Hæstiréttur íslands
Mál nr. 757/2013
Lykilorð
- Líkamsárás
- Kynferðisbrot
- Brot gegn valdstjórninni
- Einkaréttarkrafa
- Ákæra
- Frávísun frá héraðsdómi að hluta
|
|
Fimmtudaginn 30. október 2014. |
|
Nr. 757/2013.
|
Ákæruvaldið (Kolbrún Benediktsdóttir saksóknari) gegn X (Bjarni Hauksson hrl. Jóna Björk Helgadóttir hdl.) (Einar Gautur Steingrímsson hrl. réttargæslumaður) |
Líkamsárás. Kynferðisbrot. Brot gegn valdstjórninni. Einkaréttarkrafa. Ákæra. Frávísun frá héraðsdómi að hluta.
X var sakfelldur fyrir brot gegn þáverandi sambýliskonu sinni, annars vegar fyrir líkamsárás sem var talin varða við 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og hins vegar nauðgun og líkamsárás sem varðaði við 1. mgr. 194. gr. og 217. gr. sömu laga. Þá var X sakfelldur fyrir brot gegn valdstjórninni, sbr. 1. mgr. 106. gr. laganna. Við ákvörðun refsingar var litið til 3. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga vegna brota X gegn A og 3. mgr. 106. gr. sömu laga vegna brots hans gegn valdstjórninni, auk þess sem litið var til 77. gr. laganna og X dæmdur hegningarauki eftir 78. gr. þeirra. Var refsing X ákveðin fangelsi í tvö ár. Gefin hafði verið út framhaldsákæra í málinu þar sem A hafði uppi einkaréttarkröfu á hendur X. Hæstiréttur vísaði kröfunni frá héraðsdómi með skírskotun til þess að hvorki hefðu verið uppfyllt skilyrði til útgáfu framhaldsákæru né hefði X samþykkt að hún kæmist að í málinu.
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Eiríkur Tómasson, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Þorgeir Örlygsson og Guðrún Erlendsdóttir settur hæstaréttardómari.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 15. nóvember 2013 af hálfu ákæruvaldsins og gerir þær kröfur að ákærði verði sakfelldur samkvæmt ákæru og refsing hans þyngd.
Ákærði krefst staðfestingar á niðurstöðu hins áfrýjaða dóms um sakfellingu varðandi 1. lið ákærunnar en sýknu af ákæruliðum 2 og 3 og þess að refsing verði milduð. Þá krefst hann þess að einkaréttarkröfu verði vísað frá héraðsdómi, en til vara að hún verði lækkuð.
A krefst þess að ákærða verði gert að greiða sér 2.000.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 24. maí 2012 til 10. október 2013, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Ákæra var gefin út 21. júní 2013 og málið þingfest 10. september það ár. Framhaldsákæra með einkaréttarkröfu brotaþolans A var gefin út 27. ágúst 2013 og var sú ákæra fyrst birt ákærða við þingfestingu málsins. Veitti ákærði ekki samþykki sitt fyrir því að krafan kæmist að í málinu. Háttsemi sú sem beindist að brotaþolanum átti sér stað 19. og 24. maí 2012. Gaf hún skýrslur hjá lögreglu 21. og 25. maí 2012 og 26. október og 4. desember það ár og verður af gögnum málsins ráðið að rannsókn lögreglu hafi lokið skömmu síðar. Þegar við fyrstu skýrslugjöf var brotaþolanum kynntur réttur til að koma á framfæri skaðabótakröfu. Krafan var á hinn bóginn ekki gerð fyrr en með bréfi 19. ágúst 2013 og fylgdu henni hvorki gögn er þýðingu hafa við úrlausn hennar né voru gefnar ástæður fyrir því hversu síðbúin krafan var.
Samkvæmt 1. mgr. 173. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála skal einkaréttarkröfu brotaþola í sakamáli komið á framfæri við lögreglu meðan á rannsókn þess stendur eða við ákæranda áður en ákæra er gefin út. Heimilt er og að koma kröfu á framfæri við ákæranda eftir útgáfu ákæru ef fullnægt er skilyrðum 1. mgr. 153. gr. til útgáfu framhaldsákæru í máli eða ákærði samþykkir, enda sé að öðru leyti fullnægt skilyrðum þess að hafa megi slíka kröfu uppi í málinu. Skilyrðin sem fram koma í síðastgreindu ákvæði eru þau að leiðrétta þurfi augljósar villur eða ef upplýsingar, sem ekki lágu fyrir þegar ákæra var gefin út, gefa tilefni til. Af því sem að framan er rakið voru hvorki skilyrði fyrir útgáfu framhaldsákæru né veitti ákærði samþykki til að bótakrafa kæmist að í málinu. Verður henni því vísað frá héraðsdómi.
Með vísan til forsendna héraðsdóms er fallist á niðurstöðu hans um sakfellingu ákærða. Ekki er fram komið í málinu að það atferli ákærða að setja fingur í leggöng brotaþolans A, eins og greinir í 2. lið ákæru, hafi verið í öðrum tilgangi en kynferðislegum. Eftir þann verknað gerðist ákærði jafnframt sekur um líkamsárás eins og greinir í þessum ákærulið. Með þessari athugasemd er fallist á niðurstöðu héraðsdóms um heimfærslu brota ákærða til refsiákvæða.
Eins og fram kemur í ákæru var A sambúðarkona ákærða og verður litið til 3. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 við ákvörðun refsingar hans vegna þeirra brota sem um ræðir í fyrstu tveimur liðum ákærunnar. Með þessari athugasemd og með vísan til ákvæða 77. gr. almennra hegningarlaga verður fallist á röksemdir og niðurstöðu héraðsdóms um refsingu ákærða.
