Hæstiréttur íslands

Mál nr. 499/2007


Lykilorð

  • Þjófnaður
  • Hylming
  • Ávana- og fíkniefni
  • Tafir á meðferð máls
  • Sakarkostnaður


Fimmtudaginn 8

 

 

Fimmtudaginn 8. maí 2008.

Nr. 499/2007.

Ákæruvaldið

(Egill Stephensen, saksóknari)

gegn

Birni Bender

(Páll Arnór Pálsson hrl.)

 

Þjófnaður. Hylming. Ávana- og fíkniefni. Tafir á meðferð máls. Sakarkostnaður.

B var sakfelldur fyrir sex þjófnaðarbrot, fíkniefnalagabrot og hylmingu í 12 ákæruliðum. Var niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu fyrir hylmingu staðfest en eins og atvikum, sönnunarfærslu og ákæru var háttað var fallist á það með B að um eitt brot hafi verið að ræða og ekki skipti máli í því samhengi að munirnir hafi verið úr mörgum þjófnaðarbrotum. Við ákvörðun refsingar var litið til þess að tafir umfram sex mánuði á framgangi málsins fyrir héraðsdómi hafi ekki verið réttmætar. Var refsing hans ákveðin 12 mánaða fangelsi en til frádráttar kom gæsluvarðhaldsvist B á rannsóknarstigi málsins.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson, Hjördís Hákonardóttir og Páll Hreinsson.

Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 10. september 2007 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst þess nú að héraðsdómur verði staðfestur.

Ákærði krefst mildunar refsingar og að gæsluvarðhald í 22 daga komi til frádráttar refsingunni. Þá krefst hann þess að verulegur hluti áfrýjunarkostnaðar verði lagður á ríkissjóð.

Ákærði telur að refsing sú sem ákveðin er í hinum áfrýjaða dómi sé of þung miðað við dóma í sambærilegum málum. Þá telur hann að skoða beri hylmingarbrotin, sem talin eru upp í 12 liðum í III. kafla ákæru 15. nóvember 2005, sem eitt brot. Telur hann líklegt að héraðsdómur hafi metið þetta sem 12 brot og jafnvel miðað refsingu við að ákærði hafi verið sekur um þau þjófnaðarbrot sem talin eru upp í hinum 12. liðum. Loks telur ákærði að meðferð málsins hafi tekið of langan tíma. Nær þrjú ár séu nú liðin frá því brotin í ákæru 15. nóvember 2005 voru framin. Beri að taka tillit til þess til mildunar ákvörðunar um refsingu. Af hálfu ákæruvalds er talið að ákærði eigi sjálfur sök á töfum á málsmeðferðinni, þar sem hann hafi farið úr landi og það hafi tafið hana.

I

Eins og málið liggur fyrir verður við það miðað að allir þeir hlutir, sem taldir eru upp í 12 liðum í III. kafla ákæru 15. nóvember 2005, hafi fundist í bifreiðinni UL 790, þegar lögregla gerði leit í henni 19. maí 2005. Ákærði vefengir ekki að um þýfi hafi verið að ræða. Verður því staðfest niðurstaða hins áfrýjaða dóms um sakfellingu fyrir hylmingu en fallist á með ákærða að ekki skipti máli þó að munirnir hafi verið úr mörgum þjófnaðarbrotum. Eins og atvikum, sönnunarfærslu og ákæru er háttað telst vera um eitt brot að ræða.

Í hinum áfrýjaða dómi er sagt að ákæra í máli ákæruvaldsins gegn ákærða og A hafi verið þingfest í héraðsdómi 15. desember 2005. Í framhaldi hafi ákærði horfið af landi brott og hafi þáttur meðákærðu verið klofinn frá málinu 24. febrúar 2006. Þar sem ákærði hafi ekki komið til landsins hafi málið verið sent lögreglustjóra á ný 5. september 2006. Þann 13. febrúar 2007 hafi málið verið endursent héraðsdómi, þar sem ákærði hafi þá verið nýkominn til landsins. Í bréfi lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu þennan dag kemur fram að ástæðan fyrir „endursendingu“ málsins til lögreglu hafi verið sú að ekki hafi náðst að færa ákærða fyrir dóminn. Er í bréfinu 13. febrúar 2007 óskað eftir að málið verði tekið fyrir við fyrsta tækifæri og tekið fram að skjöl þess séu geymd hjá héraðsdómi.

Ekki nýtur í málinu annarra gagna um nefnda þingfestingu þess 15. desember 2005 en áritunar um framlagningu ákæru og fleiri skjala þann dag. Ekki liggur fyrir vottorð um birtingu fyrirkalls til ákærða þá samkvæmt 120. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Hins vegar er meðal gagna málsins endurrit úr þinghaldi héraðsdóms 6. mars 2007, þar sem bréf lögreglustjóra 15. nóvember og 15. desember 2005 og 13. febrúar 2007 eru lögð fram ásamt ákærunum tveimur 15. nóvember og 15. desember 2005, sakavottorði ákærða og skjalaskrám ásamt fylgiskjölum. Miðað við þau gögn sem lögð hafa verið fyrir Hæstarétt verður lagt til grundvallar að málið gegn ákærða hafi þá verið þingfest. Ákærði mætti til þessa þinghalds ásamt verjanda sínum og voru kynntar ákærurnar. Við málflutning fyrir Hæstarétti var af hálfu ákærða upplýst, að hann hefði verið fjarverandi frá landinu frá janúar 2006 og fram til miðs þess árs. Í málinu nýtur engra skjallegra gagna um þetta og heldur ekki um hvaða ráðstafanir hafi verið gerðar af hálfu ákæruvalds til að ná til ákærða á þessu tímabili. Með vísan til þess sem hér var rakið verður fallist á með ákæruvaldinu að ákærði geti sjálfum sér kennt um sex mánaða töf á framgangi málsins fyrir héraðsdómi. Tafir umfram þetta hafa ekki verið réttlættar. Verður tekið tillit til þessa við ákvörðun refsingar ákærða.

II

Ákærði er fæddur í ágúst 1978. Sakarferill hans er rakinn í hinum áfrýjaða dómi. Eftir að héraðsdómur gekk var ákærði 24. október 2007 dæmdur í Héraðsdómi Reykjavíkur í 60 daga fangelsi fyrir umferðarlagabrot og 21. nóvember 2007 af sama dómstól í sex mánaða fangelsi fyrir hylmingu, þjófnað og fíkniefnalagabrot. Um ákvörðun refsingar vísast til þeirra lagaákvæða sem í héraðsdómi greinir að því athuguðu að tilvitnun í 2. mgr. 74. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 hefur misritast og á að vera í 2. mgr. 70. gr. laganna.

Með vísan til alls þess sem að framan greinir verður refsing ákærða ákveðin 12 mánaða fangelsi. Frá refsingunni dregst gæsluvarðhald sem ákærði sætti 20. maí til 10. júní 2005. Ákvæði héraðsdóms um skaðabótakröfur og upptöku fíkniefna eru ekki til endurskoðunar fyrir Hæstarétti og standa því óröskuð. Ákvæði dómsins um sakarkostnað verður staðfest. Ákærða verður með vísan til 1. mgr. 169. gr. laga nr. 19/1991 gert að greiða helming áfrýjunarkostnaðar samkvæmt yfirliti ákæruvalds, þar með talinn helming málsvarnarlauna skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Ákærði, Björn Bender, sæti fangelsi í 12 mánuði. Frá refsingu dregst gæsluvarðhaldsvist hans 20. maí til 10. júní 2005.

Ákvæði héraðsdóms um skaðabótakröfur, upptöku fíkniefna og sakarkostnað eru óröskuð.

Ákærði greiði helming áfrýjunarkostnaðar málsins, sem samtals nemur 344.615 krónum, þar sem með eru talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða fyrir Hæstarétti, Páls A. Pálssonar hæstaréttarlögmanns, 311.250 krónur. Helmingur kostnaðarins greiðist úr ríkissjóði.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 16. maí 2007.

             Mál þetta, sem dómtekið var 26. apríl sl., er höfðað með tveimur ákærum útgefnum af lögreglustjóranum í Reykjavík.

 

Í fyrsta lagi samkvæmt ákæru 15. nóvember 2005 á hendur A, [...], og Birni Bender, kt. 280878-6189, óstaðsettum í hús, Reykjavík. Þáttur ákærðu A var dæmdur 24. febrúar 2006 í máli nr. [...].

Ákærðu eru gefin að sök eftirtalin brot framin í Reykjavík á árinu 2005:

 

I.

Ákærða Birni:

 

1. Fíkniefnalagabrot, með því að hafa aðfaranótt laugardagsins 7. maí við Grettisgötu 61-63 haft í vörslum sínum 6,89 g af amfetamíni, sem ákærði kastaði frá sér er hann varð lögreglu var.

 

Þetta er talið varða við 2. gr., sbr. 5. gr., laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. lög nr. 13/1985, og 2. gr., sbr. 1. mgr. 14. gr., reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 848/2002.

 

2. Þjófnaði:

 

2.1. Laugardaginn 7. maí á bifreiðastæði við verslunarmiðstöðina Kringluna, Kringl­unni 4-12, brotist inn í bifreiðina PD-520, með því að brjóta rúðu, og stolið hleðslu­tæki, sjónauka, 2 sólgleraugum, 4 geisladiskum og farsíma, samtals að verðmæti kr.

 

2.2. Á sama stað og sama tíma brotist inn í bifreiðina AN-233, með því að brjóta rúðu, og stolið tösku að verðmæti kr. 5.000.

 

2.3. Sunnudaginn 8. maí á bifreiðastæði við Laugardalslaug að Sundlaugavegi 30 brotist inn í bifreiðina R-78442, með því að brjóta rúðu, og stolið myndavél samtals að verðmæti kr. 38.000.

