Hæstiréttur íslands
Mál nr. 32/2007
Lykilorð
- Endurgreiðslukrafa
- Tómlæti
- Aðild
|
|
Fimmtudaginn 13. september 2007. |
|
Nr. 32/2007. |
Atli Örn Hilmarsson(Atli Gíslason hrl.) gegn Landsbanka Íslands hf. (Reinhold Kristjánsson hrl.) |
Endurgreiðslukrafa. Tómlæti. Aðild.
Vinnuveitandi A óskaði eftir því að bankinn L legði tiltekna fjárhæð launa inn á reikning A, en fyrir mistök var hærri fjárhæð lögð inn á reikninginn hinn 23. apríl 2002. Með bréfi 8. júní 2005 endurkrafði bankinn A um mismuninn ásamt dráttarvöxtum og innheimtukostnaði. Í dómi Hæstaréttar var vísað til þess að frá þeirri meginreglu að þeir sem fyrir mistök fá greidda peninga sem þeir eiga ekki rétt á skuli endurgreiða þá, yrði að gera undantekningar eftir því hver atvik væru að ofgreiðslunni og endurkröfu hennar. Í þessu tilviki væri um að ræða launagreiðslu til A og hefðu móttakendur launa ríka hagsmuni af því að launauppgjör væru endanleg. Þá hlyti vinnuveitandi A, þegar eftir að greiðslan fór fram, að hafa haft undir höndum upplýsingar um að mistök hefðu átt sér stað, en hann ekki gert athugasemdir við A. Þá var ekki talið sýnt fram á að A hefði mátt vera ljóst að ofgreitt hefði verið inn á reikning hans og jafnframt vísað til þess að meira en þrjú ár hefðu liðið frá því að mistökin áttu sér stað þar til bankinn gerði reka að því að endurkrefja A um fjárhæðina. Með hliðsjón af þessu öllu var A sýknaður af kröfu L.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson og Jón Steinar Gunnlaugsson og Hrafn Bragason fyrrverandi hæstaréttardómari.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 11. janúar 2007 að fengnu áfrýjunarleyfi. Hann krefst sýknu af kröfu stefnda. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Þann 23. apríl 2002 lagði stefndi 121.314 krónur inn á innlánsreikning áfrýjanda við bankann. Vinnuveitandi áfrýjanda á þeim tíma hafði með bréfi óskað eftir að stefndi legði 27.242 krónur inn á reikning áfrýjanda og 94.072 krónur inn á reikning annars starfsmanns síns. Tölurnar tvær voru tilgreindar í talnadálki í bréfinu og samtala þeirra 121.314 krónur einnig. Fyrir mistök starfsmanns stefnda var sú fjárhæð lögð inn á reikning áfrýjanda í stað þeirrar sem óskað hafði verið eftir. Var bankareikningur vinnuveitandans skuldfærður fyrir allri fjárhæðinni, sem lögð hafði verið inn á reikningana tvo, 215.386 krónum. Samkvæmt gögnum málsins óskaði vinnuveitandinn eftir því með bréfi til stefnda 7. október 2004 að fá endurgreitt það sem ofgreitt hafði verið til áfrýjanda. Varð stefndi við því og lagði 94.072 krónur inn á bankareikning vinnuveitandans 14. október 2004. Með bréfi til áfrýjanda 8. júní 2005 endurkrafði stefndi hann um fjárhæðina ásamt dráttarvöxtum og innheimtukostnaði. Stefndi svaraði með tölvubréfi 13. sama mánaðar og sagði kröfuna hafa komið sér á óvart. Kvaðst hann ekki vita betur en hann hefði unnið fyrir þeim launum sem hann hefði fengið greidd 23. apríl 2002. Í máli þessu endurkrefur stefndi áfrýjanda um hina ofgreiddu fjárhæð.
Lögskipti málsaðila áttu sér stað í gegnum bankareikning sem áfrýjandi hafði hjá stefnda. Engin rök eru því til að taka til greina málsástæðu áfrýjanda um að sýkna beri hann af kröfu stefnda vegna aðildarskorts samkvæmt 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Verður fallist á niðurstöðu hins áfrýjaða dóms um þetta.
