Hæstiréttur íslands

Mál nr. 113/2005


Lykilorð

  • Kærumál
  • Útburðargerð
  • Frávísunarúrskurður staðfestur


Miðvikudaginn 6

 

Miðvikudaginn 6. apríl 2005.

Nr. 113/2005.

Runólfur Björn Gíslason

(Jörundur Gauksson hdl.)

gegn

Auðsholti ehf.

(Guðmundur Kristjánsson hrl.)

 

Kærumál. Útburðargerð. Frávísunarúrskurður staðfestur.

R krafðist þess fyrir dómi að ógilt yrði ákvörðun sýslumanns um að bera mætti hann út af jörðinni A. Talið var að svo verulegir annmarkar hafi verið á málsmeðferð sýslumanns að dómur yrði ekki lagður á málið og var því vísað frá dómi.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Hrafn Bragason og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Sóknaraðili skaut máli þessu til Hæstaréttar með kæru 7. mars 2005, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 16. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 22. febrúar 2005, þar sem vísað var frá dómi máli sóknaraðila á hendur varnaraðila. Kæruheimild er í 4. mgr. 91. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, sbr. 102. gr. laga nr. 92/1991. Sóknaraðili krefst þess að lagt verði fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili kærði úrskurðinn fyrir sitt leyti 10. mars 2005. Hann krefst staðfestingar úrskurðar héraðsdóms að öðru leyti en því að sóknaraðila verði gert að greiða honum málskostnað í héraði. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Eins og fram kemur í hinum kærða úrskurði voru verulegir annmarkar á málsmeðferð sýslumannsins á Selfossi er leiða til þess að málið er í þannig horfi að ekki verður dómur á það lagður. Verður því staðfest niðurstaða hins kærða úrskurðar.   

Rétt er að sóknaraðili greiði varnaraðila kærumálskostnað sem verður ákveðinn eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Runólfur Björn Gíslason, greiði varnaraðila, Auðsholti ehf., 100.000 krónur í kærumálskostnað. 

 

 

Úr­skurður Héraðs­dóms Suður­lands 22. febrúar 2005.

            Sóknaraðili er Runólfur B. Gíslason, kt. 271256-7799, Auðsholti, Ölfushreppi en varnaraðili Auðsholt ehf., kt. 560802-2340, Borgarhrauni 27, Hveragerði,

            Sóknaraðili gerir þær kröfur aðallega að dómurinn ógildi ákvörðun sýslumannsins á Selfossi frá 8. nóvember 2004 um að útburður og fjárnám fari fram, en sóknaraðili mun vera gerðarþoli í útburðarmáli nr. 033-2004/0004.  Til vara er þess krafist að dómurinn úrskurði að framkvæmd gerðanna frestist meðan sóknaraðili beri lögmæti þeirra undir Hæstarétt.  Þá er þess krafist að varnaraðili verði úrskurðaður til að greiða sóknaraðila málskostnað vegna þess kostnaðar sem stofnast hafi vegna aðalkröfu en málskostnaður falli niður verði varakrafan tekin til greina.

            Framangreind krafa og meðfylgjandi gögn bárust dóminum 26. nóvember s.l. Málið var þingfest 17. desember s.l. og mætti þá varnaraðili og tók til varna. Varnaraðili skilaði greinargerð 12. janúar s.l. og krafðist þess aðallega að málinu yrði vísað frá dómi, en til vara að öllum kröfum sóknaraðila yrði hafnað.  Málið var flutt munnlega um frávísunarkröfu varnaraðila 3. febrúar s.l. og þá tekið til úrskurðar um þá kröfu.

            Samkvæmt gögnum málsins var varnaraðili hæstbjóðandi í fasteignina Auðsholt við nauðungarsölu hennar 22. september 2003 og var boð hans samþykkt af hálfu sýslumannsins á Selfossi.  Með símskeyti dagsettu 10. desember 2003 og mótteknu daginn eftir af sóknaraðila var honum tilkynnt að  honum og fjölskyldu hans bæri þá þegar og eigi síðar en 15. janúar 2004 að víkja af eigninni, rýma hana og taka með allt sem þeim sannanlega tilheyrði.  Sóknaraðili fór ekki eftir þessum tilmælum varnaraðila  og var af því tilefni krafist útburðar á sóknaraðila.   Með úrskurði dómsins upp kveðnum 30. mars s.l. var fallist á kröfu um útburð á sóknaraðila þessa máls og sú niðurstaða var staðfest í Hæstarétti 3. júní s.l.

