Hæstiréttur íslands
Mál nr. 88/2010
Lykilorð
- Lögreglurannsókn
- Hæfi
- Stjórnsýsla
- Brot gegn valdstjórninni
- Hættubrot
- Lögreglumaður
|
|
Fimmtudaginn 9. desember 2010. |
|
Nr. 88/2010. |
Ákæruvaldið (Sigríður Elsa Kjartansdóttir settur vararíkissaksóknari) gegn X (Hróbjartur Jónatansson hrl.) |
Lögreglurannsókn. Hæfi. Stjórnsýsla. Brot gegn valdstjórninni. Hættubrot. Lögreglumenn.
X var ákærður fyrir brot gegn 1. mgr. 106. gr. og 4. mgr. 220. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, með því að hafa ekki sinnt fyrirmælum lögreglu um að ræða við sig, hafa sest upp í bifreið sína og ekið ógætilega í átt að lögreglumanni. Í dómi Hæstaréttar segir meðal annars að ákvörðun lögreglumannanna fjögurra, um að fara til heimilis ákærða umrætt sinn, hefði ekki staðið í tengslum við rannsókn tiltekins brots eða það að grunur hefði beinst að ákærða um refsiverða háttsemi. Yrði hvorki talið sannað að lögreglumennirnir hefðu gert grein fyrir sér í samræmi við ákvæði reglugerðar um lögregluskilríki áður en ákærði lokaði bifreið sinni og ók af stað, né heldur að ákærði hefði mátt sjá lögregluskilríki þeirra vegna myrkurs og fjarlægðar. Var ákærði því sýknaður af ákæru um brot á 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga. Þá segir einnig í dómi Hæstaréttar að þótt lagt yrði til grundvallar að ákærði hefði ekið hratt af stað og að atvik málsins hefðu orðið á litlu svæði yrði, eins og ákært var í málinu, ekki talið sannað að hann hefði haft ásetning til brots í ljósi þess að lögreglumaðurinn hefði líklegast hlaupið fyrir bifreiðina er hún var komin af stað. Yrði ákærði því einnig sýknaður af ákæru um brot á 4. mgr. 220. gr. almennra hegningarlaga. Hins vegar taldi Hæstiréttur að X hefði brotið gegn 1. mgr. 5. gr. a umferðarlaga nr. 50/1987, með því að hafa ekið yfir autt svæði á milli bílastæða við heimili ákærða og nærliggjandi akbrautar. Var ákærða gert að greiða 5.000 krónur í sekt til ríkissjóðs.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Páll Hreinsson og Viðar Már Matthíasson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 15. febrúar 2010 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að ákærði verði sakfelldur samkvæmt ákæru, en refsing hans þyngd.
Ákærði krefst aðallega ómerkingar hins áfrýjaða dóms og að málinu verði vísað frá héraðsdómi. Til vara að staðfest verði niðurstaða héraðsdóms um sýknu hans af broti gegn 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og að hann verði jafnframt sýknaður af broti gegn 4. mgr. 220. gr. sömu laga og 1. mgr. 5. gr. a. umferðarlaga nr. 50/1987. Að því frágengnu krefst hann þess að refsing hans verði milduð.
I
Frávísunarkrafa ákærða er einkum reist á þremur röksemdum.
Í fyrsta lagi á því að lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hafi ekki mátt stjórna rannsókn málsins þar sem ætluð refsiverð háttsemi ákærða hafi beinst gegn lögreglumanni við embættið. Hefði átt að fela öðru lögregluembætti að fara með rannsókn málsins svo fyllsta hlutleysis yrði gætt. Sé ótækt fyrir ákærða að sæta því að starfsfélagar og vinir ætlaðs brotaþola hafi rannsakað brot það, sem ákært er fyrir. Skipti hér engu þótt embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu sé deildaskipt, svo sem þó ráði úrslitum um afstöðu héraðsdóms til þessa álitaefnis. Ákærði vísar til ýmissa dóma Hæstaréttar um þetta og kveður að í þeim hafi ekki verið tekin afstaða til nokkurra mannréttindasjónarmiða sem hann telur eiga við í sínu tilviki. Þá hafi ekki verið fjallað um mikilvægt ákvæði í 2. mgr. 53. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, sem mæli fyrir um að þeir, sem rannsaki mál, skuli vinna að því að hið sanna og rétta komi í ljós og gæta jafnt að þeim atriðum sem horfa til sýknu og sektar. Bendir ákærði á, að sú staðreynd að rannsókn máls hafi verið í höndum samstarfsmanns ætlaðs brotaþola leiði til þess að draga megi með réttu í efa óhlutdrægni þess sem rannsóknina hafi annast. Verði í þessu sambandi að horfa til reglna um ,,réttláta málsmeðferð, sbr. 6. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu ... sem ætlað er að tryggja réttaröryggi, þ.á m. þeirra sem bornir eru sökum um refsiverða háttsemi.“ Eigi þetta meðal annars við um rannsókn mála hjá lögreglu. Þá vísar ákærði einnig til 1. mgr. 35. gr. lögreglulaga nr. 90/1996 með síðari breytingum, sem hann telur mæla fyrir um að haga beri rannsókn máls, þar sem lögreglumenn eiga í hlut, þannig að ekki bresti trúnaður milli lögreglu og almennings í landinu.