 

2.4. Fimmtudaginn 19. maí á bifreiðastæði við Árbæjarlaug við Fylkisveg brotist inn í bifreiðina TG-038, með því að brjóta rúðu, og stolið bílageislaspilara, 40 geisladiskum, 2 geisladiskatöskum og kortaveski, samtals að verðmæti um kr. 75.000.

 

2.5. Á sama tíma á bifreiðastæði við Stóragerði 22 brotist inn í bifreiðina VI-299, með því að brjóta rúðu, og stolið bílageislaspilara samtals að verðmæti kr. 30.000.

 

Eru brot þessi talin varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

 

II.

 

             [...]

 

III.

Ákærðu báðum fyrir hylmingu, með því að hafa haft eftirtalda muni í vörslum sínum í bifreiðinni UL-790, þrátt fyrir að ákærðu væri ljóst að um þýfi var að ræða og þannig haldið mununum ólöglega fyrir eigendunum fram til 19. maí:

 

1. Sólgleraugum og fjarstýringu, samtals að verðmæti kr. 98.000, en mununum hafði verið stolið úr bifreiðinni KM-587 á bifreiðastæði við Kringluna 7 þann 18. maí.

 

2. Bílageislaspilara, samtals að verðmæti kr. 30.000, en spilaranum hafði verið stolið úr bifreiðinni JD-197 á bifreiðastæði við líkamsræktarstöðina Laugar að Sundlaugavegi 30 þann 18. maí.

 

3. Íþróttatösku, bílageislaspilara, úri, snyrtitösku, snyrtidóti, og bol, samtals að verðmæti kr. 59.500, en mununum hafði verið stolið úr bifreiðinni OI-253 á bifreiða­stæði við líkamsræktarstöðina Laugar að Sundlaugavegi 30 þann 18. maí.

 

4. Bílageislaspilara, íþróttatösku, æfingafötum og handklæði, samtals að verðmæti kr. 105.000, en mununum hafði verið stolið úr bifreiðinni VE-015 á bifreiðastæði við Blindrafélagið að Hamrahlíð 17 þann 18. maí.

 

5. Bílageislaspilara og radarvara, samtals að verðmæti kr. 37.000, en mununum hafði verið stolið úr bifreiðinni VR-330 á bifreiðastæði við Bogahlíð 8 þann 18. maí.

 

6. Bílageislaspilara, samtals að verðmæti kr. 30.000, en spilaranum hafði verið stolið úr bifreiðinni RV-301 á bifreiðastæði við Álftamýri 12 þann 18. maí.

 

7. Radarvara og stafrænni myndavél, samtals að verðmæti kr. 160.000, en mununum hafði verið stolið úr bifreiðinni IY-014 á bifreiðastæði við Eskihlíð 12 þann 18. maí.

 

8. Fatnaði, samtals að verðmæti kr. 23.000, sem hafði verið stolið úr bifreiðinni ME-056 á bifreiðastæði við Síðumúla 29 þann 18. maí.

 

9. Geisladiskamöppu, 35 geisladiskum og bílageislaspilara, samtals að verðmæti kr. 82.500, en mununum hafði verið stolið úr bifreiðinni TN-696 á bifreiðastæði við Hæðargarð 28 þann 19. maí.

 

10. Geisladiski að verðmæti kr. 1.619, en disknum hafði verið stolið úr bifreiðinni RK-330 á bifreiðastæði við Álftamýri 24 þann 19. maí

 

11. Bílageislaspilara að verðmæti kr. 30.000, en spilaranum hafði verið stolið úr bifreiðinni KM-159 á bifreiðastæði við Ármúla 5 þann 19. maí.

 

12. Geisladiskaslíðri og 11 geisladiskum, samtals að verðmæti kr. 23.300, en mununum hafði verið stolið úr bifreiðinni ZU-511 á bifreiðastæði við Sundhöll Reykjavíkur við Barónsstíg þann 19. maí.

 

Eru brot þessi talin varða við 1. mgr. 254. gr. almennra hegningarlaga.

 

IV.

Þess er krafist að ákærðu verði dæmd til refsingar og jafnframt að gerð verði upptæk 6,89 g af amfetamíni, sem hald var lagt á, samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001.

 

Í málinu gera eftirtaldir aðilar kröfu um að ákærðu verði dæmd til greiðslu skaðabóta:

 

1. Íslandstrygging hf., kt. 441099-3399, að fjárhæð kr. 123.850 auk vaxta frá tjónsdegi skv. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 og dráttarvaxta skv. 9. gr. sömu laga frá uppgjörsdegi.

 

2. Intrum á Íslandi ehf., kt. 701195-3109, að fjárhæð kr. 64.826 auk vaxta skv. skaðabótalögum nr. 50/1993 frá 19. maí 2005 til þess dags sem fyrst reynist unnt að kynna kröfuna, en með dráttarvöxtum skv. III. kafla laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags, auk kostnaðar við gerð skaðabótakröfu, kr. 25.000 auk virðisaukaskatts kr. 6.125 og kostnaður vegna innheimtu kröfunnar. Höfuðstóll heildarkröfu nemur því samtals kr. 95.951.  

 

3. M, [kt.], að fjárhæð kr. 44.529 auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá tjónsdegi en síðan dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr., sömu laga að liðnum mánuði frá birtingu kröfunnar til greiðsludags.

 

             Í öðru lagi samkvæmt ákæru 15. desember 2005 á hendur Birni Bender, kt. 280878-6189, óstaðsettum í hús, Reykjavík, fyrir þjófnað, með því að hafa mánu­daginn 7. nóvember á bifreiðastæði við Hverfisgötu 105 í Reykjavík brotist inn í bifreiðina KG-647, með því að brjóta rúðu, og stolið Alpine útvarpstæki að óþekktu verðmæti.

             Þetta er talið varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

             Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.

             Í málinu gerir V, [kt.],  kröfu um að ákærði verði dæmdur til greiðslu skaðabóta að fjárhæð kr. 122.492 auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá tjónsdegi og síðan dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. sömu laga að liðnum mánuði frá birtingu kröf­unnar til greiðsludags.

             Verjandi ákærða krefst þess að ákærði verði sýknaður af kröfum ákæruvalds, að skaðabótakröfum verði vísað frá dómi og að sakarkostnaður, þ.m.t. málsvarnarlaun, greiðist úr ríkissjóði.

 

             Ákæra 15. nóvember 2005.

             I. kafli.

1 . tl.

             Samkvæmt skýrslu lögreglu frá 7. maí 2005 var lögregla kl. 02.49 á ferð í lögreglubifreið á leið vestur Laugaveg í Reykjavík á móts við húsnæði Landsbankans. Fram kemur að bifreið með skráningarnúmerið UL-790 hafi verið veitt athygli. Þar sem lögregla hafi áður haft afskipti af fólki í bifreiðinni hafi verið ákveðið að hafa tal af fólkinu. Er lögreglumennirnir Baldur Ólafsson og Sigurfinnur L. Stefánsson hafi stigið út úr lögreglubifreiðinni hafi ákærði, sem staðið hafi við farþegahurð bifreiðar­innar, gengið í átt að Barónsstíg. Hafi hann skyndilega tekið á rás í suður í átt að Grettisgötu. Hafi lögreglumennirnir veitt honum eftirför á fæti. Er lögreglumenn hafi komið að Grettisgötu hafi ákærði beygt vestur inn götuna á móts við hús nr. 63 og þar næst farið inn á milli húsa nr. 61 og 63. Á milli húsanna hafi lögreglumenn séð ákærða henda frá sér hvítum poka ásamt öðrum hlutum sem hafi lent á hellulagðri innkeyrslunni og í blómabeði. Hafi ákærði staðnæmst í bakgarði hússins nr. 61 þar sem hann hafi verið handtekinn og settur í handjárn. Lögreglumenn hafi fundið 4 poka með hvítu efni í, en um hafi verið að ræða þá poka sem ákærði hafi hent frá sér. Hafi ákærði því næst verið fluttur á lögreglustöð. Samkvæmt efnaskýrslu lögreglu varðandi haldlagt efni 7. maí 2005 reyndist vera um að ræða fíkniefnið amfetamín og magn þess 6,89 g.

             Ákærði gaf skýrslu hjá lögreglu 7. maí 2005 í framhaldi af vistun í fanga­geymslu. Kvaðst hann hafa orðið hræddur er lögregla hafi komið að og því hlaupið á brott. Kvaðst hann ekki hafa verið með fíkniefni á sér umrætt sinn. Þá kvaðst hann ekki hafa hent frá sér fíkniefnum í þann mund sem lögreglumenn hafi handtekið hann. Fyrir dómi við aðalmeðferð málsins greindi ákærði frá atvikum með sama hætti. 

             Lögreglumennirnir Baldur Ólafsson og Sigurfinnur L. Stefánsson komu fyrir dóminn og staðfestu þátt sinn í rannsókn málsins. Um atvik báru þeir með sama hætti og fram kemur í frumskýrslu lögreglu. Staðfestu þeir báðir að hafa veitt ákærða eftirför umrætt sinn og hafa handtekið hann í bakgarði hússins nr. 61 við Grettisgötu. Rétt áður en ákærði hafi verið handtekinn hafi hann hent frá sér efnum sem verið hafi í pokum. Baldur kvað ákærða ekki hafa verið í meira en 3ja metra fjarlægð frá sér er ákærði hafi hent frá sér efnunum. Hafi efnin verið haldlögð og sett í efnarannsókn hjá lögreglu.

