsum kynlífsathöfnum.
Þá fundust í vörslum ákærða 77 ljósmyndir sem sýna börn á kynferðislegan og klámfenginn hátt.
Ákærði játaði fyrir dómi að samræði það og kynferðisathafnir þær er greinir í ákæru hafi átt sér stað gagnvart stúlkunum þremur og einnig játaði ákærði að hafa tekið af stúlkunum fjölda ljósmynda við ýmsar kynlífsathafnir á þeim tíma er ákæra tekur til. Ákærði neitaði hins vegar að hafa tælt stúlkurnar til samræðis. Þá neitaði ákærði að ljósmyndir þær sem ákærði hafði í vörslu sinni af stúlkunum þremur teldust barnaklám.
Ákærði játaði háttsemi þeirri er greinir í 4. ákærulið, að hafa haft í vörslu sinni 77 ljósmyndir sem sýna börn á kynferðislegan og klámfenginn hátt.
Verður nú rakinn framburður ákærða og vitna fyrir dómi.
Ákærði kvaðst hafa kynnst C er hún hafi gætt barna fyrir sig og þáverandi sambýliskonu sína. Síðan hafi hann kynnst A, þar sem þær C hafi verið vinkonur, en það hafi verið í mars eða apríl 2001. Þá kvaðst hann hafa kynnst B í gegnum þær A og B.
Ákærði kvað ástæðu þess að stúlkurnar þrjár fóru að venja komur sínar til hans, hafa verið þá að þær hafi fyrst komið yfir í íbúð hans, þegar þær hafi verið í partýi sem var haldið í sömu götu og ákærði bjó. Myndatökurnar hafi komið til tals í kjölfar þess að ákærði, A og C hafi farið að ræða um kynlíf. Síðan hafi samræðurnar þróast á þann veg að ákærði hafi sagt stúlkunum að greitt fyrir klámfengnar myndatökur og að í Hollandi væru greiddar 30-40 þúsund krónur fyrir slíkar myndatökur. Ákærði kvað A hafa hringt síðar í hann og spurt hann að því hvort hann gæti tekið slíkar myndir af henni og síðan hafi C fylgt í kjölfarið. Þá hafi A einnig hringt í ákærða og spurt hvort hún gæti komið til hans og sagst vera tilbúin til að hafa við ákærða kynferðismök gegn greiðslu. Rætt hafi verið um ákveðna upphæð og hafi munnmökin kostað 5000 krónur.
Ákærði kvaðst aldrei hafa hringt í stúlkurnar að fyrra bragði, en hann kvaðst hafa látið til leiðast að taka af þeim umræddar myndir. Ákærði kvaðst játa þau kynferðislegu samskipti sem lýst er í ákæru. Ákærði kvaðst hafa greitt sérstaklega fyrir kynferðismök við A og sérstaklega fyrir myndatökur af henni. Þá kvaðst ákærði játa að hafa fengið B og C til að hafa við sig munnmök en hann hafi eingöngu greitt þeim fyrir myndatökurnar. Aldrei hafi verið rætt um það milli ákærða og stúlknanna, B og C að sérstaklega yrði greitt fyrir munnmökin, en ákærði kvað vel geta verið að rætt hafi verið um að greiðslan yrði hærri eftir því sem myndirnar yrðu grófari. Spurður um hvort ákærði hefði vitað til þess að stúlkurnar hefðu átt við einhver vandamál að stríða á þessum tíma, kvaðst ákærði hafa frétt það ári síðar að A hefði farið á meðferðarheimilið Stuðla. Ákærði kvaðst aldrei hafa séð stúlkurnar í annarlegu ástandi. Ákærði kvaðst aldrei hafa útvegað A fíkniefni, en hann kvaðst í eitt skipti hafa ekið A til að hitta einhverja stráka, en þá hafi hún ætlað að útvega sér einhver efni. Ákærði kvaðst þó hafa gefið C áfengi.
Spurður um neitun ákærða á vörslum á barnaklámi varðandi þær myndir sem ákærði tók af stúlkunum þremur, kvaðst ákærði hafa verið dagdrykkjumaður á því tímabili sem ákæra tekur til og hafi verið að vinna á stað þar sem siðferðið var ekki mjög í hávegum haft. Ákærði hafi því ekki áttað sig á því að það væri ólöglegt að hafa þessar myndir í vörslu sinni, en ákærði hafi vitað að ólöglegt var að hafa samræði við yngri en 14 ára.
Ákærði kvaðst aldrei hafa beitt stúlkurnar neinum þrýstingi varðandi þær kynlífsathafnir sem greinir í ákæru. Sérstaklega spurður um kynferðisathafnir ákærða og A, kvaðst ákærði hafa keypt af henni þá kynlífsþjónustu sem hún hafi boðið fram.
