Hæstiréttur íslands

Nr. 2022-55

Ákæruvaldið (Sigríður J. Friðjónsdóttir ríkissaksóknari)
gegn
X (Arnar Þór Stefánsson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Kynferðisbrot
  • Brot í nánu sambandi
  • Viðurlög
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Björg Thorarensen og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

2. Með beiðni 30. mars 2022, sem barst réttinum 13. apríl sama ár, leitar X leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 4. mars 2022 í máli nr. 470/2021: Ákæruvaldið gegn X á grundvelli 1. mgr., sbr. 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Ákæruvaldið leggst gegn beiðninni.

3. Með dómi Landsréttar var leyfisbeiðandi sakfelldur fyrir nauðgun samkvæmt 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og stórfellt brot í nánu sambandi samkvæmt 1., sbr. 2. mgr. 218. gr. b sömu laga gegn fyrrverandi sambýliskonu sinni og barnsmóður. Við ákvörðun refsingar var litið til þess að háttsemi leyfisbeiðanda hefði verið sérlega gróf og ófyrirleitin, atlaga hans langvinn og að hann ætti sér engar málsbætur. Refsing hans var ákveðin fangelsi í sjö ár og var honum gert að greiða brotaþola 4.000.000 krónur í miskabætur.

4. Leyfisbeiðandi afmarkar beiðni sína með þeim hætti að óskað sé endurskoðunar á niðurstöðu Landsréttar um ákvörðun viðurlaga, sbr. a-lið 1. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Í því efni telur hann að refsing hafi verið ákveðin til muna of þung miðað við atvik málsins og ekki í neinu samræmi við dómaframkvæmd. Þá sé jafnframt óskað áfrýjunarleyfis til að ná fram lækkun dæmdra miskabóta. Leyfisbeiðandi vísar til þess að framangreind atriði hafi verulega almenna þýðingu auk þess sem dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni um ákvörðun viðurlaga. Brýnt sé að gæta jafnræðis við ákvörðun refsingar þannig að einstaklingum verði gerð sambærileg refsing fyrir sambærileg brot en misræmi milli brotamanna í sambærilegri stöðu sé ótækt.

5. Að virtum gögnum málsins verður ekki séð að það lúti að atriðum sem hafi verulega almenna þýðingu þannig að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Þá eru ekki efni til að beita heimild 3. málsliðar 4. mgr. sömu lagagreinar í málinu. Beiðninni er því hafnað.