 

             Niðurstaða:

             Ákærði neitar sök en hann kveðst ekki hafa verið með fíkniefni á sér umrædda nótt. Hefur hann viðurkennt að hafa hlaupið undan lögreglumönnum og hafa verið handtekinn í bakgarði hússins nr. 61 við Grettisgötu. Lögreglumennirnir Baldur Ólafs­son og Sigurfinnur L. Stefánsson komu fyrir dóminn. Voru þeir báðir samhljóða um að hafa veitt ákærða eftirför og að ákærði hafi hent frá sér efnum rétt í þann mund er lögreglumenn hafi handtekið hann. Með vísan til samhljóða framburðar lögreglu­manna og niðurstöðu úr efnarannsókn lögreglu er sannað að ákærði hafi framið það brot sem hann er ákærður fyrir og er það rétt heimfært til refsiákvæða í ákæru.

 

             2. tl.

             2.1. og 2.2.

             Samkvæmt skýrslu lögreglu frá laugardeginum 7. maí 2005 var kl. 13.01 óskað eftir aðstoð lögreglu að verslunarmiðstöðinni Kringlunni í Reykjavík vegna innbrots í tvær bifreiðar á bifreiðastæði á 3ju hæð hússins norðanmegin. Fram kemur að tilkynnandi hafði séð ungan mann, um tvítugt, grannan, klæddan í hvíta úlpu með Nike merki  á bakinu og með hvíta derhúfu, standa við bifreið með skráningarnúmerið PD-520. Hafi drengurinn verið að gramsa í farþegasætinu hægra megin að framan. Hafi maðurinn síðan tekið til fótanna og hlaupið niður af bifreiðastæðinu og í átt að Miklubraut. Er lögreglumenn komu á vettvang var rætt við tilkynnanda, D. Er fært í skýrsluna að fram hafi komið í máli hans að ung stúlka á bifreið af gerðinni Golf eða Polo, hvít að lit, hafi verið á svæðinu. Er D hafi komið að hafi stúlkan flautað og hafi þá drengurinn tekið til fótanna. Hafi verið grunsamleg tengsl þeirra á milli. Rætt hafi verið við eiganda bifreiðarinnar. Hafi hann tjáð lögreglu að bifreiðinni hafi verið lagt á stæði um kl. 12.15. Brotin hafi verið rúða í fremri hurð farþegamegin í bifreiðinni. Úr bifreiðinni hafi verið stolið tvennum sólgleraugum, farsíma, 4 geisladiskum, símhleðslutæki og sjónauka. Þá hafi lögregla hitt fyrir eiganda bifreiðar með skráningarnúmerið AN-233. Komið hafi í ljós að brotin hafi verið rúða í fremri hurð farþegamegin í bifreiðinni. Taska hafi verið tekin úr bifreiðinni.

             E mætti í myndsakbendingu á lögreglustöð 6. júní 2005. Fram kemur að E hafi verið vitni að því er brotist hafi verið inn í bifreiðar með skráningarnúmerin PD-520 og AN-233. Hafi E flett í gegnum 30 myndir af aðilum sem hafi samsvarað þeirri lýsingu er hann hafi gefið á þeim er brotist hafi inn í bifreiðarnar. Við myndsakbendinguna benti E á mynd af ákærða sem þann einstakling er brotist hafi inn í bifreiðina.    

             D mætti í myndsakbendingu á lögreglustöð 6. júní 2005. Fram kemur að D hafi verið vitni af því er brotist hafi verið inn í bifreiðar með skráningarnúmerin PD-520 og AN-233. Hafi D flett í gegnum 30 myndir af aðilum sem hafi samsvarað þeirri lýsingu er D hafi gefið á þeim er hafi brotist inn í bifreiðarnar. Fært er í lögregluskýrslu að við myndsakbendinguna hafi D ekki getað bent á mynd af þeim einstaklingi er brotist hafi inn í bifreiðarnar.

             Ákærði var handtekinn fimmtudaginn 19. maí 2005 í tengslum við innbrot í bifreið við Árbæjarlaug, sbr. ákærulið 2.4 hér á eftir. Var hann þá í bifreið með skráningarnúmerið UL-790. Í þeirri bifreið fannst hvít og dökk úlpa með stóru Nike merki á bakinu. Ákærði var yfirheyrður um sakarefni máls þessa 26. maí og 9. júní 2005, en þá hafði hann verið úrskurðaður í gæsluvarðhald vegna gruns um þjófnaði á höfuðborgarsvæðinu. Kvaðst ákærði ekkert kannast við innbrot í bifreiðar með skráningar­númerin PD-520 og AN-233 laugardaginn 7. maí 2005. Fyrir dómi kvaðst ákærði ekki kannast við umrædd mál. Umrætt sinn hafi hann ekki verið við verslunar­miðstöðina Kringluna.

             A var yfirheyrð af lögreglu 25. maí 2005, en hún hafði verið úrskurðuð í gæsluvarðhald vegna gruns um þjófnaði á höfuð­borgar­svæðinu. Við yfirheyrsluna kvaðst hún ekki kannast við innbrot í bifreiðar við verslunarmiðstöðina Kringluna 7. maí 2005. Er undir hana var borið að úlpa með Nike merki á bakinu hafi fundist í bifreið er hún hefði yfir að ráða með skráningarnúmerið UL-790 kvaðst hún neita að svara þeirri spurningu. A var aftur yfirheyrð af lögreglu 3. júní 2005. Við það tilefni greindi hún svo frá að hún og ákærði hafi farið að verslunarmiðstöðinni Kringlunni 7. maí 2005. Kvaðst A ekki muna hvernig þetta hafi verið en þetta hafi verið heimskulegt. Þá kvaðst hún ekki muna hvernig bifreiðar þetta hefðu verið eða hvað ákærði hafi gert. Hún hafi verið þarna rétt hjá. Kvaðst hún telja að ákærði hafi ekki komið með neitt upp í bifreiðina til A. Hafi hún séð tvo menn koma gangandi en þá hafi hún flautað og hafi ákærði þá hlaupið á brott. Hafi hún hitt hann eftir þetta í Háaleitishverfinu fyrir ofan Kringluna. 

             Við aðalmeðferð máls þessa hefur talsmaður A komið þeim boðum áleiðis til dómsins að A sé núverandi sambýliskona ákærða og eigi þau barn saman. Myndi hún skorast undan að gefa skýrslu fyrir dómi á grundvelli 50. gr. laga nr. 19/1991. Af þeim sökum gaf hún ekki skýrslu fyrir dómi.

             E kvaðst hafa verið að koma úr verslunarmiðstöðinni Kringlunni og hafa verið á leið út á bifreiðastæði ásamt bróður sínum. Þá hafi hann séð mann vera hálfan inn í jeppa skammt undan. Rúða í bifreiðinni hafi greinilega verið brotin. Drengurinn hafi vippað sér út um hliðarrúðuna með eitthvað í hendi. Hafi hann gengið brott. Kvaðst E hafa náð augnsambandi við drenginn og hafi hann spurt hann hvort hann væri að ná sér í útvarp. Í framhaldinu kvaðst E hafa beðið bróður sinn um að hringja í lögregluna. Hafi hann síðan tekið símann af bróður sínum þegar þeir hafi verið beðnir um að gefa lýsingu á viðkomandi einstaklingi. Þegar hann hafi gefið lýsingu á drengnum hafi hann verið að horfa á drenginn skjótast frá bifreiðastæðum við verslunarmiðstöðina að bensínafgreiðslustöð í nágrenninu. Drengur­inn hafi verið í hvítri og svartri úlpu með Nike merki á bakinu. Allt hafi virkað mjög augljóst. E kvaðst í framhaldinu hafa séð drenginn hlaupa upp Hvassa­leitið. E kvaðst hafa tekið eftir bifreið sem hafi verið skammt undan jeppabifreiðinni á bifreiðastæðinu. Þeirri bifreið hafi verið ekið burt með látum er þeir bræður hafi komið að þjófinum. E kvaðst hafa verið boðaður í myndsakbendingu á lögreglustöð en þar hafi hann borið kennsl á þann mann er brotist hafi inn í bifreiðina. Staðfesti E umrædda myndsakbendingu fyrir dóminum.

             D kvaðst hafa verið á leið inn á bifreiðastæði við Kringluna ásamt bróður sínum umrætt sinn. Hafi hann heyrt einhvern flauta og um leið séð unga ljóshærða stúlku í bifreið sem einhvern vegin hafi ekki passað inn í umhverfið. Hafi hún virst flóttaleg á svipinn. Um leið hafi hann séð dreng skokka frá jeppabifreið með eitthvert tæki í hendi. Hafi sér virst sem stúlkan hafi verið að bíða eftir drengnum. D kvaðst hafa séð rúðu í umræddri bifreið brotna. Um leið hafi þeir bræður hringt í lögreglu og lýst þeim manni sem brotist hafi inn í bifreiðina. Drengurinn hafi verið ungur og grannur og með tattú á hálsi. Hann hafi verið í hvítri og svartri úlpu með Nike merki á bakinu. D kvaðst hafa verið boðaður í myndsakbendingu á lögreglustöð. Kvaðst hann ekki hafa þekkt með vissu aftur þann mann sem brotist hafi inn í bifreiðina. Tveir hafi þó verið líklegastir og annar þeirra með tattú.

 

             Niðurstaða:

             Ákærði neitar sök en hann kveðst ekki hafa verið við verslunarmiðstöðina Kringluna umræddan dag.

