Hæstiréttur íslands
Mál nr. 34/2003
Lykilorð
- Ferðamál
- Trygging
- Stjórnsýsla
|
|
Fimmtudaginn 18. september 2003. |
|
Nr. 34/2003. |
Kaupþing Búnaðarbanki hf. Flutningar ehf. Ker hf. og Framtak Fjárfestingarbanki hf. (Kristinn Hallgrímsson hrl.) gegn íslenska ríkinu (Friðjón Örn Friðjónsson hrl.) |
Ferðamál. Trygging. Stjórnsýsla.
Ferðaskrifstofan SL hf. hafði lagt fram tryggingu hjá samgönguráðuneytinu í samræmi við 13. gr. laga nr. 117/1994 um stjórn ferðamála, sbr. lög nr. 73/1998. Gildistími tryggingarinnar var til 1. október 2001. Í tilefni af því að SL hf. tókst ekki að fá trygginguna framlengda tók ráðuneytið við yfirlýsingu stærstu hluthafa SL hf., áfrýjenda máls þessa og mat hana gilda sem tryggingu. Bú SL hf. var tekið til gjaldþrotaskipta 28. nóvember 2001. Í málinu deila aðilar um gildi nefndrar yfirlýsingar. Var talið að í 19. gr. laga nr. 117/1994, eins og henni var breytt með 1. gr. laga nr. 73/1998, komi fram tæmandi talning á því hvernig sú trygging geti verið, sem ferðaskrifstofa leggur fram til að öðlast starfsleyfi. Hin umdeilda yfirlýsing taldist ekki fullnægja skilyrðum nefnds lagaákvæðis. Samgönguráðuneytið hafi samkvæmt meginreglum stjórnsýsluréttar verið bundið af lögum um form tryggingarinnar og því hafi ekki verið heimilt hvað sem öðru liði að taka við yfirlýsingunni sem gildri framlengingu ferðaskrifstofutryggingar samkvæmt lögum um stjórn ferðamála. Gat Í því ekki reist kröfur á hendur áfrýjendum á yfirlýsingunni og voru þeir sýknaðir.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen, Ingibjörg Benediktsdóttir og Pétur Kr. Hafstein.
Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 23. janúar 2003 og krefjast sýknu af kröfu stefnda. Þeir krefjast og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Nafni Búnaðarbanka Íslands hf., sem var aðili málsins í héraði, hefur nú verið breytt í Kaupþing Búnaðarbanki hf. og nafni Þróunarfélags Íslands hf. í Framtak Fjárfestingarbanki hf.
I.
Svo sem greinir í héraðsdómi varðar mál þetta gildi yfirlýsingar sem fjórir stærstu eigendur ferðaskrifstofunnar Samvinnuferða Landsýnar hf., þeir Gilding ehf., Eignarhaldsfélag Alþýðubankans hf., Olíufélagið hf. og Flutningar ehf., gáfu út til samgönguráðuneytisins 28. september 2001 og birt er orðrétt í héraðsdómi. Þar er einnig skýrt hvernig þessir eigendur ferðaskrifstofunnar sameinuðust öðrum félögum og aðild málsins breyttist eftir því. Bú Samvinnuferða Landsýnar hf. var tekið til gjaldþrotaskipta 28. nóvember 2001.
Fram er komið, að frá því í febrúar 2001 urðu allnokkur bréfaskipti og fundahöld milli samgönguráðuneytisins og ferðaskrifstofunnar vegna tryggingar í tengslum við starfsemi hennar samkvæmt 13. gr. laga nr. 117/1994 um skipulag ferðamála, sbr. 1. gr. laga nr. 73/1998. Var þá hluti tryggingarinnar að renna út og þurfti að endurnýja hana, en leyfi til reksturs ferðaskrifstofunnar félli niður ella, sbr. 21. gr. laganna. Einnig er fram komið að um vorið og sumarið 2001 óskaði ferðaskrifstofan eftir breytingu á tryggingarfjárhæðinni og að það var samþykkt af hálfu ráðuneytisins 25. júní. Þá var gildistími tryggingar ferðaskrifstofunnar til 1. október 2001 og var í bréfi hennar til ráðuneytisins 28. júní sama ár sagt að unnið væri að framlengingu tryggingarinnar. Með bréfi 15. ágúst áréttaði ráðuneytið það skilyrði fyrir breytingu fjárhæðar tryggingarinnar að gildistími hennar yrði framlengdur til 30. apríl 2002.
Bréfi þessu svaraði ferðaskrifstofan 20. ágúst 2001. Þar kemur fram að ljóst sé „að ráðuneytið muni ekki geta veitt neina fresti vegna tryggingarinnar eftir 1. október nk., - en þá rennur núverandi trygging úr gildi.“ Segir og að forráðamönnum ferðaskrifstofunnar þyki miður að ekki skuli enn vera búið að ganga frá framlengingu á umræddri tryggingu, en „tryggingaraðilar“ hafi verið tregir til að veita hana með hliðsjón af ársreikningi félagsins frá árinu 2000. Síðan segir að stjórnarfundur verði haldinn 30. ágúst. Þar verði endurskoðað árshlutauppgjör samþykkt og endurskoðuð rekstraráætlun út árið 2001 lögð fyrir og þá muni stjórnin meðal annars ræða hvaða úrræði félagið hafi ef ekki fengist staðfesting á framlengingu tryggingarinnar. Meðal annars verði rætt hvort og þá með hvaða hætti eigendur félagsins gangi í ábyrgðir fyrir tryggingunni að hluta til eða öllu leyti, en eigendum sé að sjálfsögðu ljóst að án lögbundinnar tryggingar gagnvart ráðuneytinu sé félagið ekki rekstrarhæft.
Ekki liggur fyrir hvað gerðist á þessum stjórnarfundi ferðaskrifstofunnar 30. ágúst 2001 eða eftir hann, en í lok ofangreinds bréfs segir að ráðuneytið verði upplýst um stöðu mála strax að honum loknum. Hins vegar liggur fyrir að ráðuneytið sendi ferðaskrifstofunni símbréf 26. september þess efnis að yrði ekki búið leggja fram fullnægjandi tryggingar fyrir kl. 16 föstudaginn 28. september yrði leyfi hennar fellt úr gildi mánudaginn 1. október 2001. Stjórnarformaður og framkvæmdastjóri ferðaskrifstofunnar og ráðuneytisstjóri og skrifstofustjóri í ráðuneytinu héldu fund í framhaldi af bréfi þessu 26. eða 27. september.
