Hæstiréttur íslands

Mál nr. 2/2003


Lykilorð

  • Börn
  • Forsjá
  • Gjafsókn


Miðvikudaginn 28

 

Miðvikudaginn 28. maí 2003.

Nr. 2/2003.

K

(Björgvin Þorsteinsson hrl.)

gegn

M

(Helgi Birgisson hrl.)

 

Börn. Forsjá. Gjafsókn.

K og M deildu um forsjá drengs sem þau áttu saman. Niðurstaða héraðsdóms var byggð á ítarlegri skýrslu sálfræðings og talið drengnum fyrir bestu að M yrði falin forsjá hans. Ekkert væri fram komið sem benti til þess að umtalsverð röskun hefði orðið á högum barnsins þótt aðstæður M hefðu breyst frá uppsögu héraðsdóms en engin ný gögn lágu fyrir um hagi og aðstæður K í Danmörku þar sem hún væri búsett. Var niðurstaða héraðsdóms um að M hefði forsjá drengsins því staðfest.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Garðar Gíslason, Haraldur Henrysson, Hrafn Bragason og Pétur Kr. Hafstein.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 6. janúar 2003 og krefst þess að samningur aðila, staðfestur 27. nóvember 2000, um sameiginlega forsjá barnsins X, sem fæddur er 27. desember 1999, verði felldur úr gildi og að sér verði dæmd forsjá barnsins. Jafnframt krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti úr hendi stefnda eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar.

Við munnlegan málflutning fyrir Hæstarétti kom fram að stefndi er ekki lengur í sambúð og hefur flust að nýju á heimili móður sinnar og stjúpföður með drenginn X. Er það í sama hverfi og sækir drengurinn sama leikskóla og fyrr. Stefndi er í námi, en stundar jafnframt vinnu.

Svo sem fram kemur í héraðsdómi komu fljótlega upp vandkvæði varðandi umgengni áfrýjanda við X eftir að hann kom í umsjá stefnda í árslok 2000. Neitaði stefndi áfrýjanda um eðlilega umgengni við barnið í janúar 2001 og hafa ekki komið fram greinargóðar skýringar á því. Fyrir milligöngu sálfræðings tókst þó samkomulag með aðilum um umgengni til bráðabirgða 23. janúar 2001, sem staðfest var af sýslumanninum í Reykjavík 4. apríl sama ár. Þetta samkomulag hélst fram í ágúst 2001 en þá taldi stefndi ástæðu til að rifta því þar sem hann kvaðst ekki treysta áfrýjanda til að vera með barnið. Var þeim þá boðin sérfræðiráðgjöf hjá sama sálfræðingi og áður hafði aðstoðað þau og þáðu þau það. Áfrýjandi mætti hins vegar ekki í viðtalstíma, sem tvívegis voru boðaðir með aðilum í október og nóvember 2001. Vísaði sýslumaður því málinu frá sér með bréfi til áfrýjanda 14. nóvember 2001 með skírskotun til 2. mgr. 69. gr. barnalaga nr. 20/1992. Gögn málsins bera ekki með sér að áfrýjandi hafi eftir þetta leitað sérstakra úrræða til að fá umgengni við barnið en fyrir liggur að hún heimsótti það tvívegis á leikskólann áður en hún fluttist til Danmerkur haustið 2002.

Héraðsdómari kvaddi Álfheiði Steinþórsdóttur sálfræðing til að kanna aðstæður aðila og barnsins og láta í té sérfræðilega álitsgerð. Liggur fyrir ítarleg skýrsla hennar frá 30. september 2002, sem greint er frá í héraðsdómi, og staðfesti sálfræðingurinn hana fyrir dómi. Er niðurstaða héraðsdóms á henni byggð. Hefur ekki verið óskað yfirmats.

Þótt aðstæður stefnda hafi breyst frá uppsögu héraðsdóms að því leyti, sem áður var rakið, hefur ekkert komið fram, sem bendir til þess að umtalsverð röskun hafi orðið á högum barnsins, en full þörf er á að stöðugleiki í umhverfi þess sé tryggður sem mest má verða. Af hálfu áfrýjanda liggja ekki fyrir ný gögn um hagi hennar og aðstæður, en hún er enn búsett í Danmörku.

