Hæstiréttur íslands
Mál nr. 73/2013
Lykilorð
- Kærumál
- Dómkvaðning matsmanns
|
|
Föstudaginn 8. mars 2013. |
|
Nr. 73/2013.
|
Auðbjörg ehf. (Magnús Helgi Árnason hdl.) gegn LBI hf. (Pétur Örn Sverrisson hrl.) |
Kærumál. Dómkvaðning matsmanns.
A ehf. kærði úrskurð héraðsdóms þar sem hafnað var beiðni félagsins um dómkvaðningu matsmanna til þess að leggja mat á atriði sem snertu enskan árshlutareikning L hf. og afkomutilkynningu þess félags í tengslum við mál sem hið síðarnefnda félag hafði höfðað á hendur A ehf. Í dómi Hæstaréttar kom fram að gagnaöflun í málinu hefði ekki verið lýst lokið og að A ehf. hefði þegar í greinargerð sinni í héraði boðað að hann hygðist óska eftir dómkvaðningu matsmanna. Var ekki fallist á það með héraðsdómi að beiðni A ehf. um dómkvaðningu matsmanna væri svo seint fram komin. Þá var heldur ekki talið bersýnilegt að matsgerð yrði af öðrum ástæðum tilgangslaus til sönnunar, sbr. 3. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991, en af sönnunargildi hennar yrði A ehf. að bera áhættu samhliða kostnaði af öflun hennar. Var hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að dómkveðja tvo matsmenn til að framkvæma hið umbeðna mat.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Benedikt Bogason og Þorgeir Örlygsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 22. janúar 2013, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 1. og 8. febrúar sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 9. janúar 2013, þar sem kröfu sóknaraðila um dómkvaðningu matsmanna var hafnað. Kæruheimild er í c. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að lagt verði fyrir héraðsdómara að dómkveðja menn til að framkvæma hið umbeðna mat. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Eftir uppkvaðningu hins kærða úrskurðar var heiti varnaraðila breytt úr Landsbanka Íslands hf. í LBI hf.
Varnaraðili höfðaði mál þetta á hendur sóknaraðila 14. mars 2012 til greiðslu skuldar sem hann kveður til komna vegna fjölmargra og margs konar afleiðuviðskipta sóknaraðila við Landsbanka Íslands hf. allt frá árinu 2006. Málið var þingfest 15. mars 2012 og lagði sóknaraðili fram greinargerð sína 28. júní 2012. Gerði hann þar aðallega kröfu um frávísun máls, til vara sýknu en að því frágengnu krafðist hann lækkunar á kröfu varnaraðila. Boðaði hann jafnframt að hann myndi óska eftir dómkvaðningu matsmanna til sönnunar fyrir tilgreindum málsástæðum. Málið var því næst tekið fyrir 14. september 2012 og frestað til flutnings 8. október 2012 um frávísunarkröfu sóknaraðila. Með úrskurði 24. október 2012 var kröfunni hafnað. Að gengnum úrskurði var í þinghaldinu fært til bókar að dómari leitaði sátta án árangurs að svo stöddu, en lögmenn aðila myndu halda áfram sáttatilraunum ef ástæða væri til og var málinu frestað til 9. nóvember 2012. Í þinghaldi þann dag lagði lögmaður varnaraðila fram „skjalaskrá“ með tilgreindum gögnum og var málinu enn frestað til 29. nóvember 2012 svo sóknaraðili gæti kynnt sér framlögð skjöl. Í næsta þinghaldi 29. nóvember 2012 lagði sóknaraðili fram bókun þar sem meðal annars var farið fram á að varnaraðili legði fram á íslensku ársreikninga vegna 2007 og árshlutareikninga til loka júní 2008, en skjöl þessi höfðu áður verið lögð fram í málinu á ensku. Þá kom fram að hann gerði „ráð fyrir að leggja fram kröfu um dómkvaðningu matsmanna, sem leggja skuli mat á það er [sóknaraðili] fullyrðir í greinargerð um hagsmunaárekstur [varnaraðila og sóknaraðila] með vísan til 8. gr. laga 108/2007. Til þess að [sóknaraðili] geti lagt fram beiðni um dómkvaðningu íslenskra matsmanna eða að ekki sé gerð krafa um sérþekkingu matsmanna á framsettum enskum ársreikningum og árshlutareikningum, er þessi ósk sett fram, en að mati [sóknaraðila] er varla vafi á því að ársreikningur og árshlutareikningur sé til í vörslum [varnaraðila] á íslensku.