Stefndi heldur því fram að á þeim fundi hafi forsvarsmenn ferðaskrifstofunnar óskað eftir að ráðuneytið tæki við tryggingu frá stærstu hluthöfum hennar til þess að hún gæti haldið áfram rekstri eftir 1. október og að starfsmenn ráðuneytisins hafi samþykkt það. Hin umdeilda yfirlýsing stærstu eigenda ferðaskrifstofunnar frá 28. september 2001 hafi verið afhent eftir hádegi þann dag og tekin gild sem trygging samkvæmt 13. gr. laga nr. 117/1994 í samræmi við greint samþykki.
Áfrýjendur halda því hins vegar fram að yfirlýsingin hafi einungis verið lögð fram í því skyni að fullvissa ráðuneytið um vilja stærstu hluthafa ferðaskrifstofunnar til að styðja hana „við að útvega lögformlegt ferðaskrifstofuleyfi“, enda uppfylli yfirlýsingin ekki skilyrði 19. gr. laga nr. 117/1994, sbr. lög nr. 73/1998, um tryggingar sem ferðaskrifstofur geta sett fyrir starfsemi sinni. Þeim hafi verið ljóst að eftir að tryggingar féllu úr gildi 1. október 2001 og voru ekki framlengdar hafi félagið ekki getað starfað áfram þar sem leyfi þess hefði fallið niður samkvæmt 21. gr. laganna.
II.
Með lögum nr. 73/1998, sem breyttu lögum nr. 117/1994, voru settar nýjar reglur um tryggingu þá sem ferðaskrifstofa skal leggja fram samkvæmt 13. gr. síðarnefndu laganna áður en leyfi til ferðaskrifstofureksturs er veitt. Lutu breytingar þessar bæði að því að hækka verulega fjárhæð tryggingarinnar og tiltaka í hvaða formi hún geti verið, sbr. 19. gr. laganna. Segir þar í liðum a. og b. að trygging geti verið fé í vörslu samgönguráðuneytis eða fé lagt inn í viðurkennda banka- eða peningastofnun í nafni samgönguráðuneytis. Í c. lið ákvæðisins segir að tryggingin geti einnig verið „ábyrgð viðskiptabanka eða sparisjóðs eða vátrygging hjá vátryggingafélagi. Skulu þessir aðilar hafa starfsleyfi hér á landi. Þeir skulu og gefa yfirlýsingu um að gildissvið og fjárhæð tryggingarinnar séu í samræmi við lög þessi.“
Af orðalagi núgildandi 19. gr. laga nr. 117/1994 með áorðnum breytingum og að virtum lögskýringargögnum um það ákvæði er ljóst að það felur í sér tæmandi talningu á því hvernig sú trygging geti verið, sem ferðaskrifstofa skal leggja fram til þess að öðlast rekstrarleyfi. Hin umdeilda yfirlýsing stærstu eigenda ferðaskrifstofunnar uppfyllti ekki skilyrði nefnds lagaákvæðis. Samkvæmt meginreglum stjórnsýsluréttar var samgönguráðuneytið bundið af lögum um það form, sem trygging fyrir rekstri ferðaskrifstofunnar mátti vera í, en í því efni geta engu breytt ákvæði í niðurlagi 2. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 281/1995 um ferðaskrifstofur, enda voru þau ekki í samræmi við gildandi löggjöf eftir þær breytingar, sem gerðar voru með lögum nr. 73/1998. Að þessu virtu var samgönguráðuneytinu hvað sem öðru líður ekki heimilt að taka við yfirlýsingunni sem framlengingu slíkrar tryggingar 28. september 2001 og verða kröfur á hendur áfrýjendum ekki reistar á yfirlýsingunni. Verður því að taka sýknukröfu þeirra til greina.
Rétt er að hver aðila beri sinn málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Áfrýjendur, Kaupþing Búnaðarbanki hf., Flutningar ehf., Ker hf. og Framtak Fjárfestingarbanki hf., eru sýknir af kröfu stefnda, íslenska ríkisins.
Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 25. nóvember 2002.
I
Mál þetta, sem dómtekið var 31. október sl., var höfðað 29. apríl 2002. Stefnandi er samgönguráðuneytið, kt. 550269-1639, Hafnarhúsinu við Tryggvagötu, Reykjavík, en stefndu eru Búnaðarbanki Íslands hf, kt. 490169-1219, Reykjavík, áður Gilding fjárfestingafélag ehf., kt. 480600-2070, Þróunarfélag Íslands hf., kt. 420171-0139, Síðumúla 28, Reykjavík, áður Eignarhaldsfélag Alþýðubankans hf., Ker hf., kt. 500269-4649, Suðurlandsbraut 18, Reykjavík, áður Olíufélagið hf., og Flutningar ehf., kt. 590894-2579, Ármúla 3, Reykjavík.
Stefnandi gerir þær dómkröfur, að viðurkennt verði með dómi að ábyrgðaryfirlýsing, dagsett 28. september 2001, er stefndu gáfu út gagnvart stefnanda til tryggingar ferðaskrifstofurekstri Samvinnuferða Landsýnar hf. sé gild og standi til tryggingar lögmætum kröfum samkvæmt lögum nr. 117/1994 um skipulag ferðamála. Þá krefst stefnandi þess að stefndu verði in solidum dæmdir til að greiða stefnanda málskostnað að teknu tilliti til virðisaukaskatts.
Stefndu gera þær dómkröfur að þeir verði sýknaðir af kröfugerð stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefndu málskostnað og að tekið verði tillit til virðisaukaskatts hvað snertir málskostnað til handa stefnda Búnaðarbanka Íslands hf.
II
Málavextir eru þeir að með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur, uppkveðnum þann 28. nóvember 2001, var bú Samvinnuferða Landsýnar hf. tekið til gjaldþrotaskipta en það félag rak ferðaskrifstofu. Samkvæmt 13. gr. laga nr. 117/1994 um skipulag ferðamála er það skilyrði útgáfu leyfis til reksturs ferðaskrifstofu að rekstraraðilinn leggi fram tryggingu til greiðslu kostnaðar við heimflutning farþega erlendis frá til að standa straum af kostnaði við að ljúka ferð og til endurgreiðslu fjár sem viðskiptavinur hefur þegar greitt vegna alferðar sem ekki hefur verið farin komi til rekstrarstöðvunar eða gjaldþrots ferðaskrifstofu.
