Hæstiréttur íslands

Mál nr. 157/2010


Lykilorð

  • Kærumál
  • Fjármálafyrirtæki
  • Félagsslit
  • Sakarefni
  • Dómstóll
  • Frávísunarúrskurður staðfestur


                                                        

Miðvikudaginn 24. mars 2010.

Nr. 157/2010.

Skeifan ehf.

(Ólafur Thóroddsen hrl.)

gegn

Landsbanka Íslands hf.

(Kristinn Bjarnason hrl.)

Kærumál. Fjármálafyrirtæki. Félagsslit. Sakarefni. Dómstólar. Frávísunarúrskurður héraðsdóms staðfestur.

S ehf. kærði úrskurður héraðsdóms þar sem máli  hans gegn L hf. var vísað frá dómi. Í málinu krafðist S ehf. þess að L hf. yrði gert að afhenda sér gögn vegna gjaldeyris- og verðbréfaviðskipta sinna. Í dómi Hæstaréttar kom fram að Fjármálaeftirlitið hafi tekið yfir vald hluthafafundar í L hf., vikið stjórn hans frá og sett yfir hann skilanefnd. Þá hafi L hf. verið veitt heimilt til greiðslustöðvunar. Teldist L hf. hafa verið til slitameðferðar og giltu ákvæði XVIII. kafla og 5. þáttar laga nr. 21/1991 um meðferð krafna á hendur fjármálafyrirtæki við slit þess. Var því talið að S ehf. gæti ekki leitað dóms um kröfu sína í einkamáli á hendur L hf., heldur beri honum að lýsa kröfu sinni fyrir slitastjórn L hf., sbr. 1. mgr. 116. gr. og 1. mgr. 117. gr. laga nr. 21/1991, en úr ágreiningi um hana yrði unnt að leysa fyrir dómi samkvæmt ákvæðum 171. gr. og XXIV. kafla laganna. Var niðurstaða hins kærða úrskurðar því staðfest.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Hjördís Hákonardóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 8. mars 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 12. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 5. mars 2010, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinum kærða úrskurði verði hrundið og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnislegrar meðferðar. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Í málinu, sem sóknaraðili höfðaði 18. ágúst 2009 samkvæmt almennum reglum laga nr. 91/1991, krefst hann þess að varnaraðila verði gert að afhenda sér öll gögn og yfirlit varðandi „fjárhagslegar hreyfingar og viðskipti vegna gjaldeyris- og verðbréfaviðskipta“ sinna við varnaraðila á árinu 2008. Fjármálaeftirlitið tók 7. október 2008 yfir vald hluthafafundar í varnaraðila, vék stjórn hans frá og setti yfir hann skilanefnd með heimild í 100. gr. a. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008. Varnaraðili fékk 5. desember 2008 heimild til greiðslustöðvunar samkvæmt ákvæðum 2. þáttar laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. og sérreglum um slíka heimild fjármálafyrirtækja í lögum nr. 161/2002, sbr. 2. gr. og 4. gr. laga nr. 129/2008. Samkvæmt ákvæði V. til bráðabirgða við lög nr. 161/2002, sbr. lög nr. 44/2009, telst varnaraðili hafa verið til slitameðferðar eftir reglum XII. kafla fyrrnefndu laganna frá 22. apríl 2009 að telja. Í 4. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002, sbr. 6. gr. laga nr. 44/2009, er mælt svo fyrir að ákvæði XVIII. kafla og 5. þáttar laga nr. 21/1991 gildi um meðferð krafna á hendur fjármálafyrirtæki við slit þess. Að því gættu getur sóknaraðili ekki leitað dóms um framangreinda kröfu sína í einkamáli á hendur varnaraðila, heldur ber honum að lýsa kröfu sinni fyrir slitastjórn varnaraðila, sbr. 1. mgr. 116. gr. og 1. mgr. 117. gr. laga nr. 21/1991, og tekur hún þá afstöðu til kröfunnar eftir 121. gr. sömu laga, en úr ágreiningi um hana yrði unnt að leysa fyrir dómi samkvæmt ákvæðum 171. gr. og XXIV. kafla laganna. Hinn kærði úrskurður verður því staðfestur.

Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Skeifan ehf., greiði varnaraðila, Landsbanka Íslands hf., 150.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 5. mars 2010.

Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 9. febrúar sl., var þingfest 3. september 2009.

Stefnandi er Skeifan ehf., Boðagranda 7, Reykjavík.

Stefndi er Landsbanki Íslands hf., Austurstræti 16, Reykjavík.

Til réttargæslu er stefnt Fjármálaeftirlitinu, Suðurlandsbraut 32, Reykjavík.

Dómkröfur

Dómkröfur stefnanda eru þær að stefnda, Landsbanka Íslands hf., verði með dómi gert skylt að afhenda stefnanda, Skeifunni ehf., öll gögn um og yfirlit yfir fjárhagslegar hreyfingar og viðskipti vegna gjaldeyris- og verðbréfaviðskipta stefnanda við Landsbanka Íslands hf. árið 2008.

Stefnandi krefst þess að fá efnislegan dóm fyrir rétti sínum, en gerir ekki kröfur um, að kveðið verði á um aðfararhæfi í dómsorði.

Engar kröfur eru gerðar á hendur réttargæslustefnda.

Stefndi krefst þess aðallega að öllum kröfum stefnanda verði vísað frá dómi og að stefnandi verði dæmdur til þess að greiða málskostnað samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi eða samkvæmt mati dómsins.

Stefndi krefst til vara sýknu af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til þess að greiða málskostnað samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi eða samkvæmt mati dómsins.

Munnlegur málflutningur um frávísunarkröfu stefnda fór fram 9. febrúar sl. og er einungis sá þáttur málsins hér til úrlausnar. Stefndi krefst þess að málinu verði vísað frá dómi og stefnda verði úrskurðaður málskostnaður að mati dómsins. Stefnandi krefst þess að frávísunarkröfu stefnda verði hafnað og ákvörðun málskostnaðar verði látin bíða efnisdóms. 

Málavextir

Stefnandi lýsir málavöxtum þannig að hann hafi verið í verðbréfaviðskiptum og gjaldeyristengdum viðskiptum við Landsbanka Íslands hf. árið 2007. Yfirlit yfir þau viðskipti hafi verið sent 20. febrúar 2008 og hafi þar komið fram hreyfingar á árinu og staða í árslok.

Árið 2008 hafi stefnandi einnig átt slík viðskipti við bankann. Peningalegar færslur hafi farið um bankareikning nr. 79078 og séu þar engar peningalegar hreyfingar eftir 23. maí 2008 að þessu leyti, en innborgun að fjárhæð 552.685 krónur þann 15. september 2008 hafi verið vegna vaxta af íbúðabréfum.

Framkvæmdastjóri stefnanda hafi ekki vitað betur en að öllum slíkum viðskiptum við bankann hefði verið lokað 1. júlí 2008, enda hafi hann, þegar þar var komið sögu, verið farinn að hafa illan bifur á bankanum.

Hinn16. október 2008 hafi skilanefnd Landsbanka Íslands hf. sent út staðalbréf vegna afleiðusamninga o.fl. Þar sem stefnanda hafi þá ekki verið kunnugt um neina slíka samninga við bankann, hafi verið óþarft að gefa nánari gaum að því.

Eftir áramótin 2008/2009 hafi borist yfirlit frá stefnda yfir tímann frá 1. janúar 2008 til 31. desember 2008 vegna nefndra viðskipta stefnanda við stefnda fyrir skattframtal 2009. Í yfirlitinu hafi komið fram eign í árslok, íbúðabréf á markaðsvirði 6.447.795 krónur og erlend hlutabréf á markaðsvirði 129.382 krónur. Hins vegar hafi hreyfingaryfirlit ekki verið með sama hætti og fyrir árið 2007 og engin grein gerð fyrir uppgjörum og jöfnun innan ársins. Hafi þetta verið í athugun þegar orðsendingar hafi tekið að berast frá skilanefndinni.