Í íslenskum rétti gildir meginregla um að þeir sem fá fyrir mistök greidda peninga sem þeir eiga ekki rétt til skuli endurgreiða þá. Frá þessari reglu verður þó að gera undantekningar eftir því hver atvik eru að ofgreiðslunni og endurkröfu hennar. Í því tilviki sem hér um ræðir liggur fyrir að um var að ræða launagreiðslu til áfrýjanda sem stefndi hafði tekið að sér að annast fyrir vinnuveitanda hans með millifærslu inn á reikning áfrýjanda hjá stefnda. Móttakendur launa hafa ríka hagsmuni af því að launauppgjör séu endanleg, þar sem laun nýtast almennt til framfærslu og neysluþarfa. Jafnframt er ljóst að vinnuveitandi áfrýjanda annaðist útreikning launa hans og hlýtur, þegar eftir að greiðslan hafði átt sér stað, að hafa haft undir höndum upplýsingar um það sem aflaga hafði farið án þess að hafa gert athugasemdir við áfrýjanda. Í lögskiptum málsaðila ber stefndi þessa áhættu vinnuveitandans við launauppgjörið. Fyrir liggur, svo sem fram kemur í héraðsdómi, að áfrýjandi átti á árunum 2002 til 2005 í launadeilu við vinnuveitanda sinn sem fór fyrir dómstóla án þess að þar kæmi við sögu ágreiningur um ofgreiðslu þá sem um er fjallað í þessu máli. Stefndi hefur ekki sýnt fram á að áfrýjanda hafi mátt vera ljóst að hann hefði fengið of háa greiðslu inn á bankareikning sinn. Þá liðu meira en þrjú ár frá því umdeild fjárhæð var lögð inn á reikning áfrýjanda þar til stefndi gerði reka að því að endurkrefja hann um hana, en áfrýjandi verður að teljast hafa haft ríka hagsmuni af því að krafa um leiðréttingu kæmi tafarlaust fram. Með hliðsjón af þessu öllu verður áfrýjandi sýknaður af kröfu stefnda og honum dæmdur málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti svo sem greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Áfrýjandi, Atli Örn Hilmarsson, er sýkn af kröfu stefnda, Landsbanka Íslands hf.
Stefndi greiði áfrýjanda samtals 650.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 12. september 2006.
Mál þetta, sem dómtekið var 30. ágúst sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Landsbanka Íslands hf., Austurstræti 11, vegna Landsbanka Íslands, Laugavegi 77, Reykjavík, gegn Atla Erni Hilmarssyni, Drápuhlíð 34, með stefnu birtri 9. nóvember 2005.
Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til þess að greiða stefnanda skuld að fjárhæð 94.072 kr. ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 23. apríl 2002 til greiðsludags. Þá er krafist vaxtavaxta skv. 12. gr. sömu laga er leggist við höfuðstól á 12 mánaða fresti. Einnig er krafist málskostnaðar samkvæmt mati dómsins, auk virðisaukaskatts af málflutningsþóknun.
Dómkröfur stefnda eru þær að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda. Þá krefst stefndi þess að stefnanda verði gert að greiða stefnda málskostnað samkvæmt málskostnaðarreikningi.
Málsástæður og lagarök stefnanda
Stefnandi lýsir málsatvikum svo að PriceWaterHouseCoopers hf., hafi með bréfi, dags. 23. apríl 2002, til Landsbanka Íslands hf. óskað eftir því að bankinn millifærði af viðskiptareikningi J. & K. Petersen verktaka ehf. inn á launareikning tveggja starfsmanna J. & K. Petersen verktaka ehf. samkvæmt launaskilagrein fyrirtækisins er fylgdi með bréfi PriceWaterHouseCoopers hf. Vegna mistaka gjaldkera voru hinn 23. apríl 2002 lagðar inn á reikning nr. 2001 í banka nr. 0111, Austurbæjarútibú, 121.314 kr. í stað 27.242 kr. þannig að ofgreitt var inn á reikninginn 94.072 kr., en eigandi þess reiknings sé stefndi, Atli, sbr. strimil úr gjaldkeravél. Með bréfi til Landsbanka Íslands hf., dags. 7. október 2004, bað PriceWaterHouseCoopers hf. um að bankinn leiðrétti þessi mistök. Bankinn leiðrétti mistökin og skuldfærði af eigin reikningi til J. & K. Petersen 94.072 kr. hinn 14.10.2004. Stefnda var sent innheimtubréf hinn 8. júní 2005 og í bréfinu kemur fram að mistök hefðu átt sér stað af hálfu bankans hinn 23. apríl 2002 og stefndi hefði fengið ofgreiddar 94.072 kr. inn á reikning sinn. Þess var óskað að stefndi endurgreiddi bankanum 94.072 kr. Stefndi andmælti kröfunni og hefur stefnandi því höfðað mál þetta til greiðslu hennar. Kröfur um dráttarvexti, þ.m.t. vaxtavexti, styður stefnandi við reglur III. kafla laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 og 12. gr. sömu laga. Krafan um málskostnað er studd við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91 /1991 um meðferð einkamála. Krafa um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun er reist á lögum nr. 50/1988. Stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur og beri honum því nauðsyn til að fá dóm fyrir skatti þessum úr hendi stefnda. Varðandi varnarþing er vísað til 32. gr. laga nr. 91/1991.
