Hæstiréttur íslands

Mál nr. 399/2014


Lykilorð

  • Kærumál
  • Fjármálafyrirtæki
  • Slit
  • Riftun
  • Málshöfðunarfrestur
  • Sakarauki
  • Dómstóll
  • Lögsaga
  • Frávísunarúrskurður felldur úr gildi


                                     

Mánudaginn 25. ágúst 2014.

Nr. 399/2014.

Kaupþing hf.

(Grímur Sigurðsson hrl)

gegn

King Street Capital LP

King Street Capital Ltd.

King Street Europe LP og

King Street Europe Master Fund Ltd.

(Hjördís Halldórsdóttir hrl.)

Kærumál. Fjármálafyrirtæki. Slit. Riftun. Málshöfðunarfrestur. Sakarauki. Dómstóll. Lögsaga. Frávísunarúrskurður felldur úr gildi.

Kærður var úrskurður þar sem máli, sem K hf. beindi aðallega að B, til vara að KSE, en að þeim frágengnum að KSC o.fl., var vísað frá dómi að því er KSC o.fl. varðaði. K hf. höfðaði málið upphaflega á hendur B, sem K hf. taldi eiganda að tilgreindum hlutum í skuldabréfum útgefnum af K hf., til riftunar á greiðslum vegna kaupa K hf. á hlutdeildinni í skuldabréfunum og endurheimtu á fjárhæð greiðslnanna ásamt dráttarvöxtum. Eftir að stefna hafði verið birt B hélt félagið því fram að þær fjárfestingar sem málið varðaði hefðu verið gerðar í þágu KSE og að B hefði einungis komið þar fram til milligöngu. Gerði K hf. í kjölfarið nýja stefnu þar sem kröfum var aðallega beint að B en til vara KSE. Í kjölfarið hélt KSE því fram að það félag hefði ekki verið viðsemjandi B í viðskiptunum, sem málið varðaði, heldur KSC o.fl. Höfðaði K hf. við svo búið sakaukasök á hendur KSC o.fl., þar sem sömu kröfum og beint hafði verið að B og KSE var nú beint að KSC o.fl. til vara að baki kröfum á hendur B og KSE í frumsök. Í héraði hafði frávísunarkröfu B og KSE verið hafnað, en með hinum kærða úrskurði var samhljóða krafa KSC o.fl. tekin til greina. Hæstiréttur hafnaði því að skilyrði væru fyrir hendi til að verða við kröfu KSC o.fl. um frávísun málsins frá héraðsdómi að því er þau félög varðaði, meðal annars með skírskotun til þess að málshöfðunarfrestur hefði ekki verið liðinn þegar sakaukasök var höfðuð og að skilyrði til sakaraukningar í málinu væru uppfyllt. Var hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar að því er varðaði KSC o.fl.

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Benedikt Bogason og Viðar Már Matthíasson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 2. júní 2014, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 10. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 22. maí 2014, þar sem máli, sem sóknaraðili beindi aðallega að Brains Inc. Limited, til vara að King Street (Europe) LLP og að þeim frágengnum að varnaraðilum, var vísað frá dómi að því er þá síðastnefndu varðar. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar gagnvart varnaraðilum. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðilar krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

I

Samkvæmt málatilbúnaði sóknaraðila, sem áður hét Kaupþing banki hf., gaf hann út á grundvelli útboðslýsingar frá 26. apríl 2006 skuldabréf meðal annars að nafnverði 1.500.000.000 bandaríkjadalir, sem var á gjalddaga 4. október 2011. Í málinu liggja fyrir gögn um að sóknaraðili hafi 2. og 9. september 2008 samið um að greiða til Brains Inc. Ltd. í London 5. og 12. sama mánaðar samtals 13.009.861,12 bandaríkjadal til kaupa á hlutdeild í þessu skuldabréfi að nafnverði 15.000.000 bandaríkjadalir. Fjármálaeftirlitið neytti 9. október 2008 heimildar samkvæmt 100. gr. a. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008, til að taka yfir vald hluthafafundar í sóknaraðila, víkja stjórn hans frá og setja yfir hann skilanefnd, en í framhaldi af því var hann tekinn til slita 22. apríl 2009.

Sóknaraðili kveðst hafa talið Brains Inc. Ltd. hafa verið eiganda að fyrrnefndum hlutum í skuldabréfinu þar til komið hafi fram í svari félagsins 13. janúar 2012 við fyrirspurn sóknaraðila að hann hafi aðeins átt milligöngu í áðurgreindum viðskiptum í þágu annarra, sem honum væri óheimilt að upplýsa hverjir væru. Með því að ekki hafi legið fyrir hverjir kynnu að hafa átt þar í hlut hafi sóknaraðili höfðað mál á hendur félaginu með stefnu 7. júní 2012 til riftunar á greiðslunum, sem áður var getið, og til endurheimtu á fjárhæð þeirra ásamt dráttarvöxtum. Eftir að stefnan hafi verið birt hafi sóknaraðila borist tölvubréf frá Brains Inc. Ltd. 21. júní 2012, þar sem fram kom að félagið hafi komið fram í þessum viðskiptum sem milligöngumaður fyrir eiganda hlutanna í skuldabréfinu, sem væri King Street (Europe) LLP. Sóknaraðili hafi brugðist við þessu með því að gera nýja stefnu 25. júní 2012, þar sem hann beindi sömu kröfum aðallega að Brains Inc. Ltd. og til vara að King Street (Europe) LLP, en mál þetta hafi verið höfðað með birtingu stefnunnar 26. sama mánaðar og var það þingfest 6. september 2012. Bæði félögin tóku til varna í málinu og kröfðust þess hvort fyrir sitt leyti aðallega að því yrði vísað frá dómi, til vara að þau yrðu sýknuð af kröfum sóknaraðila, en að því frágengnu að þær yrðu lækkaðar. Í greinargerð King Street (Europe) LLP, sem var lögð fram í þinghaldi í héraði 18. desember 2012, var því meðal annars borið við að það félag hafi ekki verið viðsemjandi Brains Inc. Ltd. í viðskiptunum, sem hér um ræðir, heldur King Street Capital LP, en að auki hafi hlutdeild í skuldabréfinu að nokkru verið í eigu King Street Capital Ltd., King Street Europe LP og King Street Europe Master Fund Ltd. Með því að ekki var greint nánar frá atvikum að þessu leyti í greinargerð King Street (Europe) LLP beindi sóknaraðili áskorun til félagsins í þinghaldi 6. mars 2013 um að veita frekari upplýsingar um þetta, sem það varð við með því að leggja fram bókun í þinghaldi 19. sama mánaðar. Sóknaraðili kveðst á þennan hátt fyrst hafa fengið vitneskju um þessi atvik og höfðaði hann sakaukasök á hendur varnaraðilum 12. og 13. júní 2013. Í henni beindi hann þeim kröfum að varnaraðilum, sem greindar eru í hinum kærða úrskurði, en þó þannig að þeim var haldið uppi gegn þeim að baki kröfum á hendur stefndu í frumsök. Eftir að sakaukasökin var höfðuð var aðalkröfum Brains Inc. Ltd. og King Street (Europe) LLP um frávísun málsins hafnað með úrskurði héraðsdóms 9. júlí 2013. Sakaukasökin var þingfest 5. september 2013 og tóku varnaraðilar þar til varna. Þeir gerðu sömu dómkröfur og Brains Inc. Ltd. og King Street (Europe) LLP höfðu gert hvort fyrir sitt leyti, en krafa varnaraðila um frávísun málsins var þó að hluta reist á öðrum málsástæðum. Með hinum kærða úrskurði var síðastnefnd krafa varnaraðila tekin til greina.

II

Eins og rakið er í úrskurði héraðsdóms byggja varnaraðilar kröfur sínar um frávísun málsins á þremur málsástæðum. Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður staðfest niðurstaða hans um að hafna málsástæðu varnaraðila, sem reist er á því að heimild hafi brostið til að höfða málið fyrir dómstól hér á landi.