Að þessu athuguðu, en að öðru leyti með skírskotun til forsendna héraðsdóms, verður hann staðfestur. Brýnt er að umgengni áfrýjanda og barnsins komist á hið fyrsta og verði eðlileg í framtíðinni. Ber stefnda að leggja sitt af mörkum til að svo geti orðið.

Rétt þykir að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður milli aðila en um gjafsóknarkostnað fer eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

Gjafsóknarkostnaður áfrýjanda, K, greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hennar, 250.000 krónur.

Gjafsóknarkostnaður stefnda, M, greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hans, 250.000 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 22. nóvember 2002.

         Mál þetta, sem dómtekið var 7. nóvember sl., er höfðað 5. mars sl. af K [...] á hendur M [...].

         Stefnandi krefst þess að felldur verði úr gildi samningur málsaðila, staðfestur 27. nóvember 2000, um sameiginlega forsjá barnsins X, og að stefnanda verði falin forsjáin. Þá er krafist málskostnaðar úr hendi stefnda að mati dómsins eins og málið væri ekki gjafsóknarmál en stefnandi fékk gjafsókn 13. júní 2002.

         Stefndi krefst þess að hafnað verði kröfu stefnanda um að henni verði falin forsjá barnsins þegar sameiginleg forsjá málsaðila með barninu hefur verið felld úr gildi og að í stað þess verði stefnda falin forsjá þess. Krafist er og að stefnandi verði dæmd til að greiða stefnda málskostnað eins og málið væri eigi gjafsóknarmál en stefnda var veitt gjafsókn 6. nóvember 2002.

 

         Yfirlit málsatvika og ágreiningsefna

         Í málatilbúnaði stefnanda kemur fram að hún hafi eignast soninn A og hafi hún alið hann upp ein án afskipta föður hans. Hinn [...] 1998 hafi hún eignast annan son en hann hafi dáið vöggudauða [...] 1998, tæplega fjögurra mánaða gamall. Málsaðilar hafi kynnst í nóvember 1998 og fljótlega eftir það hafi stefndi flutt inn á heimili hennar. Í byrjun [...] 1999 hafi hún orðið ófrísk af hans völdum. Í júlímánuði 1999 hafi slitnað upp úr sambandi þeirra og hafi stefndi flutt af heimili stefnanda. Málsaðilar eignuðust soninn X [...] 1999.

Stefnandi flutti til Danmerkur nokkru síðar en þar býr móðir hennar. Stefnandi bjó með báða syni sína í Danmörku í nokkra mánuði en hún flutti aftur til Íslands í september árið 2000. Hún kveðst hafa þurft að taka íbúð á leigu í [...] meðan íbúð hennar hafi enn verið í útleigu. Í nóvember sama ár hafi málsaðilar orðið ásáttir um að X yrði hjá stefnda á meðan stefnandi væri í leiguhúsnæði. Stefnandi heldur því fram að ætlunin hafi verið að stefndi flytti til hennar þegar íbúð hennar losnaði og hún væri flutt þangað á ný. Stefndi hafi farið fram á að fá forsjá drengsins en hún hafi neitað því. Á endanum hafi hún látið undan og samþykkt sameiginlega forsjá. Þau hafi samið um að hún fengi forsjána á ný þegar stefndi flytti til hennar með drenginn. Málsaðilar gerðu samkomulag, staðfest af sýslumanni 27. nóvember 2000, um sam­eigin­lega forsjá og skyldi drengurinn eiga lögheimili hjá stefnda.

Í byrjun árs 2001 neitaði stefndi stefnanda um umgengni við drenginn. Vegna ágreinings málsaðila um umgengni vísaði sýslumaður þeim til sálfræðiráðgjafa. Málsaðilar mættu í eitt viðtal hjá sálfræðingi og gerðu samkomulag um umgengni stefnanda við drenginn 23. janúar 2001 sem staðfest var af sýslumanni 4. apríl sama ár. Gekk samkomulagið eftir þar til í ágúst sama ár en þá neitaði stefndi henni um umgengni við drenginn. Stefnandi sá drenginn í nóvember það ár en eftir það fór engin umgengni fram fyrr en henni var komið á hinn 25. september 2002 þegar athugun sálfræðings fór fram í máli þessu.

