Hæstiréttur íslands

Mál nr. 25/2013


Lykilorð

  • Kærumál
  • Afhending gagna
  • Skjal


Miðvikudaginn 30. janúar 2013.

Nr. 25/2013.

Ákæruvaldið

(Helgi Magnús Gunnarsson

vararíkissaksóknari)

gegn

X

(enginn)

Kærumál. Afhending gagna. Skjöl.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem ákæruvaldinu var gert að láta dóminum í té orðrétt endurrit af upptökum af lögregluskýrslum en ákæruvaldið hafði hvorki lagt fram slík endurrit né látið verjanda málsins í té mynddisk með upptökunum. Aftur á móti höfðu verið lögð fram endurrit sem voru því sem næst orðrétt. Í dómi Hæstaréttar voru rakin laga- og reglugerðarákvæði um fyrirkomulag við skráningu framburðar sakbornings og vitna og túlkun þeirra í dómaframkvæmd. Þá var vísað til þess að verjandi, sakborningur og réttargæslumaður ættu samkvæmt reglugerð rétt á að hlýða eða horfa á upptöku lögregluyfirheyrslu. Komst Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu að ákæruvaldinu bæri ekki að láta héraðsdómi í té orðrétt endurrit framburðar X og vitna sem tekinn var upp í hljóði og mynd. Var hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Greta Baldursdóttir og Helgi I. Jónsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 9. janúar 2013 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 11. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 8. janúar 2013 þar sem sóknaraðila var gert að láta héraðsdómi í té endurrit af upptökum af skýrslum varnaraðila og vitna hjá lögreglu. Kæruheimild er í p. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.

Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

I

Ágreiningur í kærumáli þessu snýst um það hvort sóknaraðila sé skylt að leggja fram í héraðsdómi orðrétt endurrit af mynd- og hljóðdiskum sem hafa að geyma framburð ákærða og vitna hjá lögreglu. Það telur ákæruvaldið sér ekki skylt þar sem fullnægjandi sé að fyrir liggi í málinu því sem næst orðrétt endurrit framburðar hjá lögreglu ritað samhliða skýrslugjöf. Þá vísar ákæruvaldið til þess að verjandinn geti kynnt sér efni mynd- og hljóðdiska á skrifstofu ríkissaksóknara óski verjandi eftir því. 

Sakamál var höfðað á hendur varnaraðila með ákæru ríkissaksóknara 5. nóvember 2012 fyrir sakargiftir þær sem í hinum kærða úrskurði greinir. Málið var þingfest 27. nóvember 2012 og við fyrirtekt þess 4. janúar 2013 vakti héraðsdómari athygli sakflytjenda á því að diskar með skýrslum ákærða og vitna í málinu hefðu einungis borist í einu eintaki og væru þær ekki orðrétt endurritaðar í gögnunum. Af hálfu ákæruvaldsins var því lýst yfir af þessu tilefni að eftirgerð diska með skýrslunum yrði ekki afhent verjandanum. Héraðsdómari beindi því þá til sækjanda að láta endurrita skýrslurnar orðrétt til afnota fyrir málsaðila en sækjandi synjaði því. Þá krafðist verjandi þess að fá afhent afrit diskanna eða orðrétt endurrit þess sem þar kemur fram og tók skipaður réttargæslumaður brotaþola undir það. Í framhaldinu var málið tekið til úrskurðar og með hinum kærða úrskurði var ákæruvaldinu gert að láta dóminum í té í nægilega mörgum eintökum orðrétt endurrit af upptökum af skýrslum ákærða og vitna hjá lögreglu.