Varnaraðilar bera í annan stað fyrir sig að frestur sóknaraðila til að höfða mál til riftunar á ráðstöfunum sínum hafi verið liðinn þegar sakaukasökin á hendur þeim var höfðuð 12. og 13. júní 2013. Samkvæmt 4. mgr. 103. gr. laga nr. 161/2002 með síðari breytingum, sbr. 1. mgr. 148. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., er sá frestur 30 mánuðir frá því að slitastjórn sóknaraðila átti þess fyrst kost að gera riftunarkröfu, en fresturinn byrjar þó aldrei að líða fyrr en við lok kröfulýsingarfrests við slit sóknaraðila, sem var 30. desember 2009. Þótt sóknaraðili hafi höfðað mál þetta á hendur Brains Inc. Ltd. og King Street (Europe) LLP innan 30 mánaða frá þeim degi hefur það ekki áhrif á frest til málsóknar á hendur varnaraðilum, sbr. meðal annars dóm Hæstaréttar 7. apríl 2014 í máli nr. 212/2014. Um afmörkun málshöfðunarfrests gagnvart þeim verður að gæta að því að samkvæmt 1. mgr. 148. gr. laga nr. 21/1991 er meginreglan sú að fresturinn tekur að líða þegar kostur hefur gefist á því að gera riftunarkröfu. Sóknaraðili átti ekki kost á að beina riftunarkröfum að varnaraðilum meðan ekkert lá fyrir um að þeir kynnu með réttu að hafa verið eigendur hlutdeildar í skuldabréfunum, sem málið varðar, og þar með viðtakendur greiðslna, sem sóknaraðili leitar riftunar á. Varnaraðilar hafa ekki hnekkt staðhæfingum sóknaraðila um að honum hafi hvorki verið né mátt vera kunnugt um þetta fyrr en áðurgreindar upplýsingar komu fram í greinargerð King Street (Europe) LLP í málinu og bókuninni, sem það félag lagði fram í þinghaldi 19. mars 2013. Til þess verður og að líta að sóknaraðili gat ekki á fyrri stigum fylgt eftir rétti sínum samkvæmt 1. mgr. 82. gr. laga nr. 21/1991 til að krefja Brains Inc. Ltd. eða King Street (Europe) LLP um upplýsingar um viðskiptin, sem hér um ræðir, enda eru úrræði hans í því skyni eftir 2. mgr. 82. gr., sbr. 3. mgr. 81. gr. sömu laga háð því að þeir, sem í hlut eigi, lúti lögsögu íslenskra dómstóla. Að þessu öllu virtu eru ekki efni til að telja frest sóknaraðila samkvæmt 4. mgr. 103. gr. laga nr. 161/2002 til að höfða riftunarmál á hendur varnaraðilum hafa byrjað að líða fyrr en við framlagningu fyrrnefndrar bókunar King Street (Europe) LLP 19. mars 2013. Verða kröfur varnaraðila um frávísun málsins á hendur þeim því ekki teknar til greina á þessum grunni.

Samkvæmt 3. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991 er heimild til sakaraukningar í einkamáli meðal annars háð því skilyrði að það verði ekki metið stefnanda til vanrækslu að hann hafi ekki stefnt nýjum aðila áður en málið var þingfest. Mál þetta, sem upphaflega beindist að eingöngu að Brains Inc. Ltd. og King Street (Europe) LLP, var þingfest 6. september 2012. Samkvæmt áðursögðu hafði sóknaraðili ekki tilefni til að beina dómkröfum sínum að varnaraðilum fyrr en bókun King Street (Europe) LLP hafði verið lögð fram í héraði 19. mars 2013 og eru atvik í máli þessu því með öðrum hætti en í máli nr. 212/2014, sem Hæstiréttur felldi dóm á 7. apríl 2014 og varnaraðilar hafa vísað til í þessu sambandi. Að fram komnum upplýsingum um þátt varnaraðila í atvikum málsins höfðaði sóknaraðili sakaukasökina á hendur þeim án ástæðulauss dráttar. Eru því engin efni til að verða við kröfum varnaraðila um frávísun málsins gagnvart þeim vegna brests á skilyrðum til að höfða sakaukasök.

Samkvæmt framansögðu eru ekki skilyrði til verða við kröfum varnaraðila um að málinu verði vísað frá héraðsdómi að því er þá varðar. Hinn kærði úrskurður verður því felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar.

Rétt er að ákvörðun málskostnaðar í héraði vegna þessa þáttar málsins bíði efnisdóms, en varnaraðilum verður gert að greiða sóknaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar að því er varðar varnaraðila, King Street Capital LP, King Street Capital Ltd., King Street Europe LP og King Street Europe Master Fund Ltd.

Varnaraðilar greiði í sameiningu sóknaraðila, Kaupþingi hf., 350.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 22. maí 2014.

I.

                Mál þetta, sem var tekið til úrskurðar 2. maí sl., að loknum munnlegum málflutningi um frávísunarkröfur þrautavarastefndu í málinu, er höfðað af Kaupþingi hf., Borgartúni 26, Reykjavík, með stefnu áritaðri um birtingu 26. júní 2012, á hendur Brains Inc. Limited, Grenville Court, skráningarnr. 03650951, Britwell Road, Burnham, Buckinghamshire, SL1 8DF, Bretlandi, en til vara með stefnu birtri 27. júní 2012 á hendur King Street (Europe) LLP, skráningarnr. OC313070, Leconfield House, Curzon Street, London W1J 5JA, Bretlandi. 

                Stefnandi stefndi síðan þrautavarastefndu inn í málið með sakaukastefnu sem birt var fyrir þeim dagana 12. og 13. júní 2013, þá aðallega á hendur King Street Capital L.P., c/o King Street Capital Management, L.P., 65 East 55th Street, 30th Floor, New York, New York 10022, en til vara á hendur King Street Capital Ltd., c/o Codan trust Company (B.V.I.) Ltd., Romasco Place, Wickhams Cay 1, P.O. Box 3140, Road Town, Tortola, British Virgin Islands, VG 11 10, King Street Europe L.P., c/o King Street Capital management L.P., 65 East 55th Street, 30th Floor, New York, New york 10022, og King Street Europe Master Fund Ltd., c/o Codan Trust Company (B.V.I.) Ltd., Romasco Place, Wickhams Cay 1, P.O. Box 3140, Road Town, Tortola, British Virgin Islands VG 11 10, en til þautavara á hendur King Street Capital L.P., c/o King Street Caital management L.P., 65 East 55th Street, 30th Floor, New york, New York 10022 fyrir hönd King Street Capital Ltd., King Street Europe L.P. og King Street Europe Master Fund Ltd.

                Á dómþingi 25. nóvember sl. voru málin í frumsök og sakaukasök sameinuð, en í greinargerð sakaukastefndu sem lögð var fram á dómþingi 31. október 2013 voru ekki gerðar athugasemdir við þá kröfu stefnanda að sakaukastefndu hefðu eftirleiðis stöðu þrautavarastefndu í málinu, þannig að King Street Capital L.P. teldist 1. þrautavarastefndi, King Street Capital Ltd., King Street Europe L.P. og King Street Europe Master Fund, Ltd. 2. þrautavarastefndu, og loks væri King Street Capital L.P., fyrir hönd King Street Capital Ltd., King Street Europe L.P. og King Street Master Fund, Ltd. 3. þrautavarastefndi.

                Dómkröfur stefnanda eru aðallega þær að rift verði eftirtöldum greiðslum stefnanda til aðalstefnda, Brains Inc. Limited:

1.            Greiðslu hinn 5. september 2008, að fjárhæð USD 4.326.840,28 (Bandaríkjadollarar), vegna viðskipta dags. 2. september 2008.

2.            Greiðslu hinn 5. september 2008, að fjárhæð USD 2.603.604,17 (Bandaríkjadollarar), vegna viðskipta dags. 2. september 2008.

3.            Greiðslu hinn 12. september 2008, að fjárhæð USD 4.363.680,56 (Bandaríkjadollarar), vegna viðskipta dags. 9. september 2008.

4.            Greiðslu hinn 5. september 2008, að fjárhæð USD 1.715.736,11 (Bandaríkjadollarar), vegna viðskipta dags. 2. september 2008.

                Þess er krafist að aðalstefndi, Brains Inc. Limited, greiði stefnanda 13.009.861,12 Bandaríkjadollara, með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá 23. maí 2012 til greiðsludags.

                Þá er þess krafist að aðalstefnda verði gert að greiða stefnanda málskostnað samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi eða mati réttarins.