Við munnlegan málflutning var því haldið fram af hálfu stefnanda að dómurinn gæti ekki fellt samkomulagið um sameiginlega forsjá úr gildi nema tekin verði til greina krafa stefnanda í málinu um að henni verði falin forsjá drengsins. Til þess að stefnda verði falin forsjá drengsins hefði hann þurft að gagnstefna. Þessu var mótmælt af hálfu stefnda. Fram kom að stefndi liti svo á að dóminum bæri að fella samkomu­lagið úr gildi enda hefði stefndi ekki mótmælt þeirri kröfu stefnanda og gert væri ráð fyrir því í 2. mgr. 35. gr. barnalaga nr. 20/1992 að samningur um sameiginlega forsjá verði felldur úr gildi fari foreldrar, annað þeirra eða báðir, fram á það.

 

         Málsástæður og lagarök stefnanda

         Stefnandi lýsir málsatvikum þannig að stefndi hefði oft hringt til hennar þegar hún bjó í Danmörku og hafi hann reynt að sannfæra hana um að best væri fyrir þau bæði og son þeirra að þau tækju upp samband sitt á ný. Stefnandi kveðst hafa látið undan þrýstingi stefnda og hafi hún flutt til Íslands í september 2000. Í nóvember sama ár hafi þau orðið ásátt um að drengurinn yrði hjá stefnda á meðan stefnandi væri enn í leiguhúsnæðinu en að stefndi flytti til hennar með drenginn þegar íbúð hennar losnaði og hún væri flutt í hana á ný. Stefndi hafi farið fram á að fá forsjá drengsins en stefnandi kveðst að lokum hafa látið undan þrýstingi hans og samþykkt sameiginlega forsjá. Þau hafi samið um það munnlega að hún fengi forsjána þegar stefndi flytti til hennar með drenginn. Stefnandi hafi talið í sakleysi sínu að ekkert mál yrði fyrir hana að fá forsjána á ný enda hefði hún annast drenginn ein frá fæðingu hans þar til í nóvember 2000. Samkomulag hafi verið um að stefnandi tæki drenginn til sín um nánast hverja helgi fyrsta mánuðinn og einhverja virka daga en jafnframt hafi stefnandi ætlað að fylgjast með drengnum daglega. Í desembermánuði hafi sam­skiptin gengið vel. Hún hafi tekið drenginn til sín tvær helgar og nokkra virka daga og hafi stefndi þá jafnframt gist hjá henni. Frá 15.-29. desember 2000 hafi stefnandi verið alfarið með drenginn er stefndi hafi verið á sjó. Drengurinn hafi verið veikur yfir jólin og hafi stefnandi þurft að fara með hann á sjúkrahús. Hann hafi verið með asma og RS-vírus og hafi hann verið settur í einangrun til þess að forða öðrum frá smiti. Þegar stefndi kom af sjónum hafi hann tekið drenginn til sín og hafi stefnandi beðið hann um að halda drengnum inni við fyrst um sinn vegna veikindanna. Stefndi hafi farið út með drenginn 3. janúar 2001 í nokkurt frost. Stefnandi hafi verið ósátt við það og hafi hún fundið að því við stefnda. Stefndi hafi brugðist hinn versti við og hafi hann lýst því yfir að sambandi þeirra væri lokið. Hinn 8. janúar 2001 hafi stefndi hringt í stefnanda og sagt henni að hún fengi ekki að sjá drenginn í nokkra mánuði. Tveimur dögum síðar hafi stefnandi fengið bréf frá stefnda þess efnis að hann vildi fullt forræði yfir drengnum og að hann ætlaði ekki að afhenda stefnanda drenginn vegna þess að hann treysti því ekki að hún afhenti hann á ný. Í 24 daga hafi stefnandi aðeins séð drenginn í 5½ klukkustund undir eftirliti stefnda.