             Tvö vitni voru að því er ungur maður var við bifreiðina PD-520. Annað þeirra sá manninn greinilega inni í bifreiðinni og fara út úr henni með hluti í hendi. Bæði bera þessi vitni að drengurinn hafi verið í hvítri úlpu með Nike merki á bakinu. Þá bera bæði vitnin að á svæðinu hafi einnig verið bifreið sem hafi tengst drengnum. Bar annað þeirra að þeirri bifreið hafi ekið ung stúlka sem hafi flautað er þeir hafi nálgast jeppabifreiðina. Annað vitnið bar kennsl á ákærða sem þann mann sem brotist hafi inn í bifreiðina en hitt staðfesti fyrir dómi að ákærði væri sennilega sá sem brotist hafi inn í bifreiðina. A bar við lögreglurannsókn málsins að ákærði hefði brotist inn í bifreiðar á bifreiðastæði við Kringluna umræddan dag, að hún hafi verið í bifreið þar skammt frá og að hún hafi flautað er drengir hafi nálgast ákærða. Er framburður hennar í samræmi við það sem framangreind vitni hafa borið um. Þá liggur fyrir að hvít og svört úlpa með Nike merki á baki fannst í bifreiðinni UL-790 er ákærði og A voru í er þau voru handtekin. Á þeim tíma var í bifreiðinni ýmis varningur úr innbrotum á höfuðborgarsvæðinu dagana á undan. Svo sem gerð verður grein fyrir í einstökum ákæruliðum hér á eftir braust ákærði margsinnis inn í bifreiðar á þessum tíma til að stela þaðan verðmætum. Braut hann oftast rúður í bif­reiðunum við þau tækifæri. Þegar virt eru þau atriði sem hér að framan er gerð grein fyrir er að mati dómsins hafið yfir skynsamlegan vafa að ákærði hafi umrætt sinn brotist inn bifreiðina PD-520 svo sem honum er gefið að sök undir þessum ákærulið. Engin vitni voru hins vegar að því er brotist var inn í bifreiðina AN-233. Þá hefur taska er tekin var í innbrotinu hvergi komið fram. Með vísan til þess verður að sýkna ákærða af því broti. Er háttsemi ákærða rétt heimfærð til refsiákvæða í þessum hluta ákæru. 

 

             2.3.

             Sunnudaginn 8. maí 2005 barst lögreglu tilkynning um innbrot í bifreið með skráningarnúmerið R-78442 á bifreiðastæði við Laugardalslaug að Sundlaugarvegi 30 í Reykjavík. Á vettvangi hitti lögregla fyrir eiganda bifreiðarinnar, sem bar að er hann hafi komið úr sundi hafi hann tekið eftir því að búið hafi verið að brjóta aftari hliðarrúðu á vinstri hlið bifreiðarinnar. Tekin hafi verið taska með fjórum mynda­vélum í. Ein myndavélanna hafi verið af gerðinni Fujifilm Finepix F810 stafræn myndavél.

             Fimmtudaginn 19. maí 2005 voru ákærði og A handtekin vegna gruns um innbrot í bifreið á bifreiðastæði við Árbæjarsundlaug. Voru þau þá í bifreið með skráningarnúmerið UL-790. Nokkur varningur var í bifreiðinni, sem lögregla hafði rökstuddan grun um að væri þýfi úr innbrotum. 

             Eigandi bifreiðarinnar R-78442 mætti á lögreglustöð 24. maí 2005 og tók þá við einni myndavélanna úr vörslum lögreglu. Lögregla hefur ritað skýrslu 7. júní 2005 vegna málsins. Þar kemur fram að tilkynnandi hafi 6. júní 2005 mætt á lögreglustöð og borið kennsl á hulstur utan af stafrænni myndavél sem tekin hafi verið úr bifreiðinni R-78442. Umrætt hulstur hafi fundist við leit í bifreiðinni UL-790.

             Tæknideild lögreglu hefur ritað skýrslu vegna rannsóknar á myndavél af gerðinni Finepix F810 sem fannst í bifreiðinni UL-790 þann 19. maí 2005. Fram kemur að í vélinni hafi verið nokkrar ljós- og hreyfimyndir. Hafi 19 ljósmyndir verið framkallaðar og látnar fylgja skýrslunni. Við skoðun á umræddum myndum kemur í ljós að 7 þeirra eru af ákærða og 7 þeirra af A.

             Ákærði var yfirheyrður 19. maí 2005 í framhaldi af handtöku. Hann var aftur yfirheyrður 26. maí 2005 en þá var hann í gæsluvarðhaldi. Kvaðst hann ekki kannast við innbrot í bifreið með skráningarnúmerið R-78442 við Laugardalslaug 8. maí 2005. Kvaðst hann ekki heldur kannast við myndir er honum voru sýndar úr myndavél og fram koma í skýrslu Tæknideildar lögreglu. Ákærði var aftur yfirheyrður af lögreglu 3. júní 2005. Er undir hann var borið að myndir af honum og A hafi fundist í myndavélinni kvaðst ákærði hafa keypt myndavélina niðri í bæ af kunningja sínum. Umræddur kunningi héti Beggi. Önnur deili kvaðst ákærði ekki hafa á umræddum Begga. Ákærði kvaðst hafa greitt 15.000 krónur fyrir vélina en ekki hafi hann vitað að vélinni hafi verið stolið. Fyrir dómi kvaðst ákærði ekki kannast við umrædd mál. Kvaðst hann kannast við myndir af sér og A í rann­sóknargögnum málsins tengdar myndavélum. Kvaðst ákærði sennilega hafa tekið umrædda myndavél upp í skuld. Það myndi hann þó illa. Kvaðst hann hafa notað eitthvað af áfengi og vímuefnum um þetta leyti og hafa verið í einhverju ,,ruggli”.

             A var yfirheyrð af lögreglu 25. maí 2005, en hún hafði verið úrskurðuð í gæsluvarðhald vegna gruns um þjófnaði á höfuðborgar­svæðinu. Við yfirheyrsluna kvaðst hún ekki kannast við innbrot í bifreið með skráningarnúmerið R-78442 sunnudaginn 8. maí 2005. Er undir hana var borið að myndir af henni og ákærða hafi fundist í vélinni bar hún að ákærði hafi átt einhverja myndavél. Bar hún kennsl á sig og ákærða á myndum í skýrslu tæknideildar lögreglu. Kvaðst hún hafa tekið myndir á vélina. A var aftur yfirheyrð hjá lögreglu 9. júní 2005. Kvaðst hún þá muna eftir umræddu tilviki. Hafi hún verið hálfsofandi inni í bifreið er ákærði hafi stokkið út úr henni. Hafi hann komið aftur til baka stuttu síðar með 3 til 4 hluti. Um hafi verið að ræða myndavélatösku. Ekki kvaðst hún vita hvað hafi orðið um myndavélarnar.  

             Við aðalmeðferð þessa máls hefur talsmaður A komið þeim boðum áleiðis til dómsins að A sé núverandi sambýliskona ákærða og eigi þau barn saman. Myndi hún skorast undan að gefa skýrslu fyrir dómi á grundvelli 50. gr. laga nr. 19/1991. Af þeim sökum gaf hún ekki skýrslu fyrir dómi.

 

             Niðurstaða:

             Ákærði neitar sök í þessum ákærulið. Hefur hann orðið margsaga um mynda­vél sem fannst í bifreiðinni UL-790 og tengist þessum ákærulið. Hefur hann ýmist borið að hann kannist ekkert við vélina, að hann hafi tekið hana upp í skuld eða að hann hafi keypt hana af kunningja sínum, sem hann hefur ekki getað gert grein fyrir að ráði. Fyrir liggur að myndavél samkvæmt þessum ákærulið fannst í bifreið er ákærði var í við handtöku 19. maí 2005. Myndir af ákærða og A voru í mynda­vélinni. Þá fannst hulstur tengt myndavélinni einnig í bifreiðinni UL-790. Þá liggur fyrir framburður A hjá lögreglu þar sem hún kveður ákærða hafa stolið umræddri myndavél. Loks liggur það fyrir að í bifreiðinni UL-790 fannst mikið af þýfi er tekið var í innbrotum í bifreiðar á höfuðborgarsvæðinu á þessum tíma. Svo sem rakið er í einstökum ákæruliðum hér á eftir átti ákærði þar jafnan sök að máli. Með vísan til þessa er hafið yfir skynsamlegan vafa að ákærði hafi brotist inn í bifreiðina R-78442 umrætt sinn svo sem honum er gefið að sök í ákæru. Er háttsemin rétt heimfærð til refsiákvæða í ákæru. 

 

             2.4

             Fimmtudaginn 19. maí 2005 kl. 12.00 barst lögreglu tilkynning um mann sem farið hafi inn í bifreiðina TG-038 þar sem bifreiðin hafi staðið á bifreiðastæði við Árbæjarsundlaug. Hafi viðkomandi hlaupið á brott frá bifreiðinni með útvarp í hendi. Fram kom í tilkynningunni að maðurinn hafi hlaupið í átt að Dísarási og horfið þar sjónum tilkynnanda. Var manninum lýst sem ljóshærðum og stuttklipptum í rauðri peysu og dökkum buxum. Tilkynnandi bar jafnframt um að hann hafi séð hvíta VW bifreið á vettvangi og kvenmann við stýrið og hafi hún verið grunsamleg. Lögreglu­menn héldu þegar í átt að Árbæjarsundlaug. Þegar þeir komu frá Bæjarási og inn á Selásbraut mættu þeir bifreið með skráningarnúmerið UL-790, sem er hvít Volkswagen bifreið. Stöðvuðu lögreglumenn för bifreiðarinnar á Suðurlandsvegi við Rauðavatn. Ökumaður bifreiðarinnar var A, en ákærði var farþegi í bifreiðinni. Í frumskýrslu kemur fram að hann hafi verið klæddur í rauðan bol og dökkar buxur. Þá hafi hann verið með snöggklippt hár. Ákærði og A voru bæði handtekin í þágu rannsóknar málsins. Í skýrslunni er rakið að við Árbæjarsundlaug hafi verið rætt við tilkynnanda, F. Jafnframt hafi verið rætt við eiganda bifreiðarinnar, G, sem hafi gert grein fyrir því að úr bifreiðinni hafi verið tekinn geislaspilari, kortaveski og tvö hulstur með samtals 40 geisladiskum. Í skýrslunni kemur fram að rúða farþegamegin að framan hafi verið brotin í bifreiðinni. Hefur tæknideild lögreglu ritað skýrslu vegna tæknirannsóknar á bifreiðinni TG-038. 

