Hæstiréttur íslands
Mál nr. 853/2017
Lykilorð
- Ráðningarsamningur
- Uppsögn
- Frestur
- Fæðingarorlof
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir og Karl Axelsson og Eiríkur Tómasson fyrrverandi hæstaréttardómari.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 29. desember 2017. Hann krefst sýknu af kröfu stefndu og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefnda krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Í máli þessu heldur áfrýjandi því fram gegn mótmælum stefndu að hún, sem ráðin hafi verið í fullt starf hjá honum 1. september 2015, hafi látið af störfum í nóvember það ár með samkomulagi aðila þannig að ráðningarsambandi þeirra hafi verið slitið. Meðal málsgagna er tilkynning um fæðingarorlof sem fylgdi umsókn stefndu um slíkt orlof til Vinnumálastofnunar. Í tilkynningunni, sem undirrituð var 10. desember 2015 af Pétri Árna Jónssyni, þáverandi framkvæmdastjóra áfrýjanda fyrir hans hönd, var meðal annars tekið fram að starfshlutfall stefndu hjá áfrýjanda væri 100% síðustu fimm mánuðina fyrir fæðingardag tvíburanna, sem hún gekk með, og áætlaður var 11. febrúar 2016. Í þessu felst vísbending um að í desember 2015 hafi verið litið svo á af hálfu áfrýjanda að stefnda væri enn í fullu starfi og ráðningarsambandi þeirra þá ekki verið slitið. Í samræmi við það og að teknu tilliti til annars þess, sem fram kemur í hinum áfrýjaða dómi um þetta ágreiningsefni, verður fallist á þá niðurstöðu héraðsdóms að fyrrgreind staðhæfing áfrýjanda sé ósönnuð og verður hann sem vinnuveitandi að bera hallann af þeim sönnunarskorti.
Samkvæmt framansögðu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Áfrýjanda verður gert að greiða stefndu málskostnað hér fyrir dómi eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Myllusetur ehf., greiði stefndu, Ástu Andrésdóttur, 900.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 14. desember 2017.
I
Mál þetta, sem var dómtekið 20. nóvember sl., er höfðað 18. maí sl. af Ástu Andrésdóttur, Reynimel 39 í Reykjavík, gegn Myllusetri ehf., Nóatúni 17 í Reykjavík.
Dómkröfur stefnanda eru þær að hið stefnda félag greiði stefnanda 1.569.923 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt ákvörðun Seðlabanka Íslands á hverjum tíma um grunn dráttarvaxta og vanefndaálags, sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, af 1.569.923 krónum frá 10. mars 2017 til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar.
Stefndi krefst sýknu af öllum dómkröfum stefnanda auk málskostnaðar að skaðlausu.
Í öndverðu krafðist stefndi þess aðallega að málinu yrði vísað frá dómi. Þeirri kröfu var hafnað með úrskurði dómsins 13. september 2017.
II
Stefnandi hefur starfað um árabil sem blaðamaður og er félagi í Blaðamannafélagi Íslands. Stefndi er félag sem rekur Viðskiptablaðið auk fleiri blaða.
Í málinu er ágreiningslaust að stefnandi hóf í september 2014 að skrifa greinar í Viðskiptablaðið og fylgirit þess s.s. „Framúrskarandi fyrirtæki“, „Eftir vinnu“ og „Áhrifakonur“. Til að byrja með var um svonefnda lausamennsku að ræða og gerði hún þá stefnda reikninga fyrir þá vinnu sem hún leysti af hendi eins og hún væri verktaki. Stefnandi heldur því fram að breyting hafi orðið á þessu í júní 2015 þegar henni hafi verið falin umsjón með einu fylgiriti Viðskiptablaðsins, „Eftir vinnu“ og fékk aðstöðu á ritstjórnarskrifstofu stefnda. Frá þeim tíma telur hún sig hafa verið starfsmann stefnda. Ekki var þó gerður skriflegur ráðningarsamningur við hana.
Af hálfu stefnda er því ekki mótmælt að samið hafi verið um það í júní 2015 að stefnandi tæki að sér að sjá um umrætt fylgirit. Félagið telur hins vegar að hún hafi ekki orðið starfsmaður stefnda í skilningi vinnuréttar fyrr en 1. september 2015, en þá mun hún hafa farið á launaskrá hjá stefnda og fengið launagreiðslur.
