Hæstiréttur íslands

Mál nr. 165/2006


Lykilorð

  • Áfengislagabrot
  • Auglýsing
  • Ábyrgð á prentuðu máli


Fimmtudaginn 8

 

Fimmtudaginn 8. febrúar 2007.

Nr. 165/2006.

Ákæruvaldið

(Bogi Nilsson ríkissaksóknari)

gegn

X

(Stefán Geir Þórisson hrl.)

 

Áfengislagabrot. Auglýsing. Ábyrgð á prentuðu máli.

X var ákærður fyrir áfengislagabrot með því að hafa sem framkvæmdastjóri H ehf. látið birta auglýsingar á áfengum bjór í tveimur dagblöðum. Var brotið talið varða við 20., sbr. 27. gr. áfengislaga nr. 75/1998, sbr. 15. gr. laga nr. 57/1956 um prentrétt. Í dómi Hæstaréttar var vísað til þess að í tveimur nánar tilgreindum dómum hefði verið mörkuð sú stefna að minni kröfur séu gerðar til að höfundur teljist hafa nafngreint sig í skilningi 2. mgr. 15. gr. laga nr. 57/1956 þegar auglýsingar eiga í hlut en ella gildir um annað efni. Tekið var fram að þær auglýsingar sem ákæra varðaði bæru hvorki með sér nafn höfundar né auglýsanda. Þá var ekki talið að í þeim væru auðkenni sem beint eða óbeint vísuðu til X eða þess fyrirtækis sem hann er framkvæmdastjóri hjá, en svo hafði verið í þeim auglýsingum sem fjallað var um í tilvitnuðum dómum. Var þar af leiðandi ekki talið að X hefði nafngreint sig í merkingu fyrrgreinds ákvæðis og hann því ekki talinn bera refsiábyrgð á efni auglýsinganna. Var samkvæmt því staðfest niðurstaða héraðsdóms um sýknu hans.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Hrafn Bragason og Markús Sigurbjörnsson.

Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 13. mars 2006 af hálfu ákæruvalds, sem krefst þess að ákærði verði sakfelldur samkvæmt ákæru og honum ákveðin refsing.

Ákærði krefst þess að héraðsdómur verði staðfestur.

I.

Með ákæru 1. nóvember 2005 var ákærði sakaður um áfengislagabrot með því að hafa sem framkvæmdastjóri A ehf. látið birta auglýsingar á áfengum bjór af tegundinni Faxe Premium í tilteknu tölublaði F2, sem gefið var út 22. desember 2004 og dreift með Fréttablaðinu þann dag, og í tilteknu tölublaði DV, sem gefið var út 30. desember sama ár. Er brotið talið varða við 20., sbr. 27. gr. áfengislaga nr. 75/1998, sbr. 15. gr. laga nr. 57/1956 um prentrétt.

Þær auglýsingar sem ákæran beinist að eru eins. Taka þær yfir heila opnu og sýna ungt fáklætt par í faðmlögum en dvergvaxinn mann í víkingaklæðum klifra upp bak stúlkunnar til að losa um festingar á brjóstahaldi hennar. Neðan til á vinstri hluta myndflatarins er mynd af efri hluta af hvítri dós með grænu, rauðu og gylltu merki sem á er andlitsmynd af manni með víkingahjálm og áletrunin „FAXE Premium“ og má á merkinu einnig meðal annars greina orðin „Faxe Brewery“ og „beer“. Neðst hægra megin á myndfletinum standa orðin „Besti vinurinn“ og með mun smærra letri „Léttur öllari“.

 Samkvæmt 2. gr. áfengislaga telst áfengi hver sá neysluhæfur vökvi, sem í er að rúmmáli meira en 2,25% af hreinum vínanda. Samkvæmt 1. mgr. 20. gr. sömu laga eru hvers konar auglýsingar á áfengi og einstökum áfengistegundum bannaðar og samkvæmt 2. mgr. greinarinnar er það meðal annars talin auglýsing ef sýndar eru í máli eða myndum áfengistegundir í tilkynningu til almennings vegna markaðssetningar. Samkvæmt 3. mgr. greinarinnar tekur bannið með sama hætti til auglýsinga sem eingöngu fela í sér firmanafn eða firmamerki áfengisframleiðanda. Þó er þeim sem auk áfengis framleiðir aðrar drykkjarvörur heimilt að nota firmanafn eða merki í tengslum við auglýsingu þeirra drykkja enda megi augljóst vera að um óáfenga drykki sé að ræða í skilningi laganna og ekki vísað til hinnar áfengu framleiðslu.