Málsástæður og lagarök stefnda
Af hálfu stefnda er byggt á því að stefnandi sé ekki og geti ekki verið réttur aðili að málinu. Af þeim sökum og með vísan til 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, beri að sýkna stefnda vegna aðildarskorts. Samkvæmt framlögðu bankayfirliti stefnda hafi verið lögð inn á reikning stefnda laun frá J. & K. Petersen verktökum ehf. hinn 23. apríl 2002 að fjárhæð 121.314 kr. Krafa stefnanda á hendur stefnda byggir á því að stefnda hafi einungis borið að fá greiddar 27.242 kr. í laun og sé stefndi nú endurkrafinn um ofgreiðslu launa að fjárhæð 94.072 kr. Stefndi sé hvorki í samningssambandi við stefnanda né í skuld við hann. Svo virðist sem stefnandi, sem er sérfræðifyrirtæki á fjármálamarkaði, hafi verið viðskiptabanki fyrrum vinnuveitanda stefnda, J. & K. Petersen verktaka ehf. og sé endurkrafa stefnanda á hinum ofgreiddu launum rökstudd með því að stefnanda hafi orðið á mistök. Samnings- eða kröfusamband stefnanda og J. & K. Petersen verktaka ehf. sé stefnda með öllu óviðkomandi. Það varði stefnda einu af hvaða ástæðu hin ætlaða ofgreiðsla launa hafi átt sér stað. Mistök stefnanda breyti ekki eðli kröfunnar og þeirri staðreynd að sá eini sem geti hugsanlega hafa átt kröfu á hendur stefnda vegna endurheimtu ofgreiddra launa sé J. & K. Petersen verktakar ehf. Öllum kröfum vegna lögskipta stefnda og J. & K. Petersen ehf. vegna starfa og starfsloka stefnda hjá fyrirtækinu hafi lokið með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur uppkveðnum hinn 6. október 2005 í málinu nr. E-10621/2004: Atli Örn Hilmarsson gegn J. & K. Petersen verktökum ehf. Þeim dómi hafi ekki verið áfrýjað og hafi J. & K. Petersen ehf. greitt dómkröfuna. Af hálfu J. & K. Petersen verktaka ehf. var því aldrei borið við, eða þeirri málsástæðu teflt fram, að stefndi hafi fengið ofgreidd laun frá fyrirtækinu. Vitneskja um ætlaða ofgreiðslu launa hinn 23. apríl 2002 hafi stefnda fyrst borist með innheimtubréfi stefnanda, dags. 8. júní 2005.
Verði talið að stefnandi geti átt aðild að málinu sé auk framangreindra sjónarmiða á því byggt að ósannað sé að stefndi hafi fengið ofgreidd laun eða í það minnsta verði að líta svo á að J. & K. Petersen verktakar ehf. hafi samþykkt í verki gagnvart stefnda að laun til stefnda væru rétt. Hafi stefndi fengið ofgreidd laun þá sé ljóst að stefndi hafi ávallt verið í góðri trú um að hann væri að fá þau laun greidd sem honum bæri með réttu að fá þann tíma sem hann starfaði hjá J. & K. Petersen verktökum ehf. og eftir að störfum lauk, ef frá sé talin sú staðreynd að stefndi hafi leitað ítrekað eftir leiðréttingu launa sinna til hækkunar vegna vangreiddra launa á rauðum dögum og vegna ferða. Stefndi hafi verið við störf í Færeyjum og fengið laun sín greidd inn á bankareikning á Íslandi. Launaseðlar hafi ekki verið afhentir, heldur hafi þeir verið sendir á heimilisfang stefnda á Íslandi. Um kröfu stefnanda beri að fara samkvæmt meginreglum kröfuréttar um endurgreiðslu ofgreiddra launa. Enginn fyrirvari hafi verið gerður af hálfu J. & K. Petersen verktaka ehf. við starfslok stefnda og engum mótbárum í þessa veru hafi nokkurn tíma verið hreyft af hálfu fyrirtækisins. J. & K. Petersen verktökum ehf. hafi borið að hafa í frammi mótbárur án tafar. Ágreiningur vegna starfsloka og starfa stefnda hjá J. & K. Petersen verktökum hafi verið til lykta leiddur með nefndum dómi Héraðsdóms Reykjavíkur. Stefndi hafi verið í góðri trú og því sé hvorki um að ræða endurheimturétt af hálfu J. & K. Petersen verktaka ehf. né stefnanda, enda geti stefnandi ekki unnið betri rétt á hendur stefnda. Þá sé til þess að líta að jafnvel þótt talið yrði að fyrir hendi væri endurheimturéttur þá sé sá réttur fallinn niður sökum tómlætis. Krafa um endurgreiðslu ofgreiddra launa hafi fyrst verið sett fram gagnvart stefnda með innheimtubréfi stefnanda, dags. 8. júní 2005, sem borist hafi stefnda 13. júní 2005 eða rúmum 3 árum eftir greiðslu launanna.
