Hæstiréttur íslands

Mál nr. 68/2002


Lykilorð

  • Sjúkrahús
  • Læknir
  • Skaðabótamál
  • Gjafsókn


Fimmtudaginn 10

 

Fimmtudaginn 10. október 2002.

Nr. 68/2002.

Jakob Helgason

(Einar Gautur Steingrímsson hrl.)

gegn

íslenska ríkinu

(Hjörleifur B.Kvaran hrl.)

 

Sjúkrahús. Læknar. Skaðabótamál. Gjafsókn.

J slasaðist alvarlega í bifhjólaslysi í júlí 1987. Krafðist hann bóta vegna meintra mistaka lækna í tengslum við tvær aðgerðir sem hann gekkst undir í september 1988 og júní 1993. Í héraðsdómi var talið að J hefði hvorki sýnt fram á að læknar L hefðu veitt honum ófullnægjandi upplýsingar fyrir aðgerðina í september 1988 né að rangt hafi verið að gera það, sem þar var gert. Þá var ekki talið að lækni L hefði orðið á mistök við val á aðgerðartegund fyrir aðgerðina í júní 1993 þótt ekki hefði orðið tilætlaður árangur af þeirri aðgerð sem gerð var. Loks þótti meðferð eftir aðgerðirnar ekki hafa verið ábótavant. Var því ekki fallist á með J að starfsmönnum L hefðu orðið á mistök sem stefndi bæri skaðabótaábyrgð á. Með skírskotun til forsendna héraðsdóms var hann staðfestur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Garðar Gíslason, Haraldur Henrysson, Markús Sigurbjörnsson og Pétur Kr. Hafstein.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 7. febrúar 2002. Hann krefst þess, að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 16.126.090 krónur með nánar greindum vöxtum frá 7. september 1995 til greiðsludags auk málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, eins og málið væri ekki gjafsóknarmál, en áfrýjandi hefur gjafsókn á báðum dómstigum.

Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Til vara krefst hann þess, að fjárhæð dómkröfu áfrýjanda verði lækkuð og málskostnaður látinn falla niður.

Með skírskotun til forsendna héraðsdóms ber að staðfesta hann.

Eftir atvikum þykir rétt, að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður, en gjafsóknarkostnaður áfrýjanda greiðist úr ríkissjóði, eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjanda, Jakobs Helgasonar, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, 400.000 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 9. nóvember 2001.

Mál þetta, sem tekið var til dóms 12. október sl., var höfðað með stefnu birtri 6. september 1999 en framhaldssök í málinu var höfðuð 3. maí 2000.

Stefnandi er Jakob Ævar Helgason, kt. 090861-7199, Engjaseli 86, Reykjavík.

Stefndi er Landsspítali - Háskólasjúkrahús, kt. 500300-2130, Eiríksgötu 5, Reykjavík.

Stefnandi gerir þær dómkröfur að stefndi verði dæmdur til að greiða honum 16.126.090 krónur með 0,6% vöxtum af 2.317.900 krónum frá 7. september 1995 til 3. maí 1996, en með 2% vöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga af 6.897.890 krónum frá þeim degi til 3. maí 2000, en með 0,6% vöxtum af 9.228.200 krónum frá 3. maí 1996 til 1. október 1996, en með 0,75% vöxtum frá þeim degi til 21. janúar 1997, en með 0,9% vöxtum frá þeim degi til 1. maí 1997, en með 1% vöxtum frá þeim degi til 1. apríl 1998, en með 0,7% vöxtum frá þeim degi til 21. október 1998, en með 0,6% vöxtum frá þeim degi til 7. september 1999, en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987, af 2.317.900 krónum frá þeim degi til 3 maí 2000, en með 0,6% vöxtum frá 7. september 1999 af 6.910.300 krónum ­til 3. maí 2000, en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987, af 16.126.090 krónum frá 3. maí 2000 til greiðsludags.  Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.

Stefndi krefst aðallega sýknu af öllum kröfum stefnanda í aðalsök og framhaldssök  og málskostnaðar úr hendi stefnanda en til vara að kröfur stefnanda verði stórlega lækkaðar og málskostnaðar verði í því tilviki felldur niður.

Stefndi gerði upphaflega kröfu um frávísun aðalsakarinnar en féll frá þeirri kröfu í þinghaldi 21. júní 2000.

I - Óumdeild málsatvik og helstu ágreiningsefni

Stefnandi slasaðist alvarlega í bifhjólaslysi 31. júlí 1987. Hann varð fyrir alvarlegu líkamstjóni í slysinu, m.a. hryggbroti á brjóstlið, og var lagður inn á gjörgæsludeild Borgarspítalans. Teknar voru röntgenmyndir af hrygg á slysdegi og daginn eftir og leiddu þær í ljós brot á þvertindi á VIII. brjóstlið en einnig að liðbolurinn á IX brjóstliðnum var mölbrotinn og þrjú brot voru á liðboganum á þeim lið. Auk þess var brot á vinstra þvertindi XI. brjóstliðarins.  Vegna samfalls á IX. brjóstliðnum og lítilsháttar þrengingar á mænugöngunum á því svæði var ákveðið að gera aðgerð á hryggnum í því skyni að rétta úr honum og spengja að aftanverðu á brotssvæðinu. Brynjólfur Jónsson bæklunarskurðlæknir framkvæmdi aðgerðina 7. ágúst 1987 með aðstoð Rögnvaldar Þorleifssonar bæklunarskurðlæknis og fólst hún m.a. í því að komið var fyrir svokölluðum Harringtonstögum með stálkrókum til að styðja við hrygginn meðan hann væri að gróa. Þá var komið fyrir beinfrauði og það lagt aftan á VII til XI. brjóstliðabogann í því skyni að mynda þar beinspöng til þess að festa saman þessa liði. Í aðgerðinni kom í ljós brot á X. rifi inni við hrygginn og slitin liðbönd milli VIII. og IX. liðbolsins. Í aðgerðarlýsingu sem rituð var eftir útskrift stefnanda kom fram að ráðgert væri að hann hefði Harringtonstögin í eitt ár. Þar var þess einnig getið að "Fusion á svæðinu Th. VII - Th. XI" ætti að vera gróin eftir 3 mánuði og gert var ráð fyrir röntgenmyndatöku eftir 6 vikur.

Samkvæmt örorkumati frá 17. júlí 1991 var stefnandi talinn hafa hlotið 100% örorku í eitt ár eftir slysið, 50% örorku í eitt ár til viðbótar og eftir það 40% varanlega örorku. Varanleg örorka vegna bakáverka  var metin 30%, vegna áverka á lungum 5% og vegna áverka á hægra hné 5%. Stefnandi var eftir slysið metinn 75% öryrki af Tryggingarstofnun ríkisins.

Stefnandi var útskrifaður af Borgarspítalanum 17. ágúst 1987 og hélt þá til Dalvíkur þar sem hann átti þá heima. Í læknisvottorði Rögnvaldar Þorleifssonar bæklunarskurðlæknis, dagsettu 29. júní 1991, kemur fram að stefnandi hafi komið til eftirlits á slysadeild Borgarspítalans 15. október 1987 og þess þá verið getið að hann hafi haft verki hægra megin í hryggnum allt frá slysinu. Röntgenmyndir hafi þá verið teknar af brotsvæðinu í hryggnum og hafi þær sýnt að IX. brjóstliðsbolurinn hafði sigið lítið eitt saman að framanverðu frá því sem verið hafi fyrst eftir aðgerðina í byrjun ágúst. Myndin hafi sýnt að brotkurlið á IX. brjóstliðnum hafi verið farið að renna verulega saman. Í læknisvottorðinu er þess getið að stefndi hafi verið lagður inn á slysadeild 30. október 1987 til þess að spegla hægra hné. Hann hafi þá sagst hafa haft meiri og minni verki í hryggnum allan tímann frá slysinu. Röntgenmyndir hafi verið teknar af stefnanda 23. febrúar og hafi þær sýnt að liðbolurinn á IX. brjósthryggnum hafði sigið lítið eitt saman aftur og kryppumyndun þannig aukist lítillega. Stangir og krókar höfðu ekki raskast. Væntanlega er átt við 23. febrúar 1988.

Í fyrrnefndu vottorði er greint frá því að stefnandi hafi starfað á knattborðsstofu á Dalvík í upphafi árs 1988 en gefist upp á því starfi um vorið. Hann hafi farið til heitari landa sumarið 1988 og verið betri af verkjum þann tíma sem hann dvaldi erlendis. Í fyrrnefndu læknisvottorði kemur fram, að í sjúkraskrá stefnanda komi fram að hann hafi komið á Borgarspítalann 12. september 1988. Þá hafi verið liðið meira en ár frá því að hryggurinn hafði verið spengdur og hafi þá þótt tímabært að fjarlægja stálstengurnar úr hryggnum, en stefnandi getið þess að hann hefði alltaf haft meiri og minni verki í bakinu frá slysinu en þó væru þessir verkir mismiklir. Á þessum tíma var brotið orðið vel gróið.