Í öðru lagi styður ákærði frávísunarkröfu sína við þau rök, að það fari í bága við 1. tölulið 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að ætlaður brotaþoli hafi skráð frumskýrslu lögreglu í málinu. Aðrar lögregluskýrslur, sem síðar hafi verið teknar við rannsókn málsins, hafi verið byggðar á frumskýrslunni. Telur ákærði að ekki sé af þessum ástæðum unnt að byggja á rannsókn þeirri, sem fram fór á vegum lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu.
Í þriðja lagi telur ákærði að vísa eigi málinu frá héraðsdómi þar sem rannsókn þess hjá lögreglu hafi verið verulega ábótavant og að mikill dráttur hafi orðið á rannsókninni. Þannig hafi áðurnefnd frumskýrsla lögreglu verið gerð í nóvember eða desember 2007. Skýrsla af ákærða hafi fyrst verið tekin 14. febrúar 2008 og sé það eina lögregluskýrslan sem tekin hafi verið í málinu á því ári. Skýrslur af öðrum lögreglumönnum hafi verið teknar í apríl og maí 2009. Ekki hafi verið tekin skýrsla hjá lögreglu af eiginkonu ákærða, sem þó hafi verið með honum er ætlað brot var framið, engin rannsókn hafi farið fram á ætluðum brotavettvangi, sem þó hafi verið þýðingarmikið og ekki hafi verið rannsakaðar fullyrðingar ákærða um að til væru í skrám lögreglu upplýsingar um að hann hefði áður sætt hótununum og ofbeldi af hálfu misindismanna og að þeir teldu sig eiga óuppgerðar sakir við hann.
II
Í máli þessu er ákært fyrir háttsemi, sem talin er brot á 1. mgr. 106. gr. og 4. mgr. 220. gr. almennra hegningarlaga, og talin er hafa beinst gegn lögreglumanni við embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu. Lögreglumaður þessi ritaði frumskýrslu um atvik máls, en rannsóknarlögreglumenn við sama lögregluembætti tóku skýrslur af ákærða og vitnum, sbr. 1. mgr. 58. gr. laga nr. 88/2008. Í dómi Hæstaréttar 19. apríl 2010 í máli nr. 155/2010 er því slegið föstu að vanhæfi þess lögreglumanns, sem ætlað brot hefur beinst gegn, sbr. 1. tölulið 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga hafi ekki sjálfkrafa þau áhrif að yfirmaður hans eða samstarfsmenn teljist vanhæfir. Í samræmi við það, sem gert er í téðum dómi, verður að meta það á grundvelli 6. töluliðar 1. mgr. sömu greinar laganna, hvort fyrir hendi séu þau atvik, önnur en greinir í 1. til 5. tölulið málsgreinarinnar, sem fallin eru til þess að draga í efa óhlutdrægni lögreglustjórans og þeirra rannsóknarlögreglumanna sem rannsókn önnuðust. Um það hefur ákærði ekki vísað til annars en að ætlaður brotaþoli og rannsóknarlögreglumennirnir vinni hjá sama lögreglustjóraembætti og til 2. mgr. 53. gr. laga nr. 88/2008. Slík starfstengsl valda því hvorki ein og sér að rannsóknarlögreglumennirnir teljist vanhæfir til að rannsaka málið né að lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu geti stjórnað rannsókninni. Þótt rannsókn lögreglu hafi verið áfátt að ýmsu leyti, eins og síðar greinir, verður ekki fallist á að ekki hafi verið farið eftir hlutlægnisreglu 2. mgr. 53. gr. laga nr. 88/2008. Þá er þess að gæta að ríkissaksóknari, en ekki lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu, lagði mat á hvort höfða skyldi málið og gaf út ákæru, sbr. 145. gr. laga nr. 88/2008. Dómur í málinu verður reistur á sönnunargögnum, sem færð eru fram við meðferð þess fyrir dómi og framburði í skýrslum, sem þar eru teknar, en ekki á lögreglurannsókn umfram það sem heimilað er í 3. mgr. 111. gr. laga nr. 88/2008. Verður málinu ekki vísað frá dómi af þessum ástæðum.
Það leiðir heldur ekki til frávísunar málsins þótt lögreglumaður sá, sem hin ætluðu brot beinast gegn, hafi gert frumskýrslu um atvik máls. Ef til kæmi, yrði sönnunargildi þeirrar skýrslu við úrlausn málsins metið í ljósi þeirrar stöðu sem skýrsluritari hefur í málinu.
Fallist er á með ákærða að rannsókn lögreglu hafi verið áfátt í ýmsum atriðum. Rétt hefði verið að lögregla gerði uppdrátt af vettvangi til skýringar á aðstæðum við innganga að fjöleignarhúsinu [...] í Reykjavík og bílastæði því, sem kemur við sögu í málinu, svo og þeirri leið sem lögreglumennirnir þurftu að fara áður en þeir komu að bifreið ákærða. Þá hefði verið rétt að taka skýrslu af eiginkonu ákærða, sem var með honum er atvik málsins áttu sér stað. Þessir ágallar valda ekki ómerkingu héraðsdóms og frávísun málsins. Þótt alvarlegur dráttur, sem á engan hátt er skýrður í gögnum málsins, hafi orðið á því að lögreglurannsókn yrði lokið, leiðir það ekki til frávísunar þess, en hefur í ýmsum dómum Hæstaréttar haft áhrif til mildunar refsingar, sbr. dóm réttarins 25. september 2008 í máli nr. 96/2008.