Synjun sína á framlagningu orðréttra endurrita af skýrslum varnaraðila og vitna hjá lögreglu reisir ákæruvaldið á 12. gr. reglugerðar nr. 651/2009 um réttarstöðu handtekinna manna, yfirheyrslur hjá lögreglu o.fl. og hafnar því að með afstöðu sinni sé starfi verjanda ákærða torveldaður.  Þótt einungis eitt eintak af mynd- og hljóðdiskum hafi verið lagt fram í málinu og sé í vörslu dómara geti verjandinn kynnt sér upptökurnar með sama hætti og sækjandinn og því sé jafnræði aðila ekki raskað. Fallast megi á að í því geti falist visst óhagræði og fyrirhöfn fyrir verjandann að fara á skrifstofu ríkissaksóknara en til þess verði að taka tillit við ákvörðun þóknunar verjandans. Rök þessa fyrirkomulags séu rík en með því sé dregið verulega úr hættu á að diskarnir eða efni þeirra rati í fjölmiðla eða á veraldarvefinn en slíks muni einhver dæmi. Birting yfirheyrslna yrði til þess fallin að draga úr vilja sakborninga og vitna til að tjá sig hjá lögreglu og torvelda uppljóstrun mála. Leiði þetta af því að lög nr. 88/2008 leggi engar skyldur á herðar verjendum um að ábyrgjast þau gögn sem þeir hafa gagnvart skjólstæðingi sínum, sbr. 4. mgr. 37. gr. laganna.

II

Tekin var skýrsla af varnaraðila hjá lögreglu í hljóði og mynd með svokölluðum INDICO búnaði og var skýrslan rituð upp samhliða upptöku. Varnaraðili las skýrsluna yfir og staðfesti með undirskrift sinni að rétt væri eftir honum haft. Með þessum sama hætti tók lögregla einnig skýrslur af sex vitnum. Haft var símasamband við sex önnur vitni og orðrétt endurrit þess sem fram kom í símtölunum skráð samhliða í skýrslu lögreglu. Það sem skráð var eftir þessum vitnum var síðan lesið upp fyrir vitnin sem einnig staðfestu að rétt væri haft eftir. Skýrsla var tekin af brotaþola á heimili hans og var hún tekin upp í hljóði með stafrænum upptökubúnaði en brotaþoli mun hafa verið rúmliggjandi sökum áverka. Rannsóknarlögreglumaður gerði og undirritaði skriflega samantekt um það, sem fram kom við skýrslutökuna yfir brotaþola, en hinn síðarnefndi ritaði nafn sitt á eyðublað svokallaðrar „Mætingarskýrslu v/skýrslutöku“ en á því kemur fram að það er eingöngu notað við skýrslutökur utan lögreglustöðvar. Með undirritun sinni á eyðublaðið staðfesti brotaþoli að hann gerði engar athugasemdir við efni samantektarinnar

III

Í VIII. kafla laga nr. 88/2008 eru ákvæði um skýrslutöku lögreglu af sakborningum og vitnum í sakamáli. Samkvæmt 2. mgr. 66. gr. laganna skal það sem fram kemur við skýrslutöku hjá lögreglu hljóðritað, tekið upp á myndband eða mynddisk, eftir því sem við verður komið, en annars ritað af þeim sem skýrslu gerir eftir nánari ákvörðun hans. Ef framburður er ekki hljóðritaður eða tekinn upp á annan hátt skal leitast við að skrá orðrétt eftir skýrslugjafa. Samkvæmt 67. gr. laganna skal ráðherra setja í reglugerð nánari ákvæði um málaskrá lögreglu, um skýrslur sem teknar eru og varðveislu skriflegra skýrslna, hljóðritana, myndbanda og mynddiska með framburði skýrslugjafa. Með stoð í þessu ákvæði meðal annars setti ráðherra 8. júlí 2009 reglugerð nr. 651/2009 um réttarstöðu handtekinna manna, yfirheyrslur hjá lögreglu o.fl. Samkvæmt 12. gr. reglugerðarinnar skal fyrirkomulag um skráningu framburðar, sem tekinn er upp, vera með einum af eftirfarandi hætti: „a. Samantekt, sem byggð er á upptökunni, er rituð eftir á sem skýrsla. b. Orðrétt endurrit upptöku skráð eftir á. c. Skýrsla er skráð, því sem næst orðrétt, samhliða upptöku.“ Í kafla II hér að framan er því lýst hvernig skýrslutökum lögreglu var háttað við rannsókn hennar á þeim atburðum sem leiddu til þess að sakamál þetta var höfðað. Af því sem þar kemur fram er ljóst í fyrsta lagi að framburður sex vitna í málinu var orðrétt endurritaður á grundvelli þess sem kom fram í símtölum við þá, í öðru lagi að framburður varnaraðila og sex vitna var tekinn upp í hljóði og mynd og samhliða skráð skýrsla sem hefur að geyma því sem næst orðrétt endurrit þess sem þar kom fram, og í þriðja lagi að framburður brotaþola var tekinn upp í hljóði og eftir á rituð skýrsla sem byggði á upptökunni. Samkvæmt þessu var öllum þeim aðferðum beitt við skráningu framburðar varnaraðila og vitna sem heimilaðar eru í 2. mgr. 66. gr. laga nr. 88/2008, sbr. 12. gr. reglugerðar nr. 651/2009.