“ Áskildi lögmaður varnaraðila sér rétt til að mótmæla gagnaframlagningu sóknaraðila, en lagði jafnframt fram nýja skjalaskrá með tilgreindum gögnum. Aðilar óskuðu sameiginlega eftir fresti til gagnaöflunar og var hann veittur til 20. desember 2012. Í þinghaldi þann dag lagði sóknaraðili fram hina umþrættu beiðni um dómkvaðningu matsmanna og varnaraðili lét bóka mótmæli við beiðninni og var þess jafnframt getið að framangreindur ársreikningur 2007 hefði þegar verið lagður fram á íslensku, en varnaraðili hefði ekki í vörslum sínum árshlutareikning 2008 á íslensku. Gekk hinn kærði úrskurður í kjölfarið 9. janúar 2013 svo sem áður er komið fram.
Eins og að framan greinir varðar mál þetta fjölmarga afleiðusamninga og hafa málsaðilar báðir lagt fram skjöl í öllum þinghöldum eftir að úrskurður gekk um höfnun á kröfu sóknaraðila um frávísun máls. Þá hefur gagnaöflun ekki verið lýst lokið en sóknaraðili boðaði þegar í greinargerð sinni í héraði að hann hygðist óska eftir dómkvaðningu matsmanna til stuðnings tilgreindum málsástæðum sínum. Ekki verður séð að beiðni sóknaraðila um dómkvaðningu matsmanna varði það að framangreindur árshlutareikningur sé á ensku, þannig að matsgerð skuli lúta að þýðingu þess skjals. Af því sem að framan er rakið um meðferð málsins verður ekki fallist á með héraðsdómi að beiðni sóknaraðila um dómkvaðningu matsmanna sé svo seint fram komin. Þá verður heldur ekki talið bersýnilegt að matsgerð verði af öðrum ástæðum tilgangslaus til sönnunar, sbr. 3. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991, en af sönnunargildi matsgerðarinnar verður sóknaraðili að bera áhættu samhliða kostnaði af öflun hennar. Af þessum sökum verður hinn kærði úrskurður felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að dómkveðja tvo matsmenn til að framkvæma umbeðið.
Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að dómkveðja tvo menn til að framkvæma umbeðið mat.
Kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 9. janúar 2012.
Mál þetta er höfðað 17. febrúar 2012 og þingfest 23. sama mánaðar. Stefnandi er Landsbanki Íslands hf., Austurstræti 16, Reykjavík. Stefndi er Auðbjörg ehf., Hafraskeiði 19, Þorlákshöfn. Við fyrirtöku málsins 20. desember sl. lagði stefndi fram beiðni um dómkvaðningu matsmanna. Af hálfu stefnanda var dómkvaðningu matsmanna mótmælt. Var þessi ágreiningur aðila tekinn til úrskurðar eftir að lögmönnum hafði verið gefinn kostur á munnlegum athugasemdum.
Með úrskurði 24. október sl. var aðalkröfu stefnda um frávísun málsins vegna vanreifunar hafnað og málinu frestað til gagnaöflunar stefnanda til 9. nóvember sl. Við þá fyrirtöku málsins var málinu frestað að beiðni stefnda til 29. nóvember sl. Við fyrirtöku málsins þennan dag var málin enn frestað, nú til sameiginlegrar gagnaöflunar aðila, til 20. desember sl. Eins og áður greinir lagði stefndi fram beiðni sína um dómkvaðningu matsmanna þann dag.