III
Ástæða þess að lögreglumennirnir fjórir fóru til heimilis ákærða að [...] að kvöldi 12. nóvember 2007 tengdist hvorki rannsókn tiltekins brots né því að grunur hefði beinst að ákærða um refsiverða háttsemi. Af skýrslum lögreglumannanna A og B má ráða að lögreglumennirnir hafi verið í svo nefndum götueftirlitshópi fíkninefnadeildar og verið á ferð um Breiðholt. Er þau hafi ekið skammt frá heimili ákærða og eiginkonu hans hafi verið tekin ákvörðun um að athuga hvort þau væru heima og hvort það væri eitthvað ,,þarna í gangi“. Er lögreglumennirnir komu að inngangi norðanmegin við fjöleignarhúsið urðu þeir varir við að ákærði og eiginkonu hans, sem mun hafa verið vanfær og gengin sjö mánuði með barn að hennar sögn, voru á leið út um útgang sunnan megin á húsinu, en sá útgangur veit að bílastæðum og bílageymslum. Hafði ákærði lagt bifreið sinni á bílastæði skammt frá innganginum. Í skýrslu fyrir héraðsdómi kvaðst A telja að ákærði hefði ekki séð lögreglumennina er hann gekk niður í anddyri fjöleignarhússins og út um suðurdyrnar. Lögreglumennirnir ákváðu að hafa tal af ákærða en gáfu honum þó ekki merki um það, er þeir sáu hann koma niður í anddyrið, heldur ákváðu að fara vestur fyrir húsið og ná tali af honum á bílastæðinu. Af framburði lögreglumannanna fyrir dómi verður ráðið að ákærði hafi verið við það að fara inn í bifreið sína, er þeir sem fyrstir fóru komu suður fyrir vesturhlið hússins og inn á bílastæðið. Lögreglumennirnir fullyrða að þeir hafi kallað til ákærða er þeir sáu hann. Í hinum áfrýjaða dómi er talið sannað að lögreglumennirnir hafi kallað til ákærða að þeir væru lögreglumenn. Verður sú niðurstaða, sem reist er á munnlegum framburði gefnum fyrir dómi, ekki vefengd. Í héraðsdómi er einnig talið sannað gegn neitun ákærða og þrátt fyrir vætti eiginkonu hans, að hann hafi vitað að það voru lögreglumenn sem hugðust hafa tal af honum umrætt sinn. Þessi niðurstaða héraðsdóms er á hinn bóginn ekki eingöngu reist á framburði fyrir dómi, heldur einnig á þeim ályktunum sem dómurinn telur sig geta dregið af því að ákærði hafi, er hann hafði ekið í burtu frá lögreglumönnunum, farið skamman veg og skilið bifreið sína eftir við Arahóla 6, Reykjavík og horfið á braut og að hann hafi þekkt einn lögreglumannanna, sem áður hafði haft afskipti af honum. Loks af því að fjarlægðir hafi verið litlar og ákærði mátt heyra hvað lögreglumennirnir sögðu. Ekki er fallist á þessar ályktanir, enda ákærði eða eiginkona hans ekkert spurð um ástæður þess að þau skildu bifreiðina eftir við framangreint hús. Þá er ekkert fram komið um að ákærði hafi getað þekkt einhvern lögreglumannanna, en myrkur var úti og ekkert kemur fram í rannsókninni um lýsingu á staðnum. Ekki verður ráðið af gögnum málsins að ákærði hafi mátt vænta heimsóknar lögreglu á þessum tíma eða geta gert ráð fyrir að lögreglumenn ættu við hann erindi. Þótt niðurstaða héraðsdóms sé lögð til grundvallar um að lögreglumennirnir hafi kallað til ákærða að þeir væru lögreglumenn og vildu hafa tal af honum, skiptir máli í hvaða röð þessar upplýsingar voru kallaðar til ákærða þegar hann var að setjast inn í bifreið sína. Samkvæmt 1. málslið 1. mgr. 6. gr. reglugerðar nr. 1052/2006 um lögregluskilríki bar lögreglumönnunum fyrst að gera ákærða grein fyrir sér þar sem þeir voru óeinkennisklæddir áður en þeir báru upp erindi sitt. B bar að til ákærða hefði fyrst verið kallað hátt og skýrt „X, við ætlum bara að tala við þig, viljum bara tala við þig“. Verður því ekki talið að sannað sé að lögreglumennirnir hafi gert grein fyrir sér í samræmi við framangreindar reglur áður en ákærði lokaði bifreiðinni og ók af stað. Þá verður heldur ekki talið sannað að ákærði hafi mátt sjá lögregluskilríki þeirra vegna myrkurs og fjarlægðar.
Samkvæmt framansögðu verður ekki lagt til grundvallar að ákærða hafi verið ljóst að um lögreglumenn hafi verið að ræða umrætt sinn. Verður hann þegar af þeirri ástæðu sýknaður af ákæru um brot á 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga.