Það er meginregla samkvæmt 1. mgr. 111. gr. laga nr. 88/2008 að dómur skal reistur á sönnunargögnum sem færð eru fram við meðferð máls fyrir dómi. Samkvæmt 1. mgr. 134. gr. laga nr. 88/2008 leggja aðilar fram þau skjöl og önnur sönnunargögn sem þeir vilja að tekið verði tillit til við úrlausn máls. Við þingfestingu máls þessa í héraði lagði ákæruvaldið fram bréf ríkissaksóknara, ákæru, sakavottorð og skjalaskrá ásamt fylgiskjölum. Meðal fylgiskjalanna eru framangreind endurrit skýrslna lögreglu og í einu eintaki diskar sem hafa að geyma hljóð- og myndbandsupptökur með skýrslum varnaraðila og vitna hjá lögreglu. Skrifleg endurrit þeirra lögregluskýrslna sem ákæruvaldið lagði fram í málinu samkvæmt framansögðu teljast til skjala og annarra sýnilegra sönnunargagna í skilningi laga nr. 88/2008, sbr. dóm Hæstaréttar 21. september 2009 í máli nr. 495/2009. Eins og áður er fram komið lýsti ákæruvaldið því yfir við fyrirtekt máls þessa í héraði 4. janúar 2013 að diskar sem hafa að geyma skýrslur varnaraðila og vitna hjá lögreglu yrðu ekki afhentir verjanda. Kemur þá til úrlausnar hvort ákæruvaldið hafi með þeirri yfirlýsingu fellt á sig þá skyldu að láta héraðsdómi í té í nægilega mörgum eintökum orðrétt endurrit framburðar varnaraðila og vitna sem tekinn var upp í hljóði og mynd í stað þess að leggja fram skýrslur með þeim hætti sem áður greinir.

Hljóð- og mynddiskar, sem hafa að geyma skýrslur lögreglu af sakborningum og vitnum, teljast ekki til skjala eða annarra gagna í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga nr. 88/2008, sbr. dóma Hæstaréttar 21. september 2009 í málum nr. 495/2009, 496/2009 og 497/2009, og dóm réttarins 12. apríl 2012 í máli nr. 205/2012. Skylda samkvæmt 1. mgr. 37. gr. laga nr. 88/2008 til afhendingar skjala á rannsóknarstigi tekur einungis til afrita af skjölum sem eru á pappírsformi en ekki til eftirgerðar af öðrum gögnum hvort heldur eru hljóð- eða mynddiskar, sbr. síðastgreinda fjóra dóma Hæstaréttar. Lögregla getur samkvæmt 3. mgr. 37. gr. laga nr. 88/2008 synjað verjanda um aðgang að einstökum skjölum og öðrum gögnum, á meðan rannsókn máls skjólstæðings hans stendur, ef brýnir einkahagsmunir annarra en skjólstæðings standa því í vegi. Í ákvæðinu felst, sbr. dóm Hæstaréttar 1. nóvember 2010 í máli nr. 614/2010, að heimilt er að fara þá leið sem er síður íþyngjandi í garð ákærða og veita honum aðgang að skjölum á lögreglustöð en synja honum um afrit þeirra. Þótt sambærilegt ákvæði sé ekki að finna í lögunum um réttarstöðuna að þessu leyti, eftir að mál hefur verið höfðað, hefur allt að einu verið talið að sömu reglur gildi eftir málshöfðun, enda sé þess í hvívetna gætt að ákærðu fái viðunandi aðstöðu og nægan tíma til að kynna sér gögn og undirbúa vörn sína, sbr. fyrrnefndan dóm Hæstaréttar í máli nr. 614/2010 og dóm réttarins 12. apríl 2012 í máli nr. 205/2012

