Hæstiréttur íslands

Mál nr. 287/2003


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gjaldþrotaskipti
  • Réttindaröð
  • Tryggingarbréf
  • Veðréttur


Mánudaginn 1

 

Mánudaginn 1. september 2003.

Nr. 287/2003.

Landsbanki Íslands hf.

(Othar Örn Petersen hrl.)

gegn

þrotabúi Netverks ehf.

(Kristinn Bjarnason hrl.)

 

Kærumál. Gjaldþrotaskipti. Réttindaröð. Tryggingabréf. Veðréttur.

L hf. kærði úrskurð héraðsdóms þar sem hafnað var aðalkröfu hans um viðurkenningu á veðréttindum yfir nánar tilteknum hugverkaréttindum og rekstrartækjum þrotabús N ehf., svo og varakröfu hans um að viðurkennt yrði að hann ætti rétt á að fá úthlutað söluverði samkvæmt tveimur tilgreindum samningum um sölu eigna sinna. Talið var að rekstarveð L hf. vegna rekstrartækjanna væri fallið niður. Þá var ekki fallist á að félagið gæti reist rétt sinn á 33. gr. laga nr. 75/1997 um samningsveð varðandi hugverkaréttindin þar sem þau væru ekki áþreifanleg. Að lokum var talið að þar sem veðrétti L hf. í hugverkaréttindin hefði ekki verið þinglýst hefði veðsetningin ekki gildi gagnvart þrotabúinu. Var öllum kröfum L hf. um sérstaka stöðu krafna hans í þrotabúinu því hafnað.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 10. júlí 2003, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 21. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 26. júní 2003, þar sem hafnað var aðalkröfu sóknaraðila um viðurkenningu á veðréttindum yfir nánar tilteknum hugverkaréttindum og rekstrartækjum varnaraðila, svo og varakröfu hans um að viðurkennt yrði að hann ætti rétt á að fá úthlutað söluverði samkvæmt tveimur tilgreindum samningum, sem varnaraðili gerði 30. ágúst og 5. september 2002 um sölu eigna sinna. Kæruheimild er í 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess að „kröfur hans fyrir héraðsdómi verði teknar til greina“, svo og að sér verði dæmdur málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður.

Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur og sóknaraðila gert að greiða kærumálskostnað.

Með vísan til forsenda hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Landsbanki Íslands hf., greiði varnaraðila, þrotabúi Netverks ehf., 150.000 krónur í kærumálskostnað.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 26. júní 2003.

Sóknaraðili máls þessa er Landsbanki Íslands hf., kt. 550291-2159, Laugavegi 77, Reykjavík.  Varnaraðili er þrotabú Netverks ehf., kt. 670876-0129.

                Málið barst Héraðsdómi Reykjavíkur með bréfi skiptastjóra þrotabús Netverks ehf., dagsettu 30. október 2002.  Það var tekið til úrskurðar 27. maí sl. að loknum munnlegum málflutningi. 

                Sóknaraðili krefst þess aðallega að viðurkennt verði með dómi að hann eigi veðrétt í:

(a) hvers kyns hugverkaréttindum að öllum útgáfum hugbúnaðar sem þróaður hefur verið af Netverki ehf. og seldur undir vöruheitinu Marstar, þar á meðal en ekki takmarkað við frumkóða og viðfangskóða hugbúnaðarins;

(b) hvers kyns hugverkaréttindum að öllum útgáfum hugbúnaðar sem þróaður hefur verið af Netverki ehf, og seldur undir vöruheitinu Fonestar, þar á meðal en ekki takmarkað við frumkóða og viðfangskóða hugbúnaðarins;

(c) hvers kyns hugverkaréttindum að öllum útgáfum hugbúnaðar sem þróaður hefur verið af Netverki ehf. og seldur undir vöruheitinu FilHarmony SDK, þar á meðal en ekki takmarkað við frumkóða og viðfangskóða hugbúnaðarins;

(d) hvers kyns hugverkaréttindum að öllum útgáfum hugbúnaðar sem þróaður hefur verið af Netverki ehf. og seldur undir vöruheitinu mTCP, þar á meðal en ekki takmarkað við frumkóða og viðfangskóða hugbúnaðarins;

(e) hvers kyns hugverkaréttindum að öllum útgáfum hugbúnaðar sem þróaður hefur verið af Netverki ehf. í forritunarmálinu Delphi og C/C++ fyrir EDI samskipti og seldur m.a. undir vöruheitunum Þyrill, Óðinn, Línan 110, 120 og 130, þar á meðal en ekki takmarkað við frumkóða og viðfangskóða hugbúnaðarins;

(f) öllum hugverkaréttindum sem vísað er til í viðauka II (“Appendix II”) með tryggingarbréfi (“General Bond”), dags. 22. febrúar 2002, gefnu út af Netverki ehf., þ.á m. vörumerkinu Netverk (orð- og myndmerki), sbr. skráningarnúmer 809/1008, vörumerkinu Marstar (orð- og myndmerki), sbr. skráningarnúmer 960/1998, vörumerkinu Fonestar (orð- og myndmerki), sbr. skráningarnúmer 224/2000 og vörumerkinu mTCP (orð- og myndmerki), sbr. skráningarnúmer 447/2001;

(g) hvers kyns rekstrartækjum, þ.e. vélum, tækjum, innréttingum, innbúi og öðrum útbúnaði, sem heyrðu rekstri Netverks ehf. til, til viðbótar við rekstrartæki sem falla undir liði a-e hér að framan.