Hinn 2. febrúar 2009 hafi borist staðalbréf frá Árna Maríussyni, starfsmanni skilanefndar, sem hafi verið andmælt, en ekki sé ástæða til þess að leggja það fram. Þá hafi borist greiðsluáskorun, dags. 17. mars 2009, sem undirrituð hafi verið með eftirgreindum hætti:

f.h. Landsbanka Íslands hf.

      Lárus Finnbogason,

formaður skilanefndar Landsbanka Íslands hf.

með yfirlit yfir meinta stöðu afleiðu- og gjaldeyrissamninga 71.159.974 krónur.

Skilanefnd Landsbankans hafi sent stefnanda kröfubréf, dags. 25. júní 2009.

 Framkvæmdastjóri stefnanda hafi farið á fund þess starfsmanns, sem  undirritaði bréfið og hafi afhent honum bréf, dags. 30. júní 2009. Í bréfinu hafi verið beðið um ljósrit af þeim afleiðusamningum, sem skilanefndin hafi reist kröfu sína á. Kröfubréfið frá 25. júní 2009 hafi verið skilið eftir hjá starfsmanninum. Nefnt skuli að stefnanda hafi borist ljósrit af 5 svonefndum afleiðusamningum, en gildi þeirra sé ekki til úrlausnar í þessu máli.

Hinn 15. júlí 2009 hafi stefnandi ritað skilanefnd og vakið athygli á því að yfirlitið vegna 2008 væri ekki eins úr garði gert og yfirlitið fyrir árið 2007 og hafi hann sent skilanefndinni ljósrit af hvoru tveggja og óskað eftir nánari skýringum og gögnum.

Hinn 22. júlí 2009 hafi skilanefndinni verið sent ábyrgðarbréf og með því hafi fylgt ljósrit vegna tveggja samninga, sem hafi verið gerðir upp fyrir 1. júlí 2008, og áréttað, með vísan til þessa, að áður sent yfirlit fyrir árið 2008 væri ekki heildstætt.

Enn hafi skilanefnd verið sent ábyrgðarbréf 24. júlí 2009 og í því fjallað um tvo meinta samninga, sem skilanefndin byggi á kröfur sínar á hendur stefnanda, en hvað þetta mál varðar hafi enn verið áréttuð beiðni um að fá svör og gögn samkvæmt því, sem að framan sé rakið.

Milli aðila hafi flogið orðsendingar í tölvupósti sem ekki sé ástæða til að leggja fram.

Hinn 29. júlí 2009 hafi borist frá skilanefndinni tölvubréf með viðhengi yfir verðbréfaeign stefnanda 31. desember 2008 og hreyfingar 1. janúar 2008 til 31. desember 2008. Hafi þetta í engu verið fullnægjandi né heldur hafi það gefið heildarmynd af viðskiptum og hreyfingum ársins 2008 fremur en yfirlitið sem hafi borist eftir áramótin 2008/2009.

Eins og að framan greini hafi stefnandi margbeðið skilanefnd bankans um heildstætt yfirlit og gögn fyrir árið 2008 og bent á að það yfirlit, sem borist hafi í byrjun árs 2009, væri ekki viðhlítandi. Skilanefndin hafi vel vitað, eða mátt vita, að þetta væri rétt hjá stefnanda og nægi að vísa til bréfs stefnanda til skilanefndar Landsbanka Íslands, dags. 22. júlí 2009,  þar sem nefndinni hafi verið send ljósrit af gögnum vegna tveggja samninga, sem ekki hafi komið fram á yfirlitinu vegna skattframtals.

Skilanefndin hafi hins vegar látið sig hafa það, eftir að hafa fengið umrædd gögn, að senda yfirlit þar sem ekkert tillit er tekið til þeirra gagna, sem nefndinni höfðu þó borist frá stefnanda.