Í aðgerð sem framkvæmd var af Rögnvaldi Þorleifssyni 13. september 1988 voru Harringtonstögin fjarlægð. Í vottorði Rögnvaldar frá 29. júní 1991 er greint frá því að stefnandi hafi ekki hafið störf að nýju fyrr en eftir áramót en þá farið á togara en þolað þá vinnu illa og fengið sér léttari vinnu. Hann hafi þó verið á togara í hálfan annan mánuð sumarið 1989 en gefist upp vegna verkja í baki. Hann hafi eftir það flust til Reykjavíkur og stundað létta vinnu þar til í nóvember þegar hann hafi slasast á hendi og orðið óvinnufær. Hann hafi verið í málningarvinnu frá vori 1990. Þá kom fram í vottorðinu að stefnandi væri þjáður af verkjum sem versnuðu við vinnu. Hann hefði verið í verkjameðferð hjá Ragnari Finnssyni lækni en aðeins væri um skammtímaárangur að ræða. Þess var getið að stefnandi bæri menjar eftir Mb. Scheuermann hryggsjúkdóm  en það væri all algengur sjúkdómur sem gerði vart við sig á gelgjuskeiði. Afleiðingar af honum væri bogið brjóstbak.

Stefnandi hafði mikla bakverki allt frá slysinu 1987 og telur þá hafa aukist eftir að Harringtonstögin voru fjarlægð haustið 1988. Hann leitaði til Ragnars Jónssonar bæklunarskurðlæknis til að fá bót meina sinna. Í sjúkraskrá sem Ragnar ritaði í kjölfar viðtals við stefnanda 27. febrúar 1992 kom fram að sæmilega hafi rést úr broti þegar Harringtonstögunum var komið fyrir en smátt og smátt hafi brotið pressast saman og kryppa væri orðin 30-35º. Taldi hann brotið vera orðið vel gróið og stöðugt. Þá skráði læknirinn þær hugleiðingar að ekki væru til neinar ódýrar lausnir til að leysa vanda stefnanda. Taldi hann að þeir sem hefðu svona mikla kryppu eftir brot fengju yfirleitt alltaf bakverki. Taldi hann koma til greina að rétta úr kryppunni með því að gera aðgerð á hryggnum að framan en e.t.v. þyrfti að gera svokallaða osteotomiu á spengingarmassanum að aftan. Fram kom að málin hefðu verið rædd við stefnanda og vandlega skýrt út fyrir honum að batahorfur eftir þetta inngrip væru óljósar og talsverð hætta á fylgikvillum. Stefnandi vildi þó endilega að þessi aðgerð yrði gerð og að stefnt væri á að reyna þetta síðar í haust. Var stefnandi settur á biðlista eftir slíkri aðgerð.

Stefnandi var dæmdur til fangelsisvistar og afplánaði dóm á Litla Hrauni og síðan í fangelsi í Kópavogi frá vori 1992 og fram á sumar 1993.

Ákveðið var að aðgerð yrði framkvæmd á stefnanda á Borgarspítalanum 8. júní 1993. Til undirbúnings aðgerðinni hafði Ragnar Jónsson, vegna ráðagerðar réttingu á hrygg með samtímis aftari og fremri aðgerð, pantað samlokubelti frá Stoð. Stefnandi var lagður inn til undirbúnings aðgerðinni deginum áður. Eftir skoðun á stefnanda taldi Ragnar Jónsson að eðli verkja hjá stefnanda væri eitthvað breytt miðað við þegar hann hafi verið settur á biðlista og verkirnir staðbundnari við brjósthryggssvæðið en áður hafi verið talið. Taldi læknirinn líklegra að verkirnir væru vegna hreyfingar á brjósthryggssvæðinu. Var því ákveðið að hverfa frá fyrirhugaðri aðgerð en í stað þess ákveðið að framkvæma aðeins fremri spengingu í þeirri von að með henni yrði brotið stöðugra og verkirnir minnkuðu.

Aðgerðin var síðan framkvæmd af Ragnari Jónssyni 8. júní 1993 en honum til aðstoðar voru læknarnir Þorvaldur Jónsson og Björn Zoëga. Brotið var losað upp að framan og hreinsað út en bútar úr rifbeini notaðir sem beingraft til að spengja hryggjaliðina saman. Brotið var síðan gert stöðugt með skrúfuteinum og skrúfum með róm, svokölluðu Kaneda-tæki, til að fyrirbyggja að kryppa myndi aukast. Aðgerðin heppnaðist tæknilega vel í alla staði og ekkert óvænt kom upp á.

Stefnandi kom til eftirlits 21. júlí 1993 og var þá skráð í sjúkraskrá að honum liði í sjálfu sér  ágætlega, væri vel gróinn en hefði enn töluverðar kvartanir frá mjóbaki. Ákveðin var endurkoma eftir tvo mánuði. Næst skoðaði Ragnar stefnanda 16. september 1993 og var þá skráð að hann hefði fundið fyrir verkjum í mjóbaki eins og áður en verkir frá brjóstholsskurði væru horfnir. Brotið væri að gróa. Áætluð var endurkoma í röntgenmynd í nóvember. Stefnandi kom næst í eftirlit 11. nóvember og kvartaði undan verkjum yfir brotsvæði en ekki í mjóbaki. Kryppa væri óbreytt. Stefnanda var ráðlagt að fara í verkjameðferð til Ragnars Finnssonar. Stefnandi kom eftir þetta á slysadeild Borgarspítalans aðfararnótt 15. desember 1993, kvartaði um bakverki og fór fram á sterk lyf. Næst skráði Ragnar í sjúkraskrá 22. september 1994 að stefnandi hefði komið og kvartað undan staðbundnum verkjum við og undir vinstra herðablaði og undan dofakennd í ollum hægri handlegg og að einhverju leyti í hægra fæti. Skráð var að læknirinn hefði ekkert fram að færa varðandi meðferð og ekkert sérstakt væri fyrirhugað. Síðast var skráð í sjúkraskrá á Borgarspítalanum 17. nóvember 1994 að stefnandi hefði komið og borið sig illa undan verkjum. Hann hafi fengið lyfseðil fyrir sterkum verkjalyfjum.

Í læknisvottorði Jóns Gunnars Hannessonar læknis frá 17. október 1995 kom fram að stefnandi hafi verið metinn 75% öryrki eftir slysið 31. júlí 1987 og verið alveg ófær um að vinna öll erfið störf. Hann hafi fengið mikla verkjameðferð og einnig intensifa endurhæfingarmeðferð frá slysdegi. Fullyrti læknirinn að ástand stefnanda hefði versnað síðustu 2 ár þannig að verkir væru lengur viðvarandi og að eftir síðustu hryggspengingu í júlí 1993 væri um að ræða tímabundna minnkun á mætti í hægri útlimum.

Stefnandi leitaði til bæklunardeildar Landspítalans á síðari hluta ársins 1995. Stefnandi vildi fá bót á bakverkjunum og rætt var við hann um möguleika á því að rétta úr hryggnum með osteotomiu og honum gerð grein fyrir að hætta á lömun sem fylgikvilla væri um 10% við slíka aðgerð. Bogi Jónsson bæklunarskurðlæknir ákvað 2. janúar 1996 að gera nýja bakaðgerð á stefnanda og var hann þá settur á biðlista. Aðgerðin var framkvæmd 20. nóvember 1996 af bæklunarskurðlæknunum Boga Jónssyni og Halldóri Jónssyni, ásamt aðstoðarlæknum. Aðgerðin fólst meðal annars í því að hryggurinn var brotinn upp bæði að framan og aftan, Kaneda-tækið fjarlægt, rétt úr kryppunni og brotið spengt saman að nýju. Aðgerðin tók 12 klukkutíma og heppnaðist vel. Við aðgerðina réttist úr kryppunni á baki stefnanda, hann hækkaði um 6 sm og verkirnir sem hann hafði þjáðst af löguðust verulega.

Stefnandi lagði inn umsókn til Tryggingastofnunar ríkisins 13. febrúar 1997 um bætur úr svokallaðri sjúklingatryggingu á sérstöku tilkynningarblaði. Byggði stefnandi umsóknina á því að hann hefði orðið fyrir heilsutjóni við aðgerðina 8. júní 1993 með því að hryggur hafi ekki gróið eftir spengingaraðgerðina og verkir í baki hafi versnað til muna og farið hafi að bera á lömun í hægri útlimum. Tryggingastofnun leitaði umsagnar læknanna Ragnars Jónssonar og Boga Jónssonar. Í greinargerð Halldórs Baldurssonar tryggingalæknis og sérfræðings í bæklunarskurðlækningum, frá 16. maí 1997, kom fram að ekki yrði séð af þeim gögnum sem fyrir lægju að neitt hafi farið úrskeiðis í meðferð né aðgerð og örorka stefnanda hefði orsakast af slysinu 1987 en ekki meðferðinni. Umsókn stefnanda var hafnað með bréfi 16. júní 1997.

Eftir þetta sendi þáverandi landlæknir ný skjöl til Tryggingastofnunar ríkisins vegna umsóknar stefnanda um bætur úr sjúklingatryggingu. Þar á meðal óformlega umsögn frá Boga Jónssyni til landlæknis frá 11. október 1997 um aðgerðirnar sem stefnandi gekkst undir 1988 og 1993. Í umsögninni kemur fram það álit að fremri spenging hafi í upphafi verið ónóg og fremur til að torvelda frekari aðgerðir til að rétta upp hrygginn. Ábending fyrir einungis fremri spengingu hafi verið röng. Aðgerðin 1993 hafi því verið röng og óþörf ein og sér. Í framlögðum minnispunktum Halldórs Baldurssonar tryggingalæknis kemur fram að bréf Boga gefi ekki tilefni til að breyta álitsgerð hans frá 16. maí 1997.