Til vara er þess krafist að viðurkennt verði að sóknaraðili eigi samkvæmt 111. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. rétt til úthlutunar söluandvirðis seldra eigna samkvæmt tveimur samningum sem varnaraðili hefur gert, annars vegar kaupsamningi, dags. 30. ágúst 2002, við NV Eignarhaldsfélag ehf., kt. 560600-3210, Síðumúla 31, Reykjavík, og hins vegar kaupsamningi, dags. 5. september 2002, við Skýrr hf., kt. 590269-7199, Ármúla 2, Reykjavík. 

Í báðum tilvikum er krafist málskostnaðar að mati dómsins. 

Varnaraðili krefst þess að hafnað verði öllum dómkröfum sóknaraðila.  Þá krefst hann málskostnaðar að mati dómsins. 

I

Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 3. júlí 2002 var bú Netverks ehf. tekið til gjaldþrotaskipta og Kristinn Bjarnason hrl. skipaður skiptastjóri í búinu.

Sóknaraðili lýsti veðkröfu í búið með kröfulýsingu 20. september 2002.  Með bréfi dagsettu 4. október 2002 tilkynnti skiptastjóri sóknaraðila að hann hafnaði veðkröfunni.  Lögmaður sóknaraðila mótmælti þeirri afstöðu með bréfi, dags. 10. október 2002, en skiptafundur um lýstar kröfur var haldinn 11. október 2002.  Haldinn var sérstakur skiptafundur til þess að leitast við að jafna ágreining aðila 18. október 2002 í samræmi við 2. mgr. 120. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.  Ekki tókst að jafna ágreininginn var því ákveðið að beina málefninu til héraðsdóms eftir 171. gr. laganna.

Ágreiningurinn í málinu snýst um tryggingarbréf (“General Bond”) sem Netverk ehf. gaf út 22. febrúar 2002, til tryggingar á 10 skuldabréfum (“Convertible Bonds”), útgefnum af Netverki ehf. sama dag.  Sex þessara skuldabréfa eru í eigu sóknaraðila.  Þau eru hvert um sig að fjárhæð USD 100.000 og með gjalddaga 1. október 2002.  Kröfur sóknaraðila samkvæmt skuldabréfunum nema samkvæmt kröfulýsingu kr. 60.010.625. 

 

                Samkvæmt umræddu tryggingarbréfi voru sóknaraðila sett að veði ýmis réttindi varnaraðila sem talin voru upp í fjórum liðum.

                Í fyrsta lagi rekstrarfjármunir og framseljanleg réttindi varnaraðila samkvæmt leigusamningi um fasteignina Skúlagötu 18 í Reykjavík.  Í öðru lagi vörubirgðir varnaraðila eins þær væru á hverjum tíma.  Var um þetta vísað til 33. gr. laga nr. 75/1997.  Í þriðja lagi allir útgefnir en ógreiddir reikningar frá varnaraðila.  Um þetta var vísað til 47. gr. laga nr. 75/1997. 

                Loks var í fjórða lagi mælt fyrir um veð í hugverkaréttindum.  Nánar segir í bréfinu (íslenskri þýðingu þess):  "…öllum "hugverkaréttindum" veðsala (svo sem þau eru skilgreind hér á eftir) sem eru í eigu eða lúta yfirráðum veðsala, nú eða síðar, eða sem veðsali á eða eignast síðar hagsmuni í…"  Í fylgiskjali með tryggingarbréfinu er að finna upptalningu á öllum skrásettum vörumerkjum Netverks ehf. sem og einkaleyfum sem félagið hafði sótt um. 

Tryggingarbréfið var lagt inn til sýslumannsins í Reykjavík til þinglýsingar hinn 26. febrúar 2002 og var því þinglýst að öðru leyti en því að 4. gr. tryggingarbréfsins, þeim lið er laut að veðsetningu hugverkaréttinda, var vísað frá þinglýsingu.

Varnaraðili hefur selt flest þau réttindi sem sóknaraðili hefur gert tilkall til veðréttar í, annars vegar með kaupsamningi, dags. 30. ágúst 2002, við NV Eignarhaldsfélag ehf. og hins vegar með kaupsamningi, dags. 5. september 2002, við Skýrr hf.  Söluverð seldra réttinda samkvæmt samningnum við NV Eignarhaldsfélag ehf. var kr. 29.700.000, en söluverð seldra réttinda samkvæmt samningnum við Skýrr hf. kr. 2.300.000.

II

Sóknaraðili byggir á því að hvers kyns hugverkaréttindi að hugbúnaði sem þróaður hafi verið af Netverki ehf., og hann geri kröfur til veðréttar yfir, teljist til vörubirgða Netverks ehf.  Þessi réttindi falli undir 2. lið tryggingarbréfsins frá 22. febrúar 2002 en með ákvæðum þess liðar hafi vörubirgðir félagsins verið veðsettar sóknaraðila.  Þegar lagt sé mat á hvað teljist til vörubirgða fyrirtækis í skilningi 2. mgr. 33. gr. laga nr. 75/1997 um samningsveð beri að líta til þess hvaða atvinnustarfsemi viðkomandi fyrirtæki hafi lagt stund á.  Netverk ehf. hafi verið hugbúnaðarfyrirtæki, sem hafi framleitt og selt hugbúnað.  Hugbúnaðarkerfi, sem séu afrakstur þess þróunarstarfs sem fram hafi farið innan Netverks ehf., hljóti því að teljast til vörubirgða félagsins.  Í því sambandi hafi verulega þýðingu að hér hafi verið um að ræða fyrirhugaðan grundvöll að tekjuöflun félagsins í framtíðinni. 