             Samkvæmt skýrslu er lögregla hefur ritað vegna rannsóknar málsins var 20. maí 2005 símleiðis haft samband við F. Er haft eftir F að hann hafi ekið bifreið sinni fram hjá bifreið með skráningarnúmerið TG-038. Hafi hann þá séð mann vera inni í bifreiðinni. Hafi hann komið út úr bifreiðinni og verið með útvarpstæki í hendi. Viðkomandi hafi hlaupið í átt að Dísarási. Stúlka hafi verið í lítilli bifreið við hlið bifreiðarinnar. Hafi honum fundist hegðun stúlkunnar einkenni­leg eins og hún hafi staðið vakt fyrir drenginn. Stúlkan hafi verið ljóshærð. Hafi F gert grein fyrir því að hann hafi ekið fyrir ofan hverfið og þá séð að lög­reglu­menn hafi verið með mann hjá sér. Hafi það verið sami maður og F hafi séð brjótast inn í bifreiðina TG-038.

             Rituð hefur verið skýrsla vegna leitar í bifreiðinni UL-790. Fram kemur að í bifreiðinni hafi verið mikið af fatnaði og ýmsum varningi. Hefur lögregla ritað skýrslu um haldlagða muni í tilefni þessa sem er á meðal rannsóknargagna málsins.

             G mætti á lögreglustöð 23. maí 2005 og tók þá við geislaspilara, geisladiskatöskum og kortaveski, sem tekið var úr bifreiðinni TG-038 þann 19. maí 2005. Voru umræddir munir á meðal þess sem lögregla lagði hald á í bifreiðinni UL-790 við handtöku ákærða og A.

             Ákærði var yfirheyrður af lögreglu í framhaldi af handtöku. Kvaðst hann ekki kannast við innbrot í bifreiðina TG-038 á bifreiðastæði við Árbæjarsundlaug. Þá var ákærði yfirheyrður 26. maí 2005 á meðan hann sat í gæsluvarðhaldi. Kvaðst hann þá ekki heldur að neinu leyti kannast við málið. Fyrir dómi var framburður ákærða á sama veg. Kvaðst hann kannast við að hafa verið með A í bifreiðinni UL-790 er þau hafi verið handtekin. A hafi átt þá bifreið og örugglega aðrir en hún og ákærði haft aðgang að henni.

             A var yfirheyrð af lögreglu 25. maí 2005, en hún hafði þá verið úrskurðuð í gæsluvarðhald vegna gruns um þjófnaði á höfuðborgar­svæðinu. Við yfirheyrsluna neitaði hún að tjá sig um innbrot í bifreiðina TG-038. A var aftur yfirheyrð hjá lögreglu 3. júní 2005. Kvaðst hún þá vera reiðubúin að tjá sig um umrætt atvik. Kvaðst hún, ásamt ákærða, hafa ekið um við Árbæjar­sundlaug. Hafi þau tekið eftir bifreið af gerðinni Golf. Hafi hún lagt bifreið sinni nálægt bifreiðinni og hafi ákærði brotið rúðu í bifreiðinni og náð í geislaspilara. Í því hafi jeppabifreið stöðvað nærri þeim og hafi ökumaður bifreiðarinnar sennilega hringt á lögregluna, en hann hafi horft á þau. Kvaðst A hafa bent ákærða á manninn og ákærði hlaupið í burtu. Kvaðst A hafa ekið upp í Árbæjarhverfið og hitt ákærða. Er þau hafi verið á leið úr Árbænum hafi lögregla stöðvað för þeirra.

             A var ákærð fyrir hlutdeild í þjófnaði ákærða. Játaði hún hátt­semi sína á dómþingi. Þar sem ákærði var þá farinn af landi brott og ljóst að hann myndi ekki koma til landsins í náinni framtíð var þáttur hennar klofinn frá máli ákærða og dæmdur sér í lagi. Við aðalmeðferð þessa máls hefur talsmaður A komið þeim boðum áleiðis til dómsins að A sé núverandi sambýliskona ákærða og eigi þau barn saman. Myndi hún skorast undan að gefa skýrslu fyrir dómi á grundvelli 50. gr. laga nr. 19/1991. Af þessum sökum gaf hún ekki skýrslu fyrir dómi.

             F greindi svo frá fyrir dómi að hann hafi verið á leið í sund í Árbæjarsundlaug 19. maí 2005. Á bifreiðastæði við laugina hafi hann séð mann hálfan farþegamegin inni í bifreið. Hafi F stöðvað við bifreiðina. Er maðurinn hafi orðið var við F hafi hann rokið út úr bifreiðinni og hlaupið upp Fjarðar­ásinn. Kvaðst F hafa hringt á lögreglu. Hafi hann frétt að lögreglumenn hafi tekið manninn. Hafi ung stúlka verið á svæðinu og hafi hún reynt að skýla ákærða. F kvaðst hafa verið í um 2ja til 3ja metra fjarlægð frá drengnum er hann hafi verið inni í bifreiðinni og hafi hann horft í augu drengsins. Kvaðst F hafa séð umræddan dreng í höndum lögreglu stuttu síðar, en þá hafi verið búið að handtaka hann.

 

             Niðurstaða:

             Ákærði neitar sök og kveðst ekki hafa verið í nágrenni við Árbæjarsundlaug umrætt sinn. F hefur greint frá því að sá maður er brotist hafi inn í bifreiðina TG-038 hafi verið í höndum lögreglu skömmu eftir innbrotið. Þá liggur það fyrir að ákærði var handtekinn í beinu framhaldi af þessu innbroti, en þá var hann farþegi í bifreiðinni UL-790. Í þessari bifreið fannst varningur sem hvarf úr innbroti í bifreiðina TG-038. Loks liggur það fyrir að A hefur viðurkennt hlutdeild sína í þessu broti og borið hjá lögreglu að ákærði hafi farið inn í umrædda bifreið. Frásögn hennar samrýmist því sem F hefur borið um. Þegar þessi atriði eru virt í heild sinni er sannað að ákærði hafi greint sinn brotist inn í bifreiðina TG-038 svo sem honum er gefið að sök í þessum ákærulið. Er háttsemin þar rétt heimfærð til refsiákvæða.

 

             2.5.

             Fimmtudaginn 19. maí 2005 kl. 08.11 barst lögreglu tilkynning um innbrot í bifreið með skráningarnúmerið VI-299 á bifreiðastæðin við Stóragerði 22 í Reykjavík. Á vettvangi ræddi lögregla við tilkynnanda og eiganda bifreiðarinnar H. H kvaðst hafa yfirgefið bifreiðina kvöldið áður um kl. 20.00, en komið að henni að morgni fimmtudagsins 19. maí og hafi þá verið búið að brjóta hliðarrúðu í bifreiðinni. Úr bifreiðinni hafi verið tekinn geislaspilari.

             Fimmtudaginn 19. maí 2005 voru ákærði og A handtekin í framhaldi af innbroti í bifreiðina TG-038, sbr. ákærulið 2.4 hér að framan. Við handtöku fannst talsvert magn muna í bifreiðinni UL-790 er lögregla hafði rök­studdan grun um að væri til komin vegna innbrota í bifreiðar á höfuðborgar­svæðinu. Hefur lögregla ritað skýrslu um haldlagða muni úr bifreiðinni.

             Þriðjudaginn 24. maí 2005 mætti H á lögreglustöð vegna málsins. Gerði hún þá grein fyrir því að sá sem brotist hefði inn í bifreiðina hafi skilið eftir svart stykki með bláum vír í tengingunni og hafi millistykki fyrir loftnet legið brotið á gólfi bifreiðarinnar. Bar H kennsl á geislaspilara hjá lögreglu sem H kvaðst þekkja sem geislaspilara þann sem tekinn hafi verið úr bifreiðinni VI-299. 

             Ákærði var yfirheyrður af lögreglu um þetta sakarefni 26. maí 2005. Hvorki þá, né í skýrslutöku hjá lögreglu 9. júní 2005 kvaðst ákærði kannast við að hafa brotist inn í bifreiðina VI-299. Fyrir dómi hefur ákærði ekki kannast við þátt sinn í málinu.

             A var yfirheyrð af lögreglu 25. maí 2005, en hún hafði verið úrskurðuð í gæsluvarðhald vegna gruns um þjófnaði á höfuðborgar­svæðinu. Við yfirheyrsluna neitaði hún að tjá sig um innbrot í bifreiðina VI-299. A var aftur yfirheyrð hjá lögreglu 9. júní 2005. Kvaðst hún þá vera reiðubúin að tjá sig um umrætt atvik. Kvaðst hún muna eftir að hafa verið á staðnum með ákærða. Hafi hún verið í bifreiðinni UL-790 en ákærði hafi farið út úr henni. Hafi hún haft vitneskju um hvað væri um að vera, þó svo hún myndi ekki eftir hvað ákærði hafi komið með til baka. Hafi hún verið með ákærða í brotinu.