Háttsemi sú, sem ákærða er gefin að sök, er í ákæru einnig talin varða við 4. mgr. 220. gr. almennra hegningarlaga, án þess að aðgreint sé hver hluti hennar teljist brot á því ákvæði. Sá þáttur ætlaðrar brotasamsteypu sem fallið gæti undir síðastnefnt ákvæði felst á því að ákærði hafi á ófyrirleitinn hátt stofnað lífi og heilsu lögreglumannsins B í augljósan háska með því að aka bifreiðinni ógætilega af stað og yfir bílastæðið og út á götuna. Í skýrslu þessa lögreglumanns fyrir dómi kemur fram að hún hafi komið síðust lögreglumannanna suður fyrir húsið og á bílastæðið. Þá hafi ákærði verið kominn inn í bifreiðina og í þann mund ræst hana og ekið óhikað af stað. Kvaðst lögreglumaðurinn hafa ætlað sér að hlaupa fram fyrir bifreiðina og að vinstri hlið hennar. Þótt lagt sé til grundvallar að ákærði hafi ekið hratt af stað og þessi atvik hafi orðið á litlu svæði verður, eins og ákært er í málinu, ekki talið sannað að hann hafi haft ásetning til brots í ljósi þess að lögreglumaðurinn hljóp líklegast fyrir bifreiðina er hún var komin af stað. Verður ákærði því einnig sýknaður af ákæru um brot á 4. mgr. 220. gr. almennra hegningarlaga.
Ákærði hefur viðurkennt að hafa ekið yfir autt svæði milli bílastæðanna og Suðurhóla. Er það brot á 1. mgr. 5. gr. a í umferðarlögum nr. 50/1987 með síðari breytingum. Verður ákærði dæmdur til greiðslu sektar, 5.000 krónur, samkvæmt 1. mgr. 100. gr. sömu laga, sbr. og reglugerð nr. 930/2006 um sektir og önnur viðurlög vegna brota á umferðarlögum og reglum settum samkvæmt þeim. Greiði hann ekki sektina skal hann sæta vararefsingu eins og í dómsorði greinir. Hefur þessi refsiákvörðun ekki áhrif á hinn skilorðsbundna dóm, sem ákærði hlaut í október 2007, sbr. 60. gr. almennra hegningarlaga.
Samkvæmt framansögðu þykir rétt að allur sakarkostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti verði lagður á ríkissjóð, sbr. 1. mgr. 218. gr. og 4. mgr. 220. gr. laga nr. 88/2008. Þar með eru talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða í héraði, eins og þau eru ákveðin í hinum áfrýjaða dómi, og málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans fyrir Hæstarétti, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Ákærði, X, greiði 5.000 krónur í sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá uppkvaðningu dóms þessa en sæti ella fangelsi í tvo daga.
Sakarkostnaður í héraði, sem er málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða þar fyrir dómi, Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns, 75.000 krónur og áfrýjunarkostnaður málsins þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða fyrir Hæstarétti, Hróbjarts Jónatanssonar hæstaréttarlögmanns, 313.750 krónur, greiðist úr ríkissjóði.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 8. janúar 2010.
Málið er höfðað með ákæru ríkissaksóknara, dagsettri 19. nóvember sl. á hendur ákærða, X, kt. [...], [...], Selfossi, „fyrir hegningar- og umferðarlagabrot, með því að hafa, að kvöldi mánudagsins 12. nóvember 2007, á bifreiðastæði við [...] í Reykjavík, stofnað lífi og heilsu lögreglumannsins B, sem var við skyldustörf, á ófyrirleitinn hátt í augljósan háska og hótað henni ofbeldi í verki en ákærði sinnti ekki fyrirmælum lögreglu um að ræða við lögreglu, settist upp í bifreiðina [...] og ók henni hratt og ógætilega af stað í átt að B, sem stóð framan við bifreiðina en komst naumlega undan. Því næst ók ákærði bifreiðinni af vettvangi og yfir umferðareyju, sem skilur að bifreiðastæðið og akbraut Suðurhóla.
Telst þetta varða við 1. mgr. 106. gr. og 4. mgr. 220. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 1. mgr. 5. gr. a og 1. mgr. 13. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“
Af hálfu ákærða er þess krafist að ákærunni verði vísað frá dómi fyrir það að lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafi ekki mátt að rannsaka brot gegn lögreglumönnum úr sama liði. Á það er að líta að lögreglulið höfuðborgarsvæðisins er deildaskipt og rannsóknadeild embættisins annaðist lögreglurannsókn í málinu. Þykir lögreglan á höfuðborgarsvæðinu því hafa mátt annast rannsókn þessa og kröfu ákærða er því synjað.