Stefnandi mun hafa tilkynnt þáverandi framkvæmdastjóra stefnda, Pétri Árna Jónssyni, haustið 2015 að hún væri þunguð og ætti von á tvíburum. Áætlaður fæðingardagur samkvæmt framlagðri umsókn um fæðingarorlof, dags. 10. desember 2015, var um miðjan febrúar 2016. Fyrir liggur að stefnandi fékk greidd laun fyrir september, október og hluta nóvember 2015, en hún kveðst hafa farið í veikindaleyfi í lok nóvember 2015 vegna erfiðleika á meðgöngu. Í málinu liggur fyrir læknisvottorð 4. nóvember 2015 en þar kemur fram að stefnandi yrði með öllu óvinnufær frá og með 9. sama mánaðar.
Stefnandi eignaðist tvíbura í lok janúar 2016 og hóf þá töku fæðingarorlofs. Samkvæmt umsókn stefnanda um fæðingarorlof, sem framkvæmdastjóri stefnda ritaði undir, var sótt um samfelldan orlofstíma og við það miðað að stefnandi tæki 270 daga í orlof.
Stefnandi mun hafa sett sig í samband við ritstjóra stefnda, Bjarna Ólafsson, í gegnum Facebook um mitt ár 2016 í því skyni að kanna hvenær hún ætti að snúa aftur til starfa. Hún kveðst ekki hafa fengið nein svör við fyrirspurn sinni fyrr en í febrúar 2017 þegar henni var tjáð að búið væri að ráða nýjan starfsmann til þess að sjá um sérblaðið „Eftir vinnu“. Stefnandi og ritstjórinn voru í frekari samskiptum í kjölfarið og sammæltust að lokum um að ræða málið á kaffihúsi 10. mars 2017. Stefnandi kveður ritstjórann þar hafa samþykkt að stefndi myndi greiða henni þriggja mánaða laun auk orlofs. Í stefnu kemur fram að framkvæmdastjóri stefnda hafi hafnað því að ritstjórinn gæti skuldbundið félagið með þessum hætti.
Lögmaður stefnanda sendi stefnda innheimtubréf 21. apríl 2017 þar sem félagið var krafið um greiðslu í samræmi við samkomulagið 10. mars 2017. Nam höfuðstóll kröfunnar 1.569.923 krónum. Með bréfi framkvæmdastjóra stefnda 27. apríl 2017 var lögmanninum tjáð að hann kannaðist ekki við neitt samkomulag við stefnanda og óskaði eftir afriti af því. Með bréfi lögmannsins 28. apríl 2017 var framkvæmdastjórinn upplýstur að um munnlegt samkomulag hefði verið að ræða við ritstjóra blaðsins á fundi 10. mars 2017. Þar kom einnig fram að hvað sem liði þessu samkomulagi léki enginn vafi á því að stefnandi ætti „rétt til a.m.k. þriggja mánaða launa auk orlofs og framlags í lífeyrissjóð vegna uppsagnar hennar“. Ekki liggur fyrir að þessu erindi hafi verið svarað skriflega.
III
1. Málsástæður og lagarök stefnanda
Af hálfu stefnanda er á því byggt að tekist hafi munnlegt samkomulag milli aðila sem fyrrverandi yfirmaður stefnanda hafi staðfest í samskiptum við stefnanda í samskiptum á Facebook. Um sé að ræða þriggja mánaða laun auk orlofs en mánaðarlaun stefnanda hafi numið 475.000 krónum eða samtals 1.425.000 krónum auk 10,17% orlofs eða samtals 1.569.923 krónum sem sé stefnufjárhæð málsins.
Stefnandi hafnar því alfarið að fyrrverandi yfirmaður hennar hafi ekki haft heimild til þess að gera umrætt samkomulag við hana. Hann hafi verið ritstjóri Viðskiptablaðsins og ábyrgðarmaður þess og hafi komið að ráðningu hennar sem ritstjóra „Eftir vinnu“. Þá hafi hann augljóslega heimild til þess að segja stefnanda upp starfi og ráða nýjan ritstjóra enda hafi fyrirsvarsmenn stefnda ekki gert athugasemdir við þann þátt málsins.
