Hæstiréttur íslands
Mál nr. 300/2016
Lykilorð
- Viðurkenningarkrafa
- Skaðabætur
- Veðskuldabréf
- Veðsetning
- Nauðungarsala
- Tómlæti
- Gjafsókn
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Eiríkur Tómasson og Greta Baldursdóttir.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 19. apríl 2016. Hún krefst þess að viðurkennt verði aðallega að aðalstefnda, en til vara íslenska ríkinu, beri að greiða sér skaðabætur vegna tjóns sem hún hafi orðið fyrir með því að eignarhluti hennar í fasteigninni að Fjallalind 94 í Kópavogi var seldur nauðungarsölu 6. desember 2011. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar sem henni hefur verið veitt.
Stefndu krefjast hvor fyrir sitt leyti staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I
Áfrýjandi og eiginmaður hennar, Stefán Einarsson, áttu fasteignina Fjallalind 94 í Kópavogi í óskiptri sameign og voru bæði þinglýstir eigendur hennar. Áfrýjandi kveður þau hafa slitið samvistir fyrir löngu en ágreiningur hafi risið með þeim á árinu 2009 um fjárskipti vegna skilnaðar. Þeim var veitt leyfi til lögskilnaðar 14. júní 2012. Stefán gaf út veðskuldabréf 30. nóvember 2004 að fjárhæð 25.600.000 krónur til Sparisjóðs Siglufjarðar. Skuldin var tryggð með 4. veðrétti í áðurnefndri fasteign. Fyrir hvíldu á eigninni þrjár veðskuldir sem tilgreindar voru í skuldabréfinu, á 1. veðrétti skuld við aðalstefnda að fjárhæð 9.000.000 krónur, á 2. veðrétti skuld við KB banka hf. að fjárhæð 6.000.000 krónur og á 3. veðrétti skuld að sömu fjárhæð við sama banka. Áfrýjandi fullyrðir að hún hafi ekki vitað um tilvist skuldabréfsins frá 30. nóvember 2004 fyrr en á árinu 2009 er deilur þeirra hjóna um fjárskipti stóðu. Hún hafi að athuguðu máli talið að undirskriftir með nafni hennar á þrjú skuldabréf, sem hvílt hafi á Fjallalind 94, hafi verið falsaðar. Það hafi átt við um önnur skuldabréf en það, sem hvíldi 1. veðrétti. Hún leitaði álits rithandarsérfræðings 11. nóvember 2009 í því skyni að fá úr því skorið hvort svo væri eða ekki. Að fenginni þeirri niðurstöðu rithandarsérfræðingsins að ,,verulegt skriftarlegt misræmi“ væri á milli undirskrifta á nafni áfrýjanda á skuldabréfunum og samanburðargagna, sem ekki væri umdeilt að hefðu að geyma ófalsaðar undirskriftir hennar, kærði hún ætlaða fölsun til lögreglu. Rannsókn lögreglu leiddi ekki til ákæru og var málið fellt niður.
Aðalstefndi fékk veðskuldabréfið 30. nóvember 2004 framselt frá Sparisjóði Siglufjarðar 13. mars 2009. Vanskil munu hafa orðið á skuldinni í kjölfar framsalsins. Áfrýjanda var 14. apríl 2011 birt greiðsluáskorun þar sem upplýst var um tilgreind vanskil á skuldabréfinu og að vænta mætti nauðungarsölu á hinni veðsettu fasteign ef skuldinni yrði ekki komið í skil. Það var ekki gert og beiddist aðalstefndi nauðungarsölu á eigninni 20. maí sama ár. Áfrýjandi kvaðst ekki hafa fengið tilkynningar um nauðungarsöluna en uppboð á eigninni hófst 10. nóvember 2011 og var svo framhaldið 6. desember sama ár. Uppboðið var auglýst í Lögbirtingablaði, í dagblaði og á sérstökum uppboðsvef. Aðalstefndi var hæstbjóðandi á framhaldsuppboðinu og var boð hans síðar samþykkt og mun hann hafa fengið afsal fyrir eigninni 16. febrúar 2012.