Niðurstaða héraðsdóms um sakarkostnað verður staðfest.
Með vísan til 2. mgr. 220. gr. laga nr. 88/2008 verður áfrýjunarkostnaður málsins felldur á ríkissjóð, þar með talin málflutningsþóknun verjanda ákærða og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti eins og greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Einkaréttarkröfu A er vísað frá héraðsdómi.
Að öðru leyti skal hinn áfrýjaði dómur vera óraskaður.
Allur áfrýjunarkostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Bjarna Haukssonar hæstaréttarlögmanns, 627.500 krónur, og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Einars Gauts Steingrímssonar hæstaréttarlögmanns, 188.250 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 13. nóvember 2013.
Málið er höfðað með ákæru ríkissaksóknara, dagsettri 21. júní 2013, á hendur:
,,X, kennitala [...],
[...],
fyrir eftirtalin hegningarlagabrot framin á árinu 2012:
1. Fyrir líkamsárás, með því að hafa laugardaginn 19. maí í húsnæði að [...] í [...] veist að þáverandi sambýliskonu sinni A og slegið hana með krepptum hnefa í vinstra gagnauga og strax í kjölfarið með flötum lófa hægra megin í andlitið, hrint henni niður stiga í húsnæðinu og fyrir utan húsnæðið slegið hana í höfuðið. Við þetta hlaut A mar í kringum vinstra auga, blóðnasir og roða á hægri kinn, sár á hnúum, höfuðverk og eymsli í hálsi.
M. 008-2012-[...]
Telst þetta varða við 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
2. Fyrir nauðgun og líkamsárás, með því að hafa að kvöldi fimmtudagsins 24. maí í húsnæði að [...] í [...] haft önnur kynferðismök en samræði við A með því að beita hana ofbeldi eða ólögmætri nauðung. Ákærði gekk upp að A reif gat í klofinu á íþróttabuxum sem hún klæddist umrætt sinn og setti fingur inn í leggöng hennar, henni að óvörum og gegn hennar vilja. Í kjölfarið ýtti ákærði við henni, hrinti henni í gólfið, sparkaði þar í maga hennar, tók hana kverkataki og ýtti henni niður stiga í húsnæðinu og fyrir utan húsnæðið kastaði hann í hana keramik lampa sem lenti í hægra læri A. Við þetta hlaut A hruflsár á hægri kinn og í kringum munn, rauða upphleypta húðbólgu á enni, roða hægra megin á hálsi og eymsli í hálshryggjarliðum, roða á hægri upphandlegg, skurð á hægra handarbaki sem sauma þurfti saman með tveimur sporum, bólgu og eymsli á hægri löngutöng, eymsli í hægra læri og 0,5 sm langa rispu eða hruflsár við leghálsopið.
M. 008-2012-[...]
Telst þetta varða við 1. mgr. 194. gr. og 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
3. Fyrir brot gegn valdstjórninni, með því að hafa aðfaranótt þriðjudagsins 14. ágúst í lögreglubifreið í miðbæ Reykjavíkur, er lögregla handtók ákærða í tengslum við annað sakamál, ítrekað hrækt blóðugum hráka á lögreglumennina B og C en hrákarnir höfnuðu í andliti lögreglumannanna og á einkennisfatnaði þeirra.
M. 007-2012-[...]
Telst þetta varða við 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“
Ríkissaksóknari gaf hinn 27. ágúst 2013 út framhaldsákæru þar sem svofelldri bótakröfu var aukið við ofangreinda ákæru:
„fyrir hönd A, kennitala [...], er hér með lögð fram krafa um að ákærði verði dæmdur til að greiða henni miskabætur og réttargæsluþóknun að fjárhæð kr. 2.000.000 með vöxtum skv. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 19. maí 2012 þar til mánuður er liðinn frá birtingu skaðabótakröfu þessarar, en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags. Einnig er þess krafist að ákærða verði gert að greiða þóknun vegna réttargæslu að mati dómsins eða samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi að viðbættum virðisaukaskatti á réttargæsluþóknun.“
Verjandi ákærða krefst vægustu refsingar vegna sakargifta í 1. kafla ákæru en að öðru leyti sýknu. Aðallega er krafsist frávísunar bótakröfu en til vara að hún sæti lækkun. Málsvarnarlauna er krafist úr ríkissjóði að mati dómsins.
Ákæruliður 1.
Samkvæmt skýrslu lögreglunnar, dagsettri 19. maí 2012, barst lögreglu tilkynning þann dag um að maður hefði rotað konu við [...] í [...] og að verið væri að ganga í skrokk á henni. Segir í skýrslunni að strax hafi vaknað grunur um að ákærði ætti hlut að máli og hafi það komið á daginn eins og segir í skýrslunni.
Rætt var við A á vettvangi. Kvað hún X, sambýlismann sinn, flúinn af vettvangi. A var flutt til skoðunar á Heilbrigðisstofnun [...]. X var leitað án árangurs segir í skýrslunni.
Önnur lögregluskýrsla, dagsett sama dag, liggur fyrir í málinu. Þar er lýst ráðstöfunum lögreglu, flutningi A á sjúkrahús til skoðunar og fleiru.
Tekin var skýrsla af A hjá lögreglunni 21. maí 2012. Þar lýsir hún atburðunum á heimili þeirra ákærða 19. maí 2012 og kvað hún ákærða hafa gengið í skrokk á sér. Frásögn hennar var efnislega á sama veg og lýsing í ákæru.
A bar aftur um þennan atburð hjá lögreglunni 29. október 2012 og 4. desember 2012.
Engin skýrsla var tekin af ákærða undir rannsókn málsins um háttsemina sem í þessum ákærulið greinir.
Nú verður rakinn framburður ákærða og vitnisburður fyrir dómi.