             A var ákærð fyrir hlutdeild í þjófnaði ákærða. Játaði hún hátt­semi sína á dómþingi. Þar sem ákærði var þá farinn af landi brott og ljóst að hann myndi ekki koma til landsins í náinni framtíð var þáttur hennar klofinn frá máli ákærða og dæmdur sér í lagi. Við aðalmeðferð þessa máls hefur talsmaður A komið þeim boðum áleiðis til dómsins að A sé núverandi sambýliskona ákærða og eigi þau barn saman. Myndi hún skorast undan að gefa skýrslu fyrir dómi á grundvelli 50. gr. laga nr. 19/1991. Af þeim sökum gaf hún ekki skýrslu fyrir dómi.

 

             Niðurstaða:

             Ákærði neitar sök, en hann kveðst ekki hafa brotist inn í bifreiðina VI-299. Í málinu liggur fyrir að þýfi úr umræddri bifreið fannst í bifreiðinni UL-790, sem ákærði var í við handtöku 19. maí 2005. Í bifreiðinni var aukinheldur mikið af þýfi er horfið hafði úr innbrotum í bifreiðar á höfuðborgarsvæðinu sama dag og dagana á undan. A viðurkenndi þátt sinn í þessu broti hér fyrir dómi. Þá greindi hún frá því hjá lögreglu að ákærði hafi brotist inn í umrædda bifreið. Þegar þessi atriði eru virt í heild sinni þykir að mati dómsins hafið yfir skynsamlegan vafa að ákærði hafi brotist inn í bifreiðina VI-299 svo sem honum er gefið að sök í ákæru. Er háttsemin rétt heimfærð til refsiákvæða í ákæru.

 

             III. kafli ákæru.

             1.-12. tl.

             Fimmtudaginn 19. maí 2005 voru ákærði og A handtekin í framhaldi af innbroti í bifreiðina TG-038, sbr. ákærulið 2.4 hér að framan. Við handtöku fannst talsvert magn muna í bifreiðinni UL-790 er lögregla hafði rökstuddan grun um að væri til komin vegna innbrota í bifreiðar á höfuðborgar­svæðinu. Hefur lögregla ritað skýrslu um haldlagða muni úr bifreiðinni. Þá hafðist hún handa við að bera umrædda muni saman við tilkynningar um þjófnaði úr bifreiðum sem tilkynntir höfðu verið til lögreglu. Verður hér á eftir gerð grein fyrir einstökum tilvikum þar sem lögregla telur sig hafa getað rakið muni úr bifreiðinni til einstakra innbrota.

             Miðvikudaginn 18. maí 2005 kl. 11.00 barst lögreglu tilkynning um innbrot í bifreið með skráningarnúmerið KM-587 þar sem bifreiðin stóð á bifreiðastæði við Kringluna 7 í Reykjavík. Fram kemur að fremri hliðarrúða hægra megin í bifreiðinni hafi verið brotin. Á vettvangi var rætt við eiganda bifreiðarinnar I. Úr bifreiðinni var tekin hlutur af geislaspilara og úr hanskahólfi iPod með heyrnartólum. Þá voru tekin sólgleraugu af gerðinni Chanel í hvítu hulstri og fjarstýring fyrir geislaspilara. Þriðjudaginn 24. maí 2005 mætti I á lögreglustöð. Tók hún þar við sólgleraugum og fjarstýringu er tekin voru í innbrotinu, en munir þessir voru á meðal þess sem lögregla lagði hald á í bifreiðinni UL-790. 

             Miðvikudaginn 18. maí 2005 kl. 10.57 fékk lögregla tilkynningu um innbrot í bifreiðar með skráningarnúmerin JD-197 og OI-253 á bifreiðastæði við líkamsræktar­stöðina Laugar að Sundlaugarvegi 30 í Reykjavík. Í frumskýrslu kemur fram að hliðar­rúða við hægra framsæti bifreiðarinnar OI-253 hafi verið brotin, en bifreiðin hafi verið læst. Eigandi bifreiðarinnar, J, hafi tjáð lögreglu að úr henni hafi verið tekin geislaspilari, íþróttataska, úr, snyrtitaska og bolur. Þá hafi hliðarrúða við hægra framsæti bifreiðarinnar JD-197 verið brotin. Ekki hafi náðst samband við eiganda bifreiðarinnar á staðnum, K, en rætt hafi verið við hana síma síðar um daginn. Fram kemur að geislaspilari hafi verið tekinn úr bifreiðinni. Þriðjudaginn 24. maí 2005 mætti J á lögreglustöð. Bar hann þar kennsl á geislaspilara er tekinn var úr bifreiðinni OI-253, Diesel úr og íþróttatösku með snyrtivörum. Þá bar J kennsl á bol er hvarf úr bifreiðinni. Sama dag mætti K á lögreglustöð. Með aðstoð lögreglu voru borin kennsl á geislaspilara sem tekinn var úr bifreiðinni JD-197.

             Miðvikudaginn 18. maí 2005 kl. 14.15 barst lögreglu tilkynning um að brotist hafi verið inn í bifreið með skráningarnúmerið VE-015 á bifreiðastæði við Blindra­félagið að Hamrahlíð 17 í Reykjavík. Á vettvangi hitti lögregla fyrir eiganda bifreiðar­innar L. Fremri hliðarrúða bifreiðarinnar vinstra megin hafði verið brotin. Úr bifreiðinni var tekinn geislaspilari, íþróttataska, æfingaföt og handklæði. Miðvikudaginn 25. maí 2005 mætti L á lögreglustöð vegna málsins. Bar hún þar kennsl á geislaspilara þann sem tekinn hafði verið úr bifreiðinni VE-015. Þá bar L kennsl á íþróttatösku, æfingaföt og handklæði sem var á meðal þess sem lagt var hald á í bifreiðinni UL-790.

             Miðvikudaginn 18. maí 2005 kl. 07.45 barst lögreglu tilkynning um innbrot í bifreið með skráningarnúmerið VR-330 sem var á bifreiðastæði við Bogahlíð 8 í Reykjavík. Á vettvangi hitti lögregla fyrir eiganda bifreiðarinnar, M. Fram kemur að hliðarrúða að framan hægra megin hafi verið brotin og úr bifreiðinni tekinn geislaspilari af Alpine gerð og radarvari. Miðvikudaginn 25. maí 2005 mætti M á lögreglustöð. Bar hún þar kennsl á geislaspilara þann sem tekinn var úr bifreiðinni, sem og radarvara. Lagt var hald á umrædda muni í bifreiðinni UL-790.

             Fimmtudaginn 19. maí 2005 kl. 07.45 var lögreglunni í Reykjavík tilkynnt um innbrot í bifreið með skráningarnúmerið RV-301 þar sem bifreiðin stóð á bifreiða­stæði við Álftamýri 12 í Reykjavík. Á vettvangi hitti lögregla fyrir eiganda bifreiðar­innar N. Fram kemur að hliðarrúða farþegamegin að framan hafi verið brotin. Úr bifreiðinni hafði verið tekinn geislaspilari af Alpine gerð. Miðvikudaginn 25. maí 2005 mætti N á lögreglustöð og bar þar kennsl á geislaspilara þann sem tekinn hafði verið úr bifreiðinni RV-301, en geislaspilarinn var á meðal þess sem lagt var hald á í bifreiðinni UL-790.

             Miðvikudaginn 18. maí 2005 kl. 03.14 var lögreglu tilkynnt um innbrot í bifreið með skráningarnúmerið IY-014 þar sem bifreiðin stóð á bifreiðastæði við Eski­hlíð 12 í Reykjavík. Á vettvangi hitti lögregla fyrir O eiganda bifreiðar­innar. Fram kemur að hægri hliðarrúða hafi verið brotin í bifreiðinni. Úr bifreiðinni var tekin stafræn myndavél, ásamt linsu, þrífæti, statífi, tösku, korti í tölvu og tengibúnaður. Þá hafi verið teknir geisladiskar, sólgleraugu og radarvari. Þriðjudaginn 31. maí 2005 mætti O á lögreglustöð og veitti þar viðtöku stafrænni myndavél og radarvara úr fórum lögreglu, en lagt hafði verið hald á þessa muni við leit í bifreiðinni UL-790 þann 19. maí 2005.

             Miðvikudaginn 18. maí 2005 kl. 16.02 var lögreglu tilkynnt um innbrot í bifreið með skráningarnúmerið ME-056 þar sem bifreiðin stóð á bifreiðastæði við Síðumúla 29 í Reykjavík. Á vettvangi hitti lögregla fyrir eiganda bifreiðarinnar P. Fram kemur að hægri hliðarrúða bifreiðarinnar hafi verið brotin. Úr bifreiðinni hafi verið tekinn jakki, peysa, geisladiskar og taska undir diskana. Þriðjudaginn 31. maí 2005 mætti P á lögreglustöð og bar þar kennsl á jakka og peysu þá sem tekin var úr bifreiðinni, en lagt var hald á fötin í bifreiðinni UL-790 í framhaldi af handtöku ákærða 19. maí 2005.  

             Fimmtudaginn 19. maí 2005 var lögreglu tilkynnt um innbrot í bifreið með skráningarnúmerið TN-696 þar sem bifreiðin stóð á bifreiðastæði við Hæðargarð 28 í Reykjavík. Á vettvangi hitti lögregla fyrir eiganda bifreiðarinnar R. Fram kemur að hægri hliðarrúða að framan í bifreiðinni hafi verið brotin. Úr bifreiðinni var tekinn geislaspilari af Alpine gerð, geisladiskamappa og 35 geisla­diskar. Mánudaginn 23.  maí 2005 mætti R á lögreglustöð og bar þar kennsl á geisla­spilara þann sem tekinn var úr bifreiðinni, sem og geisladiskatösku, en varning þennan lagði lögregla hald á í bifreiðinni UL-790 fimmtudaginn 19. maí 2005.