Aðalstefndi tilkynnti áfrýjanda 30. desember 2011 að hún ætti þess kost að leigja fasteignina gegn tilteknu leigugjaldi, en kysi hún það ekki bæri henni að rýma húsnæðið eigi síðar en 31. janúar 2012. Áfrýjandi hafnaði tilboði aðalstefnda og neitaði jafnframt að rýma húsnæðið. Rökstuddi hún afstöðu sína með því að nauðungarsalan á fasteigninni hefði verið ólögmæt af ýmsum tilgreindum ástæðum. Aðalstefndi krafðist útburðar áfrýjanda af eigninni með beiðni til héraðsdóms 17. desember 2012 og var fallist á kröfu hans með úrskurði 6. maí 2013. Sá úrskurður var kærður til Hæstaréttar, sem kvað 11. júní sama ár upp dóm í máli nr. 345/2013 þar sem úrskurðurinn var staðfestur. Í dómi Hæstaréttar kemur meðal annars fram að hvorki veðskuldabréfið né önnur gögn málsins bæru með sér að áfrýjandi máls þessa hefði samþykkt veðsetningu síns eignarhluta eða að sú hefði verið ætlan hennar, heldur aðeins að hún hefði sem maki skuldara samþykkt veðsetningu eignarinnar, hvað hans hlut varðaði, sbr. 60. og 64. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993. Hefði nauðungarsala á eignarhluta áfrýjanda því verið án heimildar að lögum. Hæstiréttur taldi áfrýjanda eftir sem áður bundna af nauðungarsölunni þar sem hún hefði hvorki neytt úrræða samkvæmt XIII. né XIV. kafla laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu innan þeirra tímafresta sem þar greindi, sbr. einkum 1. og 2. mgr. 80. gr. þeirra laga. Í dómi réttarins er síðan vakin athygli á að í 3. mgr. 80. gr. laganna komi fram að, hvað sem líði reglum áðurnefndra málsgreina, megi hafa uppi kröfu um skaðabætur eða aðra peningagreiðslu sem byggist á því að ekki hafi verið skilyrði til nauðungarsölu eða ranglega að henni staðið.
II
Áfrýjandi höfðaði mál þetta 10. febrúar 2015 með þeirri kröfu sem að framan greinir. Kröfu sína á hendur aðalstefnda reisir áfrýjandi á sakarreglunni. Telur hún sig hafa orðið fyrir tjóni vegna nauðungarsölunnar sem hafi verið ólögmæt að því er hennar eignarhluta varðaði. Hún kveður fjárhæð tjóns síns ekki hafa legið fyrir og því höfði hún viðurkenningarmál á grundvelli 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Ólögmæti nauðungarsölunnar felist að hennar mati bæði í því að undirskriftir með nafni hennar á veðskuldabréfið 30. nóvember 2004 hafi verið falsaðar og að auki hafi áfrýjandi þar hvergi samþykkt veðsetningu á sínum eignarhluta í fasteigninni.
Varakröfu sína reisir áfrýjandi á reglunni um vinnuveitandaábyrgð en teflir að öðru leyti fram sömu rökum gegn varastefnda og lýst hefur verið.
Aðalstefndi reisir kröfu sína um sýknu einkum á því að áfrýjandi hafi ekki leitt neinar viðhlítandi líkur að því að hún hafi orðið fyrir tjóni sem orsakast hafi af nauðungarsölu fasteignarinnar. Þá sé rangt að aðalstefndi hafi sýnt af sér saknæma háttsemi með því að knýja fram nauðungarsölu á eigninni. Fyrir liggi dómur Hæstaréttar 17. desember 2009 í máli nr. 162/2009 þar sem stofnun veðréttar í eignarhluta maka á grundvelli tryggingarbréfs hafi verið talin lögmæt þótt undirritun hafi verið háttað með áþekkum hætti og í máli þessu. Þá séu fullyrðingar um fölsun undirskrifta ósannaðar, auk þess sem ætluð skaðabótakrafa áfrýjanda sé, hvað sem öðru líður, niður fallin fyrir tómlætis sakir.
Varastefndi telur kröfu áfrýjanda ekki réttilega fram setta gagnvart sér, málshöfðunarfrestur sé liðinn, auk þess sem ekkert tjón sé sannað og að stórfellt tómlæti af hálfu áfrýjanda hafi valdið henni réttarspjöllum.
III
Í stefnu til héraðsdóms staðhæfir áfrýjandi að tjón hennar nemi hið minnsta helmingshlut af markaðsvirði fasteignarinnar. Í héraðsgreinargerð aðalstefnda er þessu mati áfrýjanda á tjóni sínu mótmælt og taldar upp þær greiðslur vegna fasteignarinnar sem ættu, ef um skaðabótaábyrgð aðalstefnda væri að ræða, að koma til frádráttar kröfu áfrýjanda um helming af markaðsvirðinu. Niðurstaða þessa útreiknings aðalstefnda er að ,,eftirstöðvar af áætlaðri tjónsfjárhæð“ séu 2.721.456 krónur. Þótt ljóst sé að aðila greini verulega á um hvernig skuli ákveða fjárhæð skaðabóta til áfrýjanda, verði skaðabótaskylda aðalstefnda viðurkennd, liggur fyrir að aðalstefndi sjálfur telur að áfrýjandi hafi orðið fyrir tjóni vegna nauðungarsölunnar. Er því fullnægt því skilyrði fyrir höfðun viðurkenningarmáls samkvæmt 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 að áfrýjandi hafi leitt líkur að því að hún hafi orðið fyrir tjóni.
