Hæstiréttur íslands
Mál nr. 285/2003
Lykilorð
- Lífeyrissjóður
|
|
Fimmtudaginn 4. desember 2003. |
|
Nr. 285/2003. |
Lífeyrissjóður hjúkrunarfræðinga (Þórunn Guðmundsdóttir hrl.) gegn Halldóru Andrésdóttur (Ragnar Halldór Hall hrl.) |
Lífeyrissjóður.
H krafðist þess að viðurkennt yrði með dómi að hún ætti rétt til aðildar að Lífeyrissjóði hjúkrunarfræðinga (L). Fyrirmæli laga nr. 2/1997 um L voru skýr og ótvíræð um það að H ætti þennan aðildarrétt og ályktað var af því að rétti þessum fylgdi jafnframt skylda L til að veita H aðild að sjóðnum, enda hafði L ekki sýnt fram á annað. Samkvæmt þessu var orðið við kröfu H.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Gunnlaugur Claessen og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 21. júlí 2003. Hann krefst sýknu af kröfu stefndu og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefnda krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Áfrýjanda verður gert að greiða stefndu málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Lífeyrissjóður hjúkrunarfræðinga, greiði stefndu, Halldóru Andrésdóttur, 300.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 11. júní 2003.
I
Málið var höfðað 20. janúar sl. og tekið til dóms 28. maí sl.
Stefnandi er Halldóra Andrésdóttir, Reykási 10, Reykjavík.
Stefndi er Lífeyrissjóður hjúkrunarfræðinga, Bankastræti 7, Reykjavík.
Stefnandi krefst þess að viðurkennt verði með dómi að hún eigi rétt til aðildar að stefnda samkvæmt umsókn framkvæmdastjóra Öldungs hf., fyrir hennar hönd, frá 17. apríl 2002. Þá er krafist málskostnaðar.
Stefndi krefst sýknu og málskostnaðar.
II
Málavextir eru þeir að stefnandi, sem er hjúkrunarfræðingur, átti aðild að Lífeyrissjóði hjúkrunarkvenna í árslok 1996. Í ársbyrjun 1997 tóku gildi lög nr. 2/1997 um stefnda og hélt stefnandi áfram að vera aðili að honum og greiddi iðgjöld til hans, síðast 1. desember 2001. Frá og með þeim degi réðst hún til Öldungs hf. og starfar á Hjúkrunarheimilinu Sóltúni, sem fyrirtækið rekur á grundvelli þjónustusamnings við heilbrigðisráðuneytið. Stefnandi er fastráðin hjá Öldungi hf. og 25. febrúar 2002 gerði fyrirtækið kjarasamning við stéttarfélag stefnanda. Um lífeyrisréttindi segir í kjarasamningnum að félagsmenn, sem séu í stefnda, haldi þeim rétti áfram og að fyrirtækið greiði þangað mótframlag vinnuveitanda í samræmi við reglur stefnda á hverjum tíma. Með bréfi 17. apríl 2002 óskaði framkvæmdastjóri Öldungs hf. eftir því við stefnda að stefnandi og fleiri hjúkrunarfræðingar fengju að greiða lífeyrissjóðsiðgjöld sín til stefnda. Þessari beiðni hafnaði stefndi með bréfi 21. október sama ár og er það ágreiningurinn.
III
Stefnandi byggir kröfu sína í fyrsta lagi á því að henni beri aðild að stefnda samkvæmt ákvæði 1. mgr. 12. gr. samþykkta stefnda. Þar segir: "Allir hjúkrunarfræðingar, sem aðild áttu að sjóðnum við árslok 1996 og vinna hjúkrunarstörf í þjónustu ríkis, bæjar- og sveitarfélaga eða annarra opinberra stofnana eða við heilbrigðisstofnanir sem eru viðurkenndar af heilbrigðisstjórninni, skulu eiga rétt til aðildar að sjóði þessum."
Í öðru lagi er byggt á 1. mgr. 17. gr. laga nr. 2/1997 um stefnda, sem er efnislega samhljóða framangreindri grein í samþykktum stefnda.
Í þriðja lagi er byggt á 2. mgr. 17. gr. nr. laga 2/1997 en stefnandi kveðst uppfylla öll þau skilyrði, sem þar séu sett fyrir aðild að stefnda.
Loks byggir stefnandi á því að það væri brot á jafnræðisreglunni að meina henni um aðild að stefnda. Vísar hún til þess að hjúkrunarfræðingar, sem starfa við fjölmargar stofnanir, sem eins sé ástatt um og vinnuveitanda hennar, eigi aðild að stefnda án þess að það hafi verið talið valda vandkvæðum.