Stefnandi byggir á því að trygging lögum samkvæmt hafi legið fyrir vegna reksturs Samvinnuferða Landsýnar hf. með ábyrgðaryfirlýsingu stefndu þessa máls sem dagsett er 28. september 2001 og er svohljóðandi:
“Þetta bréf er ritað til staðfestingar á því að fjórir stærstu eigendur Samvinnuferða Landsýnar hf.
Eignarhlutur 28/9 01 Pro rata
Gilding ehf. 31,91% 36,99%
Eignarhaldsfélag Alþýðubankans hf. 19,78% 22,92%
Olíufélagið hf. 17,88% 20,72%
Flutningar ehf. (100% dótturfélag VÍS) 16,71% 19,37%
Samtals 86,28% 100,00%
hafa samþykkt eftirfarandi:
Fjórir stærstu eigendur Samvinnuferða Landsýnar hf. hafa samþykkt að gangast í hlutfallslega bakábyrgð (pro rata), miðað við innbyrðis eignarhluti hvers og eins í félaginu, til tryggingar á ISK 125.000.000 ábyrgð sem gefin verði út af viðskiptabanka, sparisjóði eða vátryggingarfélagi, til handa samgönguráðuneytinu í samræmi við lög um skipan ferðamála.
Ábyrgð framangreindra eigenda nær til tímabilsins 1. október 2001 til 30. apríl 2002.
Forráðamenn Samvinnuferða Landsýnar hf. munu óska eftir því við viðskiptabanka, sparisjóð eða vátryggingarfélag að gefa ábyrgðina út í samræmi við lög um skipan ferðamála eins fljótt og kostur er.”
Stefndu eru ofangreindir fjórir stærstu hluthafar Samvinnuferða Landsýnar hf. en eftir að mál þetta var þingfest þann 7. maí 2002 var aðildinni varnarmegin í málinu breytt með samþykki stefnanda. Í fyrsta lagi var stefnda, Gilding fjárfestingarfélag ehf., sameinað Búnaðarbanka Íslands samkvæmt samrunaáætlun félaganna 3. janúar 2002 sem staðfest var á hluthafafundum þeirra 16. febrúar 2002. Þannig varð Búnaðarbanki Íslands hf. aðili málsins í stað Gildingar fjárfestingarfélags hf. Í öðru lagi var nafni Olíufélagsins hf. breytt á aðalfundi félagsins hinn 12. apríl 2002 og heitir félagið nú Ker hf. með sömu kennitölu. Þá var Eignarhaldsfélag Alþýðubankans hf. sameinað Þróunarfélagi Íslands hf. með samrunaáætlun 16. ágúst 2002 sem staðfest var á hluthafafundum beggja félaganna 8. október 2002 og heitir félagið nú Þróunarfélag Íslands hf. Þannig varð Þróunarfélag Íslands hf. aðili málsins í stað Eignarhaldsfélags Alþýðubankans hf.
Eins og að framan er rakið kemur fram í tilvitnuðu ákvæði 13. gr. laga nr. 117/1994 að grundvöllur útgáfu leyfis til ferðaskrifstofureksturs sá að viðkomandi hafi tryggingar sem samgöngumálaráðuneytið, sem samkvæmt 2. gr. laganna fer með yfirstjórn þeirra mála sem lögin taka til, meti hæfilega. Samkvæmt 17. gr. laganna þurfa þeir sem fengið hafa leyfi til ferðaskrifstofureksturs fyrir 31. mars ár hvert að senda samgönguráðuneytinu endurskoðaðan ársreikning og önnur áskilin gögn samkvæmt 2. mgr. 16. gr. auk áætlunar um fyrirhuguð umsvif á starfsárinu. Tekur ráðuneytið síðan ákvörðun um, á grundvelli þeirra upplýsinga, hvort tryggingarfjárhæð skuli breytt að fenginni umsögn löggilts endurskoðanda. Ef endurskoðað ársuppgjör hefur ekki borist 30. apríl er ráðuneytinu heimilt að fella leyfi til reksturs ferðaskrifstofu úr gildi. Stefnandi naut liðsinnis endurskoðenda-skrifstofunnar Deloitte & Touche í þessu efni.
Tryggingar þær sem voru grundvöllur þess að Samvinnuferðir Landsýn hf. hafði leyfi samgönguráðuneytisins til reksturs ferðaskrifstofu voru samkvæmt gögnum málsins ábyrgðaryfirlýsing Landsbanka Íslands, dagsett 13. ágúst 1991, að fjárhæð 6.000.000 krónur og ábyrgðaryfirlýsing Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis, útgefin 6. júlí 2001, að fjárhæð 20.000.000 króna sem hafði gildistíma til 1. október 2001. Þá lá fyrir trygging frá BG Garanti Forsikringsselskab A/S, útgefin 1. október 2000, að fjárhæð 170.000.000 krónur sem einnig hafði gildistíma til 1. október 2001.
Aðilum ber ekki saman um það hvort trygging BG Garanti Forsikringsselskab var gild, en af hálfu stefndu hefur því verið haldið fram að svo hafi ekki verið. Hins vegar reyndi aldrei á þá tryggingu þar sem hún var tímabundin til 1. október 2001 og var ekki framlengd.
Með bréfi stefnanda til Samvinnuferða Landsýnar hf. 14. febrúar 2001 var félagið minnt á að trygging félagsins rynni út þann 13. mars 2001 og að fyrir þann tíma þurfi að hafa borist staðfesting á endurnýjun tryggingar að upphæð 365.000.000 milljónir króna sem byggðist á mati endurskoðanda. Er í bréfinu varað við því að verði fullnægjandi trygging ekki lögð fram sé ráðuneytinu rétt og skylt að fella rekstrarleyfi ferðaskrifstofunnar niður í samræmi við 21. gr. laga nr. 117/1994.
Af hálfu Samvinnuferða Landsýnar hf. var með bréfi 26. febrúar 2001 óskað eftir fresti til að leggja fram trygginguna og því hreyft að tryggingarmat væri reist á röngum forsendum og með bréfi 7. mars 2001 mælti Hjörleifur Pálsson endurskoðandi hjá Deloitte & Touche með því að veittur væri aukinn frestur til að endurmeta tryggingarþörfina. Féllst stefnandi á þetta með bréfi 13. mars 2001 og með bréfi 9. apríl 2001 var endurmat endurskoðanda tilkynnt stefnanda. Á grundvelli nýrra upplýsinga og gagna var tryggingarfjárhæðin færð niður í 275.000.000 krónur og með bréfi 17. apríl 2001 tilkynnti stefnandi Samvinnuferðum Landsýn hf. um lækkun mats á tryggingarþörfinni.