Ákærði neitar sök. Hann kvað A, þáverandi sambýliskonu sína, ítrekað hafa veist að sér og var hún nýbúin að stinga ákærða og ógna með hnífi þennan dag. Samband þeirra A hafi verið stormasamt. Hafi einhver orðið fyrir ofbeldi væri það ákærði en hann hefði ekki beitt A ofbeldi er sambúð þeirra varði. Ákærði taldi sér hafa tekist að afvopna A þennan dag og henda henni út. Þá hefði hún kastað steini í glugga hússins og ákærði þá farið út en hún hefði þá kastað steini í sig. Kvaðst ákærði þá hafa slegið hana með flötum lófa, ekki fast, en hún hefði látið sig falla í jörðina eins og hún hefði rotast sem hún gerði ekki að hans sögn. Ákærði kvað A hafa látið sig falla vegna þess að hún hefði séð að nágranni varð vitni að því sem gerðist. Ákærði kvaðst á þeim tíma sem í ákæru greinir hafa verið að aðstoða A sem hafi verið í fráhvörfum vegna fíkniefnaneyslu. Spurður um skýringar á áverkum sem A bar, og lýst er í læknabréfi, kvað ákærði hana hafa verið í burtu í nokkra daga á undan og hún hefði þá átt í slagsmálum sem skýri áverkana að hans mati. Ákærði lýsti því að hann hefði flúið heimili A eftir að hún braut rúðu í baka til í húsinu þennan dag en hann hefði talið hana til alls líklega eftir að hún stakk hann eins og rakið var.
Ákærða var kynntur vitnisburður A hjá lögreglu þess efnis að ákærði hefði veitt henni áverkana sem um ræðir í ákærunni. Ákærði kvað A „lygasjúka“ og bar að hún væri að hvítþvo sig með því að hafa ákærða fyrir rangri sök. Ákærði taldi tilgang A þann að hún vildi losna við ákærða út af heimilinu svo hún gæti selt allt lauslegt til að fjármagna fíkniefnaneyslu sína.
Vitnið A kvað ákærða, þáverandi sambýlismann sinn, hafa verið búinn að beita sig ofbeldi í langan tíma. Þennan dag, 19. maí 2012, beitti ákærði hana ofbeldi ítrekað og hefði hún misst meðvitund um stund. Ákærði hefði sett hana upp að vegg þar sem hann sló hana með flötum lófa. Hún mundi þetta ekki vel þar sem ofbeldistilvik ákærða hefðu verið mörg. Hún kvað ákærða hafa hrint henni niður stiga og hún hlotið skurð af. Eftir þetta fóru þau ákærði út úr húsinu, baka til, þar sem ákærði hefði kýlt hana fast í andlitið svo hún rotaðist öðru sinni í þessari atburðarás. Hún kvað nágrana sína hafa séð þetta en hún kvaðst áður hafa leitað til þeirra vegna ofbeldis sem ákærði beitti hana. Er hún rankaði við sér stóð ákærði yfir henni og var að athuga púls hennar. Í kjölfarið hjólaði hann í burtu. Hringt var í lögregluna sem flutti hana til skoðunar á sjúkrahús.
Vitnið D lögreglumaður ritaði skýrslu um komu sína á vettvang hinn 19. maí 2012. A hefði greint frá því að sambýlismaður hennar hefði gengið í skrokk á henni. Henni hafi verið brugðið og hún verið í uppnámi. Árásarmaðurinn fannst ekki en maður kom að kvað manninn hafa farið í burtu á reiðhjóli. A kvaðst ekki hafa komið að rannsókn málsins frekar og geti því ekki skýrt hvers vegna ekki var tekin skýrsla af ákærða undir rannsókn málsins.
Vitnið E lögreglumaður kveðst hafa farið á vettvang ásamt öðrum eftir að tilkynning barst um heimilisofbeldi. A kvað X, sambýlismann sinn, hafa ráðist á sig, kýlt sig og hent sér niður stiga og taldi hún sig hafa rotast. Er hún rankaði sér var ákærði að athuga með púls hennar. Hún hafi síðar verið flutt á Heilbrigðisstofnun [...] til skoðunar.
Vitnið F lögreglumaður kom á vettvang á þessum tíma. Hann kvað hafa komið fram að árásarmaðurinn hefði farið í burtu á reiðhjóli og var hans leitað án árangurs.
Vitnið G kvaðst hafa verið úti í garði við heimili sitt er hann heyrði eins og brothljóð. Þá sá hann stúlku hlaupa út úr húsinu nr. [...] við [...] í [...] en hann taldi að stúlkan hefði reynt að brjóta rúðu í húsinu og að komast inn en húsið var lokað. Eftir þetta kom út maður og gekk í áttina að stúlkunni sem tók þá upp stóran stein sem hún reyndi að kasta í manninn. Eftir þetta kýldi maðurinn stúlkuna í andlitið svo hún féll í götuna. Mögulegt væri að hún hefði rotast en það hafi þá ekki verið lengi að sögn vitnisins, í mesta lagi 30 sekúndur. Maðurinn hefði litið á hana en fór inn í húsið eftir það. Stúlkan stóð þá á fætur og öskraði og bað vitnið um að hringja í lögregluna sem hann gerði. Stuttu síðar fór maðurinn sem um ræðir í burtu á reiðhjóli en lögreglan kom um 5 mínútum síðar.