Stefndi byggir á því að aðild að stefnda geti ekki alfarið ráðist af ákvæðum 17. gr. laganna heldur verði að skýra þau með hliðsjón af öðrum ákvæðum þeirra, einkum 18. og 20. gr. Í þessum greinum komi fram að ríkissjóður sé ábyrgur fyrir greiðslum úr stefnda, hvort sem um sé að ræða að vinnuveitandi sé ekki fær um að standa við skuldbindingar sína eða að hækkanir verði á lífeyri vegna launahækkunar opinberra starfsmanna. Bendir stefndi á að iðgjöld standi nú engan veginn undir skuldbindingum hans og þess vegna sé þeim mun mikilvægara að vinnuveitendur þeirra, sem aðild eigi að honum, hafi varanleika, sem jafna megi við ríkið. Þennan varanleika hafi vinnuveitandi stefnanda ekki og skipti yfirlýsingar hans um að halda ríkissjóði skaðlausum engu máli í þessu sambandi, enda virðist þær vera skilyrtar. Þessu til frekari stuðnings bendir stefndi á að hann sé byggður upp sem eftirlaunakerfi fyrir hjúkrunarfræðinga en ekki eins og lífeyrissjóður þar sem greiðslur úr honum miðist við eignir og ávöxtun þeirra á hverjum tíma.
Stefndi kveður það vera rétt að fyrir árið 1987 hafi hjúkrunarfræðingar, sem störfuðu hjá einkafyrirtækjum, fengið aðild að honum. Þessu hafi hins vegar verið breytt eftir að forsvarsmenn stefnda gerðu sér grein fyrir þeim skuldbindingum sem aðild þessara einstaklinga gat fellt á ríkissjóð. Eftir þennan tíma hafi aðeins verið gerðar undantekningar þegar ríkissjóður hafi lýst því yfir að hann muni greiða lífeyrishækkanir, sbr. 18. og 20. gr. laga nr. 2/1997. Það sé því ekki brot gegn jafnræðisreglunni að hafna aðild stefnanda að stefnda.
IV
Það er ágreiningslaust að stefnandi átti aðild að stefnda, sem þá hét Lífeyrissjóður hjúkrunarkvenna, í árslok 1996. Enn fremur er það ágreiningslaust að hún hefur starfað frá 1. desember 2001 við heilbrigðisstofnun sem er viðurkennd af heilbrigðisstjórninni. Í 1. mgr. 17. gr. laga nr. 2/1997 um stefnda segir að allir hjúkrunarfræðingar, sem aðild áttu að stefnda við árslok 1996 og vinna hjúkrunarstörf í þjónustu ríkis, bæjar- eða sveitarfélaga eða annarra opinberra stofnana eða við heilbrigðisstofnanir, sem viðurkenndar eru af heilbrigðisstjórninni, skuli eiga rétt til aðildar að stefnda. Efnislega samhljóða ákvæði er í samþykktum fyrir stefnda, eins og rakið var. Samkvæmt þessu eru lagafyrirmæli skýr og ótvíræð um það að stefnandi á rétt til aðildar að stefnda og af því verður ekki dregin önnur ályktun en sú að þessum rétti fylgi jafnframt skylda stefnda til að veita stefnanda aðild að sér.
Þegar svo stendur á, eins og rakið var, þá er það stefnda að sýna fram á að af öðrum ákvæðum laganna leiði að honum sé heimilt að hafna aðild stefnanda. Í þessum efnum vísar stefndi fyrst til 18. gr. laganna en þar er um það fjallað þegar einhver, sem tryggt hefur hjúkrunarfræðing í stefnda, er ekki fær um að standa við ábyrgðarskuldbindingu sína. Er þá ríkissjóður bakábyrgur. Stefnda má því einu gilda hver örlög vinnuveitanda stefnanda kunna að verða í framtíðinni. Hann hefur bakábyrgð ríkisins fyrir útgjöldum sínum vegna hennar. Þegar af þeirri ástæðu verður að hafna þessari málsástæðu stefnda.
Í öðru lagi ber stefndi fyrir sig ákvæði 20. gr., er fjallar um hækkanir á lífeyrisgreiðslum vegna launahækkana, en þar er ekki sams konar ákvæði um bakábyrgð og í 18. gr. Í 20. gr., eða öðrum ákvæðum laganna, er hins vegar ekki heimild fyrir stefnda til að neita hjúkrunarfræðingum um aðild að sér á þeim grundvelli að ekki sé tryggð ábyrgð á útgjöldum, sem á hann kunna að falla vegna launahækkana, eigi þeir á annað borð rétt á aðild að honum samkvæmt 17. gr. Hér að framan var komist að þeirri niðurstöðu að stefnanda eigi rétt á aðild að stefnda á grundvelli 17. gr. og er því ekki fallist á það með stefnda að af ákvæðum 20. gr. geti leitt að honum sé rétt að hafna aðild stefnanda. Til þess þyrfti ótvíræða lagaheimild, sem ekki er fyrir hendi.
Samkvæmt framansögðu verður orðið við kröfu stefnanda og stefndi dæmdur til að greiða henni 400.000 krónur í málskostnað.
Arngrímur Ísberg héraðsdómari kvað upp dóminn.
Dómsorð
Viðurkennt er að stefnandi, Halldóra Andrésdóttir, eigi rétt til aðildar að stefnda, Lífeyrissjóði hjúkrunarfræðinga, samkvæmt umsókn framkvæmdastjóra Öldungs hf., fyrir hennar hönd, frá 17. apríl 2002.
Stefndi skal greiða stefnanda 400.000 krónur í málskostnað.