Spurður um hvernig samskiptin milli ákærða og B hafi komið til, kvað ákærði A hafa hringt í sig og sagt að vinkona hennar, B, vildi láta taka myndir af sér og hafi ákærði samþykkt það og tekið myndir af henni. Ákærði kvaðst hafa náð í B í umrætt skipti. Spurður um það hvernig það hafi komið til að ákærði tók af þeim B og A lesbískar myndir, kvað ákærði A hafa hringt í ákærða og spurt hvort ákærði vildi taka af þeim B slíkar myndir og hafi ákærði samþykkt það. Ákærði kvaðst ekki hafa tekið eftir því að þær hefðu þá verið ölvaðar, en ákærði kvaðst hins vegar hafa verið ölvaður hvern einasta dag þegar atburðir þessir áttu sér stað. Ákærði kvaðst hafa eytt þeim myndum sem hann tók af stúlkunum og kvaðst telja að það hafi verið um áramótin 2002-2003. Varðandi annað barnaklám sem fannst á tölvum á heimili ákærða, kvað ákærði sér ekki hafa verið kunnugt um að barnaklám væri að finna á think pad tölvu hans, en hann hafi vitað að á hörðum diski hinnar tölvunnar væri barnaklám, en það hafi hann sótt fyrir löngu síðan á einhverjar síður, þegar hann hafi verið að vafra um á netinu. Ákærði kvaðst vera hættur drykkju og kvað aðstæður sínar vera betri en þær voru á þeim tíma er ákæra tekur til. Ákærði kvaðst vera í fastri vinnu, en kvaðst vera skuldum vafinn og sé nú að reyna að greiða þær niður.
Vitnið, A, kvað C, vinkonu hennar, oft hafa verið að gæta barna fyrir ákærða, þar sem fósturfaðir C hafi þekkt ákærða og kvaðst vitnið oft hafa farið með vinkonu sinni að passa. Einhvern tíma á árinu 2001 hafi C fengið sms skilaboð frá ákærða um ,,það hvað hún ætlaði að gera fyrir 30.000 krónur”. C hafi ekki alveg skilið skilaboðin og hafi þá ákærði boðið C 50.000 krónur og síma fyrir að hafa mök við ákærða í 3 klukkustundir. Vitnið kvaðst hafa séð þessi skilaboð hjá C. Einhverju sinni þegar stúlkurnar voru heima hjá ákærða hafi svo spunnist umræður um það milli ákærða, C og vitnisins að fara í klámfengnar myndatökur hjá ákærða. Vitnið kvaðst muna eftir því að ákærði hefði skýrt stúlkunum frá einhverjum hollenskum manni í tengslum við þessar klámmyndir. Vitnið hafi síðan beðið ákærða að útvega sér hass og skömmu síðar komið til ákærða í myndatökurnar, en andvirði hassins hafi átt að dragast frá þeirri fjárhæð sem vitnið átti að fá greidda fyrir myndatökurnar. Vitnið hafi reykt lítils háttar af hassi hjá ákærða og síðan hafi myndatökurnar byrjað. Einnig hafi þau ákærði haft samfarir, gegn 10.000 króna greiðslu. Þá kvað vitnið að sig minnti að ákærði hefði greitt 20.000 krónur eða 30.000 krónur fyrir myndatökurnar, en það hafi verið sérstaklega greitt fyrir þær. Vitnið kvað að ákærði hefði sagt að venja væri að greiða þá fjárhæð fyrir myndatökurnar, sem um var samið, en vitnið kvað ákærða hafa sagt að hollenskur maður sem ákærði þekkti hafi ætlað að koma myndunum í hollenskt playboy blað. Ákærði hafi sagt henni frá því að taka þyrfti 10 aukamyndir þar sem haldið væri um lim, eða limur soginn. Myndirnar væru svo sendar í sérkeppni og ein myndanna gæti unnið til verðlauna. Vitnið kvað að lægsta greiðslan væri fyrir nærfatamyndir, en hærra verð væri fyrir nektarmyndirnar.
Vitnið kvað að áður en þau höfðu kynmökin, hefði verið rætt um að greitt yrði sérstaklega fyrir þau. Vitnið kvað ákærða tvisvar hafa tekið klámmyndir af vitninu, í annað skiptið af henni einni, en í hitt skiptið af henni og B. Vitnið kvað að þær B hefðu átt frumkvæði að því að hafa samband við ákærða í það skiptið, en þá hafi þær verið mjög ölvaðar. Hugmynd um að fara saman í myndatökur til ákærða hafi þó kviknað um tveimur vikum fyrr hjá vitninu. Vitnið kvaðst hafa haft samfarir og munnmök við ákærða í það skiptið og hafi hún fengið greitt fyrir það þá og einnig einhverju síðar. Vitnið kvað að þær B hafi áður verið búnar að semja um hvað ætti að greiða þeim fyrir myndatökuna. Vitnið kvað að hana hefði vantað peninga og hafi fíkniefnavandi hennar verið byrjaður á þessum tíma, en síðan hafi sá vandi aukist stöðugt. Vitnið kvað samhengi vera á milli frekari fíkniefnaneyslu vitnisins og þessara atvika. Vitnið kvaðst hafa haft samband við ákærða aftur og átt frumkvæði að því að eiga munnmök við ákærða, en það hafi verið í þrjú til fjögur skipti. Hún kvaðst hafa fengið greiddar 5.000 krónur fyrir það. Þá hafi ákærði einnig stungið upp á því, þegar hún hafði fengið lánaða peninga hjá ákærða, að lánið yrði greitt með þeim hætti að þau hefðu kynmök. Hún kvaðst halda að það hafi verið 20.000-40.000 krónur sem hún hefði skuldað ákærða. Hún kvað að ákærði hefði aldrei neytt hana til neins, en kvað að sér fyndist að hann hefði átt að hafa vit fyrir henni, þar sem hún kvaðst ekki hafa vitað að þetta hefði svo mikil áhrif á líf hennar sem raun bar vitni og hún hafi verið svo ung þegar atburðir þessir gerðust. Vitnið kvaðst hafa hitt ákærða fyrir um 1-2 árum síðan og hafi hún spurt hann að því hvað orðið hefði af myndunum. Kvað vitnið ákærða hafa svarað því til að hann hefði keypt þær til baka af Hollendingum og eytt þeim. Vitnið kvaðst margsinnis hafa farið í fíkniefnameðferðir, en hún væri nú búin að vera laus við fíkniefni í þrjú ár. Vitnið var spurt hvers vegna hún hefði lagt kæru svo seint fram. Kvaðst hún þá hafa skammast sín mjög mikið fyrir þetta og haft ógeð á sjálfri sér. Þá hafi hún ekki haft nægan þroska fyrr til að leggja fram kæruna.