             Fimmtudaginn 19. maí 2005 kl. 09.58 var lögreglu tilkynnt um innbrot í bifreið með skráningarnúmerið RK-330 þar sem bifreiðin stóð á bifreiðastæði við Álftamýri 24 í Reykjavík. Á vettvangi hitti lögregla fyrir S, eiganda bifreiðarinnar. Fram kemur að hægri hliðarrúða að framan í bifreiðinni hafi verið brotin. Úr bifreiðinni var tekinn geislaspilari af Alpine gerð og geisladiskar. Miðvikudaginn 25. maí 2005 mætti S á lögreglustöð og bar kennsl á einn af þeim geisladiskum er teknir höfðu verið úr bifreiðinni. Þá bar hann að einn af geislaspilurum er voru í vörslu lögreglu væri mjög líkur þeim geislaspilara er hefði verið í bifreiðinni, en spilarann og diskinn hafði lögregla lagt hald á í bifreiðinni UL-790 fimmtudaginn 19. maí 2005.  

             Fimmtudaginn 19. maí 2005 kl. 01.12 var lögreglu tilkynnt um innbrot í bifreið með skráningarnúmerið KM-159 þar sem bifreiðin stóð á bifreiðastæði við Ármúla 5 í Reykjavík. Á vettvangi hitti lögregla fyrir T, sem tjáði lögreglu að brotist hafi verið inn í bifreiðina og úr henni tekinn geislaspilari af Alpine gerð, auk einhverra geisladiska. Fram kemur í lögregluskýrslu að hægri hliðarrúða að framan í bifreiðinni hafi verið brotin. Mánudaginn 30. maí 2005 mætti T á lögreglustöð og bar kennsl á þann geislaspilara sem tekinn hafði verið úr bifreið hans umrætt sinn, en lögregla lagði hald á spilarann við leit í bifreiðinni UL-790 í kjölfar handtöku ákærða 19. maí 2005.

             Fimmtudaginn 19. maí 2005 kl. 08.47 var lögreglu tilkynnt um innbrot í bifreið með skráningarnúmerið ZU-511 þar sem bifreiðin stóð á stæði við Sundhöll Reykjavíkur við Barnónsstíg. Á vettvangi var rætt við eiganda bifreiðarinnar U. Fram kemur að hægri framrúða bifreiðarinnar hafi verið brotin. U tjáði lögreglu að úr bifreiðinni hafi verið tekið geisladiskaslíður og 11 geisladiskar. Miðvikudaginn 29. júní 2005 mætti U á lögreglustöð og bar þar kennsl á geisladiskaslíðrið og 9 geisladiska sem teknir höfðu verið úr bifreiðinni. Slíðrið og diskana hafði lögregla lagt hald á í framhaldi af leit í bifreiðinni UL-790 sem fram fór í kjölfar handtöku ákærða og A 19. maí 2005.  

             Ákærði var hjá lögreglu yfirheyrður um öll þau tilvik sem hér að framan greinir. Kannaðist hann ekki við að hafa brotist inn í bifreiðarnar og stolið umræddum hlutum. Þá kvaðst hann á tíma í yfirheyrslunni ekki vita hvernig sá varningur hafi komist í bifreiðina UL-790 sem var í bifreiðinni er lögregla handtók ákærða og A. Við yfirheyrslu lögreglu 3. júní 2005 bar ákærði að hann hafi fundið tösku á bak við Sorpu í Breiðholti sem hafi verið með geislaspilurum í. Ekki hafi ákærða grunað að um þýfi væri að ræða. Við yfirheyrslu lögreglu 9. júní 2005 bar ákærði að hann hafi séð A vera að raða þeim geisladiskum er lögregla hafði lagt hald á í möppur. Þá bar ákærði við skýrslugjöf hjá lögreglu 3. júní 2005 að hann hafi fundið myndavél samkvæmt tölulið nr. 7 á bak við Sorpu í Breiðholti. Við skýrslugjöf hjá lögreglu 9. júní 2005 greindi ákærði svo frá varðandi myndavélina að A hafi verið með myndavélina og hafi ákærði verið að ,,hylma“ yfir með A.

             Fyrir dómi bar ákærði að hann kannaðist ekki við að hafa haft í vörslum sínum þá hluti sem tilgreindir eru í töluliðum 1-6 og 8-12 í III. kafla ákæru. Þá kvaðst ákærði ekki í dag muna eftir að hafa haft í vörslum sínum stafræna myndavél samkvæmt 7. tl. III. kafla ákæru.  

             A var ásamt ákærða ákærð fyrir hylmingu samkvæmt þessum ákærulið. Játaði hún háttsemi sína á dómþingi. Þar sem ákærði var þá farinn af landi brott og ljóst að hann myndi ekki koma til landsins í náinni framtíð var þáttur hennar klofinn frá máli ákærða og dæmdur sér í lagi. Við aðalmeðferð þessa máls hefur talsmaður A komið þeim boðum áleiðis til dómsins að A sé núverandi sambýliskona ákærða og eigi þau barn saman. Myndi hún skorast undan að gefa skýrslu fyrir dómi á grundvelli 50. gr. laga nr. 19/1991. Af þeim sökum gaf hún ekki skýrslu fyrir dómi.

 

             Niðurstaða:

             Ákærði neitar sök samkvæmt þessum kafla og kannast ekki við að hafa haft í vörslum sínum þá muni sem taldir eru upp í III. kafla ákæru.

             Við mat á sök ákærða er til þess að líta að ákærði var fimmtudaginn 19. maí 2005 handtekinn í framhaldi af innbroti í bifreið á bifreiðastæði við Árbæjarsundlaug. Hér að framan hefur verið slegið föstu að ákærði hafi brotist inn í bifreiðina með því að brjóta hliðarrúðu í bifreiðinni. Við handtöku ákærða í framhaldi fannst í bifreið þeirri sem hann og A voru í talsvert magn af þýfi en teknir höfðu verið munir í innbrotum í bifreiðar á höfuðborgarsvæðinu þann dag og daginn á undan. A hefur viðurkennt að hafa haft umrædda muni í vörslum sínum og að hafa vitað að þeir væru þýfi. Flestir þeir munir er lögregla lagði hald á komust til eigenda sinna, sem báru kennsl á þá hjá lögreglu. Í flestum tilvikum höfðu munir þessir verið teknir úr bifreiðum með því að hægri hliðarrúða bifreiða að framan hafði verið brotin. Bifreiðarnar voru í flestum tilvikum af sömu gerð og geislaspilarar af Alpine gerð oftast teknir. Ákærði hefur hvorki viljað kannast við þá muni sem voru í bifreið þeirri er hann og A notuðu saman, né hefur hann gefið neina skýringu á tilvist þessara muna. Líf ákærða og A virðist á þessum tíma hafa einkennst af mikilli óreglu. Fram kemur í rannsóknargögnum að þau hafi ekki haft annað heimili en bifreiðina með skráningarnúmerið UL-790. Þegar til þessara atriða er litið slær dómurinn því föstu að ákærði hafi ásamt A haft þessa hluti í sínum vörslum og að hann hafi vitað að þeir væru þýfi. Verður ákærði því sakfelldur samkvæmt töluliðum 1-12 í III. kafla ákæru og er háttsemin þar rétt heimfærð til refsiákvæða. 

 

             Ákæra 15. desember 2005.

             Mánudaginn 7. nóvember 2005 kl. 18.48 var lögreglu tilkynnt um innbrot í bifreið með skráningarnúmerið KG-647, sem stóð á bifreiðastæði við Hverfisgötu 105 í Reykjavík. Á vettvangi hitti lögregla fyrir V. Fram kemur að rúða í hægri framhurð bifreiðarinnar hafi verið brotin og úr henni tekin geislaspilari af Alpine gerð. Þá hafi V tjáð lögreglumönnum að kona í húsinu að Hverfisgötu 105 hafi veitt því athygli er dökklæddur maður hafi brotist inn í bifreiðina, en hann hafi verið með rauða derhúfu. Viðkomandi hafi horfið af vettvangi. Hafi konan sagt að viðkomandi einstaklingur hafi farið inn í húsnæðið að Hverfisgötu 106A. Samkvæmt frumskýrslu lögreglu fóru lögreglumenn í kjölfarið að kjallaraíbúð að Hverfisgötu 106A, en þar var tiltekin kona skráð til heimilis. Er opnað hafi verið fyrir lögreglumönnum hafi ákærði staðið fyrir innan dyrnar og hafi hann verið dökklæddur og með rauða derhúfu á höfði. Eftir samtal við ákærða hafi hann viðurkennt að hafa brotist inn í bifreiðina KG-647 og hafi hann framvísað geislaspilara þeim er tilkynntur hafi verið stolinn. Geislaspilarann hafi ákærði verið með í bakpoka. 

             V mætti á lögreglustöð 8. nóvember 2005 og lagði þá fram kæru á hendur ákærða. Greindi hann frá atvikum með sama hætti og er hann tjáði lögreglu frá atburðum á vettvangi. Var honum afhentur geislaspilari sem haldlagður var vegna málsins.

             Tekin var skýrsla af ákærða á lögreglustöð í framhaldi af handtöku. Kvaðst ákærði viðurkenna að hafa þá fyrr um daginn brotið rúðu í bifreiðinni KG-647 og hafa stolið úr bifreiðinni sambyggðu útvarpi og geislaspilara. Kvaðst ákærði hafa ætlað að nota tækið í bifreið sem hann ætlaði að kaupa síðar. Þá kvaðst ákærði reiðubúinn að bæta eiganda bifreiðarinnar tjón ef fram yrði lögð skaðabótakrafa.    

