Hæstiréttur íslands

Mál nr. 474/2003


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991


Þriðjudaginn 16

 

Þriðjudaginn 16. desember 2003.

Nr. 474/2003.

Lögreglustjórinn í Reykjavík

(Egill Stephensen saksóknari))

gegn

X

(Jóhannes Albert Sævarsson hrl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. C liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.

Hæstiréttur staðfestu úrskurð héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli c. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 12. desember 2003, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 15. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 9. desember 2003, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 7. janúar 2004. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur.

Fallist verður á með sóknaraðila að skilyrði séu fyrir hendi samkvæmt c. lið 1. mgr. 103. gr., sbr. 106. gr. laga nr. 19/1991 til að dæma varnaraðila til að sæta áfram gæsluvarðhaldi. Að þessu virtu verður niðurstaða hins kærða úrskurðar staðfest.

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykja­víkur 9. desember 2003.

Lögreglustjórinn í Reykjavík hefur krafist þess að X, með lögheimili að [...], nú með heimilisfang að [...], verði á grundvelli c-liðar 1. mgr. 103. gr. og 106. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991 gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 7. janúar nk. kl. 16.00.

Krafan er studd þeim rökum að X hafi með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur, uppkveðnum fyrr í dag, verið dæmdur til 14 mánaða fangelsisvistar fyrir fjölmörg auðgunarbrot svo og umferðarlaga- og fíkniefnabrot.  Við uppsögu dómsins hafi hann lýst því yfir að hann tæki sér frest til að taka ákvörðun um áfrýjun til Hæstaréttar.  Dómfelldi eigi að baki nær samfelldan sakaferil frá 1995 og hafi frá 18 ára aldri hlotið fimm dóma fyrir auðgunarbrot og brot á fíkniefnalöggjöf. Hann hafi síðast verið dæmdur 5. júlí 2003 til 12 mánaða fangelsisvistar, þar af níu mánaða skilorðsbundið. Hann hafi lokið afplánun 22. ágúst 2003. Síðan hafi hann gerst sekur um fjögur þjófnaðarbrot og þrjú hilmingarbrot, auk umferðarlagabrots og fíkiefnabrots sem hann hafi hlotið 14 mánaða fangelsisdóm fyrir í dag.

Dómfelldi hafi ákveðið að taka sér frest til að taka ákvörðun um áfrýjun málsins en sá frestur sé fjórar vikur. Sé gæsluvarðhalds krafist þar til þeim fresti ljúki. Meðan dómfelldi hafi ekki lýst því yfir að hann muni ekki áfrýja dóminum og áfrýjunarfrestur sé ekki útrunninn teljist málinu ekki lokið. Með vísan til brotaferils dómfellda, sérstaklega eftir að hann lauk afplánun 22. ágúst 2003, telji lögreglan að yfirgnæfandi líkur séu á að dómfelldi haldi áfram brotastarfseminni fari hann frjáls ferða sinna og sé því nauðsynlegt að hann sæti áfram gæsluvarðhaldi meðan máli hans sé enn ólokið. Sömu hagsmunir séu sem fyrr að því að dómfelldi verði áfram í gæsluvarðhaldi þar til hann hafi lokið afplánun vegna brota þeirra sem hann hafi verið dæmdur fyrir. Áframhaldandi gæsluvarðhalds sé því krafist með vísan til c-liðar 1. mgr. 103. gr. og 106. gr. laga nr. 19/1991.

Af hálfu dómfellda er vísað til þess að upphaflegur tilgangur gæsluvarðhaldsvistar dómfellda hafi verið að stemma stigu við því að hann héldi áfram afbrotum meðan á rannsókn stæði. Nú hafi verið kveðinn upp dómur vegna allra brota sem dómfellda hafi verið gefin að sök. Dómfelldi hafi ákveðið að taka sér frest til að ákveða hvort hann áfrýji dóminum og hann eigi ekki að vera í annarri stöðu en aðrir þeir sem hljóti dóm. Staða hans sé svipuð og eftir afplánun dóms. Því séu ekki lengur rök fyrir því að framlengja gæsluvarðhaldsvist dómfellda. Af hálfu dómfellda er vísað til þess að brot hans tengist öll fíkniefnaneyslu. Dómfelldi hafi ítrekað reynt að komast í meðferð á síðustu vikum en hafi ekki orðið ágengt enn sem komið er vegna þess að hann sé ekki frjáls ferða sinn. Mikilvægt sé að dómfelldi komist sem fyrst í meðferð þar sem fíkniefnaneysla sé undirrót auðgunarbrota hans.

Niðurstaða

Fyrir liggur að dómfelldi lauk afplánun 22. ágúst sl. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur fyrr í dag var hann dæmdur til 14 mánaða fangelsisrefsingar fyrir fjölmörg auðgunar­brot, svo og umferðarlaga- og fíknefnabrot. Dómfelldi hefur sætt gæsluvarðhaldi frá 16. október sl., upphaflega vegna rannsóknarhagsmuna og vegna hættu á að kærði héldi áfram að fremja brot en frá 30. október sl. vegna þess síðartalda.

Með vísan til þess sem fram hefur komið og liggur fyrir í gögnum málsins um brotaferil dómfellda eftir að hann losnaði síðast úr afplánun eru verulegar líkur á að hann haldi áfram brotum meðan máli hans er ekki lokið. Líta verður svo á að máli hans teljist ekki lokið í skilningi c-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 fyrr en dómfelldi hefur lýst því yfir að hann uni dómi, áfrýjunarfrestur er liðinn án þess að beiðni um áfrýjun hafi komið fram eða endanlegur dómur er genginn í Hæstarétti. Ákvæði c-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 grundvallast meðal annars á því að mikilvægir hagsmunir eru tengdir því að brotamenn sem framið hafa mikinn fjölda brota á skömmum tíma, sem ætla verður að muni varða langri fangelsisvist, gangi ekki lausir fyrr en rannsókn málanna er lokið, ljóst að endanlegur dómur liggi fyrir og afplánun lokið. Með vísan til framangreinds og c- liðar 1. mgr. 103. gr. og 106. gr. laga nr. 19/1991 ber að fallast á kröfu lögreglustjórans í Reykjavík og gera dómfellda að sæta gæsluvarðhaldi, eins og krafist er.

Sigurður T. Magnússon héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð:

                Dómfelldi, X, skal sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 7. janúar nk. kl. 16.00.