Að framan eru rakin laga- og reglugerðarákvæði um fyrirkomulag við skráningu framburðar sakbornings og vitna og túlkun þeirra í dómaframkvæmd. Þá er og áður gerð grein fyrir lagareglum um framlagningu skjala fyrir dómi og því hvernig ákæruvaldið stóð að framlagningu skjala og annarra sönnunargagna í málinu. Þegar til þessa er litið og það haft í huga að verjandi, sakborningur og réttargæslumaður eiga samkvæmt 18. gr. reglugerðar nr. 651/2009 rétt á að hlýða eða horfa á upptöku lögregluyfirheyrslu verður ekki talið að ákæruvaldið hafi með fyrrgreindri yfirlýsingu 4. janúar 2013 fellt á sig þá skyldu að láta héraðsdómi í té orðrétt endurrit framburðar varnaraðila og vitna sem tekinn var upp í hljóði og mynd. Samkvæmt þessu verður hinn kærði úrskurður felldur úr gildi.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi.                                            

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 8. janúar 2013.

Ár 2013, þriðjudaginn 8. janúar er á dómþingi héraðsdóms Reykjavíkur, sem haldið er í Dómhúsinu við Lækjartorg, kveðinn upp úrskurður í málinu nr. S-818.12: Ákæruvaldið gegn X um það atriði hvort ákæruvaldinu sé skylt að láta dóminum í té endurrit af skýrslum ákærða og vitna, sem teknar voru upp í hljóð og mynd hjá lögreglu, í nægilega mörgum eintökum.

Málavextir.

Ákærða er gefið það að sök í málinu að hafa veist að manni í Tryggvagötu í mars í fyrra með höggum í líkama og höfuð og að hafa jafnframt skorið hann 40 cm löngum skurði á kvið með dúkhnífi.  Er þessi verknaður í ákærunni talinn varða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.  Er þess krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar, til greiðslu sakarkostnaðar og til greiðslu skaðabóta.  Brot gegn 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga getur varðað fangelsi allt að 16 árum.  Ákærði neitar sök.

Í málinu eru diskar með hljóð- og myndupptökum af skýrslum sem ákærði og vitni hafa gefið í lögreglurannsókninni.  Diskar þessir voru afhentir dóminum í einu eintaki og ákæruvaldið hefur jafnframt ákveðið að ákærði eða verjandi hans fái ekki afhent eintak af þeim.  Fram hefur komið í málflutningi að lögreglan geymir frumupptökurnar en einnig hefur það komið fram að ákæruvaldið hafði umrædda diska undir höndum við undirbúning saksóknar.  Skýrslurnar á þessum upptökum hafa ekki verið endurritaðar, en skýrslur með úrdrætti úr þeim eru þó hluti málsgagna.  Hefur dómarinn beint því til ákæruvaldsins að láta endurrita skýrslurnar fyrir aðalmeðferð málsins en þeim tilmælum hefur verið synjað og til þess vísað að verjendur geti fengið að kynna sér þær af upptökum hjá lögreglu.  Þá er vísað til a- og c- liða 12. gr. reglugerðar um réttarstöðu handtekinna manna, yfirheyrslur hjá lögreglu o.fl. nr. 651, 2009.  Verjandi og réttargæslumaður brotaþola hafa krafist þess að fá í hendur endurrit af umræddum skýrslum.  Var ágreiningur þessi tekinn til úrskurðar hinn 4. janúar sl.