            Að fenginni þessari niðurstöðu var málið tekið fyrir hjá sýslumanninum á Selfossi nokkrum sinnum en við fyrirtöku 6. júlí s.l. undirrituðu aðilar samkomulag um skil og nýtingu jarðarinnar Auðsholts í Ölfusi.  Samkvæmt 4. gr. samningsins skyldi umferð og viðvera sóknaraðila á jörðinni eingöngu miðast við nauðsynlega starfsemi við eggjaframleiðslu hans og annars þess sem nánar var tilgreint í samningnum.  Var búseta eða gisting sóknaraðila, fjölskyldu hans eða fólks á hans vegum óheimil á jörðinni.  Samkvæmt 5. gr. samningsins skyldi sóknaraðili vera búinn að fjarlægja allt rusl og annað lausadót af jörðinni fyrir kl. 12, þriðjudaginn 17. ágúst s.l. Gengi það ekki eftir, félli leiga þegar úr gildi, en umsaminn leigutími var til 28. febrúar 2005.  Samkvæmt 7. gr. samkomulagsins miðaðist framangreindur leigutími við frestun útburðar sóknaraðila af jörðinni að sama skapi. Yrði útburðinum fullnægt tafarlaust yrði ekki staðið við gefna dagsetningu.  Sama skyldi gilda félli samkomulagið úr gildi fyrr af  ástæðum sem greindar voru í samningnum.

            Þar sem varnaraðili taldi að sóknaraðili hefði vanefnt 4. og 5. gr. samningsins tilkynnti hann sóknaraðila að samningurinn væri úr gildi fallinn með vísan til 7. gr. hans og tilkynnti jafnframt um fyrirtöku hjá sýslumanni 22. október s.l. þar sem útburðarkrafa yrði tekin fyrir.  Við fyrirtöku þann dag urðu aðilar ásáttir um að íbúðarhúsið yrði tæmt fyrir 29. október s.l. og jörðin rýmd fyrir utan 3 hús sem sóknaraðili hafði á leigu í samræmi við samkomulagið frá 6. júlí s.l., fyrir kl. 14:00 þann 8. nóvember s.l.  Þá er bókað að sóknaraðili samþykki að flytja lögheimili sitt fyrir 25. október s.l.  Var málinu því frestað til fyrirtektar 8. nóvember s.l. kl. 14:00.  Lögmaður sóknaraðila lét bóka að hann mótmælti framgangi gerðarinnar þar sem aðfararheimildin væri ekki lengur til staðar sökum þess að málinu hefði lokið með samkomulagi aðila 6. júlí s.l.  Verði því ekki lengur byggt á aðfararheimildinni og ekki 2. mgr. 1. gr. laga nr. 90/1989 um að fjárnám verði gert fyrir kostnaði.  Lögmaður varnaraðila mótmælti þessum skilningi og krafðist þess að útburður og fjárnám færi fram.  Er síðan bókað að ákvörðun verði tekin 8. nóvember s.l. kl. 14:00 um framhald gerðarinnar og samþykktu aðilar að verða ekki boðaðir til þeirrar fyrirtöku.  Sýslumaður tók málið fyrir 8. nóvember s.l. og er þá bókað að þar sem upplýst sé að samkomulag aðila frá 6. júlí s.l. hafi ekki verið haldið af hálfu sóknaraðila verði gerðinni fram haldið, bæði útburði og fjárnámi.  Var næsta fyrirtaka ákveðin að Auðsholti og lagt fyrir varnaraðila að boða til gerðarinnar í samráði við fulltrúa sýslumanns.  Með bréfi dagsettu 17. nóvember s.l. til sýslumannsins á Selfossi krafðist sóknaraðili þess að sýslumaður staðfesti heimild til að bera ákvörðun hans undir héraðsdóm með vísan til 2. mgr. 85. gr. laga nr. 90/1989.  Sýslumaður tók málið fyrir 24. nóvember s.l. að málsaðilum fjarstöddum.  Er þá bókað að með vísan til 85. gr., sbr. 86. gr. aðfararlaga að kæra sóknaraðila fresti ekki framgangi útburðar eða fjárnámsbeiðnar.  Málið er enn tekið fyrir hjá sýslumanni daginn eftir og er þá mættur lögmaður sóknaraðila en enginn af hálfu varnaraðila.  Sóknaraðili ítrekaði beiðni um staðfestingu sýslumanns á að hann mætti bera ágreiningsefni undir héraðsdóm.  Fulltrúi sýslumanns staðfesti að slíkt væri heimilt með vísan til 86. gr. aðfararlaga.