Með vísan til þess að hjá stefnanda væri trygging að fjárhæð 170.000.000 krónur sem gilti til 1. október 2001 var óskað eftir því að gengið væri frá hækkun tryggingar í samræmi við nýtt tryggingarmat í síðasta lagi 2. maí 2001. Enn var af hálfu Samvinnuferða Landsýnar hf. óskað endurskoðunar tryggingarfjárhæðar og erindi þess efnis sent stefnanda. Með bréfi 25. maí 2001 tilkynni stefnandi að hann teldi nauðsynlegt að fella rekstrarleyfi ferðaskrifstofunnar niður yrði trygging ekki hækkuð innan 14 daga. Þann 31. maí 2001 fór Samvinnuferðir Landsýn hf. enn á ný fram á endurmat vegna breyttra rekstraforsendna meðal annars vegna þess að nýir hluthafar hafi komið að félaginu með aukið hlutafé og endurskipulagning rekstrar hafi átt sér stað.
Aftur fór fram endurmat af hálfu endurskoðanda og var tryggingarfjárhæðin lækkuð og féllst ráðuneytið á lækkun tryggingarfjár í 190.000.000 krónur og með bréfi stefnanda 25. júní 2001 var gefinn frestur til hækkunar tryggingarinnar til 10. júlí 2001. Með bréfi 28. júní 2001 sendi Samvinnuferðir Landsýn hf. viðbótartryggingu í formi fyrrgreindrar bankaábyrgðar frá Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis að fjárhæð 20.000.000 krónur. Jafnframt var því lýst yfir af hálfu félagsins að unnið væri að því að framlengja fyrirliggjandi tryggingar vegna áframhaldandi rekstrar eftir 1. október 2001.
Með bréfi 15. ágúst 2001 áréttaði stefnandi það skilyrði fyrir lækkun tryggingarfjárhæðar í 190.000.000 króna að gildistími tryggingarinnar verði framlengdur til 30. apríl 2002 og enn fremur er í bréfinu ítrekað að stefnandi muni ekki geta veitt neina fresti vegna tryggingarinnar eftir 1. október 2001.
Í bréfi Samvinnuferða Landsýnar hf. til stefnanda 20. ágúst 2001 kemur meðal annars fram að forráðamönnum félagsins þyki miður að enn skuli ekki vera búið að ganga frá framlengingu á umræddri tryggingu en tryggingaraðilar hafi verið tregir til að veita slíka tryggingu á grundvelli ársreiknings félagsins frá árinu 2000. Þá segir í bréfinu að á fyrirhuguðum stjórnarfundi þann 30. ágúst 2001 muni stjórn félagsins meðal annars ræða hvaða úrræði félagið hafi ef ekki fáist staðfesting á framlengingu tryggingarinnar. Meðal annars verði rætt hvort og þá með hvaða hætti eigendur félagsins gangi í ábyrgð fyrir tryggingunni að hluta til eða öllu leyti enda sé eigendum félagsins ljóst að án lögbundinnar tryggingar gagnvart ráðuneytinu sé félagið ekki rekstrarhæft.
Með bréfi stefnanda til Samvinnuferða Landsýnar hf. 26. september 2001 var þess enn krafist að gengið væri frá endurnýjun tryggingar á þeim forsendum sem ráðuneytið hafi kynnt og samþykkt og veittur frestur til þess til 28. september 2001 að öðrum kosti yrði rekstrarleyfi ferðaskrifstofunnar fellt úr gildi. Þann 28. september 2001 afhenti fyrirsvarsmaður Samvinnuferða Landsýnar hf. stefnanda umdeilda ábyrgðaryfirlýsingu sem stefnandi reisir kröfur sínar á.
Í bréfi Páls Steingrímssonar endurskoðanda hjá Deloitte & Touche 10. október 2001 varðandi mat á upphæð tryggingar vegna Samvinnuferða Landsýnar hf. segir að í kjölfar þess að stærstu hluthafar félagsins hafi lagt fram tryggingu að fjárhæð 125.000.000 króna vegna tryggingarskyldrar starfsemi félagsins í stað eldri tryggingar hafi verið farið fram á mat á tryggingarfjárhæð félagsins og lagt til að félagið leggi fram tryggingu að fjárhæð 170.000.000 vegna tryggingarskyldrar starfsemi sinnar. Bú félagsins var síðan tekið til gjaldþrotaskipta, eins og rakið er að framan, þann 28. nóvember 2001.
Í kjölfar töku bús Samvinnuferða Landsýnar hf. til gjaldþrotaskipta beindi stefnandi kröfum á hendur stefndu á grundvelli fyrrgreindrar ábyrgðaryfirlýsingar þeirra en þeir mótmæltu greiðsluskyldu. Af því tilefni aflaði stefnandi sér lögfræðilegra álitsgerða, aðra frá Skarphéðni Þórissyni ríkislögmanni en hina frá lögmanni stefnanda, Friðjóni Erni Friðjónssyni hrl., sem þann 29. nóvember 2001 var tilnefndur tilsjónarmaður til að sjá um uppgjör tryggingarfjár vegna gjaldþrots Samvinnuferða Landsýnar hf. í samræmi við 20 gr. laga nr. 117/1994. Stefnandi gaf þann 3. desember 2001 út tilkynningu með áskorun um kröfulýsingu í tryggingarfé samkvæmt lögum um skipulag ferðamála. Birtist áskorunin í Lögbirtingablaðinu þann 7. desember 2001 og rann kröfulýsingarfrestur út þann 4. febrúar 2002. Var lýst kröfum samtals að fjárhæð 37.878.579 krónur og útlagður kostnaður vegna heimflutnings farþega sem voru í ferðum á vegum ferðaskrifstofunnar nam 5.605.327 krónum.
Ágreiningur máls þessa snýst um það hvort ábyrgðaryfirlýsing sú sem stefndu undirrituðu 28. september 2001 sé gild trygging fyrir ferðaskrifstofurekstri Samvinnuferða Landsýnar hf. og standi til tryggingar lögmætum kröfum samkvæmt lögum nr. 117/1994 um skipulag ferðamála.