Í dómi Hæstaréttar í máli nr. 345/2013 er því slegið föstu að með uppboðsbeiðni aðalstefnda í máli þessu og eftirfarandi nauðungarsölu á fasteigninni Fjallalind 94 í Kópavogi hafi hann gengið lengra en veðréttur hans veitti grundvöll fyrir. Nauðungarsalan hafi því verið án heimildar í lögum. Með vísan til 4. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991 verða þessi atvik lögð hér til grundvallar, enda hefur hið gagnstæða ekki verið sannað.
Eins og áður greinir mótmælir aðalstefndi því að hann hafi sýnt af sér saknæma háttsemi þótt hann hafi beiðst nauðungarsölu sem í ljós hafi komið að ekki var reist á lögmætum grundvelli að því er eignarhlut áfrýjanda varðar. Vísar aðalstefndi í því sambandi meðal annars til dóms Hæstaréttar í máli nr. 162/2009 sem áður greinir. Af þeim dómi hefði hann mátt draga þá ályktun að til veðréttar hefði stofnast í allri eigninni Fjallalind 94. Sú niðurstaða í því máli að til veðréttar hefði verið réttilega stofnað í allri eigninni, sem þar um ræddi, var reist á túlkun á tryggingarbréfi sem kvað á um stofnun veðréttarins. Var með vísun til texta tryggingarbréfsins talið að maki skuldara, sem áritaði bréfið, hefði með undirskrift sinni gefið gilt loforð um að samþykkja veðsetninguna. Í því máli, sem hér er til úrlausnar, er nafnritun áfrýjanda á framhlið veðskuldabréfsins í reit, þar sem tilgreint er: ,,Undirskrift maka skuldara“ neðan við reit þar sem er að finna undirskrift skuldarans sjálfs. Á bakhlið skuldabréfsins er að finna yfirskriftina: ,,Veðheimild“. Þar eru fjórir reitir, tveir vinstra megin fyrir votta, en tveir hægra megin undir svofelldum texta: ,,Ég undirritaður hef kynnt mér efni skuldabréfsins og geri mér grein fyrir í hverju ábyrgð mín sem veðleyfisgjafa er fólgin og tel hana samrýmast greiðslugetu minni. Jafnframt hef ég kynnt mér upplýsingabækling um ábyrgðir og efni samkomulags um notkun ábyrgða einstaklinga frá 1. nóvember 2001.“ Í fyrri reitnum er gert ráð fyrir nafnritun undir svohljóðandi texta: ,,Samþ. framangreinda veðsetningu sem þinglýstur eigandi“. Í þessum reit er ekki að finna nafnritun áfrýjanda, heldur í reit þar fyrir neðan, þar sem gert er ráð fyrir nafnritun undir textann: ,,Samþ. maka þinglýsts eiganda“. Af texta veðskuldabréfsins verður því ekki dregin sú ályktun, þótt litið sé framhjá ætlaðri fölsun á nafnritun áfrýjanda, að hún hafi gefið gilt loforð um að veðsetja eignarhluta sinn í fasteigninni. Aðalstefndi er sérstakur lánasjóður sem samkvæmt lögum nr. 44/1998 um húsnæðismál hafði þá eins og nú meðal annars með höndum að lána fé til íbúðakaupa, nýbygginga og endurbóta á íbúðarhúsnæði hér á landi. Grundvallaratriði í starfsemi aðalstefnda að því er varðar lán til einstaklinga var að eiga viðskipti með margs konar skuldabréf, sbr. þágildandi reglugerð nr. 522/2004 um ÍLS-veðbréf og íbúðabréf. Aðalstefndi hefur því búið yfir mikilli þekkingu og reynslu í slíkum viðskiptum og verður því gerð til hans krafa um aðgæslu í samræmi við þessa sérþekkingu hans. Af þeim sökum mátti honum vera ljóst að áfrýjandi hafði ekki með veðskuldabréfinu veðsett eignarhluta sinn í fasteigninni þótt hún hefði samþykkt að eiginmaður hennar veðsetti sinn hluta eignarinnar. Verður aðalstefndi að bera hallann af því gáleysi sínu að hafa ranglega talið að skuldabréfið væri tryggt með veði í allri eigninni og beiðst nauðungarsölu á henni á grundvelli þess. Samkvæmt þessu stofnaðist til skaðabótaábyrgðar aðalstefnda gagnvart áfrýjanda vegna gáleysis starfsmanna hans sem fólst í að knýja fram nauðungarsölu á allri eigninni.