Í bréfinu frá skilanefndinni 25. júní sl., og sem var skilið eftir hjá starfsmanni nefndarinnar, hafi efnislega verið sagt að uppgjör og jöfnun hefði farið fram og munurinn væri kröfur á hendur stefnanda. Engin grein hafi verið gerð fyrir því með hverjum hætti og á hvaða grunni það uppgjör hefði farið fram og af hverju inneign stefnanda hjá stefnda hefði skerst.

Samantekið séu helstu málsatvik þessi:

Stefnandi hafi margbeðið stefnda um heildstætt yfirlit og gögn fyrir árið 2008.

Stefndi hafi ekki orðið við því af neinu viti.

Stefndi hafi látið sig hafa það að senda stefnanda yfirlit, sem hann hafi sagt heildstætt, en hafi vitað, eða mátt vita betur, því að hann hafi áður fengið frekari gögn frá stefnanda.

Stefndi verði þannig ekki borinn þungum sökum um það að hafa rækt lögbundnar skyldur sínar gagnvart viðskiptamanni eða vandað til verka gagnvart honum, hverju sem gegni.

Fullreynt sé um bænir til skilanefndarinnar og stefnanda ekki annar kostur ger en að sækja lögvarinn rétt sinn fyrir dómi.

Málsástæður stefnanda og lagarök

Stefnandi byggir á því að Landsbanki Íslands hf. sé ekki þrotabú og samkvæmt vottorði fyrirtækjaskrár ríkisskattstjóra skipi skilanefndin stjórn félagsins. Lárus Finnbogason hafi gengið úr skilanefndinni og Lárentínus Kristjánsson tekið við formennsku.

Hér að neðan sé fjallað um lög um fjármálafyrirtæki og þar rökstutt að skilanefndin standi til aðildar í dómsmáli, eins og því sem hér sé rekið.

Stefnandi byggir nánar á því að þau gögn og upplýsingar, sem hann geri kröfu um að fá samkvæmt dómkröfum, varði hagsmuni hans og sé stefnda skylt að afhenda þau, sbr. t.d. Hrd. 376/1998. Í annan stað byggir stefnandi á því, og með frekari tilvísun til þess sem síðar segi, að stefndi reki enn verðbréfaviðskipti og úrvinnslu og uppgjör viðskipta, sem þegar hafi verið gerð, og sé því skylt að fara eftir ákvæðum laga um verðbréfaviðskipti nr. 108/2007 í þeim rekstri og að því leyti og verði þetta einnig leitt af ákvæðum laga nr.161/2002 með síðari breytingum. Stefnandi byggir í þessu sambandi málsástæður sínar m.a. á 3. mgr. 14. gr. laga nr. 108/2007, en þar segi efnislega að fjármálafyrirtæki beri að hafa aðgengilegar upplýsingar fyrir viðskiptavini um réttarúrræði þeirra, ef ágreiningur rísi milli viðskiptavinar og fjármálafyrirtækis. Þetta nái einnig yfir skyldu fjármálafyrirtækis til þess að veita upplýsingar, eins og hér hátti.  Þá byggir stefnandi á ákvæðum laga nr.161/2002 með síðari breytingum.

Krafa um málskostnað sé studd við 129., sbr. 130. gr. laga nr. 91/1991 og krafa um virðisaukaskatt á málskostnað sé studd við ákvæði laga nr. 50/1988 með síðari breytingum.

Eins og fram komi í dómkröfum, geri stefnandi ekki kröfu um að kveðið verði á um aðfararhæfi í  dómsorði. Um skýringar hér á vísist enn til þess er að neðan greini. Þá megi vísa til Hrd. 366/2001.

Fjármálaeftirlitinu sé stefnt til réttargæslu með hliðsjón af ákvæðum laga nr. 161/2002 með síðari breytingum.

Málsástæður stefnanda með stoð i lögum nr.161/2002 o.fl.