  Framburður ákærða fyrir héraðsdómi er rakinn í hinum áfrýjaða dómi. Þar er einnig lýst ljósmyndum, sem teknar voru í þágu rannsóknar málsins af framleiðsluvörum með vörumerkinu FAXE sem á boðstólum voru hér á landi. Eins og þar kemur fram var um að ræða þrjár tegundir af áfengum bjór sem seldur var hjá Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins og eina af óáfengum bjór sem til sölu var í tiltekinni verslun í Reykjavík. Af þessum myndum er ljóst að aðeins ein þessara drykkjartegunda ber vöruheitið FAXE Premium og er það bjór með 4,6% vínandastyrkleika. Er útlit dósa með þessum bjór nákvæmlega eins og dósar þeirrar, sem mynd birtist af í fyrrgreindum auglýsingum og að framan er lýst. Vöruheiti óáfenga drykkjarins, sem ákærði bar í héraði að innihéldi 0,05% af vínanda, var FAXE Free. Hann var í silfruðum dósum með vörumerki í bláum og gylltum litum og að því leyti ólíkur dósinni í auglýsingunum. Þannig er fullljóst að framleiðsluvaran, sem myndin í auglýsingunum sýndi, var áfengi í merkingu 2. gr. áfengislaga og að ákvæði síðari hluta 3. mgr. 20. gr. laganna um heimild til að nota firmanafn áfengisframleiðanda í tengslum við auglýsingu óáfengra drykkja á ekki við um auglýsingarnar. Breytir engu þar um þótt orðin „léttur öllari“ hafi birst neðst í auglýsingunum, enda verður ekki talið að þau hafi skýra merkingu í málinu og er raunar viðurkennt af ákærða að um „skemmtiyrði“ hafi verið að ræða sem tekið gæti jafnt til áfengra drykkja sem óáfengra. Birting framangreindra auglýsinga braut því í bága við bann 20. gr. áfengislaga við áfengisauglýsingum.

II.

Í ákæru er varðandi heimfærslu brots ákærða til refsiákvæða, auk tilvísana til ákvæða áfengislaga, vísað til 15. gr. laga nr. 57/1956. Samkvæmt 2. mgr. greinarinnar ber höfundur efnis, sem birtist í blöðum á borð við þau sem birtu umræddar auglýsingar, refsiábyrgð á efninu ef hann hefur nafngreint sig og er auk þess annað hvort heimilisfastur hér á landi þegar ritið kemur út eða undir íslenskri lögsögu þegar mál er höfðað. Ef enginn slíkur höfundur hefur nafngreint sig ber útgefandi rits eða ritstjóri ábyrgðina, því næst sá sem hefur ritið til sölu eða dreifingar og loks sá sem annast hefur prentun þess eða letrun, sbr. 3. mgr. greinarinnar. Auglýsingar teljast til þess „efnis rits“, sem undir greinina fellur, sbr. dóma Hæstaréttar í dómasafni 1963, bls. 1 og 1999, bls. 781.

 Í skýrslu ákærða fyrir héraðsdómi kemur fram að hann sé framkvæmdastjóri A ehf. og beri sem slíkur ábyrgð á auglýsingamálum fyrirtækisins. Hafi hann séð um að kaupa umræddar auglýsingar. Fyrirtækið hafi skilað auglýsingunum til fjölmiðlanna en þær hafi að uppistöðu til komið fullhannaðar erlendis frá. Starfsmenn blaðanna hafi séð um að koma íslenskum texta inn á auglýsingarnar en sá texti hafi verið „hugmyndasmíð“ ákærða. Verður að þessu virtu að telja ákærða höfund auglýsinganna í merkingu 2. mgr. 15. gr. laga nr. 57/1956.