Áður, eða 5. júlí 1996, hafði þáverandi landlæknir sent Boga Jónssyni bæklunarskurðlækni bréf þar sem svara var leitað við því hvort læknirinn teldi að mistök hefðu verið gerð við meðferð á hryggbroti stefnanda í ljósi þeirrar þekkingar sem tiltæk hafi verið á þeim tíma sem aðgerðir hafi verið gerðar. Bogi svaraði með bréfi dagsettu 27. júní 1996 og var niðurstaða hans sú að sennilega hafi stefnandi hlotið ófullnægjandi réttingu í aðgerð vegna brotsins 1987. Með tilliti til þeirrar þekkingar sem þá hafi legið fyrir hafi þó ekki verið möguleiki á betri réttingu. Þar sem áhættan við aðgerð 1993 með posterior osteotomiu hafi verið talin það mikil, hafi verið ákveðið að gera fremur fremri spengingu án réttingar og hafi það samkvæmt læknabréfi merktu 914/93 verið í fullu samráði við sjúkling.

Lögmaður stefnanda leitaði eftir þetta til þáverandi landlæknis með bréfi 14. júlí 1997 og fór þess á leit að hann léti í ljós skoðun sína á því hvort réttilega hafi verið staðið að aðgerðinni 8. júní 1993. Bent var á að Landlæknisembættið aflaði álits starfandi sérfræðings erlendis.

Landlæknir ritaði 25. febrúar 1998 bréf til Jóns Karlssonar læknis á Östra Sjukhuset í Gautaborg og óskaði umsagnar hans um hvort réttilega hafi verið staðið að aðgerðinni 1993. Ekki kemur fram í bréfinu hvaða gögn fylgdu bréfinu. Í svarbréfi Jóns kemur fram að fyrir lægju sjúkraskýrslur frá Borgarspítala og Landspítala, bréf frá sjúklingi, Ragnari Jónssyni, Boga Jónssyni, Höskuldi Baldurssyni og lögfræðingum. Í ljós er komið að Jón átti við Halldór Baldursson tryggingalækni en ekki Höskuld Baldursson bæklunarskurðlækni.

Í umsögn Jóns kom fram, að ekki hafi verið rangt að fjarlægja Harringtonstögin í skurðaðgerð í september 1988 en á þeim tíma hafi hryggáverkinn verið talinn beingróinn. Þó megi gera ráð fyrir nokkru sigi, með aukinni skekkju eftir að slík stög séu fjarlægð. Hann gat ekki séð af framlögðum gögnum að sjúklingur hafi fengið nægjanlegar upplýsingar um áhættu af auknu sigi. Þá gat hann ekki séð að sjúklingi hafi verið fylgt eftir þessa aðgerð á heppilegan hátt, t.d. með röntgenmyndum á ákveðnum tímum eftir aðgerð.

Varðandi aðgerðina 1993, benti Jón Karlsson á að stefnandi hafi orðið fyrir alvarlegum hryggáverka sem tæplega megi reikna með fullum bata af, þrátt fyrir umfangsmiklar skurðaðgerðir. Þá benti hann á að árangur aðgerða væri ekki ávallt fullgóður af ýmsum ástæðum og yrði óviðunandi árangur ekki alltaf skýrður með mistökum. Hann taldi sig ekki geta séð að rangt hafi verið að gera uppskurð 1993 þótt sjúklingur hafi ekki fengið viðunandi niðurstöðu. Ekki væri hægt að telja ábendingu fyrir að gera aðgerðina ábótavant. Val á aðgerð hafi ekki verið ábótavant og ekki framkvæmd hennar eða eftirmeðferð fyrst eftir hana. Hins vegar taldi hann að langtíma eftirmeðferð hefði verið ábótavant. Taldi hann að þegar sjúklingur hafi leitað til sjúkrahússins 2-3 árum eftir aðgerð hafi átt að gera nýja rannsókn með tilliti til hugsanlegrar nýrrar aðgerðar.

Landlæknir sendi af sama tilefni röntgenmyndir af stefnanda til Lennart Sjöström, sænsks sérfræðings í bæklunarskurðlækningum. Lögmaður stefnanda fylgdi sendingu gagnanna eftir með bréfi 10. september 1999 þar sem varpað var fram nokkrum spurningum um hryggaðgerðina 8. júní 1993. Í svarbréfi sænska læknisins frá 22. febrúar 2000 kom fram að hann hefði skoðað röntgenmyndir af stefnanda og væru fyrstu myndirnar síðan í janúar og mars 1992. Í áliti hans kom fram að brot á mótum brjóstliða og lendaliða, sem ekki væri lagfært í fyrstu skurðaðgerð, greri að jafnaði með framsveigjuaflögun eins og í tilviki stefnanda. Það kynni að valda vandamálum vegna breytinga á öðrum hreyfanlegum hlutum hryggjarins. Hryggsveigja eftir áverka gæti valdið miklum staðbundnum verkjum vegna þess að eftir brotið er gróið yrði enn nokkur hreyfing hjá þófunum fyrir ofan og neðan brotna hryggjarliðinn en þeir skaddist oft við áverka. Við val á skurðaðgerð bæri að taka tilliti til tvennra aðstæðna. Ef helsti vandi sjúklings væri staðbundinn verkur kunni samruni hryggjaliða á staðnum að nægja til að koma í veg fyrir verkinn. Taldi sænski læknirinn að ef það hafi verið raunin, hafi skurðaðgerðin 1993 verið rétt valin. Ef vandi sjúklings hafi hins vergar verið fólginn í afleiðingu af fenginni kryppu og tilgangurinn með skurðaðgerðinni væri að rétta úr henni hafi umrædd skurðaðgerð ekki verið rétt valin. Tilraun til uppréttingar eftir brottnám fremri hluta þófa tækist aðeins í fæstum tilfellum, einkum í brjóstliðum þar sem brjóstkassinn sýndi viðnám við slíkri réttingu. Bendir læknirinn að lokum á að rétta aðferðin við að lagfæra áunna aflögun, ef sá væri tilgangur skurðaðgerðar, væri fólgin í aðgerð á hryggnum bæði að framan og aftan þar sem unnt væri að hafa fulla stjórn á málum og alla möguleika til að lagfæra aflögunina. Annar kostur væri að taka afturfleyg úr hryggjarlið en það væri áhættusöm aðgerð og ekki hægt að mæla með henni á brjóstliðum.

Lögmaður stefnanda fól Atla Þór Ólafssyni lækni að framkvæma mat á varanlegri og tímabundinni örorku stefnanda í kjölfar skurðaðgerða 13. september 1988 og á tímabundnu atvinnutjóni, þjáningabótum, varanlegum miska og örorku og/eða í kjölfar skurðaðgerðar 8. júní 1993. Í örorkumati læknisins frá 4. apríl 2000 kom fram það mat, að ekki væri um að ræða varanlega örorku eða  miska af völdum meintra mistaka, heldur kæmi einungis til álita mat á tímabundnum þáttum. Matsmaður taldi upplýsingar úr skattframtölum styðja þá fullyrðingu stefnanda að hann hafi ekki verið í launavinnu milli aðgerðanna 1993 og 1996.

Við mat á tímabundinni örorku vegna aðgerðar 13. september 1988 væri eingöngu metinn eðlilegur tími frá vinnu eftir slíka aðgerð enda hafi stefnandi farið að vinna eftir það tímabil. Fram kom að hann hafi farið einn túr á togara seinni hluta janúar 1989 og eftir það unnið létta vinnu þar til hann fór aftur á sjó í júní. Taldi hann að tímabundin örorka stefnanda sem tengdist aðgerðinni hefði verið 100% frá 12. september 1988 til 1. júní 1989.  Læknirinn taldi að tímabilinu milli aðgerðanna 8. júní 1993 og 20. nóvember 1996 mætti skipta í þrjú tímabil. Fyrsta tímabilið næði frá skurðaðgerð og þar til gróanda spengingar og verkjameðferð var lokið 17. nóvember 1994. Þá hafi tekið við óvissutímabil sem lokið hafi 2. janúar 1996 er Bogi Jónsson hafi ritað bréf um að tekin hefði verið ákvörðun un að framkvæma nýja bakaðgerð. Síðasta tímabilið hafi verið biðtími frá ákvörðun um aðgerð og þar til hún var framkvæmd. Í leit að því tímabili sem tengist því að langtíma eftirmeðferð hafi verið ábótavant, og leitt til seinkunar á ákvarðanatöku um nýja aðgerð, taldi læknirinn að miðtímabilið uppfyllti hvað best þessa lýsingu en einnig kæmi til greina að bæta við síðasta tímabilinu.

Læknirinn mat tímabundna örorku stefnanda 100% á tímabilinu 8. júní 1993 til 17. nóvember 1994 en lagði ekki mat á hlutfallslega örorku á hinum tveimur tímabilunum heldur nefndi hann þau óvissutíma og biðtíma eftir aðgerð.