Samkvæmt 1. mgr. 116. gr. laga nr. 21/1991 (GL) verði dómsmál ekki höfðað gegn þrotabúi nema mælt sé sérstaklega fyrir um heimild til þess í lögum eða um sakamál sé að ræða og krafist sé refsiviðurlaga sem megi ákveða á hendur þrotabúi. Samkvæmt 3. mgr. nefndrar 116. gr. verði kröfu um aðför, kyrrsetningu, lögbann eða löggeymslu ekki komið fram gegn þrotabúi. Ljóst sé, samkvæmt greinargerð með 116. gr. o.fl., að um sé að ræða fjárhagslegar kröfur á hendur þrotabúi eða sem metnar verði ti1 fjár. Ekki sé ástæða til þess að lýsa ákvæðum (GL) um meðferð krafna svo sem kröfulýsingar og innköllun eða þeim úrræðum, sem kröfuhafi eigi gagnvart skiptastjóra.

Um skilyrði og upphaf slitameðferðar á fjármálafyrirtæki fari samkvæmt 101. gr. laga nr. 161/2002 með síðari breytingum (LF), eins og henni hafi verið breytt með 5. gr. laga nr. 44/2009.

Inntakið sé, að bú fjármálafyrirtækis verði ekki tekið til gjaldþrotaskipta eftir almennum reglum, heldur kröfu Fjármálaeftirlits eða stjórnenda fyrirtækisins að nánar greindum skilyrðum.  Kröfunni skuli beint til héraðsdóms og þegar dómsúrlausn hafi gengið skipi héraðsdómari slitastjórn, sem í sitji allt að fimm menn.

Um meðferð krafna á hendur fjármálafyrirtæki við slitameðferð fari samkvæmt 102. gr. (LF) eins og henni var breytt með 6. gr. laga nr. 44/2009.

Við slit fjármálafyrirtækis gildi sömu reglur og við gjaldþrotaskipti um gagnkvæma samninga þess og kröfur á hendur því.  Vísað sé til XVIII. kafla og 5. þáttar (GL).  Efnislega séu skyldur slitastjórnar mjög áþekkar skyldum skiptastjóra samkvæmt (GL).

Um ráðstöfun hagsmuna fjármálafyrirtækis o.fl. við slitameðferð fari samkvæmt 103. gr. (LF) eins og henni var breytt með 7. gr. laga nr. 44/2009.

Við slit fjármálafyrirtækis ráðstafi slitastjórn hagsmunum þess eftir sömu reglum og gildi við bústjórn skiptastjóra við gjaldþrotaskipti og ef ágreiningur rís um slíkar ráðstafanir skuli úr honum leyst eftir fyrirmælum (GL).

Með lögum nr. 125/2008 (NL) frá 7. október 2008 hafi Fjármálaeftirlitinu verið veittar víðtækar heimildir til þess að taka yfir stjórn fjármálafyrirtækis.  Fjármálaeftirlitinu hafi verið heimilt, samhliða því sem ákvörðun var tekin um að víkja stjórn fjármálafyrirtækis frá, að skipa því fimm manna skilanefnd sem færi með öll málefni fjármálafyrirtækis, þar á meðal að hafa umsjón með allri meðferð eigna þess, svo og að annast annan rekstur þess undir yfirstjórn Fjármálaeftirlitsins, sem hafi víðtækar heimildir yfir skilanefndinni.  Skilanefnd Landsbanka Íslands hf., starfi enn samkvæmt þessu ákvæði.  Þá segi enn fremur í lögunum:  Á sama tíma verður ekki komið fram gagnvart fjármálafyrirtækinu aðfarargerð á grundvelli laga um aðför eða kyrrsetningu á grundvelli laga um kyrrsetningu, lögmann o.fl.  Engir tálmar hafi verið settir á það að höfða dómsmál á hendur fjármálafyrirtæki meðan skilanefnd væri að störfum.