         Þann 23. janúar 2001 hafi aðilar náð samkomulagi um umgengni stefnanda við drenginn sem hafi átt að gilda þar til þau hefðu leyst úr ágreiningi um for­sjá drengsins. Samkvæmt samkomulaginu skyldi stefnandi hafa drenginn hjá sér aðra hverja helgi frá klukkan 1730 á föstudegi til klukkan 1700-1800 á sunnudegi auk einnar helgar til viðbótar í hverjum mánuði. Síðari hluta maí og allan júní hafi drengurinn verið hjá stefnanda er stefndi hafi stundað sjómennsku. Drengur­inn hafi þó verið hjá stefnda um helgar þegar hann var í landi. Stefnandi hafi síðan átt að hafa drenginn tvær vikur í ágúst en það hafi ekki gengið eftir og 20. ágúst hafi stefndi tilkynnt henni að hún fengi ekki að sjá drenginn framar. Hafi stefndi reynt að koma í veg fyrir það síðan að stefnandi fengi son sinn en hún hafi aðeins einu sinni hitt hann síðan í ágúst 2001.

         Stefnandi byggi kröfur sínar á því að allar forsendur séu brostnar fyrir sameigin­legri forsjá málsaðila. Hún hafi samþykkt sameiginlega forsjá með það í huga að hún fengi forsjána á ný þegar málsaðilar tækju upp sambúð. Þá hafi það jafnframt verið forsenda af hennar hálfu að stefndi stæði við samninga um umgengni hennar við drenginn en það hafi hann ekki gert og sé augljóst að honum sé hvorki treystandi til uppeldis drengsins né til þess að standa við samninga um umgengni. Stefnandi hafi góðar aðstæður. Hún eigi íbúð og hafi örugga atvinnu. Drengurinn búi ekki við traust umhverfi hjá stefnda en stefndi hafi flutt með drenginn mörgum sinnum og bíði nú eftir húsnæði í félagslega kerfinu. Búast megi við að þessi óstöðugleiki verði áfram hjá stefnda. Eldri drengurinn sakni bróður síns og skilji ekki hvers vegna hann fái ekki að vera hjá þeim. X sé alinn upp af stefnanda frá fæðingu og hafi hún alfarið séð um hann fram í nóvember árið 2000 en stefndi hafi engin afskipti haft af drengnum fyrstu mánuði lífs hans. Stefnandi hafi sýnt það að hún sé vel fær til uppeldis barna. Henni hafi tekist vel upp með uppeldi eldri drengsins og geti hún veitt þeim yngri sams konar uppeldi. Það hafi hún sýnt fyrsta árið meðan hún hafi haft drenginn hjá sér. Stefndi hafi rofið öll tengsl ættingja stefnanda við drenginn. Stefnandi sé í mjög nánum tengslum við ömmu sína, sem búi í [...], og systur. Þær hafi ekki fengið að sjá drenginn um langa hríð eins og stefnandi og eldri sonur hennar. Stefndi hafi ekki virt þau grundvallar mannréttindi sem felist í umgengni móður við barn sitt og öfugt. Stefnandi krefjist þess að samningur málsaðila verði felldur úr gildi og stefnanda falin forsjá drengsins en hún hafi áður farið ein með forsjá hans. Barninu sé fyrir bestu að hún fari með forsjá þess en hún muni að sjálfsögðu virða umgengnisrétt stefnda við drenginn gagnstætt því sem stefndi hafi gert. Stefnandi telji stefnda hafa brotið gegn 1. mgr. 37. gr. laga nr. 20/1992. Dómstóll megi ekki veita þeim rétt sem brotið hafi af sér. Vísað er einnig til 1. og 2. mgr. 35. gr. sömu laga. Kröfu um máls­kostnað úr hendi stefnda byggi stefnandi á 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991.

 

         Málsástæður og lagarök stefnda

         Stefndi lýsir málsatvikum þannig að málsaðilar hafi búið saman í níu mánuði en ekki í formlega skráðri sambúð. Hann hafi verið mikið til sjós á þeim tíma. Upp úr sambandinu hafi slitnað áður en barnið fæddist. Þegar stefnandi kom heim frá Danmörku haustið 2000 hafi hún átt í verulegum félags- og fjárhagslegum erfið­leikum. Í ljós hafi komið að henni hafi verið ofviða að annast ein tvo unga syni sína, sérstaklega í erfiðum veikindum X af barnaasma. Erfiðar aðstæður stefnanda hafi leitt til samkomulags aðila, dagsettu 27. nóvember 2000, um að stefndi tæki að sér daglega umönnun og uppeldi X með því að drengurinn flytti lögheimili til stefnda og væri í hans umsjá, en málsaðilar færu með sameiginlega forsjá eins og fram komi í samkomulaginu.