Vitnið H kvaðst búa beint á móti [...] í [...] og hann hefði séð heiman frá sér er einhverjar stimpingar voru við útidyr á húsinu nr. [...]. Ung kona kom út og fannst honum eins og henni hefði verið ýtt út úr húsinu og dyrum lokað á eftir. Stúlkan hefði þá bankað á rúðu í hurðinni en þá opnuðust dyrnar og svörtum ruslapoka var kastað út og dyrunum lokað öðru sinni. Stúlkan tók þá að banka en ekki var svarað. Hún bankaði þá á hurðina með steini sem hún að lokum kastaði í rúðu við hliðina á hurðinni og taldi hann að rúðan hefði ekki brotnað. Eftir þetta kom maður út úr húsinu og tóku þau stúlkna að rífast. Stúlkan hélt á steini og sló og ýtti á brjóst mannsins. Maðurinn ýtti við stúlkunni og þau hafi rifist áfram. Síðan sló maðurinn stúlkuna í andlitið svo hún lyppaðist niður í götuna og fannst vitninu hún hafa rotast en stúlkan lá í götunni í eina til tvær mínútur að hans sögn. Eftir þetta fór maðurinn bak við húsið og sá hann manninn ekki meir. Hann hringdi í lögregluna og er hún kom hafi maðurinn verið farinn og fannst ekki.
Niðurstaða ákæruliðar 1.
Ákærði játar að hafa slegið A, þáverandi sambýliskonu sína, einu sinni í greint sinn en með flötum lófa fyrir utan húsið en neitar sök að öðru leyti sök samkvæmt þessum ákærulið. Ráð má af framburði ákærða og af vitnisburði A að samband þeirra hefur verið mjög stormasamt á þeim tíma sem hér um ræðir og að upp hafi komið eitthvert ósætti eins og lýst var og vitnið H bar að sér hafi virst eins og A hefði verið ýtt út úr húsinu greint sinn.
Ákærði og A eru tvö til frásagnar um það sem gerðist innan dyra á þessum tíma. Vitnisburður A er trúverðugur svo langt sem hann nær en fram kom hjá henni að hún ruglaðist á atburðum er hún greindi frá fyrir dóminum. Vitnisburður hennar fær hins vegar ekki þá stoð sem þarf til að unnt sé að leggja hann til grundvallar niðurstöðunni um það sem gerðist innan dyra, gegn eindreginni neitun ákærða. Samkvæmt þessu verður engu slegið föstu um hvað gerðist innan dyra greint sinn og er það óupplýst. Er samkvæmt þessu ósannað gegn neitun ákærða að hann hafi slegið A innan dyra og hrint henni niður stiga og er ákærði sýknaður af þeim hluta ákærunnar. Sannað er með játningu ákærða og með stuðningi af vitnisburði A, H og G að ákærði hafi slegið A í höfuðið fyrir utan húsið, eins og í ákæru greinir, og með afleiðingum sem þar greinir og fram koma í læknisvottorði en hún féll í götuna eins og lýst hefur verið. Það er mat dómsins með vísan til alls ofanritaðs að atvik hafi ekki verið þannig að ákærða hafi verið verknaðurinn refsilaus á grundvelli 12. gr. almennra hegningarlaga. Brot ákærða samkvæmt þessum ákærulið er rétt fært til refsiákvæðis í ákærunni.
Ákæruliður 2.
Samkvæmt frumskýrslu lögreglunnar barst tilkynning kl. 22:28 að kvöldi 24. maí 2012 um heimilisofbeldi að [...] í [...]. Á vettvangi hitti lögreglan fyrir A sem var í miklu uppnámi eins og segir í skýrslunni. Óskaði hún eftir því að lögreglan fjarlægði unnusta sinn, X, þar sem hún óttaðist hann. Fram kom hjá henni að hún byggi við mikið ofbeldi af hálfu X. Hún lýsti því er hann og I félagi hans komu heim þetta kvöld en X hafði stundað áfengisdrykkju dagana á undan. Hún lýsti því að hún hefði verið sofandi er þeir komu. Hún kvaðst hafa verið í íþróttabuxum en ákveðið að skipta um buxur. Lýsti hún því að þvottavél hafi verið biluð og hún því ekki verið í nærbuxum er hún skipti um föt. X hefði séð þetta og hefði hann rifið gat á buxurnar sem hún var að klæða sig í og hafi hann „troðið“ fingrum sínum upp í leggöng hennar og kallað hana öllum illum nöfnum. Í kjölfarið hefði X veist að henni, ýtt henni, hrint henni í gólfið, sparkað ítrekað í læri hennar, tekið hana hálstaki, slegið hana í framan, hrint henni niður stiga og kastað á eftir henni íþróttatösku og lampa. Hún hefði leitað aðstoðar hjá nágranna. Í frumskýrslunni í er lýst áverkum á A og að í kjölfarið hafi verið farið með hana til skoðunar á Heilbrigðisstofnun [...]. Á vettvangi var lagt hald á buxurnar sem um ræðir og A sagði X hafa rifið gat á. Einnig var lagt hald á lampa sem hún sagði X hafa kastað á eftir sér.
A gaf skýrslu hjá lögreglunni 25. maí, 24. október og 4. desember 2012. Þar lýsti hún efnislega á sama veg því sem gerðist að [...], hinn 24. maí 2012 og eru lýsingar í aðalatriðum á sama veg og lýst er í ákærunni.
Tekin var skýrsla af ákærða hjá lögreglunni 25. maí 2012 og neitaði hann öllum ásökunum A og kvað hana fara með ósannindi.
Nú verður rakinn framburður ákærða og vitnisburður fyrir dómi.