                Verði aðalstefnda ekki gert að þola dóm í málinu eru gerðar eftirfarandi kröfur á hendur varastefnda:

                Að rift verði eftirtöldum greiðslum stefnanda til varastefnda, King Street (Europe) LLP:

  1. Greiðslu hinn 5. september 2008, að fjárhæð 4.326.840,28 Bandaríkjadollarar, vegna viðskipta dags. 2. september 2008.
  2. Greiðslu hinn 5. september 2008, að fjárhæð 2.603.604,17 Bandaríkjadollarar, vegna viðskipta dags. 2. september 2008.
  3. Greiðslu hinn 12. september 2008, að fjárhæð 4.363.680,56 Bandaríkjadollarar, vegna viðskipta dags. 9. september 2008.
  4. Greiðslu hinn 5. september 2008, að fjárhæð 1.715.736,11 Bandaríkjadollarar, vegna viðskipta dags. 2. september 2008.

                Að varastefndi greiði stefnanda 13.009.861,12 Bandaríkjadollara með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/200 um vexti og verðtryggingu, frá málshöfðunardegi til greiðsludags. Þá er þess krafist að varastefnda verði gert að greiða stefnanda málskostnað samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi eða mati réttarins.

                Verði hvorki aðalstefnda né varastefnda gert að þola dóm í málinu er gerð eftirfarandi krafa í þrautavaraaðild:  

Stefnandi krefst þess í fyrsta lagi að rift verði eftirtöldum ráðstöfunum stefnanda til þrautavarastefnda, King Street Capital L.P.:

1.            Greiðslu hinn 5. september 2008, að fjárhæð USD 4.326.840,28 (Bandaríkjadollarar), vegna viðskipta dags. 2. september 2008.

2.            Greiðslu hinn 5. september 2008, að fjárhæð USD 2.603.604,17 (Bandaríkjadollarar), vegna viðskipta dags. 2. september 2008.

3.            Greiðslu hinn 12. september 2008, að fjárhæð USD 4.363.680,56 (Bandaríkjadollarar), vegna viðskipta dags. 9. september 2008.

4.            Greiðslu hinn 5. september 2008, að fjárhæð USD 1.715.736,11 (Bandaríkjadollarar), vegna viðskipta dags. 2. september 2008.

                Í öðru lagi krefst stefnandi þess að þrautavarastefndi, King Street Capital L.P., greiði stefnanda USD 13.009.861,12 (Bandaríkjadollara) með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá málshöfðunardegi sakauka til greiðsludags.

                Í þriðja lagi er þess krafist að þrautavarastefnda, King Street Capital L.P. verði gert að greiða stefnanda málskostnað samkvæmt síðar fram lögðum málskostnaðarreikningi eða mati réttarins.

                Að því marki sem þrautavarastefnda verður ekki gert að þola dóm fyrir heildarfjárhæð þrautavarakröfu er gerð eftirfarandi krafa í 2. þrautavaraaðild:

I.             Þess er krafist að rift verði eftirtöldum greiðslum stefnanda til 2. þrautavarastefnda, King Street Capital Ltd.:

1.            Greiðslu hinn 5. september 2008, að fjárhæð USD 2.655.814,56 (Bandaríkjadollarar), vegna viðskipta dags. 2. september 2008.

2.            Greiðslu hinn 5. september 2008, að fjárhæð USD 1.597.745,09 (Bandaríkjadollarar), vegna viðskipta dags. 2. september 2008.

3.            Greiðslu hinn 12. september 2008, að fjárhæð USD 2.678.427,13 (Bandaríkjadollarar), vegna viðskipta dags. 9. september 2008.

4.            Greiðslu hinn 5. september 2008, að fjárhæð USD 1.053.461,97 (Bandaríkjadollarar), vegna viðskipta dags. 2. september 2008.

                Þess er krafist að 2. þrautavarastefndi, King Street Capital Ltd. greiði stefnanda USD 7.985.448,76 (Bandaríkjadollara) með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá málshöfðunardegi sakauka til greiðsludags.

                Þá er þess krafist að 2. þrautavarastefnda, King Street Capital Ltd. verði gert að greiða stefnanda málskostnað samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi eða mati réttarins.

II.           Þess er krafist að rift verði eftirtöldum greiðslum stefnanda til 2. þrautavarastefnda, King Street Europe L.P:

1.            Greiðslu hinn 5. september 2008, að fjárhæð USD 212.880,54 (Bandaríkjadollarar), vegna viðskipta dags. 2. september 2008.

2.            Greiðslu hinn 5. september 2008, að fjárhæð USD 128.444,47 (Bandaríkjadollarar), vegna viðskipta dags. 2. september 2008.

3.            Greiðslu hinn 12. september 2008, að fjárhæð USD 214.693,08 (Bandaríkjadollarar), vegna viðskipta dags. 9. september 2008.

4.            Greiðslu hinn 5. september 2008, að fjárhæð USD 84.071,07 (Bandaríkjadollarar), vegna viðskipta dags. 2. september 2008.

Þess er krafist að 2. þrautavarastefndi King Street Europe L.P. greiði stefnanda USD 640.089,17 (Bandaríkjadollara) með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá málshöfðunardegi sakauka til greiðsludags.

                Þá er þess krafist að 2. þrautavarastefnda, King Street Europe L.P., verði gert að greiða stefnanda málskostnað samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi eða mati réttarins.

III.         Þess er krafist að rift verði eftirtöldum greiðslum stefnanda til 2. þrautavarastefnda, King Street Europe Master Fund Ltd:

1.            Greiðslu hinn 5. september 2008, að fjárhæð USD 494.990,53 (Bandaríkjadollarar), vegna viðskipta dags. 2. september 2008.

2.            Greiðslu hinn 5. september 2008, að fjárhæð USD 297.678,74 (Bandaríkjadollarar), vegna viðskipta dags. 2. september 2008.

3.            Greiðslu hinn 12. september 2008, að fjárhæð USD 499.205,06 (Bandaríkjadollarar), vegna viðskipta dags. 9. september 2008.

4.            Greiðslu hinn 5. september 2008, að fjárhæð USD 196.451,78 (Bandaríkjadollarar), vegna viðskipta dags. 2. september 2008.

Þess er krafist að 2. þrautavarastefndi, King Street Europe Master Fund Ltd. greiði stefnanda USD 1.488.326,11 (Bandaríkjadollara) með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá málshöfðunardegi sakauka til greiðsludags.

                Þá er þess krafist að 2. þrautavarastefnda, King Street Europe Master Fund Ltd. verði gert að greiða stefnanda málskostnað samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi eða mati réttarins.

                Að því marki sem þrautavarastefnda verður ekki gert að þola dóm fyrir heildarfjárhæð þrautavarakröfu og 2. þrautavarastefndu verður ekki gert að þola dóm í málinu er gerð eftirfarandi krafa í 3. þrautavaraaðild:

                Þess er krafist að rift verði eftirtöldum greiðslum stefnanda til 3. þrautavarastefnda, King Street Capital, L.P. fyrir hönd King Street Capital, Ltd., King Street Europe, L.P. og King Street Europe Master Fund, Ltd.:

1.            Greiðslu hinn 5. september 2008, að fjárhæð USD 3.363.685,63 (Bandaríkjadollarar), vegna viðskipta dags. 2. september 2008.

2.            Greiðslu hinn 5. september 2008, að fjárhæð USD 2.023.868,31 (Bandaríkjadollarar), vegna viðskipta dags. 2. september 2008.

3.            Greiðslu hinn 12. september 2008, að fjárhæð USD 3.392.325,27 (Bandaríkjadollarar), vegna viðskipta dags. 9. september 2008.

4.            Greiðslu hinn 5. september 2008, að fjárhæð USD 1.333.984,83 (Bandaríkjadollarar), vegna viðskipta dags. 2. september 2008.

                Þess er krafist að 3. þrautavarastefndi, King Street Capital L.P., fyrir hönd King Street Capital Ltd., King Street Europe L.P. og King Street Europe Master Fund Ltd., greiði stefnanda USD 10.113.864,03 (Bandaríkjadollara) með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá málshöfðunardegi sakauka til greiðsludags.

                Þá er þess krafist að 3. þrautavarastefnda, King Street Capital L.P., fyrir hönd King Street Capital Ltd., King Street Europe L.P. og King Street Europe Master Fund Ltd., verði gert að greiða stefnanda málskostnað samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi eða mati réttarins.