Málavextir
Fyrir liggur að klukkan 20:17, mánudagskvöldið 12. nóvember 2007, voru fjórir lögreglumenn að störfum við [...], þar sem ákærði átti þá heima, en hann lá undir grun um fíkniefnamisferli. Hús þetta er fjölbýlishús og hagar þannig til að útidyr eru bæði á norður- og suðurhlið þess. Lögreglumennirnir voru við norðurdyrnar og sáu þá inn um glugga við þær hvar ákærði og kona hans komu út úr íbúð sinni á leið út úr húsinu. Þegar þau tvö tóku stefnu á suðurdyrnar hröðuðu lögreglumennirnir sér vestur fyrir húsgaflinn og komu inn á bílastæðið sem er fyrir sunnan húsið en þar voru ákærði og kona hans að ganga stórum og aflmiklum amerískum jeppabíl sem stóð samhliða húsinu á bílastæði. Samkvæmt skýrslu B lögreglumanns gerði A lögreglumaður ákærða viðvart um að þar væri lögregla komin og lyfti upp skilríkjum til þess að sýna þau. Ákærði og kona hans settust inn í bílinn sem og ók ákærði á brott og hafði nærri ekið á B þarna á stæðinu en hún gat áður skotist úr vegi fyrir bílnum. Ók ákærði yfir umferðareyju, sem er á milli bílastæðisins og akbrautarinnar, og svo á brott. Síðar um kvöldið fannst bíll þessi mannlaus við Arahóla, ekki langt frá.
Lagðar hafa verið fram nokkrar ljósmyndir sem ákærði tók og segir vera af vettvangi og hafa lögreglumenn sem komið hafa fyrir dóminn kannast við að þær séu þaðan.
Þá hafa verið lögð fram ýmis gögn frá lögreglu þar sem fram kemur að ákærði átti fyrir nokkrum árum í útistöðum við tvo menn, sbr. hér á eftir.
Verður nú gerð grein fyrir því sem fram hefur komið í meðferð málsins fyrir dómi.
Ákærði játar sök að því er varðar umferðarlagabrotin sem honum eru gefin að sök en tekur þó fram að menn aki almennt yfir umferðareyjuna sem getið er í ákærunni. Ákærði skýrir svo frá að hann hafi verið á leið út með konu sinni í umrætt sinn. Hafi þau fyrst veitt athygli „einhverjum skríl“ við norðurdyrnar sem þau báru ekki kennsl á. Þau hafi losað sig við rusl þar við dyrnar en svo gengið út um suðurdyrnar sem liggja út að bílastæði. Hafi þá allt í einu birst einhverjir menn út úr myrkrinu, 4 5 talsins, og þau þá hlaupið inn í bílinn í fáti. Hafi þeir fremstu í hópnum verið um 4-6 metra frá þeim. Segist hann hafa heyrt köll frá þessum mönnum en ekki orðaskil og engin kennsl borið á þá. Hafi þau kona hans brunað af stað á milli tveggja manna, þó ekkert sérstaklega hratt, beygt til vinstri og ekið út af bílastæðinu yfir umferðareyju, til hliðar við bílskúrslengju, og út á Suðurhóla. Hann segir engan hafa verið fyrir bílnum og þá tekur hann fram að hann hafi ekki gefið vélinni inn fullt afl. Segist ákærði hafa óttast að menn þessir væru misyndismenn úr fortíðinni enda hefði hann áður fengið heimsóknir slíkra manna vegna kvennamála. Nafngreinir ákærði tvo menn í þessu sambandi. Ákærði segist ekki hafa áttað sig á því fyrr en seinna um kvöldið, þegar hann fékk símboð frá lögreglu, að þarna hefðu verið lögreglumenn á ferð. Hann segist svo hafa áttað sig á því þegar hann kynnti sér gögn málsins að einn lögreglumannanna hafi komið áður á heimili hans í sambandi við húsleit. Hann segist þó ekki hafa tekið eftir honum þarna á vettvangi.
C lögreglumaður hefur skýrt frá því að þegar hann hafi komið fram fyrir húsið hafi ákærði verið að fara inn í bíl sinn. Hafi A kallað hátt á ákærða með nafni og að þau væru lögregla og vildu hafa tal af honum. Hafi verið á að giska 10 metrar á milli hans og ákærða þegar hann kallaði. Þá hafi þau öll verið með lögregluskilríki sem þau höfðu annað hvort um hálsinn eða héldu á lofti. Segir vitnið ákærða hljóta að hafa heyrt köllin í A. Hafi ákærði enda litið til þeirra en svo flýtt sér að setjast í bílinn og ekið af stað. Var B þá beint fyrir framan bíl ákærða og náði hún með naumindum að stökkva frá bílnum og kveðst vitnið álíta að ákærði hafi hlotið að sjá hana. Þeir hinir lögreglumennirnir hafi einnig verið mjög nálægt bílnum þegar ákærði ók af stað. Þau hafi hlaupið í lögreglubílinn og hafið eftirför en ekki getað fundið bílinn enda höfðu þau misst sjónar á honum. Skömmu seinna hafi bíllinn þó fundist mannlaus á nærliggjandi götu.