Í málinu gerir stefnandi, sem er fjármálafyrirtæki í slitameðferð samkvæmt ákvæðum laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, kröfur á grundvelli fimm afleiðusamninga um skipti á fjárhæðum í ólíkum gjaldmiðlum, einnig nefndir gjaldmiðlaskiptasamningar í gögnum málsins. Í lýsingu málsatvika í stefnu segir að málsaðilar hafi átt í margskonar viðskiptum, þar á meðal afleiðuviðskiptum, um árabil. Frá 2006 hafi aðilar gert sín á milli hundruða afleiðusamninga sambærilega þeim sem stefnandi innheimti með málsókn sinni. Þá segir að þeir samningar sem stefnandi byggi á í málinu séu framlengingar á fyrri afleiðusamningum sem aðilar gerðu og voru í tapi fyrir stefnda. Því er lýst í stefnu hvernig samningarnir komust á og vísað til tölvupósta þar sem stefnandi telur að fram hafi komið staðfestingar á samningum. Fram kemur að stefndi hafi undirritað staðfestingar eða ekki gert athugasemdir þegar kominn var á samningur.
Í efnisþætti málsins krefst stefndi sýknu, en til vara lækkunar og til þrautavara hefur hann uppi tilteknar kröfu vegna útreiknings vaxta. Stefndi byggir aðalkröfu sína á fleiri málsástæðum, einkum þeim að ekki hafi verið gætt reglna í almennum skilmálum stefnanda við gerð framangreindra samninga og starfsmönnum stefnanda hafi verið ljóst, eða átt að vera ljóst, að sá starfsmaður stefnda sem gerði samningana hefði ekki umboð til að til þess a skuldbinda stefnda. Stefndi vísar einnig til tómlætissjónarmiða við innheimtu krafnanna og þess að skilyrði skuldajafnaðar hafi ekki verið fyrir hendi. Þá reisir stefndi málatilbúnað sinn á því að stefndi eigi skaðabótakröfu gegn stefnanda sem sé a.m.k. jafnhá stefnukröfunni. Að mati stefnda voru þeir gerningar sem stefnandi byggir á stofnaðir með saknæmum og ólögmætum hætti af starfsmönnum stefnanda sem hann beri á ábyrgð á. Bankinn hafi átt andstæðra hagsmuna að gæta við stefnda á þeim tíma sem hér um ræddi þar sem hann hafi safnað upp eignum í erlendri mynt. Gengisfall íslensku krónunnar hafi þannig fært stefnda gengishagnað og hafi þessi hagnaður borið uppi rekstur bankans í 20 mánuði fyrir fall hans. Þessari málsástæðu til stuðnings vísar stefndi ákvæða í svonefndum MiFID tilskipunum Evrópusambandsins nr. 2004/39 og 2006/73 og fyrirmæla í lögum nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti. Sýknu er enn fremur krafist með vísan til þess að stefnandi hafi ekki fullnægt kröfur um lágmarks eiginfjárgrunn fjármálafyrirtækis og því ekki átt að hafa starfsleyfi. Áskilur stefndi sér rétt til að óska eftir dómkvaðningu matsmanna um þetta atriði í greinargerð sinni. Að lokum vísar stefndi til þess að skilyrðum um stofnun samninga sé með ýmsum hætti ekki fullnægt um þá gerninga sem áður ræðir. Krafa stefnda um lækkun byggir einkum á 36. gr. laga nr. 7/1936 um stofnun samninga, umboð og ógilda löggerninga, sbr. 6. gr. laga nr. 11/1986. Þessu til stuðnings vísar stefnandi til upplýsinga um að starfsemi stefnanda hafi með ýmsum hætti verið refsiferð og/eða brotið gegn lögum.