Ákærði neitar sök. Hann kvaðst hafa verið í burtu í nokkra daga og er hann kom heim þennan dag ásamt I, kunningja sínum, hafi A verið búin að pakka niður. Hann kvað hana hafa verið órólega og hafi hann spurt hvort hún væri að fara eitthvað. Þau hefðu síðan byrjað að rífast. Ekkert annað hefði gerst. Frásögn A sé röng og lýsing í ákærunni einnig. Ekkert af því sem þar greinir átti sér stað að hans sögn. Samskipti þeirra A þennan dag lauk þannig að ákærði sagði henni að koma sér út. Hún hafi þá sagt að hún ætlaði að gera líf hans að helvíti. A hefði farið út en komið aftur inn glottandi að sögn ákærða. Lögreglan kom um 10 mínútum síðar en þá hafi hann verið í eldhúsinu að matreiða er A fór að gráta og greindi hún lögreglunni frá því að ákærði hefði rifið gat á buxur hennar og stungið fingri í leggöng hennar. Hann hefði reynt að útskýra fyrir lögreglunni að frásögn hennar væri ekki sönn. Ekkert hefði verið hlustað á sig og hann fluttur á brott.
Meðal gagna eru ljósmyndir af gulum buxum A sem hún er sögð hafa klæðst á þessum tíma og er gat í klofinu á buxunum. Ákærði kvaðst ekki kannast við þessar gulu buxur og neitar að hafa rifið þær og stungið fingri í leggöng A og kannaðist hann ekki við að A ætti svona buxur. Spurður um brotinn marmaralampa fyrir utan húsnæðið, kvað ákærði A hafa kastað lampanum í sig og brotið hann en ákærði mundi ekki hvort það var þennan dag.
Fyrir liggur áverkavottorð A þar sem áverkum er lýst eins og í ákærunni. Ákærði vissi ekki hvernig hún hlaut áverkana.
Vitnið A lýsti því er hún beið eftir ákærða á heimilinu þennan dag en koma hans dróst þar sem hann lenti í umferðarslysi. Að lokum kom ákærði heim ásamt I, kunningja sínum. Hún kvað ákærða hafa gengið að sér rifið utan af sér gular buxur sem hún hafði nýlega keypt. Þá hefði hann stungið fingri upp í leggöng hennar og uppnefnt sig öllum illum nöfnum. Við þetta hafi hún hlotið hruflsár við leghálsop eins og fram komi í læknisvottorði en hún kvað ákærða hafa verið mjög harðhentan er hann setti fingur í leggöng hennar en hún hafi hlotið áverkann við þetta. Eftir það sló ákærði hana með flötum lófa svo hún féll við og sparkaði ítrekað í hana liggjandi. Ákærði hafi í þessari atburðarás tekið hana kverkataki. Þetta hafi allt gerst inni í íbúðinni. Eftir þetta hrinti ákærði henni niður stiga og hún hefði sloppið blóðug út og til nágranna. Spurð um keramiklampa sem í ákæru greinir kvað hún lampann hafa verið marmaralampa. Hún mundi ekki hvort ákærði kastaði lampanum í hana en það kunni að vera eftir að hún féll niður stigann. Nánar spurð mundi hún þetta og kvað hún ákærða hafa kastað lampanum eftir sér, eftir að hún féll niður stigann. Lampinn hafi brotnað en hún muni þetta þar sem hún kvað sér hafa þótt vænt um lampann. Eftir að hún kom til nágranna síns var hringt í lögregluna og hún flutt til skoðunar á Heilbrigðisstofnun [...]. Hún lýsti líðan sinni meðan á stormasömu sambandi við ákærða stóð. Hún kvað ákærða veikan er hann væri í mikilli neyslu. Hún lýsti þessu nánar.
Vitnið J lögreglumaður fór á vettvang að [...] á þeim tíma sem í ákæru greinir. Lögreglu hafði borist tilkynning um heimilisofbeldi og hugsanlegt kynferðisbrot. Er hann kom á vettvang hafi A verið komin á Heilbrigðisstofnun [...] til skoðunar. Eftir skoðunina fór vitnið með A á heimili hennar að [...] til að skoða vettvang sem var ljósmyndaður. A greindi frá því sem gerðist og ritaði vitnið skýrslu eftir frásögn hennar. A gaf skýrslu um atburðinn daginn eftir. Á vettvangi hafi verið brotinn lampi við útidyr og greindi A frá því að ákærði hefði kastað lampanum á eftir sér. Lagt var hald á lampann. Þá afhenti A gular buxur er hún kveðst hafa klæðst er atburðurinn samkvæmt þessum ákærulið átti sér stað. Buxurnar hafi verið rifnar.
Vitnið K lögreglumaður lýsti því er hann fór að [...] á þeim tíma sem hér um ræðir. A hefði verið í uppnámi er lögreglan kom og sagði hún sambýlismann sinn hafa beitt sig ofbeldi, meðal annars stungið fingri í leggöng hennar. Hún var flutt til læknisskoðunar. Ákærði var handtekinn í kjölfarið.
Vitnið L lögreglumaður lýsti því er þau M lögreglumaður fóru að [...] á þessum tíma. A tók á móti þeim grátandi og bað um að ákærði, sambýlismaður hennar, yrði fjarlægður af heimilinu. A hefði greint frá komu ákærða heim þennan dag, ásamt kunningja sínum. Hann hefði veist að henni og er hún var að skipta um buxur hefði ákærði stungið fingri upp í leggöng hennar auk þess að kalla hana öllum illum nöfnum. Vitnið fór með A í læknisskoðun. Vitnið mundi eftir gulum buxum á staðnum en hún mundi ekki hvort A var í buxunum eða hvort hún hélt á þeim við komu lögreglu.
Vitnið M lögreglumaður fór á vettvang á þessum tíma eftir tilkynningu um heimilisofbeldi. Á vettvangi hefði A verið í miklu uppnámi og greindi hún svo frá að ákærði hefði rifið buxur hennar og stungið fingri í leggöng hennar. Ákærði var handtekinn eftir þetta.