Vitnið, B, kvaðst hafa kynnst ákærða er hún var í gagnfræðaskóla. Hún kvað vinkonur sínar, þær C og B, hafa sagt vitninu frá því að ákærði hefði boðið þeim að taka af þeim grófar klámmyndir. Þær hafi svo komið vitninu í kynni við ákærða. Vitnið kvað að í fyrra skiptið sem hún hafi komið til ákærða hafi hann tekið af henni grófar klámmyndar og í seinna skiptið hafi hann tekið af þeim A lesbískar myndir. Í fyrra skiptið hafi vitnið farið eitt heim til ákærða. Þau hafi fyrst ræðst saman í síma og hafi ákærði sótt vitnið á [...]. Síðan hafi þau farið heim til ákærða. Ákærði hafi sagt vitninu að myndatökurnar væru fyrir hollenskan mann sem væri með tímarit í Hollandi, en þær C og A hafi einnig verið búnar að ræða við vitnið um þennan hollenska mann. Vitnið kvað að þau hafi rætt saman um greiðslu fyrir myndirnar, en greiðslan hafi verið forsenda þess að hún lét til leiðast. Vitnið kvað að á þessum tíma hafi vitninu þótt allt í lagi að myndirnar myndu birtast í hollensku tímariti, en síðan hafi vitninu þótt þetta ógeðslegt. Vitnið kvað að rætt hefði verið um að greiðslurnar ættu að vera misháar eftir því hversu grófar myndirnar voru. Vitnið kvað að sig minnti að hún hefði fengið greiddar 20.000 krónur fyrir myndirnar. Vitnið kvaðst hafa haft munnmök við ákærða þegar myndatökurnar áttu sér stað og hafi verið tekin mynd af því. Það hafi verið með samþykki vitnisins. Vitnið kvaðst ekki hafa verið undir áhrifum áfengis eða vímuefna í fyrra skiptið sem hún fór til ákærða, en í síðara skiptið hafi bæði vitnið og A verið undir áhrifum áfengis. Þá hafi einnig verið rætt um greiðslur fyrir þá myndatöku. Vitnið kvaðst hafa glímt við átröskun á þessum tíma og einnig þunglyndi, sem hafi þó aukist í kjölfar þessara atburðar. Vitnið kvaðst hafa prófað hass tvisvar sinnum, en á þessum tíma hafi hún einungis drukkið um helgar. Vitnið kvaðst telja að það væru tengsl á milli vanlíðunar vitnisins og þessara atburða. Vitnið kvaðst hugsa mikið um það sem gerðist, þótt hún reyndi að loka á það. Vitnið kvaðst ekki hafa verið þvinguð til neins í samskiptum við ákærða, en hún líti svo á að hún hafi látið til leiðast og ekki áttað sig á hvaða áhrif þetta myndi hafa til langframa. Vitnið kvaðst ekki hafa sagt neinum frá þessu nema einni mjög góðri vinkonu sinni.
Vitnið, C, kvaðst hafa kynnst ákærða í gegnum fósturföður sinn áður en þeir atburðir gerðust sem í ákæru greinir. Vitnið kvaðst stundum hafa gætt barna fyrir ákærða. Hún og A hafi í eitt sinn verið að gæta barna fyrir ákærða og hafi þá myndbandsupptökuvél verið í gangi heima hjá ákærða. Vitnið hafi reynt að taka yfir myndatökuna og kvaðst vitnið hafa haldið að hún hefði eyðilagt myndavélina. Skömmu síðar hafi vitnið fengið sms skilaboð frá ákærða þar sem sagði ,,hvað viltu gera fyrir 50.000 + síma”. Hafi þá vitnið verið fullvisst um að hún hefði eyðilagt myndavélina og spurt ákærða hvað hann ætti við. Vitnið kvað ákærða þá hafa rætt um myndatökur við vitnið A og um að myndirnar yrðu sendar til Hollands eða Póllands, þar sem myndirnar ættu að birtast þegar stúlkurnar væru orðnar 18 ára. Ákærði hafi rætt um það að hærra væri greitt fyrir myndir þar sem stúlkurnar væru fáklæddar. Vitnið kvað að fyrsta kvöldið hafi ákærði tekið myndir af þeim A á nærfötunum. Dálítill tími hafi liðið þar til vitnið fór aftur til ákærða, en vitnið kvaðst ekki muna hvort það hefði verið að frumkvæði ákærða eða vitnisins sjálfs. Í síðara skiptið hafi þau rætt um greiðslu á staðnum og hafi verið rætt um að vitnið ætti að nota hjálpartæki. Vitnið kvaðst hafa haft munnmök við ákærða og hafi ákærði greitt hærra fyrir þau. Vitnið kvað ákærða hafa rætt við vitnið um hollenskan mann vegna myndanna. Vitnið kvað ákærða hafa sagt að kynlífshjálpartækin væru frá hollenska manninum sem ákærði hefði rætt um við vitnið. Vitnið kvaðst ekki hafa verið undir áhrifum áfengis þegar þetta gerðist. Vitnið kvað ákærða eitt sinn hafa keypt áfengi fyrir þær A, en ekki útvegað vitninu önnur vímuefni en áfengi. A hafi þó tjáð vitninu að ákærði hefði útvegað henni hass. Hún kvaðst hafa sagt móður sinni frá samskiptum sínum við ákærða. Vitnið kvað þessa atburði hafa haft slæm áhrif á líf vitnisins en vitnið kvaðst hafa reynt að bæla niður minningar um atburðina. Vitnið kvað að hún hafi verið peningalítil á þessum tíma og það sem ákærði hafi greitt henni fyrir, hafi henni þótt miklir peningar þá, en hún hafi ekki fengið reglulega vasapeninga frá foreldrum sínum. Vitnið kvaðst hafa hitt ákærða eftir að samskipti þau sem lýst er í ákæru áttu sér stað og kvaðst vitnið þá hafa fengið lánaða peninga hjá ákærða, en ekki gert neitt í staðinn. Spurð um ástæðu þess að vitnið lagði ekki fram kæru í fyrstu og bar hjá lögreglu að henni fyndist ekki hafa verið brotið á henni, kvað vitnið að hún hefði farið að hugsa meira um atburðina þegar málið kom upp. Vitnið kvaðst aldrei hafa verið þvinguð til neins í samskiptum við ákærða.