            Sóknaraðili byggir á því að samkvæmt 2. mgr. 85. gr. aðfararlaga sé gerðarþola heimilt að krefjast úrlausnar héraðsdómara um réttmæti ákvarðana sýslumanns, þar sem gerðunum hafi verið frestað í kjölfar ákvörðunar um að þær færu fram ef eða þegar gerðarbeiðandi óskaði þess.  Ekki sé áskilið að frestunin hafi komið til af einhverjum sökum og þá liggi fyrir staðfesting sýslumanns á að lagaskilyrði séu fyrir því að gerðarþola (sóknaraðila) sé heimilt að krefjast úrlausnar dómsins.

            Sóknaraðili byggir á því að útburðargerð í kjölfar Hæstaréttardómsins frá 3. júní s.l. hafi lokið með samningi milli aðila 6. júlí s.l.  Hafi stofnast nýtt réttarsamband við gerð samningsins og útburðargerð fyrir sýslumanni þar með lokið endanlega.

            Þá byggir sóknaraðili á því að einstök efnisákvæði í umræddum samningi um réttaráhrif ætlaðra vanefnda á ákvæðum samningsins standist ekki ákvæði aðfararlaga.  Sú grunnregla gildi að aðilar aðfarargerðar hafi ekki forræði á form- og efnisskilyrðum aðfarargerða og geti undir engum kringumstæðum hliðrað til skilyrðum með samningum sín á milli.  Sé þannig hvorki á valdi aðilanna að semja með bindandi hætti um að tilteknum réttindum gerðarbeiðanda verði fullnægt með beinni aðfarargerð án tillits til almennra skilyrða fyrir því, né að binda hendur sínar með samningi að beinni aðfarargerð verði ekki beitt.

            Sóknaraðili byggir á því að gerð sýslumanns hafi lokið með samningi aðila 6. júlí s.l. og telji varnaraðili að kröfur hans séu það skýrar og ótvíræðar að honum sé heimilt að krefjast beinnar aðfarargerðar á grundvelli 12. kafla aðfararlaga sé ljóst að honum beri að fullnægja skilyrðum 11. gr. laganna og leggja beiðni sína fyrir héraðsdóm.  Hvergi sé gerður fyrirvari í bókun sýslumanns um að gerðinni hafi verið frestað ótímabundið, enda hefði slíkur fyrirvari ekki staðist ákvæði aðfararlaga.  Hafi varnaraðila því borið að senda nýja beiðni til héraðsdóms en ekki beint til sýslumanns.  Verði að hafa í huga að beinar aðfarargerðir feli í sér undantekningu frá þeirri grundvallarreglu að ekki sé heimilt að framkvæma aðför án undangenginnar dómsúrlausnar.  Beri að túlka allan vafa um slíka heimild gerðarþola í hag svo tryggt sé að hann fái að koma að öllum vörnum áður en málið kemur til kasta sýslumanns.  Hafi sýslumanni því borið að vísa beiðni varnaraðila frá í stað þess að taka hana fyrir.