 Gerð hafi verið breyting á lögum nr. 161/2002 (LF) með lögum nr. 129/2008 sem samþykkt voru á Alþingi 13. nóvember 2008 (13L).  Samkvæmt 1. gr. laganna bættist við 9. gr. (LF), sem hafi orðið 3. mgr. 9. gr. (LF) einkennilega orðað ákvæði, sem hljóði svo:  „þrátt fyrir afturköllun starfsleyfis skv. 6. tölul. 1. mgr. er þeim sem annast skiptastjórn þrotabús fjármálafyrirtækis heimilt, með samþykki og undir eftirliti Fjármálaeftirlitsins, að annast áfram tiltekna leyfisbundna starfsemi að svo miklu leyti sem hún er  nauðsynleg vegna bústjórnar og ráðstöfunar hagsmuna Þrotabús.“   Í 2. gr. (13L) séu ákvæði um greiðslustöðvun, sem ekki varði þetta mál utan þess, að bent sé á að í 4. og 5. mgr. séu ákvæði, sem séu efnislega samhljóða 1. mgr. 116. gr. (GL).  Ákvæði 3., 4. og 5. gr. (13L) varði ekki þetta mál.

Loks hafi verið gerð breyting á lögum nr. 161/2002 með lögum nr. 44/2009 frá 20. apríl 2009.  Samkvæmt 1. gr. breytist orðalagið í 3. mgr. 9. gr. (LF) frá áðurnefndum breytingum samkvæmt (13L) og verði: „bráðabirgðastjórn, slitastjórn við slitameðferð fjármálafyrirtækis eða skiptastjóra við gjaldþrotaskipti í búi þess.“

Athyglisverð breyting sé samkvæmt  3. gr. b. um það, að 4., 5. og 6. mgr., sbr. 2. gr. laga nr. 129/2008 (13L) falli brott.

Einnig sé athyglisverð breyting samkvæmt 4. gr. og ný grein: 100. gr. a. (LF). Hér sé efnislega fjallað um það að þegar Fjármálaeftirlitið yfirtaki stjórn fjármálafyrirtækis skuli það skipa því bráðabirgðastjórn. Síðan segi: „Á meðan hún (bráðabirgðastjórn ) ræður yfir fyrirtækinu gilda sömu takmarkanir á heimildum til að beita fullnustuaðgerðum og öðrum þvingunarúrræðum gagnvart því og ef það hefði fengið heimild til greiðslustöðvunar.“ Í þessu samhengi séu engir tálmar settir við því að höfðað verði dómsmál gegn fyrirtækinu.

Áður hafi verið fjallað um 5., 6. og 7. gr. laganna.

Loks beri að geta ákvæðis til bráðabirgða I. Þar segi: „Hafi Fjármálaeftirlitið fyrir gildistöku laga þessara skipa fjármálafyrirtæki skilanefnd á grundvelli 5. gr. laga nr. 125/2008 og hún er enn að störfum, en fyrirtækið hefur ekki fengið heimild til greiðslustöðvunar, skal skilanefndin upp frá því sjálfkrafa verða bráðabirgðastjórn fyrirtækisins í skilningi 100. gr. a, sbr. 4. gr. laga þessara.“

Að framan hafi verið gerð grein fyrir breytingum á lögum nr. 161/2002 frá því í október 2008 og til dagsins í dag með hliðsjón af þessu máli. Breytingarnar hafi verið gerðar við ýkja óvanalegar aðstæður í íslensku efnahagslífi, eins og kunnugt er og beri þess nokkur merki.

Með málefni Landsbanka Íslands hf., þau sem ekki hafi fallið undir NBI hf., fari slitastjórn, sem skipuð hafi verið af Héraðsdómi Reykjavíkur 29. apríl 2009 og skilanefnd, sem skipuð hafi verið af Fjármálaeftirlitinu í október 2008 og sé enn að störfum. Vald- og starfsmörk þessara aðila geti ekki talist egghvöss. Slitastjórnin fari með innköllun og úthlutun og annað í þá veru, Skilanefndin ( bráðabirgðastjórn ) með daglegan rekstur og annan rekstur, eins og t.d. uppgjör á gagnkvæmum samningum, en á rekstur fjármálafyrirtækis verði ekki skorið í einni andrá og megi því tala um áframhaldandi rekstur í þá veru. Þetta hafi löggjafanum verið ljóst og því hafi málum verið skipað með þeim hætti sem lýst hefir verið. Nefnt skuli að framkvæmdastjóri  stefnanda hafi sent Fjármálaeftirlitinu fyrirspurn hér að lútandi sem ósvarað sé, en vera megi að einhver þar í húsi svitni enn yfir svarinu. Stefnanda hafi virst sem skilanefnd Landsbankans sé rög til annarra verka en þeirra, sem hún hugi að eftir sínu atlæti og því hverjum hollast að ganga einnig sjálfur á teiginn.