Lögmaður stefnanda fól Jóni Erlingi Þorlákssyni tryggingafræðingi að reikna út tímabundna örorku stefnanda og sundurliðaði tímabilin á sama hátt og gert var í fyrrgreindu örorkumati. Tryggingafræðingurinn kaus að líta á skilgreiningar læknisins á ástandi stefnanda á óvissutíma og biðtíma eftir aðgerð sem 100% örorku. Útreikningar tóku mið af vinnutekjum stefnanda á árunum 1996 og 1997 og tekið tillit til þess að stefnandi hefði aflað tekna ársins 1997 á sjö mánuðum. Miðað við þessar forsendur var niðurstaða matsmanns sú að slysdagsverðmæti tapaðra tekna væri samtals 10.276.900 krónur. Stefnandi byggir kröfu sína að nokkru leyti á útreikningum tryggingarfræðings. Dómkröfur stefnanda vegna miska og tímabundinnar örorku vegna aðgerðarinnar 13. september 1988 sundurliðast þannig:

1. Miski

1.000.000 krónur

2. Tímabundin örorka

 1.317.900 krónur

Samtals

  2.317.900 krónur

 

Dómkröfur stefnanda vegna aðgerðarinnar 8. júní 1993 sundurliðast þannig:

 

1. Miskabætur

 4.000.000 krónur

2. Tímabundin örorka 8.6.1993 -17.11.1994

 2.910.300 krónur

3. Tímabundið atvinnutjón 18.11.1994-2.1.1996

 

     og 3.1.1996 - 20.11.1996 

 6.048.800 krónur­

4. Þjáningabætur 18.11.1994 - 2.1.1996 705 x 830 =

 

     585.150 og 3.1.1996 - 20.11.1996 318 x 830 =263.940.  

     849.090 krónur

Samtals

13.808.190 krónur

   

Af hálfu stefnda var fallist á að bera ekki við fyrningu í málinu ef skaðabótamál yrði höfðað fyrir 7. september 1999.

II - Málsástæður og lagarök aðila

Af hálfu stefnanda er því haldið fram að aðgerðin sem framkvæmd var strax eftir slysið 1987 hafi heppnast nokkuð vel en hann hafi þó haft nokkra verki eftir aðgerðina. Hann hafi verið kallaður inn til aðgerðar haustið 1988 til að fjarlægja Harringtonstögin. Eftir það hafi kryppa á hrygg aukist og verkir sömuleiðis. Eftir aðgerðina 8. júní 1993 hafi bakverkir versnað verulega og stefnandi verið algerlega óvinnufær af þeim sökum. Eftir aðgerðina 20. nóvember 1996 hafi rést úr kryppunni, stefnandi hafi hækkað um 6 sm og bakverkir batnað verulega. Stefnanda hafi eftir þá aðgerð liðið betur en nokkru sinni frá því fyrir aðgerðina 1988.

Af hálfu stefnanda eru færð þau rök fyrir þeim hluta bótakröfunnar sem snýr að aðgerðinni 13. september 1988, að skort hafi á upplýsingar um afleiðingar þess að fjarlægja Harringtonstögin. Hann hafi ekki verið spurður álits og ekki hafi verið leitað samþykkist hans fyrir þeirri aðgerð. Honum hafi ekki verið gerð grein fyrir að kryppa á hrygg gæti aukist í kjölfar aðgerðarinnar. Með því hafi verið brotið gegn reglu sem talin hafi verið í gildi hér en síðar hafi verið lögfest með 10. gr. læknalaga nr. 53/1988.

Þá hafi orðið mistök við eftirmeðferð vegna þeirrar aðgerðar og í því felist saknæmt athafnaleysi eða vanræksla af hálfu lækna þeirra sem störfuðu hjá stefnda sem stefndi beri ábyrgð á. Byggt er m.a. á skoðun Jóns Karlssonar bæklunarlæknis hvað varðar vanrækslu á upplýsingagjöf og mistök við eftirmeðferð sem landlæknir hafi gert að sinni í umsögn um aðgerðina.

Hvað varðar aðgerðina 1993 færir stefnandi þau rök fyrir bótaábyrgð stefnda að mistök hafi verið gerð við val á aðgerð. Vandamál stefnanda hafi alls ekki verið staðbundnir verkir heldur miklu víðtækari eins og víða komi fram í fram lögðum læknisfræðilegum gögnum. Vísar stefnandi meðal annars til álits læknanna Boga Jónssonar í bréfi til landlæknis frá 11. október 1997 og Lennarts Sjöström í bréfi frá 22. febrúar 2000. Einnig er vísað til þess að búið hafi verið að ákveða aðra tegund aðgerðar löngu áður en læknar hafi skipt um skoðun daginn áður en framkvæma átti aðgerðina. Hætt hafi verið við að framkvæma sams konar aðgerð og læknar á Landspítala hafi framkvæmt með góðum árangri 20. nóvember 1996. Stefnandi heldur aðgerðina 1993 hafa verið gagnslausa og því óþarfa. Hafi aðgerðin valdið honum auknum bakverkjum svo hann hafi verið óvinnufær í mörg ár. Með þessari röngu ákvörðun hafi læknum á vegum stefnanda orðið á bótaskyld mistök í starfi.

Af hálfu stefnanda er jafnframt byggt á því að starfsmenn stefnda hafi gerst sekir um saknæmt athafnaleysi við eftirmeðferð vegna aðgerðarinnar. Því til stuðnings er meðal annars vísað til fyrrnefndrar umsagnar Jóns Karlssonar læknis sem hafi talið að langtíma eftirmeðferð í kjölfar aðgerðarinnar hafi verið ábótavant.

Af hálfu stefnanda er því haldið fram að þar sem leidd hafi verið í ljós saknæm mistök varðandi undirbúning, framkvæmd og eftirmeðferð vegna framangreindra læknisaðgerða hvíli á stefnda sú byrði að sanna að tjón stefnanda hafi ekki verið bótaskyld afleiðing af mistökunum.

Kröfur stefnanda um bætur fyrir vinnutekjutap í kjölfar aðgerðarinnar 8. júní 1993 eru reistar á tvenns konar mismunandi grundvelli, en þær taka allar mið af tjónsútreikningi Jóns Erlings Þorlákssonar tryggingafræðings.

Stefnandi kveður kröfu varðandi tímabilið  8. júní 1993 til 17. nóvember 1994 vera reista á því að aðgerðin hafi valdið 100% óvinnufærni á þessu tímabili samkvæmt niðurstöðu örorkumats Atla Þórs Ólasonar læknis. Krafan sé í samræmi við réttarframkvæmd á tjónsdeginum 8. júní 1993, þ.e. fyrir gildistöku skaðabótalaga nr. 50/1993. Endamark tímabilsins taki mið af því að stefnandi hafi verið í verkjameðferð vegna aðgerðarinnar allt til 17. nóvember 1994, án þess að einkenni hefðu lagast neitt. Vegna tímabilsins 18. nóvember 1994 til 20. nóvember 1996 sé gerð krafa um tímabundið atvinnujón á grundvelli 2. gr. skaðabótalaga fyrir það tímabil, enda hafi stefnandi orðið fyrir vinnutekjutapi fyrir þá sök að tafir urðu á nýrri aðgerð allt til 20. nóvember 1996.

Stefnandi grundvallar kröfu um þjáningabætur á 3. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. og kveður kröfuna gerða fyrir tímabilið 18. nóvember 1994 til 20. nóvember 1996.

Skaðabótaábyrgð stefnda sé reist á almennum reglum íslensks skaðabótaréttar, þ.á m. sakarreglunni og reglunni um vinnuveitendaábyrgð, en stefndi beri samkvæmt henni ábyrgð á skaðaverkum starfsmanna Borgarspítalans, enda hafi stefndi tekið við öllum réttindum og skyldum Sjúkrahúss Reykjavíkur og forvera þess, Borgarspítalans.

Í vaxtakröfu sé fyrningarreglna gætt, en rétt þyki með hliðsjón af öllum atvikum að miða upphaf dráttarvaxtakröfu bóta stefnanda vegna aðgerðarinnar 13. september 1988 við þingfestingardag upphaflegrar stefnu og upphaf dráttarvaxtakröfu bóta vegna aðgerðarinnar 8. júní 1993 við þingfestingardag framhaldsstefnu.

Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að starfsmenn stefnda hafi hvorki sýnt af sér vanrækslu við upplýsingagjöf fyrir aðgerðina 13. september 1988 né við eftirmeðferð á stefnanda vegna aðgerðarinnar, sem leiða eigi til bótaskyldu stefnda á grundvelli almennra reglna skaðabótaréttarins.

Af hálfu stefnda er því haldið fram að aðgerðin sem framkvæmd var 13. september 1988 hafi verið minni háttar aðgerð þar sem einungis hafi verið fjarlægð þau stög og krókar sem settir höfðu verið í stefnanda í aftari hryggspengingaraðgerð 7. ágúst 1987. Rannsóknir höfðu sýnt að áverkinn var beingróinn og því ljóst að stögin höfðu sinnt því hlutverki sem þeim var ætlað. Stögin hefðu því sannanlega ekki gert stefnanda meira gagn og þar sem þau gátu átt verulegan þátt í bakverkjum stefnanda hafi verið ákveðið að fjarlægja þau.