Verði ekki fallist á að tekist hafi samkomulag milli stefnanda og stefnda er á því byggt að stefnandi sé með þriggja mánaða uppsagnarfrest samkvæmt kjarasamningi Blaðamannafélags Íslands (BÍ) og Samtaka atvinnulífsins (SA). Stefnandi hafi verið ráðin í starf ritstjóra „Eftir vinnu“ í júní 2015 og frá þeim tíma hafi hún verið launamaður hjá félaginu. Því til stuðnings vísar stefnandi til þess að samkvæmt meginreglum vinnuréttar hafi stefnandi ekki uppfyllt skilyrði þess að vera verktaki, enda hafi hún fengið aðstöðu hjá stefnda og starfað undir boðvaldi yfirmanns síns. Það hafi verið staðfest þegar stefnandi hafi verið gerð að launamanni í september 2015. Því hafi hún verið fastráðinn starfsmaður stefnda í meira en fjóra mánuði, en skv. kjarasamningi BÍ og SA sé blaðamaður fastráðinn eftir fjögurra mánaða samfellt starf.
Þessu til frekari stuðnings er bent á að í tilkynningu til Fæðingarorlofssjóðs, dags. 10. desember 2015, hafi Pétur Árni Jónsson, staðfest fyrir hönd stefnda að stefnandi hafi verið í 100 % starfi síðustu fimm mánuði fyrir tilkynninguna.
Stefnandi byggir einnig á því að fæðingarorlof hennar teljist til starfstíma við áunninn uppsagnarrétt og því leiki enginn vafi á því að stefnandi eigi rétt á þriggja mánaða uppsagnarfresti samkvæmt umræddum kjarasamningi enda haldist áunnin réttindi í fæðingarorlofi. Um sömu fjárhæð sé að ræða og samningur aðila kveði á um eða þriggja mánaða laun ásamt orlofi.
Stefnandi vísar til þess að uppsagnarfrestur hafi hafist í síðasta lagi um áramótin 2016/2017 þegar nýr ritstjóri hafi verið ráðinn í stað stefnanda en þar með hafi ráðningarsamningi aðila í raun verið sagt upp. Ekki hafi verið óskað eftir vinnuframlagi frá stefnanda frá þeim tíma og gildi því meginregla vinnuréttar að aðilum í ráðningarsambandi verði að bjóðast að bæta úr telji annar aðilinn að hinn brjóti ákvæði ráðningarsamnings.
Telji stefndi að stefnanda hafi verið sagt upp áður en fæðingarorlofi hennar lauk þann 1. nóvember 2016 byggir stefnandi einnig á því að um ólögmæta uppsögn hafi verið að ræða, sbr. skýr ákvæði laga nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof. Leggur stefnandi áherslu á að hún hafi hvorki fengið að hverfa aftur að starfi sínu eftir fæðingarorlof né hafi henni verið boðið sambærilegt starf hjá stefnda, sbr. 2. mgr. 29. gr. laga nr. 95/2000.
Stefnandi kveður dráttarvaxtakröfu sína miðast við dagsetningu samkomulags um starfslok 10. mars 2017.
Um lagarök vísar stefnandi til meginreglna samningaréttar og samningalaga nr. 7/1936, almennra reglna vinnuréttar og kjarasamnings SA og BÍ. Þá vísar stefnandi til laga nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof. Kröfu sína um dráttarvexti, þ.m.t. vaxtavexti, styður stefnandi við ákvörðun Seðlabanka Íslands á hverjum tíma um grunn dráttarvaxta og vanefndaálags, sbr. 8. og 9. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, með síðari breytingum. Þá styðjist krafa hennar um málskostnað við 130. og 131. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Varðandi varnarþing vísar stefnandi til 32. gr. laga nr. 91/1991.