         Stefndi hafi talið að málefni þeirra og barnsins væru komin í gott horf með sameiginlegri forsjá og málsaðilar gætu átt góða samvinnu og samskipti um hag og þarfir barnsins. Því miður hafi það ekki orðið. Vegna andlegs ójafnvægis stefnanda hafi þeir feðgar þurft að þola stöðugt ónæði og afskiptasemi stefnanda, auk þess hafi stefnandi ekki getað haldið sig við reglubundna umgengni við barnið. Vegna sam­eigin­legrar forsjár hafi stefnandi getað ákveðið umgengni við barnið eftir eigin hentug­leikum, fyrirvaralítið með breytilegum tímum, en það hafi stefndi ekki sætt sig við með tilliti til þarfa drengsins fyrir öryggi og reglufestu í daglegu lífi. Eftir ósætti og erfiðleika í samskiptum aðila dagana 5.-7. janúar 2001 hafi stefndi tilkynnt stefnanda að grundvöllur sameiginlegrar forsjár væri brostinn og hefði hann ákveðið að fara fram á forsjá drengsins. Málsaðilar hafi fengið ráðgjöf sálfræðings á vegum sýslumannsembættisins og hafi þau komist að skriflegu bráða­birgða­samkomulagi um ágreiningsefnið í viðtali 23. janúar 2001. Sýslumaðurinn í Reykja­vík hafi síðan staðfest samninginn 4. apríl 2001. Þar sem þeim hafi ekki tekist að halda samkomu­lagið hafi málsaðilar mætt hjá sýslumanni 12. október sama ár og hafi þeim enn á ný verið boðin sérfræðiráðgjöf hjá sama sálfræðingi. Reyndin hafi síðan orðið sú að stefndi hafi mætt í ráðgjafarviðtölin en stefnandi ekki. Viðleitni stefnda hafi ekki borið árangur og hafi hann nánast ekkert heyrt frá stefnanda frá þeim tíma. Tilraunir til lausnar hafi ekki borið árangur. Stefnandi hafi heldur ekki nýtt sér tækifæri til ráðgjafar hjá [...], fjölskylduþjónustunni í [...]. Í umsögn félagsráðgjafa komi fram að miklir samskipta­örðugleikar hafi verið milli málsaðila og hafi stefndi leitað til fjölskylduþjónustunnar um ráðgjöf og stuðning vegna þeirra. Að mati ráðgjafans hafi stefndi sýnt mikla umhyggju gagnvart syni sínum, tilfinningatengsl hans við drenginn væru greinileg og stefndi gerði sér vel grein fyrir þörfum og aðbúnaði sem hæfði þroska drengsins. Einnig komi fram að stefndi hafi ávallt verið staðráðinn í að vera með drenginn og byggja upp framtíð þeirra saman. Sem lið í þeirri framtíðaruppbyggingu hafi stefndi notið skólastyrkjar frá [...] auk fjár­styrks til að greiða dagheimilisgjöld fyrir drenginn. Málshöfðun stefnanda hefði verið fyrsti vottur í langan tíma um áhuga stefnanda á tengslum við drenginn.

         Stefndi kveðst hafa tekið við hlutverki uppeldisforeldris drengsins af stefnanda í nóvember árið 2000 að beiðni stefnanda en persónulegir og félagslegir erfiðleikar hennar hafi valdið því að hún hafi ekki séð sér fært að annast barnið. Stefndi viti ekki til þess að aðstæður stefnanda hefðu breyst í þessu tilliti. Stefnandi hafi lengst af búið við erfiðar aðstæður og félagslegt óöryggi. Því miður geti stefnandi ekki boðið börnum sínum betri uppeldisaðstæður en hún búi sjálf við. Aftur á móti sé engin vafi á því að stefndi hafi alla getu til þess að búa þeim feðgum eðlilegt heimili og sé drengnum tvímælalaust fyrir bestu að alast upp í hans umsjá. Hjá honum hafi barnið öðlast öryggi og gott atlæti með reglubundnum heimilis­háttum þar sem tekið sé mið af þörfum og þroska barnsins á hverjum tíma. Það geti með engu móti verið barninu fyrir bestu að breyta um umhverfi og flytja til móður sinnar, sem eigi við persónulega og geðræna erfiðleika að stríða. Slík ráðstöfun myndi skapa barninu alvarleg tengslarof við föður og það félagslega öryggi sem barnið búi nú við. Myndi það skapa verulega hættu á alvarlegum andlegum afleiðingum þess fyrir barnið, t.d. með skerðingu á hæfni til tengslamyndunar í framtíðinni. Grunntengsl drengsins sé við stefnda og félagslegt umhverfi þeirra feðga. Stuðningsnet þeirra sé traust, sérstaklega við móður stefnda og fjölskyldu hennar.