Varðandi meinta vanrækslu stefnda á upplýsingagjöf fyrir aðgerðina 13. september 1988 byggir stefndi sýknukröfu sína á því, að ekkert hryggjarsig hafi átt sér stað hjá stefnanda eftir að stálstög og krókar voru fjarlægð.  Röntgenmyndir sem teknar hafi verið 15. október 1987 á Borgarspítalanum og 23. febrúar 1988 á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri sýni að liðbolurinn á IX. brjóstliðnum hafði sigið lítið eitt saman og kryppumyndun þannig aukist lítillega. Þar sem áverkinn hafi verið að fullu beingróinn hafi brottnám staganna ekki getað leitt til neins hryggjarsigs. Engar sannanir liggi fyrir um það að hryggurinn hafi sigið eftir umræddu aðgerð. Af þessu leiði að stefndi hafi ekki orðið uppvís að neinni vanrækslu á upplýsingaskyldu enda verði ekki gerð krafa um að læknar upplýsi um hættu sem ekki sé fyrir hendi.

Því er haldið fram að eftirmeðferð stefnanda eftir aðgerðina 13. september 1988 hafi ekki verið ábótavant. Möguleg eftirmeðferð eftir þessa litlu aðgerð hafi verið takmörkuð og gat aðeins verið fólgin í almennu eftirliti læknis og hugsanlegri röntgenmyndatöku. Stefnandi hafi verið útskrifaður eftir aðgerðina með þeim fyrirmælum að endurkoma yrði eftir þörfum. Sjúklingur hafi farið til síns heima á Dalvík með ráðleggingum um að leita til göngudeildar Borgarspítalans ef á þyrfti að halda.

Stefnandi hafi farið í röntgenmyndatökur bæði hjá læknum fyrir norðan og hjá Rögnvaldi Þorleifssyni lækni á Borgarspítalanum en þær ekki leitt í ljós neinar umtalsverðar breytingar frá umræddri aðgerð.

Stefndi bendir á að miðað við þessar myndgreiningarniðurstöður og þekkingu á þeim tíma hefði ekki komið til greina að gera neins konar frekari aðgerðir á stefnanda til þess að minnka óþægindi hans. Hins vegar hafi verið reynt að minnka óþægindi stefnanda með deyfingarmeðferð. Af framangreindu og fyrirliggjandi gögnum megi ljóst vera að jafnvel þótt stefnandi hefði fengið tiltekinn endurkomutíma, sem einungis hefði falist í viðtali við lækni og röntgenmyndatöku, hefði það engu breytt, hvorki um áframhaldandi læknismeðferð né batahorfur.

Þá er því haldið fram að meginskilyrði sakarreglunnar um orsakatengsl og sennilega afleiðingu séu ekki fyrir hendi og því beri að sýkna stefnda. Engin sýnileg orsakatengsl séu milli hugsanlegs tjóns stefnanda og hinnar meintu vanrækslu við upplýsingagjöf og eftirmeðferð vegna aðgerðarinnar í september 1988. Þá sé hugsanlegt tjón stefnanda ekki sennileg afleiðing hinnar meintu vanrækslu starfsmanna stefnda á upplýsingagjöf og eftirmeðferð vegna aðgerðarinnar í september 1988. Hafi stefnandi orðið fyrir tjóni vegna aðgerðarinnar, telur stefndi að slíkt tjón verði ekki leitt af meintri vanrækslu á upplýsingagjöf og eftirmeðferð.

Stefndi telur að starfsmenn hans hafi ekki sýnt af sér neinar saknæmar athafnir, hvorki fyrir, við, né eftir aðgerðina 13. september 1988, sem leitt geti til bótaskyldu. Hið andlega og líkamlega ástand stefnanda sé óhappatilviljun sem ekki eigi sér neinar orsakir í mögulegum læknamistökum og falli því utan hinna almennu bótareglna skaðabótaréttarins. Áverki stefnanda hafi verið mjög alvarlegur hryggáverki sem tæplega sé hægt að reikna með fullum bata af þrátt fyrir umfangsmiklar skurðaðgerðir.

Stefndi telur að framlagðar greinargerðir Halldórs Baldurssonar tryggingarlæknis og Brynjólfs Mogensen, yfirlæknis bæklunardeildar Sjúkrahúss Reykjavíkur, sýni glöggt að líkamlegt ástand stefnanda sé óviðráðanleg afleiðing slyssins 31. júlí 1987 en verði ekki rakin til saknæmra athafna starfsmanna stefndu. Af þessum sökum beri að sýkna stefnda.

Stefndi byggir kröfu um sýknu í framhaldssök á því að starfsmenn stefnda hafi ekki fyrir, við eða eftir aðgerðina hinn 8. júní 1993 sýnt af sér neina þá vanrækslu eða gáleysi við meðferð á stefnanda sem leiða eigi til bótaskyldu stefnda á grundvelli almennra reglna skaðabótaréttarins.

Mótmælt er túlkun stefnanda á álitum Lennarts Sjöström, hryggjarskurðlæknis og Jóns Karlssonar, dósents og yfirlæknis við bæklunardeild Sahlgrenska sjúkrahússins í Svíþjóð, um hina umdeildu aðgerð. Stefnandi hafi sjálfur aflað álitsins án nokkurs samráðs við stefnda sem hvorki hafi við val á sérfræðingi né við val á spurningum og orðalagi þeirra haft tækifæri til að koma að sjónarmiðum sínum. Til grundvallar áliti sænska læknisins liggi aðeins röð röntgenmynda frá tímabilinu 1992 til 1997 og vanti margar myndir í þá röð. Þá hafi engin önnur gögn úr sjúkrasögu stefnanda fylgt álitsbeiðninni til sænska læknisins svo sem aðgerðarlýsingar úr umræddum aðgerðum eða önnur gögn sem þó hefðu sýnilega getað skipt miklu máli við mat hans á umræddum aðgerðum. Þannig virðist Lennart Sjöström hvorki hafa haft þá grundvallarvitneskju við mat sitt á aðgerðunum að bak stefnanda var sannanlega beingróið löngu fyrir aðgerðina hinn 8. júní 1993, né hafði hann haft upplýsingar um það hvar og þá hvernig verkir hrjáðu stefnanda. Ekki sé því unnt að líta á álit þetta sem grundvöll að formlegri matsgerð í dómsmáli.

Aðgerð sú sem framkvæmd hafi verið á stefnanda á Borgarspítalanum 8. júní 1993 hafi verið gerð í þeim tilgangi að festa saman 8. til 10. brjósthryggjarlið stefnanda í því skyni að minnka staðbundna verki stefnanda. Tilgangur aðgerðarinnar hafi ekki verið sá að rétta úr kryppu stefnanda enda hefði þá þurft að gera svokallaða osteotomiu í gegnum beinmassann en slík aðgerð hefði, miðað við aðstæður stefnanda, aukið verulega hættuna á lömun. Að mati stefnda hafi bæði röntgenmyndir og skoðanir á stefnanda fyrir aðgerð sýnt að verkir hans væru staðbundnir og af þeim sökum hafi þessi aðgerð verið valin í stað mun hættumeiri aðferðar.

Stefndi telur verða ráðið af áliti Lennart Sjöström að tilraun til uppréttingar eftir brottnám fremri hluta þófa takist aðeins í fæstum tilfellum og þá sérstaklega í brjóstliðum þar sem brjóstkassinn sýni viðnám gegn slíkri réttingu. Álit Lennarts staðfesti því að aðgerð sú sem framkvæmd hafi verið á Landspítalanum 20. nóvember 1996 hafi beinlínis verið áhættusöm.

Stefndi telur ekki verða ráðið af orðalagi í greinargerð Jóns Karlssonar að með ummælum um, að langtímaeftirmeðferð hafi verið ábótavant, eigi hann við að um hafi verið að ræða einhverja bótaskylda vanrækslu heldur sé hér um ræða það mat Jóns að gera hefði mátt betur. Jón Karlsson hafi ekki fjallað um í hverju hin svokallaða langtíma­eftirmeðferð átti að vera fólgin, heldur hafi látið nægja að benda á að rannsókn hefði átt að gera með tilliti til nýrrar aðgerðar. Í álitinu komi hvorki fram hvers konar rannsókn hefði átt að gera né hvers konar aðgerð átti að fylgja í kjölfarið.

Stefndi bendir á að aðgerð stefnanda 8. júní 1993 hafi verið hefðbundin fremri hryggspengingaraðgerð. Eftirmeðferð eftir slíka aðgerð sé fólgin í reglulegum skoðunum og röntgenmyndatökum á aðgerðarsvæði í því skyni að fylgjast með mögulegum fylgikvillum og gróanda beina. Slík eftirmeðferð standi að jafnaði í um eitt ár eftir aðstæðum í hverju tilviki. Eftir hefðbundna eftirmeðferð, eins og tilviki stefnanda, taki ekki við það sem í máli þessu sé kölluð langtímaeftirmeðferð enda verði ekki séð í hverju hún ætti að felast.

Aðgerðin hafi verið gerð í því skyni að minnka bakverki stefnanda og hæpið að stefndi hefði í framhaldinu reynt að rétta hryggsveigju stefnanda enda hafi mat lækna á Borgarspítalanum á þeim tíma verið að slík aðgerð væri of áhættusöm. Með hliðsjón af þessum staðreyndum og því að tveimur árum eftir aðgerðina hafi stefnandi verið kominn í sjúkrameðferð á öðru sjúkrahúsi, geti ekki verið um að ræða vanrækslu af hálfu stefnda við svokallaða langtímaeftirmeðferð stefnanda á árunum 1995 og 1996.

Af hálfu stefnda er vísað til þess álits Tryggingarstofnunar að ekki yrði séð að bati stefnanda hefði gengið óeðlilega hægt heldur væri hér um að ræða erfiðan áverka frá upphafi og afleiðingar hans ekki verri en gera hefði mátt ráð fyrir.