Verði ekki fallist á framangreinda málsástæðu sóknaraðila byggir hann á því að hvers kyns hugverkaréttindi að hugbúnaði teljist til rekstrartækja Netverks ehf.  Þar með falli þessi réttindi undir 1. lið tryggingarbréfsins frá 22. febrúar 2002 en með ákvæðum þess liðar séu rekstrartæki félagsins og framseljanleg réttindi samkvæmt leigusamningi veðsett sóknaraðila. 

Til rekstrarveðsins hafi upphaflega verið stofnað í tengslum við veð í óbeinum eignarréttindum, leigurétti Netverks ehf. í fasteigninni Skúlagötu 19, Reykjavík.  Samkvæmt leigusamningi, dags. 28. mars 2002, hafi rekstur sóknaraðila verið fluttur í Síðumúla 24-26, Reykjavík.  Samhliða því hafi ofangreint rekstrarveð sóknaraðila verið flutt yfir á þá eign, sbr. yfirlýsingu leigusala, dags. 24. apríl 2002.  Yfirlýsingin sé árituð um samþykki af Páli Gíslasyni framkvæmdastjóra, f.h. Netverks ehf.  Hún hafi verið lögð inn til þinglýsingar hjá sýslumanninum í Reykjavík 3. maí 2002.  Með framangreindri yfirlýsingu hafi rekstrarveð sóknaraðila verið yfirfært á rekstrartæki Netverks ehf. þar sem þau séu nú staðsett í Síðumúla 24-26.  Sú fasteign hafi verið varanlega útbúin með þarfir félagsins í huga.  Sóknaraðili vísar hér til 2. mgr. 24. gr. laga nr. 75/1997 um samningsveð. 

Þróun hugbúnaðar hafi skipað stærstan sess í rekstri Netverks ehf.  Frumkóðar þeirra hugbúnaðarkerfa sem vísað sé til í kröfugerð séu hugverk Netverks ehf. og meðal allra helstu tækjanna sem félagið notist við í hugbúnaðargerð.  Við gjaldþrot Netverks ehf. hafi kóðarnir verið tryggilega geymdir í gagnagrunnum í tölvu félagsins.

Í þessu sambandi skipti máli að þau veigamiklu rök hafi verið færð fram fyrir lögfestingu 24. gr. laga um samningsveð, að í reglum eldri réttar hafi falist ákveðin mismunun atvinnugreina í landinu, sumum hafi verið heimilt að veðsetja rekstrartæki ósundurgreind með fasteignum, öðrum ekki.  Hafi markmiðið með setningu 24. gr. verið að eyða þessum mismun.  Samkvæmt þessu sýnist ótvírætt að undir rekstrarveð hugbúnaðarfyrirtækja geti fallið hugverkaréttindi og þar með talið frumkóðar þeirra hugbúnaðarkerfa sem þar séu til þróunar.

Þá sé byggt á að tryggingarskjalið frá 22. febrúar 2002 veiti sóknaraðila veð í hugverkaréttindum Netverks ehf. á grundvelli 4. liðs skjalsins, sem sérstaklega fjalli um veð í hugverkarétti.  Ákveðin hugverkaréttindi séu þar upp talin og sérgreind í viðauka II, þ.á m. vörumerkin Netverk, Marstar, Fonestar og mTCP, sem öll séu skráð sem orð- og myndmerki.

Enda þótt um óþinglýst réttindi sé að ræða hafi veðsetningin óskert gildi milli sóknaraðila og Netverks ehf.  Við gjaldþrot hafi veðsetningin ekki fallið niður.  Þinglýsing þjóni aðeins þeim tilgangi að veita réttarvernd gagnvart þriðja manni.  Hún hafi ekkert gildi í lögskiptum samningsaðilanna sjálfra.  Varnaraðili sé ekki þriðji maður í þessum skilningi og standi lög almennt ekki til þess að staða þrotabús gagnvart lánardrottnum gjaldþrota félags sé önnur og betri en félagsins sjálfs.  Réttur sóknaraðila á hendur varnaraðila sé því hinn sami og réttur hans á hendur Netverki ehf. hafi verið áður en til gjaldþrots þess félags hafi komið.

Loks sé á því byggt að með 1. lið tryggingarbréfsins frá 22. febrúar 2002 hafi verið sett að veði, auk þeirra rekstrartækja sem talin verði til hugverkaréttinda að hugbúnaði, önnur rekstrartæki Netverks ehf., þ.e. vélar, tæki, innréttingar, innbú og annar útbúnaður, sbr. 1. og 2. mgr. 24. gr. laga um samningsveð.