Svo sem fram er komið andmælti áfrýjandi nauðungarsölunni í kjölfar hennar og neitaði að rýma fasteignina. Athafnaleysi hennar um að höfða mál til viðurkenningar á skaðabótarétti sínum var ekki slíkt að hún gæfi aðalstefnda réttmætt tilefni til að ætla að hún hefði fallið frá rétti sínum til að láta reyna á lögmæti nauðungarsölunnar og þar með rétt sinn til skaðabóta. Verður því hafnað málsástæðu aðalstefnda um að skaðabótakrafa áfrýjanda sé niður fallin fyrir sakir tómlætis.
Samkvæmt öllu framansögðu verður viðurkennt að aðalstefndi beri skaðabótaábyrgð á tjóni áfrýjanda sem leiddi af nauðungarsölu 6. desember 2011 á eignarhluta hennar í fasteigninni Fjallalind 94.
Ákvæði héraðsdóms um gjafsóknarkostnað verður látið standa óraskað en um gjafsóknarkostnað áfrýjanda fyrir Hæstarétti fer sem í dómsorði greinir.
Aðalstefndi verður dæmdur til greiðslu málskostnaðar í ríkissjóð bæði í héraði og fyrir Hæstarétti eins og mælt er fyrir um í dómsorði.
Með vísan til þess sem að framan greinir verður varastefndi sýknaður af kröfu áfrýjanda, en málskostnaður að því er hann varðar fellur niður bæði í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Viðurkennd er skaðabótaábyrgð aðalstefnda, Íbúðalánasjóðs, á tjóni sem áfrýjandi, Emma Fanney Baldvinsdóttir, varð fyrir vegna nauðungarsölu á eignarhluta hennar í fasteigninni Fjallalind 94 í Kópavogi 6. desember 2011.
Ákvæði héraðsdóms um gjafsóknarkostnað skal vera óraskað.
Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjanda fyrir Hæstarétti, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, 1.000.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.
Aðalstefndi greiði í ríkissjóð málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, samtals 1.500.000 krónur.
Héraðsdómur er staðfestur um sýknu varastefnda, íslenska ríkisins, en málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti að því er hann varðar fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 21. janúar 2016
Mál þetta, sem tekið var til dóms þann 26. nóvember sl., er höfðað með stefnu birtri 10. febrúar 2015.
Stefnandi er Emma Fanney Baldvinsdóttir, kt. [...], óstaðsett í hús í Reykjavík.
Aðalstefndi er Íbúðalánasjóður, kt. [...], Borgartúni 21, Reykjavík.
Varastefndi er íslenska ríkið og fyrir þess hönd er stefnt fjármála- og efnahagsráðuneytinu, kt. [...], Arnarhvoli, Reykjavík.
Aðalstefndi hefur með stefnu birtri þann 2. apríl sl. stefnt til réttargæslu í málinu Sparisjóði Siglufjarðar (AFL – sparisjóði ses.), kt. [...], Aðalgötu 34, Siglufirði. Hefur það mál verið sameinað þessu máli.
Dómkröfur stefnanda eru þær að viðurkennt verði að aðalstefnda beri að greiða henni skaðabætur vegna tjóns sem hún hafi orðið fyrir með því að eignarhluti hennar í fasteigninni að Fjallalind 94 var seldur á nauðungarsölu þann 6. desember 2011. Til vara krefst stefnandi þess að viðurkennt verði að varastefnda beri að greiða henni skaðabætur vegna tjóns sem hún hafi orðið fyrir með því að eignarhluti hennar í fasteigninni að Fjallalind 94 var seldur á nauðungarsölu þann 6. desember 2011. Þá krefst stefnandi málskostnaðar, að teknu tilliti til virðisaukaskatts, eins og málið væri ekki gjafsóknarmál, en stefnanda var veitt gjafsókn í máli þessu með bréfi innanríkisráðuneytisins dagsettu 19. nóvember 2014.
Dómkröfur aðalstefnda voru þær aðallega að málinu yrði vísað frá dómi en til vara að hann yrði sýknaður af kröfum stefnanda. Þá krefst aðalstefndi í öllum tilvikum að honum verði dæmdur málskostnaður að mati dómsins.