Við aðalmeðferð gáfu skýrslu fyrir dómi Jón Birgir Jónsson ráðuneytisstjóri stefnanda,samgönguráðuneytisins, Heimir Haraldsson fyrrverandi framkvæmdastjóri stefnda, Gildingar fjárfestingafélags ehf. og Ásmundur Stefánsson framkvæmdastjóri stefnda Þróunarfélags Íslands hf. Þá gáfu skýrslu fyrir dóminum vitnin María Thejll, Páll Steingrímsson og Guðjón Auðunsson.
III
Stefnandi byggir kröfur sínar á því að hann hafi með lögmætum hætti og í samræmi við 2. mgr. 18. gr. laga nr. 117/1994, sbr. 20. gr. sömu laga ákvarðað kröfur sem njóti tryggingaverndar samkvæmt lögum um skipulag ferðamála og hafi því lögvarða hagsmuni af því að leita viðurkenningardóms í máli þessu. Hafi stefndu með ábyrgðaryfirlýsingu sinni 28. september 2001 ábyrgst greiðslu á kröfum þessum enda sé um að ræða kröfur sem njóti tryggingaverndar samkvæmt 13. gr., sbr. 20. gr. laga nr. 117/1994 um skipulag ferðamála. Byggt sé á því að skilja verði yfirlýsinguna sem ábyrgð á því að tilskilinnar og umræddrar tryggingar í formi bankaábyrgðar/ vátryggingafélags verði aflað og að þangað til standi yfirlýsingin til fullnustu hugsanlegum kröfum sem njóti tryggingaverndar skv. lögum 117/1994.
Telur stefnandi að um sé að ræða gilda ábyrgð samkvæmt lögum 117/1994 um skipulag ferðamála. Stefnanda hafi verið frjálst að taka við ábyrgðaryfirlýsingu stefndu enda um að ræða fullnægjandi tryggingu að mati ráðuneytisins. Engu máli skipti við úrlausn þessa máls þó að tryggingin hafi ekki verið samkvæmt upptalningu a- til og með c- liðar 19. gr. laga nr. 117/1994, enda sú upptalning aðeins í dæma skyni sbr. orðalag ákvæðisins: " Trygging, sbr. 13. gr., getur verið:"
Samkvæmt orðanna hljóðan sé ábyrgðaryfirlýsingin til “tryggingar á ISK 125.000.000,- ábyrgð sem gefin verði út af viðskiptabanka, sparisjóði eða vátryggingarfélagi til handa samgönguráðneytinu í samræmi við lög um skipan ferðamála".
Verði við túlkun yfirlýsingarinnar að skoða þann tilgang sem henni sé ætlað að þjóna og aðdraganda að útgáfu hennar og telur stefnandi að með umræddri ábyrgðaryfirlýsingu sé verið að ábyrgjast að umræddrar tryggingar verði aflað en á meðan og að öðrum kosti standi útgefendur yfirlýsingarinnar, stefndu þessa máls, ábyrgir fyrir kröfum sem njóti tryggingaverndar samkvæmt lögum nr. 117/1994 í þeim hlutföllum sem í yfirlýsingunni greini.
Sé framangreind túlkun í samræmi við aðdraganda útgáfu ábyrgðaryfirlýsingar-innar. Fyrir liggi af bréfaskriftum stefnanda og forsvarsmanna Samvinnuferða Landsýnar hf. að stefnandi hafi ítrekað kallað eftir tryggingum að viðlagðri sviptingu rekstrarleyfis ferðaskrifstofunnar lögum samkvæmt. Komi fram í bréfi fyrirsvarsmanns Samvinnuferða Landsýnar hf. 20. ágúst 2001 að það verði rætt á stjórnarfundi í félaginu þann 30. ágúst hvort og með hvaða hætti eigendur félagsins gangi í ábyrgð fyrir tryggingunni. Ábyrgðaryfirlýsing stefndu 28. september 2001 sé í samræmi við efni þessa bréfs og þær viðræður sem stefnandi hafi átt við forsvarsmenn félagsins.
Sé augljóst að rekstrarleyfi hefði verið fellt úr gildi án tryggingar af hálfu ferðaskrifstofunnar lögum samkvæmt enda trygging lögbundin forsenda starfsemi ferðaskrifstofunnar. Trygging hafi verið til staðar þegar ábyrgðaryfirlýsingin hafi verið gefin en hafi verið tímabundin til 1. október 2001. Með útgáfu ábyrgðaryfirlýsingarinnar og á þeirri forsendu og í þeim skilningi að komin væri fram fullnægjandi trygging lögum samkvæmt, hafi verið heimilt að leyfa áframhaldandi ferðaskrifstofurekstur.
Mótmælir stefnandi þeim skilningi stefndu að um ábyrgð á væntanlegri tryggingu hafi verið að tefla. Sé sá skilningur fráleitur enda engrar ábyrgðaryfirlýsingar þörf lægi fyrir bankaábyrgð, ábyrgð sparisjóðs eða vátryggingafélags. Eðli málsins samkvæmt væri þá engin þörf á frekari tryggingum.
Væri þessi túlkun stefndu á ábyrgðaryfirlýsingunni rétt hefðu stefndu það sjálfir í hendi sér hvort til ábyrgðar væri stofnað á hendur þeim á grundvelli tryggingarinnar og sé það til marks um hve fráleit þessi túlkun stefndu sé.
Stefnandi bendir á að gríðarlegir hagsmunir hafi verið við það bundnir að rekstri ferðaskrifstofunnar væri haldið áfram ef þess væri nokkur kostur. Um hafi verið að ræða eitt stærsta fyrirtæki landsins á sviði ferðamála, fyrirtæki með mörg hundruð starfsmenn og mikil viðskiptasambönd. Yfirvofandi svipting rekstrarleyfis af hálfu stefnanda hafi verið verulega íþyngjandi og eðlilegt að leitað væri allra leiða til að fullnægja kröfum laga um tryggingar svo að starfseminni mætti halda áfram. Yfirlýsing hluthafa hafi haft þann tilgang að setja bráðabirgðatryggingu þar til annarrar bankaábyrgðar eða sambærilegrar tryggingar hefði verið aflað. Með þeim hætti hafi eigendur komið í veg fyrir rekstrarstöðvun og tryggt hagsmuni sína með áframhaldandi starfsemi félagsins.