Varnaraðili hafi með tveimur samningum, annars vegar við NV Eignarhaldsfélag ehf. og hins vegar Skýrr hf., framselt flest þau réttindi sem sóknaraðili geri tilkall til veðréttar í.  Verði litið svo á að með því séu tryggingarréttindi sóknaraðila í hinum seldu eignum niður fallin, sbr. 5. mgr. 129. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., byggi sóknaraðili á til vara að skiptastjóra sé skylt með vísan til 111. gr. sömu laga að úthluta söluandvirðinu til hans, að frátöldum kröfum samkvæmt 110. gr. laganna.  Sóknaraðili eigi samsvarandi rétt til að fá söluandvirðinu úthlutað til sín og krefjist hann viðurkenningar á þeim rétti.

Varakrafa sóknaraðila byggir á því að varnaraðili hafi selt þau réttindi sem veðréttur hans hafi náð til.  Verði ekki fallist á að viðurkenna rétt hans beri að úthluta honum söluandvirðinu samkvæmt 111. gr. laga nr. 21/1991, að svo miklu leyti sem það hrekkur til. 

III

                Varnaraðili telur að heimild bresti að lögum til að veðsetja megi hugverkaréttindi ósundurgreind sem vörubirgðir á grundvelli 33. og 34. gr. laga nr. 75/1997 um samningsveð.  Eðliseiginleikar hugverkaréttinda geri það að verkum að ekki sé unnt að telja að slík réttindi fái talist til vörubirgða í skilningi ofangreinds ákvæðis, enda sé eðli þeirra slíkt að nauðsyn sé á nákvæmri skilgreiningu á um hvers konar réttindi sé að ræða og lýsingu á því hvar andlag réttindanna sé að finna, enda séu þessi réttindi bæði mismunandi að eðli og umfangi. 

Ákvæði 33. og 34. gr. laga um samningsveð feli í sér heimild til veðsetningar heildarsafns muna, en sú heimild feli í sér undantekningu frá meginreglu 1. og 3. mgr. 3. gr. sömu laga um bann við sjálfsvörsluveðsetningum af þeim toga.  Óheimilt sé að lögjafna frá ákvæðum 33. og 34. gr. laganna með þeim hætti sem sóknaraðili krefjist, þ.e. að heimiluð verði ósundurgreind veðsetning ólíkamlegra verðmæta líkt og hugverkaréttinda.  Undanþágureglan taki til veðsetningar áþreifanlegra verðmæta.  Gagnálykta beri frá undanþáguákvæðinu í þá veru að ólíkamleg verðmæti verði ekki veðsett sem heildarsafn án upptalningar.  Mótmælir varnaraðili því að hugverkaréttindi séu vörubirgðir í skilningi 2. mgr. 33. gr. laganna.        

Þá eigi þau hagræðisrök sem liggi til grundvallar undantekningarákvæðum 33. og 34. gr. laganna ekki við um veðsetningu hugverkaréttinda, þar sem eignarhald slíkra réttinda sé ekki undirorpið sams konar sveiflum og breytingum og eignarhald á annars konar réttindum, þ.e. líkamlegum vörubirgðum.

Varnaraðili mótmælir því að umrædd hugverkaréttindi hafi verið veðsett sóknaraðila sem hluti veðsetningar rekstrartækja Netverks ehf.  Í fyrsta lagi skorti lagagrundvöll fyrir þessari málsástæðu.  Í öðru lagi sé mótmælt á þeim grundvelli að veðsetning rekstrarfjármuna Netverks ehf. hafi fallið niður er félagið hafi afsalað sér sjálft réttindum yfir fasteigninni Skúlagötu 19 og flutt starfsstöð sína.  Í þriðja lagi gangi þetta gegn skýru orðalagi 1. liðs umrædds tryggingarbréfs.

Varðandi fyrstu málsástæðuna sé á því byggt að 24. - 27. gr. laga um samningsveð veiti ekki heimild til veðsetningar hugverkaréttinda af þeim toga sem sóknaraðili krefjist.  Umrædd hugverkaréttindi, sem séu afurðir framleiðsluferla innan fyrirtækisins, geti ekki talist til rekstrartækja í skilningi 24. gr. laganna, enda takmarkist það hugtak við verðmæti sem ætlað sé að mynda eða viðhalda tekjumyndandi ferlum hjá viðkomandi rekstraraðila, en nái ekki til verðmæta sem séu afurðir viðkomandi ferla. Veðsetningarheimild 24. gr. frumvarpsins veiti ekki heimild til veðsetningar framleiðslu, vörubirgða eða afurða enda fjalli önnur ákvæði umræddra laga um veðsetningu þeirra verðmæta.  Öll þau hugverkaréttindi sem vísað sé til í a-e liðum dómkröfu sóknaraðila séu afurðir framleiðsluferla innan Netverks ehf. og falli því ekki innan veðsetningarheimildar 24. gr. laganna.  Telur varnaraðili í því sambandi að það eðli hugverkaréttindanna að yfirleitt sé seldur aðgangur að þeim, í stað þess að réttindin séu beinlínis seld eins og almennt gerist með venjulegar framleiðsluvörur, fái ekki breytt þessari staðreynd.  Upptalning þeirra verðmæta sem heimilt sé að veðsetja í 2. mgr. 24. gr. sé tæmandi, en þar sé ekki að finna heimild til veðsetningar hugverkaréttinda.  Beri að hafna kröfum sóknaraðila þegar af þeirri ástæðu og skipti af þeim sökum ekki máli að tryggingarbréf sóknaraðila vísi til þess sem kallað sé “source-codes”, enda leiði reglur 2. mgr. 2. gr. laga um samningsveð til þess að veðsetning hugverkaréttindanna sé af þessum sökum ógild milli aðila, þar sem hún falli utan veðsetningarheimildar 24. gr. laganna.