            Sóknaraðili byggir á því að ljóst sé að skilyrðum 12. kafla aðfararlaga sé ekki fullnægt þar sem réttarstaða varnaraðila sé langt frá því að vera svo skýr að hann geti sannað réttmæti krafna sinna á grundvelli sönnunargagna sem heimilt sé að leggja fram á grundvelli 83. gr. laganna.  Varnaraðili hafi engin gögn lagt fram til stuðnings þeirri fullyrðingu að sóknaraðili hafi vanefnt ýmsar skyldur sínar samkvæmt samningnum frá 6. júlí s.l.  Sé því ljóst að varnaraðili geti ekki sýnt fram á réttmæti krafna sinna með þeim sönnunargögnum sem heimilt sé að byggja á við framkvæmd aðfarargerðar.  Verði hann því að fá dóm fyrir kröfum sínum áður en hann leitar beinnar aðfarar.  Þá sé enginn grundvöllur fyrir þeirri niðurstöðu sýslumanns að upplýst sé að sóknaraðili hafi ekki haldið umrætt samkomulag, enda hafi engin sönnunarfærsla farið fram fyrir sýslumanni.

            Sóknaraðili byggir einnig á því að telji varnaraðili að sóknaraðili hafi vanefnt skyldur sínar samkvæmt samkomulaginu hefði honum borið að freista þess að leita hefðbundinna einkaréttarlegra vanefndaúrræða, t.d. skaðabóta eða riftunar á samningi.

            Sóknaraðili getur ekki séð hvaða hagsmuni varnaraðili hafi af því að fá útburðarkröfu viðurkennda, enda hafi sóknaraðili vikið af jörðinni og hafi varnaraðili fengið umráð allra húsa þar nema þriggja hænsnahúsa sem hann hafi á leigu í samræmi við samninginn frá 6. júlí s.l.

            Sóknaraðili mótmælir ákvörðun sýslumanns um að fjárnámsgerð skyldi fram fara og telur enga lögmæta aðfararheimild liggja fyrir.

            Varnaraðili byggir frávísunarkröfu sína á því að frá og með 8. nóvember s.l. hafi af hálfu sýslumannsins á Selfossi ekki verið farið eftir réttum reglum aðfararlaga við fyrirtöku og meðferð aðfararbeiðnar varnaraðila.  Hafi fulltrúi sýslumanns tekið þá ákvörðun að aðilum og lögmönnum þeirra fjarstöddum að gerðinni skyldi fram haldið, bæði útburði og fjárnámi.  Sé bókað að næsta fyrirtaka verði að Auðsholti, Ölfusi og var lagt fyrir gerðarbeiðanda að boða til gerðarinnar í samráði við fulltrúa sýslumanns.  Fyrirtökur fulltrúa sýslumanns 24. nóvember og 25. nóvember s.l. hafi verið án vitneskju varnaraðila og telur varnaraðili þessa málsmeðferð sýslumanns andstæða skýrum fyrirmælum 85. gr. og 86. gr. aðfararlaga og meginreglunni um jafnræði aðila við meðferð máls.  Hafi varnaraðili ekki átt þess kost að gæta lögvarins réttar síns og lögvarinna hagsmuna sinna við meðferð málsins hjá sýslumanni frá og með 8. nóvember s.l. og þar til sóknaraðili skaut því til héraðsdóms.  Geti einungis sýslumaður bætt úr þessum annmörkum og verði ekki fram hjá því litið.  Að mati varnaraðila er ógildingarkrafa sóknaraðila því ekki tæk til meðferðar fyrir dómi og beri því að vísa henni frá.

 

Niðurstaða.

            Í máli þessu er ágreiningur með aðilum um réttaráhrif samkomulags sem tókst  með þeim 6. júlí s.l. í kjölfar kröfu varnaraðila um útburð á sóknaraðila.  Heldur sóknaraðili því fram að útburðargerðinni hafi lokið með samkomulaginu og þurfi varnaraðili því að beina nýrri kröfu um aðför til dómsins á grundvelli 12. kafla aðfararlaga.  Varnaraðili krefst þess að kröfugerð sóknaraðila verð vísað frá dómi og verður í þessum úrskurði einungis tekin afstaða til þeirrar kröfu.