2. Málsástæður og lagarök stefnda
Stefndi krefst sýknu með þeim rökum að stefnandi hafi ekki verið fastráðin hjá stefnda í skilningi vinnuréttar þegar hún hætti störfum hjá stefnda í nóvember 2015. Af þeim sökum geti hún ekki hafa átt rétt á þriggja mánaða uppsagnarfresti samkvæmt kjarasamningi Blaðamannafélags Íslands og Samtaka atvinnulífsins.
Til stuðnings því að stefnandi hafi ekki verið orðin fastráðin þegar hún hætti störfum vísar stefndi til þess að ekki hafi verið gerður skriflegur ráðningarsamningur við hana. Í þessu starfsumhverfi sé mikið um „lausapenna“, þ.e. einstaklinga í blaðamennsku sem skrifi einstakar greinar í blöð, sem stefndi gefi út, án þess að sinna fullu starfi. Aftur á móti sé gerður ráðningarsamningur við alla sem séu í fullu starfi. Stefndi vísar til þess að samkvæmt hreyfingarlista úr bókhaldi stefnda hafi stefnandi sinnt verktöku fyrir stefnda allt til september 2015. Eftir að stefnandi tók að sér umsjón sérblaðsins „Eftir vinnu“ í júní 2015 hafi stefnandi því haldið áfram að gefa út reikninga í verktöku, eins og framlagðir reikningar sýni. Þá vísar stefndi til tölvubréfs stefnanda 14. júlí 2015 sem stefndi telur vera til marks um að hún hafi sjálf talið sig eiga að byrja í fastri vinnu í september 2015. Á því er byggt af hálfu stefnda að hún hafi verið færð á launaskrá 1. september 2015. Í kjölfarið hafi átt að gera við hana ráðningarsamning en af því hafi ekki orðið eftir að stefnandi tilkynnti um þungun sína.
Af þessu dregur stefndi þá ályktun að stefnandi hafi unnið sem launþegi hjá stefnda um tveggja og hálfs mánaða skeið, þ.e. frá september til 12. nóvember 2015. Samkvæmt grein 3.1 í viðkomandi kjarasamningi teljist blaðamaður fastráðinn eftir fjögurra mánaða samfellt starf. Stefnandi hafi ekki verið fastráðinn blaðamaður hjá stefnda í skilningi kjarasamningsins er hún hafi hætt störfum í nóvember 2015. Þar af leiðandi sé haldlaus sú málsástæða stefnanda að hún eigi rétt á starfslokagreiðslu sem svari til launa í þriggja mánaða uppsagnarfresti.
Stefndi byggir einnig á því að athafnir og framferði stefnanda í aðdraganda starfslokanna og samskipti hennar við Bjarna Ólafsson, þáverandi ritstjóra Viðskiptablaðsins, gefi síður en svo tilefni til þess að ætla að hún hafi talið sig vera fastráðinn blaðamann. Í því efni vísar stefndi til skilaboða stefnanda til Bjarna 13. febrúar 2017, auk svara Bjarna við þeim skilaboðum og viðbragða stefnanda við þeim svörum.
Stefndi telur samskiptin undirstrika að stefnandi hafi aldrei talið sig vera fastráðna hjá fyrirtækinu. Fyrir það fyrsta hafi stefnandi þar lýst því yfir að fæðingarorlofið væri löngu búið. Stefndi vísar til þess að samkvæmt 29. gr. laga nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof, skuli starfsmaður eiga rétt á því að hverfa aftur að starfi sínu að loknu fæðingar- og foreldraorlofi. Fæðingarorlofi stefnanda hafi lokið 1. nóvember 2016. Á þeim tíma hafi stefnandi því átt að geta horfið aftur að starfi sínu hjá stefnda. Tveimur mánuðum eftir það hafi stefnandi óskað eftir því að hitta ritstjórann og „fara yfir málin“. Engra gagna njóti við í málinu um að stefnandi hafi þurft, af heilsufarsástæðum eða af öðrum ástæðum, að framlengja fæðingarorlofið. Sú staðreynd, að stefnandi hafi ekki talið ástæðu til að tilkynna stefnda sérstaklega um að hún ætlaði að vera lengur í fæðingarorlofi en lög geri ráð fyrir, staðfesti að mati stefnda að hún hafi ekki talið sér það skylt þar sem hún hafi ekki verið fastráðin hjá stefnda. Að sama skapi telur stefndi einboðið að hann hefði á einhverjum tímapunkti, eftir að fæðingarorlofinu lauk, skorað á stefnanda að mæta aftur til starfa hafi hún verið fastráðin.