Kona ákærða, D, hefur skýrt frá því að þegar þau voru á leið út hafi hún séð að einhverjir voru við norðurdyr hússins. Þegar út um suðurdyrnar kom hafi ákærði gengið að bílnum, sem stóð við tröppur skammt frá dyrunum, og hún á eftir. Segist hún hafa verið gengin sjö mánuði með barn og einnig verið seinfær af annarri ástæðu sem hún tilgreinir. Því hafi þau ekki farið hratt yfir, enda engin ástæða til þess að því er þau álitu. Hún hafi séð menn koma hlaupandi í átt til þeirra, í um 10 til 15 metra fjarlægð, og þegar þau óku á brott hafi hún séð að tveir menn voru hvor sínu megin við bílinn. Þá hafi tveir aðrir einnig komið upp að hægri hlið bílsins. Hafi bílnum verið beygt þegar til vinstri og ekið yfir bílastæðið og eyju á milli stæðisins og götunnar og út á götuna. Hafi ekki verið ekið óeðlilega hratt en hún segir þó að þeim hafi brugðið við að sjá þessa menn koma að bílnum. Hafi þau haldið að þessir menn gætu verið tengdir ofsóknum sem þau hefðu sætt vegna sifjamálefna. Hafi hún heyrt að nafn ákærða var kallað upp, að hún heldur, en hann hafi þá verið sestur inn í bílinn. Hún kveðst ekki hafa heyrt kallað að þetta væri lögreglan. D segist ekki hafa séð að neinn væri fyrir framan bílinn eða þyrfti að kasta sér frá þegar þau óku yfir bílastæðið. Þá segist hún ekki hafa séð að neinn af þessum mönnum væri kona. Loks segist hún ekki hafa séð að þeir sýndu nein skilríki.
B lögreglumaður hefur skýrt frá því að hún hafi verið í starfsnámi lögreglumanns þegar atburðurinn varð. Segir hún að ákærði og kona hans hafi tekið stefnu á suðurdyrnar og þau þá hraðað sér vestur fyrir húsið. Hafi lögreglumennirnir kannast við ákærða frá fyrri afskiptum. Bíll ákærða hafi verið skammt frá suðurdyrunum og því stutt fyrir ákærða að fara í hann þegar hann kom þar út. Þegar þau lögreglumennirnir komu hlaupandi suður fyrir húshornið hafi A, sem fór fyrir þeim, tekið upp lögregluskilríkin og sýnt þau. Jafnframt hafi hann kallað upp nafn ákærða og að þau vildu tala við hann. Segist hún hafa verið öftust þeirra fjögurra. Kveður hún ákærða hafa séð þau en hann hafi verið að gangsetja bílinn þegar hún kom fyrir húsendann. Tveir lögreglumannanna hafi komið að hægri hliðinni á bíl ákærða og einn vinstra megin þar sem ákærði settist inn í hann. Kveðst hún hafa hlaupið til á mikilli ferð og ætlað að fara að ökumannshliðinni á bílnum. Engum togum hafi skipt að ákærði ræsti bílinn og „gaf hann beint í botn“ og ók af stað. Í þessari sömu andrá hafi hún verið á hlaupum og séð bílinn „stökkva“ í átt að sér. Til dæmis um það hve bíllinn hafi verið nálægt henni þegar hún var á hlaupunum sé það að hún hafi séð yrjurnar í jakkanum, sem hún var í, speglast í krómhúð framan á bílnum. Hafi þá verið innan við einn metri á milli hennar og bílsins, að hún ætlar. Hafi það orðið henni til lífs að hún var á hlaupum og náði að kasta sér frá bílnum sem hafi komið æðandi að henni en við það hafi hún lent utan í gaflinum á bílskúr sem þarna sé við hliðina. Hafi hér ráðið úrslitum að ákærði ók yfir umferðareyjuna frekar en að beygja meira til þess að aka út af stæðinu annarsstaðar. Hafi hún gert sér það ljóst þar sem hún stóð, eða öllu heldur lá, að markmið ákærða var að komast undan þeim og myndi leggja mjög mikið í sölurnar til þess. Segist hún álíta að ef bíllinn hefði snert hana hefði það getað orðið hennar bani. Slíkt sé afl þessa bíls og stærð og hún rétt eins og maur við hliðina á honum. Segir hún bílinn hafa verið í um eins og hálfs metra fjarlægð þegar hann ók fram hjá henni. Hún segir þau lögreglumennina hafa í þessu fári hlaupið eins og fætur toguðu í bílinn sem þau komu á og reyndu að ná ákærða en ekki tekist það. Leitað hafi verið að bílnum sem hafi fundist mannlaus og í hvarfi þarna skammt frá. Hún segir þau hafa verið óeinkennisklædd en girt „tækjabelti“ sem talsvert fer fyrir. Þá hafi þau verið með lögregluskilríki, ýmist í bandi um hálsinn eða haldið þeim á lofti. Hún segir ákærða hafa verið í námunda við bíl sinn þegar A stökk niður á bílastæðið af kanti sem er á móts við húsendann. Segir hún að skammt hafi verið á milli þeirra A og ákærða þegar A kallaði til hans heldur en milli hennar og A. Segist hún þó hafa heyrt vel til hans þegar hann kallaði til ákærða að hann vildi tala við hann. Þá hafi hann sýnt lögregluskilríki sín. Þá tekur hún fram í þessu sambandi að A hafi snúið að ákærða en bakinu í hana. Þá segir hún að ákærði hafi horft í átt að þeim lögreglumönnunum þegar hann var að opna bíl sinn. Geti enginn vafi leikið á því að hann hafi vitað að þau væru lögreglumenn enda hafi hann þekkt þá A og E vegna fyrri afskipta þeirra af ákærða. Hún segir bílinn hafa tekist „á loft“ við það að ákærði gaf bensínið í botn um leið og hann hafði ræst bílvélina. Hafi bíllinn komið „í loftköstum“ í átt að henni. Hafi ákærði viljað „komast mjög hratt frá vettvangi, eins hratt og hann gat“. Hún segir ákærða enga ástæðu hafa haft til að hlaupa svona undan þeim ef hann hefði vitað hver þau væru. Þá segir hún ákærða hafa séð hana þegar hann ók af stað. Hún tekur sérstaklega fram að þegar þetta gerðist hafi hún verið í „mjög stífum æfingum“ í lögregluskólanum og verið „í því besta hlaupaformi“ sem hún hafi verið í um ævina. Hafi hún því verið á mjög mikilli ferð á hlaupunum. Hún segir að nógu hafi verið ljóst þarna til þess að ákærði sæi þau.