Af hálfu aðalstefnda, Brains Inc. Limited, er þess aðallega krafist að dómkröfum stefnanda verði vísað frá dómi, til vara er krafist sýknu af öllum dómkröfum stefnanda og til þrautavara krefst aðalstefndi stórfelldrar lækkunar á greiðslukröfu stefnanda. Í öllum tilvikum er þess krafist að aðalstefnda verði dæmdur málskostnaður úr hendi stefnanda að skaðlausu samkvæmt mati dómsins eða samkvæmt framlögðu málskostnaðaryfirliti, auk virðisaukaskatts á málflutningsþóknun.

Varastefndi, King Street (Europe) LLP, gerir þær dómkröfur, aðallega að dómkröfum stefnanda verði vísað frá dómi, en til vara er krafist sýknu af öllum kröfum stefnanda og til þrautavara að kröfur stefnanda verði lækkaðar. Í öllum tilvikum krefst varastefndi þess að sér verði dæmdur málskostnaður úr hendi stefnanda að mati dómsins eða samkvæmt málskostnaðaryfirliti, auk virðisaukaskatts á málflutningsþóknun.

Þrautavarastefndu King Street Capital L.P., King street Capital Ltd., King Street Europe L.P., King Street Europe Master Fund Ltd., og King Street Capital L.P., fyrir hönd King Street Capital Ltd., King Street Europe L.P. og King Street Master Fund Ltd., krefjast þess aðallega, að kröfum stefnanda á hendur þrautavarastefndu verði vísað frá héraðsdómi, til vara að þrautavarastefndu verði sýknaðir af öllum kröfum stefnanda, en til þrautavara að kröfur stefnanda verði lækkaðar.

                Í öllum tilvikum er þess krafist að þrautavarastefndu verði tildæmdur málskostnaður úr hendi stefnanda að mati dómsins eða samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi. Gerð er krafa um að við ákvörðun málskostaðar verði tekið tillit til þess að þrautavarastefndu eru ekki virðisaukaskattsskyldir hér á landi.

                Málið var flutt 2. maí sl. um kröfu þrautavarastefndu um frávísun málsins á hendur þeim og er einungis sá þáttur þess til úrlausnar hér. Stefnandi krefst þess að frávísunarkröfu þrautavarastefndu verði hafnað og að ákvörðun um málskostnað verði látin bíða efnisdóms.

II.

                Málið varðar uppgreiðslur stefnanda á skuldabréfum sem stefnandi gaf út og áttu sér stað í september 2008. Í fyrsta lagi er um að ræða greiðslu 9. september 2008, þar sem uppgjörsdagur var 12. s.m., að fjárhæð 4.363.680,56 Bandaríkjadollarar, en nafnvirði var 5.000.000,00 Bandaríkjadollarar miðað við gjalddaga 4. október 2011. Í öðru lagi greiðslu 2. september 2008, þar sem uppgjörsdagur var 5. s.m., að fjárhæð 2.603.604.17 Bandaríkjadollarar, en nafnvirði var 3.000.000,00 Bandaríkjadollarar miðað við gjalddaga 4. október 2011. Í þriðja lagi greiðslu 2. september 2008, þar sem uppgjörsdagur var 5. s.m., að fjárhæð 4.326.840.28 Bandaríkjadollarar, en nafnvirði var 5.000.000,00 Bandaríkjadollarar miðað við gjalddaga 4. október 2011. Í fjórða lagi greiðslu 2. september 2008, þar sem uppgjörsdagur var 5. s.m., að fjárhæð 1.715.736,11 Bandaríkjadollarar, en nafnvirði var 2.000.000,00 Bandaríkjadollarar miðað við gjalddaga 4. október 2011. Forsagan er sú að 26. apríl 2006 fékk stefnandi skráða útboðslýsingu (e. offering circular) vegna skuldabréfaútgáfu upp á 10 milljarða Bandaríkjadollara, en 27. september og 5. október 2006 gaf stefnandi út verðviðauka (e. pricing supplement) vegna skuldabréfa að nafnvirði 1.5 milljarðar Bandaríkja- dollara í tengslum við útboðslýsinguna miðað við gjalddaga 4. október 2011.

                Stefnandi höfðaði fyrst málið á hendur aðalstefnda Brains Inc. Ltd., og varastefnda King Street LLP, með stefnu sem þingfest var 6. september 2012 og gerði þá áðurgreindar riftunar- og endurgreiðslukröfur á hendur aðalstefnda og varastefnda vegna ofangreindra viðskipta. Er þar miðað við að aðalstefndi hafi verið milligönguaðili fyrir varastefnda í þeim viðskiptum sem stefnandi krefst riftunar á. Í greinargerð varastefnda hafi hins vegar verið upplýst, að væri aðalstefndi ekki réttur aðili að málinu, þá hafi viðsemjandi aðalstefnda ekki verið varastefndi heldur félagið King Street Capital L.P. og að umræddir hagsmunir hafi verið í eigu fjögurra King Street sjóða, þ.e. framangreinds King Street Capital L.P., sem og sjóðanna King Street Capital Ltd., King Street Europe L.P. og King Street Europe Master Fund Ltd.             Í ljósi þessa beindi stefnandi einnig ofangreindum kröfum í málinu að þessum aðilum með sakaukastefnu sem þingfest var 5. september 2013 og hafa þessir aðilar, svo sem að ofan greinir, fengið stöðu þrautavarastefndu í málinu í þeirri röð sem áður var lýst.

                Eins og rakið er í stefnu og sakaukastefnu sagði stjórn stefnanda af sér 8. október 2008. Daginn eftir neytti Fjármálaeftirlitið heimildar í 100. gr. a í lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008, til að taka yfir vald hluthafafundar í stefnanda og setja yfir hann skilanefnd. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 24. nóvember 2008 var stefnanda veitt heimild til greiðslustöðvunar sem var framlengd með úrskurði 13. nóvember 2009. Lögum nr. 161/2002 var breytt með lögum nr. 44/2009 sem tóku gildi 22. apríl 2009. Hinn 25. maí 2009 var stefnanda skipuð slitastjórn á grundvelli ákvæðis II til bráðabirgða í lögum nr. 44/2009. Slitastjórn gaf út innköllun til kröfuhafa 6. júlí 2009 og frestdagur við slitameðferð stefnanda er 15. nóvember 2008. Við það sé miðað að upphafsdagur slitameðferðar sé gildistökudagur laga nr. 44/2009. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 22. nóvember 2010 mun stefnandi hafa verið tekinn til formlegrar slitameðferðar.

III.

1.            Helstu málsástæður og lagarök stefnanda

                Stefnandi byggir á því, að í fyrsta lagi sé um að ræða riftunar- og endurgreiðslukröfu vegna greiðslnanna 5. og 12. september 2008, og sé kröfu um greiðslu beint að aðalstefnda, Brains Inc. Limited. Í öðru lagi sé riftunar- og endurgreiðslukröfu vegna sömu ráðstafana beint að varastefnda, King Street (Europe) LLP, ef aðalstefnda skyldi ekki verða gert að þola dóm í málinu. Í þriðja lagi sé riftunar- og endurgreiðslukröfu vegna sömu ráðstafana beint að þrautavarastefnda, King Street Capital, L.P., ef hvorki aðalstefnda né varastefnda verði gert að þola dóm. Í fjórða lagi sé riftunar- og endurgreiðslukröfu vegna sömu ráðstafana beint hlutfallslega að 2. þrautavarastefndu, King Street Capital Ltd., King Street Europe L.P. og King Street Europe Master Fund Ltd., verði þrautavarastefnda ekki gert að þola dóm fyrir heildarkröfufjárhæð í þrautavarasök. Í fimmta lagi sé svo riftunar- og endurgreiðslukröfu beint að 3. þrautavarastefnda, King Street Capital L.P. fyrir hönd King Street Capital Ltd., King Street Europe L.P. og King Street Europe Master Fund Ltd., verði þrautavarastefnda ekki gert að þola dóm fyrir heildarkröfufjárhæð í þrautavarasök og 2. þrautavarastefndu ekki gert að þola dóm í málinu í eigin nafni.

