Hæstiréttur íslands

Mál nr. 111/1999


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991


Mánudaginn 15

Mánudaginn 15. mars 1999

Nr. 111/1999.

Lögreglustjórinn í Reykjavík

(Guðjón Magnússon fulltrúi)

gegn

Guðjóni Agli Guðjónssyni

(enginn)

Kærumál. Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.

G var borinn sökum um skjalafals og fjársvik með því að hafa gefið út mikinn fjölda tékka og framvísað þeim í viðskiptum. Að virtum brotum þeim sem G var gefið að sök og persónulegum högum hans, var talið að ætla mætti að hann  myndi halda áfram brotum, ef hann færi frjáls ferða sinna á meðan málum hans væri ekki lokið. Var því fallist á kröfu um gæsluvarðhald á grundvelli  c. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Arnljótur Björnsson og Gunnlaugur Claessen.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 11. mars 1999, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 11. mars 1999, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að varnaraðila verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 7. apríl nk. kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Sóknaraðili krefst þess að fyrrgreind krafa um gæsluvarðhald verði tekin til greina.

Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

Eins og greinir í úrskurði héraðsdómara er varnaraðili borinn sökum um skjalafals og fjársvik með því að gefa út mikinn fjölda tékka og framvísa þeim í viðskiptum. Brotin varða nánar tiltekið á fjórða tug tékka, sem voru gefnir út og notaðir í viðskiptum í febrúar og mars 1999. Samanlögð fjárhæð tékkanna nemur að sögn sóknaraðila meira en 800.000 krónum. Fyrir héraðsdómi gekkst varnaraðili við flestum þeim brotum, sem hér um ræðir. Í úrskurði héraðsdómara er greint frá því að varnaraðili hafi þar fyrir dómi sagst vera fíkniefnaneytandi. Þegar alls þessa er gætt verður að fallast á með sóknaraðila að ætla megi að varnaraðili muni halda áfram brotum, ef hann fer frjáls ferða sinna á meðan máli hans er ekki lokið. Fangelsisrefsing er lögð við þeirri háttsemi, sem varnaraðila er borinn sökum um. Er því skilyrðum c. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 fullnægt til að taka til greina kröfu sóknaraðila um gæsluvarðhald.

Dómsorð:

Varnaraðili, Guðjón Egill Guðjónsson, sæti gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 7. apríl 1999 kl. 16.

Úskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 11. mars 1999.

                Ár 1999, fimmtudaginn 11. mars er á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur, sem háð er af  Hervöru Þorvaldsdóttur héraðsdómara, kveðinn upp úrskurður þessi:

                Lögreglustjórinn í Reykjavík hefur með vísan til a- og c  liða 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 krafist þess að verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 7. apríl nk. kl. 16:00.

                Kærði hefur mótmælt framkominni kröfu.

                Upplýst er að kærði hefur falsað og framvísað fjölda ávísana að fjárhæð um það bil 800.000 krónur.  Upplýst er að brotastarfsemi kærða hefur staðið yfir í a.m.k. tvo mánuði.  Kærði hefur upplýst að fleiri ávísanir eigi eftir að koma fram, án þess þó að hann geti sagt til um endanlega fjárhæð.  Hins vegar er ekki upplýst hvernig hann komst yfir ávísanahefti þau sem um ræðir.  Lögreglan telur því með vísan til a- og c liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991, nauðsynlegt að kærði sæti gæsluvarðhaldi.

                Kærði kveðst vera eiturlyfjaneytandi og er á honum að skilja að hann reyni allt hvað hann getur til að verða sér út um fé til að fjármagna fíkn sína.  Hins vegar ber að líta til þess að kærði hefur ekki áður verið dæmdur fyrir auðgunarbrot og ekkert bendir til að hann hafi fleiri ávísanir undir höndum, en hann hefur þegar útfyllt.  Samkvæmt framansögðu verður ekki talið að brot kærða séu þess eðlis að nauðsynlegt sé að beita gæsluvarðhaldi til þess að upplýsa málið eða vinna bug á vanda kærða.  Því er framkominni kröfu hafnað.

                Hervör Þorvaldsdóttir, héraðsdómari, kvað upp úrskurð þennan.

Úrskurðarorð:

                Hafnað er kröfu lögreglunnar í Reykjavík um að Guðjón Egill Guðjónsson, sæti gæsluvarðhaldi.