Með hliðsjón af framangreindu og áliti Jóns Karlssonar og Lennarts Sjöström verði því ráðið að ábendingar fyrir aðgerðina hafi verið réttar, aðgerðin sjálf verið rétt valin, framkvæmd hennar hafi ekki verið ábótavant og eftirmeðferð heldur ekki ábótavant. Starfsmenn stefnda hafi því enga vanrækslu sýnt sem leiða beri til bótaskyldu stefnda vegna læknamistaka.

Af hálfu stefnda er bent á að ýmis önnur meiðsli á hné og hendi hafi hrjáð stefnanda og þá hafi röntgenrannsóknir, bæði á Borgarspítala og Landspítala staðfest að stefnandi hafi verið haldinn algengum hryggsjúkdómi svokölluðum Mb. Scheuerman, sem geri vart við sig á gelgjuskeiði. Sá sjúkdómur lýsi sér í því að hryggsveigja verði meiri en sú hefðbundna hryggsveigja sem aðrir einstaklingar búi við. Beygjan í brjóstbaki stefnanda hafi því ekki eingöngu stafað af samansigi IX. brjósthryggjarliðar.

Af hálfu stefnda er því jafnframt haldið fram að ekki hafi verið sýnt fram á að milli ástands stefnanda og aðgerðarinnar 8. júní 1993 séu orsakatengsl eða að ástand stefnanda sé sennileg afleiðing af þeirri aðgerð.

Því er haldið fram að þar sem aðgerðin 8. júní 1993 hafi verið framkvæmd fyrir  gildistöku skaðabótalaga nr. 50/1993 eigi þau ekki við um bótakröfu stefnanda, sbr. 28. gr. þeirra laga. Þá hafi Atli Þór Ólafsson læknir ranglega byggt örorkumat sitt á grundvelli skaðabótalaganna. Miskabótakrafa stefnanda verði ekki  grundvölluð á 264. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 þar sem aðgerðirnar hafi ekki verið refsiverðar meingerðir, framdar af illfýsi í garð stefnanda.

Af hálfu stefnda er því haldið fram að hvergi í örorkumatinu sé að finna afstöðu hans til þess hvort meint örorka stefnanda sé afleiðing bótaskyldra athafna stefnda. Í þessu sambandi telur stefndi jafnframt að ekki sé unnt að krefja stefnda bóta fyrir tímabundna örorku vegna tímabila sem í örorkumatinu kallist annars vegar óvissutímabil og hins vegar biðtími eftir aðgerð. Slíkur bótagrundvöllur sé bæði ómálefnalegur og fjarstæðukenndur og sé því krafist sýknu af öllum kröfum stefnanda fyrir tímabundið atvinnutjón og þjáningarbætur fyrir tímabilið frá 18. nóvember 1994 til 20. nóvember 1996.

Fari svo að dómurinn telji að starfsmenn stefnda hafi sýnt af sér einhverja þá vanrækslu við meðferð stefnanda sem leiða eigi til bótaskyldu stefnda, beri að lækka bótakröfur stefnanda mjög verulega. Líta beri til þess að aðstæður stefnanda hafi verið læknisfræðilega mjög umdeilanlegar og verulegur vafi sé um orsakatengsl og sennilegra afleiðinga milli aðgerðanna og tjóns stefnanda. Ljóst hafi verið orðið 17. nóvember 1994 að um frekari læknismeðferðir yrði ekki að ræða og að stefnandi hefði þá þegar hlotið þann bata sem vænta hafi mátt af aðgerðinni. Eftir það geti hann ekki átt rétt á þjáningabótum eða bótum vegna atvinnutaps. Þá megi rekja mikinn hluta tjóns stefnanda til neysluvandamála hans fremur en aðgerðanna. Þá telur stefndi að lækka beri miskabótakröfu stefnanda stórlega. Því til stuðnings er meðal annars bent á að tjón stefnanda sé á mörkum þess að vera óhappatilviljun. Þá bendir stefndi á að stefnandi virðist hafa fengið varanlega bata eftir aðgerðina 20. nóvember 1996.

III - Niðurstaða

Stefnandi hefur undirgengist alls fjórar aðgerðir á hrygg frá því að hann slasaðist alvarlega í bifhjólaslysi 31. júlí 1987. Stefnandi grundvallar bótakröfur á meintum mistökum lækna á Borgarpítalanum í tengslum við tvær þessara aðgerða.

Um bótakröfu vegna aðgerðar 13. september 1988.

Af hálfu stefnanda eru bótakrafa í tengslum við aðgerðina 13. september 1988 einkum studd áliti Jóns Karlssonar yfirlæknis við bæklunardeild Salhgrenska háskólasjúkrahússins í Gautaborg sem hann ritaði Ólafi Ólafssyni þáverandi landlækni í júní 1998. Af álitinu verður ekki séð að hvaða gögn eða upplýsingar yfirlæknirinn hafði undir höndum um undirbúning og eftirmeðferð vegna aðgerðarinnar 13. september 1988. Þá kemur ekki fram í álitinu hvaða upplýsingar hafi átt að veita stefnanda fyrir aðgerðina og ekki kemur fram hvaða eftirmeðferð hefði verið heppileg að öðru leyti en því að röntgenmyndataka er nefnd. Með hlíðsjón af framangreindu þykir umrætt álit ekki geta komið að miklu gagni við úrlausn málsins. Í bréfi landlæknis til lögmanns stefnanda frá 19. ágúst 1988 er þessa álits Jóns Karlssonar getið en ekki tekin nein afstaða til þess.

Í framlögðu örorkumati Atla Þórs Ólafssonar læknis er vísað í framangreint bréf landlæknis. Atli Þór lagði einungis mat á óvinnufærni stefnanda í kjölfar aðgerðarinnar en tók enga afstöðu til þess hvort um vanrækslu við upplýsingagjöf eða eftirmeðferð hefði verið að ræða.

Aðgerðin 13. september 1988 fólst í því að fjarlægð voru svokölluð Harringtonstög og stálkrókar sem komið hafði verið fyrir til styrktar við hryggaðgerð 7. ágúst 1987. Slíkum stálstögum er komið fyrir við aðgerðir á hrygg, meðal annars vegna hryggbrota, til að halda hryggnum í skorðum og veita honum stuðning meðan beinin eru að gróa. Ekki er annað í ljós leitt en að hryggbrotið hafi gróið eðlilega, spengingin heppnast og stefnandi fengið þann bata sem vænst var. Stefnandi fann þó til verkja frá baki eins og búast mátti við eftir svo alvarlegt líkamstjón.

Fram er komið í málinu að liðbolur á brjósthryggjarlið féll nánast saman við slysið og ekki tókst að rétta fullkomlega úr baki stefnanda við aðgerðina 7. ágúst 1987.

Stefnandi kvartaði undan bakverkjum í viðtölum við lækna eftir aðgerðina 7. ágúst 1987 en þekkt er að Harringtonstög geta valdið bakverkjum. Harringtonstögum er sem fyrr segir fyrst og fremst ætlað að halda hryggbroti í skorðum eftir aðgerð og veita hryggnum stuðning meðan brot er að gróa. Þegar brot er beingróið hefur hryggurinn að jafnaði öðlast fullan styrk og ef grunur leikur á að stengur eða krókar séu farnir að orsaka verki þykir að jafnaði rétt að fjarlægja þennan búnað með skurðaðgerð. Í samræmi við þessar viðteknu skoðanir um hlutverk Harringtonstaga skráði aðgerðarlæknir í aðgerðarlýsingu vegna aðgerðarinnar 7. ágúst 1987, að áætlað væri að taka burtu Harringtonstögin eftir eitt ár þegar líkaminn væri gróinn.

Í umsögn Boga Jónssonar bæklunarskurðlæknis til landlæknis frá 15. október 1997 kemur fram að vitað sé að ef slík spöng sé tekin sígi hryggur frekar niður þar sem liðþófar milli hryggjarbola séu skaddaðir eftir brotið. Ef veruleg skekkja sé til staðar aukist hún og sé þá ekki nægjanlegt að samruni hryggjaliða að aftan sé vel gróinn þar sem hún sé í eðli sínu dynamísk og láti smám saman undan ef mikil skekkja sé fyrir hendi. Þessi umsögn er ekki rökstudd og er almenns eðlis en ekki lýsing á tilviki stefnanda. Er hún ekki í fullu samræmi við önnur læknisfræðileg gögn sem aflað hefur verið vegna málsins.

Þar sem læknisfræðileg gögn sýna að beinbrot stefnanda var vel gróið haustið 1988 og hann hafði kvartað undan bakverkjum þykir að sú ákvörðun lækna á Borgarspítalanum að fjarlægja Harringtonstögin hafa verið réttmæt.

Ekki verður fallist á með stefnanda að sú aðgerð hafi verið til þess fallinn að skapa hættu á frekara heilsutjóni fyrir hann. Ekki liggja fyrir upplýsingar um hvort eða þá hversu mikið kryppumyndun á brjósthryggjarsvæði jókst eftir að Harringtonstögin voru fjarlægð. Ljóst er að kryppumyndunin var fyrst og fremst afleiðing af slysi því sem stefnandi varð fyrir og ekki tókst að ráða fulla bót á í aðgerðinni 7. ágúst 1987. Telja verður að Harringtonstögin hefðu ekki getað komið í veg fyrir kryppumundun en hefðu hins vegar getað valdið ýmsum fylgikvillum ef þau hefðu ekki verið tekin.