         Stefndi kveðst hafa dregið að stíga fyrsta skrefið til að sameiginleg forsjá verði felld niður, þrátt fyrir yfirlýsingar þar um, því hann hafi talið það sanngjarnt gagnvart stefnanda að hún hefði einnig formlega forsjá barnsins þótt hún gæti ekki annast barnið. Stefndi hafi vonað að með tímanum gætu komist á eðlileg samskipti milli aðila og reglubundin umgengni stefnanda við barnið. Því hefði hann látið málið liggja í biðstöðu þar til nú er hann telji nauðsynlegt að taka til andsvara kröfum stefnanda sem séu að mati stefnda tvímælalaust gegn hagsmunum og þörfum drengsins og honum ekki fyrir bestu.

         Stefndi byggi kröfu sína um breytingu á forsjá barnsins á 2. mgr. 35. gr. barna­laga nr. 20/1992, enda forsendur sameiginlegrar forsjár brostnar og samræmdust ekki hags­munum barnsins. Við ákvörðun um forsjá barnsins eigi að hafa hliðsjón af ákvæðum 2. mgr. 34. gr. sömu laga um að forsjá barns verði eftir því sem barni sé fyrir bestu. Málskostnaðarkröfuna byggi stefndi á ákvæðum XX. og XXI. kafla laga nr. 91/1991 og kröfu um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun á ákvæðum laga nr. 50/1988 en dómkröfur máls þessa séu ekki komnar til vegna virðisaukaskatts­skyldrar starfsemi stefnda og beri honum því nauðsyn til að fá dóm fyrir greiðslu skattsins úr hendi stefnanda.

 

         Niðurstaða

         Fallist er á þau rök málsaðila að forsendur hafi brostið fyrir því að þeir fari áfram sameiginlega með forsjá drengsins eins og samkomulag þeirra frá 27. nóvember 2000 kveður á um. Ber dóminum því samkvæmt 2. mgr. 35. gr., sbr. 2. mgr. 34. gr. barna­laga nr. 20/1992, að fella samkomulagið úr gildi og ákveða hvorum málsaðila verði falin forsjáin. Stefnda er samkvæmt þessu heimilt að hafa uppi kröfu í málinu um að honum verði falin forsjá drengsins án þess að gagnstefna.  

         Í málinu liggur fyrir sérfræðileg álitsgerð Álfheiðar Steinþórsdóttur sál­fræðings, dagsett 30. september 2002, sem dómurinn aflaði samkvæmt 3. mgr. 60. gr. laga nr. 20/1992. Við munnlega skýrslugjöf fyrir dóminum lýsti sálfræðingurinn því að við mat á persónuleikaþáttum, eins og þeir hafi komið út úr persónu­­leika­­prófum sem hún lagði fyrir málsaðila, þá virtust báðir málsaðilar eiga í erfið­leikum. Skýrar hefði þó komið fram að stefndi hefði stöðugri persónuleikaþætti, svo sem skapfarslega svo og að geta sett ramma og skipulag og að geta haldið utan um barn; hann hefði komið betur út úr því en stefnandi. Stefndi leggi sig fram við að halda ákveðið skipulag og hann taki tilmælum vel varðandi umönnun drengsins. Að mati sálfræð­ingsins sé stefnandi síður hæf til að fara með forsjá drengsins en stefndi. Í því sambandi vísaði sálfræðingurinn til þess sem fram kemur í skýrslu hennar um að sveiflukennd hegðun stefnanda og þverköst hennar í viðbrögðum væru líkleg. Stefnandi geti að líkindum átt erfitt með að mynda dýpri og traust tilfinningatengsl og líklegt sé að öðrum finnist hún sjálfmiðuð og ekki gefa kost á sér í nánum tengslum. Fram kom einnig að stefnandi hefði ekki stöðuga persónuleika­uppbyggingu. Útspil og óþol hennar eru að mati sálfræðingsins ekki æskileg í þessu tilliti. Stefndi geti verið einráður og ósveigjan­­legur en það þurfi ekki að koma niður á uppeldi barnsins. Þá kom fram í munnlegri skýrslu sálfræðingsins fyrir dóminum að hún teldi mikilvægt að komist verði hjá því að drengurinn þurfi enn á ný að aðlagast breyttum aðstæðum.