Dómkröfur varastefnda voru þær aðallega að málinu yrði vísað frá dómi en til vara að hann yrði sýknaður af öllum kröfum stefnanda. Þá krefst aðalstefndi í báðum tilvikum að honum verði dæmdur málskostnaður úr hendi stefnanda að mati dómsins.
Engar kröfur eru gerðar á hendur réttargæslustefnda en aðalstefndi skorar á hann að veita sér styrk í málsvörn í máli þessu eða gæta annars réttar síns, sbr. 1. mgr. 21. gr. laga nr. 91/1991. Réttargæslustefndi gerir þá kröfu að stefnandi greiði honum málskostnað að skaðlausu að mati dómsins.
Með úrskurði uppkveðnum 16. júlí sl. var frávísunarkröfu aðalstefnda og varastefnda hafnað.
Málavextir.
Stefnandi lýsir málavöxtum svo að hún og fyrrverandi eiginmaður hennar, Stefán Einarsson, hafi verið þinglýstir eigendur fasteignarinnar að Fjallalind 94 í Kópavogi, fnr. 223-6987, í jöfnum hlutföllum. Stefán hafi með skuldabréfi 30. nóvember 2004 sett Sparisjóði Siglufjarðar fasteignina að veði með 4. veðrétti til tryggingar láni að fjárhæð 25.600.000 krónur. Stefnandi heldur því fram að undirskrift hennar á skuldabréfið hafi verið fölsuð og hafi hin ætlaða fölsun verið kærð til lögreglu eftir að fyrir hafi legið skýrsla rithandarsérfræðings dags. 16. nóvember 2009. Komi fram í skýrslunni að verulegt skriftarlegt misræmi sé milli hinna ætluðu undirskrifta stefnanda og óvefengdra undirskrifta stefnanda. Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hafi þann 3. janúar 2013 tilkynnt að rannsókn málsins væri hætt og hefði ríkissaksóknari staðfest þá ákvörðun þann 28. febrúar sama ár. Nafn sóknaraðila sé ritað í þar til gerða reiti þar sem annars vegar hafi staðið „undirskrift maka skuldara“ og hins vegar „samþ. maka þinglýsts eiganda.“ Á hinn bóginn sé nafnritun hennar ekki í þar til gerðum reitum þar sem stóð „samþ. framangreinda veðsetningu sem þinglýstur eigandi“.
Aðalstefndi, sem hafi verið orðinn eigandi umrædds skuldabréfs, hafi sent sýslumanninum í Kópavogi beiðni um nauðungarsölu á eigninni vegna vanskila fyrrverandi eiginmanns stefnanda. Varastefndi lýsir því að þann 30. mars 2011 hafi sýslumanninum í Kópavogi borist beiðni Ríkisútvarpsins ohf. um nauðungarsölu á umræddri eign og þann 30. maí sama ár hafi borist nauðungarsölubeiðni frá aðalstefnda. Með beiðninni hafi fylgt greiðsluáskorun sem birt hafi verið stefnanda 14. apríl sama ár. Varastefndi segir að þrátt fyrir boðanir hafi gerðarþolar aldrei mætt við meðferð uppboðsmálsins hjá sýslumanni, ekki heldur þegar eignin hafi verið seld lokasölu þann 6. desember sama ár. Sýslumaður mun hafa gefið út kvaðalaust afsal fyrir heildareigninni til aðalstefnda þann 16. janúar 2012. Frumvarp um úthlutun söluverðs hafi verið sent gerðarþolum, þ.á m. stefnanda í ábyrgðarpósti á lögheimili hennar, en þess hafi ekki verið vitjað. Stefnandi hafi sent sýslumanninum í Kópavogi bréf 15. apríl 2014 þar sem óskað hafi verið eftir afstöðu hans til skaðabótaskyldu gagnvart stefnanda. Erindið hafi verið framsent ríkislögmanni sem hafi hafnað bótaskyldu með bréfi til stefnanda dags. 3. september sama ár.
Með bréfi til Héraðsdóms Reykjaness dags. 13. desember 2012 hafi þess verið krafist að stefnandi yrði borin út úr fasteigninni með beinni aðfarargerð. Stefnandi hafi tekið til varna í því máli, m.a. á þeim grunni að undirskriftir hennar á bréfið hafi verið falsaðar, auk þess sem ekki hafi verið að finna á veðskuldabréfinu samþykki hennar, falsað sem ófalsað, fyrir veðsetningu á hennar eignarhluta. Þar sem stefnandi hafi ekki farið eftir þeim úrræðum sem lög nr. 90/1991 um nauðungarsölu bjóði hafi ekki verið unnt að verða við kröfu hennar um að synja útburði, en Hæstiréttur hafi tekið fram að stefnandi kynni þó að eiga rétt á bótum þar sem ekki hafi verið skilyrði til nauðungarsölu á hennar eignarhlut.