Niðurstaða.
Ákæruliður 1.
Ákærði hefur játað að hafa frá sumri 2001 og fram í febrúar 2002 haft samræði og önnur kynferðismök við A gegn greiðslu. Hann hefur játað rétta atvikalýsingu í ákæru, er varðar fjölda skipta munnmaka og samræðis. Þá hefur hann játað að stúlkan hafi á heimili hans haft önnur kynferðismök en samræði við B, m.a. með notkun kynlífstækja, en kvað stúlkurnar hafa átt frumkvæði að því. Þá hefur ákærði játað að hafa tekið fjölda ljósmynda af stúlkunni nakinni, þar á meðal við framangreindar kynlífsathafnir, en bar fyrir dómi að hann hefði eytt myndunum af hörðum diski tölvu sinnar, áður en lögregla gerði húsleit á heimili hans. Ákærði neitaði því að hafa tælt A til ofangreindra kynlífsathafna. Þá hefur ákærði einnig neitað að myndir þær sem hann tók af stúlkunni teljist barnaklám.
Ákærði bar fyrir dómi að hann hefði kynnst A í gegnum C, en C hefði stundum gætt barna hans. Ákærði kvað þau eitt sinn hafa verið að ræða um kynlíf og hafi umræðurnar leiðst út í það að ákærði sagði stúlkunum frá því að í Hollandi væru greiddar 30.000-40.000 krónur fyrir klámfengnar myndir. Skömmu síðar hafi A hringt í ákærða og spurt hvort hann gæti tekið slíkar myndir af henni. Þessi framburður ákærða kemur að nokkru heim og saman við framburð A um upphaf kynferðislegra samskipta ákærða og hennar. Þau báru og bæði fyrir dómi að ákærði hefði greitt henni sérstaklega fyrir myndatökurnar og sérstaklega fyrir kynmök þau sem hún átti við ákærða.
Við mat á því hvort ákærði hafi tælt stúlkuna til þeirra kynlífsathafna er í ákæru greinir verður að horfa til þessa upphafs samskipta þeirra, er ákærði skýrði stúlkunum frá því að greiddar væru 30.000-40.000 krónur fyrir klámfengnar myndir. Þá verður að horfa til þess að ákærði, sem var 33 ára er atburðir þessir áttu sér stað, hafði yfirburðastöðu gagnvart A, vegna aldurs síns og reynslu, en stúlkan var aðeins 15 ára gömul og í huga 15 ára ungmennis eru þær fjárhæðir sem ákærði nefndi að greiddar væru fyrir slíkar myndir, háar. Þá hefur A lýst því að hún hafi átt við fíkniefnavanda að stríða á þessum tíma og ákærði bar fyrir dómi að hann hefði vitað til að hún væri að kaupa sér vímuefni, er hann ók henni á tilgreindan stað til þess að hún gæti orðið sér úti um slík efni. Þegar allt framangreint er virt er að mati dómsins sannað að með þeirri háttsemi sinni að gefa 15 ára gamalli stúlku til kynna að í vændum væru háar peningagreiðslur fyrir myndir af henni, þar sem hærri greiðsla kæmi fyrir grófari myndir og bjóða henni sérstaka greiðslu fyrir samræði og önnur kynferðismök, hafi ákærði nýtt sér yfirburðastöðu sína í ljósi aldurs og þroskamunar hans og stúlkunnar og tælt hana til þeirra athafna er í ákærulið þessum greinir. Breytir þar engu um að A hafi átt frumkvæði að einhverjum þeirra kynlífsathafna er í ákæru greinir, þar sem ákærði hafði áður gefið henni til kynna að greitt væri fyrir þessar kynlífsathafnir og myndatökur. Ákærði er því sakfelldur fyrir tælingu eins og í ákæru greinir og varðar sú háttsemi hans við 3. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 10. gr. laga nr. 40/1992 og 4. gr. laga nr. 40/2003.