                Fjallað sé frekar um málsástæður og lagarök á hendur aðal- og varastefnda í stefnu í frumsök. Eins og þar sé lýst hafi aðalstefndi, Brains Inc. Limited, verið móttakandi greiðslna frá stefnanda og hafi stefnandi því talið riftun og kröfu um greiðslu réttilega beint að honum þar til sýnt yrði fram á annað. Í varasök hafi verið á því byggt að aðalstefndi hafi verið milligönguaðili fyrir varastefnda, King Street LLP og varastefndi því verið raunverulegi rétthafi bréfanna og móttakandi greiðslnanna í málinu. Með sömu málsástæðum og lagarökum sé á því byggt í þrautavarasök að þrautavarastefndi hafi verið raunverulegur rétthafi bréfanna og móttakandi heildar- greiðslunnar í málinu. Því sé King Street Capital L.P. stefnt sem þrautavaraaðila, fari svo að hvorki aðalstefnda né varastefnda verði gert að þola dóm. Aðild þrauta- varastefnda byggi á því að hann hafi verið móðursjóður hinna þriggja King Street sjóðanna. King Street sjóðirnir hafi svo verið fylgisjóðir móðursjóðsins og átt hlutdeild í honum og því hafi þeir óbeint, í gegnum móðursjóðinn, átt hlutdeild í þeim fjárfestingum sem fjallað sé um í málinu. Þannig sé byggt á því í þrautavarasök að King Street Capital L.P. hafi verið rétthafi þeirra greiðslna sem málið lúti að og því sé riftunar- og endurgreiðslukröfu réttilega beint að honum. Verði ekki talið að þrauta- varastefndi hafi verið móðursjóður hinna King Street sjóðanna sé á því byggt að hann hafi í eigin nafni verið rétthafi og móttakandi hluta greiðslunnar frá stefnanda. Málsástæður og lagarök gagnvart öllum þrautavarastefndu séu að flestu leyti þau sömu. 

                Stefnandi sé fjármálafyrirtæki í slitameðferð, en 8. október 2008 hafi stjórn stefnanda sagt af sér og 9. október 2008 hafi Fjármálaeftirlitið neytt heimildar í 100. gr. a. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008, til að taka yfir vald hluthafafundar í stefnanda og setja yfir hann skilanefnd. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 24. nóvember 2008 hafi stefnanda verið veitt heimild til greiðslustöðvunar sem framlengd var með úrskurði héraðsdóms 13. nóvember 2009. Hafi lögum nr. 161/2002 verið breytt með lögum nr. 44/2009 sem tekið hafi gildi 22. apríl 2009. Þann 25. maí 2009 hafi stefnanda verið skipuð slitastjórn á grundvelli ákvæðis II til bráðabirgða í lögum nr. 44/2009 og hún gefið út innköllun til kröfuhafa 6. júlí 2009. Frestdagur við slitameðferð sé 15. nóvember 2008 en upphafsdagur kröfumeðferðar miðist við 22. apríl 2009. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 22. nóvember 2010 hafi stefnandi verið tekinn til formlegrar slitameðferðar. Samkvæmt 4. mgr. 103. gr. laga nr. 161/2002, sbr. 7. gr. laga nr. 44/2009, megi við slitameðferð stefnanda krefjast riftunar eftir sömu reglum og gildi um riftun ráðstafana við gjaldþrotaskipti. Gildi öll ákvæði XX. kafla laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., við slitameðferðina með sama hætti og við hefðbundin gjaldþrotaskipti.

                Riftunarkröfur gagnvart stefndu byggi á því að greitt hafi verið fyrr en eðlilegt geti talist og greiðslurnar því riftanlegar samkvæmt 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Greiðslurnar fjórar sem um ræðir hafi átt sér stað 5. og 12. september 2008 sem sé innan sex mánaða fyrir frestdag 15. nóvember 2008. Þær hafi allar átt sér stað fyrir tilgreindan gjalddaga, 4. október 2011, en skuld sem greidd sé fyrir gjalddaga teljist almennt hafa verið greidd fyrr en eðlilegt sé. Ljóst sé eftir að stefnandi hafi verið tekinn til slitameðferðar að ef ekki hefði komið til þessara greiðslna hefðu stefndu ekki fengið kröfurnar greiddar á gjalddaga heldur aðeins eignast kröfur við slitameðferð stefnanda en greiðslurnar til stefndu raski jafnræði kröfuhafa. Ekki sé sýnt að greiðslurnar hafi verið eðlilegar en sönnunarbyrði um slíkt hvíli á stefndu. Stefnandi kveður fjárkröfu reista á 142. gr., sbr. 143. gr. laga nr. 21./1991 en greiðslurnar hafi orðið til þess að stefndu hafi auðgast um þá fjármuni. 

                Stefnanda hafi verið skipuð slitastjórn 25. maí 2009 sem gefið hafi út innköllun til kröfuhafa 6. júlí 2009. Kröfulýsingarfresti hafi verið lokið 30. desember 2009. Í 148. gr. laga nr. 21/1991 sé kveðið á um frest til að höfða riftunarmál samkvæmt lögunum. Samkvæmt ákvæðinu gildi sex mánaða málshöfðunarfrestur frá því skiptastjóri átti þess kost að gera riftunarkröfu. Fresturinn byrji þó aldrei að líða fyrr en við lok kröfulýsingarfrests. Samkvæmt 4. mgr. 103. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki megi krefjast riftunar eftir sömu reglum og gildi um riftun ráðstafana við gjaldþrotaskipti. Gildi þá öll ákvæði XX. kafla laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991 við slitameðferðina með sama hætti og við gjaldþrotaskipti almennt, en þó þannig að frestur til að höfða riftunarmál skv. 1. mgr. 148. gr. laga nr. 21/1991 skuli þá vera 30 mánuðir í stað sex, sbr. 1. gr. laga nr. 146/2011.

                Málshöfðunarfrestur stefnanda til að höfða riftunarmál í frumsök hafi í fyrsta lagi runnið út 30. júní 2012. Þar sem málshöfðun frumsakar hafi verið innan þeirra marka sem kveðið sé á um í 148. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 4. mgr. 103. gr. laga nr. 161/2002, teljist málið í heild höfðað innan málshöfðunarfrests og skipti ekki máli þótt fleiri aðilum hafi verið bætt við málið með sakaraukningu. Sakaukastefnan hafi verið gefin út svo fljótt sem auðið var eftir að skýringar hafi komið fram af hálfu varastefnda um þann aðila sem hann teldi réttan málsaðila væri það ekki aðalstefndi.

                Verði ekki fallist á að sakaraukning miðist við málshöfðun frumsakar verði að líta svo á að málshöfðunarfrestur sakaraukningar hafi ekki byrjað að líða fyrr en fullnægjandi upplýsingar hafi komið fram um réttan aðila, sbr. einnig. 148. gr. laga nr. 21/1991, enda hafi það í fyrsta lagi verið eftir að stefnandi hafi fengið upplýsingar í greinargerð aðalstefnda sem hann hafi átt þess kost að gera riftunarkröfuna á hendur þrautavarastefndu í skilningi ákvæðisins. Greinargerð varastefnda hafi verið lögð fram 18. desember 2012 og hafi 6 mánaða frestur samkvæmt 148. gr. laga nr. 21/1991 því ekki verið útrunninn þegar sakaukastefnan hafi verið útgefin.

                Þá bendi stefnandi á að aðalstefndi hafi veitt stefnanda upplýsingar um að gagnaðili sinn í viðskiptunum hafi verið varastefndi og tilkynnt um leið varastefnda um það. En þrátt fyrir að það lægi þá fyrir hafi varastefndi ekki upplýst stefnanda um þann aðila sem hann teldi réttan aðila að viðskiptunum, væri það ekki aðalstefndi, fyrr en með framlagningu á greinargerð sinni. Það færi gegn öllum sanngirnissjónarmiðum að láta stefnanda bera hallann af því að frumstefndu hafi þráast við að veita upplýsingar um ætlaðan gagnaðila viðskiptanna fyrir málshöfðun stefnanda með frumstefnu.