Málsástæður og lagarök stefnanda.
Stefnandi byggir á því gagnvart aðalstefnda að fölsun undirskriftar á veðskuldabréf sé svokölluð sterk mótbára sem haldi gildi sínu gagnvart þeim sem fái veðskuldabréfið framselt. Geti stefnandi þannig beint þeirri málsástæðu að aðalstefnda líkt og upphaflegum eiganda, Sparisjóði Siglufjarðar. Þar sem undirskriftir stefnanda séu falsaðar hafi veðsetning á Fjallalind 94 ekki verið heimil og nauðungarsalan þ.a.l. ekki lögmæt. Með vísan til 80. gr. laga um nauðungarsölu þar sem fram komi að hafa megi uppi kröfu um skaðabætur á þeim grunni að ekki hafi verið skilyrði fyrir nauðungarsölu eða ranglega staðið að henni, beini stefnandi skaðabótakröfu sinni aðallega að aðalstefnda.
Verði ekki á það fallist að undirskriftir stefnanda á veðskuldabréfið séu falsaðar þá byggir stefnandi á því að ekki sé að finna undirskrift hennar á þeim reit á veðskuldabréfinu þar sem gert sé ráð fyrir samþykki þinglýsts eiganda eignarinnar. Fram komi í dómi Hæstaréttar í máli nr. 345/2013 að samþykki stefnanda fyrir veðsetningu á sínum eignarhluta hafi verið nauðsynlegt samkvæmt þeirri meginreglu þinglýsingalaga að sá einn geti ráðstafað eign með löggerningi sem til þess hafi þinglýsta heimild eða samþykki þess er slíkrar heimildar nýtur, sbr. 24. og 25. gr. laganna. Aðalstefndi, sem upphaflegur veðhafi, hafi atvinnu af því að lána reiðufé gegn veði á meðan stefnandi og fyrrverandi eiginmaður hennar séu neytendur. Það sé því veðhafans að ganga úr skugga um að veðskjöl séu rétt útfyllt og beri veðhafinn hallann af því að svo hafi ekki verið.
Stefnandi byggir á því að samkvæmt 86. gr. laga um nauðungarsölu beri gerðarbeiðanda að bæta allt tjón sem aðrir hafi beðið hafi hann krafist nauðungarsölu sem síðar sé í ljós leitt að skilyrði hafi skort til. Vegna málshöfðunarfresta 88. gr. laganna byggi stefnandi ekki á þessari hlutlægu reglu, heldur á almennum reglum skaðabótaréttar. Aðalstefndi hafi sýnt af sér verulegt gáleysi er hann hafi krafist nauðungarsölu á fasteigninni og útburðar stefnanda í kjölfarið en bréfið beri þess skýr merki að vera ekki samþykkt um veðsetningu á eignarhluta stefnanda. Hafi aðalstefnda borið sem sérfræðingi í lánaviðskiptum að ganga úr skugga um lögmæti veðsetningar bréfsins er það komst í eigu hans. Þá hafi upphaflegum veðhafa, sem einnig hafi sérhæft sig í lánaviðskiptum, sömuleiðis borið að tryggja að skjalið væri rétt útfyllt og heimild stæði til veðsetningarinnar. Stefnandi kveður sér ekki kunnugt um ástæður kaupa aðalstefnda á veðskuldabréfinu af Sparisjóði Siglufjarðar en ljóst sé að hann tapi í engu mótbárum sínum við aðilaskipti að bréfinu.Stefnandi telur ljóst að skilyrði hinnar almennu sakarreglu um að tjóni sé valdið með saknæmum og ólögmætum hætti séu uppfyllt, enda hafi aðalstefndi og upphaflegur kröfuhafi sýnt af sér stórkostlegt gáleysi er krafist hafi verið nauðungarsölu á eignarhluta stefnanda, sem ekki hafi samþykkt veðsetninguna eða að beinlínis hafi verið um ásetning að ræða. Með nauðungarsölubeiðninni og nauðungarsölu í framhaldinu hafi aðalstefndi hagnast á ólögmætan hátt.