            Samkvæmt 2. mgr. 85. gr. aðfararlaga er gerðarþola því aðeins heimilt að krefjast úrlausnar héraðsdómara um einstakar ákvarðanir sýslumanns um aðfarargerð, meðan henni er ólokið, að gerðarbeiðandi samþykki eða gerðinni hafi verið frestað í kjölfar ákvörðunarinnar, enda hafi gerðarþoli þá kröfu uppi við sýslumann áður en lengra er haldið við gerðina.  Samkvæmt 1. mgr. 86. gr. sömu laga frestast gerðin að því leyti, sem  hún er háð viðkomandi ákvörðun ef málsaðili krefst úrlausnar héraðsdómara með þeim hætti sem í 1.-3. mgr. 85 gr. segir.  Skal sýslumaður bóka nákvæmlega hver sú ákvörðun er, sem krafist er úrlausnar héraðsdómara um, og hverjar kröfur aðilar gera.  Skulu jafnframt bókaðar í stuttu máli röksemdir, sem þeir færa fyrir kröfum sínum.  Í máli þessu er ljóst að varnaraðili, gerðarbeiðandi í útburðarmálinu, hefur ekki samþykkt að leitað verði úrlausnar dómsins um ágreiningsefni aðila.

            Frávísunarkrafa varnaraðila er á því reist að málsmeðferð fulltrúa sýslumanns hafi verið andstæð skýrum fyrirmælum 85. og 86. gr. aðfararlaga og meginreglunni um jafnræði aðila við meðferð máls.  Hafi varnaraðili ekki átt þess kost að gæta lögvarins réttar síns og lögvarinna hagsmuna við meðferð málsins hjá sýslumanni frá og með 8. nóvember s.l.  Hafi varnaraðili enga vitneskju haft um síðari fyrirtökur málsins.

            Í 23. gr. aðfararlaga kemur fram sú meginregla að ekki verði af aðför, nema gerðarbeiðandi sé viðstaddur eða annar maður, sem að lögum er heimilt að koma fram fyrir hans hönd.  Undantekning er gerð í 2. mgr. greinarinnar, en hún á ekki við hér.  Ljóst er að viðveru gerðarbeiðanda er þörf, m.a. í því skyni að taka afstöðu til álitaefna sem risið geta við framkvæmd gerðarinnar.  Er ekki ráð fyrir því gert að sýslumaður geti gætt hagsmuna gerðarbeiðanda að þessu leyti.  Við fyrirtöku hjá sýslumanni 22. október s.l. komu fram mótmæli frá gerðarþola, sóknaraðila máls þessa, gegn framgangi útburðargerðarinnar.  Var þá bókað að ákvörðun yrði tekin 8. nóvember s.l. og samþykktu aðilar að vera ekki boðaðir til þeirrar fyrirtöku.  Við fyrirtöku þann dag tók sýslumaður þá ákvörðun að halda gerðinni áfram og bókaði að lagt yrði fyrir gerðarbeiðanda að boða til gerðarinnar í samráði við fulltrúa sýslumanns.  Ljóst er hins vegar að fyrirtökurnar hjá sýslumanni 24. og 25. nóvember s.l. í kjölfar kröfu sóknaraðila um að bera ákvörðun sýslumanns undir dóm fóru fram án vitundar varnaraðila og reyndi því ekki á það hvort hann heimilaði sóknaraðila að bera ágreiningsefni undir úrlausn dómsins og þá átti varnaraðili þess ekki kost að láta í ljós afstöðu sína til kröfu sóknaraðila um frestun gerðarinnar.  Verður því að telja að ekki hafi verið farið að fyrirmælum 14. kafla aðfararlaga, sbr. einnig 23. gr. sömu laga, þegar þess var freistað af hálfu sóknaraðila að skjóta ágreiningi aðila til dómsins og ber því að vísa máli þessu frá dómi.

            Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður falli niður.

            Hjörtur O. Aðalsteinsson, héraðsdómari, kveður upp úrskurð þennan.

Úrskurðarorð:

            Máli þessu er vísað frá dómi.

            Málskostnaður fellur niður.