                Þá byggir stefnandi á því að vegna tengsla allra þrautavarastefndu við stefndu í frumsök hafi þrautavarastefndu vitað eða mátt vita af málshöfðun í frumsök allt frá upphafi hennar. Tilgangi málshöfðunarfrestsins, sem sé að koma í veg fyrir óvissu riftunarþola um hvort stefnandi uni ráðstöfun þeirri sem um sé deilt, hafi því verið náð með hinni upphaflegu málshöfðun. Þá þegar hafi þrautavarastefndu mátt vita að stefnandi myndi ekki una við ráðstöfunina. Hefðu upplýsingarnar í greinargerð varastefnda borist fyrr í samræmi við beiðnir stefnanda til aðalstefnda þar að lútandi hefði þrautavarastefndu verið stefnt í upphafi og þeir máttu því vita að málshöfðun þessi myndi beinast að þeim um leið og fullnægjandi upplýsingar lægju fyrir.

                Byggt sé á því að sakaukastefnan í málinu eigi stoð í 3. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.  

                Samkvæmt 4. mgr. 103. gr. laga nr. 161/2002, sbr. 2. gr. laga nr. 146/2011, skuli riftunarmál sem slitastjórn fjármálafyrirtækis höfði þingfest fyrir héraðsdómi þar sem fjármálafyrirtæki hafi verið tekið til slita samkvæmt 3. og 4. mgr. 101. gr. laga nr. 161/2002. Stefnandi hafi verið tekinn til slita með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur.

2.            Helstu málsástæður og lagarök þrautavarastefndu

                Eins og skýrðist frekar við málflutning þá byggja þrautavarastefndu frávísunarkröfu sína í megindráttum á þremur málsástæðum:

                Í fyrsta lagi byggir frávísunarkrafa þrautavarastefndu á því að málið á hendur þeim hafi ekki verið höfðað fyrr en að liðnum málshöfðunarfresti. Í 1. mgr. 148. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. komi fram að ef höfða þarf dómsmál til að koma fram riftun skuli það gert áður en sex mánuðir séu liðnir frá því að skiptastjóri átti þess kost að gera riftunarkröfuna. Frestur þessi byrji þó aldrei að líða fyrr en við lok kröfulýsingarfrests. Með 4. mgr. 103. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki hafi málshöfðunarfrestur þessi verið lengdur í 30 mánuði. Af ákvæðunum sé ljóst að málshöfðunarfrestur byrji að líða annað hvort við lok kröfulýsingarfrests eða þegar slitastjórn átti þess fyrst kost að gera riftunarkröfu. Fresturinn sem hefjist við lok kröfulýsingarfrests sé hinn almenni málshöfðunarfrestur og beri almennt að miða upphaf málshöfðunarfrests við það tímamark, enda sé þar um að ræða tiltekinn dag sem sé þekktur og óumdeildur. Hinn almenni málshöfðunarfrestur gjaldþrotalaga sé ákvarðaður með tilliti til hagsmuna viðsemjanda þrotamanns og öryggis viðskiptalífs. Fresturinn sé þannig öðru fremur settur til að koma í veg fyrir óvissu viðsemjanda þrotabús um það hvort þrotabúið muni una við ráðstöfun fyrir upphaf gjaldþrotaskipta. Almennt sé viðurkennt að mikið þurfi til að koma til að málshöfðunarfrestur telji frá síðara tímamarki en lokum kröfulýsingarfrests. Kröfulýsingarfresti stefnanda hafi lokið 30. desember 2009. Málshöfðunarfresti sem hefjist við lok kröfulýsingarfrests hafi því lokið 30. júní 2012. Sakaukastefna hafi verið birt sakaukastefndu um ári síðar, í júní 2013. Hinn almenni málshöfðunarfrestur hafi því verið liðinn og beri af þeim sökum að vísa málinu frá dómi. Í stefnu sé byggt á því að málið í heild teljist hafa verið höfðað innan málshöfðunarfrests þar sem málshöfðun frumsakar hafi verið innan hins almenna málshöfðunarfrests og ekki skipti máli þótt fleiri aðilum hafi verið bætt inn í málið síðar með sakaraukningu. Þessari málsástæðu stefnanda sé alfarið hafnað enda fáist ekki séð á hvaða lagagrundvelli hún byggist. Málshöfðunarfresti í riftunarmálum sé fyrst og fremst ætlað að vernda hagsmuni viðsemjanda og öryggi viðskiptalífs þannig að aðilar geti átt í viðskiptum á markaði án þess að eiga á hættu að greiðslum vegna viðskipta verði rift löngu síðar. Engin lagarök leiði til þess að hagsmunir þrautavarastefndu hvað þetta varði séu ekki jafn miklir og hagsmunir aðila í frumsök. Þá hafni þrautavarastefndu því að skilyrði séu uppfyllt svo að sú undantekningarregla eigi við að málshöfðunarfrestur geti miðað við seinna tímamark. Sönnunarbyrði fyrir því að skilyrðum fyrir beitingu slíkrar undantekningarreglu sé fullnægt liggi alfarið hjá stefnanda. Að mati þrautavarastefndu hafi stefnandi ekki sýnt fram á að hann hafi ekki átt þess kost að gera riftunarkröfuna fyrr, þ.e. að honum hafi ekki verið unnt að afla nauðsynlegra gagna til að taka ákvörðun um málssókn á hendur þrautavarastefndu fyrr. Á slitastjórn stefnanda hvíldi skylda til að að kynna sér bókhaldsgögn búsins strax eftir skipun hennar í apríl 2009. Af viðskiptanótum er varði viðskipti málsins hafi mátt sjá að stefnanda hafi átt að vera ljóst þegar í upphafi að stefnandi hafi átt í umræddum viðskiptum við aðalstefnda í september 2008. Það hafi hins vegar ekki verið fyrr en rúmum tveimur og hálfu ári síðar, eða í desember 2011, að stefnandi byrjaði að leita eftir upplýsingum frá aðalstefnda um hvort aðrir en aðalstefndi hefðu komið að umræddum viðskiptum. Stefnandi hafi með engu móti skýrt af hverju hann greip ekki til aðgerða fyrr til að afla sér upplýsinga um viðskiptin. Bréfaskriftir hafi átt sér stað milli stefnanda og aðalstefnda frá desember 2011 og til 1. febrúar 2012 en af þeim megi vera ljóst að aðalstefndi taldi sig ekki geta upplýst hverjir hefðu verið viðsemjendur hans í umræddum viðskiptum. Í apríl 2012, aðeins tveimur mánuðum áður en hinn almenni málshöfðunarfrestur hafi liðið undir lok, hafi stefnandi birt riftunaryfirlýsingu gagnvart aðalstefnda. Í kjölfarið, í júní 2012, hafi aðalstefndi upplýst að meintur viðsemjandi hans hafi verið varastefndi. Á engum tímapunkti hafi stefnandi haft samband við varastefnda til að spyrjast fyrir um hvort hann teldi sig réttan aðila að viðskiptunum. Það hafi fyrst verið með birtingu stefnu í frumsök að varastefndi hafi fengið upplýsingar um málareksturinn og hafi hann þá upplýst við fyrsta tækifæri, þ.e. í greinargerð sinni, hverjir eigendur hagsmunanna hafi verið og hverjir hefðu verið viðsemjendur aðalstefnda. Stefnandi hafi með engu móti skýrt af hverju stefnandi hafi ekki gert reka að því að afla frekari upplýsinga um viðskiptin frá varastefnda þegar stefnandi hafi fengið upplýsingar um mögulega aðkomu varastefnda að viðskiptunum frá aðalstefnda í júní 2012. Verði því ekki séð að stefnanda hafi tekist að sanna að skilyrði séu uppfyllt svo að hægt sé að miða málshöfðunarfrest við síðara tímamark en lok kröfulýsingarfrests. Hefði stefnandi brugðist skjótt við og nýtt þau úrræði sem honum hafi staðið til boða, t.a.m. samkvæmt breskum lögum til að afla sér upplýsinga um hvaða aðilar hafi komið að umræddum viðskiptum, hefði stefnandi átt möguleika á að gera riftunarkröfu innan hins almenna málshöfðunarfrests. Sú ákvörðun stefnanda að hefjast ekki handa um að leita eftir upplýsingum fyrr en í desember 2011 og sú ákvörðun hans að beina riftunaryfirlýsingum sínum í upphafi að öðrum aðilum en þrautavarastefndu sé ekki á þeirra ábyrgð heldur verði stefnandi að bera hallann af því. Á engum tíma hafi varastefndi eða þrautavarastefndu leitast við að leyna því gagnvart stefnanda að sakaukastefndu hefðu verið eigendur hagsmunanna og viðsemjendur aðalstefnda. Þeirri fullyrðingu stefnanda að hann hafi gert allt sem í hans valdi stóð til að afla gagna um réttan aðila í málinu fyrir málshöfðun á hendur aðalstefnda og varastefnda sé því alfarið hafnað. Ef fallist yrði á að fresturinn hafi byrjað að líða í desember 2012 myndi það hafa í för með sér að fresturinn rynni ekki út fyrr en um mitt ár 2015, vegna viðskipta sem áttu sér stað árið 2008. Slík niðurstaða myndi hafa í för með sér mikla röskun á jafnræði kröfuhafa og færi gegn hagsmunum viðsemjanda og öryggi viðskiptalífs sem riftunarreglunum væri ætlað að tryggja. Fimm ár séu liðin síðan viðskiptin áttu sér stað og þrautavarastefndu hafi aldrei haft vitneskju um mögulegar kröfur stefnanda á hendur þeim öll þessi ár, þar sem stefnandi setti sig ekki í samband við þá fyrr en með útgáfu sakaukastefnu. Það væri því mjög ósanngjarnt og íþyngjandi, og myndi raska jafnvægi aðila með alvarlegum hætti, yrði stefnanda talið heimilt að koma að riftunarkröfu sinni gegn sakaukastefndu nú. Í því sambandi ber sérstaklega að hafa í huga að fjárfestar þrautavarastefndu eru allt aðrir nú en þeir voru á þeim tíma þegar viðskiptin áttu sér stað og máttu með engu móti búast við riftunarkröfu frá stefnanda í tengslum við umrædd viðskipti þetta mörgum árum eftir að þau áttu sér stað. Af öllu framangreindu leiði að ekki sé hægt að líta öðruvísi á en svo að mál þetta hafi verið höfðað eftir að málshöfðunarfrestur hafi verið liðinn og því beri að vísa því frá dómi.