Annað sé vert að nefna. Lögin setji tálma við aðför, kyrrsetningu o.s.frv. og rekstur dómsmáls í  þeim þætti, sem falli undir slitastjórn, en ekki séu tálmar á öðru en aðför og kyrrsetningu o.s.frv. í þeim efnum, sem falli undir skilanefnd.

Samkvæmt opinberum gögnum, vottorði úr fyrirtækjaskrá, sé skilanefndin stjórn stefnda og fari með umráð hans og rekstur, enda sé á um þessa tilhögun kveðið í lögum nr. 161/2002 með síðari breytingum. Að ákvæðum þeirra laga séu ekki tálmar á því að höfða dómsmál á hendur stefnda vegna slíks rekstrar undir forræði stjórnar/skilanefndar, en ekki sé heimilt að gera aðför eða kyrrsetningu o.s.frv. hjá stefnda meðan skilanefnd/bráðabirgðastjórn, samkvæmt ákvæðum laga nr.161/2002 með síðari breytingum,  sé að störfum. Enda geri stefnandi ekki kröfu um að kveðið verði á um heimild til aðfarar í dómsorði.

Málsástæður stefnda fyrir frávísunarkröfu

Stefndi byggir aðalkröfu sína um frávísun fyrst og fremst á því að kröfugerð stefnanda brjóti í bága við ákvæði 1. mgr. 116. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. (GÞL). Samkvæmt ákvæðinu verði dómsmál ekki höfðað á hendur stefnda nema sérstök heimild sé til þess í lögum eða að um refsimál sé að ræða. Ekki verði séð að aðstæður stefnanda séu með þeim hætti sem lýst sé í ákvæðinu og valdi það því frávísun að mati stefnda. Í þessu sambandi sé vert að benda á, að hinn 22. apríl 2009 hafi tekið gildi lög nr. 44/2009 um breytingu á lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Hinn 29. apríl 2009  hafi einnig verið skipuð slitastjórn, en slitastjórn sé falið að annast kröfumeðferðir á hendur stefnda. Jafnframt hafi stefnda, með úrskurði hinn 5. desember 2008, verið veitt heimild til greiðslustöðvunar og hinn 3. mars 2009 veitt heimild til áframhaldandi greiðslustöðvunar.

Ákvæði 116. gr. GÞL gildi í grundvallaratriðum við slitameðferð stefnda. Í 2. mgr. 116. gr. GÞL komi fram að halda megi máli til dóms ef það hafi verið höfðað á hendur þrotamanninum og dómur ekki gengið í því áður en úrskurður gekk um að búið væri tekið til gjaldþrotaskipta, enda tilkynni stefnandi þess skiptastjóra um það. Af þessu leiði að mál sem hefur verið höfðað á hendur bankanum eftir  22. apríl 2009, geti ekki haldið áfram. Stefndi telji því ljóst að málsókn stefnanda á hendur stefnda stríði bersýnilega gegn ákvæði 2. mgr. 116. gr.

Með vísan í ofangreint hafi stefnandi ekki heimild til þess að höfða einkamál þetta á hendur stefnda. Beri þegar af þeirri ástæðu að vísa málinu frá dómi.

Ef ekki verði fallist á frávísun á grundvelli 1. mgr. 116. gr. GÞL, byggir stefndi kröfu sína á því að málinu verði vísað frá dómi á grundvelli þess að kröfugerð í stefnu brjóti í bága við ákvæði d- liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Stefnandi krefjist þess að fá efnislegan dóm fyrir rétti sínum, en geri ekki kröfur um að kveðið verði á um aðfarahæfi í dómsorði. Í dómkröfum sé hvorki að finna reifun, né nánari útlistun á því, hvaða tilteknu gögn stefnandi krefjist afhendingar á.  Dómkröfur stefnanda í stefnu séu afar almennt orðaðar og því erfitt fyrir stefnda að átta sig á því til hvaða gagna stefnandi sé að vísa. Orðalag í dómkröfum stefnanda sé óskýrt og fullnægi ekki skilyrðum d-liðar 1. mgr. 80. gr. eml.