Stefnandi kveður að vegna framkominnar tryggingar stefndu hafi ekki reynt á fyrirliggjandi tryggingar ferðaskrifstofunnar sem runnið hafi út 1. október 2001. Hefðu nokkur áhöld verið um fullt gildi yfirlýsingar stefndu hefði rekstur verið stöðvaður áður en tryggingarnar hafi runnið út og hagsmunir stefnanda þar með tryggðir.
Telur stefnandi að lögvarðir hagsmunir séu tvímælalaust til staðar til að fá viðurkenningardóm í máli þessu samkvæmt 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Um lagarök til viðbótar þegar tilgreindum lögum nr. 117/1994 um skipulag ferðamála vísar stefnandi til sjónarmiða um neytendavernd. Enn fremur til meginreglna samninga- og kröfuréttar, einkum til lögskýringarsjónarmiða um túlkun löggernings í samræmi við tilgang hans og ákvæði gildandi laga um þau efni sem löggerningurinn lítur að. Enn fremur til laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, einkum 129. gr. að því er málskostnað varðar, vaxtalaga nr. 25/1987 og laga nr. 38 /2001 og til laga nr. 50/1998 um virðisaukaskatt, sbr. lög nr. 119/1989.
IV
Stefndu krefjist sýknu af kröfum stefnanda og telja að ekki verði annar skilningur lagður í orðalag hinnar skilyrtu ábyrgðaryfirlýsingar en orðalag hennar segi sjálft til um. Orðalagið sé skýrt og feli í sér skilyrta ábyrgð stefndu, eins og nánar sé gerð grein fyrir í yfirlýsingunni, vegna ábyrgðar "sem gefin verði út af viðskiptabanka, sparisjóði eða vátryggingarfélagi, til handa samgönguráðuneytinu í samræmi við lög um skipan ferðamála". Yfirlýsingin feli ekki í sér beina og fyrirvaralausa ábyrgð stefndu á hendur stefnanda, eins og stefnandi virðist telja, heldur sé hún bakábyrgð vegna væntanlegrar lögformlegrar ferðaskrifstofuábyrgðar. Tölvupóstur fyrrum stjórnarformanns Samvinnuferða Landsýnar hf. 14. nóvember 2001 staðfesti hvaða skilning meintir ábyrgðaraðilar hafi lagt í yfirlýsinguna. Jafnframt komi þar fram að væntanleg ábyrgð stefndu hafi verið bundin þeirri forsendu að Samvinnuferðir Landsýn hf. hafi sett þeim tryggingu í fasteignum og hlutafé í eigu félagsins. Samvinnuferðir Landsýn hf. hafi áður boðist til þess að veðsetja stefnanda tilgreindar eignir félagsins, en þeirri tryggingu hafi verið hafnað af hálfu stefnanda þar sem hún væri andstæð lögum um skipan ferðamála. Meðal annars hafi Eignarhaldsfélag Alþýðubankans hf. boðist til þess um miðjan nóvember 2001 að gefa út skilyrðislausa ábyrgð gagnvart stefnanda vegna Samvinnuferða Landsýnar hf. en hafi verið neitað um það af stefnanda þar sem Eignarhaldsfélag Alþýðubankans hf. væri ekki viðskiptabanki heldur fjárfestingarbanki og uppfyllti því ekki skilyrði laga um skipan ferðamála til að setja tryggingar samkvæmt þeim. Þarna komist stefnandi í mótsögn við sjálfan sig þegar hann nú fullyrði að meint ábyrgð stefndu sé fullgild samkvæmt framangreindu lagaákvæði.
Umdeild yfirlýsing stefndu til stefnanda hafi einfaldlega verið lögð fram í því skyni að fullvissa stefnanda um vilja stærstu hluthafa Samvinnuferða Landsýnar hf. til að styðja félagið við að útvega lögformlegt ferðaskrifstofuleyfi. Annar skilningur verði ekki lagður í yfirlýsinguna.
Auk þess telja stefndu að yfirlýsing þeirra uppfylli ekki skilyrði 19. gr. laga nr. 117/1994 um skipulag ferðamála, með síðari breytingum, aðallega samkvæmt lögum nr. 73/1998, um tryggingar sem ferðaskrifstofur geti sett fyrir starfsemi sinni, þar sem lagagreinin tilgreini með tæmandi hætti þær tryggingar sem fullnægjandi séu fyrir ferðaskrifstofurekstri. Orðalag greinarinnar einskorðist við tryggingar í reiðufé í vörslum stefnanda, fé lagt inn á bankareikning í nafni stefnanda eða ábyrgð viðskiptabanka eða sparisjóðs eða vátrygging hjá vátryggingafélagi. Lögskýringargögn bendi til þess að sú túlkun stefndu sé rétt. Þegar frumvarp að lögum nr. 73/1998 hafi verið lagt fram á Alþingi hinn 11. mars 1998, hafi c-liður 19. gr. verið orðaður með öðrum og almennari hætti en í endanlegri útfærslu eftir meðferð frumvarpsins í þinginu. Styrki sú málsmeðferð skilning stefndu að þessu leyti.
Um leið og mótmælt sé öllum málsástæðum stefnanda, þá sé sérstaklega mótmælt þeim skilningi stefnanda að í yfirlýsingunni hafi stefndu ábyrgst greiðslu á kröfum samkvæmt 2. mgr. 18. gr. laga nr. 117/1994, sbr. 20 gr. sömu laga. Jafnframt sé mótmælt þeim skilning stefnanda að yfirlýsinguna hafi mátt skilja sem ábyrgð um að "tilskilinnar og umræddrar tryggingar í formi bankaábyrgðar/vátryggingarfélags, verði aflað og að þangað til stæði yfirlýsingin til fullnustu hugsanlegum kröfum sem njóta tryggingaverndar samkvæmt. lögum 117/1994".
Þá sé fullyrðingu stefnanda um að ekki hafi reynt á fyrirliggjandi tryggingar Samvinnuferða Landsýnar hf. sem runnið hafi út 1. okóber 2001 vegna meintrar ábyrgðar stefndu, vísað til föðurhúsanna. Stefndu bendi á niðurlag bréfs stefnanda til ferðskrifstofunnar 26. september 2001, þar sem segi að "hafi ráðuneytinu ekki borist staðfesting á endurnýjun tryggingar að upphæð 170 milljónir fyrir kl. 16.00, föstudaginn 28. september nk. verður ferðaskrifstofuleyfið fellt úr gildi að kvöldi 30. október án frekari viðvarana með lögbundnum afleiðingum." Af framangreindu orðalagi sé ljóst að stefnandi hafi ætlað að heimila Samvinnuferðum Landsýn hf. að starfa allan októbermánuð 2001 án lögbundinna trygginga.