A lögreglumaður hefur skýrt frá því að þeir lögreglumennirnir hafi verið með skilríki í keðju um hálsinn þegar þeir komu fyrir vesturendann á húsinu en óeinkennisklæddir. Segist hann hafa kallað á ákærða með nafni og sagst vilja tala við hann. Minni hann að hann hafi farið fremstur í hópi þeirra lögreglumannanna. Við það hafi ákærði sest í flýti inn í bíl sinn og kona hans einnig, sem þarna var með honum. Hafi hann gefið bílnum, sem sneri í vestur, í botn og ekið af stað. B hafi verið „svona meira fyrir miðju“ hafi orðið að stökkva frá bílnum til þess að verða ekki undir honum. Þau hafi þá hlaupið í bílinn sem þau komu á en séð á eftir bílnum á mikilli ferð út Suðurhóla. Hafi bílinn horfið sjónum þeirra en skömmu seinna hafi hann fundist mannlaus þar skammt frá. Hann segist hafa haft afskipti af ákærða áður og hafa gert hjá honum húsleit þrisvar sinnum áður á árunum 2005 eða -06 til 2008. Telur hann að ákærði hljóti að hafa þekkt sig í sjón vegna þessara kynna. Kveðst hann hafa kallað til ákærða með nafni og sagt að þau væru lögreglan og vildu ræða við hann. Minni hann að þau hin hafi einnig kallað til ákærða. Þá segir hann ákærða hafa horft til þeirra þegar hann gekk fram fyrir bíl sinn til þess að setjast inn í hann. Hann segir þau hafa farið í átt að bílnum en ákærði þá ekið af stað í beygju yfir bílaplanið og svo yfir eyjuna. B hafi átt fótum sínum fjör að launa en ekki muni hann nánar hver afstaða hennar og bílsins var. Þá muni hann ekki nákvæmlega hvaða leið bílnum var ekið yfir planið og eyjuna. Vitnið sýndi í réttinum lögregluskírteini eins og það sem þau voru með. Er það hvítt spjald, á að giska 10 x 15 cm að stærð og á því miðju er m.a. stór, gul lögreglustjarna. Hann segir að öllum lögreglumönnunum hafi stafað hætta af akstri ákærða þarna um planið. Þá sýnir hann „tækjabelti“ sem hann kveður þau hafa verið með um sig og á þeim talstöðvar og fl.
E lögreglumaður hefur skýrt frá því að þegar þau komu inn á bílastæðið, eftir að hafa farið vestur fyrir húsið, hafi hann séð ákærða og konu hans vera þar á leiðinni inn í bíl. Hafi þau þegar kallað á hann og sagt að þau væru lögreglan og veifað lögregluskilríkjum. Hann segir vafalaust að ákærði hafi heyrt og séð til þeirra og hann þá flýtt sér inn í bílinn. Hafi þeir A hraðað sér í átt að bílnum, kallandi á ákærða, og komist hvor upp að sinni hlið bílsins að reyna að opna bíldyrnar. Þær hafi hins vegar reynst læstar og ákærði ekið mjög greitt af stað með allt í botni. B hafi staðið fyrir framan bílinn og hún verið í hættu enda litlu munað að hún yrði fyrir bílnum. Hafi hann ekið yfir gras og gangstétt og út á Suðurhóla. Um hreyfingar þeirra á planinu segir hann B hafa verið á göngu yfir planið en þeir A hafi flýtt sér að bílnum. Hann segir B hafa stokkið undan bílnum til vinstri og lent farþegamegin við hann þegar hann ók hjá henni. Dimmt hafi verið en veður hafi verið þokkalegt. Þá hafi lýsing verið ágæt. Sé útilokað að ákærði hafi ekki séð þau og hafi hann átt að greina það að þarna var lögregla á ferð en ekki almennir borgarar. Hafi þau enda kallað að þau væru lögreglan og haldið skilríkjunum á lofti. Þá vekur hann athygli á því að ákærði lagði bílnum eftir stuttan akstur og lét sig hverfa. Það hefði hann ekki gert ef hann hefði haldið þau vera almenna borgara.