Stefndi bendir einnig á að stefnandi spyrji Bjarna í framangreindum samskiptum hvort hann vanti lausapenna og hver staðan sé með „Eftir vinnu“. Hefði stefnandi verið fastráðinn starfsmaður líkt og hún haldi fram, hefði verið ástæðulaust með öllu að spyrja slíkra spurninga, enda réttur hennar til að snúa aftur í sitt gamla starf ótvíræður. Einhliða tilkynning um hvenær hún hygðist snúa aftur til starfa hefði nægt í því sambandi. Stefndi hefði ekki átt neitt val um hvort hann vildi fá stefnanda til starfa að nýju. Ef stefndi hefði neitað stefnanda um að snúa aftur til starfa að loknu fæðingarorlofi hefði það jafngilt ólögmætri uppsögn með tilheyrandi réttaráhrifum. Sú staðreynd að stefnandi hafi hvorki tilkynnt um endurkomu sína né gert nokkurn reka að því á annan hátt að fá gamla starfið sitt aftur eða annað sambærilegt starf hjá stefnda, auk þess sem stefndi hafi ekki óskað eftir vinnuframlagi hennar eftir að fæðingarorlofinu lauk, staðfesti að mati stefnda að stefnandi hafi ekki verið fastráðinn starfsmaður. Þá gefi sú huglæga afstaða, sem fram komi í orðum hennar: „veit að langt er um liðið og skil vel ef þið hafið gert aðrar ráðstarfanir eða vantar ekkert fleira fólk“, ótvíræða vísbendingu um að stefnandi hafi ekki talið sig eiga rétt á því að hverfa aftur að starfi sínu.
Stefndi byggir á því að stefnandi hafi tilkynnt þáverandi framkvæmdastjóra stefnda í september 2015 að hún væri ólétt að tvíburum. Hlutirnir hafi æxlast þannig hjá stefnanda að hún hafi þurft að hætta störfum hjá stefnda 12. nóvember 2015 vegna erfiðleika á meðgöngu. Líkt og læknisvottorð sem stefnandi hafi aflað í þessu sambandi sýni hafi hún talist óvinnufær frá 9. nóvember 2015 fram að væntanlegri fæðingu í lok janúar 2016. Í samræmi við stöðu sína sem launþegi hafi stefnandi fengið útborguð laun vegna nóvember. Athygli sé vakin á því að ekki hafi verið um fulla launagreiðslu að ræða sem helgaðist af því að stefnandi hafi ekki skilað fullu vinnuframlagi tilgreindan mánuð. Stefnandi hafi ekki gert kröfu um greiðslu launa í veikindum, hvorki fyrir desember 2015 né janúar 2016, heldur notið greiðslna frá öðrum aðilum. Það sé í samræmi við yfirlýsingu, sem stefnandi hafi gefið þáverandi framkvæmdastjóra stefnda, um að hún myndi ekki krefjast launa í veikindaleyfi. Þrátt fyrir að réttur stefnanda til launa í veikindaleyfi hafi verið ótvíræður, enda kjarasamningsbundinn, hafi stefnandi engu að síður kosið að gefa hann frá sér. Áhersla sé lögð á að um upplýsta ákvörðun hafi verið að ræða sem stefnandi hafi tekið af yfirlögðu ráði, m.t.t. stöðu sinnar hjá stefnda. Stefndi telur augljóst að þetta atriði hefði aldrei komið til umræðu hefði stefnandi talið sig vera fastráðinn starfsmann hjá fyrirtækinu.