                Í öðru lagi byggja þrautavarastefndu frávísunarkröfu sína á því að það verði að meta stefnanda það til vanrækslu að hafa ekki stefnt þrautavarastefndu þá þegar ásamt með aðalstefnda og varastefnda þegar málið var fyrst þingfest í frumsök, með vísan til þess sem að framan greinir varðandi málshöfðunarfrest. Af þeim sökum beri einnig að vísa málinu frá dómi á grundvelli 3. mgr. 19. gr. laga um meðferð einkamála.

                               Í þriðja lagi byggi þrautavarastefndu frávísunarkröfu sína á því að þeir eigi ekki varnarþing hér á landi heldur í Bandaríkjunum þar sem heimilisvarnarþing þeirra sé. Þó svo að íslenskir dómstólar hafi ekki fallist á frávísun á þessum grundvelli í sambærilegum málum sé þessari málsástæðu þó engu að síður haldið fram í þessu máli með vísan til áskilnaðar um kæruskilyrði fyrir Mannréttindadómstól Evrópu.

IV.

Eins og skýrðist frekar við málflutning um frávísunarkröfu þrautavarastefndu þá byggir krafa þeirra um frávísun á þremur málsástæðum: Í fyrsta lagi á því að málið sé höfðað á röngu varnarþingi, í öðru lagi að málið sé ekki höfðað innan tilskilins málshöfðunarfrests og í þriðja lagi á því að ekki hafi verið skilyrði til að höfða málið með sakaukastefnu, sbr. 3. mgr. 19. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Af hálfu stefnanda er öllum framangreindum málsástæðum þrautavarastefndu andmælt.

Af hálfu þrautavarastefndu er í fyrsta lagi byggt á því að þeir eigi ekki varnarþing hér á landi heldur í Bandaríkjunum þar sem heimilisvarnarþing þeirra sé. Við málflutning kom þó fram af hálfu þrautavarastefndu að þar sem íslenskir dómstólar hefðu þegar metið það svo að frávísun á þessum grundvelli ætti ekki við í hliðstæðum tilvikum, sbr. einkum dóma Hæstaréttar Íslands frá 14. maí 2013 í málum nr. 275/2013 og nr. 283/2013, þá væri þessari málsástæðu þó engu að síður haldið hér fram til að fyrirbyggja réttindaafsal í tengslum við kæruskilyrði Mannréttindadómstóls Evrópu.  Í framangreindum dómum Hæstaréttar Íslands kemur efnislega fram, að í 4. mgr. 103 gr. laga nr. 161/2002 sé slitastjórn fjármálafyrirtækis veitt heimild til að krefjast riftunar á ráðstöfunum fyrirtækisins ef ekki er sýnt að eignir þess muni nægja til að efna skuldbindingar þess eftir sömu reglum og gilda um riftun ráðstafana við gjaldþrotaskipti. Samkvæmt þriðja málslið málsgreinarinnar, sem tekinn hafi verið upp í hana með 1. gr. laga nr. 146/2011, skuli mál sem slitastjórn höfðar á grundvelli hennar þingfest fyrir þeim héraðsdómi þar sem fjármálafyrirtæki hafi verið tekið til slita. Að virtu þessu síðasta lagaákvæði, og með hliðsjón af dómi Hæstaréttar 21. september 2012 í máli nr. 485/2012, væri staðfest sú niðurstaða héraðsdóms að reka mætti málið fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Ekki var um það deilt fyrir dómi að málið sem hér um ræðir teldist sambærilegt í þessu tilliti og ber því að hafna frávísunarkröfu þrautavarastefndu á þeim grunni að mál þetta hafi verið höfðað á röngu varnarþingi. 

Í öðru lagi byggja þrautavarastefndu frávísunarkröfu á því að málshöfðunarfrestur til að höfða málið á hendur þeim hafi verið liðinn þegar málið var höfðað.

Hér ber þá að líta til þess að stefnandi höfðar mál þetta á hendur þrautavarastefndu til riftunar á framangreindum greiðslum stefnanda, dags 5. og 12. september 2008, á grundvelli 134. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. og til endurheimtu fjárhæðanna sem stefnandi innti þá af hendi. Stefnandi er fjármálafyrirtæki í slitameðferð. Í 4. mgr. 103. gr. laga nr. 161/2002 er slitastjórn fjármálafyrirtækis veitt heimild til að krefjast riftunar á ráðstöfunum fyrirtækisins ef ekki er sýnt að eignir þess muni nægja til að efna skuldbindingar þess eftir sömu reglum og gilda um riftun ráðstafana við gjaldþotaskipti. Gilda þá öll ákvæði XX. kafla laga nr. 21/1991 við slitameðferðina með sama hætti og við gjaldþrotaskipti en þó þannig að frestur til að höfða riftunarmál samkvæmt 1. mgr. 148. gr. laganna skuli vera 30 mánuðir í stað sex mánaða, sbr. 1. gr. laga nr. 146/2011.

Samkvæmt framansögðu þarf slitastjórn fjármálafyrirtækis að höfða dómsmál til riftunar áður en 30 mánuðir eru liðnir frá því að slitastjórnin átti þess kost að gera riftunarkröfu. Frestur þessi byrjar þó aldrei að líða fyrr en við lok kröfulýsingarfrests, sbr. 2. málslið 1. mgr. 148. gr. laga nr. 21/1991. Eins og rakið hefur verið var slitastjórn stefnanda skipuð 25. maí 2009 og kröfulýsingarfresti lauk 30. desember 2009. Málið var höfðað gegn þrautavarastefndu með sakaukastefnu sem birt var þeim þann 12. og 13. júní 2013, en þá voru ríflega 42 mánuðir liðnir frá lokum kröfulýsingarfrests. Eins og lýst er í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur, sem staðfestur var með vísan til forsendna í dómi Hæstaréttar Íslands frá 7. apríl 2014 í máli nr. 212/2014, verður að miða við að málshöfðunarfrestur gagnvart þrautavarastefndu hafi ekki verið rofinn þegar málið var fyrst höfðað gagnvart aðalstefnda og varastefnda.