Vitnið I kvaðst hafa verið með ákærða í för er hann lenti í bílslysi á [...] hinn 24. maí 2012. Þeir ákærðu komu saman á heimili ákærða, að [...] í [...], síðar þennan dag. Vitnið kvaðst hafa verið við drykkju ásamt ákærða á þessum tíma og lítið muna af því sem gerðist en hann hefði verið meira eða minna í „blackouti“ eins og hann bar. Hann mundi ekki eftir komu lögreglunnar og hann mundi ekki hvort hann fór af [...] þennan sama dag.
Vitnið H, sem bar um atburð sem lýst er í 1. ákærulið að framan, staðfesti það sem hann bar um hjá lögreglu að stúlkan hefði komið til hans blóðug eins og með sprungna vör hinn 24. maí 2012 og beðið sig um að hringja í lögregluna.
Meðal gagn málsins eru tvö læknabréf vegna A. N læknir ritaði þau bæði. Annað læknabréfið er dagsett 5. desember 2012. Í læknabréfinu er svofelldur kafli:
,,Þann19. maí leitaði hún á [...] eftir að hafa orðið fyrir árás af hendi sambýlismanns. Hún segir að hann hafi hrint henni niður tröppur.
Við skoðun þá sáust mörg lítil sár á hnúum, hún var með blóðnasir, mar í kringum vinstra auga og far á hægri kinn eins og eftir högg. Einnig kvartaði hún undan eymslum í hálsi og höfuðverk. Það kemur fram að hún missti ekki meðvitund við þessa árás.
A leitaði síðan aftur á [...] þann 24. maí og þá í fylgd með tveimur lögregluþjónum. Hún segist aftur hafa orðið fyrir árás af hendi sambýlismanns síns.
Skv. A var forsaga málsins í það skiptið að honum mislíkaði eitthvað klæðaburður hennar. Hann réðist þá að henni, reif utan af henni nýjar buxur sem hún var í og tróð harkalega fingrum sínum upp í leggöng hennar. Henni fannst henni koma blóð úr leggöngum en í litlu magni. Framhaldið er henni síðan aðeins óljóst en henni finnst eins og hann hafi snúið upp á hendur hennar og fleygt henni eitthvað til á heimili þeirra. Þess má einnig geta að hún segist halda að hún sé komin um 8 vikur á leið.
Skoðun undirritaðs 24. maí 2012:
Við skoðun var A ögn agiteruð og á iði. Íklædd heillegum hvítum bol og bláum gallabuxum. Greinir sjálf frá fyrri vímuefnavanda og sögu við sambýlismann. Vel áttuð á stað og sund. Lífsmörk voru stabíl.
Höfuð og háls:
Rauð upphleypt striklaga húðbólga vinstra megin á enni. Hruflsár á hægri kinn og smáskeinur kringum munn. Ekki grunur um brot á andlitsbeinum. Eymsli við þreyfingar yfir hálshryggjarliðum en full hreyfigeta. Aðeins roði hægra megin á hálsi.
Búkur:
Engin eymsli eða áverkar greinanlega á brjóstkassa, kvið eða baki.
Útlimir:
Roðasvæði á upphandlegg hægri griplims. Gamlir marblettir þar sem og á framhandlegg. Grunnur skurður hliðlægt á handarbaki hægri handar sem þarfnast tveggja saumaspora sem eru ísett eftir deyfingu. Talsverð bólga og verkur yfir löngutöng hægri handar. Mestur verkur við PIP lið. Full hreyfigeta og ekki klínískur grunur um brot.
Gamlir marblettir á lærum beggja ganglima. Eymsli yfir hægra læri við þreifingar en ekki sjáanlegir áverkar.
Skoðun á kvenlíffærum:
Skoðun er framkvæmd að viðstöddum kvenkynslögregluþjóni og eftir samþykki A.
Við skoðun á ytri kynfærum eru ekki sjáanlegir áverkar. Ekki eymsli þar.
Skoðun á innri kynfærum með colposcope sýnir talsverða hvítleita slikju og útferð. Ekki greinanlegir alvarlegir innri áverkar. Væg eymsli við þreifingar á svæðinu vinstra megin við leghálsinn. Sjáanlegt með berum augum rétt vinstra megin við leghálsopið var um 0,5 cm löng, grunn rispa eða hruflsár. Get ekki fuppyrt að blætt hafi frá þeirri rispu.
Niðurstaða málsins er sú að skv. A er um endurtekið ofbeldi að ræða af hendi sambýlismanns hennar. Talsverðir áverkar sáust á henni við skoðun 24. maí þar sem hluti þeirra var ferskur og hluti gamall. Áverkar þeir geta að mati undirritaðs vel samrýmst frásögn A.“
Vitnið N læknir gaf skýrslu fyrir dómi, skýrði og staðfesti læknabréfin. Hann kvað áverkana geta samrýmst frásögn A af því sem gerðist en hún hefði m.a. greint frá því að sambýlismaður hennar hefði troðið fingri harkalega upp í leggöng hennar. Vitnið kvað áverkann sem hann greindi við leghálsop A vel geta samrýmst frásögn hennar og að hún hefði hlotið áverkann er fingri var troðið harkalega í leggöng hennar. Aðrir áverkar sem greindust hafi verið nýlegir og geti samrýmst frásögn hennar og hún hljóti að hafa orðið fyrir fleiri höggum en tveimur og skýrði hann þetta nánar.
Niðurstaða ákæruliðar 2.
Ákærði neitar sök. Lögreglumennirnir K, L og M fóru á vettvang og öll greindu vitnin frá því að a hefði verið í uppnámi og grátandi við komu lögreglu og hún hefði greint frá því að ákærði hefði stungið fingri í leggöng hennar, eins og lýst er í ákærunni, auk þess sem hann hefði beitt hana frekara ofbeldi.