Á því er byggt að þegar þáverandi ritstjóri stefnda, Bjarni Ólafsson, hafi fallist á að hitta stefnanda á kaffishúsi hér í borg 10. mars sl. hafi ekki staðið til að ræða starfslok hennar. Líkt og tölvupóstssamskipti þeirra á milli staðfesti, hafi viðræðurnar þróast út í það á hvern hátt bæri að standa að starfslokum stefnanda hjá fyrirtækinu. Heldur stefndi því fram að stefnandi hafi þar sannfært Bjarna um að hún hafi verið fastráðin og ætti þar af leiðandi rétt á launum í þriggja mánaða uppsagnarfresti. Á grundvelli þeirrar forsendu hafi Bjarni gefið yfirlýsingu um að gengið yrði frá starfslokum stefnanda á þann hátt sem um hafi verið rætt. Nánar sé á því byggt að Bjarni hafi verið í góðri trú er hann hafi gefið yfirlýsinguna og að sá réttur, sem stefnandi hafi talið honum trú um að hún ætti, væri óumdeildur. Stefndi telur sig hafa leitt í ljós að stefnandi hafi aldrei áunnið sér þann rétt sem dómkrafa hennar grundvallist á. Yfirlýsingin sem Bjarni hafi gefið stefnanda varðandi starfslok hennar geti aldrei talist skuldbindandi gagnvart stefnda í samningaréttarlegum skilningi. Reglur samningaréttar um brostnar forsendur leiði þegar til þeirrar niðurstöðu.
Stefndi áréttar að frá því að fæðingarorlofi stefnanda lauk og þar til hún hitti Bjarna Ólafsson á kaffihúsi í Borgartúni hafi liðið fjórir mánuðir. Allan þann tíma hafi stefnandi hvorki krafist þess að hverfa aftur að gamla starfi sínu né að stefndi útvegaði henni sambærilegt starf. Fésbókarfærsla stefnanda 13. febrúar 2016 undirstriki þetta sjónarmið enn frekar en þar spyrji hún hvort stefnda vanti lausapenna og að hún skilji vel að hann hafi gert aðrar ráðstafanir eða vanti ekki fleira fólk. Á því sé byggt að við svo búið hafi stefnda verið rétt að líta svo á að stefnandi myndi ekki gera ágreining um þetta. Nánar sé á því byggt að með tómlæti sínu um svo langan tíma hafi stefnandi glatað rétti til að krefja stefnda um starfslokagreiðsluna.
Sönnunarlega telur stefndi stöðuna vera þá að engin gögn liggi fyrir um að stefnandi hafi verið orðinn fastráðinn starfsmaður í skilningi vinnuréttar þegar hún hætti þar störfum í nóvember 2015. Afstaða beggja aðila og háttsemi sýni svo ekki verði um villst að báðir hafi litið svo á að samskiptum þeirra hafi lokið við það að stefnandi hafi farið í veikindaleyfi án frekari skuldbindinga. Að mati stefnda stoði það ekki stefnanda að bera fyrir sig umsókn um fæðingarorlof þar sem fram komi að hún hafi verið í 100% starfshlutfalli hjá stefnda síðustu fimm mánuðina fyrir fæðingu sem sönnun þess að hún hafi verið fastráðin. Líkt og fram komi í tölvubréfi 9. desember 2015 hafi stefnandi fyllt eyðublaðið út einhliða. Eina aðkoma stefnda að málinu hafi verið sú að framkvæmdastjóri félagsins hafi undirrita skjalið. Ljóst sé að stefnandi hafi fyllt út reitina um starfshlutfall gegn betri vitund, væntanlega í þeim tilgangi að njóta óskertra greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði. Þá dragi það enn frekar úr sönnunargildi skjalsins að upplýsingar, sem fram komi í því, séu í andstöðu við málatilbúnað stefnanda. Samkvæmt eyðublaðinu hafi áætlaður fæðingardagur barnanna verið 11. febrúar 2016. Í umsókninni kveðst stefnandi hafa verið sjálfstætt starfandi sex mánuðum fyrir áætlaðan fæðingardag, eða í ágúst 2015. Í stefnu sé á hinn bóginn á því byggt að stefnandi hafi orðið launþegi hjá stefnda 1. júní 2015 eða tveimur mánuðum áður en hún hafi að eigin sögn orðið sjálfstætt starfandi. Telur stefndi að stefnandi verði að bera hallann af óskýrleika um þetta atriði. Hitt sé alveg ljóst að stefndi hafi ekki staðið skil á launatengdum gjöldum vegna stefnanda fyrr en við fyrstu launagreiðsluna fyrir september 2015 líkt og upplýsingar úr bókhaldi stefnda staðfesti. Fyrir þann tíma hafi stefnandi borið sjálf ábyrgð á því sem verktaki að standa skil á staðgreiðslu.