Í áðurgreindri beiðni stefnda um dómkvaðningu matsmanna er óskað eftir því, með vísan til 61. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, að dómkvaddir verði tveir hæfir og óvilhallir matsmenn, sem þekkingu hafa á því að skýra enskan árshlutareikning stefnanda fyrir fyrri hluta ársins 2008, sem lagður hefur verið fram í málinu, og afkomutilkynningu hans 29. júlí 2008. Óskað er eftir því að matsmönnum verði falið að leggja á það mat, með skoðun á umræddum árshlutareikningi stefnanda, hvaða áhrif gengi íslensku krónunnar hafði á þróun stærðar efnahags- og rekstrarreiknings stefnanda á umræddu tímabili. Þá er óskað eftir því að matsmönnum verði falið að leggja mat á það hverjar séu aðrar rekstrartekjur stefnanda samkvæmt áðurgreindri afkomutilkynningu, en aðrar rekstrartekjur aukist um 116% frá sama tímabili 2007 tilkynningunni. Í matsbeiðni er vísað til þess að stefnandi hafi aukið verulega stöðu í erlendum gjaldeyri á árinu 2008 og gengi íslensku krónunnar hafi haft veruleg áhrif á stöðu hans. Er í þessu sambandi vitnað í hagnaðartölu sem fram koma í nefndum árshlutareikningi. Stefndi lýsir tilgangi matsins svo að leitast sé við að færa sönnur á að um alvarlegan hagsmunaárekstur hjá stefnanda hafi verið að ræða. Einnig sé mats krafist í þeim tilgangi að stefnandi hafi í raun verið gjaldþrota ef ekki hefðu komið til tekjur af gengishagnaði. Því hafi stefnandi leitast við að fá aðila til gjaldeyrisviðskipta þar sem gagnaðili stefnanda tók stöðu með íslensku krónunni. Stefndi vekur einnig athygli á því að áðurgreindur árshlutareikningur hafi ekki verið lagður fram á íslensku.
Stefnandi byggir mótmæli sín við matsbeiðni stefnda á því að hún sé óskýr, þýðingarlaus og of seint fram komin.
Niðurstaða
Í máli þessu liggur fyrir árshlutareikningur stefnanda fyrir fyrri hluta ársins 2008 og afkomutilkynning hans 29. júlí 2008. Af hálfu stefnda hefur verið bent á að umræddur árshlutareikningur sé á ensku og hafi þýðing hans ekki verið lögð fram. Í 10. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála er að finna ákvæði um hvernig fara skuli fara með skjöl sem ekki eru á íslensku. Verður sú ályktun dregin af þessum ákvæðum að erlent tungumál skjals gefi, eitt og sér, ekki tilefni til matsgerðar samkvæmt IX. kafla laga nr. 91/1991.
Eins og áður greinir var kröfu stefnda um frávísun málsins hafnað með úrskurði dómara 20. október sl. Málið var tekið fyrir tvívegis eftir uppkvaðningu þessa úrskurðar án þess að stefndi legði fram beiðni um dómkvaðningu matsmanna. Við fyrirtöku málsins 9. og 29. nóvember sl. komu ekki fram ný gögn af hálfu stefnanda sem gáfu stefnda tilefni til þeirrar beiðni um dómkvaðningar matsmanna sem nú hefur verið lögð fram. Er sú öflun gagna sem stefndi óskar nú eftir, með beiðni sinni um dómkvaðningu matsmanna, því andstæð fyrirmælum 1. og 2. mgr. 102. gr. laga nr. 91/1991 sem og meginreglu 5. mgr. 101. gr. laganna. Með hliðsjón af mótmælum stefnanda eru þau gögn sem stefndi hyggst afla með beiðni sinni um dómkvaðningu matsmanna þannig fyrirsjáanlega tilgangslaus til sönnunarfærslu í málinu, sbr. 3. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991. Verður beiðni stefnda um dómkvaðningu matsmanna því hafnað.
Skúli Magnússon héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Beiðni stefnda, Auðbjargar ehf., um dómkvaðningu matsmanna 20. desember 2012, er hafnað.