 Hæstiréttur hefur í þeim tveimur dómum sem að framan er vísað til markað þá stefnu að minni kröfur séu gerðar til að höfundur teljist hafa nafngreint sig í skilningi 2. mgr. 15. gr. laga nr. 57/1956 þegar auglýsingar eiga í hlut en ella gildir um annað efni. Auglýsingar þær sem ákæra í máli þessu varðar bera hvorki með sér nafn höfundar né auglýsanda. Á bjórdós þeirri sem birtist í auglýsingunum kemur fram vörumerkið FAXE, en það var skráð hér á landi 29. júlí 1992. Er eigandi þess skráður Bryggerigruppen A/S, Fakse í Danmörku. Í auglýsingum þessum eru þannig, andstætt því sem gilti um auglýsingar þær sem um var fjallað í áður tilvitnuðum dómum, engin auðkenni sem beint eða óbeint vísa til ákærða eða fyrirtækis þess, A ehf., sem hann er framkvæmdastjóri  hjá. Verður þar af leiðandi að telja að ákærði hafi ekki nafngreint sig í merkingu 2. mgr. 15. gr. laga nr. 57/1956 og beri því ekki refsiábyrgð á efni auglýsinganna. Samkvæmt því verður að staðfesta niðurstöðu hins áfrýjaða dóms.

Allur áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti á þann hátt er í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Allur áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun skipaðs verjanda ákærða, Stefáns Geirs Þórissonar hæstaréttarlögmanns, 498.000 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 16. febrúar 2006.

Mál þetta, sem dómtekið var 27. janúar sl., er höfðað með ákæru útgefinni af lögreglu­stjóranum í Reykjavík 1. nóvember 2005 á hendur X, kt. [...], Ásbúð 9, Garðabæ, fyrir áfengislagabrot, með því að hafa sem framkvæmdastjóri A ehf., kt. 410999-2859, látið birta auglýsingu á áfengum bjór af tegundinni FAXE Premium á bls. 10 og 11 í 7. tbl. F2 sem gefið var út 22. desember 2004 og dreift var með Fréttablaðinu umræddan dag og á bls. 28 og 29 í 295. tbl. DV sem gefið var út 30. desember sama ár.

Þetta er talið varða við 20. gr., sbr. 27. gr., áfengislaga nr. 75/1998, sbr. 15. gr. laga um prentrétt, nr. 57/1956.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.

Ákærði neitar sök. Af hálfu verjanda er þess krafist að ákærði verði sýknaður af kröfum ákæruvalds og að sakarkostnaður, þ.m.t. málsvarnarlaun, greiðist úr ríkis­sjóði.

Með bréfi Lýðheilsustöðvar frá 5. janúar 2005 var vakin athygli lögreglunnar í Reykjavík á auglýsingu sem birtist í fylgiriti með Fréttablaðinu 22. desember 2004 og í DV 30. desember sama ár, m.t.t. auglýsingabanns á áfengi í áfengislögum nr. 75/1998. Samkvæmt gögnum frá Einkaleyfastofunni er vörumerkið Faxe skráð 29. júlí 1992. Eru vöruflokkar undir merkinu bjór, ölkelduvatn, gosdrykkir og aðrir óáfengir drykkir. Mánudaginn 9. maí 2005 tók lögregla myndir af dósum með drykknum FAXE Free, óáfengum bjór, í verslun Europris í Skútuvogi í Reykjavík. Liggja myndir þessar frammi í rannsóknargögnum málsins. Er þessi drykkur einungis seldur í 33 cl. dósum, sem eru silfraðar að lit, með vörumerki í ljósbláum, dökkbláum og gylltum lit. Þá tók lögregla sama dag myndir af dósum með þrem styrkleikum af áfengum bjór, í vínbúð Áfengis- og tóbaksverslunarinnar í Holtagörðum, sem allar eru merktar vörumerkinu FAXE. Eru dósirnar mismunandi að lit og fer liturinn eftir styrkleika bjórsins. Eru þessir mismunandi styrkleikar af FAXE bjór seldir í 50 cl. bjórdósum, utan að bjór sem er 4,6 % að styrkleika er seldur bæði í 33 cl. og 50 cl. dósum. Dósir með þeim drykk eru hvítar að lit, með vörumerki í grænum, rauðum og gylltum lit.

Mánudaginn 9. maí 2005 var ákærði boðaður til skýrslugjafar hjá lögreglu. Kvaðst hann hafa verið að auglýsa vöru félagsins með auglýsingu í Fréttablaðinu og DV umrætt sinn. Kvaðst hann ekki geta séð að auglýsingin skírskotaði til áfengra drykkja fremur en óáfengra. Væri lagt í hendur hvers og eins að meta hvað væri verið að auglýsa með auglýsingunni, en drykkurinn FAXE Premium væri framleiddur bæði sem óáfengur bjór og áfengur. Væri óáfengi drykkurinn seldur í verslunum Europris hér á landi. Umbúðir hins óáfenga bjórs og hins áfenga væri að öllu leyti samskonar utan að á óáfenga drykknum væri ritað ,,Free”.