Dómkröfur sínar um sýknu styðji stefndu við lög nr. 117/1994 um skipulag ferðamála með síðari breytingum. Jafnframt styðji stefndu dómkröfur sínar um sýknu við meginreglur samningaréttarins um eðlilega og sanngjarna túlkun á yfirlýsingu stefndu og að ekki séu að öðru leyti lögmætar forsendur fyrir kröfugerð stefnanda. Krafa stefndu um að stefnandi verði dæmdur til að greiða þeim málskostnað byggi þeir á XXI. kafla eml., aðallega 130. gr. Krafa stefnda Búnaðarbanka Íslands hf. um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun sé reist á lögum nr. 50/1988, sbr. lög nr. 119/1989.
V.
Eins og rakið hefur verið snýst ágreiningur í málinu um þýðingu ábyrgðaryfirlýsingar þeirrar sem stefndu undirrituðu 28. september 2001 og samgönguráðuneytið leit á sem fullnægjandi tryggingu fyrir áframhaldandi rekstri ferðarskrifstofunnar Samvinnuferða Landsýnar hf. í samræmi við lög um skipulag ferðamála nr. 117/1994. Samkvæmt 13. gr. þeirra laga segir að áður en leyfi sé veitt til ferðaskrifstofureksturs skuli ferðaskrifstofa leggja fram sönnun þess að hún hafi nægilega tryggingu til heimflutnings farþega erlendis frá auk þess sem skylt sé að gera farþega kleift að ljúka alferð, hvort sem um sé að ræða alferð innan lands eða utan, í samræmi við upphaflega áætlun hennar. Enn fremur skal tryggja endurgreiðslu þess fjár er viðskiptavinur hefur þegar greitt vegna alferðar sem enn sé ófarin komi til rekstrarstöðvunar eða gjaldþrots ferðaskrifstofu. Í 19. gr laganna segir að trygging samkvæmt 13. grein geti verið: a) fé í vörslu samgönguráðuneytis, b) fé sem lagt sé inn í viðurkennda banka- eða peningastofnun í nafni samgönguráðuneytis, c) ábyrgð viðskiptabanka eða sparisjóðs eða vátrygging hjá vátryggingafélagi.
Umræddri 19. gr. var breytt með lögum nr. 73/1998 og segir meðal annars í athugasemdum við lagafrumvarpið varðandi þessa grein að þar sem frumvarpið feli í sér umtalsverða hækkun á tryggingum, hafi sú leið verið farin að heimila umsækjendum að tryggja sig hjá tryggingafélagi eða kaupa bankaábyrgð þannig að ef til rekstrarstöðvunar komi verði ráðuneytinu gert kleift að ganga að slíkri tryggingu eða bankaábyrgð.
Framangreint orðalag ákvæðisins verður skilið á þann veg að umsækjandi um ferðaskrifstofuleyfi þarf að leggja fram tryggingu í einhverju því formi sem þar er upptalið og getur hann ekki gert kröfu til þess að samgönguráðuneytið taki við öðrum tryggingum. Ef hins vegar samgönguráðuneytið metur aðrar tryggingar sambærilegar og samþykkir eitthvert annað form á tryggingu en talið er upp í lögunum hlýtur ráðuneytið eðli málsins samkvæmt að geta það. Sú staðreynd að umrædd meint trygging er ekki í samræmi við framangreinda upptalningu í 19. gr. laga um skipulag ferðamála kemur því ekki í veg fyrir að þeir sem gáfu út yfirlýsinguna séu af henni bundnir gagnvart stefnanda.
Þá verður ekki séð á hvern hátt framangreindur skilningur stefndu á 19. gr. laganna fær stuðning í þeirri staðreynd að frumvarp til laga nr. 73/1998, þar sem ákvæðinu var breytt, breyttist í meðferð þingsins frá því að vera orðað með öðrum og almennari hætti en það varð í endanlegri útfærslu.
Eins og rakið hefur verið deila aðilar um hvað felist í hinni margumræddu ábyrðaryfirlýsingu stefndu sem gefin var út til stefnanda 28. september 2001 og varðaði “Ferðaskrifstofuábyrgð Samvinnuferða Landsýnar hf.” eins og skjalið er kallað. Stendur orð gegn orði og verður að skoða framburði þeirra sem komu fyrir dóminn og telja verður að hafi stöðu aðila í málinu svo og framburði vitna með hliðsjón af tengslum þeirra við málið.
Umrædd ábyrgðaryfirlýsing er takmörkuð við tímabilið 1. október 2001 til 30. apríl 2002 og þar lýsa stefndu því yfir að þeir sem fjórir stærstu eigendur Samvinnuferða Landsýnar hf. samþykki að gangast í hlutfallslega bakábyrgð í ákveðnum innbyrðis hlutföllum til tryggingar á 125.000.000 króna ábyrgð sem gefin verði út af viðskiptabanka, sparisjóði eða vátryggingarfélagi til handa stefnanda í samræmi við lög um skipulag ferðamála. Síðan segir að forráðamenn ferðaskrifstofunnar muni óska eftir því við viðskiptabanka, sparisjóð eða vátryggingarfélag að gefa ábyrgðina út eins fljótt og kostur er.
Óumdeilt er að stefnandi leit þannig á yfirlýsingu þessa að hún væri nægileg til að framlengja leyfi Samvinnuferðar Landsýnar hf. til ferðaskrifstofureksturs og hefur komið fram í málatilbúnaði stefnanda að hann hefur litið svo á að yfirlýsing stefndu væri ábyrgð til bráðabirgða þar til Samvinnuferðir Landsýn hf. legði fram tryggingu í samræmi við ákvæði 19. gr. laga nr. 117/1994 en af gögnum málsins verður ráðið að erfiðlega hafði gengið fyrir félagið að afla slíkra trygginga.
Stefndu halda því fram að yfirlýsing þeirra hafi eingöngu verið bakábyrgð til tryggingar fyrirhugaðri ábyrgð sem gefin verði út af viðskiptabanka, sparisjóði eða vátryggingarfélagi og samkvæmt orðanna hljóðan verði þessi yfirlýsing ekki skilin á annan veg.