Kröfu sína á hendur varastefnda byggir stefnandi á reglum skaðabótaréttar um vinnuveitendaábyrgð, sem og hinni almennu sakarreglu. Telur stefnandi ljóst að starfsmenn sýslumannsins í Kópavogi hafi sýnt af sér stórkostlegt gáleysi er þeir hafi þinglýst athugasemdalaust veðskuldabréfi á heildareignina að Fjallalind 94. Sá starfsmaður, sem selt hafi umræddan eignarhluta á nauðungarsölu án þess að kanna lögmæti veðsetningar og skoða veðskuldabréf það sem hafi verið grundvöllur nauðungarsölunnar, hafi sýnt af sér enn meira gáleysi. Af þessum sökum hafi stefnandi orðið fyrir tjóni er hún hafi mátt þola að vera borin út úr húsnæði sínu og missa helmingshlut sinn í einbýlishúsi án þess að króna kæmi fyrir. Gera verði þá kröfu til sýslumanna að gengið sé úr skugga um lögmæti og réttmæti þeirra gagna sem nauðungarsölubeiðni sé byggð á en veðskuldabréfið beri með sér að enginn samþykki veðsetningu á eignarhluta stefnanda. Hafi starfsmaður sýslumannsembættisins sýnt af sér stórkostlegt gáleysi með því að rannsaka ekki umrætt veðskuldabréf. Stefnandi nefnir að þótt 87. gr. laga um nauðungarsölu eigi ekki lengur við vegna málshöfðunarfresta megi hafa hliðsjón af því ákvæði þegar metið sé hvort varastefndi geti borið skaðabótaábyrgð á tjóni sem aðalstefndi einn hafi hagnast á.
Stefnandi telur ljóst að hún hafi orðið fyrir tjóni við hina ólögmætu nauðungarsölu á eignarhluta hennar. Nemi tjón hennar a.m.k. helmingshlut af markaðsvirði fasteignarinnar auk þess sem hún hafi orðið fyrir afleiddu tjóni vegna afnotamissis en stefnandi hafi ekki getað aflað sér annars húsnæðis. Fjárhæð tjóns hennar liggi ekki fyrir en með vísan til 25. gr. laga nr. 91/1991 hafi hún hagsmuni af því að fá úr því skorið hvort stefndu séu bótaskyldir gagnvart henni.
Stefnandi vísar um lagarök til reglna skaðabótaréttar, einkum hinnar almennu sakarreglu og reglu um vinnuveitendaábyrgð. Þá er vísað til laga um nauðungarsölu nr. 91/1990, einkum 3. mgr. 80. gr. og 86. gr. Um aðild er vísað til 2. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991 og um heimild til að höfða viðurkenningarmál er vísað til 25. gr. sömu laga. Málskostnaðarkrafa er reist á XXI. kafla sömu laga.
Málsástæður og lagarök aðalstefnda.
Aðalstefndi reisir sýknukröfu sína m.a. á tómlæti stefnanda. Umrætt skuldabréf hafi verið gefið út þann 30. nóvember 2004 en það hafi ekki verið fyrr en 9 árum frá útgáfu þess að stefnandi hafi borið því við að skuldabréf, sem m.a. hafi verið nýtt til að greiða skuldbindingar stefnanda, hafi verið gefið út og þinglýst á Fjallalind 94 án hennar vitundar og að undirritun hennar á bréfið hafi verið fölsuð. Þar sem stefnandi hafi ekki gert athugasemdir við veðsetningu bréfsins fyrr en 9 árum frá veðsetningunni gefi það til kynna að hún hafi verið samþykk veðsetningunni frá upphafi. Aðalstefndi telur því að stefnandi hafi ekki orðið fyrir neinu tjóni.
Málsástæður og lagarök varastefnda.
Varastefndi reisir sýknukröfu sína m.a. á þeirri málsástæðu að hafi stefnandi átt einhverja kröfu á hendur varastefnda sé hún niður fallin sökum tómlætis stefnanda. Stefnandi hafi ekki nýtt heimild í 1. mgr. 3. gr. þinglýsingalaga til að bera þinglýsingu veðskuldabréfsins frá 30. nóvember 2004 undir héraðsdóm, þrátt fyrir að henni hafi átt að vera þessi þinglýsing löngu kunn. Þá komi fram í dómi Hæstaréttar í máli nr. 345/2013 að stefnandi hafi ekki nýtt ákvæði nauðungarsölulagnana til að bera réttmæti sölunnar undir héraðsdóm. Auk greiðsluáskorunar aðalstefnda sem birta hafi verið stefnanda sjálfri 14. apríl 2011 hafi hún fengið sendar lögbundnar tilkynningar um nauðungarsöluna á lögheimili sitt að Reyðará á Siglufirði. Þá hafi allar fyrirtökur verið auglýstar opinberlega lögum samkvæmt. Þar sem ábyrgðarbréfanna hafi ekki verið vitjað hafi framhaldssalan verið auglýst í Lögbirtingablaði með vísan til 4. mgr. 35. gr. laga nr. 90/1991. Þá hafi starfsmenn uppboðsdeildar hafa rætt við stefnanda í síma fyrir framhaldssöluna og sent henni tilkynningu um framhaldssöluna í almennu bréfi að Fjallalind 94. Stefnandi hafi þó hvorki mætt við uppboðsmeðferðina né látið mæta fyrir sig við fyrirtökur á uppboðsmálinu hjá sýslumanni. Hún hafi ekki hafst að fyrr en 15. apríl 2014 þegar hún hafi sent sýslumanni bréf þar sem óskað hafi verið eftir afstöðu hans til skaðabótaskyldu. Hafi þá verið liðin rúmlega 2 ár frá lokasölu fasteignarinnar og 10 ár frá þinglýsingu veðskuldabréfsins.