Um lagarök vísar stefndi til laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, og reglna samningaréttar um brostnar forsendur. Auk þess sé vísað til meginreglna íslensks vinnuréttar um skilyrði fastráðningar og lok ráðningarsambands. Loks er vísað til laga nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof, einkum 29. gr. laganna og ákvæða kjarasamnings. Til stuðnings kröfu sinni um málskostnað vísar stefndi til laga nr. 91/1991, sbr. einkum 129. gr. og 1. mgr. 130. gr. laganna.
IV
Í máli þessu er enginn ágreiningur um að stefnandi hafi verið ráðin í starf blaðamanns hjá stefnda þegar hún varð óvinnufær í nóvember 2015 vegna veikinda á meðgöngu. Naut hún á þeim tíma starfstengdra réttinda samkvæmt gildandi kjarasamningi Blaðamannafélags Íslands og Samtaka atvinnulífsins, en hluti hans hefur verið lagður fram í málinu.
Hvorki verður ráðið af skýrslu þáverandi framkvæmdastjóra stefnda, Péturs Árna Jónssonar, né skýrslu þáverandi ritstjóra Viðskiptablaðsins, Bjarna Ólafssonar, fyrir dómi að stefnandi hafi sagt upp starfi sínu hjá stefnda þegar hún tilkynnti um þungunina eða lét vita um veikindaforföllin. Spurður um það atriði bar Pétur á þann veg að hún hefði tilkynnt hvenær hún ætlaði „að hætta störfum“. Þar sem hún var að fara í fæðingarorlof gáfu þau ummæli ekki tilefni til þeirrar ályktunar að stefnandi væri að slíta ráðningarsambandi sínu við stefnda. Þá er ágreiningslaust að stefndi batt ekki enda á ráðningu hennar við það tækifæri, en hún naut verndar gegn uppsögn vinnuveitanda síns samkvæmt 30. gr. laga nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof. Telst því ósannað að ráðningarsambandi aðila hafi verið slitið áður en fæðingarorlof hennar hófst í janúar 2016. Breytir engu í því sambandi þó að hún kunni að hafa átt takmarkaðan rétt til veikindalauna úr hendi stefnda fram að fæðingu barna sinna með tilliti til þess hvenær hún fór á launaskrá.
Samkvæmt fyrrgreindum lögum nr. 95/2000 er fæðingarorlof leyfi frá störfum sem starfsmaður á rétt á frá fæðingu barns að jafnaði. Helst ráðningarsamband milli starfsmanns og vinnuveitanda óbreytt í orlofinu og á hann rétt á því að hverfa aftur að starfi sínu að því loknu, eins og mælt er fyrir um í 29. gr. laganna. Sé þess ekki kostur skal hann eiga rétt á sambærilegu starfi hjá vinnuveitanda í samræmi við ráðningarsamning.
Í 2. mgr. 14. gr. laga nr. 95/2000 er kveðið á um að fæðingarorlof reiknist til starfstíma við mat á starfstengdum réttindum svo sem rétti til uppsagnarfrests. Samkvæmt grein 3.1 í fyrirliggjandi kjarasamningi, sem áður er getið, telst blaðamaður fastráðinn eftir fjögurra mánaða samfellt starf. Í grein 3.2 er síðan mælt fyrir um að gagnkvæmur uppsagnarfrestur fastráðins blaðamanns og útgefanda sé þrír mánuðir. Hafi stefnandi verið ráðin til starfa 1. september 2015, eins og stefndi heldur fram, er því ljóst að hún öðlaðist í fæðingarorlofinu rétt til þriggja mánaða uppsagnarfrests sem fastráðinn blaðamaður í samræmi við framangreind kjarasamningsákvæði og ótvíræð lagaboð 2. mgr. 14. gr. laga nr. 95/2000.