Við túlkun umdeildrar yfirlýsingar er nauðsynlegt að kanna hvaða réttaráhrif umræddri ábyrgðaryfirlýsingu var ætlað að hafa. Ekki verður af gögnum máls þessa séð hvers vegna þörf var á því fyrir stefndu að lýsa því yfir við stefnanda að þeir hygðust taka á sig bakábyrgð á tryggingu sem yrði aflað síðar í samræmi við ákvæði 19. gr. laga nr 117/1994, enda hefði sú trygging verið háð samþykki stefnanda. Er því vandséð hver þörf var á yfirlýsingum stefndu um bakábyrgð auk þess sem ekki hefur komið skýrt fram af hálfu stefndu hvaða gildi slík yfirlýsing hefur og fyrir hvern.
Þá verður við túlkun á þýðingu yfirlýsingarinnar að horfa til þeirra aðstæðna sem voru uppi þegar hún var gefin. Stefndu hafa haldið því fram að fyrirliggjandi trygging Samvinnuferða Landsýnar hf. hjá BG Garanti hafi ekki verið gild og því hefði stefnandi ekki haft fullgildar tryggingar hvort sem er og verður málatilbúnaður stefndu skilinn þannig að það hafi ekki skipt máli fyrir stefnanda að framlengja ferðaskrifstofuleyfið, þótt tryggingar væru ófullnægjandi, þar sem tjón stefnanda hefði orðið mun meira hefði það ekki verið gert. Þessar fullyrðingar stefndu hafa ekki verið studdar neinum haldbærum gögnum og gegn mótmælum stefnanda verða þær því virtar að vettugi og því slegið föstu að Samvinnuferðir Landsýn hf. hafi haft fullnægjandi tryggingar fram til 1. október 2001. Sú staðreynd þýddi að leyfi þeirra til ferðaskrifstofureksturs hefði verið fellt niður þann 30. september 2001. Sú skýring stefnanda að um prentvillu hafi verið að ræða í bréfi hans 26. september 2001 þar sem talað er um niðurfellingu ferðaskrifstofuleyfis 30. október, þykir trúverðug enda bera öll gögn málsins það með sér svo ekki verði um villst að fyrir lá að ferðaskrifstofuleyfi Samvinnuferða Landsýnar hf. yrði fellt niður þann 30. september 2001 hefðu fullnægjandi tryggingar ekki borist áður.
Þá verður af gögnum málsins ráðið að stefndu, sem stærstu eigendur ferðaskrifstofunnar, var fullkunnugt um að yfir vofði niðurfelling ferðaskrifstofuleyfis bærust ekki fullnægjandi tryggingar fyrir þann 30. september 2001 með ófyrirséðum afleiðingum fyrir félagið og eigendur þess. Þá kemur fram í bréfi Samvinnuferða Landsýnar hf. 20. ágúst 2001 til stefnanda að á stjórnarfundi í félaginu 30. ágúst muni stjórnin meðal annars ræða hvaða úrræði félagið hefði, ef ekki fengist staðfesting á framlengingu tryggingarinnar og meðal annars yrði rætt hvort og þá með hvaða hætti eigendur félagsins gangi í ábyrgðir fyrir tryggingunni að hluta til eða öllu leyti.
Þegar allt framangreint er virt og í ljósi þeirra atvika sem lýst hefur verið um aðdraganda útgáfu umdeildrar yfirlýsingar hefur stefndu ekki tekist að sýna fram á það svo óyggjandi sé að þeir hafi eingöngu verið að lýsa yfir að þeir tækju á sig ábyrgð á væntanlegum, hugsanlegum ábyrgðum banka og/eða tryggingafélags og verða þeir að bera hallann af þeim sönnunarskorti. Þykir tölvupóstsending fyrrum stjórnarformanns Samvinnuferða Landsýnar hf. 14. nóvember 2001 til framkvæmdastjóra félagsins á dómskjali 34 ekki styðja fullyrðingar stefndu að þessu leyti, en sendandinn var jafnframt fyrirsvarsmaður Gildingar ehf. á þessum tíma. Þykir því ljóst að útgáfa stefndu á ábyrgðaryfirlýsingunni var viðleitni þeirra til að bjarga því að Samvinnuferðir Landsýn hf. fengju áfram leyfi til reksturs ferðaskrifstofu og bar sú viðleitni árangur. Í yfirlýsingu sinni gerðu stefndu síðan ráð fyrir að fyrirsvarsmenn Samvinnuferða Landsýnar hf. færu í það eins fljótt og kostur væri að óska eftir því við viðskiptabanka, sparisjóð eða vátryggingarfélag að gefa ábyrgðina út í samræmi við lög um skipulag ferðamála sem ætla má að hefði leyst stefndu undan ábyrgð sinni gagnvart stefnanda. Þar sem það gerðist ekki stendur umdeild yfirlýsing stefndu um hlutfallslega ábyrgð gagnvart stefnanda á greiðslu þess kostnaðar sem leiðir af tryggingarákvæðum laga nr. 117/1994 um skipulag ferðamála.
Að því virtu sem nú hefur verið rakið verða kröfur stefnanda teknar til greina eins og þær eru fram settar og nánar greinir í dómsorði.
Eftir þessum úrslitum verða stefndu dæmdir til að greiða stefnanda málskostnað in solidum sem þykir hæfilega ákveðinn 400.000 krónur.
Af hálfu stefnanda flutti málið Friðjón Örn Friðjónsson hrl. en af hálfu stefndu flutti málið Kristinn Hallgrímsson hrl.
Dóminn kveður upp Greta Baldursdóttir héraðsdómari.
D Ó M S O R Ð
Ábyrgðaryfirlýsing sem útgefin var af stefndu, Gildingu ehf., nú Búnaðarbanka Íslands hf., Eignarhaldsfélagi Alþýðubankans hf., nú Þróunarfélagi Íslands hf., Olíufélaginu hf., nú Keri hf. og Flutningum ehf. þann 28. september 2001 gagnvart stefnanda, samgönguráðuneytinu, til tryggingar ferðaskrifstofurekstri Samvinnuferða Landsýn hf. er gild og stendur til tryggingar lögmætum kröfum samkvæmt lögum nr. 117/1994 um skipulag ferðamála.
Stefndu greiði stefnanda in solidum 400.000 krónur í málskostnað.