         Þótt fyrir liggi að stefndi hafi ekki virt rétt drengsins til umgengni við stefnanda á ákveðnu tímabili, eins og að framan er rakið, verður að taka ákvörðun um forsjá drengsins eftir því sem honum verður talið fyrir bestu með tilliti til alls þess sem fram hefur komið í málinu. Ber í því sambandi að meta hvað hefur mesta þýðingu fyrir hann en þau atriði sem skipta máli þarf að meta í heild og leggja þarf mat á hvernig þau skipta máli innbyrðis. Drengurinn hefur á stuttri ævi þurft að aðlagast breyttum aðstæðum nokkrum sinnum, meðal annars þegar stefnandi flutti með hann til Danmerkur og aftur til Íslands á árinu 2000 og loks þegar drengurinn flutti frá stefnanda til stefnda síðar á sama ári en hann var þá enn á fyrsta ári. Drengurinn hefur einnig nokkrum sinnum flutt með stefnda á þeim tíma sem hann hefur búið hjá honum. Verður með vísan til þess sem fram kemur í sérfræðilegri álitsgerð Álfheiðar Steinþórsdóttur og í munnlegri skýrslu hennar fyrir dóminum að telja mikilvægt að forða drengnum nú frá frekari röskun en orðið er eftir því sem framast er unnt. Stefnandi er flutt til Danmerkur og hefur áform um að búa þar áfram þótt hún hafi lýst því yfir að hún sé fús til að flytja til Íslands og ala barnið upp hér. Stefnandi hefur lítið verið í sambandi við drenginn í heilt ár. Drengurinn hefur búið hjá stefnda í tvö ár og hefur stefndi annast hann að mestu allan þann tíma. Af gögnum málsins verður ekki annað ráðið en að það hafi gengið vel og ekki er ástæða til að ætla annað en að svo verði áfram. Stefndi hefur búið með sambýliskonu sinni að [...] frá því í byrjun júlí á þessu ári. Drengurinn byrjaði í leikskóla í lok ágúst sl. sem er í göngufæri við heimilið. Augljóslega yrði það meiri röskun fyrir drenginn að fela stefnanda forsjá hans en stefnda. Þegar þetta er virt svo og það sem hér að framan er rakið verður að telja drengnum fyrir bestu að stefnda verði falin forsjá hans.  

         Rétt þykir með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 að málskostnaður falli niður.

         Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hennar, Björgvins Þorsteinssonar hrl., sem þykir hæfilega ákveðin 350.000 krónur án virðisaukaskatts, en útlagður kostnaður vegna stefnubirtingar og þing­festingar er samtals 4.850 krónur. 

         Gjafvarnarkostnaður stefnda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hans, Ingibjargar Bjarnardóttur hdl., sem þykir hæfilega ákveðin 350.000 krónur án virðisaukaskatts.

         Rétt þykir að kostnaður við sérfræðilega álitsgerð sálfræðings, samtals 309.000 krónur, greiðist úr ríkis­sjóði, sbr. 3. mgr. 60. gr. barnalaga nr. 20/1992.

         Dóminn kvað upp Sigríður Ingvarsdóttir héraðsdómari.

D Ó M S O R Ð:

         Stefndi, M, skal fara með forsjá X.

         Málskostnaður fellur niður.

         Gjafsóknarkostnaður stefnanda, K, greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hennar, Björgvins Þorsteinssonar hrl., 350.000 krónur, og kostnaður vegna stefnubirtingar og þingfestingar, samtals 4.850 krónur.

         Gjafvarnarkostnaður stefnda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hans, Ingibjargar Bjarnardóttur hdl., 350.000 krónur.

         Kostnaður við sérfræðilega álitsgerð sálfræðings, samtals 309.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.