Vitnið J lögreglumaður skrifaði niður frásögn A þar sem hún greindi efnislega frá að sama veg. Skýrslan liggur fyrir meðal gagna málsins.
Fyrir liggur læknisvottorð A þar sem áverkum hennar er lýst m.a. 0,5 cm langri rispu eða hruflsári við leggangaop. Samkvæmt vitnisburði N læknis getur sá áverki vel samrýmst frásögn A um það sem gerðist en hún kvað ákærða hafa verið mjög harðhentan er hann setti fingur í leggöng hennar eins og rakið var. Buxur sem A klæddist voru haldlagðar og styðja þær frásögn hennar en gat er í klofi þeirra. Þá var lagt hald á brotinn lampa utan dyra, reyndar marmaralampa en ekki keramiklampa eins og segir í ákæru en þetta kemur ekki að sök.
Vitnisburður A hefur frá upphafi verið efnislega á sama veg um það sem gerðist. Vitnisburður hennar er trúverðugur um atburðarásina og fær stoð í læknisvottorði og vitnisburði lögreglumannanna sem nefndir voru. Framburður ákærða er ótrúverðugur og fær ekki stoð í öðrum gögnum málsins.
Að þessu virtu verður trúverðugur vitnisburður A lagður til grundvallar niðurstöðunni með þeim stuðningi sem rakinn var. Er samkvæmt þessu sannað með vitnisburði A, með stoð í læknisvottorði og vitnisburði J, K, L og M og með stuðningi af öðrum gögnum málsins, en gegn neitun ákærða, að hann hafi gerst sekur um háttsemi þá sem í þessum ákærulið greinir og eru brot ákærða rétt færð til refsiákvæða í ákærunni.
Ákæruliður 3.
Samkvæmt frumskýrslu lögreglunnar, dagsettri 14. ágúst 2012, var ákærði handtekinn þennan dag vegna rannsóknar annars sakarefnis. Í skýrslunni er því lýst er verið var að færa ákærða inn í lögreglubifreið en hann hafi verið mjög æstur og neitað að fara með fætur inn í bílinn. Er lögreglumaður ætlaði að færa fætur hans inn hafi ákærði ítrekað reynt að sparka í lögreglumanninn af miklu afli. Er reynt var að koma ákærða inn í bílinn hefði lögreglumaður sett aðra höndina framan í ákærða sem við það fékk blóðnasir. Í kjölfarið hafi ákærði hrækt á lögreglumennina eins og lýst er í ákærunni.
Við skýrslutöku hjá lögreglu sama dag neitaði ákærði að hafa hrækt á lögreglumennina.
Nú verður rakinn framburður ákærða og vitnisburður fyrir dómi.
Ákærði neitar sök. Hann kvaðst hafa hlaupið undan lögreglunni þennan dag en lögreglan náð sér á hlaupunum. Hann hefði ekki vitað hvað um var að ræða og hafi hann verið mjög samstarfsfús við lögregluna og ekki sýnt neinn mótþróa við handtöku en kvaðst hafa verið „léttkenndur“. Hann var færður inn í lögreglubíl en áður en til þess kom hefði einn lögreglumannanna kýlt sig svo hann nefbrotnaði og mikið blæddi úr nefi hans. Í kjölfarið var hann færður á lögreglustöðina en hann hefði ekki viðhaft háttsemina sem í ákærunni greinir en kvað hugsanlegt að blóð hefði spýst er hann ræddi við lögregluna en hann verið handjárnaður og gat ekki þurrkað blóðið framan úr sér.
Vitnið O lögreglumaður kvaðst hafa verið að sinna tilkynningu um innbrot og hafi rætt við dyravörð á veitingastað í miðbænum. Vísað var á ákærða sem manninn sem braust inn og er lögreglan kom auga á hann, hljóp hann út af staðnum og lögreglan á eftir en náði honum á hlaupum skammt frá þar sem hann var handtekinn. Ákærði hefði verið mjög æstur og spýtti hann blóði yfir lögreglumennina, sem í ákæru greinir, og inni í lögreglubifreiðinni eftir handtöku en mikið blæddi úr nefi ákærða. Ekki hefði verið unnt að aðstoða ákærða vegna æsings og lýsti hann þessu. B lögreglumaður hefði fengið hrákann framan í sig og á einkennisfatnað en hann mundi ekki hvar hrákinn lenti á C. Skýring ákærða um að blóð hefði spýst er hann var að tala eða að hnerra væri fráleit. Ákærði hefði ítrekað hrækt eftir að hann kom inn í lögreglubílinn og alla leið á lögreglustöð. O greindi frá því hvernig reynt var að bregðast við þessu á lögreglustöðinni þar sem teppi var breitt yfir ákærða.
Vitnið B lögreglumaður lýsti handtöku ákærða á þeim tíma sem í ákæru greinir en ákærði hefði verið mjög æstur. Hann var beðinn um að fara inn í lögreglubílinn sem hann vildi ekki og var honum þá ýtt þangað. Hann reisti sig þá upp og sparkaði í áttina að lögreglumönnunum og sparkaði ákærði í höfuðhæð vitnisins sem gat vikið sér undan. Við að reyna að handtaka ákærða hefði hönd vitnisins rekist í ákærða sem við það hlaut áverka á nefi svo úr blæddi. Eftir þetta tók ákærði að hrækja úr lögreglubifreiðinni og hrækti hann á vitnið, eins og lýst er í ákærunni, og einnig á C lögreglumann sem var fyrir aftan vitnið. Á leiðinni á lögreglustöð hefði ákærði ítrekað hrækt á vitnið. Hrákarnir lentu í andliti vitnisins, á einkennisfatnaði og út um allan bíl eins og hann lýsti. Reynt var að bregðast við þessu með að halda höfði ákærða niðri. Skýring ákærða um að hrákinn hefði borist á vitnið vegna þess að ákærði hefði ekki getað talað, eða að hann væri að hnerra, komi ekki heim og saman við það sem gerðist.