Samkvæmt gögnum málsins var gerð húsleit hjá ákærða 14. október 2004 og lagt hald á tölvubúnað. Við skoðun á innihaldi tölvudiska komu í ljós 63 myndir af stúlkunum þremur. Ákærði játaði að hafa tekið fjölda ljósmynda af A, þar á meðal við framangreindar kynlífsathafnir. Sumum myndanna hafði verið eytt og þær yfirskrifaðar að hluta, en unnt reyndist að endurheimta þær. Ákærði neitaði því hins vegar að um vörslu á barnaklámi væri að ræða og kvaðst auk þess hafa eytt myndunum um áramótin 2002-2003. Kemur það heim og saman við dagsetningu þá sem er að finna um síðustu hreyfingu á allmörgum þeirra, en hún er 27. desember 2002. Ákærði var fyrst yfirheyrður hjá lögreglu 14. október 2004 og var sök ákærða því ekki fyrnd þegar rannsókn málsins hófst, sbr. 81. gr. laga nr. 19/1940. A var aðeins 15 ára þegar ákærði tók ljósmyndir þessar af henni og því engum vafa undirorpið að ljósmyndir af henni í hinum ýmsu kynlífsathöfnum er ákærði hafði í vörslu sinni, teljast barnaklám. Hefur ákærði með þeirri háttsemi sinni að hafa í vörslum sínum myndir af henni í framangreindum kynlífsathöfnum, gerst sekur um þá háttsemi sem í ákæru greinir og er þar réttilega heimfærð til 4. mgr. 210. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 7. gr. laga nr. 39/2000 og 2. gr. laga nr. 14/2002.
Bótakrafa.
A hefur sett fram bótakröfu og krafist þess að henni verði dæmdar bætur að fjárhæð 1.500.000 krónur auk vaxta samkvæmt 8. gr., sbr. 4. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 1. mars 2002 til þess dags er mánuður var liðinn frá því að bótakrafan var kynnt fyrir ákærða, en með dráttarvöxtum frá þeim degi samkvæmt 9. gr. sbr. 6. gr. sömu laga til greiðsludags.
Auk þess er gerð krafa um þóknun til réttargæslumanns úr hendi ákærða.
Krafan er studd þeim rökum að bótakrefjandi hafi verið ung að árum þegar brotin áttu sér stað. Á þeim tíma sem liðinn er frá því, hafi stúlkan öðlast aldur og þroska til þess að átta sig til fullnustu á alvarleika brotanna. Atburðirnir sæki nú mjög á bótakrefjanda, séu henni sífellt í huga og trufli daglegt líf hennar. Ákærði hafi verið eldri en bótakrefjandi og hafi hann nýtt sér reynsluleysi hennar og hafi brotin átt sér stað á viðkvæmu skeiði í kynferðisþroska hennar. Jafnframt beri að líta til þess að fullkomin óvissa sé um það hvort ljósmyndir þær sem teknar voru af stúlkunni hafi komið til dreifingar á veraldarvefnum. Sú óvissa sé óbærileg og til þess fallin að valda henni tjóni, einkum þegar fram líði stundir. Fyrir liggi jafnframt að atferli ákærða hafi skaðað sjálfsmynd stúlkunnar og muni verknaður hans setja mark á allt líf hennar. Brot sem þetta sé augljóslega til þess fallið að valda þeim sem fyrir verði, miklum miska sem bættur skuli tjónþola eftir því sem sanngjarnt þyki samkvæmt ákvæðum 26. gr. laga nr. 50/1993, sbr. 170. gr. laga nr. 19/1991.
Bótakrefjandi vísar til 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, til stuðnings kröfum sínum. Um upphafstíma vaxta vísar bótakrefjandi til þess að um nokkur tilvik hafi verið að ræða og kveður brotaþoli að háttsemi ákærða hafi lokið í janúar/febrúar 2002. Því miðar brotaþoli upphafstíma vaxta við 1. mars 2002.
Bótakrefjandi vísar til þess að um sé að ræða kynferðisbrot sem ákærði beri skaðabótaábyrgð á samkvæmt framangreindum ákvæðum skaðabótalaga. Við kynferðisbrot verði brotaþoli ávallt fyrir miskatjóni og séu bætur fyrir miska ákvarðaðar eftir því sem sanngjarnt þyki. Við mat á fjárhæð beri að líta til þess hversu alvarlegt brotið sé, hvert sakarstig brotamanns sé, hver huglæg upplifun brotaþolans sé og loks til umfangs tjónsins.
Niðurstaða.
Þótt engin sérfræðigögn liggi fyrir um andlega líðan stúlkunnar A og hugsanleg áhrif háttsemi ákærða í garð hennar, er ljóst að háttsemi sú sem ákærði hefur verið sakfelldur fyrir, er til þess fallin að valda þeim sem fyrir verður sálrænum erfiðleikum og kom það og glögglega fram í skýrslugjöf hennar fyrir dómi. Því er rétt að dæma ákærða til greiðslu bóta til A, sem þykja hæfilega ákveðnar 250.000 krónur auk vaxta og dráttarvaxta eins og í dómsorði greinir.
Ákæruliður 2.
Ákærði játaði að þær kynlífsathafnir sem greinir í þessum ákærulið, hafi átt sér stað gagnvart B, en neitaði því að hafa tælt hana til þeirra athafna.
Þá hefur ákærði játað að hafa tekið fjölda ljósmynda af stúlkunni nakinni, þar á meðal við framangreindar kynlífsathafnir, en bar fyrir dómi að hann hefði eytt myndunum af hörðum diski tölvu sinnar, áður en lögregla gerði húsleit á heimili hans. Þá hefur ákærði einnig neitað að myndir þær sem hann tók af stúlkunni teljist barnaklám.