Sé raunar hugsanlegt að umfjöllun um “source-codes” í tryggingarbréfinu vísi til notendaleyfa sem Netverk ehf. hafi keypt að tölvuforritum sem notuð hafi verið til framleiðslu hugverkaréttinda samkvæmt a-e liðum kröfugerðar stefnanda.  Telur varnaraðili að það hafi verið ætlun aðila tryggingarbréfsins að stofna til veðréttar í slíkum réttindum, enda hafi tryggingarbréfið innihaldið ákvæði er hafi átt að veðsetja hugverkarétt félagsins sérstaklega.  Sé slíkur skilningur á veðandlagi l. gr. tryggingarbréfsins einnig í samræmi við orðalag greinarinnar.

Þá er því mótmælt að það að hugbúnaður er félagið hafi framleitt hafi verið vistaður á tölvum í eigu félagsins, sem sóknaraðili telji sig eiga veðrétt í, eigi að leiða til þess að hugverkin teljist veðsett sem hluti tölvubúnaðarins.  Um tvenns konar sjálfstæð og mismunandi réttindi sé að ræða, þar sem annars vegar sé um að ræða höfundarétt, eða eftir atvikum rétt samkvæmt einkaleyfi, að hugverki sem í grundvallaratriðum sé tengt birtingarhætti hugmyndar, og hins vegar eignarrétt að lausafé. Verði fyrrnefndu réttindin ekki talin takmarkast af líkamlegum vörslum þess verðmætis sem undirorpið sé reglum höfundaréttar, enda sé um sjálfstæð réttindi að ræða.  Telur varnaraðili þannig að það fái engu breytt um sjálfstæði hugverkaréttindanna að þau séu tímabundið vistuð í minnisútbúnaði tölvu,  hugverkarétturinn renni ekki saman við eignarrétt, beinan eða óbeinan, að tölvunni.

Varnaraðili hafnar því að sóknaraðili eigi samningsbundinn veðrétt í öllum hugverkaréttindum Netverks ehf. á grundvelli 4. liðs tryggingarbréfsins.  Í 2. mgr. 23. gr. laga um samningsveð sé mælt fyrir um að sjálfsvörsluveð í lausafé öðlist réttarvernd við þinglýsingu.  Í 2. mgr. 48. gr. laga nr. 39/1978 sé mælt fyrir um þá reglu að þinglýsing sé forsenda þess að veðbréf fái haldið gildi gagnvart grandlausum viðsemjendum eða skuldheimtumönnum.  Þýði þetta í reynd að réttur almennra kröfuhafa til að fá fullnustu af söluverði hinnar veðsettu eignar sé a.m.k. jafnrétthár rétti veðhafa sem eigi óþinglýstan veðrétt og það burtséð frá því hvort stofnað hafi verið til veðsins áður en krafa viðkomandi lánardrottins hafi stofnast. 

Gjaldþrotaskipti á búi Netverks ehf. séu sameiginleg fullnustugerð allra kröfuhafa.  Við gjaldþrotaskiptin hafi orðið til ný lögpersóna, þrotabú hins gjaldþrota félags.  Leiði reglur 111. gr. laganna til þess að veðhafar í tiltekinni eign eigi forgang umfram aðra kröfuhafa búsins að því er varði greiðslu af söluandvirði eignarinnar.  Með því að veðrétti stefnanda í hugverkaréttindum Netverks ehf. hafi ekki verið þinglýst, leiði ákvæði 2. mgr. 48. gr. þinglýsingalaga til þess að veðrétturinn hafi ekki gildi gagnvart öðrum kröfuhöfum þrotabúsins. 

Þann 28. mars 2002 hafi Netverk ehf. og Byggingarfélag Gylfa og Gunnars ehf. gert með sér samkomulag um það að leigusamningur um fasteignina Skúlagötu 19 skyldi falla niður 15. apríl 2002.  Hafi verið um það samið að byggingarfélagið yfirtæki leigusamning við Línu.Net ehf. sem Netverk ehf. hafi gert.  Þá hafi það verið gert að skilyrði að fyrir 28. mars 2002 yrðu undirritaðir leigusamningar við Reykjavíkurborg og Halló!-Frjáls fjarskipti ehf. um leigu hluta húsnæðisins.  Hafi þetta gengið eftir og leigusamningurinn fallið niður á umræddum degi.  Hafi Netverk ehf. þá flutt rekstur sinn og rekstrarmuni að Síðumúla 24-26 í Reykjavík, sem félagið hafi tekið á leigu af Byggingarfélagi Gylfa og Gunnars ehf. með leigusamningi 28. mars 2002.

Þann 28. apríl 2002 hafi Byggingarfélag Gylfa og Gunnars ehf. heimilað Netverki ehf. að veðsetja sóknaraðila réttindi sín samkvæmt leigusamningnum til tryggingar greiðslu skuldbindinga samkvæmt tryggingarbréfinu.  Bréfinu hafi þó ekki verið breytt til samræmis við þetta og því hafi heldur ekki verið þinglýst á fasteignina Síðumúla 24-26.  Hafi réttindi Netverks ehf. til þeirrar fasteignar því aldrei verið veðsett sóknaraðila.  Þó hafi sóknaraðila verið kunnugt um þessar breytingar á högum Netverks ehf. og ekki gert athugasemdir við þær.

