Hæstiréttur íslands

Mál nr. 648/2016

Jakob Adolf Traustason (sjálfur)
gegn
Gerði Björgu Guðfinnsdóttur, Gísla Guðfinnssyni og Maríu Guðbjörgu Guðfinnsdóttur (Valgeir Kristinsson hrl.)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Frestur

Reifun

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem G o.fl. var veittur frestur til að skila greinargerð í máli sem J hafði höfðað á hendur þeim. Í úrskurði héraðsdóms, sem staðfestur var með vísan til forsendna í Hæstarétti, kom fram að G o.fl. hefðu lagt fram greinargerðir í þinghaldi 17. febrúar 2016 þar sem einungis hafi verið gerð krafa um að málinu yrði vísað frá dómi með heimild í 2. mgr. 99. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 7. gr. laga nr. 78/2015. Með úrskurði héraðsdóms 11. maí sama ár hafi kröfum J verið vísað frá héraðsdómi að hluta en sá úrskurður hafi ekki verið kærður til Hæstaréttar. Samkvæmt fyrrgreindu lagaákvæði bæri dómara því að veita G o.fl. sérstakan frest til að leggja fram greinargerð um efnisvarnir. Var umbeðinn frestur G o.fl. því veittur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson og Helgi I. Jónsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 14. september 2016 en kærumálsgögn bárust réttinum 23. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 5. september 2016, þar sem kröfu sóknaraðila um dómtöku málsins var hafnað og varnaraðilum veittur frestur til að leggja fram greinargerð um efnisvarnir. Kæruheimild er í h. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Hann krefst þess aðallega að varnaraðilum verði synjað um frest til að leggja fram greinargerð í málinu, en til vara að „greinargerðum sem öllum stefndu var heimilað að leggja fram með hinum kærða úrskurði verði vísað frá héraðsdómi.“ Þá krefst hann aðallega málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar, til vara að kærumálskostnaður verði látinn niður falla en að því frágengnu að „hann verði hafður í lágmarki.“

Varnaraðilar krefjast þess aðallega að kæru sóknaraðila verði vísað frá Hæstarétti en til vara að hinn kærði úrskurður verði staðfestur. Þá krefjast þau kærumálskostnaðar.

Engir þeir annmarkar eru á kröfugerð sóknaraðila sem leitt geta til frávísunar málsins frá Hæstarétti. Verður aðalkröfu varnaraðila því hafnað.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðilum kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Jakob Adolf Traustason, greiði óskipt varnaraðilum, Gerði Björgu Guðfinnsdóttur, Gísla Guðfinnssyni og Maríu Guðbjörgu Guðfinnsdóttur, 450.000 krónur í kærumálskostnað.

 

Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 5. september 2016

Mál þetta sem þingfest var þann 20. janúar 2016, var tekið til úrskurðar þann 5. september sl., um kröfu stefnanda um dómtöku málsins, sem og kröfu stefndu um frest til framlagningar greinargerðar. Var ágreiningur aðila tekin til úrlausnar eftir að gefinn hafði verið kostur á munnlegum athugasemdum, og gerði dómari í þinghaldi 5. september sl., munnlega grein fyrir niðurstöðu sinni, sbr. 3. mgr. 112. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, með síðari breytingum. Þá krefjast stefndu málskostnaðar vegna þessa þáttar málsins.

Kröfu sína um dómtöku málsins byggir stefnandi á 1. og 2. mgr. 99. gr., sbr. og 5. mgr. 101. gr. laga nr. 91/1991, og ber við að stefndu hefðu átt að óska eftir fresti til greinargerðar við þingfestingu málsins.

Stefndu hafna kröfu stefnanda um dómtöku málsins og krefjast frests til framlagningar greinargerðar með vísan til 2. mgr. 99. gr. laga nr. 91/1991, með síðari breytingum, og vísa til þess að þeir hafi lögum samkvæmt rétt á fresti til að taka til efnislegra varna í málinu.

                Þann 17. febrúar sl., lögðu stefndu fram greinargerðir þar sem einungis var gerð krafa um að máli þessu yrði vísað frá dómi. Í greinargerðum stefndu var vísað til heimildar  í 2. mgr. 99. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 7. gr. laga nr. 78/2015. Með úrskurði dómsins þann 11. maí sl., var vaxtakröfum stefnanda, aðal-, vara-, og viðbótarkröfu, vísað frá dómi, en að öðru leyti var frávísunarkröfu stefndu hafnað. Framangreindur úrskurður var ekki kærður til Hæstaréttar Íslands. 

Í  2. mgr. 99. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 7. gr. laga nr. 78/2015, segir að krefjist stefndi þess að máli verði vísað frá dómi sé honum heimilt að leggja fram greinargerð einungis um þá kröfu, enda sé hún lögð fram innan fjögurra vikna frá þingfestingu málsins. Þá segir í áðurnefndir lagagrein að nú verði máli ekki vísað frá dómi og beri þá dómara að veita stefnda sérstakan frest til að leggja fram greinargerð um efnisvarnir.   

Að framangreindu virtu er kröfu stefnanda um dómtöku málsins hafnað og stefndu veittur frestur til framlagningar greinargerða eins og nánar greinir í úrskurðarorði.

Rétt þykir að ákvörðun um málskostnað bíði efnisdóms í málinu.  

Ragnheiður Thorlacius settur dómstjóri kveður upp úrskurð þennan.              

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfu stefnanda um dómtöku málsins er hafnað.

Stefndu öllum er veittur sérstakur frestur til að leggja fram greinargerðir um efnisvarnir til miðvikudagsins 5. október nk., kl. 13:00.

Ákvörðun málskostnaðar bíður efnisdóms.