Ákærði hefur borið fyrir dómi að A hefði hringt í hann og sagt honum að B vildi láta taka af sér klámfengnar myndir. Er þessi framburður ákærða að nokkru í samræmi við framburð B fyrir dómi, en hún kvað vinkonur sínar, þær C og A, hafa tjáð sér að ákærði vildi taka af þeim grófar klámmyndir og hefðu þær síðan komið henni í kynni við ákærða. B kvað ákærða hafa sagt henni að myndatökurnar væru fyrir hollenskan mann og ættu að birtast í tímariti í Hollandi. Þá kvað B að þau ákærði hefðu rætt um greiðslu fyrir myndirnar, en greiðslan hafi verið forsenda þess að hún lét til leiðast og að greiðslur ættu að vera hærri eftir því sem myndirnar yrðu grófari.
Ákærði bar sjálfur fyrir dómi að ,,vel gæti verið að rætt hafi verið um að greiðslur yrðu hærri eftir því sem myndirnar væru grófari”. Ákærði hefur játað að hafa greitt B fyrir myndatökur af henni, en neitað að hafa greitt henni sérstaklega fyrir munnmök og önnur kynferðismök en samræði.
Þegar litið er til þess að kynferðisleg samskipti ákærða og B hófust með því að ákærði tók af henni grófar klámmyndir og þess að ákærði gaf í skyn við hana að hærri greiðslur kæmu fyrir grófari myndir, er að mati dómsins sannað að ákærði hafi, undir þessu yfirskyni, nýtt sér yfirburðastöðu sína í ljósi aldurs- og þroskamunar hans og stúlkunnar og tælt hana til þeirra athafna er í ákærulið þessum greinir. Breytir þar engu um hvort B hafi átt frumkvæði að einhverjum þeirra kynlífsathafna er í ákæru greinir, þar sem ákærði hafði áður gefið henni til kynna að hærri greiðslur kæmu fyrir grófari myndir. Ákærði er því sakfelldur fyrir tælingu eins og í ákæru greinir og varðar sú háttsemi hans við 3. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 10. gr. laga nr. 40/1992 og 4. gr. laga nr. 40/2003.
Ákærði játaði að hafa tekið fjölda ljósmynda af B, þar á meðal við framangreindar kynlífsathafnir. Sumum myndanna hafði verið eytt og þær yfirskrifaðar að hluta, en unnt reyndist að endurheimta þær. Ákærði neitaði því hins vegar að um vörslu á barnaklámi væri að ræða og kvaðst auk þess hafa eytt myndunum um áramótin 2002-2003. Kemur það heim og saman við dagsetningu þá sem er að finna um síðustu hreyfingu á allmörgum þeirra, en hún er 27. desember 2002. Ákærði var fyrst yfirheyrður hjá lögreglu 14. október 2004 og var sök ákærða því ekki fyrnd þegar rannsókn málsins hófst, sbr. 81. gr. laga nr. 19/1940. B var aðeins 15 ára þegar ákærði tók ljósmyndir þessar af henni og því engum vafa undirorpið að ljósmyndir af henni í hinum ýmsu kynlífsathöfnum er ákærði hafði í vörslu sinni, teljast barnaklám. Hefur ákærði með þeirri háttsemi sinni, að hafa í vörslum sínum myndir af henni í framangreindum kynlífsathöfnum, gerst sekur um þá háttsemi sem í ákæru greinir og er þar réttilega heimfærð til 4. mgr. 210. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 7. gr. laga nr. 39/2000 og 2. gr. laga nr. 14/2002.
Bótakrafa.
B hefur sett fram bótakröfu á hendur ákærða að fjárhæð 1.000.000 króna auk dráttarvaxta frá 1. nóvember 2004 til greiðsludags og greiðslu kostnaðar vegna lögmannsaðstoðar að mati dómsins.
Bótakrefjandi kveðst hafa átt í andlegum erfiðleikum, bæði meðan á háttsemi ákærða stóð og áfram. Á þeim tíma er atburðir þessir áttu sér stð hafi bótakrefjandi átt við ýmis vandamál að stríða, s.s. óreglu vegna áfengisnotkunar, þunglyndi og átröskun. Hafi hún þurft að fara í meðferð á BUGL vegna þess. Henni hafi liðið mjög illa vegna atburðanna, sérstaklega þegar hún sé ein, hún fengið kvíðaköst og óttist mjög þá tilhugsun að hitta ákærða. Atferli ákærða sé mjög til þess fallið að skaða sjálfsmynd hennar og geti verknaður hans sett mark sitt á allt hennar líf. Við ákvörðun bóta beri að líta til þess að brot ákærða hafi verið skipulögð og alvarleg. Hann hafi misnotað sér veikleika ungrar stúlku til þess að fá hana til þess að gera það sem hann vildi og ginnt hana til þess með vilyrði um peningagreiðslu.
Bótakrefjandi styður kröfu sína þeim rökum að við kynferðisbrot verði brotaþoli alltaf fyrir miskatjóni og skuli bætur ákvarðaðar eftir því sem sanngjarnt þyki. Við mat á fjárhæð þeirra skuli líta til þess hversu alvarlegt brotið sé, hvert sakarstig brotamanns sé, hve huglæg upplifun brotaþolans sé og loks til umfangs tjónsins. Krafan er studd við 170. gr. laga nr. 19/1991 og 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.
Niðurstaða.