Telur varnaraðili að Netverk ehf. hafi veðsett sóknaraðila réttindi sín til fasteignarinnar að Skúlagötu 19, Reykjavík, en þar hafi verið um að ræða réttindi félagsins samkvæmt leigusamningi við Byggingarfélag Gylfa og Gunnars ehf., dags. 26. febrúar 1999.  Hafi veðsetning leiguréttindanna verið forsenda þess að unnt væri veðsetja rekstrartæki Netverks ehf. með þeim hætti sem viðhafður hafi verið, sbr. 24. gr. laga um samningsveð.  Með niðurfellingu réttinda Netverks ehf. til fasteignarinnar Skúlagötu 19, hafi veðréttindi sóknaraðila samkvæmt 1. lið tryggingabréfs aðila fallið niður, enda hafi sóknaraðila í reynd verið kunnugt um niðurfellingu leigusamningsins og hún ekki sætt andmælum af hans hálfu.

Veðsetning rekstrartækja félagsins á grundvelli 24. gr. laga um samningsveð geti ekki lifað sjálfstæðu lífi eftir að réttur félagsins til fasteignarinnar hafi fallið niður. 

Engu máli skipti í þessu sambandi að Netverk ehf. hafi stofnað til nýs húsaleigusamnings við Byggingarfélag Gylfa og Gunnars ehf. um hluta fasteignarinnar Síðumúla 24-26 í Reykjavík.  Veðflutningur hafi aldrei farið fram á tryggingarbréfi sóknaraðila og hafi því aldrei verið stofnað til veðréttar í leigusamningi Netverks ehf. um Síðumúla 24-26 og rekstrartækjum félagsins þar á grundvelli 24. gr. laga um samningsveð og því síður hafi slíkum veðflutningi verið þinglýst á eignina.  Yfirlýsing Byggingarfélags Gylfa og Gunnars ehf., dags. 24. apríl 2002, þar sem Netverki ehf. sé heimilað að veðsetja réttindi sín samkvæmt hinum nýja húsaleigusamningi, verði ekki túlkuð sem veðflutningur á tryggingarbréfinu af Skúlagötu 19 yfir á Síðumúla 24-26.  Sá skilningur eigi sér ekki stoð í orðalagi yfirlýsingarinnar.  Verði heldur ekki séð að sóknaraðili hafi átt aðild að umræddri yflrlýsingu svo sem hefði þurft að vera ætti yfirlýsingin að teljast veðflutningur í eiginlegum skilningi.

Verði hins vegar talið að veðréttur sóknaraðila hafi ekki fallið niður eða að túlka beri yfirlýsingu þá sem að ofan geti á þann hátt að veðréttur sóknaraðila hafi verið fluttur yfir á fasteignina Síðumúla 24-26, er því haldið fram af hálfu varnaraðila að sú veðsetning sé ógild gagnvart þrotabúinu og öðrum lánardrottnum þess, að því er hina veðsettu rekstrarfjármuni varði.  Byggi það á því að veðsetningunni eða veðflutningnum hafi ekki verið þinglýst á fasteignina Síðumúla 24-26,  í samræmi við ákvæði 2. mgr. 48. gr. þinglýsingalaga, sbr. 2. mgr. 23. gr. laga um samingsveð. 

Fallist dómurinn á viðurkenningarkröfur sóknaraðila sé varakröfu sóknaraðila ekki mótmælt sérstaklega. 

IV

Fyrir dóminum gáfu skýrslu Páll Gíslason fyrrverandi framkvæmdastjóri Netverks ehf., Þorsteinn Steinarsson fyrrverandi þróunarstjóri Netverks ehf. og Gunnar Engilbertsson.

                Páll Gíslason kvaðst hafa hafið störf fyrir Netverk ehf. í nóvember 2000.  Hann hafi í upphafi verið fjármálastjóri en svo framkvæmdastjóri.  Hlutverk hans hafi verið að taka á ýmsum vandamálum í rekstrinum.  Um mitt ár 2001 hafi verið farið í niðurskurð hjá fyrirtækinu.  Hann kvað þann hugbúnað sem um sé rætt í málinu allan hafa verið þróaðan hjá Netverki.  Allur hugbúnaðurinn hafi verið þróaður til sölu.  Þó hafi FilHarmony verið nokkurs konar tæki.  Það væri safn af forritum til að leysa verkefni í Fonestar og ekki reiknað sérstaklega með að það væri til sölu.

            Vegna fjárhagsvanda hafi verið ákveðið að fjármagna fyrirtækið með skuldabréfaútboði og bréfið sem um sé deilt í þessu máli sé hluti af því.  Búist hafi verið við tekjum seinni hluta ársins 2002 og hafi þetta átt að brúa það bil.  Ákveðið hafi verið að veita veð í öllum eignum Netverks ehf., húsgögnum, hugbúnaði og notendaleyfum.

            Fyrirtækið hafi ákveðið að skipta um húsnæði í mars 2002.  Sóknaraðila hafi verið kunnugt um það og ekki gert neinar athugasemdir.  Netverk ehf. hafi þó haldið áfram einni hæð í fyrra húsnæði að Skúlagötu 19, en ekki greitt leigu þar.  Hann kvaðst ekki vilja fullyrða um hvort veð sóknaraðila hafi verið flutt á nýja húsnæðið.