Í endurkomu stefnanda á Borgarspítala 17. ágúst 1988 var fjallað um að fjarlægja málminn úr baki hans eins og legið hafði fyrir að ætti að gera þegar brotið væri gróið allt frá því að upphafleg aðgerð var framkvæmd. Stefnandi var síðan kallaður inn til slíkrar aðgerðar 12. september 1988 og aðgerðin framkvæmd daginn eftir. Ekki verður séð að umrædd aðgerð hafi verið þess eðlis eða hættueiginleikar hennar slíkir að skort hafi á upplýsingar til stefnanda um aðgerðina eða afleiðingar hennar.

Við útskrift stefnanda, daginn eftir aðgerðina var skráð að stefnandi reiknaði með að halda heim norður á næstunni og að endurkomur yrðu eftir þörfum. Í minnispunktum Rögnvaldar Þorleifssonar frá 19. nóvember 1999 kemur fram að hann hafi verið í símasambandi við stefnanda eftir aðgerðina og m.a. látið taka myndir af hrygg hans á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri. Stefnandi hafi leitað til heilsugæslustöðvarinnar á Dalvík a.m.k. þrisvar sinnum á tímabilinu 8. mars til 18. desember 1989 og komið á Borgarspítala í röntgenrannsókn á hrygg 21. nóvember 1989. Stefnandi hafi farið a.m.k. fjóra túra á skuttogara á fyrri hluta ársins 1989 en stundaði þess á milli léttari vinnu vegna bakverkja. Af hálfu stefnda hefur þessum upplýsingum ekki verið mótmælt.

Líta verður á aðgerðina 13. september 1988 sem minni háttar bakaðgerð. Þar sem röntgenmyndir sýndu að beinin voru vel gróin máttu starfsmenn stefnda ætla að ástand stefnanda væri orðið stöðugt. Fallast má á það álit Brynjólfs Mogensen forstöðulæknis við Sjúkrahús Reykjavíkur í greinargerð til lögmanns stefnda 20. október 1998 að við útskrift stefnanda hefði verið betra að hann hefði fengið ákveðinn endurkomutíma á göngudeild og farið í röntgenmyndatökur eftir fyrirfram ákveðinni áætlun. Stefnandi fór hins vegar í röntgenmyndatökur eftir aðgerðina á Akureyri að undirlagi aðgerðarlæknisins Rögnvaldar Þorleifssonar og síðar á Borgarspítalanum. Ekkert bendir þannig til þess að eftirmeðferð sú sem stefnandi fékk hafi verið áfátt eða að skipulögð eftirmeðferð hefði breytt nokkru um líðan hans eða vinnufærni.

Dómurinn telur stefnanda því hvorki hafa sýnt fram á, að læknar á Borgarspítala hafi veitt honum ófullnægjandi upplýsingar fyrir aðgerð þá sem framkvæmd var 13. september 1988 né að þeir hafi veitt honum ófullnægjandi eftirmeðferð vegna aðgerðarinnar. Verður því ekki fallist á með stefnanda að starfsmönnum stefnda hafi orðið á mistök að þessu leyti sem stefndi beri skaðabótaábyrgð á.

Um aðgerðina 8. júní 1993

Þau læknisfræðilegu gögn sem stefnandi styður kröfur sínar vegna þessarar aðgerðar einkum við eru annars vegar álit Lennarts Sjöström, yfirlæknis við bæklunardeild Huddinge háskólasjúkrahússins í Svíþjóð frá 22. febrúar 2000 og tveimur bréfum til landlæknis frá Boga Jónssonar bæklunarskurðlækni, en hann var einn þeirra lækna sem stóðu að síðustu hryggaðgerðinni á stefnanda 20. nóvember 1996.

Fyrir liggur að Ólafur Ólafsson þáverandi landlæknir setti sig upphaflega í samband við Lennart Sjöström og sendi honum röntgenmyndir af stefnanda. Lögmaður stefnanda fylgdi þessari sendingu eftir með bréfi 10. september 1999. Af fyrirliggjandi gögnum verður ekki með vissu ráðið hvaða gögn sænski læknirinn lagði til grundvallar svarbréfi sínu. Að frátöldu bréfi lögmanns stefnanda sem hefur að geyma stuttorða lýsingu á sjúkrasögu stefnanda virðist læknirinn aðeins hafa haft undir höndum hluta af þeim röntgenmyndum sem teknar höfðu verið af stefnanda. Í svari sænska læknisins lætur hann niðurstöðu um það hvort val á aðgerðinni 8. júní 1993 hafi verið rétt alfarið velta á því hvernig vandi sjúklings hafi verið skilgreindur. Hafi vandi sjúklings verið talinn staðbundinn verkur hafi samruni hryggjaliða á brotssvæðinu getað verið nægjanleg aðgerð til að koma í veg fyrir verk og aðgerðin þá rétt valin. Hafi vandi sjúklingsins hins vegar verið talinn afleiðing af fenginni kýtingu og tilgangur aðgerðar að rétta úr henni hafi aðgerðin ekki verið vel valin. Þá hefði verið rétt að gera aðgerð á hryggnum bæði að framan og aftan, þar sem unnt hefði verið að hafa fulla stjórn á málum og alla möguleika til að lagfæra aflögunina.

Slík aðgerð sem Lennart Sjöström vísaði til var framkvæmd 20. nóvember 1996 á Landspítalanum af bæklunarskurðlæknunum Boga Jónssyni og Halldóri Jónssyni, ásamt fleirum. Í áður tilvitnuðu svarbréfi Boga Jónssonar til þáverandi landlæknis 27. júní 1996 lætur hann í ljós það álit að meðferð hryggjabrota hafi tekið gífurlegum framförum síðustu 15 árin. Ennfremur sagði að sennilega hafi stefnandi fengið ófullnægjandi réttingu eftir brotið 1987. Með tilliti til þeirrar þekkingar sem þá hafi legið fyrir hafi ekki verið möguleiki á betri réttingu. Þar sem áhættan við aðgerðina 1993 með osteotomiu í gegnum beinmassa að aftan hafi verið talin það mikil hafi verið gripið til þess ráðs að gera spengingu á hryggnum að framan án réttingar og hafi það samkvæmt læknabréfi verið í samráði við sjúkling.

Í óformlegra bréfi Boga Jónssonar læknis til þáverandi landlæknis frá 15. október 1997 kveður við nokkuð annan tón. Þar segir m.a. um val á aðgerðartegund að ekki sé hægt að hindra aukningu á kryppumyndun eða laga verki vegna hennar, þegar 35 gráðu kryppa sé til staðar, með fremri samruna einum saman, nema með því að rétta skekkjuna og spengja að aftan og framan. Hryggur stefnanda hafi þegar verið kominn í ójafnvægi og eina leiðin til að koma honum aftur í jafnvægi hafi verið að brjóta upp beinspöngina og rétta upp hrygginn. Þetta hafi verið gert á Landspítala í nóvember 1996. Stefnandi hafi verið orðinn svo illa haldinn af verkjum að hann hafi verið reiðubúinn að gangast undir 12 tíma aðgerð vitandi um að áhættan að lamast við aðgerðina væri 10% Bogi taldi að fremri spengingin hafi í upphafi verið ónóg og fremur til að torvelda frekari aðgerðir til að rétta upp hrygginn. Hún hafi því verið óþörf ein og sér.

Bogi Jónsson kom fyrir dóm og gat litlar skýringar gefið á framangreindu ósamræmi. Hann dró hins vegar nokkuð í land með þær fullyrðingar sem fram komu í síðara bréfinu. 

Í fyrrnefndu örorkumati Atla Þórs Ólafssonar læknis er einungis að finna mat á tímabundinni örorku stefnanda í kjölfar aðgerðarinnar en þar er ekki tekin afstaða til þess hvort val á aðgerð eða framkvæmd eftirmeðferðar hafi verið ábótavant.

Eins og áður hefur verið rakið hafði Ragnar Jónsson bæklunarskurðlæknir ráðgert á árinu 1992 að framkvæma svokallaða osteotomiu á hrygg stefnanda með það fyrir augum að rétta úr kryppumyndun og var stefnandi settur á biðlista vegna slíkrar aðgerðar. Þegar stefnandi kom til skoðunar 7. júní 1993, daginn fyrir fyrirhugaða aðgerð var það mat Ragnars Jónssonar að bakverkir stefnanda væru staðbundnir. Ákvað hann því að framkvæma einungis fremri spengingu á hryggnum til þess að draga úr hreyfingu á brotsvæðinu eða það taldi hann vera til þess fallið að draga úr staðbundnum verkjum. Framlögð gögn styðja þá fullyrðingu stefnanda að bakverkirnir hafi ekki lagast við aðgerðina heldur þvert á móti farið versnandi.

Þekkt er að staðbundnir bakverkir eftir að hryggur hefur verið spengdur að aftan geta stafað af því að hreyfing er enn í brotinu að framan og sú hreyfing veldur sársauka sem stemma má stigu við með því að spengja brotsvæðið einnig að framan. Ljóst er hins vegar að slík aðgerð er ekki til þess fallin að rétta úr kryppumyndun eða bæta úr verkjum sem stafa frá kryppumyndun.