Samkvæmt framangreindu sé stefnda ómögulegt að verjast stefnunni og sannreyna hvaða gögn stefnandi krefji hann um. Mikilvægt sé að hafið sé yfir vafa á hverju stefnandi byggi mál sitt, en sú sé ekki raunin í þessu máli. Kröfur stefnanda séu það vanreifaðar og óskýrar að vísa beri málinu frá í heild sinni.

Niðurstaða

Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur, uppkveðnum 5. desember 2008, var Landsbanka Íslands hf. veitt heimild til greiðslustöðvunar til 26. febrúar 2009. Með úrskurði héraðsdóms, uppkveðnum 3. mars 2009, var heimild til greiðslustöðvunar framlengd til 26. nóvember 2009.

Í 1. mgr. 101. gr. laga nr. 161/2002 segir að bú fjármálafyrirtækis verði ekki tekið til gjaldþrotaskipta eftir almennum reglum. Í 2. mgr. 1. tl. segir að fjármálafyrirtæki skuli tekið til slita eftir kröfu Fjármálaeftirlitsins samkvæmt nánari tilgreindum skilyrðum og sömuleiðis, samkvæmt 3. tl. 2. mgr., eftir kröfu stjórnar fyrirtækisins eða bráðabirgðastjórnar.

Í 3. mgr. 101. gr. laga nr. 161/2002 segir að kröfu um slit fjármálafyrirtækis skuli beint til héraðsdóms. Þá segir að krafan skuli úr garði gerð og með hana farið fyrir dómi eins og kröfu um gjaldþrotaskipti.

Í framlögðu bréfi Héraðsdóms Reykjavíkur, dags. 29. apríl 2009, kemur fram að með bréfi, dags. 27. apríl 2009 hafi skilanefnd Landsbanka Íslands hf. óskað þess að dómurinn skipaði fyrirtækinu slitastjórn samkvæmt 1. og 3. tl. 2. mgr. 101. gr. laga nr. 161/2002, sbr. 5. gr. og 4. tl. ákvæðis II til bráðabirgða í lögum nr. 44/2009. Í bréfinu segir jafnframt að í samræmi við beiðni nefndarinnar og með vísan til greindra lagaákvæða séu þar tilgreindir aðilar skipaðir til starfa í slitastjórn Landsbanka Íslands hf. Hófst þar með slitameðferð Landsbanka íslands hf.

Í 4. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002 segir að ákvæði XVIII. kafla og 5. þáttar laga um gjaldþrotaskipti  o.fl. gildi um meðferð krafna á hendur fjármálafyrirtæki við slit þess.

Stefndi byggir á því í greinargerð sinni að kröfugerð stefnanda brjóti í bága við ákvæði 1. mgr. 116. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti. Í ákvæði þessu segir að dómsmál verði ekki höfðað í héraði gegn þrotabúi nema mælt sé sérstaklega fyrir um heimild til þess í lögum eða um opinbert mál sé að ræða og krafist sé refsiviðurlaga sem megi ákveða á hendur þrotabúi. Í ljósi 4. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002, sem áður er vikið að, verður talið að ákvæði þetta gildi um slitameðferð stefnda. Hefur stefnandi ekki sýnt fram á heimild sína til höfðunar máls þessa og ber því þegar af þeim sökum að vísa máli þessu frá dómi.

Stefnandi greiði stefnda 150.000 krónur í málskostnað.

Kristjana Jónsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.

ÚRSKURÐARORÐ

Máli þessu er vísað frá dómi.

Stefnandi, Skeifan ehf., greiði stefnda, Landsbanka Íslands hf., 150.000 krónur í málskostnað.