Niðurstaða.
Í framangreindum dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 345/2013 var komist að þeirri niðurstöðu að leggja mætti til grundvallar að með uppboðsbeiðni aðalstefnda og eftirfarandi nauðungarsölu fasteignarinnar að Fjallalind 94 hafi verið gengið lengra en veðréttur aðalstefnda veitti grundvöll fyrir. Nauðungarsala á eignarhluta stefnanda hafi samkvæmt því verið án heimildar að lögum. Til þess væri hins vegar að líta að sóknaraðili hafi hvorki neytt úrræða samkvæmt XIII. né XIV. kafla laga nr. 90/1991 innan þeirra tímafresta sem þar greini, sbr. einkum 1. og 2. mgr. 80. gr. laganna. Hafi stefnandi þegar af þeirri ástæðu verið bundin af nauðungarsölunni og geti framangreindur annmarki á henni því ekki staðið í vegi þeim rétti sem aðalstefndi hafi notið á grundvelli kvaðalauss uppboðsafsals. Þá segir í dómi Hæstaréttar að í 3. mgr. 80. gr. laga nr. 90/1991 komi á hinn bóginn fram að ákvæði 1. og 2. mgr. greinarinnar breyti því ekki að annars megi hafa uppi kröfu um skaðabætur eða aðra peningagreiðslu sem byggist á því að ekki hafi verið skilyrði til nauðungarsölu eða ranglega staðið að henni.
Stefnandi byggir á því að hún hafi orðið fyrir tjóni við hina ætluðu ólögmætu nauðungarsölu á eignarhluta hennar og nemi tjónið a.m.k. helmingshlut af markaðsvirði fasteignarinnar og þá hafi hún orðið fyrir afleiddu tjóni vegna afnotamissis. Þrátt fyrir greiðsluáskorun sem birt var stefnanda 14. apríl 2011 og tilkynningar til stefnanda lögum samkvæmt um fyrirhugaða nauðungarsölu lét hún uppboðsmeðferðina afskiptalausa og hafðist ekkert að fyrr en í apríl 2014 er hún óskaði eftir afstöðu sýslumanns til skaðabótaskyldu. Umrætt skuldabréf var gefið út 30. nóvember 2004 en árið 2009 virðist vakna grunur stefnanda um að undirskriftir hennar séu falsaðar. Þegar stefnandi loksins hófst handa við að gæta réttar síns gagnvart stefndu voru liðin rúmlega tvö ár frá lokasölu fasteignarinnar og tíu ár frá þinglýsingu veðskuldabréfsins. Með þessu stórfellda tómlæti stefnanda um að halda fram rétti sínum verður að telja að krafa hennar sé niður fallin fyrir tómlætis sakir. Þegar af þeirri ástæðu verður að sýkna stefndu af öllum kröfum stefnanda í máli þessu.
Dómur þessi er saminn í samræmi við ákvæði e-liðar 1. mgr. 114. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 10. gr. laga nr. 78/2015.
Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður falli niður. Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði í samræmi við gjafsóknarleyfi hennar, þar með talin þóknun lögmanns hennar, Auðar Bjargar Jónsdóttur, hrl., 1.000.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, auk útlagðs kostnaðar lögmannsins, 46.000 krónur.
Hjörtur O. Aðalsteinsson héraðsdómari kvað upp dóminn. Uppkvaðning hans hefur dregist fram yfir lögbundinn frest en dómari og lögmenn aðila töldu ekki þörf endurflutnings.
DÓMSORÐ:
Aðalstefndi, Íbúðalánasjóður og varastefndi, íslenska ríkið, skulu vera sýkn af öllum kröfum stefnanda, Emmu Fanneyjar Baldvinsdóttur í máli þessu.
Málskostnaður fellur niður en gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hennar, Auðar Bjargar Jónsdóttur, hrl., 1.000.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, auk útlagðs kostnaðar lögmannsins, 46.000 krónur.