            Þorsteinn Steinarsson var þróunarstjóri hjá Netverki ehf. og vann að þróun Marstar, Fonestar og FilHarmony hugbúnaðarlínunnar.  Marstar hafi verið aðalþróunarvaran.  Hafi henni verið ætlað að bæta tölvusamskipti gegnum gervihnetti.  Þetta hafi verið upphafið að Fonestar, sem leysi sömu vandamál vegna samskipta með farsíma.  Bæði Marstar og Fonestar hafi verið vörulínur og innihaldið nokkrar vörur.  Þessi hugbúnaður hafi t.d. verið seldur símafyrirtækjum. FilHarmony hafi verið grunnur sem hinn hugbúnaðurinn hafi byggt á.   Þótt það hafi ekki verið selt sérstaklega hafi verið hægt að kaupa notendaleyfi á það og þróa áfram.

            Hugbúnaðurinn hafi verið þróaður þannig að fyrst hafi verið lagðar grófar hönnunarlínur.  Við því tæki fínhönnun, því næst útfærsla, prófanir og svo útgáfa.  Kóðinn hafi verið geymdur í gagnagrunni.  Þar hafi verið stíft skipulag á hvernig honum hafi verið raðað upp.  Marstar, Fonestar og FilHarmony hafi verið geymd í einum grunni. Inni í grunninum hafi allt verið sem tilheyrði kóðanum.  Í hvert skipti sem ný útgáfa hafi verið gefin út hafi verið tekið afrit af öllum kóðanum og fært til hliðar.  Ein vél hafi verið notuð sérstaklega til að ná kóðanum út úr þessum grunni og byggja upp ákveðin forrit til uppsetningar.  Ákveðnar útgáfur hafi verið valdar til að fara í sölu.  Þær hafi verið fluttar á annan stað fyrir tilbúnar vörur.  Þangað hafi söluaðilar getað sótt tilbúnar vörur og annað hvort vistað þær á diski eða sent til viðskiptavina.  Í sumum tilvikum hafi tilbúin forrit verið seld, en í öðrum aðgangur að kerfinu.  Aðallega hafi verið selt til þjónustuaðila og stórra fyrirtækja og hafi hugbúnaðurinn þá oftast verið sendur í tölvupósti.

                Gunnar Engilbertsson sat í stjórn Netverks PLC, móðurfélags Netverks ehf., í umboði sóknaraðila.  Hann var á þeim tíma starfsmaður sóknaraðila.  Kvaðst hann hafa vitað af fyrirætlunum Netverks ehf. um að flytja starfsemi sína af Skúlagötu 19 í Síðumúla 24-26 og hafa látið sóknaraðila vita af því.  Taldi hann umfjöllun hafa farið fram um að flytja þyrfti rekstrarveð sóknaraðila.  Hann kvað sóknaraðila ekki hafa mótmælt flutningunum þar sem húsnæðið að Skúlagötu hafi verið of stórt og dýrt.  Aðdraganda þess að tryggingarbréf það sem um sé deilt í málinu hafi orðið til kvað hann hafa verið fjárhagsvanda Netverks ehf.  Þetta hafi verið leið til að fjármagna fyrirtækið.  Gefin hafi verið út breytileg skuldabréf sem hægt hafi verið að breyta í hlutafé.  Til hafi staðið að taka veð í öllum eignum Netverks ehf.

            Ágreiningsefni máls þessa snýst um það hvort annars vegar rekstrartæki og hins vegar hugverkaréttindi Netverks ehf. hafi verið veðsett sóknaraðila og á hvaða grundvelli.  Verður fyrst vikið að því hvort rekstrartæki, vélar, tæki, innréttingar, innbú og annar búnaður sem tilheyrði rekstri Netverks ehf., séu veðsett á grundvelli tryggingarbréfsins sem Netverk ehf. gaf út til sóknaraðila 22. febrúar 2002.

            Samkvæmt 24. gr. laga nr. 75/1997 er rekstraraðilum heimilt að veðsetja rekstrartæki þegar þeir veðsetja fasteign sem er varanlega útbúin með þarfir tiltekins atvinnureksturs í huga.  Þarf þá að semja sérstaklega um það að veðrétturinn nái einnig til rekstrartækja. Veðsetningin fer fram samhliða veðsetningu fasteignarinnar, sem rekstraraðili þarf að eiga eignarrétt að eða hafa framseljanlegan afnotarétt yfir.  Samkvæmt 26. gr. öðlast rekstrarveð réttarvernd við þinglýsingu á viðkomandi fasteign. 

                Rekstrarveði samkvæmt tryggingarbréfinu frá 22. febrúar 2002 var þinglýst á fasteignina Skúlagötu 19, Reykjavík, sem Netverk ehf. hafði gert leigusamning um.  Hinn 28. mars 2002 gerði Netverk ehf. nýjan leigusamning um fasteignina Síðumúla 24-26, Reykjavík.  Var ákveðið að samningurinn um Skúlagötu 19 félli niður 15. apríl 2002.  Leigusali veitti Netverki ehf. heimild til þess að veðsetja sóknaraðila réttindi samkvæmt leigusamningnum.  Var sú yfirlýsing móttekin til þinglýsingar 3. maí 2002, en þó ekki þinglýst á Síðumúla 24-26 og veðflutningi var heldur ekki þinglýst.  Þá var felld niður þinglýsing á rekstrarveði á Skúlagötu 19.