Þótt engin sérfræðigögn liggi fyrir um andlega líðan stúlkunnar B og hugsanleg áhrif háttsemi ákærða í garð hennar, er ljóst að háttsemi sú sem ákærði hefur verið sakfelldur fyrir, er til þess fallin að valda þeim sem fyrir verður sálrænum erfiðleikum og kom það og glögglega fram í skýrslugjöf hennar fyrir dómi. Því er rétt að dæma ákærða til greiðslu bóta til B, sem þykja hæfilega ákveðnar 150.000 krónur auk vaxta og dráttarvaxta eins og í dómsorði greinir.
Ákæruliður 3.
Ákærði játaði að þær kynlífsathafnir sem greinir í þessum ákærulið, hafi átt sér stað gagnvart C, en neitaði því að hafa tælt hana til þeirra athafna. Ákærði kvaðst ekki hafa greitt C sérstaklega fyrir munnmökin, eingöngu fyrir myndatökur af henni. Hann kvað hins vegar vel geta verið að rætt hefði verið um að greiðslan yrði hærri eftir því sem myndirnar yrðu grófari.
Þá hefur ákærði játað að hafa tekið fjölda ljósmynda af stúlkunni nakinni, þar á meðal við framangreindar kynlífsathafnir, en bar fyrir dómi að hann hefði eytt myndunum af hörðum diski tölvu sinnar áður en lögregla gerði húsleit á heimili hans. Þá hefur ákærði einnig neitað að myndir þær sem hann tók af stúlkunni teljist barnaklám.
Ákærði bar fyrir dómi að samræður hans við C og A um kynlíf hafi þróast á þann veg að hann hafi sagt stúlkunum að um 30-40 þúsund krónur fengjust greiddar fyrir klámfengnar myndir.
Framburður C fyrir dómi um upphaf kynferðislegra samskipta við ákærða er nokkuð á sömu lund, en hún kvað upphafið megi rekja til þess að hún hafi fengið svohljóðandi sms skilaboð frá ákærða: ,,Hvað viltu gera fyrir 50.000 + síma”. Vitnið kvaðst ekki hafa vitað hvað ákærði átti við og hafi spurt ákærða hvað hann ætti við. Hafi þá ákærði borið í tal við þær A að hann tæki af þeim klámfengnar myndir.
Þegar litið er til þess að kynferðisleg samskipti ákærða og C hófust með því að ákærði gaf í skyn við hana að vel væri greitt fyrir klámfengnar myndir af henni og að hærri greiðslur kæmu fyrir grófari myndir, er að mati dómsins sannað að ákærði hafi, undir þessu yfirskyni, nýtt sér yfirburðastöðu sína í ljósi aldurs- og þroskamunar hans og stúlkunnar og tælt hana til þeirra athafna er í ákærulið þessum greinir. Breytir þar engu um hvort C hafi átt frumkvæði að einhverjum þeirra kynlífsathafna er í ákæru greinir, með því að ákærði hafði áður gefið henni til kynna að hærri greiðslur kæmu fyrir grófari myndir. Ákærði er því sakfelldur fyrir tælingu eins og í ákæru greinir og varðar sú háttsemi hans við 3. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 10. gr. laga nr. 40/1992 og 4. gr. laga nr. 40/2003.
Ákærði játaði að hafa tekið fjölda ljósmynda af C, þar á meðal við framangreindar kynlífsathafnir. Sumum myndanna hafði verið eytt og þær yfirskrifaðar að hluta, en unnt reyndist að endurheimta þær. Ákærði neitaði því hins vegar að um vörslu á barnaklámi væri að ræða og kvaðst auk þess hafa eytt myndunum um áramótin 2002-2003. Kemur það heim og saman við dagsetningu þá sem er að finna um síðustu hreyfingu á allmörgum þeirra, en hún er 27. desember 2002. Ákærði var fyrst yfirheyrður hjá lögreglu 14. október 2004 og var sök ákærða því ekki fyrnd þegar rannsókn málsins hófst, sbr. 81. gr. laga nr. 19/1940. C var aðeins 15 ára þegar ákærði tók ljósmyndir þessar af henni og því engum vafa undirorpið að ljósmyndir af henni í hinum ýmsu kynlífsathöfnum er ákærði hafði í vörslu sinni, teljast barnaklám. Hefur ákærði með þeirri háttsemi sinni að hafa í vörslum sínum, myndir af henni í framangreindum kynlífsathöfnum, gerst sekur um þá háttsemi sem í ákæru greinir og er þar réttilega heimfærð til 4. mgr. 210. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 7. gr. laga nr. 39/2000 og 2. gr. laga nr. 14/2002.
Bótakrafa.
C hefur krafist þess að ákærði verði dæmdur til að greiða henni miskabætur að fjárhæð 1.400.000 krónur auk vaxta samkvæmt 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá 2. mars 2000 til 1. júlí 2001, en samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi þar til mánuður er liðinn frá birtingu bótakröfu, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 9. gr. laga sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags. Þá er þess krafist að ákærði verði dæmdur til að greiða þóknun réttargæslumanns.
Kröfu sína styður bótakrefjandi þeim rökum að um alvarlega kynferðislega misnotkun hafi verið að ræða og gróft brot gegn persónu brotaþola. Þá sé mjög alvarlegt brot að hafa undir höndum efni sem sýni börn á kynferðislegan eða klámfenginn hátt. Um brot sé að ræða sem komi til með að hafa mikil áhrif á andlega og líkamlega heilsu brotaþola í framtíðinni. Um lagarök vísar bótakrefjandi til XX. kafla laga nr. 19/1991 og til 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.