Niðurstaða
Fyrir liggur að ákærði sá menn koma í áttina til sín frá vesturenda fjölbýlishússins umrædda og heyrði köll frá þeim. Hann kveðst þó ekki hafa gert sér grein fyrir því að þeir væru lögreglumenn og hvorki hafa heyrt hvað kallað var né hafi hann heldur þekkt fólk þetta í sjón. Hann hafi álitið af reynslu sinni að misyndismenn væru þar á ferð. Ber eiginkona hans með honum um þetta. Lögreglumönnunum ber saman um það að kallað hafi verið að þeir væru lögreglumenn og vildu hafa tal af honum. Telst vera sannað að þeir hafi kallað þetta til ákærða. Gögn málsins bera það með sér að um litlar fjarlægðir er hér að ræða, nokkra metra einungis, og álítur dómurinn að ákærði hafi hlotið að heyra hvað kallað var til hans. Þá liggur það fyrir að einn lögreglumannanna hafði áður komið heim til hans. Loks liggur það fyrir að ákærði hætti akstrinum ekki langt frá heimili sínu, skildi þar bíl sinn eftir og hvarf á braut. Bendir þetta til þess að hann hafi vitað að þarna hefðu lögreglumenn verið á ferð. Álítur dómurinn það því vera sannað, gegn neitun ákærða og þrátt fyrir vætti konu hans, að ákærði hafi vitað að það voru lögreglumenn sem gáfu sig fram við hann á bílaplaninu og reyndu þar að stöðva för hans.
Í ákæru er B sögð hafa staðið framan við bíl ákærða þegar honum var ekið af stað. Það er aftur á móti í ósamræmi við það sem hún segir sjálf, því hún hefur sagst hafa verið á harðaspretti þegar leiðir hennar og bílsins skárust. Verður að byggja á framburði hennar um þetta atriði. Hún segist ekki hafa hlaupið þvert í veg fyrir bílinn og má ráða af ljósmyndunum í málinu og framburði manna fyrir dómi, nema E, að B hafi hlaupið í veg fyrir hann á ská. Það er því rangt sem í ákærunni segir að hún hafi staðið fyrir framan bílinn þegar ákærði ók af stað. Ljóst er að atburðarásin var hér mjög hröð á litlu svæði og fyrir liggur að B skaust fyrir bílinn á hlaupum. Þykir ekki vera sannað að ákærði hafi með akstri sínum við þessar aðstæður hótað B ofbeldi í verki, sbr. 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga, en til þess brots þarf ásetning, sbr. 18. gr. þeirra laga. Ber því að sýkna ákærða af broti gegn 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga.
Öllum lögreglumönnunum ber saman um það að ákærði hafi gefið bílvélinni fullt afl og ekið bílnum yfir bílaplanið á mikilli ferð. Ákærði hefur hinsvegar sagst ekki hafa ekið sérstaklega hratt. Þess er þó að gæta að hann kveðst hafa verið að flýja þá sem nálguðust hann. Verður að telja sannað með vætti lögreglumannanna að ákærði hafi ekið mjög hratt um lítið bílaplan og það þótt hann sæi lögreglumennina nálgast bílinn á ferð yfir það. Þennan akstur hans verður að telja sérlega ófyrirleitinn og hættulegan við þessar aðstæður, enda munaði litlu að slys hlytist af. Telst ákærði þannig hafa brotið gegn 4. mgr. 220. gr. almennra hegningarlaga gagnvart B, en eins og ákæran er úr garði gerð kemur ekki til álita hvort hann hafi að þessu leyti brotið gegn öðrum. Þá hefur hann játað brot sín gegn umferðarlögum og hann að því leyti til orðið sekur samkvæmt ákærunni og brotið þau refsiákvæði sem þar eru talin taka til þeirra.
Refsing og sakarkostnaður
Ákærði hefur nokkurn sakaferil. Hann hefur hlotið fimm refsidóma, ýmist fyrir fíkniefna- eða hegningarlagabrot. Síðast hlaut hann 30 daga skilorðsbundinn fangelsisdóm í október 2007 fyrir fíkniefnabrot og hefur hann því rofið skilorð þess dóms. Ber að dæma upp þennan dóm og gera ákærða refsingu í einu lagi. Þykir hún hæfilega ákveðin fangelsi í fjóra mánuði. Málsmeðferð hjá lögreglu hefur dregist verulega og hefur þessi dráttur verið skýrður. Þykir vera rétt að fresta framkvæmd refsingarinnar og ákveða að hún falli niður að liðnum 2 árum frá dómsuppsögu, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.
Málsvarnarlaun verjanda ákærða, Sveins Andra Sveinssonar hrl, 150.000 krónur ber að dæma ákærða til þess að greiða að hálfu en að hálfu ber að leggja þau á ríkissjóð. Dæmast málsvarnarlaunin með virðisaukaskatti.
Pétur Guðgeirsson héraðsdómari kvað upp dóminn.
DÓMSORÐ:
Ákærði, X, sæti fangelsi í fjóra mánuði. Frestað er framkvæmd refsingarinnar og fellur hún niður að liðnum 2 árum frá dómsuppsögu, haldi ákærði almennt skilorð.
Ákærði greiði verjanda sínum, Sveini Andra Sveinssyni hrl, 75.000 krónur í málsvarnarlaun en 75.000 króna málsvarnarlaun skal greiða verjandanum úr ríkissjóði.