Við aðalmeðferð málsins kvaðst ákærði hafa verið framkvæmdastjóri A ehf. á þeim tíma er auglýsingin hafði birst í 7. tbl. F2 sem dreift var með Fréttablaðinu 22. desember 2004 og DV sem gefið var út 30. desember 2004. Hafi hann sem slíkur borið ábyrgð á auglýsingunni en félagið væri umboðsaðili FAXE drykkja á Íslandi. Hafi ákærði séð um að kaupa auglýsinguna í blöðunum og hafi hann greitt fyrir hana. Auglýsingin hafi komið frá Danmörku og verið hluti af auglýsingaherferð þar í landi tengdri vörumerkinu. Hafi fjölmiðlar er birt hafi hana hér á landi séð um að færa inn í hana íslenskan texta að fyrirlagi ákærða, sem hafi ákveðið hvaða setningar skyldu notaðar. Með auglýsingunni væri verið að auglýsa FAXE vörumerkið sem slíkt. Sú dós er mynd væri af á auglýsingunni væri af áfengum bjór, sem hefði að geyma 4,6 % af hreinum vínanda. Sá bjór væri seldur í vínbúðum Áfengis- og tóbaksverslunarinnar hér á landi. A ehf. væru einnig með til sölu drykk sem innihéldi 0,05 % af hreinum vínanda. Setningin ,,Léttur öllari” í auglýsing­unni væri sett fram sem skemmtiyrði fyrir drykki, hvort sem um væri að ræða gos, óáfengan bjór eða áfengan. Kvaðst ákærði allt eins hafa verið að auglýsa drykk með undir 2,25 % af hreinum vínanda, sem þann drykk er seldur væri í vínbúðum. Fyrirtækið A ehf. ætti í harðri samkeppni við samkeppnisaðila á auglýsinga­markaði og hafi ætlunin með auglýsingunni verið að styrkja vörumerkið og þar með samkeppnisstöðu félagsins. Ekki hafi verið ætlunin að ,,hvetja til drykkju” með auglýsingunni. A ehf. stefni að auglýsingum á áfengum drykkjum. Það væri hins vegar stefna félagsins að eiga ekki samskipti við nemendafélög framhalds­skólanna í þessum efnum, sem og að birta ekki auglýsingar í blöðum sem væru í umhverfi ungmenna. Það væri því ekki ætlunin að reyna að hafa áhrif á áfengiskaup fólks sem væri undir aldri til að mega kaupa áfenga drykki.

Niðurstaða:

Í málinu liggja frammi eintök af 7. tbl. F2 sem gefið var út 22. desember 2004 og dreift var með Fréttablaðinu þann dag, sem og 295. tbl. af DV sem gefið var út 30. desember sama ár. Í báðum þessum blöðum er að finna auglýsingu þá sem sakarefni máls þessa varðar. Er í báðum þessum tilvikum um að ræða heilsíðuauglýsingu með mynd af karlmanni og konu. Í forgrunni auglýsingarinnar er mynd af dós. Er hún merkt vörumerkinu ,,FAXE” og undir því áletrunin ,,Premium”. Í orðið ,,BEER” sést á einum stað á dósinni. Ekki kemur fram í auglýsingunni áfengisinnihald þessa drykkjar, en dósin er hvít að lit, með vörumerkið Faxe í grænum, rauðum og gylltum lit. Í forgrunni neðst á auglýsingunni er ritað stórum stöfum ,,Besti vinurinn” og fyrir neðan í minna letri er ritað ,,Léttur öllari”.

Samkvæmt 1. mgr. 20. gr. áfengislaga, nr. 78/1998, er hvers konar auglýsing á áfengi og einstökum áfengistegundum bannaðar. Samkvæmt 2. mgr. 20. gr. er með auglýsingu átt við hvers konar tilkynningu til almennings vegna markaðssetningar þar sem sýndar eru í máli eða myndum áfengistegundir eða atriði tengd áfengisneyslu, svo sem áfengisvöruheiti eða auðkenni, eftirlíkingar af áfengisvarningi, spjöld eða annar svipaður búnaður, útstillingar, dreifing prentaðs máls og vörusýnishorna og þess háttar. Samkvæmt 3. mgr. sömu greinar tekur bannið sömuleiðis til auglýsinga sem eingöngu fela í sér firmanafn og/eða firmamerki áfengisframleiðanda. Þó er fram­leiðanda sem auk áfengis framleiðir aðrar drykkjarvörur heimilt að nota firmanafn eða merki í tengslum við auglýsingu þeirra drykkja, enda megi augljóst vera að um óáfengan drykk sé að ræða í skilningi laganna og ekki vísað til hinnar óáfengu framleiðslu.

