Hæstiréttur íslands
Nr. 2020-17
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Orlof
- Uppsagnarfrestur
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Karl Axelsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Með beiðni 9. janúar 2020 leitar 365 hf. eftir leyfi Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 13. desember 2019 í málinu nr. 912/2018: 365 hf. gegn Petreu Ingileif Guðmundsdóttur, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Petrea Ingileif Guðmundsdóttir leggst gegn beiðninni.
Mál þetta lýtur að kröfu gagnaðila um að leyfisbeiðanda verði gert að greiða sér 2.275.924 krónur auk dráttarvaxta vegna 30 daga orlofsréttar sem gagnaðili hafði áunnið sér vegna orlofsársins 2015-2016. Ágreiningur aðila snýr að því hvort leyfisbeiðandi hafi einhliða mátt ákveða að orlofið félli innan sex mánaða uppsagnarfrests gagnaðila. Í dómi Landsréttar var staðfest niðurstaða héraðsdóms um að leyfisbeiðanda hafi ekki verið heimilt án samþykkis gagnaðila að ráðstafa áunnum orlofsrétti þannig að hann félli innan uppsagnarfrestsins. Leyfisbeiðanda hafi borið að greiða gagnaðila orlofslaun við lok ráðningartímans.
Leyfisbeiðandi byggir á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi, auk þess sem að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til. Þannig hafi Landsréttur ekki rökstutt þá niðurstöðu að gagnaðili hafi átt rétt til að nýta sér orlofsrétt sinn allt til 30. apríl 2017. Niðurstaða Landsréttar feli ekki annað í sér en að gagnaðili hafi fengið lengdan uppsagnarfrest sem nam 30 dögum. Þá telur leyfisbeiðandi að dómur Hæstaréttar í málinu geti haft fordæmisgildi um tengsl orlofs og uppsagnarfrests.
Að virtum gögnum málsins er ekki unnt að líta svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi umfram dómsúrlausnir sem áður hafa gengið um sambærileg efni í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Er beiðninni því hafnað.