Vitnið C lögreglumaður lýsti því er hann skoðaði innbrotsvettvang þar sem ákærði var talinn hafa brotist inn og ræddi þar við húsráðanda. Hann kvaðst hafa séð átök í lögreglubílnum þar sem ákærði var handtekinn. Hann fór þangað til að veita aðstoð og er hann kom þangað hefði ákærði hrækt á sig og lenti hrákinn á andliti vitnisins og á einkennisfatnaði. Ákærði var fluttur á brott skömmu síðar. Skýring ákærða um að hann hefði verið að tala eða hnerra standist ekki. Ásetningur ákærða til að hrækja á lögregluna hafi verið skýr að hans sögn.
Vitnið P lýsti því er hann sá mann brjótast inn í miðbænum á þessum tíma. Hann kveðst ekki hafa séð samskipti mannsins og lögreglunnar og mundi þetta ekki.
Vitnið Q lýsti því að ákærði hefði verið æstur er verið var að hlaupa hann uppi á þessum tíma. Vitnið kvaðst hafa farið í burtu eftir að maðurinn hafði verið handjárnaður og gat ekki borið um atburði sem í ákæru greinir.
Niðurstaða ákæruliðar 3.
Ákærði neitar sök. Vitnin O, B og C báru allir um handtöku ákærða og að skýringar ákærða um að hráki hafi óviljandi lent á lögreglunni í greint sinn fái ekki staðist en ákærði hafi verið mjög æstur við handtökuna eins og rakið var.
Meðal gagna málsins er upptaka eftirlitsmyndavéla þar sem sést er komið var með ákærða í fangageymslu þetta kvöld. Þar sést að ákærði var mjög æstur og áttu þrír lögreglumenn fullt í fangi með hann. Fyrir liggur að upptökubúnaður var ekki í gangi í lögreglubifreiðinni á þeim tíma sem í ákæru greinir. Með trúverðugum og efnislega samhljóða vitnisburði lögreglumanna O, B og C er sannað, gegn neitun ákærða, að hann hafi gerst sekur um háttsemi þá sem í þessum ákærulið greinir og er brot hans þar rétt fært til refsiákvæðis.
Ákærði hefur frá árinu 1994 hlotið sjö refsidóma fyrir þjófnað, fíkniefnabrot, brot gegn valdstjórninni, nytjastuld, umferðalagabrot, fjársvik, eignarspjöll, vopnalagabrot og líkamsárás, bæði samkvæmt 217. og 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga. Síðast hlaut ákærði dóm hinn [...] 2012, 3 ára fangelsi fyrir fíkniefnabrot, brot gegn valdstjórninni, líkamsárás skv. 217. og 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga, eignarspjöll, vopnalagabrot og umferðarlagabrot. Nú ber að dæma hegningarauka, sbr. 78. gr. almennra hegningarlaga, en refsing ákærða er jafnframt ákvörðuð með hliðsjón af 77. gr. sömu laga.
Brot ákærða samkvæmt 2. lið ákærunnar er alvarlegt. Við refsiákvörðun er höfð hliðsjón af 3. mgr. 70 gr. til þyngingar vegna sakargifta í 1. lið ákærðu en A var sambýliskona ákærða er hann braut gegn henni. Í 2. lið ákæru er því ekki lýst að ákærði og A hafi verið sambúðarfólk er brotið samkvæmt þeim ákærulið var framið og kemur því ekki til álita að beita ofangreindu lagaákvæði til þyngingar við refsiákvörðun vegna þessa ákæruliðar. Þá er höfð hliðsjón af 3. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga til þyngingar en ákærði hefur ítrekað gerst sekur um brot gegn 106. gr. almennra hegningarlaga.
Að öllu ofanrituðu virtu þykir refsins ákærða hæfilega ákvörðuð fangelsi í 2 ár.
A á rétt á miskabótum úr hendi ákærða á grundvelli 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 og þykja miskabætur til hennar hæfilega ákvarðaðar 1.000.000 krónur auk vaxta svo sem í dómsorði greinir en dráttarvextir reiknast frá 10. október 2013 en þá var liðinn mánuður frá birtingu bótakröfunnar.
Ákærði greiði Gunnhildi Pétursdóttur héraðsdómslögmanns, skipuðum réttargæslumanni A, 335.713 króna réttargæsluþóknun.
Ákærði greiði 94.000 krónur vegna útlagðs sakarkostnaðar ákæruvaldsins.
Ákærði greiði 376.500 króna málsvarnarlaun Snorra Sturlusonar héraðsdómslögmanns.
Tekið hefur verið tillit til virðisaukaskatts við ákvörðun þóknunar lögmanna.
Óli Ingi Ólason aðstoðarsaksóknari flutti málið fyrir ákæruvaldið.
Dóminn kveða upp héraðsdómararnir Guðjón St. Marteinsson, sem dómsformaður, Kristrún Kristinsdóttir og Skúli Magnússon.
Dómsorð:
Ákærði, X, sæti fangelsi í 2 ár.
Ákærði greiði A, kennitala [...], 1.000.000 krónur í miskabætur ásamt vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 24. maí 2012 til 10. október 2013 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Ákærði greiði Gunnhildi Pétursdóttur héraðsdómslögmanni 335.713 króna réttargæsluþóknun.
Ákærði greiði 94.000 krónur í útlagðan sakarkostnað ákæruvaldsins.
Ákærði greiði 376.500 króna málsvarnarlaun Snorra Sturlusonar héraðsdómslögmanns.
Tekið hefur verið tillit til virðisaukaskatts við ákvörðun þóknunar lögmanna.