Samkvæmt 154. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88, 2008 skal ákæra send héraðsdómi ásamt þeim sýnilegu sönnunargögnum sem ákæruvaldið hyggst leggja fram í málinu og skulu þau vera í nægilega mörgum eintökum.  Samsvarandi reglu var að finna í ákvæði 2. mgr. 119. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19, 1991.  Ákvæði þessi eru byggð á þeirri reglu sakamálaréttarfars, sem gilt hefur um langan aldur, að sakborningur og verjandi hans eigi rétt á því að kynna sér málatilbúnað ákæruvaldsins til þess að undirbúa varnir í málinu til jafns við undirbúning ákæruvaldsins fyrir málsmeðferðina.  Er hún jafnframt óhjákvæmilegur hluti réttlátrar málsmeðferðar í skilningi 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33, 1944, og 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62, 1994, en báðar taka greinarnar til þeirra mála þegar fjallað er „um ákæru...um refsiverða háttsemi“.  Enda þótt tíðkast hafi í nokkrum mæli að láta endurrit af yfirheyrslum fylgja ákæru í sakamálum í nægilegum fjölda eintaka ásamt einu eintaki af upptökum þeirra, sbr. b-lið 12. gr. fyrrnefndrar reglugerðar, hefur ákæruvaldið, nú í þessu tiltekna máli, synjað tilmælum dómsins um að afhenda slík endurrit, en það getur ekki talist vera hlutverk dómsins að láta endurrita umræddar skýrslur.  Umtalsvert óhagræði hlýtur að fylgja því fyrir verjanda og jafnvel hætta á mistökum geti verjandi ekki, eftir þörfum sínum og hentugleikum, kynnt sér efni þessara rannsóknargagna þegar hann undirbýr vörn í málinu.  Efniságrip lögreglumanns um skýrslu er eðlilega ófullnægjandi, eins og oft hefur sannast.  Verður því að telja að með synjun ákæruvaldsins, sem ekki hefur verið studd gildum rökum, sé verjandanum torveldaður starfinn og að réttur ákærða til réttlátrar málsmeðferðar skertur í sama mæli, en sá réttur verður ekki skertur með reglugerð.  Verður enda að skilja HRD nr. 205/2012 svo, að þegar upptökur með skýrslum sakbornings og vitna eru ekki látnar úti, sé rétt að endurrit skýrslnanna komi í þeirra stað.

Umræddar upptökur af skýrslum ákærða og vitna hafa verið, að því er ætla verður, látnar fylgja ákærunni sem sönnunargögn, sbr. 110. og 111. gr. laga um meðferð sakamála.  Gera verður ráð fyrir því að skýrslugjafarnir verði við aðalmeðferð málsins spurðir út í þessi gögn og þau jafnvel borin undir aðra, eftir því sem þurfa þykir.  Fyrirsjáanlegt er að umtalsvert óhagræði og seinkun hlýst af því í aðalmeðferðinni að hafa þá ekki endurrit af skýrslunum heldur einungis upptökurnar. 

Samkvæmt framansögðu ber að úrskurða að ákæruvaldið skuli láta dóminum í té í nægilega mörgum eintökum endurrit af margnefndum skýrslum ákærða og vitna í máli þessu.

Pétur Guðgeirsson héraðsdómari kvað upp þennan úrskurð.

Úrskurðarorð:

Ákæruvaldið í sakamálinu gegn X skal láta dóminum í té, í nægilega mörgum eintökum, endurrit af upptökum af skýrslum ákærða og vitna hjá lögreglu.