Niðurstaða.
Þótt engin sérfræðigögn liggi fyrir um andlega líðan stúlkunnar C og hugsanleg áhrif háttsemi ákærða í garð hennar, er ljóst að háttsemi sú sem ákærði hefur verið sakfelldur fyrir, er til þess fallin að valda þeim sem fyrir verður sálrænum erfiðleikum og kom það og glögglega fram í skýrslugjöf hennar fyrir dómi. Því er rétt að dæma ákærða til greiðslu bóta til C, sem þykja hæfilega ákveðnar 150.000 krónur. Af því sem fram hefur komið í máli þessu verður ekki fyllilega ráðið að unnt sé að krefjast vaxta af bótakröfunni frá 2. mars 2000, eins og gert er. Því verður vaxtahluta kröfunnar vísað frá dómi, en dráttarvaxtakrafa tekin til greina, eins og nánar greinir í dómsorði.
Ákvörðun viðurlaga.
Ákærði hefur samkvæmt sakavottorði ekki gerst sekur um brot sem máli geta skipt við ákvörðun refsingar. Við ákvörðun refsingar verður litið til þess að brot ákærða voru ítrekuð og beindust gegn þremur ungum stúlkum. Nýtti ákærði sér yfirburðastöðu sína í krafti aldurs síns og reynslu gagnvart stúlkunum, sem voru á viðkvæmu kynþroskaskeiði. Þá hafði ákærði í vörslum sínum mikið magn af barnaklámi, bæði mjög grófar klámfengnar myndir af brotaþolunum þremur, sem og aðrar myndir sem sýna börn á klámfenginn og kynferðislegan hátt. Telst það brot hans stórfellt. Við ákvörðun refsingar fyrir þann þátt málsins lítur dómurinn til þess markmiðs núgildandi ákvæðis 4. mgr. 210. gr. almennra hegningarlaga að vernda börn gegn þeirri svívirðilegu misnotkun sem felst í töku, sýningu og skoðun klámfenginna mynda af þeim.
Að virtum þeim atriðum sem að framan hafa verið rakin er refsing ákærða ákveðin fangelsi í 2 ár.
Upptökukrafa
Með vísan til 1. mgr. 69. gr. laga nr. 19/1940 sæti ákærði upptöku á ACE turntölvu, IBM think pad ferðatölvu, hörðum diski af gerðinni Fujitsu og stafrænni Kodak myndavél.
Sakarkostnaður
Með vísan til 1. mgr. 165. gr. laga nr. 19/1991 greiði ákærði sakarkostnað málsins, sem er réttargæsluþóknun Ásu Ólafsdóttur héraðsdómslögmanns, 72.832 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti vegna starfa hennar í þágu brotaþola á rannsóknarstigi auk réttargæsluþóknunar vegna meðferðar málsins fyrir dómi, sem telst hæfilega ákveðin 50.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti. Þá greiði ákærði réttargæsluþóknun Steinunnar Guðbjartsdóttur hæstaréttarlögmanns, 135.954 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti vegna starfa hennar í þágu brotaþola á rannsóknarstigi, auk réttargæsluþóknunar við meðferð málsins fyrir dómi, sem telst hæfilega ákveðin 50.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti. Einnig greiði ákærði réttargæsluþóknun Þórdísar Bjarnadóttur héraðsdómslögmanns, 94.682 vegna starfa hennar í þágu brotaþola á rannsóknarstigi, auk réttargæsluþóknunar vegna meðferðar málsins fyrir dómi, sem telst hæfilega ákveðinn 50.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti. Þá greiði ákærði málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Herdísar Hallmarsdóttur héraðsdómslögmanns, 350.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti á málsvarnarþóknun, fyrir störf hennar á rannsóknarstigi í þágu ákærða og við meðferð málsins fyrir dómi. Samtals er sakarkostnaður sem ákærði er dæmdur til að greiða 803.468 krónur.
Uppkvaðning dómsins hefur dregist vegna mikilla anna dómara.
Ingveldur Einarsdóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
D ó m s o r ð:
Ákærði, Ólafur Eggert Ólafsson, sæti fangelsi í 2 ár.
Ákærði greiði A 250.000 krónur auk vaxta samkvæmt 8. gr., sbr. 4. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 1. mars 2002 til 11. desember 2004, en með dráttarvöxtum frá þeim degi samkvæmt 9. gr., sbr. 6. gr. sömu laga til greiðsludags.
Ákærði greiði B 150.000 krónur auk dráttarvaxta frá 11. desember 2004 samkvæmt 9. gr., sbr. 6. gr. laga nr. 38/2001 til greiðsludags.
Ákærði greiði C 150.000 krónur auk dráttarvaxta frá 30. janúar 2005 samkvæmt 9. gr., sbr. 6. gr. laga nr. 38/2001 til greiðsludags.
Ákærði greiði sakarkostnað málsins, samtals 803.468 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Herdísar Hallmarsdóttur héraðsdómslögmanns 350.000 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti, réttargæsluþóknun Þórdísar Bjarnadóttur héraðsdómslögmanns 144.382 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, réttargæsluþóknun Ásu Ólafsdóttur héraðsdómslögmanns 122.832 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti og réttargæsluþóknun Steinunnar Guðbjartsdóttur hæstaréttarlögmanns, 185.954 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.
Ákærði sæti upptöku á ACE turntölvu, IBM think pad ferðatölvu, hörðum diski af gerðinni Fujitsu og stafrænni Kodak myndavél.