Dómstólar hafa margsinnis slegið föstu, sbr. m.a. í dómi Hæstaréttar Íslands frá 25. febrúar 1999 í málinu nr. 415/1998, að auglýsingar njóti verndar tjáningarfrelsis­ákvæðis 73. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, sbr. 11. gr. stjórn­skipunarlaga nr. 97/1995 og tjáningarfrelsisákvæðis 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sem lögtekinn var hér á landi með lögum nr. 62/1994. Samkvæmt 3. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar má aðeins setja tjáningarfrelsinu skorður með lögum, við tilteknar þartilgreindar aðstæður. Hafa dómstólar jafnframt slegið föstu að þau rök sem búi að baki 20. gr. áfengislaga, eigi sér efnislega stoð í 3. mgr. 73. gr. stjórnar­skrárinnar og 2. mgr. 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Hafi löggjafinn metið auglýsingabann áfengis nauðsynlegt og ítrekað það mat eftir að núgildandi tjáningarfrelsisákvæði stjórnarskrárinnar hafi verið sett.  

Við mat á auglýsingum á áfengum drykkjum verður að líta til þess að ákvæði 20. gr. áfengislaga um bann við auglýsingum á áfengi, er lögbundin undantekning á tjáningarfrelsisákvæði stjórnarskrárinnar, sem vernda auglýsingar. Samkvæmt 2. gr. laga nr. 75/1998 telst áfengi samkvæmt lögunum hver sá neysluhæfur vökvi sem er í rúmmáli meira en 2,25 % af hreinum vínanda. Við munnlegan flutning málsins fyrir dómi lýsti ákæruvald yfir að við væri miðað að sú tilgreining drykkjar í auglýsingu að hann væri ,,léttur”, svo sem ef fram kæmi að um væri að ræða ,,léttan bjór”, væri um að ræða drykk er hefði minna en 2,25 % af hreinum vínanda. Væri af hálfu lögreglu ekki aðhafst vegna slíkra auglýsinga að því gefnu að ekki kæmi eitthvað það fram í auglýsingunni sem gæfi til kynna að engu að síður væri verið að auglýsa drykk með vínandamagn yfir þessum mörkum. Að mati dómsins gefur sú tilgreining í auglýsingu í þessu máli að um sé að ræða drykk sem sé ,,Léttur öllari” ótvírætt til kynna að verið sé að auglýsa drykk sem samkvæmt þessu er undir 2,25 % af hreinum vínanda. Stendur þá eftir að sú dós sem mynd er af í auglýsingunni er hvít í grunninn sem samkvæmt þeim gögnum er fyrir liggja í málinu hefur að geyma drykk sem inniheldur 4,6 % af hreinum vínanda. Á dósinni sést hins vegar ekki áfengisinnihald drykkjarins. Í ljósi alls þessa og með vísan til þess að meta verður þessa auglýsingu með hliðsjón af því að auglýsingabann 20. gr. áfengislaga er lögbundin undantekning frá tjáningar­frelsisákvæði 73. gr. stjórnarskrárinnar, verður ekki hjá því komist að miða við að í þeim auglýsingum sem hér er ákært fyrir sé verið að auglýsa drykk sem sé með minna en 2,25 % af hreinum vínanda. Samkvæmt þeirri niðurstöðu er ákærði sýknaður af þeirri háttsemi sem honum er að sök gefin í ákæru.   

Þar sem ákærði hefur verið sýknaður af sakargiftum ber að greiða úr ríkissjóði tildæmd málsvarnarlaun, að viðbættum virðis­aukaskatti, sem í dómsorði greinir. Annan sakarkostnað hefur ekki leitt af málinu.

Af hálfu ákæruvalds flutti málið Eyjólfur Eyjólfsson fulltrúi lögreglustjórans í Reykjavík.

Símon Sigvaldason héraðsdómari kvað upp dóminn.

D ó m s o r ð:

Ákærði, X, er sýkn af kröfum ákæruvalds.

Málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Stefáns Geirs Þórissonar hæstaréttar­lögmanns, 199.200 krónur, greiðist úr ríkissjóði.