             Fyrir dómi greindi ákærði svo frá að lögregla hafi komið í húsnæði að Hverfis­götu vegna gruns um þjófnað á geislaspilara. Kvað ákærði rangt sem fram kæmi í lögregluskýrslu að hann hafi við það tækifæri framvísað geislaspilara. Bar ákærði að vinur ákærða hafi verið með umræddan geislaspilara og hafi hann verið í íbúðinni er lögreglu hafi borið að garði. Kvaðst ákærði þekkja hann sem Steina, en ekki vita önnur deili á honum. Kvað ákærði rangt eftir sér haft í lögregluskýrslu þar sem fært sé að ákærði hafi viðurkennt umræddan þjófnað.

             Lögreglumennirnir Pétur Guðmundsson og Þórður Þórðarson komu fyrir dóminn og staðfestu þátt sinn í rannsókn málsins. Pétur kvað tilkynningu hafa borist til lögreglu um þjófnað úr bifreið við Hverfisgötu, en geislaspilari hafi verið tekinn úr bifreiðinni. Samkvæmt þeim upplýsingum er fengist hafi á vettvangi hafi sést til þess sem brotist hafi inn í bifreiðina. Hafi lögreglumenn metið það sem svo að jafnvel væri unnt að ná tækinu aftur. Hafi þeir bankað á dyr þess húsnæðis sem þjófurinn hafi átt að hafa farið inn í. Opnað hafi verið fyrir þeim og hafi viðkomandi tæki þá komið í leitirnar. Hafi ákærði í framhaldi verið handtekinn. Hafi hann verið samvinnuþýður, en hann hafi ekki getað þrætt fyrir brotið þar sem hann hafi verið með tækið hjá sér. Hafi tækið sennilega verið í bakpoka. Fyrir hafi legið að ákærði hafi verið gestkomandi í húsnæðinu, en húsráðandi hafi gefið lögreglu heimild til að leita að tækinu. Kvaðst Pétur telja að um 10 mínútur hafi liðið frá því tilkynning hafi borist til lögreglu um þjófnaðinn, þar til lögreglumenn hafi knúið dyra þar sem ákærði hafi verið gestkomandi. Þórður kvaðst hafa tekið framburðarskýrslu af ákærða eftir að komið hafi verið með hann á lögreglustöð. Um hafi verið að ræða venjubundna skýrslutöku hjá lögreglu.

 

             Niðurstaða:

             Ákærði neitar sök samkvæmt þessari ákæru.

             Samkvæmt frumgögnum málsins knúðu lögreglumenn dyra að Hverfisgötu 106A í framhaldi af tilkynningu um þjófnað úr bifreiðinni KG-647. Afhenti ákærði þá lögreglumönnum tæki það er tekið var úr bifreiðinni. Er fært í frumskýrslu að ákærði hafi gengist við broti sínu. Fékk eigandi þess það afhent í framhaldinu. Ákærði gaf í beinu framhaldi skýrslu vegna málsins á lögreglustöð. Viðurkenndi hann þar brot sitt. Lögreglumenn þeir sem stóðu að rannsókn málsins hafa komið fyrir dóminn og staðfest þátt sinn í henni. Með vísan til frumgagna lögreglurannsóknarinnar, fram­burðar lögreglumanna og greiðlegrar játningar ákærða á rannsóknarstigi er að mati dómsins komin fram lögfull sönnun um að ákærði hafi framið það brot sem honum er gefið að sök. Í ákæru hefur láðst að geta ártals við þann dag sem brotið er talið framið. Hér er ekki um slíkt grundvallaratriði að ræða, svo sem til háttar í máli þessu, að það hafi orðið ákærða til vandkvæða vegna varna í málinu. Verður það ekki talið þess valdandi að sakaráfell verði ekki dæmt. Er brotið rétt heimfært til refsiákvæða í ákæru.  

 

             Ákærði er fæddur í júlí 1978. Á hann að baki nokkurn sakaferil. Hann var fyrst dæmdur á árinu 1996, en þá hlaut hann 6 mánaða skilorðsbundinn dóm fyrir brot gegn 149. gr. hegningarlaga, þjófnað og hlutdeild í skjalafalsi. Síðar sama ár var hann dæmdur í 8 mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir nytjastuld, akstur án ökuréttinda og brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni. Var skilorðsdómurinn sem áður hafði verið dæmdur þá dæmdur með. Á árinu 1999 gekkst ákærði undir sátt fyrir brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni. Síðar sama ár var ákærði dæmdur í 12 mánaða fangelsi, þar af 9 mánuði skilorðsbundið fyrir skjalafals, þjófnað, nytjastuld og brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni. Var dómurinn frá 1999 þá dæmdur með. Ákærði gekkst undir viðurlagaákvörðun á árinu 2001 fyrir brot gegn umferðarlögum og aftur á árinu 2002. Sama ár gekkst hann undir sátt fyrir þjófnað. Á árinu 2003 gekkst hann í janúar undir sátt fyrir brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni. Í janúar það ár var hann dæmdur í 12 mánaða fangelsi, þar af 9 mánuði skilorðsbundið, fyrir hylmingu, húsbrot, eigna­spjöll, þjófnað, brot gegn umferðarlögum og lögum um ávana- og fíkniefni. Síðar sama ár var honum ekki gerð refsing fyrir húsbrot, líkamsárás, þjófnað og brot gegn umferðarlögum. Loks var hann í desember það ár dæmdur í 14 mánaða fangelsi fyrir þjófnað, hylmingu, brot gegn umferðarlögum og brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni. Var skilorðsdómurinn frá 2003 þá dæmdur með. Ákærða var veitt reynslulausn í 1 ár á eftirstöðvum refsingar 140 dögum. Ákærði rauf skilyrðið og lauk afplánun dómsins í lok október 2005. Ákærði gekkst undir sátt 28. janúar 2004 fyrir brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni. Þá var honum ekki gerð sérstök refsing í dómi 2004 fyrir brot gegn umferðarlögum og lögum um ávana- og fíkniefni. Loks var hann dæmdur í 30 daga skilorðsbundið fangelsi 7. febrúar 2005. Ákærði hefur með brotum þeim er um getur í máli þessu rofið skilorð refsidómsins frá 7. febrúar 2005. Verður dómurinn nú tekinn upp eftir reglum 60. gr. laga nr. 19/1940 og ákærða ákvörðuð refsing í einu lagi eftir ákvæðum 77. gr. laga nr. 19/1940. Brot ákærða í máli þessu eru umtalsverð, en hann hefur lagt í vana sinn að brjótast inn í bifreiðar og stela þaðan ýmsu. Hefur hann með slíku hátterni valdið fjölda manns tilfinnanlegu tjóni. Er ljóst að hann hefur með slíku framferði fjármagnað fíkniefnaneyslu sína, en af rannsóknargögnum málsins má ráða að líf ákærða hefur á tíðum einkennst af mikilli óreglu. Á hann sér engar málsbætur. Er refsing ákærða, sbr. 2. mgr. 74. gr. og 77. gr. laga nr. 19/1940, ákveðin fangelsi í 2 ár, sem að engu leyti verður  bundið skilorði. Frá refsingu dregst gæsluvarðhaldsvist ákærða frá 20. maí 2005 til 10. júní s.á.

             Með vísan til lagaákvæða í ákæru eru upptæk gerð til ríkissjóðs 6,89 g af amfetamíni, sem lagt var hald á við rannsókn málsins.

             Skaðabótakröfum Íslandstryggingar hf., Intrum á Íslandi hf. og M, er vísað frá dómi, á grundvelli reglna um samaðild, en þeim hefur einnig verið beint að aðila sem ekki tekur til varna í því máli sem hér er dæmt í. Þá er skaðabótakrafa V vanreifuð, sem leiðir til frávísunar hennar frá dómi.

             Í málinu liggur frammi sakarkostnaðaryfirlit lögreglustjóra að fjárhæð 181.590 krónur. Um er að ræða kostnað vegna matsgerða Rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræðum er fram hafa farið vegna ákærða. Verður hann dæmdur til að greiða þann kostnað. Þá var verjanda ákærða á fyrri stigum greitt fyrir verjandastörf í málinu, en ákærði var þá farinn til útlanda. Nemur fjárhæð þeirra starfa 467.124 krónum. Ákærði verður dæmdur til að greiða þann kostnað. Að auki greiði ákærði málsvarnar­laun skipaðs verjanda síns, að viðbættum virðisaukaskatti, með þeim hætti er í dóms­orði greinir.

             Ákæra í máli ákæruvaldsins gegn Birni Bender og A var þingfest í héraðsdómi 15. desember 2005. Í framhaldi hvarf ákærði af landi brott og var þáttur meðákærðu klofinn frá málinu 24. febrúar 2006. Þar sem ákærði kom ekki til landsins var málið sent lögreglustjóra á ný 5. september 2006. Þann 13. febrúar sl. var málið endursent héraðsdómi þar sem ákærði var þá á ný kominn til landsins. 

             Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Einar Laxness fulltrúi lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu.

Símon Sigvaldason héraðsdómari kvað upp dóminn.

 

D ó m s o r ð:

             Ákærði, Björn Bender, sæti fangelsi í 2 ár. Frá refsingu dregst gæslu­varð­haldsvist ákærða frá 20. maí 2005 til 10. júní s.á.

             Skaðabótakröfum Íslandstryggingar hf., Intrum á Íslandi hf., M og C, er vísað frá dómi.

             Upptæk eru gerð til ríkissjóðs 6,89 g af amfetamíni, sem lagt var hald á við rannsókn málsins.

             Ákærði greiði 855.882 krónur í sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns Bjarna Haukssonar héraðsdómslögmanns, 207.168 krónur.