Hæstiréttur íslands
Nr. 2020-35
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Kynferðisbrot
- Börn
- Skaðabætur
- Sönnunarmat
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Ingveldur Einarsdóttir og Karl Axelsson.
Með beiðni 4. nóvember 2019 leitar X leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 18. október sama ár í málinu nr. 743/2018: Ákæruvaldið gegn X, á grundvelli 1. mgr., sbr. 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Ákæruvaldið telur ekki efni til að verða við beiðninni.
Með fyrrnefndum dómi Landsréttar var héraðsdómur staðfestur og leyfisbeiðandi sakfelldur fyrir kynferðisbrot gegn sonarsyni sínum með því að hafa ítrekað haft við hann önnur kynferðismök en samræði. Voru brotin talin varða við 1. mgr. 194. gr. og 1. mgr. og 2. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Var refsing leyfisbeiðanda ákveðin fangelsi í þrjú ár og sex mánuði og honum gert að greiða brotaþola miskabætur.
Leyfisbeiðandi telur að skilyrði 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 fyrir veitingu áfrýjunarleyfis séu uppfyllt þar sem málsmeðferð fyrir „héraðsdómi eða Landsrétti“ hafi verið stórlega ábótavant og að dómur Landsréttur sé bersýnilega rangur að efni til. Byggir leyfisbeiðandi meðal annars á því að reglur laga nr. 88/2008 um sönnun hafi ekki verið virtar við meðferð málsins. Vísar hann til þess að um tvo ákæruliði af þremur, liði I og III í ákæru, hafi sakfelling eingöngu verið byggð á framburði drengsins og vætti tilgreinds sálfræðings, jafnvel þar sem frásögn drengsins hafi gengið gegn því sem önnur vitni báru fyrir dómi. Þá vísar leyfisbeiðandi til þess að fyrrnefndur sálfræðingur hafi ekki komið fyrir héraðsdóm til að staðfesta skýrslur sínar og svara spurningum heldur hafi verið tekin af henni símaskýrsla með vísan til 3. mgr. 116. gr. laga nr. 88/2008. Telur leyfisbeiðandi að það hafi gengið freklega gegn fyrrnefndu ákvæði að reisa sakfellingu hans á framburði sálfræðingsins. Í tilvitnuðu ákvæði komi fram að heimildinni um símaskýrslu verði ekki beitt ef ætla megi að úrslit málsins geti ráðist af framburði vitnis og því hafi verið um alvarlegan réttarfarságalla að ræða. Þá hafi einnig verið litið fram hjá vottorðum annarra sérfræðinga um andlega erfiðleika drengsins. Varðandi lið II í ákæru vísar leyfisbeiðandi til þess að sakargiftir hafi eingöngu verið reistar á framburði hans og hafi dómurinn túlkað frásögn hans sem játningu á kynferðislegri áreitni en litið framhjá útskýringum hans á samhengi atburðanna. Að lokum vísar leyfisbeiðandi til þess að ósamræmi sé í dómum Landsréttar og upp sé komið óvissuástand um vægi andsvara ákærðra í kynferðisbrotamálum.
Að virtum gögnum málsins verður ekki séð að það lúti að atriðum sem hafi verulega almenna þýðingu umfram dómsúrlausnir sem áður hafa gengið um sambærileg efni eða að mjög mikilvægt sé af öðrum ástæðum að fá úrlausn Hæstaréttar um þau þannig að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Þá eru ekki efni til að beita heimild 3. málsliðar 4. mgr. sömu lagagreinar í málinu. Niðurstaða Landsréttar um sakfellingu byggir jafnframt fyrst og fremst á mati á sönnunargildi munnlegs framburðar en það mat verður ekki endurskoðað fyrir Hæstarétti, sbr. 5. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Er beiðninni því hafnað.