Í málsvörn sinni vísar stefndi til þess að stefnandi hafi í samskiptum sínum við ritstjóra stefnda, Bjarna Ólafsson, sýnt það í verki að hún hafi sjálf ekki talið sig eiga réttindi sem fastráðinn blaðamaður. Dómurinn lítur svo á að umrædd samskipti og sú óvissa sem stefnandi kann að hafa verið í við lok fæðingarorlofs um réttarstöðu sína geti engu breytt um þann rétt sem hún öðlaðist að lögum til þriggja mánaða uppsagnarfrests.
Dómurinn fær heldur ekki séð að stefnandi hafi glatað starfstengdum réttindum sínum við það að mæta ekki af sjálfsdáðum til starfa við lok fæðingarorlofs í nóvember 2016. Í því sambandi ber m.a. að líta til þess að stefnandi leitaði í júlí 2016 til þáverandi ritstjóra Viðskiptablaðsins, sem var hennar næsti yfirmaður, með fyrirspurn er ljóslega tengdist starfinu án þess að fá svar. Um miðjan desember óskaði hún einnig eftir því að „kíkja við“ og „fara yfir málin“ og áréttaði þá beiðni síðar í þeim mánuði án þess að svar bærist. Þegar hún fékk að lokum viðbrögð í febrúar 2017 voru þau á þann veg að búið væri að ráða aðra manneskju til að sjá um „Eftir vinnu“, sem hún hafði haft umsjón með. Var henni gefið til kynna að ekki væru önnur störf fastráðinna blaðamanna í boði með þeim orðum að ekki væri „útilokað að við þurfum lausapenna í það blað eða önnur“.
Þær greiðslur, sem gögn málsins bera með sér að ritstjóri Viðskiptablaðsins hafi lofað stefnanda á fundinum 10. mars 2017, um laun í þriggja mánaða uppsagnarfresti auk orlofs, voru í samræmi við áunnin starfstengd réttindi hennar eins og rakið hefur verið. Stefnandi fer einungis fram á að við það loforð verði staðið. Dómurinn fær ekki séð að stefnandi hafi glatað rétti sínum að þessu leyti fyrir tómlæti. Í ljósi þess sem rakið hefur verið ber að fallast á framangreinda kröfu stefnanda. Enginn ágreiningur er um tölulegan útreikning á höfuðstól hennar og ber að taka þá kröfu til greina eins og hún er fram sett.
Stefnandi krefst dráttarvaxta frá þeim degi er samkomulagið var gert 10. mars 2017. Samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, er kröfuhafa heimilt að krefja skuldara um dráttarvexti sem reiknast af ógreiddri peningakröfu frá og með gjalddaga hafi hann verið fyrir fram ákveðinn. Hvorki í stefnu né í öðrum gögnum málsins er að því vikið að gjalddagi kröfunnar hafi verið fyrir fram ákveðinn. Upphafstími dráttarvaxtakröfunnar er því vanreifaður og ber að hafna dómkröfu stefnanda að því leyti.
Hafi ekki verið samið um gjalddaga peningakröfu er samkvæmt 3. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001 heimilt að reikna dráttarvexti frá og með þeim degi þegar liðinn er mánuður frá því að kröfuhafi sannanlega krafði skuldara með réttu um greiðslu. Stefnandi krafði stefnda um greiðslu kröfunnar með innheimtubréfi 21. apríl 2017. Í þessu ljósi verður stefnda gert að greiða stefnanda dráttarvexti frá 21. maí 2017.
Með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, verður stefnda gert að greiða stefnanda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 1.200.000 krónur. Þó að stefndi hafi gert tilefnislausa kröfu um frávísun málsins á grundvelli efnislegra sjónarmiða og varnir hans hafi reynst haldlausar í ljósi atvika telur dómurinn engin skilyrði til þess að beita álagi á málskostnað með vísan til 131. gr. laga nr. 91/1991, eins og stefnandi fór fram á við aðalmeðferð málsins.
Ásmundur Helgason héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
D Ó M S O R Ð:
Stefndi, Myllusetur ehf., greiði stefnanda, Ástu Andrésdóttur, 1.569.923 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá 21. maí 2017 til greiðsludags.
Stefndi greiði stefnanda 1.200.000 krónur í málskostnað.