            Með því að réttindi Netverks ehf. til fasteignarinnar að Skúlagötu 19 eru niður fallin, veðsetningu hefur verið aflýst og veðinu hefur ekki verið þinglýst á Síðumúla 24-26, er rekstarveð sóknaraðila fallið niður.  Þinglýsing er forsenda þess að veðsetningin haldi gildi gagnvart skuldheimtumönnum.  Hefur veðsetningin því ekki gildi gagnvart öðrum kröfuhöfum varnaraðila við gjaldþrotaskipti, enda teljast þau sameiginleg fullnustugerð.  Óþinglýst veðsetning hefur því ekki gildi gagnvart þrotabúi, þótt hún gildi gagnvart veðþola fram til þess að bú hans er tekið til gjaldþrotaskipta.  Þá standa ekki heimildir til þess að veðsetning rekstrartækja ósundurgreint geti staðið sjálfstætt, án þess að samtímis séu veðsett réttindi yfir fasteign.

            Kemur þá til skoðunar hvort hugverkaréttindi Netverks ehf. hafi verið veðsett, annaðhvort sem hluti vörubirgða samkvæmt 2. lið tryggingarbréfsins, sbr. 33. gr. laga um samningsveð, eða samkvæmt  4. lið tryggingarbréfsins frá 22. febrúar 2002. 

            Sóknaraðili hefur haldið því fram að hugverkaréttindin falli undir vörubirgðir, en samkvæmt 2. lið tryggingarbréfsins var sóknaraðila veitt veð í öllum vörubirgðum Netverks ehf. eins og þær voru á hverjum tíma, samkvæmt 33. gr. laga um samningsveð.  Beri við mat á þessu að líta til þess hvaða atvinnustarfsemi viðkomandi rekstraraðili stundi.  Þar sem tilgangur Netverks ehf. hafi verið að framleiða og selja hugbúnað hljóti hann að teljast til vörubirgða fyrirtækisins.

                Í 2. mgr. 33. gr. er talið það sem telst til vörubirgða.  Er samkvæmt því um að ræða hráefni, vörur í vinnslu, fullunnar vörur, verslunarvörur, rekstrarvörur og aðrar vörur sem notaðar eru í atvinnurekstrinum, auk búnaðar utan um framleiðsluvörur rekstrarins.  Af orðalagi ákvæðisins þykir ljóst að með vörubirgðum er átt við áþreifanlega hluti.  Sést það nánar í greinargerð með frumvarpi því er varð að lögum um samningsveð (Alþt. 121. löggj.þing, þskj. 350), en þar eru fyrst og fremst notuð orðin vara og búnaður.  Hugverka- og auðkennaréttindi, hvort sem er höfundaréttur eða réttur til vörumerkis eða einkaleyfis, verða ekki talin vara eða búnaður í venjulegum skilningi.  Hefði ætlun frumvarpshöfunda verið sú að víkka meira en gert var heimildir til veðsetninga hefði það komið skýrt fram í athugasemdum í greinargerð, en greinargerðin er ítarleg og nákvæm.  Að þessu virtu verður því hafnað að sóknaraðili geti reist rétt sinn á 33. gr. laganna. 

            Kemur þá til álita hvort stofnast hafi gild veðsetning í hugverkaréttindunum á grundvelli 4. liðs tryggingarbréfsins, en samkvæmt þeim lið er sóknaraðila veitt veð í öllum hugverkaréttindum veðsala og/eða nytjaleyfum hugverkaréttinda.  Þessum lið tryggingarbréfsins var vísað frá þinglýsingu, án þess að tilgreind væri ástæða fyrir því.

                Sú ákvörðun þinglýsingarstjóra að vísa þessum hluta skjalsins frá þinglýsingu verður ekki endurskoðuð í þessu máli. 

                Samkvæmt 2. mgr. 23. gr. laga um samningsveð gilda ákvæði þinglýsingalaga um réttarvernd sjálfsvörsluveðs í lausafé.  Hugverkaréttindi verður að telja lausafé í skilningi laganna, þannig að um þinglýsingu réttinda yfir þeim fari eftir VII. kafla laga nr. 39/1978.  Í 2. mgr. 48. gr. laganna segir um þinglýsingu er varðar lausafé að þinglýsing sé forsenda þess að veðbréf gagnvart grandlausum viðsemjendum og skuldheimtumönnum.  Þegar af þeirri ástæðu að veðrétti sóknaraðila var ekki þinglýst hefur veðsetningin ekki gildi gagnvart varnaraðila. 

                Samkvæmt framangreindu verður öllum kröfum sóknaraðila um sérstaka stöðu krafna hans í þrotabúinu hafnað.  Ekki er ágreiningur um viðurkenningu krafna hans sem almennra krafna. 

                Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila 300.000 krónur í málskostnað.  Er þá tekið tillit til virðisaukaskatts. 

                Úrskurð þennan kveða upp héraðsdómararnir Jón Finnbjörnsson, dómsformaður, og Sigurður Tómas Magnússon og Björn Jónsson, verk- og tölvufræðingur. 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

                Kröfum sóknaraðila, Landsbanka Íslands hf., er hafnað. 

                Sóknaraðili greiði varnaraðila, þrotabúi Netverks ehf., 300.000 krónur í málskostnað.