Eðli máls samkvæmt var stefnanda ekki mögulegt að höfða mál gegn þrautavarastefndu fyrr en hann vissi hverjir þeir aðilar væru og um tengsl þeirra við viðskiptin sem hér um ræðir. Það eitt leiðir þó að mati dómsins ekki til þess að fresturinn hafi byrjað að líða þegar viðhlítandi upplýsingar fengust um það hverjir þeir væru. Í því efni verður að taka tillit til markmiðs fyrirmæla í 1. mgr. 148. gr. laga nr. 21/1991 um málshöfðunarfrest. Er hann öðrum þræði settur til þess að eyða óvissu viðsemjenda þrotamanns um það hvort þrotabú muni una við ráðstöfun hans fyrir upphaf gjaldþrotaskipta og skapa festu í viðskiptalífinu. Til að gæta þessara hagsmuna miðar ákvæðið að því að hraða því að tekin verði ákvörðun um að höfða mál til að fá umdeildri ráðstöfun rift. Skorti skiptastjóra gögn í upphafi skiptameðferðar til að höfða slíkt mál ber honum að nýta þær heimildir sem hann hefur til að afla þeirra svo fljótt sem verða má. Í því sambandi er á það bent að skiptastjóri hefur samkvæmt 81. og 82. gr. laga nr. 21/1991 allvíðtækar heimildir til þess að afla gagna og upplýsinga í þessu skyni. Samkvæmt 1. mgr. 82. gr. laganna hvílir meðal annars skylda á viðskiptabönkum, sparisjóðum og verðbréfamiðstöðvum, sem og hverjum þeim sem geta haft vitneskju um eignir og skuldir þotabús vegna viðskiptatengsla við þrotamanninn eða af sambærilegum ástæðum, að láta skiptastjóra í té þau gögn um málefni búsins sem hann krefst. Verði viðkomandi ekki við kröfu skiptastjóra um upplýsingar getur hann krafist úrskurðar dómara um hana, sbr. 2. mgr. 82. gr. og 3. mgr. 81. gr. laganna.

Í 148. gr. laga nr. 21/1991 er miðað við að upphaf málshöfðunarfrests í máli af því tagi sem hér um ræðir skuli miða við tilgreint tímabil sem hér eru 30 mánuðir frá því að skiptastjóri átti þess kost að gera riftunarkröfu, sbr. 1. gr. laga nr. 146/2011, en að frestur þessi byrji þó aldrei að líða fyrr en við lok kröfulýsingarfrests. Hvað varðar mögulegt síðara tímamark sem upphaf málshöfðunarfrests, þá virðist hafa verið lagt til grundvallar að miða beri við lok kröfulýsingarfrests, nema þá því aðeins að aðstæður hafi sannanlega verið þær að stefnandi hafi ekki átt þess kost að gera riftunarkröfu á hendur stefnda innan þess tímamarks þar sem fullnægjandi upplýsingar til þess hafi ekki verið honum tiltækar fyrr, en sönnunarbyrði um slíkt hvíli á stefnanda. 

Í máli þessu liggur fyrir að stefnandi varði umtalsverðum tíma við að reyna að greiða úr því hver væri með réttu gagnaðili hans í þeim viðskiptum sem málið snýr að uns hann höfðaði loks málið á hendur þrautavarastefndu. Þá hefur stefnandi vissulega bent á ýmislegt sem útskýrir tafir við að beina kröfum að stefndu í málinu. Þannig er t.d. ljóst að viðskiptanótur sem lágu fyrir um viðskiptin hjá stefnanda frá upphafi virðast a.m.k. í fljótu bragði bera með sér að aðalstefndi hafi verið gagnaðili viðskiptanna. Þá bendir ekkert til þess að stefnandi hafi við upphaf slitameðferðar haft yfir að ráða gögnum eða upplýsingum sem beinlínis tengdu þrautavarastefndu við viðskiptin sem hér um ræðir. Við mat á framvindu málsins verður hins vegar að taka mið af því að það var fyrst í desember 2011 sem stefnandi krafði aðalstefnda upplýsinga um réttan aðila að viðskiptunum væri hann annar en aðalstefndi. Í byrjun júní sendir stefnandi aðalstefnda riftunaryfirlýsingu og var stefna síðan birt aðalstefnda 7. júní 2012, en 27. júní sama árs upplýsir aðalstefndi um þátt varastefnda í viðskiptunum sem þá leiddi til þess að stefnandi gaf á ný út stefnu í málinu á hendur bæði aðalstefnda og varastefnda sem var birt þeim dags 26. og 27. júní 2012. Það var síðan loks í greinargerð 18. desember 2012 sem varastefndi upplýsti um þátt þrautavarastefndu.

Með hliðsjón af framansögðu hefur stefnandi vísað til þess að ómögulegt hafi verið að höfða fyrr mál þetta gegn þrautavarastefndu, og áður en málshöfðunarfrestur sem miðar upphaf við lok kröfulýsingarfrests rann út 30 mánuðum síðar, þar sem ekki hafi legið fyrir upplýsingar um þátt þeirra í gögnum málsins og málshöfðunarfrestur eigi þá ekki að byrja líða fyrr en þær hafi komið fram. Verður hins vegar að fallast á með þrautavarastefndu að slíkt verði að skoðast með hliðsjón af skyldum skiptastjóra til að afla upplýsinga, en ekki sé hægt að leggja til grundvallar að stefnanda hafi verið stætt á að bíða eftir að slíkar upplýsingar kæmu fram af hálfu annarra málsaðila. 

Eins og hér stendur á verður að taka mið af því að um tvö ár liðu frá því að kröfulýsingarfresti lauk og þar til að stefnandi hóf að afla upplýsinga um rétta gagnaðila um þau viðskipti sem hér um ræðir og er með öllu óútskýrt af hálfu stefnanda hvernig sá tími var nýttur með hliðsjón af þeim úrræðum sem skipastjóri hefur almennt tiltæk til að afla upplýsinga. Verður stefnandi með hliðsjón af því að bera halla af því að hafa ekki sýnt fram á að hann hafi ekki haft tök á að greina fyrr stöðu málsins út frá þeim upplýsingum sem hann þó hafði til reiðu áður en sá rúmi málshöfðunarfrestur sem almennt miðar upphaf við lok kröfulýsingarfrests rann út. Hefur stefnanda, að mati dómsins, heldur ekki auðnast að sýna nægilega fram á að þau sjónarmið sem þó kunna að réttlæta frávik frá því að miða upphaf málshöfðunarfrestsins við annað og síðara tímamark en lok kröfulýsingarfrests eigi að koma hér sérstaklega til álita. Telst stefnandi því ekki hafa fært fram viðhlítandi rök fyrir því að atvik málsins séu með þeim hætti að miða beri upphaf málshöfðunarfrestsins við eitthvað annað og síðara tímamark en lok kröfulýsingarfrests. Frestur, skv. 1. mgr. 148. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 4. mgr. 103. gr. laga nr. 161/2002, var því liðinn þegar sakaukastefnan var birt þrautavarastefndu í málinu dags 12. og 13. júní 2013 og verður því að fallast á frávísunarkröfu þrautavarastefndu á þeim grundvelli.

Með hliðsjón af þessari niðurstöðu eru ekki efni til að fjalla sérstaklega um þá málsástæðu þrautavarastefndu að skilyrði 3. mgr. 19. gr. laga nr. 19/1991 til að höfða málið með sakaukastefnu geti ekki talist hafa verið uppfyllt eins og á stóð. 

                 Með vísan til alls ofangreinds ber að vísa máli stefnanda á hendur þrautavarastefndu frá dómi.

                Með vísan til 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 verður stefnanda gert að greiða þrautavarastefndu málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 1.000.000 krónur og er það að teknu tilliti til þess að þrautavarastefndu teljast ekki virðisaukaskattsskyldir aðilar hér á landi.

                Af hálfu stefnanda flutti málið Grímur Sigurðsson, hrl.

                Af hálfu þrautavarastefndu flutti málið Áslaug Björgvinsdóttir hdl.

                Pétur Dam Leifsson, settur héraðsdómari, kveður upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Máli stefnanda, Kaupþings hf., á hendur þrautavarastefndu, King Street Capital L.P., King Street Capital Ltd., King Street Europe L.P., King Street Europe Master Fund Ltd. og King Street Capital L.P., fyrir hönd King Street Capital Ltd., King Street Europe L.P., og King Street Master Fund Ltd., er vísað frá dómi.

Stefnandi greiði þrautavarastefndu 1.000.000 krónur í málskostnað.