Af hálfu stefnda er vísað til meginreglna kröfuréttar um endurheimtu ofgreidds fjár og ofgreiddra launa og meginreglna kröfu- og vinnuréttar um áhrif tómlætis. Enn fremur er vísað til stjórnunarréttar fyrrum vinnuveitanda stefnda og þess að fyrrum vinnuveitandi stefnda og stefnandi séu bókhaldsskyldir að lögum, m.a. að því er varðar sönnun og sönnunarbyrði. Um málskostnaðarkröfu sína vísar stefndi til 129. gr. og 130. gr. laga nr. 91/1001 og krafa um virðisaukaskatt styðst við lög nr. 50/1988.
Málatilbúnaði stefnanda sé að öðru leyti mótmælt, þ.m.t. kröfu hans um dráttarvexti og upphafstíma dráttarvaxta. Vakin sé athygli á því að svo kunni að vera að vísa verði máli þessu frá ex officio með vísan til ákvæða 1. sbr. 2. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991.
Niðurstaða
Stefnandi byggir sýknukröfu sína í fyrsta lagi á því að stefnandi geti ekki verið réttur aðili málsins, þar sem um sé að ræða kröfu um endurheimtu ofgreiddra launa af hálfu fyrrum vinnuveitanda stefnda, J. & K. Petersen verktökum ehf. Á þetta verður ekki fallist. Fyrir liggur samkvæmt gögnum máls að þess var óskað að Landsbankinn millifærði samtals 121.314 kr. inn á launareikninga tveggja starfsmanna fyrirtækisins J. & K. Petersen verktaka ehf. Þau mistök urðu hjá gjaldkera stefnanda varðandi umbeðna millifærslu að greiddar voru 121.314 kr. inn á reikning stefnda í stað 27.242 kr., eins og til stóð. Var þannig um ofgreiðslu að ræða að fjárhæð 94.072 kr. Þar sem hér var um augljós mistök að ræða af hálfu bankans, sem síðar voru leiðrétt, hefur endurgreiðslukrafan engin tengsl við vinnusamband stefnda og J. & K. Petersen verktaka ehf. Kröfu stefnda um sýknu vegna aðildarskorts er því hafnað. Samkvæmt því getur stefndi ekki heldur byggt á því að hann hafi verið í góðri trú um það að greiðsla þessi hafi verið réttmæt launagreiðsla til hans eða að J. & K. Petersen verktakar ehf. hafi í raun samþykkt að um væri að ræða rétt laun til hans. Þá verður ekki talið að stefndi hafi fyrirgert endurkröfurétti sínum á hendur stefnda sökum tómlætis, en til þess verður þó litið, við ákvörðun upphafstíma dráttarvaxta og málskostnaðar, að verulegur dráttur varð á innheimtu kröfunnar.
Samkvæmt framansögðu verður endurgreiðslukrafa stefnanda á hendur stefnda tekin til greina, en rétt þykir að málskostnaður verði felldur niður. Þá verða dráttarvextir dæmdir frá 8. júlí 2005, er mánuður var liðinn frá því að innheimtubréf stefnanda var sent, sbr. 3. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001.
Eggert Óskarsson héraðsdómari kvað upp dóm þennan.
D Ó M S O R Ð :
Stefndi, Atli Örn Hilmarsson, greiði stefnanda, Landsbanka Íslands hf., 94.072 kr. ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 8. júlí 2005 til greiðsludags.
Málskostnaður fellur niður.