Ekkert þykir fram komið í málinu sem bendir til þess að Ragnari Jónssyni bæklunarskurðlækni hafi orðið á mistök við mat á bakverkjum stefnanda, út frá lýsingu hans sjálfs daginn fyrir fyrirhugaða aðgerð. Með vísan til þess er framangreint álit Boga Jónssonar bæklunarskurðlæknis í bréfi frá 15. október 1997 eina læknisfræðilega gagnið sem styður málatilbúnað stefnanda um að mistök hafi átt sér stað við val á aðgerðartegund. Álit Lennart Sjöström styður ekki málatilbúnað stefnanda að þessu leyti og álit Jóns Karlsson gengur gegn honum.

Sú aðgerð sem Ragnar hætti við að framkvæma fólst í því að brjóta upp hrygginn bæði að framan og aftan og rétta þannig úr kryppumyndun. Þessi aðgerð er mun áhættusamari en fremri spenging og er fram komið í málinu að hætta á að hún leiði til algerrar lömunar er ekki undir 10%. Í málinu er fram komið að fyrsta aðgerð slíkrar tegundar hér á landi var framkvæmd á stefnanda þremur árum síðar eða 20. nóvember 1996 af tveimur bæklunarskurðlæknum sem báðir höfðu framkvæmt slíkar aðgerðir erlendis og nutu þeir aðstoðar tveggja annarra lækna. Aðgerðin tók 12 klst. Ætla má að við þær aðstæður sem voru á Borgarspítalanum í júní 1993 hafi áhætta af alvarlegum fylgikvillum verið nokkru hærri en 10%.

Fyrir liggur að læknar á Borgarspítalanum breyttu mati sínu á hvaða aðgerð væri heppilegast að framkvæma á hrygg stefnanda í því skyni að minnka bakverki. Leggja verður til grundvallar að þessi breytta afstaða hafi meðal annars komið til vegna breytts mats á staðsetningu verkja. Sú aðgerð sem varð fyrir valinu er mun auðveldara að útfæra og hætta á fylgikvillum mun minni en við sambærilega aðgerð og stefndi gekkst undir 1996. Með hliðsjón af breyttu mati á staðsetningu verkja var góð von um að minni aðgerðin myndi duga til að bæta úr verkjum stefnanda og var stefnanda gerð grein fyrir að líkur á baka væru aðeins um 50%. Sú aðgerð útilokaði ekki aðra og meiri aðgerð síðar.

Með hliðsjón af framangreindu mati aðgerðarlæknis á bakverkjum stefnanda, batahorfum og hættu á fylgikvillum verður ekki talið að starfsmaður stefnda hafi orðið á mistök við val á aðgerðartegundum þótt ekki hafi orðið tilætlaður árangur af þeirri aðgerð sem valin var. Skiptir þar ekki máli að sambærileg aðgerð og sú sem hætt var við að framkvæma var framkvæmd af öðrum læknum á öðru sjúkrahúsi rúmum þremur árum síðar með mun betri árangri.

Af hálfu stefnanda er bótakrafa að hluta grundvölluð á því, að eftirmeðferð hafi verið ábótavant og er í því sambandi m.a. byggt á áliti Jóns Karlssonar yfirlæknis frá því í júní 1998. Í álitinu kemur fram að hann telji langtíma eftirmeðferð í kjölfar aðgerðarinnar 8. júní 1993 hafa verið ábótavant. Taldi hann að þegar stefnandi hafi leitað til Sjúkrahúss Reykjavíkur 2-3 árum eftir aðgerð hefði átt að gera nýja rannsókn með tilliti til hugsanlegrar nýrrar aðgerðar. Þáverandi landlæknir vísar til þessa álits yfirlæknisins í fyrrnefndu bréfi sínu til lögmanns stefnanda 19. ágúst 1998 en tekur ekki afstöðu til þess.

Í greinargerð Brynjólfs Mogensen forstöðulæknis á Sjúkrahúsi Reykjavíkur, áður Borgarspítala, til lögmanns stefnda 20. október 1998 kom fram að við endurkomu stefnanda 11. nóvember 1993 hafi Ragnar Jónsson talið að hann væri beingróinn og honum ráðlagt að leita til sérfræðings í verkja og deyfingarmeðferð. Við endurkomu stefnanda 22. september 1994 hafi Ragnar skoðað hann vel. Betra hefði verið að mynda bak stefnanda í þessari endurkomu en Brynjólfur lagði á það áherslu að slík myndataka hefði ekki leitt til neinnar skurðmeðferðar á Sjúkrahúsi Reykjavíkur. Niðurstöður hefðu ekki breytt neinu um áframhaldandi meðferð. Búið hafi verið að gera allt það sem skynsamlegt og rétt hafi verið talið að gera.

Fljótlega eftir aðgerðina 8. júní 1993 var ljóst að hún hafði ekki borið þann tilætlaða árangur við að draga úr bakverkjum stefnanda. Áður hefur verið gerð grein fyrir þeirri eftirmeðferð sem hann hlaut fyrst eftir aðgerðina en Jón Karsson yfirlæknir telur að henni hafi ekki verið áfátt. Ljóst var að læknar á Sjúkrahúsi Reykjavíkur vildu ekki gera frekari bakaðgerðir á stefnanda og verður ekki talið að sú afstaða verði felld undir mistök við eftirmeðferð eins og á stóð.

Við mat á því hvort langtímaeftirmeðferð hafi verið ábótavant verður að hafa í huga að stefnandi hafði leitað til lækna á Landspítalanum ekki síðar en í október 1995 eða rúmum 2 árum eftir aðgerðina. Í framangreindum minnispunktum Rögnvaldar Þorleifssonar segir að á Landspítalanum hafi m.a. verið teknar röntgenmyndir af hrygg stefnanda 13. og 19. október og 20. nóvember 1995, 2. maí, 20. og 26. nóvember 1996 og 8. janúar, 14. maí og 7. apríl 1997. Svo sem fyrr er fram komið var stefnandi settur á biðlista eftir nýrri aðgerð á Landspítalanum 2. janúar 1996 og aðgerð gerð á hrygg hans 20. nóvember 1996. Frá þeim tíma sem stefnandi leitaði til Landspítala höfðu læknar á Sjúkrahúsi Reykjavíkur ekki afskipti af stefnanda og verður ekki talið að að um neina vanrækslu varðandi eftirmeðferð geti verið að ræða frá þeim tíma.Eins og áður er getið var aðgerðin 8. júní 1993 tæknilega vel heppnuð þótt ekki næðist tilætlaður árangur af henni. Þá greri hryggurinn eðlilega eftir aðgerðina. Aðgerðinni var fylgt eftir með reglulegum endurkomum á Borgarspítala 21. júlí, 16. september, 11. nóvember og 15. desember 1993. Þá var stefnandi hafður í sérstöku stuðningsbelti í fjóra mánuði eftir aðgerðina. Hann mætti síðan til eftirlits 22. september og 17. nóvember 1994. Fram kemur í minnispunktum Rögnvaldar Þorleifssonar bæklunarskurðlæknis frá 19. nóvember 1999 að röntgenmyndir hafi verið teknar af hrygg stefnanda á Borgarspítalanum fjórum sinnum eftir aðgerðina á árinu 1993. Þá var stefnanda vísað í verkjalyfja og deyfingarmeðferð. Með hliðsjón af öllu framangreindu þykir stefnandi ekki hafa leitt að því líkum að eftirmeðferð í kjölfar aðgerðarinnar eða langtíma eftirmeðferð hafi verið ábótavant.

Fyrir liggur að stefnandi hefur búið við mikla bakverki allt frá því að hann hryggbrotnaði í alvarlegu bifhjólaslysi 1987. Telja verður að vinnutekjutap stefnanda og þjáningar megi fyrst og fremst rekja til þessa slyss sem stefndi bar ekki ábyrgð á. Stefnandi þykir hins vegar ekki hafa tekist að sýna fram á að meint tjón hans verði rakið til bótaskyldrar vanrækslu starfsmanna stefnda sem stefndi beri ábyrgð á. Ber því að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda í máli þessu.

Með gjafsóknarleyfi dómsmálaráðuneytisins frá 14. september 2001 var stefnanda veitt gjafsókn vegna reksturs málsins fyrir héraðsdómi. Gjafsóknarkostnaður stefnanda, samtals 837.679 krónur greiðist úr ríkissjóði, þar með talin lögmannsþóknun Stefáns Geirs Þórissonar hrl. 700.000 krónur og útlagður kostnaður samkvæmt reikningum, samtals 137.679 krónur. Virðisaukaskattur er ekki innifalinn í lögmannsþóknun.

Með hliðsjón af öllum atvikum málsins þykir rétt að hvor málsaðili beri sinn kostnað af rekstri málsins.

Dóm þennan kveður upp Sigurður Tómas Magnússon héraðsdómari, ásamt meðdómsmönnunum Höskuldi Baldurssyni bæklunarskurðlækni og Ríkarði Sigfússyni bæklunarskurðlækni. 

D ó m s o r ð.

 Stefndi, Landspítali - Háskólasjúkrahús, skal vera sýkn af öllum kröfum stefnanda, Jakobs Ævars Helgasonar í máli þessu.

Málskostnaður fellur niður.

Gjafsóknarkostnaður stefnanda, samtals 837.679 krónur, greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun Stefáns Geirs Þórissonar hæstaréttarlögmanns 700.000 krónur.